Af árinu 1836

Harðindi héldu áfram á árinu 1836, það varð enn kaldara en árið á undan en sunnlendingar sluppu betur með heyskapinn. Meðalhiti í Reykjavík var ekki nema 2,3 stig og er þetta eitt af köldustu árum sem vitað er um þar. Áætlaður meðalhiti í Stykkishólmi var 1,5 stig, sá lægsti síðan 1812 (en höfum mikla óvissu í huga) og jafnkalt eða kaldara varð ekki aftur fyrr en 1859. Mælingar voru líka gerðar á Akranesi þetta ár og staðfesta þær hinar lágu tölur. Sömuleiðis mældi Sveinn Pálsson hita í Vík í Mýrdal og þar var einnig mjög kalt, en meðaltöl hafa ekki enn verið reiknuð (marga daga vantar í mælingar). Febrúar, apríl og nóvember voru sérlega kaldir. Hiti telst í meðallagi í maí og júlí - en við vitum lítið um hitafar norðanlands þetta sumar. Svo virðist sem Bjarni Thorarenssen amtmaður á Möðruvöllum hafi mælt hita, en þær mælingar hafa ekki fundist enn (hvað sem síðar verður). 

arid_1836t 

Tuttugu og sex dagar voru mjög kaldir í Reykjavík (listi í viðhengi), flestir í apríl og ágúst. Að tiltölu var kaldast 8.apríl og 22.ágúst. Frostið fór mest í -17,5 stig þann 17.febrúar. Tveir dagar voru mjög hlýir í Reykjavík, 30.júní og 2.júlí og náði hiti sjö sinnum 20 stigum, hæst 22,5 þann 30.júní og 2.júlí. Dagbækur úr Eyjafirði nefna éljaleiðingar 2.júlí þegar hvað hlýjast var syðra. 

Árið í heild var fremur þurrt í Reykjavík. Úrkoman mældist 653 mm. Desember var úrkomumestur, en júní langþurrastur, þá mældist úrkoman aðeins 9 mm. 

Loftþrýstingur var mjög lágur í mars, júlí og ágúst, en fremur hár í september og desember. Lægsti þrýstingur ársins mældist í Reykjavík 964,2 hPa þann 28.nóvember, en hæstur á Þorláksmessu, 23.desember, 1048,9 hPa. Þrýstiórói var óvenjumikill í ágúst en óvenjulítill í mars og nóvember. 

Hér að neðan eru helstu prentaðar heimildir um árið teknar saman, stafsetning er að mestu færð til nútímahorfs. Fáeinar ágætar veðurdagbækur eru til sem lýsa veðri frá degi til dags, en mjög erfitt er að lesa þær.

Við byrjum á ársyfirliti Fjölnis (3.árgangur, 4-6 og 14-17):

Eftirmæli ársins 1836 eins og það var á Íslandi: Þegar árið 1836 fer að fyrnast, og lítið fer á því að bera í hinni löngu röð umliðnu tímanna: mun því, að ætlun vorri, jafnlengst verða haft til einkennis — að það hafi mjög að oss kreppt, og, ef til vill, að úr vandræðum vorum hafi ráðist betur, enn efni stóðu til. Það var frá upphafi til enda hart og misfellasamt, og þó það kæmi ekki alls kostar jafnt yfir allt landið, veitti víðast fullörðugt, að fá því varist, svo óblíða þess yrði ekki að meini. Ár þetta fór í mörgu líkt að, og árið á undan: fyrst gekk á harðindum frá upphafi þess fram að sumarmálum; þá komu vorkuldar, og leiddi af þeim gróðurleysi og grasbrest; á heyskapnum varð nýtingin misjöfn, en haustið miklu harðara en hitt árið, einkum sunnanlands; sjávarafli var með minna móti. Síðasti hluti ársins 1835 hafði verið hægur allstaðar. Fyrir norðan varð að sönnu með fyrsta móti að taka kýr á gjöf, af því að íhlaup gjörði um göngurnar, ofarlega í september-mánuði, svo að ekki tók upp algjörlega þaðan í frá; en þó komst útifénaður af gjafarlítið og nokkurn veginn óhrakinn, fram að árslokunum. Sunnanlands var á meðan sífellt góðviðri, og allur útipeningur var í haustholdum við árslokin. Enn eftir nýárið 1836 tók að harðna, og þó mest eftir miðjan vetur. Hafísinn var að flækjast fyrir norðan landið allan veturinn, enn fór hvorki mjög inn á víkur og firði, né lá lengi um kyrrt. Frostin voru sjaldan grimm, og óvíða fjarska snjóþungt. Lék oftast á útsynningum eða landnyrðings-þræsingi, og þess á milli hreinum norðankuldum og kaföldum. Blotar eða hlákur komu sjaldan, svo ísar lágu víðast á vötnum þar til vika var af sumri, eður meir; enn alltaf var illt til haga. Gekk fénaður því undan sárilla til reika, eða féll með öllu, þar sem hann naut ekki gjafar öðru hverju þrjá seinustu vetrarmánuðina. Kannast norðlendingar við, að komið hafi að góðu haldi ráðstöfun amtmanns þeirra, sú er í firra var getið; því allir gátu þeir mætt meðalvetri, og hvergi varð af fellinum, þar sem henni var hlýtt. En þær sveitirnar, er tregðuðust við að þekkjast þá ráðstöfun, sem amtmaður hafði gjört — sem að sönnu voru ekki margar í norðurumdæminu — og þó einkum Suðurmúlasýsla, urðu fyrir miklum fjármissi vegna harðindanna. Svo mætti sunnlendingum víða um sveitir vera minnilegt þetta vor, að ekki dyldust þeir við, hver nauðsyn þeim er á viðlíka ráðstöfun og fyrir norðan. Trauðla munu menn hafa munað þvílík vandræði, sem þar var komið í um allan sunnlendingafjórðung að kalla mátti. Það er til dæmis um, hversu viturlega hafi stofnað verið, að í einni heyskapar-sveitinni í Rangárvallasýslu, sem þar að auki er sveita minnst — Útlandeyjunum — voru í góulok 24 kýr bjargþrota; enn um sumarmál munu það ekki ýkjur, að þriðji hver búandi hafi verið heylaus um alla sýslu; lá þá ekki annað við, en fara að skera kýrnar, eður leita á náðir annarra; þótti sá vel hafa veitt, sem komist gat yfir klyfjar af kúgjæfu heyi fyrir spesíu, og kýrverðið, sem eftir þrjár vikur eða mánuð átti í vændum að verða 12 eða 16 spesíur, var þá orðið þetta 3 og 4; líka var dæmi til, að gefin væri kú með kú, þó ekki væri eftir meir en mánuður af gjafartímanum; enn ekki var kallað áhorfsmál, að beita kúnum út á sinuna, jafn-ótt og jörðina leysti undan klakanum, hvenær sem gott var veður. Varla mun að heldur nein kú hafa fallið eða verið skorin um alla sýsluna, og mjög fátt af öðrum fénaði; er það til marks um, hvað vel menn hafa orðið við þörfinni. Skaftafellssýslu sér í lagi Mýrdalssveitinni, þar farga varð fjölda kúa á útmánuðum — reiddi miklu verr af, en Rangárvallasýslu og Árnessýslu; þó varð það til lífs í Skaftafellssýslunni, að þar voru slíkir heyjamenn á sumum stöðum, sem færir voru um að taka heilar sveitir á garð sinn, þegar á fór að herða. Þetta hið síðasta sumar (1836) var í mörgu áþekkt hinu fyrra sumrinu: grasvöxtur sumstaðar dálitlu betri og aftur annarstaðar jafn-lakari, vegna vorkuldanna, sem ennþá gengu. Nýtingin varð ekki heldur sem ákjósanlegust, og þó miklu betri enn grasvöxturinn; þeir, sem snemma fóru að slá á Suðurlandi, voru búnir að ná helmingi af töðum sínum, þegar gjörði rosa í 3 vikur (20 daga framan af ágústmánuði), svo varla náðist baggi í garð. Þá komu aftur, hálfsmánaðar tíma (þangað til 4. dag september) bestu þerrar, og þá aftur feikna rosi síðasta hluta sláttarins — svo hann varð heldur endasleppur; þó að það, er úti var, næðist um síðir, áður en fyrstu frostin komu um réttirnar. Það er ein af hinum miklu óvenjum, er gangast við um Suðurland, sér í lagi í heyskaparsveitunum góðu, að svo lengi er dregið að fara að slá; kemur það af fastheldni við gamla vanann og hlífð manna við sjálfa sig — svo að erfiðistíminn verði ekki of langur; og af því, að þeim, sem vanir eru góðum slægjum, þykir ekki mega leggja sig niður við jörðina, er ekki verður slegið á marga hesta á dag. [...]

Nyrðra féll heyskapurinn miklu báglegar, en fyrir sunnan, og var hann þar með örðugasta móti: því bæði fékk grasvöxturinn hvað eftir annað hnekki af íhlaupum, og þó varð nýtingin enn bágari. Meðan fyrri rosinn var fyrir sunnan (20 dagana framan af ágúst), voru þar að vísu heyþurrkar; enn tvö ofsaveður af suðri, sem gjörði meðan töður manna lágu á túnum, ollu þar víða miklum heyskaða, enda á því sem í garða var komið. Þó tók yfir kaflinn frá 20. degi ágúst til 3. dags september, meðan þurrkarnir voru aftur fyrir sunnan og norðankuldarnir. Þá gjörði tvö áfelli svo mikil (20. og 21. dag ágústmánaðar, og 3 fyrstu dagana af september), að tók fyrir heyskap, vegna bylja og fannfergju — allstaðar nokkra daga, en sumstaðar allt að því 3 vikur; varð þá snjórinn svo mikill, að sæti sumstaðar varla tók upp úr á jafnsléttunni; þá varð að taka kýr á gjöf, og sækja fé á afrétt, þar sem komist varð, svo það fennti ekki. Þegar leið fram í september, fór veðráttan heldur að skána, og voru þá leysingar, sem á vordag. Af öllu þessu varð heyskapur nyrðra með langaumasta móti, svo farga varð enn flestöllum lömbum. [...]

[17] Haustið var ekki heldur langt í þetta sinn. þegar um réttir hljóp í með frost, sem að sönnu linaði aftur undir veturnæturnar. Enn úr því leið af veturnóttum og allt fram til árslokanna, voru oftast nær fullkomin vetrarharðindi; var sjaldan auð jörð — eður hreint til haga, ýmist blotar og hlákur, hafviðri og útsynningar, eða fjúkburður og norðanfrost. Var því útipeningur mjög farinn að holdum, þar sem honum hafði ekki verið gefið, og, eins og vetrarfarið sjálft, harla ólíkur því, sem hina næstu vetur að undanförnu.

Sunnanpósturinn segir frá tíðarfari ársins fram til 20.ágúst: [1836 9. bls.129)

Af árferði Íslands síðan yfirstandandi ár byrjaði og til þess 20. ágúst, er það að segja, að svo miklu leyti sem frést hefur, að vetur lagðist fyrst að með þorra; sumstaðar fyrri. Jarðbönn urðu allvíðast meiri partinn úr því og fram yfir sumarmál. Veðráttan var stirð og stormasöm en ekki var frostið ákaflegt, aldrei yfir 16° (gráður) og mjög sjaldan svo mikið hér á Suðurlandi. Þó heyföng væru víða lítil, og ekki betri að gæðum heldur en að vöxtum, fór það svo, að fáir urðu fyrir fjármissi. Var það því að þakka að miklum peningi hafði verið lógað næstliðið haust, og nokkru þegar komið var langt fram á vetur; og líka því, að þeir sem voru byrgir frá fyrri árum hjálpuðu þeim sem komust á þrot, svo nú munu óvíða sjást heyfyrningar. Nokkrir komu og fram fénaði sínum með því að brúka korn og fisk og sitthvað annað til fóðurs. Austan úr Múlasýslu hefir og frést að fé og hestar hafi á einstaka stöðum verið fóðraðir á keti, svoleiðis, að hestum var gefið hrossaket og fé sauðaket til lífs. Í Vestur-Skaftafellssýslu og Suður-Múlasýslu skal einna mest hafa fallið af fé og hrossum og jafnvel nokkuð af kúm, auk þess fargað hafði verið. Í Múlasýslunum og eystri Skaftafellssýslu hafði og ekki komið sá þerrir sem annarstaðar varð að svo miklu gagni næstliðið haust í septembermánuði, en þar á mót var fyrri partur sumars eystra engan veginn vætusamur; flestir höfðu því náð töðum óskemmdum; en vetur lagðist þar að miklu fyrr en annarstaðar. Hvílíkur grasbrestur verið hafi í Múlasýslu í fyrrasumar má af því ráða, að bóndi nokkur í þeim svo kallaða Borgarfirði greip til þess þá lömb skyldu takast undan ám (2. júlí hér um bil) að hann skar þau öll, og þótti hafa vel úr ráðið, þegar það reyndist svo, að lömb sem rekin voru til fjalls, urðu lakari til frálags en fráfærulömb.

Vorveðrátta hefur verið stirð og köld allvíðast, þó syðra betri en í fyrrasumar; grasvöxtur helst á túnum í lakara meðallagi; í Árnes- og Rangárvallasýslu góður á útjörð. Fyrir norðan land var vorveðráttan enn bágari en syðra; þar skal og fjarskalegur grasbrestur, og því meiri sem austar dregur. Úr Eyjafirði er skrifað að um mitt sumar hafi í 14 daga hitinn um miðdegið aldrei orðið yfir 5° (gráður), og 25. júní hafi af engu túni í Siglufirði snjór verið algjörlega þiðnaður. Hér syðra gekk stöðugt þurrviðri allan júlí, en strax með ágústmánaðarbyrjun brá til vætu sem viðhaldist hefir til þessa þó rigningar hafi sjaldan verið ákaflegar. Á næstliðnum vetri aflaðist fyrir ofan fjall og austur með landi í betra lagi, urðu hlutir víða 4 og 5 hundruð bestir. Við Faxafjörð var afli í minna lagi, en einkum brást netaútvegurinn í Njarðvíkum og það svo að fáir fengu hundraðs hlut. Það var annars nýlunda að sá fiskur sem næst gekk landi í Hafnarfirði var allur feitari heldur enn sá sem aflaðist dýpra, sömuleiðis er það merkilegt, að nú í vor gekk fiskur innst í Hvalfjörð móts við Þyril, og fyrir hann var róið frá bæjum í Brynjudal, til töluverðs hagræðis. Sá fiskur hafði og verið mikið feitur. Hákarlaveiðar í Vestmannaeyjum á þiljuskipum hafa vel lukkast; nokkurnveginn í Þorlákshöfn og í Faxafirðinum [...]

Brandsstaðaannáll [vetur]:

Eftir nýár hláka og enn þá auð jörð. 13. jan. skipti um með snjófalli og hörkum. Með þorra komu hross á gjöf. Þó brutu þau niður á hálsum og heiðum, þar var hrís undir á móti vestri fram yfir miðþorra. Alla góu jarðlaust að öllu, en veður stillt og frosthægt. Um jafndægur kom snöp í fjöllum mót sólu, svo hross og sauðir lifðu af eftir það, sem gefið var út, hjá þeim, er heyþrota urðu, en almennt stóð fé og hross við fram í maíbyrjun.

Bjarni Thorarensen og Ingibjörg Jónsdóttir segja lauslega af tíð í bréfum. Frederiksgave er amtmannshúsið á Möðruvöllum í Hörgárdal:

Frederiksgave 14-2 1836 (Bjarni Thorarensen): ... meðalvetur til nýárs en harður síðan, en komi bati fyrir sumarmál skal Norðurland mitt standa. (s230)

Bessastöðum 3-3 1836 [Ingibjörg Jónsdóttir] (s163) Vetur var góður (til) jóla, en nú um hríð hefur verið harður kafli. En sumrið sem leið [1835] var makalaust erfitt og þar af kemur, að allur þriðji partur fénaðar er felldur ...

Brandsstaðaannáll [vor]:

Um páska, 4. apríl, kom upp jörð, en byrgðist brátt aftur. 12.-13. apríl rak hríðarkast mikið hafís að Norðurlandi, en norðaustanlands kom hann um miðjan vetur. Sumarmálavikuna var stöðug fannkomuhríð um 6 daga, svo ófært varð bæja á milli með hesta. Þreytti það hagleysa að bera það milli bæja, hvar sem fáanlegt var. Nokkrir skáru af heyjum á góu. Sást nú best ofneysla og hirðuleysi að safna heyjum á góðu árunum, en frumbýlingum var ómögulegt að komast vel af. Allur fjöldi manna hafði fellt fé sitt um krossmessu, en góður bati kom 1. maí. ... 24. maí kom gróður og um það bil fór ísinn.

Jón Jónsson á Möðrufelli segir tíð hafa verið sæmilega í maí. Í lok maí segir Sveinn Pálsson frá mistri - spyr hvort það stafi af eldsumbrotum eða hafís. Hiti fór niður í frostmark að morgni 21.ágúst í Vík í Mýrdal, en þann dag snjóaði hvað mest fyrir norðan. 

12. júlí 1836 Hallgrímur Jónsson á Sveinsstöðum í Húnaþingi ritar 12.júlí: [Andvari 98/1973 bls. 192): 

Bágt var ástand vors fátæka föðurlands næstliðið ár. Þó er enn nú bágara sem von er, þar sömu harðindi framhaldast, veturinn frá nýári mikið snjóasamur og vorið hart til bænadags. Þá varð maí mestallur góður, en frá því hafa oftast gengið sífelldir norðankuldastormar með næturfrostum á milli, svo mikill hnekkir er kominn á grasvöxtinn hér norðanlands, og þær fáu skepnur, sem veturinn og vorið afslórðu, magrar og berar, gjöra nú sáralítið gagn, svo áhorfist til mikils neyðarástands, einkum ef menn verða nú að farga fleiru í haust af þeim eftirtórandi fáu skepnum, er menn annars ekki hefðu neyðst til að skera sér til bjargar. En ekki er guð lengi úr að bæta, ef honum þóknast. Verði hans vilji!

Brandsstaðaannáll [sumar]:

1. júní rigning og hret mikið, eftir það gott, en 10. júní skipti um til kulda, er héldust mánuðinn út. Þó oft væri hlýtt á daginn, var frost á hverri nótt. Með júlí rekin lömb á fjöll. Mikið dró nú úr lestarferðum suður fyrir kornnægtir. Þó voru vermenn margir enn syðra. Færð slæm og hagleysi gjörði lestarferð örðuga. Brutust einir 4 menn úr Blöndudal suður með 70 hesta. Kauptíð varð í miðjum júlí, en fremra byrjaði sláttur 24.-26. júlí, en fyrri til lágsveita. Varð grasleysi mesta, líkt næst afliðnu sumri, en þó betra á góðum túnum og sinuslægjum. Með ágúst brá til votviðra og hröktust töður sumstaðar. 10. ágúst varð skaðaveður af suðri. 20. kom landnyrðingsveður mikið og stórhret á eftir. Áttu þá margir 1-2 vikna hey úti, þó stöku menn hrifi það inn rétt áður. 27. ágúst kom annað fannkyngjuhretið og lá snjór á hálsum og fjallslægjum 3 vikur. Í lágsveitum var kúm gefið 4 daga. Flóði þá yfir jörð eins og í vorleysingum. Mátti telja viku frá heyskap fyrir fönn og votabandssull. 3. sept. kom sá einasti þerridagur, en síðan kuldaflæsa. 7. sept. skipti um til sunnanáttar. Kom þá fyrst jökulleysing, því allt sumarið var Blanda blá sem á vetrardag og varð fyrir göngur (19. sept) nýting góð. Heyskapur varð lítill og slæmur. Var grasleysi og hretatíðin orsök til þess. Stóðu víða tóftir tómar og lítið sást upp úr veggjum, því fáir áttu nú gömul hey að mun.

Veðurlags er getið í nokkrum bréfum Bjarna Thorarensen:

Ketilsstöðum á Völlum 6-7 1836 (Bjarni Thorarensen): Kuldi hinn versti oftast síðan 20ta júní og all til þess 3ja þ.m. Síðan hefir veðrið verið bærilegt. (s131)

Frederiksgave 28-7 1836 (Bjarni Thorarensen): Grasvöxtur er bágur þó ei fullt eins slæmur sem í fyrra. (s233)

Frederiksgave 31-8 1836 (Bjarni Thorarensen): Grasvöxtur hefir í Skagaf. og Húnav. s. ei verið betri en í fyrra – nýting nokkru betri – en þann 20ta þ.m. kom – vetrarveður, og ei er norðanáttin sem hér er með snjó og öllu illu burtu enn. (s236)

Frederiksgave 10-9 1836 (Bjarni Thorarensen): Grasvöxtur hér skárri nokkuð en í fyrra, en í Skagaf. og Húnavatnss. verri. Nýting aftur betri. Vetrarveður og ófærð af snjó í byggð í Skagafirði þann 19da og 20, 21ta ágúst og fyrstnefnda daginn reið eg vestur að Hólum yfir Hjaltadalsheiði í möldösku ... (s132)

Brandsstaðaannáll [haust]:

Eftir 20. sept. þiðnaði ei torf; héldust frostin stöðugt. 25. sept. var margt fé rekið á ís yfir Blöndu úr fyrri réttum og riðin vötn á ís í seinni göngum. Skaflajárnuðu þá margir. Haustið var kalt og þurrt. 8. nóv. lagði fönn á útsveitir og fjalllendi, síðan oft harðviðri með sterkum frostum, en jarðbert til lágsveita og framdala til nýárs. ... Hafís kom á einmánuði og lá lengi.

Bjarni á Möðruvöllum og Ingibjörg á Bessastöðum rita bréf í október:

Frederiksgave 2-10 1836 (Bjarni Thorarensen): ... er ástand manna nú verra en í fyrra um þetta leyti og það gjörðu dæmalausu snjóarnir í Skagaf. og Húnavatns sýslu og á öllum útkjálkum um ágúst mánaðarlokin ... Heyskapur gekk allvel syðra í sumar var, eftir því sem mér er sagt, svo þeir hafa þar nóg fyrir það fáa sem þeir eiga eftir ... Þeim bjargar sjórinn á útmánuðum þegar harðast er í búi – en hér er ekki þeirri hjálp að heilsa ... (s237)

Bessastöðum 15-10 1836 [Ingibjörg Jónsdóttir] (s170) Hér sunnanlands hefur heyskapur lukkast nokkuð betur en í fyrra. Þó grasbrestur væri mikill, nýttist þó allvel. Þar á móti fyrir norðan var eitthvert það bágasta sumar bæði með gras og nýting, og á útkjálkum Norðanlands, svo sem í Fljótum og Ólafsfirði, dæmafá harðindi. Til dæmis í ágúst varð að gefa kúm inni í marga daga vegna snjógangs og frosta. Ekki varð tekið á slætti í 3 vikur ...

Sunnanpósturinn lýsir tíð frá 20.ágúst [1836 10, bls.145]:

Sumarið er nú liðið, og ekki annað eftir enn minnast þess, viðlíka og hvers liðins tíma. Það var sunnalands affara betra heldur en næst undangengið sumar; því þó grasvöxtur væri ei öllu betri í ár en í fyrra, svo varð nýtingin miklu skárri; þó er þess getið að víða hafi svo hitnað í heyjum að orðið hafi að leysa þau upp, og heitir það töluverður bagi. Vestra trúi ég hafi viðrað líkt og syðra, en grasbresturinn skal hafa verið þeim mun meiri, sem veðrátta er þar ætíð kaldari en sunnanlands. Hvergi hefur þetta sumar verið eins ósumarlegt og nyrðra. Því nálægt 20. ágúst, áður en hundadagar voru liðnir og aftur seinast í sama mánuði, gerði þar fjúkhríð, svo í byggð snjóaði, og það svo mjög, að allvíða varð að gefa kúm inni í marga daga. Í Laxárdal og Fljótum er sagt kýr hafi sumstaðar staðið inni í 3 vikur, var þá víða ei annað að gefa peningi heldur en hey, er úti lá undir snjóunum, og var það uppgrafið úr fönn til þessarar brúkunar. Á sumum stöðum varð haglaust fyrir fé: en snjóþyngslin voru svo mikil, að erfitt var að koma fé á haga. Eins og grasbresturinn var mikill norðanlands, svo var ei heldur nýtingin góð og þessi snjókoma gerði töluverða hindrun í heyskap allvíða, svo ráð er fyrir því að gera að nú fækki mjög fénaður norðanlands. Það gerði og sitt til að gera heyföng lítil nyrðra, að ofsaveður af suðri kom þar áður en tún voru alhirt, sem víða feykti burt heyi. Sú frétt hefur komið hingað suður af 2 kaupskip hafi í sumar að norðan komið til Kaupmannahafnar eftir höfrum og byggi, svo þessi vara væri þar til, ef fólk vildi eða gæti keypt hana til fóðurs handa bjargræðisskepnum, og er það sannarlega hrósverð framsýni og framtakssemi hverjum sem er að þakka. Veðurátta hefir verið allgóð síðan á sumarið leið; en í september var hún þó svo köld, að fyrir sólaruppkomu var frostið stundum 5° á Suðurlandi við sjó; og má þá ætla að það hafi verið æðimikið bæði upp til fjalla og eins á útkjálkum landsins. Einn dag í októbermánuði varð frostið 6°. Afli hefir á þessu sumri gefist lítill sunnanlands; nyrðra sumstaðar er mælt hafi vel fiskast. Slysfarir hafa þær orðið á þessu sumri, að kaupskip það sem fyrst kom hingað til Suðurlands á þessu sumri, rak sig á jaka á leið sinni héðan til vesturlandsins, svo það brotnaði. Skipsmenn björguðu sér á bátum til lands, en seinna rak skipið upp með því sem í því var. og var selt með farminum. Fiskiskúta týndist algjörlega í vor á Vesturlandi, og 2 íslensk fiskiskip. Í fyrra sumar skal Agent Scheving í Flatey hafa misst jaktskip á siglingu hingað til landsins frá Kaupmannahöfn; þá týndist og fiskiskúta í Vestmannaeyjum. Á siglingu hingað í vor brotnaði mastur í jaktskipi tilheyrandi kaupmanni G. Simonsen í Vestmannaeyjum og fór skipið af kjöl, samt komst þetta skip á kjöl aftur, og gat náð höfn í Vestmannaeyjum; mælt er að skipsmenn hafi tekið bugspjótið og brúkað fyrir mastur. [...] 

Sunnanpósturinn (4.tölublað 1838, s.61) segir af snjóflóði í desember 1836:

Árið 1836, nóttina milli 17. og 18. desember kom snjóskriða á bæinn Norðureyri í Súgandafirði í vestari parti Ísafjarðarsýslu, sem braut allan bæinn niður; urðu þar 10 manns undir, hvar af náðust lifandi daginn eftir 2 rosknir kvenmenn og tvö börn, en 6 voru dánir, bændurnir báðir, önnur húsfreyjan, vinnukona og tvö börn. Sama snjóskriða tók með sér um leið sexæring sem stóð við sjóinn með öllu tilheyrandi og eyðilagði gjörsamlega; hún hljóp yfir fjörðinn og á land hinumegin (því ís hefur legið á firðinum); út á firðinum fundust stög úr baðstofunni með áhangandi fötum. Tvær kýr voru í baðstofunni og náðist önnur þeirra tórandi. Mjög voru þær manneskjur sem náðust með lífi þjakaðar bæði útvortis og innvortis, líkami þeirra marinn og þrútinn. (Þetta eftir bréfi séra Eyjólfs Kolbeinssonar, dagsett 31.desember). 

Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um árið 1836. Sigurði Þór Guðjónssyni er þakkað fyrir innslátt Brandstaðaannáls. Fáeinar tölur má finna í viðhengi. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 191
  • Sl. sólarhring: 298
  • Sl. viku: 1765
  • Frá upphafi: 2350392

Annað

  • Innlit í dag: 122
  • Innlit sl. viku: 1571
  • Gestir í dag: 118
  • IP-tölur í dag: 117

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband