Þráviðristilbreyting (varla - en þó)

Breytingar í veðri frá degi til dags eru ekki stórvægilegar um þessar mundir. Þó er alltaf eitthvað á seyði ef vel er að gáð. Fyrst skulum við líta á veðurspá fyrir Grænland, en þar á eftir líta stuttlega á gamalt dæmi um veður.

Nokkuð snarpt lægðardrag sækir nú að austurströnd Grænlands vestur af Íslandi. Það er nokkuð áberandi í háloftunum, en gætir heldur minna við yfirborð. Það er athyglisvert hvernig spár taka á því. Gert er ráð fyrir gríðarmikilli úrkomu yfir háfjöllum næstu tvo daga.

w-blogg020221a

Kortið sýnir uppsafnaða úrkomu næstu daga (í mm). Spáð er að hún verði yfir 300 mm þar sem mest er. Lægðardragið verður nærri því kyrrstætt. Það er líka skrýtið að sjá hina miklu úrkomu sem spáð er yfir Mýrdalsjökli og Öræfajökli - en sáralítilli á láglendi. Hvort rétt er að trúa þessu veit ritstjórinn ekki. Það er talsvert vandamál að austantil í lægðardraginu er líka töluverð úrkoma - en aðeins á örmjóu belti. Blái flekkurinn vestur af landinu sýnir að þetta belti skakast til og frá og þessi spá gerir ráð fyrir því að úrkoman nái til ysta hluta Snæfellsness á aðfaranótt föstudags. Sumar spár hafa jafnvel sent það lengra inn á land. Gerist það mun snjóa talsvert - áhugamenn um snjó fylgjast því með næstu daga - hvort sem þeir eru hlynntir honum eða ekki. Þegar upp er staðið verður stunið - annað hvort af feginleik - eða vonbrigðum - á báða bóga. 

Þetta vakti gamlar minningar (eða þannig). Einhvern tíma fyrir löngu heyrði ritstjórinn af misjafnri snjókomu í Borgarfirði - ekkert eða nánast ekkert snjóaði vestan einhverrar línu um héraðið vestanvert - en mikið austan hennar. Líkur benda til þess að þetta hafi gerst þann 8.febrúar 1947. 

Janúarmánuður það ár var fádæma hlýr, efstur eða næstefstur í janúarhlýindakeppni síðustu 200 ára ásamt nafna sínum hundrað árum áður, 1847. En tíð breyttist mjög með febrúar. Þá tók við langur landnyrðingskafli - sá stóð reyndar þar til snemma í apríl - mikið þráviðri bæði hér á landi og á meginlandi Evrópu þar sem menn bjuggu við sult og seyru svo við þjóðfélagshruni lá - ofan í heimsstyrjöldina sem lagt hafði flest á hliðina - þar á meðal matvælaskapandi landbúnað. Hreinlega ömurlegt ástand. 

En þráviðrið var ekki alveg tilbreytingarlaust hér á landi. Þann 8. gróf einkennilegt lægðardrag um sig við landið suðvestan- og vestanvert.

w-blogg020221b

Hér má sjá veðurkort frá því kl.11 þennan dag. Eindregin sunnanátt er á Stórhöfða en annars austan- og norðaustanátt á landinu. Það snjóar mjög víða - en mjög mismikið. Vestur í Stykkishólmi snjóaði nærri því ekki neitt, um 15 cm snjór kom í Reykjavík og á Síðumúla í Hvítársíðu mældist úrkoman samtala rúmir 30 mm - sem allt var snjór - en nær ekkert snjóaði að sögn vestur á Mýrum. 

Ingibjörg Guðmundsdóttir athugunarmaður í Síðmúla lýsir tíðarfari í febrúar og mars:

Febrúar 1947
Nú er vetrarríki. Mikill snjór. Mjög litlir hagar. Öllum hrossum gefið. Það er frost og kuldi daglega, en glampandi sól og fagurt veður, oft nokkuð hvasst. Við, sem vindrafstöð höfum, köllum að sé góður hleðsluvindur og höfum þá yndislega björt rafljós,þá við vildum láta þau loga allan sólarhringinn.

Marz 1947
Í Marzmánuði var veðrátta yfirleitt góð, en snjór svo mikill, að varla er um jörðina fært. Alla mjólk verður að flytja á klökkum óravegu þaðan, sem lengst er, þangað sem bíllinn kemst. Vegarútur halda aðalbílleiðunum færum, og mörgum sinnum hafa þær verið settar á dalavegina, en brátt hefir skafið í förin hennar aftur og allt ófært á ný. Hagar eru mjög litlir. Öll hross eru á gjöf.

Nær snjólaust var í Stykkishólmi - eins og áður sagði, en á Hamraendum í Miðdölum varð snjódýpt 40 cm. Einnig var mikil úrkoma á Þingvöllum og Írafossi - en mun minni austur í Hreppum. Töluverð úrkoma ver í Vestmannaeyjum, en bæði snjór og krapi, snjódýpt þar mældust 10 cm þegar mest var. 

Það sem olli þessu var veðurlag ekki óskylt því sem við fjölluðum hér um fyrir nokkrum dögum (febrúarbylurinn 1940) - þetta þó ekki jafn illkynja - ekki varð eins hvasst. 

Veðurkort bandarísku endurgreiningarinnar er svona:

w-blogg020221c

Mikil lægð er suðvestur af Bretlandseyjum, en hæð yfir Grænlandi. Milli þeirra er austanátt - norðaustlæg vestan Íslands - en sjá má lægðardrag við Vesturland. Greiningin nær styrk þess ekki alveg, en samt sjáum við vel hvað er á seyði. 

Uppi í háloftunum er hálfgerð áttleysa - eða væg suðvestanátt.

w-blogg020221d

Öflug fyrirstöðuhæð er við Baffinsland - en grunnt lægðardrag á Grænlandssundi. Þetta er dæmigerð óvissustaða. 

Því er þetta rifjað upp hér að við sitjum nú í svipuðu - bæði gagnvart lægðardraginu sem nú er að verða til á Grænlandshafi (kannski sleppum við alveg við það) - en einnig vegna þess að staðan á lítið að breytast næstu vikuna - sé að marka spár. Varla þarf að taka fram að árið 1947 var enn erfiðara fyrir veðurspámenn að eiga við stöðu af þessu tagi heldur en nú. 

Snjókoman varð hvað mest upp úr miðjum laugardeginum 8. febrúar. Klukkan 22 kvöldið áður hljóðaði veðurspáin svo: „Suðvesturland og Faxaflói: Norðaustan stinningskaldi. Léttskýjað“. Klukkan 23 barst fregn um að farið væri að snjóa á Stórhöfða í Vestmannaeyjum. Spáin á miðnætti breyttist því lítillega og hljóðaði svo: „Suðvesturland: Norðaustan- og austan kaldi. Dálítil snjókoma austantil, léttskýjað vestantil. Faxaflói og Breiðafjörður. Norðaustan kaldi. Víðast léttskýjað“. Klukkan 3:30 var sama spá lesin. Klukkan 8 var ekki farið að snjóa í Reykjavík, gerði það skömmu síðar. Kl.8:55 var eftirfarandi spá lesin: „Suðvesturland til Vestfjarða. Norðaustan og austan kaldi. Sumstaðar dálítil snjókoma“. Síðan var talað um dálitla snjókomu það sem eftir lifði dags - þar til kl.22 - þá var skipt yfir í „snjókoma“ (enda hætt að snjóa að mestu). Við skulum hafa í huga að engar tölvuspár var að hafa, engar gervihnattaathuganir eða veðursjár og veðurskeytastöðvar fáar - og sárafáar að næturlagi. Veðurfræðingar þurftu nokkuð harðan skráp til að éta ofan í sig allar vitlausu veðurspárnar - sem voru mun fleiri en nú. Aftur á móti sluppu þeir við langtímaspár - gildistími var aðeins sólarhringur. 

En mjög óvæntur hlutur annar gerðist (mjög óvæntur). Blaðafregnin hér að neðan sýnir hann - laugardagurinn sem átt er við er þessi sami.

w-blogg020221e

Harla óvænt - og sýnir að þrátt fyrir allt hefur verið töluverður munur á bylnum 1940 og því veðri sem hér er fjallað um. 

Að lokum skulum við minnast kyndilmessu sem var í dag. Vísan alkunna um sól og snjó er auðvitað bull - þannig séð - enda er kyndilmessa hengd við jólin í tímatalinu (hreinsunarhátíð Maríu). Þess vegna var hún líka 2.febrúar í gamla stíl - og því á öðrum stað miðað við sólargang - það er frekar hann sem ræður veðri (ef merkidagar segja eitthvað á annað borð) - en ekki kirkjuárið. Kyndilmessa var nær miðjum vetri í gamla stíl - samkvæmt íslenska tímatalinu - þetta er í grunninn miðsvetrarhátíð - svipað og bóndagurinn. Kannski er átrúnaðurinn á daginn eldri en kristni? En öll Evrópa lítur til kyndilmessunnar - og ameríka líka (þeir kalla hana að vísu stundum „groundhog day“. 

Sækja má almennan fróðleik um kyndilmessu í rit Árna Björnssonar og verður ekki um bætt hér - m.a. með tilvitnun í latneskan „spátexta“. Ritstjórinn rakst á dögunum á annan slíkan - og má ljúka þessu með honum:

„Si Sol splendescat Maria purificante, major erit glacies post festum quam fuit ante“. Skíni sól á hreinsunarhátíð Maríu (kyndilmessu) verður meiri ís eftir hátíð en fyrir hana. Thomas Browne [Pseudodoxia, Sixth Book, Chap.IV, 1672]

Æ-já. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 5
  • Sl. sólarhring: 155
  • Sl. viku: 1754
  • Frá upphafi: 2348632

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 1535
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband