Strandveður

Ritstjóri hungurdiska flettir í gömlu dóti og rekst á sérprent úr riti sem þýska sjóveðurstofan í Hamborg (Seewetteramt) gaf út 1951 [Klima und Wetter der Fischergebiete Island - Veðurfar og veður á fiskimiðum við Ísland). Sérprentið ber yfirskriftina „Wetterlage bei Strandungen an der Südostküste Islands“ - eða Veðurlag við skipströnd við suðausturströnd Íslands. Þar fjallar Martin Rodewald (1904-1987 og var mjög þekktur veðurfræðingur á sinni tíð) um efnið. 

Greinin hefst á stuttri frásögn hans um eigin reynslu undan ströndinni í maí 1926 í hægri suðaustanátt og þoku - og þau óþægindi sem því fylgdu, vitandi af ströndinni skammt undan og það sem loksins sást var flak sem þar lá. Það var það fyrsta sem Martin Rodewald sá af Íslandi. Í greininni er síðan tafla yfir 12 þýsk „strönd“ á þessum slóðum, það fyrsta 1898 en það síðasta 1949. Hann vekur athygli á því að veður var í flestum tilvikum ekki sérlega vont, engin fárviðri alla vega. Strekkingsvindur, upp í 7 vindstig, en oftast minna. Vindátt oftast af austri, en skyggni slæmt.

Skanni_20210208

Kortið sýnir „meðalveðurlag“ í 10 af þessum 12 ströndum, tvö eru víst talin lítt veðurtengd. Athygli er vakin á því að þetta víkur nokkuð frá meðalþrýstingi í desember - þrýstivindur er mun suðlægari en venjulega. Háþrýstingur meiri en oftast er yfir Skandinavíu - og Íslandslægðin svonefnda í fremur vestlægri stöðu. Það þýðir væntanlega að skyggni er verra en algengt er. Sömuleiðis bendir hann á að vindátt á strandstað víkur mjög frá þrýstivindáttinni (fylgir ströndinni eða stefnir jafnvel út frá landi) - en er suðlæg þar fyrir ofan. Við þekkjum þetta veðurlag vel. 

Fjölmargir þýskir togararar stunduðu veiðar við Ísland og flotanum fylgdu gjarnan eftirlits- og aðstoðarskip. Veðurskeyti þeirra komu oft að góðum notum á Veðurstofunni þegar veður voru válynd og hafa vafalítið bjargað einhverjum mannslífum - ekki aðeins þýskum. Sum nöfnin urðu kunnugleg, t.d. Poseidon og Meerkatze - og fleiri. Við, gamlir veðurfréttanaglar, hugsum til þeirra af hlýhug (þó eitthvað hafi verið kvartað undan þeim á landhelgisbaráttuárunum). En þessi gamli veðurfréttaheimur er löngu horfinn. Þó spám hafi fleygt fram er samt margs sem sakna má. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

 • w-blogg250524b
 • w-blogg250524a
 • Slide10
 • Slide9
 • Slide11

Heimsóknir

Flettingar

 • Í dag (27.5.): 5
 • Sl. sólarhring: 324
 • Sl. viku: 1845
 • Frá upphafi: 2357238

Annað

 • Innlit í dag: 5
 • Innlit sl. viku: 1724
 • Gestir í dag: 5
 • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband