11.3.2019 | 01:50
Fyrstu tíu dagar marsmánaðar
Meðalhiti fyrstu tíu daga mánaðarins nú á Akureyri er -3,1 stig, -2,0 stigum neðan meðallags 1961-1990, en -2,3 neðan meðallags síðustu 10 ára.
Hiti er ofan meðallags síðustu tíu ára á allmörgum stöðvum um landið sunnanvert, mest +0,7 stig á Hraunsmúla í Staðarsveit og við Lómagnúp, en kalt hefur verið í innsveitum norðaustanlands, neikvæða vikið er mest í Svartárkoti -3,7 stig.
Úrkoma hefur mælst 30,3 mm í Reykjavík og er það nærri meðallagi. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 11,1 mm fyrstu 10 daga mánaðarins og er það undir meðallagi.
Sólskinsstundir hafa mælst 56,3 í Reykjavík það sem af er mánuði og hafa þær aðeins 9 sinnum mælst fleiri sömu daga (mælingar 108 ár). Flestar mældust sólskinsstundirnar þessa daga árið 1962, 87,9 en fæstar 1996, aðeins 3,9.
10.3.2019 | 17:55
Af árinu 1902
Árið 1902 þótti hagstætt um landið sunnanvert, en mun síðra norðaustan- og austanlands. Mestur munur var á sumarveðráttunni í þessum landshlutum, þurrviðri syðra en kalt dumbungsveður á Norðausturlandi og við norðurströndina. Hafís var til mikilla vandræða og telst 1902 mesta ísár 20.aldar. Fyrstu 8 mánuðir ársins teljast kaldir, en afgangur þess var hlýr. Meðalhiti í Reykjavík var 4,0 stig, en aðeins 1,9 stig á Akureyri.
Mesta frost á árinu mældist í Möðrudal þann 13.janúar, -28,2 stig. Mestur hiti mældist á Akureyri þann 20.júlí, 20,9 stig. Hiti fór þrisvar í 20 stig á Akureyri á árinu, en hvergi annars staðar. Óvenjulegt er að 20,3 stig mældust þar þann 28. september, hæsti hiti þar á bæ svo seint sumars. Mikil og óvenjuleg hlýindi gerði í fáeina daga undir lok september, m.a. fór hiti í Stykkishólmi í 16,2 stig - met svo seint sumars rétt eins og á Akureyri.
Myndin sýnir hita frá degi til dags í Reykjavík á árinu 1902. Frostakafli seint í mars og byrjun apríl vekur athygli (páskahret) og sömuleiðis hart frost undir lok maímánaðar. Átján dagar ársins voru mjög kaldir í Reykjavík en enginn hlýr. Lista yfir þessa daga má sjá í viðhenginu. Mjög kaldir dagar voru 27 í Stykkishólmi, en þar teljast tveir mjög hlýir, 28. og 29. september. Fjögur dægurmet lágmarkshita standa enn frá árinu 1902 í Reykjavík og 6 á Akureyri.
Mjög þurrt var framan af sumri - sérstaklega um landið sunnan- og vestanvert og telst júlí óvenjuþurr á Suðurlandi. Einnig var þurrt suðvestanlands í ágúst, en þá rigndi meira um landið austanvert. Árið í heild var ekki sérlega þurrt.
Sumarið 1902 markaði ákveðin þáttaskil því næstu sjö árin á undan, allt frá 1895 hafði allmikil hrina óþurrkasumra gengið yfir Suðurland, í fréttapistlunum hér að neðan má sjá að sumir voru hálfhissa á þessum skiptum.
Hæsti þrýstingur ársins mældist á Teigarhorni 2.febrúar, 1044,5 hPa, en lægstur í Stykkishólmi 13.desember, 958,5 hPa. Höfum þó í huga að þrýstingur var aðeins mældur þrisvar á dag á stöðvunum og líklegt er - eins og oftast á þessum árum - að hann hafi farið neðar í einhverri þeirra kröppu lægða sem yfir gengu, t.d. í nóvember eða desember.
Mánaðarmeðalþrýstingur var sérlega hár í júní og júlí.
[Kortið er úr Nautisk Meteorologisk Aarbog 1902]. Árið 1902 er sennilega mesta hafísár 20.aldar hér við land. Kortið sýnir útbreiðslu íssins í maí, stakir jakar komust allt vestur til Vestmannaeyja og eins og fram kemur í fréttapistlum hér að neðan voru siglingar mjög tepptar um vorið bæði norðanlands og austan. Lauge Koch flokkar ískomuna samt sem vesturís - en sá flokkur segir frá framrásarstíflu um Grænlandssund fremur en því að ís hafi náð óvenjuaustarlega fyrir norðan land.
Um ísflokkun Koch má lesa í fornum pistli hungurdiska (25.nóvember 2010) og viðhengi hans.
Hér að neðan eru dregnar saman helstu fréttir af veðri, tíð og veðurtengdu tjóni á árinu 1902 og vitnað í samtímablaðafréttir. Stundum eru þær styttar lítillega og stafsetning er að mestu færð til nútímahorfs.
Einar Helgason tekur saman yfirlit ársins 1902 í Búnaðarriti 1903:
(s.209) Á Suður- og Vesturlandi var árið yfir höfuð mjög gott. A Norðurlandi var tíðin kaldari en hún lengi hefir verið, en þrátt fyrir það telja þó Norðlingar sjálfir árferðið í meðallagi þegar á allt er lítið. Á Austfjörðum hefur árferðið verið lakast bæði vegna fiskileysis og afnot af skepnum minni en í meðallagi.
(s.199) Vetur frá nýári var hér sunnanlands kulda- og frostasamari en venja er til. Snjóþyngsli voru þó ekki mikil og hagar þess vegna oft góðir. Tíðarfar mjög líkt í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu og Gullbringu- og Kjósarsýslu, nema frostharðara í uppsveitunum en niður um. Á Snæfellsnesi var veturinn talinn góður, sömuleiðis i Dölunum, en þar var þó frostharðara og jörð því nær auð allan veturinn. Á Vestfjörðum: Barðastrandar-, Ísafjarðar- og Strandasýslu var veturinn yfirleitt harður með grimmu frosti og umhleypingum; kom þó alllangur góðviðrakafli seinni part janúar og fyrri hluta mars. Hafísinn rak þar að landi og inn á firði kringum þann 7.febrúar og hélst á vesturfjörðum til sumarmála, en við Strandir þangað til 1.júní; fór þó ekki til fulls af Hrútafirði fyrr en 25.júní. Voru þá liðnir 137 dagar frá fyrstu komu hans.
Á Norðurlandi var veturinn umhleypingasamur fram undir páska, stormar, ýmist norðan með miklu frosti eða sunnan með þíðu, urðu því snjóar litlir, en kuldar miklir. Eyjafjörð lagði út undir Höfða á þorra. Hafís sást úr Fljótum á nýársdag. Fyrst í febrúar kom hafís á Eyjafjörð og flæktist þar það sem eftir var vetrar og fram í maí, meira og minna landfastur, lónaði svo frá, en varð viðurloða skammt frá landi fram í ágúst. Í Norður-Múlasýslu var veturinn strangur, frosta-, snjóa- og veðrasamur, einkum i fjörðunum. Á Jökuldal voru oftast jarðir fyrstu mánuði ársins, snjódýpra á Héraði, en þó fremur jarðir þar en i Fjörðum, en frostanna vegna oft erfitt og varúðarvert að beita, enda frostin þennan vetur mest síðan veturinn 188081. Í febrúar rak hafís að Austurlandi, fyllti hann alla firði og teppti skipagöngur fram á vorið. Í suðurhluta Suður-Múlasýslu mátti veturinn heita góður. Í Skaftafellsýslu var vetrartíð ágæt frá nýári fram í miðjan mars, úr því fór að harðna. Snemma i apríl kom töluvert hafísrek austan með landi. Í Árnes- og Rangárvallasýslu var veturinn snjólítill og því oftast nægir hagar. Á góðum hagbeitarjörðum var sauðfé mjög létt á fóðri.
Vorið. Á öllum suðurhluta landsins, frá Suður-Múlasýslu að austan og vestur á Snæfellsnes, var vorið kalt og þurrviðrasamt og jörð greri seint. Í Dölum var vorið afarþurrviðrasamt, en ekki mjög kalt. Í sláttarbyrjun var mjög illa sprottið, einkum á óræktaðri eða illa ræktaðri jörð. Klaki var mikill í jörð eftir veturinn og ekki plógþýtt" fyrr en undir Jónsmessu. Í Barðastrandarsýslu mátti vorið heita mjög hagstætt, að undantekinni kuldahrinu fram úr hvítasunnunni [18.maí]; hnekkti hún talsvert gróðri. Engin veruleg hlýviðri komu samt fyrr en um Jónsmessu, því hafísinn lá stöðugt útifyrir og dró úr vorhlýindunum. Í Ísafjarðar- og Strandasýslu og á öllu Norðurlandi var vorið mjög kalt og jörð greri seint. Byrjaði eigi að gróa fyrir alvöru fyrr en seinni part júnímánaðar. Í Eyjafirði kom vondur hríðarkafli rétt fyrir fardagana; þá stóðu allar kindur þar inni i 3 daga. Vöruskip komust ekki á Húnaflóa né á Skagafjörð fyrr en eftir fardaga. Í Norður-Múlasýslu var vorið óvenjulega hart; þar gerði margra daga áfelli með frosti og fannfergju á sauðburði, svo að víða varð að taka allan fénað á hús og gjöf.
Sumarið var þurrkasamt og heyskapartíð sérlega hagstæð á öllum suðurhluta landsins og í Vestmannaeyjum, og mátti svo heita á Norðurlandi líka. Í Barðastrandarsýslu mesta blíðviðrasumar, en í Norður-Múlasýslu var fremur þurrkalítið fram i september. Grasspretta mun hafa orðið mjög lík á kaflanum að vestan, frá Reykjanesfjallgarði og norður í Hrútafjörð; var hún í meðallagi, að vísu í rýrara lagi á þurrlendi, en í góðu lagi á raklendi. Töður víða með minna móti, en nýting ágæt, og af því leiddi líka að heyskapur reyndist drjúgur. Í Húnavatnssýslu var fyrirtaks tíð allt sumarið og fram eftir haustinu. Töðufall lítið og víða snögglent. Heyskapartíð hagstæð. Hey víða minni en undanfarandi haust. Í Skagafjarðarsýslu var sumarið stutt og heyfengur víða lítill. Í Eyjafirði var sumarið kalt, en þurrviðrasamt. Grasspretta lítil, nema í blautum mýrum. Í ágústmánaðarlok fór elting fyrst að falla eftir 4 frostnætur. Eina nóttina var 5° frost; renndi þá Eyjafjarðará á milli Hólmanna. Í september kom sumarblíða og hélst fram að veturnóttum. Heyskapur varð almennt í mikið rýrara lagi, 1/41/2 minni en vant er, en nýting góð. Í Suður-Þingeyjarsýslu var kalt sumar fram í september, heyskapur í tæpu meðallagi. Í Norður-Múlasýslu var sumarið kalt og áfellasamt þangað til eftir miðjan september, frost iðulega á nóttum, jafnvel i byggð. Í Vopnafirði snjóaði ofan í byggð síðast i júlí. Nýting varð þar með erfiðara móti, en þó allgóð á endanum. Seint í júlí varð eigi unnið að heyskap á Jókuldalsheiði í 12 daga fyrir snjó, og á Smjörvatnsheiði voru umbrot af ófærð. Síðari hluta septembermánaðar brá til öndvegistíðar um alla sýsluna, er hélst til jóla. Þrátt fyrir kalda veðráttu var grasspretta allt að því i meðallagi. Tún brugðust sumstaðar talsvert, en á Efra-Jökuldal, þar sem tún eru vön að brenna í heitum sumrum, urðu þau jafnvel með besta móti, enda gætti vorkuldanna minna til dalanna, eins og títt er í ísaárum. Í fjörðunum fengu margir þriðjungi minni töðu en vanalega. Engi spruttu seint, en þó sumstaðar allt að því í meðallagi. Heyskapur byrjaði með seinasta móti og heyafli varð víðast hvar með minna móti. Í Suður-Múlasýslu var sumarið kalt, frost nærri því á hverri nóttu; breyttist til batnaðar i september og hausttíðin mátti heita hin indælasta. Töður urðu fullum fjórðungi minni en í meðalári, en útheyskapur viðast hvar allt að því í meðallagi. I Skaftafellssýslu varð grasspretta i tæpu meðallagi vegna vorkuldanna og þurrviðranna og á nokkrum stöðum í lakasta lagi. Engi spruttu svo lengi fram eftir, að það rættist úr með heyskapinn. Í Rangárvallasýslu neðanverðri varð grasspretta i góðu meðallagi þegar fram á leið. Í efri hluta sýslunnar varð grasvöxtur minni. Sömuleiðis i Árnessýslu. þar urðu hey viða 1/4l/2 minni en undanfarin ár. Flóðveitur spruttu allvel. Í Vestmannaeyjum varð grasspretta fremur lakleg.
Haustið og veturinn til nýárs. Tíðin þíð og góð um land alt fram að sólhvörfum. Um veturnæturnar gerði snjókomu allmikla á Norðurlandi og Vestfjörðum í 24 vikna tíma, en þann snjó leysti aftur upp í háfjallabrúnir. Í Gullbringu- og Kjósarsýslu gerði skaðaveður á landsunnan 15.nóvember; skemmdust hey og hús hjá mörgum bændum i Mosfellssveit og nokkrum í Kjós og á Kjalarnesi. Í Mýra-, Borgarfjarðar- og Snæfellsnessýslum var tíðin óstilltari en viðast annarstaðar, með úrkomum og skakviðrum eftir lok októbermánaðar; um sólhvörf komu harðindi af norðri. Í Dölum var haustið það besta sem menn muna, sífelld þurrviðri og hlýindi þar til seint í október að gerði nokkurn snjó og frost, en tók upp aftur í nóvember svo gjörsamlega að jörð varð klakalaus. Óviða byrjað að gefa fé fyrr en undir jól. Í Barðastrandarsýslu gerði mesta aftakaveður af suðri 14.15. nóvember; varð af því talsverður skaði á bátum, einkum í Tálknafirði og á Bíldudal. I Húnavatnssýslu kom mikið sunnanveður 5. desember, sem gerði nokkrar skemmdir á húsa- og heyþökum. Í Skagafirði var unnið að jarðabótum á jólaföstu. Á Austurlandi var haustið einmuna blítt, svo fá dæmi munu til slíks. Í Vopnafirði og viðar var unnið að jarða- og húsabótum á jólaföstu. Stormasamt var oft og litlar gæftir til sjóar á Seyðisfirði. Í Suður-Múlasýslu var farið upp á háfjöll í miðjum desember til að tína fjallagrös. Í Fáskrúðsfirði kom mikið austanveður milli jóla og nýárs; skemmdust þá úthýsi sumstaðar. Í Skaftafellssýslu var víða ekki farið að taka lömb eða hross um nýár og á nokkrum stöðum beittu menn kúm þangað til 3 vikur af vetri, en almennt til veturnótta, og var þeim lítið eða ekkert gefið til þess tíma. Í Rangárvalla- og Árnessýslu voru því nær stöðugar þíður fram undir sólhvörf; var víða unnið að jarðabótum fram á miðja jólaföstu. Í Vestmannaeyjum var haustið hrakviðra- og stormasamt, en óvenjulega heitt fram undir jól.
Janúar: Talsvert snjóaði nyrðra. Kalt og mikið frost með köflum.
Ísafold segir af veðráttu þann 11.:
Snjórinn, sem getið er um í síðasta blaði lá grafkyrr þangað til á þrettánda, eða jólin öll á enda. Þá gerði hláku, með miklu stórviðri á útsunnan. Síðan hafa verið umhleypingar, með allmiklum frostum síðara hlut víkunnar, og er enn mikill snjór á jörðu.
Vestri kvartar undan tíð þann 10.janúar:
Tíðarfar hefir verið mjög slæmt og kalt undanfarna daga, 10.-17. stiga frost á Celsius, og finna menn sérstaklega til þess, þar eð bærinn [Ísafjörður] er því nær alveg kolalaus, svo margur má nú sitja í kringum svellkalda ofnana og blása í kaunin; Ísafjörður er nú ekki lengur eftirbátur Reykjavíkur í þessu efni, og er vonandi að hann taki hana sér eins til fyrirmyndar í einhverju öðru, er til bóta væri.
Fréttablaðið Arnfirðingur á Bíldudal segir frá tíð og skriðuföllum í janúarmánuði þar um slóðir:
[11.] Veður hefur verið nokkuð róstusamt nú um tíma. Samanhangandi bylur mátti heita, þ. 8. og 9. og frost alla vikuna síðustu oftast kringum 12 gr. hæst þ. 9. og 10., 16 gr. og er það talið óvanalegt hér. Frostlítið og þykkt loft í dag.
[22.] Veður hefur, í fæstum orðum sagt, verið hér hvern daginn öðrum verra núna um tíma, stormur og rigning eða snjókoma og frost; þó ekki hart. Bylur í dag með þéttu frosti. Skriðuhlaup töluvert kom hér ofan úr gili yfir kaupstaðnum í ofsarigningu aðfaranótt þ.15. þ.m. Varð fyrir því hús nýbyggt og hratt hlaupið því af grundvelli nær til hálfs. Ekki sakaði neinn mann, og var þar þó höggvið nærri. Inn í húsið fór skriðan aðeins um lítinn glugga á miðju húsinu og sprengdi niðurúr, en maður sem þar svaf innifyrir slapp út. Kjallarinn fylltist mikið til. Þar var eldhús og matvæli geymd o.fl. og spilltist það allt og eyðilagðist meira og minna og var það eigendum illt tjón og óþægilegt, en tilfinnanlegast var þó auðvitað tjónið fyrir þá sem húsið áttu: Guðmund Lárusson og Kristján Stefánsson.
[31.] Illviðrahamur stöðugur, ýmist frost 1012 gr. eða fannburður eða stórrigning. Hafís sagður kominn inn á Bolungarvíkurmið og illt að koma niður lóðum, en sagður góður afli þegar póstur fór.
Austri segir af tíð og tjóni eystra:
[11.] Frétt dagsett þann 10. Tíðarfar hefir verið mjög illt það sem að af er árinu, hríðar og stormar næstum því á hverjum degi og snjókoma mikil, bæði hér í fjörðum og i Héraði, og nú þrjá síðustu dagana stórhríð og með miklu frosti.
[16.] Í stórhríðunum fyrir síðustu helgi varð maður úti frá Urriðavatni í Fellum, Ólafur Hinriksson að nafni. Það sást á eftir, að maðurinn hafði náð húsi á túninu og ætlað svo þaðan að ná bænum, en villtist til fjalls, og var ófundinn er síðast fréttist. Í stórhríðunum brotnuðu 18 rúður á einum bæ í firðinum, og sumstaðar varð ekki komist í peningshús, og jafnvel ekki í fjósið. Ofsahlákustorm gerði hér af suðvestri á miðvikudagsnóttina [15.], reif þak af húsum og braut inn glugga, og hefir víst gjört töluvert tjón. Þá nótt stíflaðist og Vestdalsáin og flóði út yfir Eyrina, svo húsum var hætta búin um tíma, áður en áin var skorin fram. Mylluhús úr timbri, er stóð við ána upp hjá bænum Fossi, tók vatnsflóðið með sér. Í húsinu var ýmislegt geymt er allt fór í ána. Líður því eigandinn, Magnús Sigurðsson, á þriðja hundrað króna skaða við þetta.
[29.] Tíðarfar hefir nú lengi verið hið harðasta, hríðar og frosthörkur miklar nálega á hverjum degi.
Þjóðviljinn ungi (í þetta sinn á Bessastöðum) segir af tíð þann 21.janúar:
Síðan á nýári hafa gengið hörð frost hér syðra, og snjóar öðru hvoru. 5.6. þ.m. gerði þó hláku, og ofsalegt suðvestanveður, einkum á þrettándanum, seinni hluta dags. En daginn eftir var aftur komin norðankólga, er hélst til 18. þ.m., er aftur tók að hlána, og hafa síðan haldist rigningar og rosatíð.
Í ofsarokinu 6. þ.m. urðu skemmdir nokkrar hér í nágrenninu Í Reykjavík fauk hús á Laugavegi, er þar var í smíðum og brotnaði að mun. Kvenmaður, er þar var á gangi, handleggsbrotnaði. Í Hafnarfirði urðu skemmdir nokkrar á þilskipum, en þó eigi stórvægilegar; 2 þilskip Geira kaupmanns Zoéga slógust saman, og brotnaði annað þeirra nokkuð. Skipið Himmalaya", eign Ágústs kaupmanns Flygenring i Hafnarfirði, lenti á öðru skipi, og laskaðist Himmalaya" nokkuð. Þilskip, er Ágúst Flygenring átti, og var nýlega komið frá Austfjörðum, svo að eigi hafði verið búið um það til fullnustu í vetrarlægi, slitnaði upp, en tókst þó að verja því, að það færi upp í stórgrýti, og laskaðist því að eins lítilfjörlega.
Norðurland segir þann 21.janúar:
Stórflóð, óvenjulega mikið á vetrardag, hljóp í Hörgá í hlákuofsanum á miðvikudagsnóttina (þ.15.). Um morguninn var undirlendið að sjá sem einn fjörður og á svipstundu spennti áin af sér ísinn og hlóð ísflekunum alinarþykkum langt á bæði lönd og fyllti alla hólma og eyrar. Eru ruðningar þessir ómunalega stórkostlegi. Tæprar alinnar var vant að áin næði brúnni þegar hún ruddi úr sér stíflunni er settist að þar í mjóddinni. En ekkert haggaðist. Er þetta hin fyrsta raun sem brúin hefir mætt síðan hún komst upp en líka sjálfsagt ein með þeim mestu sem fyrir hana koma.
Þjóðólfur birti þann 7.febrúar bréf úr Árnessýslu dagsett þann 1. - en það lýsir janúarveðri:
Það sem af vetrinum er, má heita fremur gott og hagstætt, þó rokasamt í meira lagi t.d. á þrettánda dag jóla fuku járnþök af nokkrum húsum, helst heyhlöðum, og 3 skip fuku við sjávarsíðuna. Veður það var eitthvert hið harðasta, sem hér hefur komið lengi, enda jafnhart lengi dags. Í kælunum um daginn varð frostið þetta 1216 gr. á R, og létti því með ofsaleysingu og hljóp geysivöxtur í allar ár og læki. Ölfusá óx mjög síðustu daga hlákunnar, enda flóði hún með jakaburði upp á lönd þau, sem liggja að hið neðra, einkum þó hjá Kotferju; þaðan ekki vel frétt um afleiðingar hlaupsins; þannig mun áin hafa verið ófær fjalls og fjöru milli, um fullan vikutíma nema á brúnni; í svona tilfellum sem oftar sést hverjar gersemar brýrnar eru.
Vestri segir mannskaðafréttir í pistli þann 7.mars:
Í óveðrunum fyrir austan í fyrrihluta janúar urðu úti: Ólafur Hinriksson frá Urriðavatni í Fellum. Og maður nokkur, Bessi að nafni, á leið yfir Sandvikurheiði í Norður-Múlasýslu. Síðar í sama mánuði Guðmundur Tómásson frá Skeggjastöðum í Miðfirði, varð úti á Hrútafjarðarhálsi [fram kemur að það var 20.janúar]. Um sama leyti varð úti Sig. Sigurðsson bóndi á Efrafelli í Rangárvallasýslu.
Febrúar: Mjög þurrt eystra fyrri hlutann, en annars nokkrir umhleypingar. Snjólítið suðvestanlands. Kalt, einkum á Norður- og Vesturlandi.
Bjarki á Seyðisfirði segir þann 6.febrúar:
Nú fyrir helgina [1. og 2.febrúar] var svo mikið brim í Mjóafirði að það gekk upp yfir vanaleg takmörk, braut gat á sjóhús á Rjúkindum, tók út nokkuð af fiski og margt fleira. Einnig misstist þar bátur. 2 báta tók út á Reykjum og 1 í Gilsártanga. [Í síðari frétt [20.febrúar] kemur fram að þetta var aðfaranótt 25.janúar]. Fyrir mánaðamótin gekk í þíður og sunnanátt. Hiti suma dagana allt að 9 stig R. Í gær og fyrradag aftur lítið frost og grátt loft og hefur fölvað. Íshröngl sást hér útifyrir, en rak frá með sunnanvindunum. Fyrir norðan Langanes hafði firði og víkur fyllt og allstór ísspöng legið þar úti fyrir, en rekið frá aftur. Maður sem kom frá Vopnafirði á þriðjudagskvöldið [4.] sá engan ís.
Þann 7.mars er bréf í Þjóðólfi úr Höfðahverfi í Suður-Þingeyjarsýslu, dagsett 7.febrúar:
Tíðin hefur verið fremur stirð hér í vetur, einlægar norðanhríðar og harka svo mikil, að ég man ekki eftir öðru eins frosti síðan veturinn 188788. Ég er hræddur um, að heyskortur verði hér um slóðir, ef þessu heldur áfram, kannske fram á sumar, en fyrningar voru hjá mörgum frá fyrra ári, og heyskapur góður í sumar, svo menn ættu síður, að verða heylausir. Gufuskipið Egill, sem lagði af stað frá Akureyri 4. þ.m. til útlanda, ætlaði austur með, en komst ekki fyrir ís hjá Langanesi, sneri svo við og ætlaði vestur með, en komst eigi að heldur fyrir ís. Nú er hann inn við Hrísey, og liggur þar. Svona er íshellan úti fyrir, en lagnaðarís á öllum firðinum frá Hrísey og inn á Akureyri.
Þann 18. segir Þjóðviljinn ungi (fréttin er nokkuð stytt hér):
Leikið á botnverpla. [Fjórða] þ.m. bar það til tíðinda í Reykjavík, að varðskip Færeyinga Beskytteren", kapt. Petersen, kom inn á Reykjavíkurhöfn með þrjá botnverpla enska í eftirdragi. Svo stóð á ferð varðskipsins, að Jöhnke, flotamálaráðherrann danski, hafði boðið skipstjóra, eftir undirlagi Rovgaards að sögn, að bregða sér hingað og njósna um aðfarir botnverpla. Bar þá svo vel í veiðar, að þeir voru eigi færri en 14 að veiðum í landhelgi fram undan Hópi í Grindavík og uggðu eigi að sér, því að Heimdalls" var eigi von fyrr en í mars. Náði herskipið þrem, sem þegar er sagt, en 11 sluppu úr greipum þess. Skyldu nú botnverplar þessir bíða dóms síns á Reykjavikurhöfn og voru menn settir í þá til gæslu. Í ofsaveðrinu 6. þ.m. sleit einn þeirra upp á höfninni og varð hann að strandi. Tveim dögum síðar sleit annan botnverpil upp. Tók þá skipstjóri það ráð, að hann hleypti á haf út, en setti gæslumann sinn í land á Kjalarnesi. Beið skipstjóri bæjarfógeta með gæslumanni og kvaðst mundu koma aftur von bráðar, hvað sem um efndir verður á því. ... Skipstrand. Sömu nóttina, sem botnverpillinn enski strandaði, sleit upp annað gufuskip á Reykjavíkurhöfn, og varð að strandi. Það hét Modesta" og var nýkomið með salt til Fischers verslunar. Í skipinu var og allmikið af kolum, sem átti að fara til Ísafjarðar. Kolabyrðingur frá Brydes verslun sökk á Reykjavíkurhöfn 7. þ.m. Í honum voru 2400 skpd. af kolum. Harðindi eru nú að frétta hvaðanæva af landinu. Hafíshroði hefir sést fyrir Norðurlandi, en eigi til neinna muna.
Norðurland segir þann 11.:
Íshroði er hér úti á firðinum, jaki kominn inn að Svalbarðseyri á sunnudaginn. Stórhríð á norðan á föstudaginn var [7.], dimmastur bylur á vetrinum. Síðan hörkufrost á degi hverjum, yfir 20 gr.C í gærmorgun.
Bjarki segir þann 27.fréttir frá Akureyri, dagsettar þann 12.:
Akureyri 12.febrúar: Frostin hafa verið hér mjög mikil, allt uppað 23°C. Síldarafli þessa dagana töluverður upp um ísinn á pollinum, en mest er það millisíld og smásíld. Hafísjakar sjást hér innanað og mun sá hvíti þá ekki vera langt frá. Stillingar eru nú þessa dagana, en voru hér ekki síðustu viku, því þá voru vondar hríðar, frá þriðjudegi, 4. þ.m. til laugardaginn 8., en þá birti upp. Eftir að þetta er skrifað hefur komið sendimaður sendur af kaft. Arnesen, og skýrir hann frá, að Egill sé innifrosinn á Siglufirði og hafþök þar fyrir utan.
Bjarki segir frá þann 14.
Kaldárbrúin í Jökulsárhlíð sem var byggð í hitteðfyrra eyðilagðist í hríðarbálkinum seinast af snjóþyngslum og veðrum. Ísinn: Honum hefur þokað frá nú síðustu dagana svo að fjörðurinn og flóinn eru nú íslausir. Norðan við Borgarfjörð hafði ísinn verið landfastur og maður, sem kom úr Fáskrúðsfirði á miðvikudaginn sagði ís þar á firðinum.
Vestri segir af hafís þann 15.febrúar:
Hafíshroði hefir sést úti fyrir um síðastliðna helgi [8. til 9.], varð landfastur á Ströndum og kom hér inn í Út-Djúpið inn undir Bolungarvík, en hefir nú drifið frá aftur.
Bjarki birti þann 27.febrúar fréttir úr Breiðdal, dagsettar þann 21.:
Breiðdal 21.[febrúar]: Góð tíð og marauð jörð, en sjórinn er hér allsstaðar fullur með ís og kæmi sér þó betur að það yrði ekki mjög lengi því við verslanirnar á fjörðunum hér í kring er nú vörulaust algerlega, enginn matur, ekki kaffi, ekki sykur.
Austri segir þann 20.:
Veðrátta hefir verið hin blíðasta síðustu daga, suðvestanvindar og 10° hiti.
Bjarki segir þann 27.:
Ísinn hefur nú fyllt fjörðinn hér og nálæga firði. Veður er stillt, þoka á fjöllum og frostlaust þar til í gær; þá 2 st.R. Að líkindum er þessi ís ekki annað en spöng hér úti fyrir Austfjörðunum.
Mars: Talsverð snjókoma nyrðra seinni hlutann. Kalt.
Þann 7.segir Bjarki fréttir af Mjóafirði dagsettar 2.mars:
Fjörðurinn hér er nú fullur af ís og Siemers, skip Ellevsens, liggur inni við fjarðarbotn, flúði þangað undan ísnum.
Sama dag segir Bjarki einnig:
Þær fréttir komu með Vopnafjarðarpósti, að Egill væri fastur í ís á Vopnafjarðarflóanum. Hann hafði komist út af Siglufirði í sunnanveðrunum um daginn og síðan gengið ferðin vel allt suður fyrir Langanes. En þar var ís fyrir. Tvo daga hafði Egill legið í Eiðisvík. Síðan varð hann inniluktur af ísnum úti fyrir Vopnafirði og hefur ýmist þokast með honum nær landi eða fjær. Hann hafði verið þar 14 daga þegar póstur fór af Vopnafirði. --- Ísinn er enn hér í firðinum, svo að varla er fært inn fyrir skip. Héraðsflói er fullur af ís, en á suðurfjörðum, Norðfirði og Reyðarfirði var íslaust er síðast fréttist. Veður er stöðugt gott, ýmist þíður eða lítill froststirningur. Á pollinum hér er nú gengur ís út að Vestdalseyri, og kvað það ekki hafa komið fyrir síðan fyrir 1890.
Á Suðurlandi eru menn ánægðari, Þjóðólfur birti þann 14.mars bréf úr Laugardal í Árnessýslu, dagsett þann 7.:
Tíðin hefur yfirleitt verið góð, það sem af er vetrinum. Auðvitað voru töluverð harðindi frá því 6 vikur af vetri og fram að þorrakomu, en síðan ómunaleg tíð, bæði frost- og snjólítið. Förgun á skepnum mjög lítil yfirleitt; heybirgðir því almennt í besta lagi.
Norðurland segir af lagnaðarís þann 8.mars:
Ísalög eru með mesta móti norðanlands í vetur. Eyjafjörður er lagður út að Dagverðareyri. Þar fyrir utan er sjór auður út að Hjalteyri. Þar er spöng yfir fjörðinn, sem sagt er sé um hálf alin á þykkt.
Arnfirðingur á Bíldudal segir þann 8.:
Veður einmuna gott þessa viku, svo gott, að ekki er unnt að hugsa sér fegurra veður á vetri. Dagarnir kyrrir, sólbjartir og nær frostlausir svo það hefur komist lægst 3 stig en oftast verið 12 st. og hiti hæst 2 stig, en næturnar stjörnubjartar með norðurljósum. Hafi snjóföl komið hefur það aðeins varað litla stund í senn. Þyngdarmælir hefur staðið illa alla vikuna,hvað sem að honum hefur gengið. Í dag hæg hláka.
Þjóðviljinn ungi segir frá marstíð og slysum:
[11.] Veðrátta hefir verið nokkuð umhleypingasöm síðustu vikuna, en áður var ágætistíð síðan í þorralok. Drukknanir. Í ofsaveðri, aðfaranóttina 8.mars, féll maður útbyrðis af fiskiskipinu Josephine" frá Reykjavík, og drukknaði. ... Í sama rokinu drukknaði og maður af fiskiskipinu Kjartan" í Hafnarfirði.
[20.] Bessastöðum. Tíðarfar hefir verið hagstætt hér syðra, síðan síðasta nr. blaðsins kom út, ýmist væg frost eða frostleysur, uns í dag gerði norðanhvassviðri.
[26.] Norðangarðurinn, er hófst um miðja fyrri viku, hélst til 25. þ.m. og fylgdi veðrinu all-mikil frostharka. ... Strandferðaskipið Vesta", skipstjóri Gottfredsen, kom aftur að vestan 21. þ.m., hafði ekki komist lengra norður, en á móts við Látrabjarg, en horfið þar aftur, vegna hafíss, eftir að hafa leitað fyrir sér djúpt og grunnt.
Hafís og harðindi. Eftir fréttum þeim, sem nú eru fengnar, er svo að sjá, sem hafís liggi nú fyrir öllum norðvesturkjálka landsins suður að Látraröst, fyrir Norðurlandi öllu, og austurlandinu, rétt suður að Seyðisfirði og má gera ráð fyrir, að norðan-ofsinn undanfarna daga hafi þjappað ísnum enn meira að landinu. Allar siglingar til hafna á ofannefndu svæði eru því tepptar, sem stendur, og kemur það sér mjög bagalega víða, ekki síst í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum, þar sem tekið var að skerðast mjög um matvörubirgðir í verslunum þegar eftir áramótin. Á Vestfjörðum fengu verslanirnar á hinn bóginn töluverðar matvörubirgðir, með Lauru" í febrúarmánuði, enda þarf naumast að óttast, að siglingar til Vestfjarðanna teppist til langframa, ef að vanda lætur.
Vestri segir þann 15.mars:
Ísinn hér á Pollinum er nú því sem næst 1 alin á þykkt og er farið að saga rennu inn i hann svo skip geti komist út og inn.
Norðurland segir þann 22.:
Stórhríð, að kalla má óslitin, hefir verið hér síðan á miðvikudag [19.], afspyrnubylur með köflum, þangað til í morgun, er bjart veður var komið með allmiklu frosti.
Vestri segir af ís og tíðarfari þann 24.mars:
Hafís er sagður mikill fyrir öllu Norður og Austurlandi og hingað inn í Djúpið hefir hann rekið i garði þeim er nú hefir staðið í 6 daga svo ekki er hægt að komast á sjó í Bolungarvík. - Rétt eftir að Ceres var lögst hér á höfninni rauk hann upp á norðan með frosti op byl, svo litlu varð skipað upp fyrr en á laugardag [22.] og lagði hún þá af stað aftur. Annars var tíðin fyrripart vikunnar góð oftast, lygnt og frostlítið.
Arnfirðingur segir þann 29.:
Veður hefur verið slæmt um þennan tíma, gaddbyljir oftast og hörð frost þess á milli. Maður varð úti hér á Tunguheiði, nú á mánudaginn var, Kristján Kristjánsson héðan af Bíldudal. Var sendur héðan suður til Patreksfjarðar, en lagði á heimleiðinni úr Tálknafirði upp á Tunguheiði á mánudag var og hefur ekki spurst til hans síðan. Hér var öskuhylur þann dag og frostharka. Er sagt að honum væri ráðið frá að leggja á fjallið, en hann kvað að undrast yrði um sig ef hann kæmi ekki heim um daginn. Menn hafa komið að sunnan síðan, og eins verið leitað hans héðan, en hann ekki fundist.
Ísafold birti þann 9.apríl bréf úr Dalasýslu, dagsett 21.mars:
Tíðin hefir verið ærið köld og óstöðug, ýmist hörkufrost eða asahlákur, stuttar og meira til ógagns en gagns. Siðast í febrúar gjörði afarstórfelda rigningu og urðu öll vötn ófær. Laxá i Laxárdal ruddi sig þá og gekk svo hátt, að langt tók upp fyrir brúarstöplana, og segja þeir, er skoðað hafa, að ekki muni nægja að að hækka þá minna en 3 álnir, til þess brú verði þar óhult. Áin tók i þetta skipti brúartré, er eftir héngu á stöplunum síðan i haust, og hafa þau ekki fundist síðan svo kunnugt sé. Verður þetta ekki til að flýta fyrir brúargjörðinni.
Apríl: Góð tíð syðra eftir fyrstu vikuna. Fremur kalt, einkum fyrir norðan.
Bjarki segir þann 2.:
Snjóveður hafa verið öðru hvoru undanfarandi viku og er nú töluverður snjór og færð ill. Ís er hér í firðinum, en útifyrir lítill eða enginn, að því er sagt er.
Ísafold segir frá ísum þann 2.:
Vikuhríð látlaus var fyrir norðan, í Húnavatnssýslu, kringum pálmasunnadaginn [23.mars] og er talið víst, að eftir þá skorpu muni, ekki nokkur auð vök á Húnaflóa. Riðið beint af Vatnsnesi vestur i Skriðnesenni.
Lagnaðarís við Stykkishólm svo mikill, að ekki var hægt að koma þar upp vörum úr Vestu, en farþegar komust af skörinni út í skipið. Ísinn keyrði þar saman í pálmasunnudagsveðrinu og fyllti alla firði og víkur út á Öndverðanes, svo að vermenn komu þar engri fleytu fram og urðu að fara fótgangandi heim á páskunum, inn í sveitir. [s62]
Norðurland segir þann 5.apríl:
Harðindi eru hér mikil um þessar mundir, snjókoma flesta daga, meiri eða minni, og frost töluvert. Jarðbönn alger víst hvarvetna hér nærlendis.
Bjarki segir 11.apríl:
Ís er hér enn í firðinum, en autt haf fyrir utan fjarðarmynnið. Sama er sagt úr næstu fjörðum hér fyrir norðan og sunnan. Ekki þyrfti nema lítinn vind á vestan til að hreinsa firðina. Ceres sást útifyrir Reyðarfirði um það leyti sem hennar var von hingað til Austurlands og hafði verið á sveimi þar úti fyrir í 4 daga. Þá hefur hún án efa snúið við út aftur. Hún hafði meðferðis mikið af vörum hingað til Seyðisfjarðar. Þeim hefði hún getað skipað hér upp ef henni hefði verið ætlað að koma hér við á leiðinni til Vesturlandsins. Veður er nú stöðugt kyrrt, hita-sólskin á daginn, og vinnur þó lítið sem ekkert á gaddinum, en töluvert frost á nóttum. Snjór er mikill hér í firðinum og þó engu minni að sögn á Héraði. Sumstaðar er orðið tæpt um hey.
Þann 12. segir Norðurland:
Veðrið hefir verið stillt alla þessa viku, frost á nóttum og hreinviðri og sólbráð á daginn. Í gær brá til meiri hlýinda, 67 stig í forsælu og sunnanátt, en veðurhægð. Ofurlítið er farið að taka í fjallahlíðarnar, en víðast hvar þó sem einn jökull yfir að líta.
Austri segir þann 26.:
Hláka hefir nú verið síðustu daga, svo góð jörð er komin upp hér í firðinum. Í dag er hægur suðvestanblær og 8° hiti, svo vonandi er að ísinn reki nú brátt héðan af firðinum. Íslaust kvað nú vera á Bakkafirði og þar útaf; á Vopnafirði og Þistilfirði lítill ís.
Þann 30.apríl birti Ísafold nokkur bréf utan af landi:
Skagafirði l9. apríl. Veðráttan köld. Ís töluverður i firðinum og snjór allmikill. Aðfaranótt hins 13. [mars] byrjaði veðurstaða og snjókoma á norðan, og síðan hefir verið kalt og eigi tekið upp snjóinn.
Árnessýslu 21. apríl. Tíðin má heita góð til landsins, sífeldur mari, með lítilli úrkomu oftast, leysir ísa af mýrum og klaka úr jörð með degi hverjum. Til sjávarins er allt lakara. Hefir vertíð þessi að öllu samtöldu verið ein hin lakasta í manna minnum; fiskileysið og gæftaleysið hefir haldist í hendur, og gæftaleysið þó líklega bagað meira.
Blönduós 18. apríl. Mikill ófögnuður er að horfa hér út á flóann fullan af ís svo þéttum, að ganga má yfir þvert og endilangt. Gengið hefir verið á 2 klukkustundum frá Blönduósi að Krossanesi á Vatnsnesi og eru það 2 mílur vegar. Hákarlsafli hefir að þessu verið mikill upp um ísinn, einkum á Skagaströnd. Svo sem við er að búast, er tíð óstöðug og ill, frost mikil, hríðar og þokur, en þó logn og sólskinsdagar á milli.
Vestri segir af tíð og ís í apríl:
[5.] Hafís hefir komið hér inn undir Bolungarvík og sér ekki út yfir hann úr Breiðhillu (sylla í Stigahlið). Að vestan fréttist, að ísinn væri landfastur við Sléttanes. Ísbreiðan svo langt sem auga eygir fyrir öllum Ströndum.
[12.] Vesta kom hér 7. þ.m. og varð ekki vör við neinn ís fyrir Vestfjörðum, en ís hafði verið að sjá norður undan Rit. Gambetta sem kom hér 19. [mars] hefir legið innifrosin hér við bryggjuna og er nú verið að saga hana út. Er nú ísinn loks brotinn úr Sundinu, en Pollurinn þakinn þykkum ís ennþá.
Þann 24.maí segir Vestri frá óhappi mánuði áður:
Skip rak sig á jaka og sökk á Skjálfandaflóa á sumardaginn fyrsta (24.apríl). Skipshöfnin komst í bátinn og bjargaðist öll. Skipið var með salt til Blönduóss.
Þjóðviljinn ungi lýsir apríltíð í nokkrum pistlum frá Bessastöðum:
[5.] Tíðarfarið hefir verið kalsasamt, sífelld norðan- eða norðaustan-átt, og snjóhret á páskadaginn (30.f.m.). Strandferðaskipið Ceres" kom til Reykjavíkur 25. [mars], og fréttist þá að hafís væri eigi siglingum til Ísafjarðar og Vestfjarðanna til tálmunar. Hr. Gottfredsen, skipstjóri Vestu", sýnist þvi hafa verið í meira lagi varasamur, er hann sneri aftur við Látrabjarg, enda er hann sagður all-deigur, þar sem við ísinn er að tefla.
Aðfaranóttina 24. [mars] strandaði íslensk fiskiskúta í Selvogi, rakst á svo nefnd Löngusker vestanvert við Selvog í ofsanorðanrokinu er þá var. Menn björguðust allir. Skipið var eign Gramsfélagsins í Dýrafirði, og hét Skrúður".
[12.] Tíðarfarið. 5. þ.m. sneri til suðaustanveðráttu, svo að vonandi er, að hafísinn hafi nú máski þokast svo frá landinu, að siglingar komist til norðurlandsins.
[18.] Veðrátta hefir verið allóblíð síðustu dagana, norðangarður með ærnu frosti og jafnvel fannkomu öðru hvoru.
Þjóðólfur birti 2.maí bréf úr Húnavatnssýslu dagsett 16.apríl (dálítið stytt hér):
Tíðin er afarill lengstum; t.d. frá 18. mars til 2. þ.m. stóð alltaf nálega látlaus stórhríð af norðri með 1220 gr, frost á C. hér við sjóinn, setti þá sumstaðar niður afarmikla fönn, og er jarðlaust enn, þar sem verst er. 3. þ.m. stillti til, og gerði gott veður og sólbráð þangað til 14. þ.m., og hafa síðan verið vonskuhríðar og norðanrok, og svo er enn. Húnaflói er gersamlega fullur af ís, og allt samfrosta út fyrir Reykjarfjörð, og út undir Hafnarif hérna megin. Hefur verið gengið af Vatnsnesi beint yfir á Blönduós, og sömuleiðis af Vatnsnesi og yfir á Strandir, og mætti sjálfsagt ganga þessa hellu, hvar sem væri, þó það hafi ekki verið reynt. Æðarfuglinn hrynur niður unnvörpum, og er sagt, að sumstaðar megi ganga á torfunum af honum dauðum og hálfdauðum á ísnum. Hefur hann aldrei fallið svo, síðan veturinn 8081, og verður þó sjálfsagt enn verra nú, ef ísinn fer ekki því fyrr, sem ekki lítur út fyrir.
Maí: Mjög þurrt syðra fyrri hlutann. Mikið hret með frosti síðustu vikuna. Kalt.
Þjóðviljinn ungi (á Bessastöðum] segir þann 6.maí:
Sumarveðrátta má heita, að verið hafi hér einatt síðan sumarið byrjaði, talsverður hiti flesta dagana og úrkoma skapleg. Síðustu dagana norðanátt með kælu.
Þann 26. segir Norðurland:
Lagísinn nær út að Svalbarðseyri og þar þvert yfir fjörðinn. Við Svalbarðseyri er hann sagður 1/2 til 1 alin á þykkt. Nokkuð breið hafísspilda er samfrosin lagísbrúninni og verður naumast yfir hana komist. Komi skip áður en hana leysir burt er líklegast að skipa verði upp úr þeim á Hjalteyri.
Bjarki segir þann 2.:
Veður og ís. Fyrir helgina skipti um veður og kom hláka og sunnanátt. Snjór hefur mikið tekið og jörð komin upp en hafísinn rak hér út úr fjörðunum fyrri part vikunnar. En á miðvikudaginn fór ísinn að reka að aftur og nú sem stendur er fjörðurinn hér og næstu firðir aftur fullir, en ekki er ísinn þó meiri en svo, að hann rétt fyllir firðina og er autt haf strax fyrir utan.
Þann 3.maí segir Norðurland:
Hólar" komu hingað inn á fjörðinn þriðjudaginn 29. [apríl], komust þá inn undir Svalbarðseyri árdegis, og þar komu nokkrir Akureyrarbúar út í skipið um kl. 4 síðdegis. Þá var tekið að hvessa á norðan. Skipstjóri ætlaði að brjótast sem lengst inn í lagísinn og gerði tilraun til þess, en varð ekkert ágengt, því ísbrúnin var svo samanrekin og skipið komst út úr ísnum aftur við illan leik. Þegar það var komið út fyrir Toppeyrargrunn, kom hafísinn utan fjörðinn á móti því, svo það varð að hleypa undan, inn fyrir Gæsaeyri og þar lagðist það. Kl. 2 um nóttina var skipið lukt hafísjökum og þar hefir það verið síðan. En hættulaust er þar með öllu, enda þessi staður með hinum bestu hér við fjörðinn. Væntanlega greiðist þessi ís sundur bráðlega «g fer út úr firðinum, því að hann er hvergi samfrosinn, enda ekki sagður mikill úti í firðinum. Hólar" komust hvergi á höfn frá Reykjavík, nema á Fáskrúðsfjörð. Ískraginn með fram landinu byrjaði suður við Dyrhólaey, og jakar voru komnir til Vestmannaeyja. Þessi kragi náði allt að Langanesi. Aftur á móti var íslaust úti fyrir, nema talsverður ís fyrir utan Sléttu og svo vestur af Eyjafjarðarmynni. Á Húsavík komst skipið ekki vegna hvassviðris. ... Þegar hafísinn lónar út, er búist við, að skipið muni komast allt inn að Oddeyri, því að lagísinn er að verða að froðu og talsvert orðið autt með vesturlandinu.
Þann 10.maí greinir Norðurland en af ís:
Lagísinn allur, að kalla má, er nú horfinn hér af firðinum. Hafísinn, sem barst hingað inn á fjörðinn 29. f.m., fór aftur á þriðjudaginn var [6.]. En í gær var íshroða að reka inn fjörðinn enn af nýju, sennilega vestan af Húnaflóa; líklegt, að hann hafi losnað þaðan í suðvestanvindunum, sem verið hafa fyrirfarandi daga, þangað til í gærmorgun, er kominn var norðankaldi, sem flutt hefir ísinn inn fjörðinn.
Bjarki segir þann 16.:
Veður er kalt þessa dagana, frost töluvert á nóttum og lítil leysing á daginn. Ís er nú enginn hér við Austurland.
Þann 30.maí segir Bjarki:
Veðrið hefur verið ljótt undanfarandi viku, snjóveður á hverjum degi, á miðvikudaginn (28.maí) dimmviður með mikilli fannkomu og í gær og dag frost og kafaldsbyljir eins og á þorra. Töluverður nýr snjór er kominn. Um þetta leyti árs muna menn ekki annað eins veður.
Arnfirðingur segir þann 30.maí:
Veðrið afarkalt þessa viku alla, frost hverja nótt og hitinn kringum 0 á daginn. Á þriðjudaginn [27.] var 1 stigs frost og alhvítt niður að sjó, en fjöll stöðugt grá í miðjar hlíðar.
Norðurland segir þann 31.:
Harðindi veruleg eru nú á Norðurlandi. Hvítt ofan í sjó, meiri og minni snjóhraglandi dag eftir dag og venjulega dálítið frost um hádaginn. Afleiðingarnar sýnilegar um hásauðburðinn. Lambadauði sumstaðar mikill og hvarvetna ákaflegir örðugleikar með féð. Heyskortur hjá sumum, en þó að næg hey séu til, horast ærnar. Sumstaðar er lítið eða ekkert til handa kúnum, enda farið að beita þeim út, þrátt fyrir gróðurleysið, áður en snjórinn kom.
Ísafold segir þann 31.:
Norðangarðinum, sem byrjaði á þriðjudaginn, létti í gærkveldi. Hann var mjög snarpur, með megnu fjúki til fjalla, og þá norðanfjalls fráleitt síður; meir að segja ákaflega hætt við, að hafisinn hafi keyrt inn aftur á firðina nyrðra, er hann var horfinn af áður.
Júní: Einkum var þurrt fyrri hlutann. Kalt, í meðallagi inn til landsins nyrðra, en kalt á hafíssvæðunum.
Norðurland segir frá þann 7.júní:
Inni á Húnaflóa var hafís, þegar síðast fréttist, út fyrir Höfðakaupstað. Skálholt komst ekki inn á viðkomustaði þar. Tíðarfar hefir mjög breyst til batnaðar, síðan er síðasta blað Norðurlands kom út landátt og talsverð hlýindi. Jörð grænkar nú óðum með degi hverjum, og ekki loku fyrir skotið, að grasvöxtur kunni að verða bærilegur. Þar á móti gera menn sér litla von um garðyrkjuna í sumar, þar sem hlýindin komu svo seint.
Austri segir frá júnítíð:
[5.] Tíðarfarið hefir fyrirfarandi verið hið indælasta, sólskin og hiti á hverjum degi, allt upp í 14°R í skugganum, en aftur nokkru kaldara síðustu 2 dagana.
[28.] Tíðarfarið er nú loksins gengið til verulegs bata, landátt, og sumarhiti 1314°R. með hlýrri sallarigningu, svo grassprettunni fer nú óðum fram.
Norðurland segir frá þann 14.júní:
Tíðarfar alltaf kalt mjög, norðanþyrkingar á degi hverjum og norðanþoka á fjöllum flestar nætur. Jarðargróður tekur nauðalitlum framförum. Hafísinn var ekki farinn af Húnaflóa snemma í þessari viku, en skip var komið til Höepfners verslunar á Blönduósi, hafði komist inn um einhverja rifu. Vesta ætlaði að komast þangað inn á norðurleið, en gat ekki. Ekki komst hún heldur inn á Sauðárkrók fyrir ís.
Arnfirðingur (á Bíldudal) kvartar óvenjulega þann 21.:
Veður hefur verið allt of bjart þessa viku, sól allan sólarhringinn að kalla má. Hægur norðanblær hefur séð við því að við yrðum að steik, en ofbirtan er mörgum hættuleg hér.
Þjóðviljinn ungi segir af vatnagangi við Markarfljót í pistli þann 21.júní:
Svo sem kunnugt er, varð hinn mesti voði að því í Út-Landeyjum í vetur, að Markarfljót lagðist yfir í Þverá og hleypti í hana miklum vexti, svo að hún braust út úr farvegi sínum á ýmsum stöðum, einkum við Bakkakotsós og Valalæk. Búnaðarfélag Íslands fékk þá Sveinbjörn búfræðing Ólafsson til að standa fyrir umbótum á skemmdum þessum. Skýrir hann svo frá 5. þ.m., að tekist hafi að hlaða upp i Bakkakotsós, en 3 árangurslausar tilraunir hafi verið gjörðar til að stífla Valalæk og til þess varið 2000 kr. Var það þá tekið til bragðs að senda austur mannvirkjafræðing Knud Zimsen og kom hann aftur þann 17. Segir hann svo frá, að 12 jörðum sé bráð eyðilegging vís og 4 undir stórskemmdum, ef eigi verði aðgjört. Vatnið ryðst fram með feikna afli, um 40000 tunnur á mínútunni, og eigi gjörlegt að hlaða fyrir það, nema fyrst sé gjörð timburstífla í opið og síðan hlaðinn traustur garður á bak við. Þetta áætlar hann að kosta mundi 6000 kr. Nú er eftir að sjá hvaða rögg landstjórnin sýnir af sér til að ráða bót á þessum vandkvæðum, því að ofvaxið er það búendum jarðanna og sýslusjóði, að leggja fram fé, svo að dugi.
Júlí: Mjög hagstæð tíð syðra. Lengst af þurrt. Kalt, einkum á hafíssvæðunum.
Norðurland segir um júlítíðina:
[5.] Gróðrarveður hefir verið fyrirtaks gott nú allt að tveim viku og jörðin tekið nær því ótrúlegum stakkaskiptum.
[12.] Kalt hefir að jafnaði verið þessa viku og jarðargróður því ekki tekið nærri því eins miklum framförum eins og áhorfðist, þegar síðasta Norðurland" kom út. Grasvöxtur víst víðast hvar miklu lakari en í meðallagi.
[26.] Hafís segja menn á lystiskipi frönsku, sem hér kom snemma í þessari viku, að hafi verið 5 mílur frá Horni. Enda er tíðin köld mjög. Þó að heitir dagar komi við og við, er von bráðar aftur orðið kalt. Grasvöxtur mjög misjafn, sumstaðar í meðallagi, en á öðrum stöðum miklu lakari.
Austri segir svipaða sögu af Austurlandi í júlí:
[7.] Tíðin alltaf hagstæð, hitar og úrkomur, svo grassprettu fer nú vel fram á degi hverjum. [12.] Veðrátta fremur köld. [18.] Tíðarfar alltaf fremur kalt, svo grasvexti hefir eigi getað farið fram sem skyldi. [25.] Veðrátta fremur óstöðug, köld og stormasöm síðustu dagana.
Öðruvísi viðraði syðra, Þjóðólfur lýsir tíð í pistli þann 25.:
Veðurátta óvenjulega þurr og hlý hér á Suðurlandi þennan mánuð. Grasvöxtur í lakara lagi, einkum á túnum. Sláttur nýbyrjaður og sumstaðar að byrja þessa dagana hér austur i sveitunum.
Svipað segir Ísafold þann 30.:
Þurrviðri óvenjumikil hafa gengið hér lengi, og mun þetta vera eitt hið mesta þurrkasumar í manna minnum. Því fylgir vitanlega grasbrestur allmikill víða, með því líka að kuldi fylgir þurrviðrunum, með frosti og snjó til fjalla öðru hvoru. Og hafís hafa fiskiþilskip hitt fyrir mjög nærri Hornströndum nýlega.
Þjóðviljinn ungi segir þann 4.:
Hinna illræmdu, alkunnu sunnlensku rigninga hefir enn orðið lítið vart, sem af er sumri, en tíðin yfirleitt verið mjög þurrviðrasöm.
Þjóðviljinn birti þann 30. bréf úr Dýrafirði, dagsett 20.júlí:
Héðan er að frétta sífelldan þurrk, og grasbrest í mesta lagi, enda víða farið að brenna gras af hólum og túnbörðum til skemmda, og útengjar að því skapi, svo að til báginda horfir, einkum hjá einyrkjum og liðfáum hændum, sem all-flestir eru hér, og enga manneskju hægt að fá, hvað sem í boði er.
Þjóðólfur birti þann 1.ágúst bréf af Eyrarbakka ritað 25.júlí:
Sérlega stöðugir þurrkar, og grasvöxtur sæmilegur allvíðast, bæði á túnum þar sem þau eru, og á útjörð, einkum þar sem votlent er. Þrisvar á næstliðnum 30 árum hefur orðið svo þurr jörð, sem nú er orðin. Allflestir hér byrjaðir að slá. Guðmundur Ísleifsson á Háeyri hefur hirt af hvanngrænu utantúnsheyi 150 hesta, en byrjaði slátt í flóðinu 7. þ.m.
Ágúst: Hagstæð tíð syðra og þurrviðrasamt fyrstu 3 vikurnar. Óhagstæð tíð norðaustanlands. Kalt.
Norðurland segir þann 2.ágúst:
Tíðarfar illt, kalt og óþurrkasamt. Um síðustu helgi [26. til 27.júlí] snjóaði á fjöll nótt eftir nótt og hörku-frost var ofan að sjó eina nóttina í þessari viku. Hjá flestum mun megnið af töðunum vera óhirt.
Arnfirðingur (fluttur til Reykjavíkur) segir þann 7. ágúst:
Þjóðhátíð Reykjavíkur 2. ágúst. Veðrið var nærri suðrænt, baksturshiti og amerískt logn. Hátíðin fór fram siðsamlega og skipulega, en var ekki að neinu leyti tilkomumeiri en slíkar hátíðir eru vanar að vera á útkjálkum eða upp til sveita.
Norðurland 9.ágúst:
Vatnavoðann í Landeyjum hefir ekki tekist að hefta, þótt tilraun væri til þess gerð undir forystu K. Zimsens mannvirkjafræðings. Vatnið reyndist óviðráðanlegt.
Norðurland segir 23.ágúst:
Snjór kom í fjöll á mánudaginn og þriðjudaginn 18. og 19. þ.m. Flestum ber saman um, að þetta sé kaldasta sumarið, sem þeir muna eftir.
Þjóðviljinn ungi segir af ágústíðinni (frá Bessastöðum) - og birtir auk þess bréf úr Dýrafirði:
[6.] Þurrviðri hafa haldið áfram hér syðra, nema tveggja daga rigning, 29.30. þ.m. Þjóðminningardag Reykvíkinga, 2.ágúst, var sólskin og blíðviðri, og jók það mjög hátíðargleðina.
[13.] Sama sumarblíðan helst enn hér syðra á degi hverjum. Sumarið yfirleitt eitt hið blíðasta og sólskinsríkasta sem menn muna.
[20.] Blíðskapartíð hefir haldist hér syðra að undanförnu, all-oftast sólskin og þurrviðri.
[27.] Votviðri hafa nú gengið öðru hvoru, síðan 21. þ. m.; þurrviðri þó í gær og í dag. Úr Dýrafirði er skrifað 12. ágúst 1902: Veðrátta er hér ágæt, og nýting hin besta, en grasbrestur svo mikill, að síðan 1881 hefir eigi jafn illt verið, svo að til báginda horfir hjá mörgum.
September: Hagstæð tíð. Hiti í meðallagi.
Arnfirðingur segir af tíð þann 3.september:
Tíð sögð afarköld nær um allt land. Frost á nóttum eystra fram eftir öllum ágúst og þar snjóaði niður eftir hlíðum sumar nætur. Umbrotaófærð á heiðum.
Þjóðólfur hrósar sumrinu þann 4.september:
Veðurátta hefur verið ómunagóð hér á Suðurlandi þetta sumar, sífelldir þurrkar og hreinviðri. Hefur því nýting á heyjum orðið hin besta, og heyfengur manna með mesta móti yfirleitt, þrátt fyrir nokkurn grasbrest víðast hvar. Mun sumar þetta lengi í minnum haft hér sunnanlands, sem frábært veðurblíðu- og þurrkasumar. Síðan 1895 hefur hvert sumarið verið öðru lakara og votviðrasamara hér syðra. Af Norður- og Austurlandi er að frétta kuldatíð og votviðri.
Ísafold segir þann 6.september:
Hlaup i Tungufljóti. Fimmtudag 21. [ágúst] kom jökulhlaup mikið og óvenjulegt í Tungufljót. Það flóði langt yfir bakka og gerði töluverðan usla á engjum í Tungunni, einkum Pollengi svo nefndu; þar eru slægjur lánaðar í ýmsar áttir og er uppgripaheyskapur, sagt, að meðalmaður slái þar 1520 hesta á dag. Þar hafði í þann mund Guðmundur bóndi Erlendsson frá Skipholti verið að slætti 4 daga við 10. mann, og tók áin þann heyafla mest allan og ónýtti engið að þessu sinni með jökulburði. Kvísl kemur í Tungufljót úr Hagavatni, er liggur upp við Langjökul (Hagafell). Þar er talið að jökull muni hafa hlaupið, og kenndi þaðan jökulfýlu. Fljótið var óreitt alstaðar síðan hlaupið, er síðast fréttist. Allir, sem til Gullfoss ætluðu frá Geysi, orðið að setjast aftur. Svo er sagt, að verið hafi til að sjá eins og í vegg, er hlaupið valt ofan ána.
Ísafold segir frá tíð þann 10.september:
Gæðatíð er enn hér um slóðir, þótt nokkuð sé farið að kólna. Varð ekkert úr, að til votviðra brygði með höfuðdegi. En annað er að heyra að norðan. Maður kom í gær norðan úr Skagafirði og segir þar hafa verið norðansvækjur með kulda og þokum allan síðari hluta f. mán. Um 20. [ágúst] snjóaði svo í byggð í Gönguskörðum, að haglaust var fram á miðjan dag og kúm eigi hleypt út. Varla nokkurt strá komið í garð af útheyi, sakir óþurrka, og þess, að túnasláttur stóð svo lengi yfir, vegna sneggju og þurrka þá, með fólksleysinu. Þessu lík veðrátta, er lengra dró norður. En betra fyrir vestan Vatnsskarð. Fyrir viku sást frá Blönduós hafísjaki geysistór innarlega á Húnaflóa. Annar hafði verið í sama mund inni á Reykjarfirði. Hafísglampi sýnilegur norður undan í allt sumar.
Heldur skánandi hljóð í Austra í september:
[12.] Tíðarfarið hefir verið hið besta nú undanfarandi. Þó hefir snjóað í fjöll síðustu næturnar. [20.] Tíðarfar votviðrasamt fyrripart vikunnar og snjóaði töluvert í fjöll. Síðustu dagana hreinviðri með frosti um nætur. [27.] Veðurblíða á hverjum degi.
Þjóðviljinn ungi birt þann 25. bréf af Vestfjörðum - ólíku tíðarfari lýst:
Úr Norður Ísafjarðarsýslu er skrifað 12. september: Hér hafa í sumar verið sífelldir þurrkar, og blíðskapartíð, svo að heyskapur manna hefir yfirleitt gengið að óskum, þótt tún væru snögg, En það er ekki saman berandi, að fá heyin inn óhrakin, eða fá þau inn kraftlaus í óþurrkatíð, og þá hefir líka verið eitthvað annað, að fást við fiskþurrkunina, en í fyrra sumar. 6. þ.m. snerist veðrátta til suðvestan storma og rigninga, en stóð aðeins 23 daga, og síðan aftur blíðskaparveðrátta.
Úr Strandasýslu, norðanverðri, er skrifað 4.september: Síðan i 14. viku sumars hafa gengið sífelldir óþurrkar norðan Steingrímsfjarðar, svo að stöku menn eiga enn nokkuð af töðum sínum úti".
Norðurland segir þann 20.september:
Tíðarfar mjög kalt, mikið frost á hverri nóttu og svo mikill snjór kominn í fjöllin, að sennilega tekur hann ekki upp aftur á þessu hausti.
Sumarið hefir verið frámunalega þurrt og bjart á Suðurlandi. Ísafold segir, að Þingvallavatn hafi þorrið um 18 þumlunga á rúmri viku í ágústmánuði. Mikill vatnsskortur var í Þingvallasveitinni; t.d. varð að sækja vatn á hestum suður í Þingvallavatn frá Skógarkoti. Skjaldbreiður, Hlöðufell og Hekla alveg snjólaus.
Norðurland segir 27.september:
Heyskapur mun mega segja, að hafi orðið í tæpu meðallagi hér um sveitir almennt, og er í raun og veru furða, hve vel hefir úr honum ræst á þessu sumri, sem er eitthvert hið kaldasta í manna minnum. Nýting hefir verið góð. Kartöflu-uppskera hér á Akureyri er yfirleitt í meðallagi, nema í görðum, sem liggja mjög hátt og móti norðri. Þar hefir hún alveg brugðist.
Október: Hagstæð tíð. Úrkomusamt á Suður- og Vesturlandi. Fremur hlýtt, einkum norðaustanlands.
Þjóðólfur birti þann 3.október pistil úr Rangárþingi - eftirmæli sumarsins og hugleiðingar um sandfok og vatnaágang í sveitinni:
Þá er nú þessi sláttur að kveðja okkur Rangæinga, því almennt voru menn hér búnir með slægjulöndin kringum 13. [september]. Þessi liðni sláttur má kallast einn lygn og fagur sólskinsdagur, og ætti okkur að vera minnisstæður, sem erum venjulega vanir þessari miklu úrkomutíð. Grasvöxtur var yfirleitt með rýrara móti, sérstaklega í þeim hreppum sem fjærst liggja sjónum, svo sem i Landhreppi, efri hluta Rangárvalla og Holtahreppi. Þaðan hafa margir sótt heyskap í Safarmýri, sem er afarlangt, full dagleið frá sumum stöðum; hefur það bætt heyfeng þeirra og heyfyrningar frá fyrri árum, sem munu hafa verið miklar víðast hvar. Aftur munu aðrir hreppar sýslunnar bjarglega heyjaðir, og á sumum stöðum ágætlega; þar sem blaut engi hafa verið að undanförnu urðu í sumar þar auðunnin. Sú votlenda Safarmýri kvað nú að mestu teigslegin, og er það nýlunda, og þeir, sem næstir henni liggja, kappheyjaðir.
Það mun mega fullyrða það, að hér í sýslu sé hlýrri veðurátta en annarstaðar á landinu, og veðursælla. En hér eru líka ýmsir ókostir, er önnur sýslufélög þekkja lítið til, sem eru þessar miklu sandauðnir, er stafa frá Heklugosum frá fyrri öldum. Þegar stormar ganga og standa eftir þessum sandflákum, þyrlast mold og sandur í háa loft, svo varla er ratfært um hábjartan dag. Slíkir sandbylir eru afarskaðlegir, vegna meiri uppblásturs og annarrar óhamingju, er af þeim stafar.
Þá eru það vötnin, sem gera hér ógurlegt tjón árlega, þótt nú hafi þetta ár yfirtekið, þar útlit er fyrir, að einn fjórði hluti Vestur-Landeyjahrepps leggist i auðn út af því, að Þverá, ásamt báðum Rangánum, er þær allar eru komnar saman, hafa á síðastliðnum vetri brotið skarð í bakkann við svonefndan Valalæk, og flóð þar inn á vestasta part hreppsins og gert þar afar spjöll. Til að sjá, er sem grilli í hundaþúfu, þar sem bæirnir standa innan um vatnið. Áður var þessi partur hreppsins einhver sá grösugasti, og gaf af sér heyskap, er fleiri tugum þúsunda hesta skipti. Það er Markarfljót, er þessum ófagnaði veldur; þegar það brýst áfram úr gljúfraþrengslum með sínum jötunkraft og kemur fram á sandana, leggur það lykkju á leið sína til útsuðurs, að Þórólfsfelli; þaðan fellur það með hraðri rás í Þverá, því nógur er hallinn. Þverá myndast af smáám, er falla úr Fljótshlíðinni, en þegar fljótið er komið líka, myndast þar stórt vatnsfall, afarillt yfirferðar, er brýtur árlega margan fagran grasi gróinn blettinn af hinni fögru Fljótshlíð. Aftur, þegar Þverá kemur út í Hvolhreppinn, fer hún hægara, er halli er minni, ber hún þar undir sig sand og aur, svo árbakkarnir, sem eru grasi grónir, eru litlu hærri en vatnsfarvegurinn, og þegar hlaup koma í ána, flæðir hún yfir slægjulöndin, ber þar ofan á sand og möl til stórskaða. Sömu eða verri forlögum sætir neðri hluti Rangárvalla, þegar Þverá með Eystri-Rangá brjótast gegnum svonefnda Bakkabæi út í Þykkvabæjarvötn. Þar á Bakkabæjunum eru óskemmtilegir bústaðir, árbakkarnir svo lágir, skörðóttir og ótraustir, að alltaf má vænta, að þessi mikli vatnskraftur ryðji sér farveg gegnum þessa haldlitlu bakka og flæði svo yfir allt. Í september 1902. M.G.
Austri segir þann 11.: Tíðarfarið er alltaf hið indælasta á degi hverjum er léttir mjög undir með mönnum með öll haustverk.
Arnfirðingur (í Reykjavík) segir þann 14.:
Veður er hér einmuna gott, í samanburði við það,sem vant er að vera um þennan tíma. Regnsamt nokkuð með köflum, en endar alltaf með sólskini og heiðríkju hvernig sem áhorfist.
Þjóðólfur lýsir tíð þann 17.október:
Veðurátta hefur verið ágætlega góð það sem af er haustinu, framhald af hinu fágæta sumri, svo að menn muna ekki eftir jafngóðri tíð samfleytt síðan um sumarmál að kalla má. Enginn snjór fallinn enn hér í fjöll. Skarðsheiði t.d. alauð úr Reykjavík að sjá, nú eftir miðjan október, og hefur þar ekki sést hvítur díll í fjallinu síðan seint í sumar, og þykir Reykjavíkurbúum það fágætt.
Norðurland segir þann 18.október:
Tíðarfar gott enn; nokkuð þó farið að kólna. Jörð alhvít að morgni í fyrradag, fyrsta sinni á þessu hausti og töluvert frost á nóttum.
Norðurland birti þann 29.nóvember bréf úr Dalasýslu, dagsett 24.október:
Sumarið nú að kveðja, sjálfsagt, að minnsta kosti frá sláttarbyrjun, eitt hið besta, blíðasta og hagstæðasta, sem lengi hefir komið, og þá ekki haustið síður. Töður að vísu víða í minna lagi, vegna þurrkanna í vor, en slægjur utantúns urðu á endanum í meðallagi og nýting hin besta.
Norðurland birti þann 1.nóvember skýrslu Stefáns Stefánssonar á Möðruvöllum um veðráttufar sumarsins í Eyjafirði:
Það byrjaði vel, sumarið, með suðaustan hlýju. Síðustu dagana af apríl var um 10 gráða hiti um hádaginn, og frostlausar nætur með alt að 5 gr. hita. Úrkoma var lítil sem engin og loft létt. Um mánaðamótin skipti um veðráttu og var maímánuður allur að heita mátti samfeld harðinda skorpa. Allan mánuðinn voru einar 8 nætur frostlausar (í fyrra 22) og mestur næturhiti 4 1/2 gr. og það aðeins eina nótt. Aðra nótt var 4 gr. hiti, en annars var hitinn 12 gr. hinar 6 næturnar. Í fyrra voru sjö nætur með yfir 5 gr. hita og þar af tvær með 10 og 13 gr. Fimm daga var frost um hádaginn, aldrei í fyrra. 12 daga var hádegishitinn undir 5 gr. 4 daga í fyrra. ... Langhæstur hádegishiti í maí í vor var tæpar 15 gr., en í fyrra voru 4 dagar með yfir 20 gr. hita, 23 gr. hæst. Úrkomudagar voru 20 í maí í vor, 11 daga snjókoma, 4 daga regn og 5 daga þoka. Þann 28. mátti heita stórhríð. Í fyrra snjóaði að eins 4 sinnum og það lítilsháttar, gránaði að eins einu sinni í rót, en festi annars ekki. Norðanátt var nærfellt allan mánaðardaga, brá að eins stöku sinnum til suðvesturs, en stutt í senn.
Engin veruleg breyting varð á tíðarfarinu með júníbyrjuninni, það hélst að heita mátti óbreytt sumarið út. Væri ef til vill réttara að orða það svo, að sumarið hefði eiginlega aldrei gert vart við sig, og síst þá fyrri en með haustinu, en köld vorveðrátta hefði haldist fram í septembermánuð. Þá tók við óvenjulega stillt og mild hausttíð er hélst til veturnótta. Sérstaklega hefir október verið óminnilega góður, oftast logn og úrkomulaust. Snjókoma engin svo teljandi sé, að eins gránaði í fjöll stöku sinnum seinni hluta mánaðarins, og alls einu sinni, aðfaranótt þ.16., fölvaði í sjó niður, en það föl tók aftur samstundis. Í sumarlok var alauð jörð milli háfjalla og fjöru og veturinn byrjaði með 10 gr. hita.
Jörð greri seint, eins og að líkindum lætur, í slíkri vortíð og langt var liðið júnímánaðar, þegar margar þær plöntur, sem venjulega blómgast i maí, opnuðu blómkrónur sínar. En svo hafa margar plöntur blómstrað í óðaönn allt til þessa tíma. Grasspretta varð fremur rýr alstaðar, og sumstaðar brugðust engjar að mestu leyti, t.d. á Möðruvöllum í Hörgárdal; þar varð heyfall ekki helmingur á við það, sem verið hefir undanfarið. Nýting á heyjum fremur í lakara lagi. En eitt er fremur öllu öðru einkennilegt við þetta sumar; það eru kyrrviðrin. Allt sumarið hefir aldrei hvesst til muna. Eina 4 daga, (1. júní, 10. og 11. september og 24. október) hefir verið stinnings vindur, annars logn eða hæg gola.
Vestri segir frá þann 31.október:
Síðan litlu fyrir veturnætur hafa gengið krapahríðir og rigningar, og nú síðast norðan garðar. Í dag (3l.október) var fyrst krapahríð og síðan harðviðrisbylur með talsverðu frosti.
Nóvember: Fremur kalt með nokkurri snjókomu vestan- og norðanlands í fyrstu, en síðan hlý og hagstæð tíð að slepptu einu ofsaveðri.
Fréttablaðið Reykjavík segir þann 8.nóvember:
Fyrsti snjórinn, er komið hefir hér haust, var 30. [október], var þá allan daginn mikil hríð, en daginn eftir var hláka og öll fönn horfin. Síðan hefir að mestu verið þíða. Á Akureyri var alhvítt 17. f.m.
Austri lýsir nóvembertíð stuttlega:
[1.] Tíðarfar er nú aftur hið blíðasta og sá snjór nær allur tekinn upp, er kom hér um miðja vikuna. [13.] Tíðarfar alltaf fremur milt og varla meir en gránað í rót. [25.] Sumarveðrátta á degi hverjum. Snjólaust nema á á hæstu fjallatindum.
Þjóðólfur segir frá þann 7.nóvember:
Hólar komu loks í fyrrakveld með fjölda kaupafólks af Austfjörðum. Skipið var hætt komið í Vestmannaeyjum. Þar var ofsaveður á mánudagskveldið [3.], slitnuðu báðir akkerisstrengirnir, og var skipið nær rekið á land, er það slitnaði upp. Var þá ekki annað fangaráð, en að hleypa til hafs. En um nóttina lægði veðrið, svo að Hólar gátu haldið leiðar sinnar
hingað.
Austri segir nánar af Hólum í pistli 9.desember:
Eftir að búið var að skipa upp fólkinu í Vestmannaeyjum úr Hólum" í síðustu ferð, gerði svo mikið ofviðri, að skipið varð að færa sig af hinni venjulegu höfn vestur fyrir eyjarnar og lagðist þar fyrir báðum atkerum og hélt svo við af fullum krafti með gufuvélinni; en ofveðrið var svo mikið, að það sleit samt báðar atkerisfestarnar og skipið rak út á milli boða og skerja, en fyrir eitthvert lán hlekktist því eigi á og komst nær öllu heilu, að öðru leyti en festunum, inn á Reykjavíkurhöfn daginn eftir. Er það sannmælt um Captain 0st-Jacobsen, að hann er bæði duglegur og heppinn skipstjóri, svo marga raun sem hann hefir komist í hér við land, og sloppið vel frá þeim öllum.
Norðurland segir frá tíð þann 8.:
Snjór kominn töluverður, svo að ófærð er nokkur hér í hlíðunum. En veður milt síðari hluta vikunnar. Fyrstu daga hennar nokkurt frost.
Þjóðólfur birti þann 21. bréf úr Dalasýslu, dagsett þann 10.nóvember:
Tíðin i haust var ágæt fram um 20. október. En svo fór veðurátta að spillast af stórfelldri úrkomu, og nú, síðan 3. nóvember, hefur verið langvinnt ofsarok af norðri, og oft niðsvartir byljir með, svo sem í gær [9.]. Fénaður er því tekinn á gjöf, en sumstaðar vantar enn kindur, og eru þær eflaust hætt komnar. Í sumar var indælasta nýting og tíðarfar, svo heyskapur manna varð hér vestra með besta móti, þótt hann eigi væri með mesta móti því gras var fremur lítið.
Þann 20.nóvember birti Þjóðviljinn ungi bréf frá Ísafirði, dagsett þann 11.:
Tíð hefir verið hér ákaflega stirð síðastliðnar 3 vikur, fyrst sunnanátt og rigningar til mánaðamótanna, en síðan hefir haldist norðangarður, með frosti og fannkomu, og hefir hríðin oft verið svo svört, að varla hefir sést út úr dyrum, enda er jörð nú alþakin snævi, og ófærð mikil, og haglaust þegar fyrir allar skepnur.
Að kvöldi 14.nóvember og nóttina á eftir gerði gríðarlegt illviðri sem olli miklu tjóni. Ísafold segir frá þann 22.nóvember:
Skaðaveðrið í fyrri viku, föstudagskveldið 14. þ.m., hefir valdið allmiklu tjóni víðsvegar hér nærlendis. Þrjár kirkjur hafa fokið, er til hefir spurst: í Keflavík, í Saurbæ á Kjalarnesi og á Hvanneyri. Keflavíkurkirkja færðist spölkorn af grunni og bilaði svo, að rífa verður að sögn. Hún var ekki fullger, en miklu verið til hennar kostað, nokkrum þúsundum. Saurbæjarkirkju tók alveg upp og sendist í loftinu nokkra faðma, út fyrir kirkjugarðsgrindur, kom þar rétt niður að miklu leyti og lítið skemmd. Hvanneyrarkirkja hafði brotnað mjög. Hlöður tvær fuku á Geldingaá í Leirársveit og mörg fjárhús. Sömuleiðis fauk hlaða og fjárhús á Stóra-Botni við Hvalfjörð. Víðar hafa hey fokið og heyhlöður, og skemmdir orðið á opnum bátum, sumstaðar fokið alveg. Kaupfarið, sem sást til hér fyrir utan eyjar, var Valdemar, til W. Fischers. Það kom hér inn á þriðja degi, sunnudag; hafði hrakið vestur undir Jökul, en ekkert orðið að. Missögn, að misst hafi af sér báta sína báða. Hafnsögumennirnir báðir héðan voru í því, höfðu komist út, áður en rokið skall á.
Þjóðólfur segir af sama veðri þann 21.:
Kirkja fauk á Hvanneyri í Borgarfirði í aftakaveðrinu 15. þ.m. og mölbrotnaði. Var reist fyrir 8 árum. Hjá Ólafi bónda á Geldingaá fuku þök af 2 heyhlöðum og víðar í Borgarfirði urðu skemmdir af veðri þessu.
Ofsaveður mikið af landsuðri gerði hér aðfaranóttina 15. þ.m., eitthvert hið allrasnarpasta, er menn muna eftir. Var mesta furða, að ekki varð af því stórkostlegra tjón, en frést hefur um. En mikinn usla gerði það samt víða. Hér í bænum urðu töluverðar skemmdir á húsum, hjöllum og bátum. Fauk víða járn af húsþökum, gluggar brotnuðu og girðingar löskuðust. Þak af hálfsmíðuðu húsi fauk á sjó út og vindmylnan nýja, er höfð var til að dæla vatni úr Landakotsbrunninum (spítalabrunninum) brotnaði öll og beyglaðist, og er það allmikill skaði, því að hún var mestöll úr járni og allur sá útbúnaður kostnaðarsamur. Hér í grenndinni fauk kirkjan í í Saurbæ á Kjalarnesi, fór á hliðina út í kirkjugarðinn, og brotnaði mjög; einnig fauk ófullger kirkja í Keflavík. Í Mosfellssveitinni fuku sumstaðar hey og heyhlöður á 34 bæjum.
Um tjón það, er veður þetta gerði austanfjalls, er getið í eftirfarandi fréttabréfi úr Árnessýslu 18. nóvember: Aðfaranóttina 15. þ.m., um kl.10 e.h., brast hér á upp úr ákafri úrkomu ofsaveður af landsuðri, er hélst fram yfir kl. 2 1/2 um nóttina; í veðri þessu, sem er talið eitt með hörðustu veðrum hér af þeirri átt, fuku hlöður víða, bæði í Tungum og Hreppum; heyskaðar urðu og talsverðir; mestur er skaðinn talinn hjá Vigfúsi bónda í Haga í Eystrihrepp, þar fauk hlaða og þrefalt garðahús (þrísettir garðar voru í því) þetta var allt nýbyggt og hið vandaðasta og brotnaði svo, að ekki var laupsrimarlengd heil; á torfþökunum á bæjum og útihúsum varð mjög mikill skaði og hann svo sameiginlegur, að varla er hægt að færa fram eitt dæmi öðru frekar. Sjór gekk talsvert á land fyrir suðurströndinni og brotnaði brimflaumurinn á sjógörðum þeim, er til hlífðar eru settir við kaupstaðina Eyrarbakka og Stokkseyri, annarsstaðar óð brimaldan innyfir sjávarkampinn. Næturgestum, er verið höfðu á Eyrarbakka um nóttina ofan úr sveitum, þótti þar æði órólegt; ekki kvað samt neitt verulega að skemmdum þar, nema að stór og vönduð heyhlaða fauk hjá Gissuri bónda á Litlahrauni og varð þar heyskaði talsverður. Kirkjan á Eyrarbakka færðist lítið eitt út af grunni. Yfir höfuð vildi það til, að náttmyrkur var ekki, því tungl var í fyllingu og þess vegna farið í mannmörgum hópum að bjarga skipum og bera þau innfyrir sjógarðana og var flestu því lokið, áður en mesti ofsinn brast á. Þegar síðast gaf að róa, var útlit fyrir allgóðan afla, en nú í fulla viku búin að vera frátök.
Þjóðviljinn ungi rekur líka svipaðar fréttir af tjóni í pistlum þann 20., 24. og 30. - við endurtökum ekki það sem þegar er fram komið:
[20.] Hér á nesinu [Álftanesi] fauk sexæringur og bátur á Breiðabólsstöðum, og bátur í Akrakoti, og brotnuðu i spón; skúrir fuku einnig á stöku bæjum, auk annarra smáskemmda.
[24.] Heyhlöður fuku einnig á nokkrum bæjum hér í grenndinni (Blikastöðum, Breiðholti, Hraunsholti og á Hvaleyri), og urðu heyskaðar, meiri eða minni. Þilskip Reykvíkinga, sem hafa vetrarlegu á Eiðsvík, urðu og fyrir talsverðum skemmdum, og eru um 10 skip talin meira eða minna brotin.
[30.] Hlaða og fjárhús fauk einnig að Stóra-Botni við Hvalfjörð.
Vestri segir af veðrinu í pistli þann 18.nóvember:
Ofveður mikið á sunnan var hér i bænum aðfaranóttina þess 15. þ.m. Rúður brotnuðu víða í húsum og ýmsar aðrar skemmdir stöfuðu af veðrinu. Þinghús Eyrarhrepps, sem staðið hefir á Hauganesi í Hafrafellslandi, fauk og var talsvert af viðunum úr því rekið hér út á Tanga um morguninn. Skemmdir urðu talsverðar á bátum o.fl. víða í veiðistöðvum hér í kring og og nýtt smíðahús, eign Bergsveins Ólafssnar i Súðavík,fauk í Álftafirði.
Norðurland birti þann 29.nóvember bréf úr Skagafirði dagsett þann 16.:
Aðfaranótt 14. þ.m. fauk Héraðsvatnabrúin og liggur á ísnum eða í Vötnunum. Hve mikið hún er brotin eða skemmd, hefir enn ekki verið rannsakað. Hefir að líkindum verið miður vel um hana búið. Sama dag fauk og brú á Sæmundará á Vatnsskarði. Viðgerð nauðsynleg þegar í vetur, er skrifað úr Skagafirði. Ódæma fönn. Í Skagafirði, vestanverðum að minnsta kosti, og Húnavatnssýslu, kom ódæma fönn snemma í þessum mánuði, svo haglaust varð fyrir allar skepnur, og hross stóðu sumstaðar í Húnavatnssýslu í sjálfheldu, svo flytja varð til þeirra hey, að sögn. En þegar póstur fór um á norðurleið, var kominn hagi hvarvetna í byggð.
Austri segir fréttir af sköðum á Akureyri í veðrinu mikla í pistli þann 1.desember:
Ofveður mikið af suðvestri gjörði á Eyjafirði 14. f.m. Akureyrarhöfn var lögð, en ísinn fór þegar á rek og fiskiskip þau er voru innifrosin á Pollinum. Eitt af skipunum, Jón", eign Norðmanns kaupmanns, sökk fyrir framan hið svokallaða Torfunef; haldið er, að ef það náist ekki upp aftur, muni það geta orðið til mikilla óþæginda fyrir hina fyrirhuguðu stórskipabryggju sem á að byggja þar. Meiri skemmdir urðu á skipum þeim, er fóru á rek með ísnum, en þó eigi stórvægilegar; eftir ofveðrið lágu skipin hingað og þangað út um fjörð.
Þann 19.desember birti Þjóðólfur bréf frá Patreksfirði, dagsett 27.nóvember. Þar er greint frá tjóni í veðrinu mikla:
Veðurátta hefur verið hér mjög stirð, síðan veturinn byrjaði, sífelldir stormar og kaföld. Þó yfirgnæfði suðvestanveðrið nóttina milli 14. og 15. þ.m. Þá var líka geysistórt flóð, svo sjór féll upp undir hús; sumstaðar fuku bátar. Á Bíldudal er sagt, að fokið hafi 14 bátar og 2 í Tálknafirði. Hér urðu engar skemmdir, sem teljandi sé, helst lítilsháttar á bátum og bryggjum. Nú síðustu undanfarna daga, hefur verið þíðviðri og blíða, svo nú er að mestu leyti leystur allur sá snjór, sem kom í hretinu, þegar Skálholt" var á ferðinni.
Þann 13.desember segir enn af tjóni í sama veðri í Þjóðviljanum:
Eitt af kaupförum Grams verslunarfélagsins Adolph's Enke", er verslun rekur á Dýrafirði, Ólafsvík og í Stykkishólmi, strandaði á Grundarfirði í Snæfellsnessýslu í ofsaveðrinu 14.15. nóv. síðastliðinn. Skip þetta hét Isefjord", skipstjóri Petersen, og var að losa salt í Ólafsvík, er veðrið skall á, en rak þaðan, og strandaði á Grundarfirði. Menn björguðust þó allir, og fóru þeir til útlanda með póstgufuskipinu Laura" í þ.m.
Þann 19.desember birti Þjóðviljinn ungi bréf úr Dýrafirði, dagsett 24.nóvember - þar er líka greint frá tjóni í illviðrinu:
Þegar sumarið og haustið var liðið, með sinu óminnilega hagstæða blíðviðri, þá heilsaði veturinn fyrsta morguninn hér með sunnan ofsaveðri, og húðaregni, þann 25. október, og hélst um næstu 4 daga sunnan hvassviðri með vætu; eftir það gekk í norðaustur, með snjókrapa-illviðri, en hljóp stundum í vestur; en 31. október hljóp í norður, og gjörði eftir það kafalds kafla, og norðangarð strangan, allt til þess 12. þ.m., svo menn urðu að taka fé á gjöf á flestum bæjum. Eftir það voru stormar og þíðviðri nokkra daga, þar til aðfaranótt þess 15. þ.m. gerði hér það afspyrnurok af suðvestri, að slíkt man enginn af þeirri átt, og varð að miklu tjóni á sumum stöðum, báta tók upp, og braut í spón, húsaþök reif og tætti, hjallar fuku og fóru í sjó á sumum stöðum, og hús skekktust, þó traust væru. Á hvalveiðistöð hr. L. Bergs á Höfðaoddanum mölvuðust gluggar allir, þeir er áveðra voru, og stór stykki reif þar og braut úr sumum stórhýsum, og allt fauk og fór á sjó, sem losnað gat. Skaðinn hefir án efa numið þar mörgum hundruðum króna, að ég ekki segi þúsundum; veðrið var allra mest frá kl. 13 um nóttina, og stóð þá loftvogin á 726; en um dægramót var mikið farið að minnka rokið. Í þessu veðri sleit upp kútter Isefjord" á Ólafsvíkurhöfn, sem þangað hafði komið með saltfarm til Grams verslunar; varð skipstjórinn að hleypa inn á Grundarfjörð, og sigla skipinu þar á land, því grunnfæri voru engin. Þessi sami skipstjóri (Petersen) hafði fyrir nokkrum árum strandað á Ólafsvík, þá er hann var með skipið Amicitia" frá sömu verslun, og er hann þó alþekktur sægarpur. Tvö skip hafa komið hingað til Þingeyrar eftir veðrið mikla, og er annað þeirra, Palmen", mjög illa útleikið eftir hrakreisuna, með brotið bugspjót, og skemmt að fleiru. Það er eftirtektarvert, að þessi stórauðugu hlutafélög, sem hafa hér selstöðuverslun, skuli þurfa endilega að stofna lífi manna í opinn háska með saltfarma, þegar allra veðra er að von hér norður í höfum, þrátt fyrir hinar miklu skipaferðir, sem eru orðnar hingað til lands, með gufuskipum allt sumarið, fast til veturnótta.
Þann 22. janúar birti Þjóðviljinn enn fréttir af tjóni í veðrinu mikla, í þetta sinn fengnar úr bréfi úr Strandasýslu sem dagsett var 14.desember:
Í mikla veðrinu, aðfaranóttina 15. [nóvember], fuku 3 bátar á Melum, og brotnuðu í spón, og á Kúvikum 2 bátar, og víða urðu skemmdir á húsum og heyjum.
Desember: Nokkuð umhleypingasamt og snjór eftir miðjan mánuð. Miklar úrkomur á Suður- og Vesturlandi framan af, en síðan þurrt þar. Mikið frost og hríðarveður nyrðra síðustu vikuna.
Jónas Jónassen segir um desembertíðina:
Framan af mánuðinum hér mesta blíðveður dag eftir dag með mikilli úrkomu af landsuðri, hljóp við og við til útsuðurs. Hinn 5. var 10 stiga hiti kl. 10 f.h. og hefur slíkt aldrei komið fyrir um þetta leyti árs 30 síðustu árin. Eftir 23. fór að kólna til muna; nokkur snjór hefur fallið. Afspyrnu norðanrok var hér h. 28.
Þjóðviljinn ungi lýsir desembertíð í nokkrum pistlum:
[13.] Tíðarfar í þ.m. mjög stormasamt, og rigningar öðru hvoru, en hvergi snjó eða ís að sjá, nema á fjöllum, svo að íshúsin hér syðra eru þegar farin að komast í all-mikinn vanda.
[19.] Tíðarfarið einatt mjög stormasamt, sífelldir beljandar nótt og dag. 14. þ.m. dyngdi niður talsverðum snjó, og hefir jörð síðan verið alhvít hér syðra.
[23.] Snjóinn, sem féll fyrri part síðustu viku, hefir nú alveg leyst upp aftur, enda hafa gengið stormar og rigningar undanfarna daga, uns aftur snjóaði í gær.
Norðurland segir þann 6. desember:
Einmunatíð er nú á Norðurlandi. Sumarhiti síðustu sólarhringa, en vindasamt. Bændur eru að rista ofan af þúfum sínum og sumstaðar er verið að grafa kjallara, með því að alls enginn klaki er i jörðu.
Ofsarok var hér í gær frá hádegi og fram yfir miðaftan, mesta hvassviðri, sem hér hefir komið síðan 20. sept. 1900, en ekki nærri eins mikið veður og þá. Skemmdir hafa ekki orðið stórkostlegar hér í bænum, þær helstar, að bátur fauk á Oddeyri og ónýttist, járn fauk af þaki á suðurhlið á húsi Snorra kaupmanns Jónssonar og þak af geymsluskúr Ólafs G. Eyjólfssonar kaupmanns á Torfunefi. Þrír bátar lögðu héðan á stað skömmu áður en veðrið brast á, en menn eru ekki verulega hræddir um þá, með því að sagt er, að lygnara hafi verið úti á firðinum.
Austri segir af sama veðri í pistli þann 9.desember:
Fyrri part dags 5. þ.m. gjörði hér ofveður mikið af suðvestri og hélst það til kvölds. Ekki höfum vér enn spurt það til að veður þetta hafi ollið nokkrum skaða sem tefjandi sé. Þennan dag var 11° hiti R.
Vestri segir frá tíð í pistli þann 9.:
Tíðarfar hefir verið mjög hlýtt og gott undanfarið og er hér alveg snjólaust nema skaflar í giljum og upp til fjalla. Hvassviðri hafa þotið upp með köflum og valdið talsverðum skemmdum. Í gærdag hvessti snögglega og voru þá flestir á sjó og fengu vont veður. Margir Bolvíkingar lentu út í Skálavík og ennþá vantar einn bát úr Hnífsdal. [Í fregn í Vestra þann 16. kom svo fram að báturinn týndist alveg].
Vestri segir meir af sköðum í veðrinu þann 8. í pistli þann 20.:
Nýr bátur og hjallur hafði fokið í Barðsvík á Ströndum 8. þ.m. Sama dag hafði og fokið skip i Grunnavík sem síra Kjartan Kjartansson á Stað átti og skemmdist það eitthvað. Snemma í þ.m. hrakti 30 fjár í sjóinn í Innri-Fagradal í Dalasýslu. Um sama leyti urðu talsverðar skemmdir á húsum i Ólafsdal.
Austri birti þann 31.janúar 1903 bréf úr Húnavatnssýslu, dagsett 4.desember:
Tíðin hefir verið misjöfn. Frá miðjum september framundir veturnætur sífelld blíða, logn og frostlaust dag og nótt; sprungu út sóleyjar og fíflar. Þá hófust ákafir umhleypingar er enduðu með gríðarmikilli hríð og norðan snjókomu snemma í nóvember. Kyngdi þá niður þeirri fönn á einni svipan að elstu menn muna ekki slíkt. Hross stóðu í svelti og átu föx og tögl hvert af öðru. Þó tók útyfir í Svínadal, þar komust menn varla til húsa og urðu að flytja hrossum fóður á á skíðasleðum, komu þeim ekkert þaðan er þau stóðu. Fátt mun þó hafa drepist af hrossum, 1 eða 2 fennt er til hefir spurst. Um miðjan nóvember brá til sömu blíðviðra og áður, hægrar sunnanáttar, sem helst enn, er nú snjólaus öll jörð fyrir löngu nema fjöll, þó má heita að nýkomin sé jörð upp fremst í Svínadal.
Ísafold birti þann 10.janúar 1903 bréf úr Strandasýslu sunnaverðri, dagsett 10.desember:
[H]austið frábærlega gott allt fram á veturnætur; þá gjörði rosakafla, sem endaði með því, að nóttina milli 4. og 5. nóvember rak niðar svo mikinn snjó, að enginn man slíkan. Tók þá alveg fyrir haga og hélst það nær hálfan mánuð, en aldrei voru mikil frost og oft alveg frostlaust svo snjórinn seig mikið. Nú er allur snjór löngu farinn og jörð alveg þíð, úrkomur fremur litlar, en oft snarpir suðaustanstormar; þó hefir ekki orðið neinn skaði hér að þeim, sem teljandi sé. Sauðfé var allstaðar hýst, þegar snjórinn kom, en hross voru víða uppi á heiðum og var mjög erfitt að ná þeim; sumstaðar sultu þau svo dögum skipti áður en komist varð til þeirra.
Þjóðólfur birti þann 9.janúar 1903 bréf úr Húnavatnssýslu, dagsett 10.desember:
Að kveldi 5. þ.m. fauk i afspyrnuroki eldur úr ofnpípu í töðuhey Hannesar bónda Magnússonar á Árbakka og brann það til ösku, nema 1012 hestar, er rifnir voru úr því, og eru varla ætir fyrir ösku. Var þetta slæmur bagi fyrir hann. Í sama veðri missti Árni bóndi Jónsson á Þverá í Hallárdal 6070 hesta af útheyi úr heytóft og Björn sonur hans um 10 hesta. Úr húsinu þar brotnuðu flestir gluggar að neðan og mátti fólkið vaka alla nóttina við að halda rúmfötunum í gluggunum. Þar rauf og þök af húsum og viðurinn líka t.d. úr skemmu nýbyggðri og braut svo viðurinn gluggana. 50 ára gamalt þak rauf af smiðju þar eða kofa.
Bjarki segir 12.desember:
Öskuryk segja Héraðsmenn að sést hafi undanfarandi í ull á fé og geta sumir til að eldur muni vera uppi einhverstaðar inni á öræfum. En engar fregnir segja póstar um það, sem nú eru þó nýkomnir.
Óvenjuleg hlýindi á þessum tíma árs hafa verið hér það sem af er vetrinum. Jörð hefur verið þíð eins og á sumri og menn hafa starfað að jarðabótum og byggingum. Úr Tungunni er skrifað, að síra Einar Jónsson á Kirkjubæ hafi nú á jólaföstunni látið byggja beitarhús og stóra hlöðu út á milli Kirkjubæjar og Gunnhildargerðis. Lagarfljótsbrúin. Í rigningunum í síðastliðinni viku óx Lagarfljót svo, að það flóði yfir brúarpallinn, sem þar stendur enn síðan hætt var smíðinni. Sýnir það, að brúin hefði orðið of lág, ef haldið hefði verið áfram eins og byrjað var. Tíu af stærstu járnbitunum kvað hafa lent í fljótið, en líklegt talið að ná megi þeim upp aftur. Þar sem tjöld byggingamannanna stóðu var vatnið nær því í mitti. Rambúkkinn, sem lent hafði í fljótið í fyrravetur, náðist upp í haust.
Bjarki segir 19.desember:
Vatnagangur var svo mikill í Fljótsdal í rigningunum um daginn að menn muna ekki annað eins: Keldá, sem rennur rétt hjá Þorgerðarstöðum, óx svo, að hún flóði upp á hlað og lá við sjálft að fólkið yrði að flýja úr bænum. Skriða mikil féll niður á engið á Víðivöllum fremri og Arnaldsstöðum og skemmdi það stórlega.
Norðurland birti þann 13.desember skrif úr Mývatnssveit, dagsett þann 7.:
Hér í uppsveitunum varð skarpt um jörð um hálfsmánaðartíma. En síðustu daga í nóvember gekk upp [með] landsunnan-hlákur, sem hafa haldist meira en viku. Óvenjulega hlýtt og veðragott, enda öríst. Kominn var hestís á Mývatn, en braut allan. Er víst dæmafátt að sjá það marautt á miðri jólaföstu.
Ísafold segir þann 17.: Nú hefir loks skipt um veðráttu: snjóað dag eftir dag lausamjöll frá því á helgi. Frost mjög lítið.
Ísafold segir þann 27., undir fyrirsögninni Eftirmæli ársins:
Sjaldgæft vetrarharðindaleysi auðkennir öllu öðru fremur tíðarfarið hér á landi þetta ár, sem nú er á þrotum. Það ríður að líkindum að fullu aldamótaharðindahjátrúnni. Því fleiri ár af 20. öldinni er varla hægt að telja til aldamóta. Að sumarveðráttu tvískiptist landið, eins og oft ber við. Mikil veðursæld um Suðurland; en norðan og austan með mestu kuldasumrum og óþerra því meiri, sem lengra dró austur; og var orsökin hafísar í meira lagi, er komu þó eigi fyrr en svo, að ekki ollu vetrarharðindum, eða varla nema vorkuldum.
Hvít jól. Hér hefir verið alhvít jörð frá því fyrir jól og er enn. En frostvægt.
Austri segir þann 17.janúar 1903 af mannsköðum seint í desember:
Jón nokkur Teitsson, sem verið hefir hér á Seyðisfirði,varð úti á þriðja í jólum milli Borgarfjarðar og Loðmundarfjarðar. Á gamlárskvöld varð úti milli bæja konan Anna Pétursdóttir frá Miðhúsum i Eiðaþinghá. Hún hafði frá því í vor búið ein í bænum.
Þann 20.febrúar 1903 segir Þjóðólfur fréttir frá Fáskrúðsfirði:
Milli jóla og nýárs kom hér voðalegt austanveður og urðu hér töluverðar skemmdir á útihúsum. Á Kappeyri fuku 2 fiskihús og hjallur og 2 bátar, annar í spón, hinn nokkuð brotinn, en húsin öll fóru í mola og tapaðist mikið úr þeim. Í Árnagerði fauk hjallur, hlaða og nokkuð af heyi, á Kolfreyjustað skúr og eitthvað af fé fór í sjóinn, á Höfðahúsum fór eitthvað af fé í fönn, í Vík fauk hlaða og mikið af töðu, um 5060 hestar, og hjallur og hestbús. Það sem verst var, voru þetta flest bláfátækir menn, sem urðu fyrir þessu.
Þann 25.febrúar 1903 birti Þjóðviljinn bréf úr Norður-Ísafjarðarsýslu, dagsett 27.janúar. Þar er getið tjóns í suðvestanveðrum haustsins - en ekki greint á milli þeirra - en líklegast er þó að skaðinn hafi orðið um miðjan nóvember eða 5.desember:
Tíðin í haust var rosasöm; þrjú stórfengleg suðvestanrok komu hér hvert eftir annað, þótt eitt þeirra tæki yfir, því elstu menn muna vart annað meira, enda gerði það hér nokkurn skaða á húsum og bátum voru það einkum skektur, er fuku, og brotnuðu meira eða minna. Á Seljalandi fauk þak af flestum húsum að meira eða minna leyti, og eitthvað af hlöðunum sligaðist ofan á heyin. Á Dvergasteinshvalveiðistöð fauk nokkuð af lausavið og tunnurusli, og varð það þeim að happi, er það rak hjá.
Lýkur hér að sinni frásögn hungurdiska af árinu 1902, ískomu og illviðrum. Að vanda eru ýmsar tölulegar upplýsingar í viðhenginu.
Vísindi og fræði | Breytt 12.3.2019 kl. 21:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.3.2019 | 20:42
Fer enn vel með
Veður hefur verið býsna breytilegt í vetur en þó má segja (með örfáum undantekningum) að sérlega vel hafi farið með veður. Oft hefur litið illa út en síðan ekkert eða lítið orðið úr. Á árum áður hefði manni jafnvel þótt þetta nokkuð skítt - en er nú bara þakklæti í hug í garð máttarvaldanna.
Oft er málum öðruvísi háttað - verður einhvern veginn vont úr öllu veðri eða þá verra en útlit var fyrir. - Hinni hagstæðu veðurreynd mun að sjálfsögðu ljúka einhvern tíma, við vitum bara ekki hvenær.
Svo virtist nú fyrir helgina að ný tíska tæki við þegar í næstu viku - jafnvel strax í dag - en enn einu sinni enn virðist minna ætla að verða úr en spár gerðu helst ráð fyrir. Þó koma að landinu í næstu viku tvær til þrjár djúpar og miklar lægðir sem allar gætu valdið verulega slæmu veðri - ef slíkt væri í tísku. En eins og fyrr í vetur er tilhneigingin sú að reiknimiðstöðvar draga meir og meir úr eftir því sem lægðirnar færast nær. - Við megum þó ekki líta alveg til hliðar - verðum að alltaf að gefa hættunum gaum þó meinlitlar virðist.
Kortið sýnir stöðuna í 500 hPa-fletinum á hádegi í dag (laugardag 9.mars). Enn er hæðarhryggur fyrir norðan land eins og oftast að undanförnu. Vindur er hægur í háloftum í námunda við landið. Það ráðum við af legu jafnhæðarlína flatarins (heildregnar). Þykktin er að venju sýnd með litum. Þykktarsviðið í kringum landið er líka heldur gisið - við segjum að þykktarvindur sé hægur.
Nú eru að verða nokkrar breytingar á stöðunni. Háloftalægðin kalda sem er við vesturjaðar kortsins er á leið til austsuðausturs og á að stinga sér á móts við hlýtt loft sem er að koma inn á svæðið úr suðvestri. Á mánudaginn verður útlitið nokkuð annað.
Kortið hér að ofan sýnir tillögu evrópureiknimiðstöðvarinnar um stöðuna á hádegi á mánudag (11.mars). Hæðarhryggurinn hefur hörfað til austurs - og nú er opið fyrir kalda loftið til suðurs og suðausturs nærri Grænlandi. Hér má ekki miklu muna að hann verði slæmur - en svo virðist sem þessi bylgja eigi að ofrísa - það yrði til þess að háloftalægðin kæmist aldrei til Íslands en velti þess í stað til suðausturs um Bretlandseyjar. Við sleppum að vísu ekki alveg - en samt miklu betur en á horfðist í spám fyrir nokkrum dögum.
Alveg dæmigert fyrir veðurlag þessa (hingað til) hagstæða vetrar.
Næsta aðsókn illviðris er síðan á dagskrá á fimmtudag - og enn og aftur um næstu helgi. Skyldi hann halda uppteknum hætti - reiða til höggs - en síðan láta geiga?
Vísindi og fræði | Breytt 10.3.2019 kl. 01:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.3.2019 | 02:04
Einn af þessum
Nú kemur einn af þessum smákuldapollum úr norðri suður yfir landið. Hann er reyndar ekki líklegur til stórræða - bæði lítill að afli og fær þar að auki lítinn tíma til athafna.
Kortið sýnir hæð 500 hPa-flatarins auk vinds og hita í honum kl.6 að morgni miðvikudags 5.mars. Kerfið er á leið til suðausturs yfir landið. Eins og vera ber er kaldast í miðju þess. Þetta er ekki sjaldséð staða og oft er hún mjög skæð og varasöm - en reiknimiðstöðvar eru samt rólegar að þessu sinni og við þar af leiðandi líka. Engin hefðbundin skil fylgja kuldapollum af þessu tagi - en þá langar samt til að skreyta sig með þeim og verða að heiðarlegum lægðum. Það tekst ef tími vinnst til og nægilegt afl er til staðar.
Hvort það gerist nú vitum við einfaldlega ekki - ekki einu sinni reiknimiðstöðvarnar. Kortið hér að neðan sýnir sjávarmálsþrýsting og úrkomu á sama tíma og kortið að ofan.
Við sjáum að vindur er hægur (þrýstilínur fáar), en samt eru mjög reglulegir éljagarðar á sveimi við landið - bæði norðan, vestan, sunnan og austan við. Það er alltaf spennandi að sjá hvernig reikningum tekst til - eru þetta bara sýndargarðar í líkaninu eða verður eitthvað raunverulegt úr - eða gerist kannski eitthvað meira? Sé þessi spá rétt mun snjóa nokkuð syðst á landinu á aðfaranótt miðvikudags - og garðurinn fyrir suðaustan land (sá sem ekki snertir landið) á að færast frekar í aukana og koma upp að Hornafirði á miðvikudagskvöld. Smálægð virðist vera í úrkomukrækjunni fyrir norðan landið.
Lítum líka til gamans á lausn harmonie-líkansins á sama tíma.
Hér er minna gert úr úrkomunni syðst á landinu - (en höfum þó í huga að lituðu svæðin marka hér aðeins klukkustundarúrkomu - en taka til 3 stunda á hinu kortinu). Meira virðist hins vegar gert úr smálægðinni fyrir norðan land. En sannleikurinn er sá að úrkoman er lítt viðráðanleg í stöðu sem þessari. Við vitum þó að kólnun yfir landinu (vegna þess að geislunarbúskapur er mjög neikvæður) býr til dálitla hringrás sem veldur lítilsháttar niðurstreymi sem leysir upp ský og úrkomu. Landið ver sig því dálítið - úrkoman myndast frekar yfir sjónum og berst þaðan e.t.v inn yfir land - alla vega meðan éljagarðarnir eru slakir.
Þó þetta sé ekki merkileg staða er hún samt skemmtileg viðfangs - jafnvel spennandi - rétt eins og sápuópera sem gæti hæglega tekið óvæntan snúning (en gerir það líklega ekki).
1.3.2019 | 14:37
Alþjóðveturinn
Alþjóðaveðurfræðistofnunin telur vetur á norðurhveli ná til mánaðanna desember, janúar og febrúar. Alþjóðaveturinn er styttri en vetur á Íslandi, við teljum mars með - enda oft kaldasti mánuður ársins hér á landi. Ritstjóri hungurdiska hefur undanfarin ár reiknað meðalhita alþjóðavetrarins hér á landi og fjallað um niðurstöðu þeirra reikninga.
Reiknaður er meðalhiti veðurstöðva í byggð aftur til 1874 - og árum frá 1823 bætt við (en landsmeðalhiti þeirra ára er mikilli óvissu undirorpinn). Meðalhiti nýliðins alþjóðavetrar er +0,4 stig og telst það hlýtt á langtímavísu, en samt ekki í hóp þeirra allrahlýjustu.
Veruleg leitni reiknast yfir tímabilið, +1,5 stig á öld. Á 20. öld allri var meðalhiti alþjóðavetrarins 16 sinnum ofan við frostmark, en hefur 9 sinnum verið það nú þegar á þessari öld - þó veturnir séu aðeins orðnir 19. Fari svo fram sem horfir verða 45 vetur ofan frostmarks á 21.öld. Slíkt væri mikil breyting frá fyrra ástandi. Á 19.öld þekkjum við ekki nema 3 vetur ofan frostmarks (gætu þó verið eitthvað fleiri - reiknióvissa er mikil) á 78 árum.
En sannleikurinn er þó sá að við vitum ekkert um framtíðina frekar en venjulega. Rætist spár um hnattræna hlýnun að fullu verða hlýju veturnir væntanlega enn fleiri en 45 á 21.öld - en einnig er vel hugsanlegt að við höfum þegar tekið út meiri hlýnun en okkur ber og talan orðið nær 45 - jafnvel lægri.
Reiknuð leiti á myndinni er ekki síst há fyrir þá sök að vetur kuldaskeiðs 19. aldar voru almennt töluvert kaldari heldur en kaldir vetur kuldaskeiðs 20.aldar. Sömuleiðis hafa mjög kaldir vetur alls ekki látið sjá sig á nýrri öld. Minni munur er á hlýskeiðunum. Kuldinn hefur minnkað að mun, en hlýindi ekki aukist alveg jafnmikið að sama skapi. Kuldaköst 20.aldarhlýskeiðsins voru meira að segja snarpari heldur en skyldulið þeirra á síðustu árum. Er þetta allt í samræmi við ísrýrnun í norðurhöfum.
28.2.2019 | 13:21
Hugur reikar - í blíðunni
Í blíðunni í dag (fimmtudag 28.febrúar) leitar hugurinn - eins og venjulega á þessum árstíma - aftur til vetrarins 1963 til 1964 og þeirrar sérlega góðu tíðar sem þá ríkti. Við skulum til gamans horfa á eitt háloftakort frá þessum tíma - staðan afskaplega svipuð stöðunni í dag (kort sem sýnir hana birtist í síðasta pistli hér á undan).
Þetta er seint á föstudagskvöldi, 21.febrúar (kl.23 að þágildandi tíma hér á landi). Hæðarhryggur er í háloftunum yfir landinu studdur af hlýju lofti sem berst úr suðaustri - nærri því alveg eins og nú. Kuldapollar eru að bylta sér langt fyrir norðan og vestan - rétt eins og nú. Fyrstu dagar febrúar 1964 höfðu verið mjög kaldir (líka nú) - einu verulega köldu dagar þess vetrar og mikill snjór var þá víða um land. En hann tók undrafljótt upp.
Kuldapollurinn Stóri-Boli var oft mjög öflugur þennan vetur og virtist stundum mjög ógnandi - en einhvern veginn varð aldrei neitt úr því að hann skyti örmum sínum til landsins. Í apríl og maí komu hins vegar kuldaköst, hálfleiðinleg að vísu en algjörir smámunir miðað við þau sem gengu yfir vorið áður - 1963.
En ritstjóri hungurdiska trúir ekki á hliðstæðuspár - veðrið finnur sér ætíð nýjan og frumlegan farveg. Ólíklegt verður því að telja að framhaldið verði að þessu sinni svipað og var 1964 - þegar vetrarblíðan var endalaus.
26.2.2019 | 23:24
Dálítill hæðarhryggur
Eftir lægðaganginn undanfarna daga virðist dálítill hæðarhryggur ætla að taka við stjórn í háloftunum. Hann verður að vísu ekki mjög áberandi á hefðbundnum veðurkortum, en sýnir sig vel í háloftum. Fyrra kortið sem við lítum á í dag gildir síðdegis á fimmtudag, 28.febrúar. Það er evrópureiknimiðstöðin sem spáir.
Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar og má af legu þeirra ráða vindstyrk og stefnu í rúmlega 5 km hæð. Línur yfir Íslandi eru gisnar og háloftavindar því slakir. Hryggjarmiðjan er merkt á kortið þar sem hún liggur frá Skotlandi norðvestur yfir Ísland og allt til Baffinslands - og heldur reyndar áfram þaðan allt til Alaska og suður eftir Kyrrahafi. Hryggurinn greinir á milli áhrifasvæða kuldapollanna stóru, Stóra-Bola yfir Ameríku og Síberíu-Blesa við norðurströnd Asíu. Fyrirferðarminni kuldapollur er við Norðaustur-Grænland - einskonar sendiboði milli stórveldanna. Við skulum til aðgreiningar kalla hann Hroll.
Litirnir á kortinu sýna þykktina, en hún greinir frá hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Meðalþykkt yfir Íslandi á þessum tíma árs er í námunda við 5260 metra - í ljósasta bláa litnum. Á milli litaskipta eru 60 metrar, sem samsvarar um 3 stigum í hita. Hiti í niðri hluta veðrahvolfs verður því 3-4 stigum ofan meðallags á fimmtudaginn - sé spáin rétt. Niðri við jörð eru jákvæðu vikin (nær ætíð) minni en ofar - sérstaklega inn til landsins í björtu og hægu veðri.
Það sem skiptir meginmáli á þessu korti er hryggurinn sem skilur á milli kulda úr vestri annars vegar - og kulda úr norðri hins vegar. Við teljum það hagstætt.
Þó Hrollur sé ekki á beinni leið til okkar - hann mætir örlögum sínu yfir hlýju Barentshafi er kuldinn sem fylgir honum sem það mikill að hætt er við að hann leki smám saman í átt til okkar. Spáruna reiknimiðstöðvarinnar frá hádegi segir t.d. að á mánudag/þriðjudag hafi þykktin yfir landinu fallið um 180 metra - 9 stig. Munar um minna. Kannski rætist sú spá - kannski ekki.
En það skemmtilega við spárunu dagsins er að staðan á að vera nærri því sú sama aftur eftir viku. - Nokkuð kaldari að vísu en að öðru leyti mjög svipuð. Við lítum á spákort sem gildir um hádegi á föstudag, 8.mars.
Hér er þykktin yfir landinu nærri meðallagi. Hæðarhryggurinn (rauð strikalína) liggur á svipuðum slóðum og á fyrra korti og (nýr) Hrollur á sama stað. Þykktin er þó lítillega minni en á fimmtudagskortinu (um 5280 metrar í stað 5350 í á fyrra korti) - og hiti því nærri meðallagi í neðri hluta veðrahvolfs.
Óvenjulegt er hins vegar að 10 daga veðurspár standist - að venju lítum við því á þessa sem einskonar skemmtiatriði.
Eins og bent var á á fjasbókarsíðu hungurdiska var óvenjuhlýtt á Suðurlandi í gærkveldi og fram eftir nóttu - og síðan á Austurlandi í dag (þriðjudag 26.febrúar). Sigurður Þór Guðjónsson benti réttilega á það á fjasbók að hitinn sem mældist á Hellu og við Markarfljót (12,3 stig) er sá hæsti sem mælst hefur á Suðurlandsundirlendi í febrúar (ef við teljum svæðið austan Markarfljóts ekki með). Slær þó ekki út 12,6 stigin sem mældust fyrir nokkrum dögum á Skrauthólum á Kjalarnesi (sjá pistil hungurdiska).
En við endurbirtum hér fjasbókarpistlana - svo aðrir en fjasbókarsamfélagið geti lesið - í lokin er smáviðbót í lok dags.
[26.3. 01:37] Mikil hlýindi fylgja lægðinni sem nú er á leið yfir landið (að kvöldi 25.febrúar). Febrúarhitamet hafa verið slegin, sérstaklega á suðurlandsundirlendinu. Við nefnum hér aðeins stöðvar þar sem athugað hefur verið frá því fyrir aldamót. Það eru Þykkvibær (11,2 stig), Þingvellir (10,5 stig) og Skálholt (11,1 stig). Hitinn á Þingvöllum og í Þykkvabæ er einnig hærri nú en nokkru sinni mældist í febrúar á mönnuðu stöðvunum á þessum stöðum.
Á Mörk á Landi hefur verið athugað frá 2008, þar var í kvöld mesti vindhraði sem þar hefur nokkru sinni mælst, 30,1 m/s (10-mínútna meðaltal). Áttin var af austsuðaustri - og hiti fór í 10,6 stig.
[26.2. 14:32] Eins og getið var um í síðasta pistli var ársvindhraðamet slegið í gærkvöldi á Mörk á Landi (mánudag 25.febrúar). Í morgun (þriðjudag 26.) bættust Mývatnsöræfi við í þann hóp, vindur fór þar í 30,8 m/s, það mesta síðan stöðin hóf mælingar 1998. Ársmet var líka sett á Fljótsheiði - en þar hefur aðeins verið athugað frá 2012, talan er hins vegar há, 31,3 m/s. Febrúarvindhraðamet voru slegin á fáeinum stöðvum til viðbótar, við nefnum aðeins þær sem athugað hafa í 10 ár eða meir, það eru Brúarjökull, Papey, Miðfjarðarnes, Streiti, Hálsar og Hvalnes. -
Dagurinn í dag - 26.febrúar varð fyrsti stormdagur ársins á landsvísu (að mati ritstjóra hungurdiska) - 10-mínútna meðalvindhraði náði 20 m/s á 34 prósentum stöðva í byggð, til að komast á listann þarf hlutfallið að vera 25 prósent eða meira. Þessi listi metur snerpu veðra fremur en úthald. Ritstjórinn heldur líka úti öðrum lista (sem er nær því að mæla úthald) - til að komast á hann þarf meðalvindhraði sólarhringsins í byggðum landsins að ná 10,5 m/s. Það gerðist ekki í dag - og hefur ekki gerst enn á þessu ári.
Vísindi og fræði | Breytt 27.2.2019 kl. 01:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.2.2019 | 15:37
Af árinu 1892
Því hefur verið fleygt að árið 1892 hafi verið síðasta ár litlu-ísaldar, en eftir það hafi tíð tekið stakkaskiptum og aldrei síðar náð sömu hörku og gerðist áður. Ritstjóri hungurdiska er reyndar efins um að eitthvað sé til sem verðskuldi þetta nafn litla-ísöld og að alla vega sé það ekki rétt á borð borið í hinni almennu umræðu. En hvað um það - árið 1892 var afspyrnukalt hér á landi og hefur ekki orðið jafnkalt eða kaldara síðan. Fáein önnur ár 19.aldar keppa við það í kuldum.
Það er þó ekki þar með sagt að tíðin hafi verið alslæm á árinu. Ritstjóra hungurdiska er nú orðið tamt að vitna í orð Hannesar Finnssonar í ritinu Mannfækkun af hallærum: Óhagkvæmni veðráttunnar gjörir oss [...] meiri skaða en veðraharkan. Næstu ár á undan höfðu verið fremur hagstæð og fyrningar allgóðar komu í veg fyrir teljandi felli. Þó sumarið væri kalt og nöturlegt var þó hægt að ná heyjum í hús og haustið var skásti tími ársins. Og - eins og áður sagði - batnaði tíð töluvert næstu árin (þó ekki hafi hún staðist kröfur nútímans - en það eru nú fá ár sem það gera heyrist manni).
Meðalhiti í Reykjavík var aðeins 2,7 stig - sama í Hafnarfirði. Í Stykkishólmi var meðalhiti ársins 1,3 stig og 0,2 stig á Akureyri. Allir mánuðir ársins teljast kaldir á landsvísu og fjórir afburðakaldir; febrúar, júní, júlí og september. Þetta er eina ár síðustu 200 ára (að minnsta kosti) sem nær hreinu borði kaldra mánaða. [Ekkert ár hefur náð hreinum hlýindum]. Hiti mældist hæstur í Möðrudal þann 22.júlí, 22,8 stig. Við trúum hámarkshitatölum úr Möðrudal hóflega á þessum árum - en næsthæsta talan er 21,4 stig sem mældust á Teigarhorni þann 21.júlí. Þetta eru einu tölur veðurstöðva hærri en 20 stig á árinu. Mest frost mældist í Möðrudal 10.mars, -33,2 stig. Frost mældist í byggð í öllum mánuðum ársins. Lægsta tala júlímánaðar var t.d. -1,5 stig og mældist hún á Raufarhöfn þann 9. Fleiri fróðlegar lágar tölur má finna í viðhenginu.
Myndin sýnir hita frá degi til dags í Reykjavík á árinu 1892. Frostin á útmánuðum voru ekki samfelld, hlákur stungu sér inn á milli, en kuldaköstin voru sérlega hörð. Lágmarkshiti í Reykjavík fór 12 daga niður í -15 stig eða neðar og tvær næstur fór frostið í -20 stig. Þann 9. maí mældist frostið í Reykjavík -9,1 stig og hefur aldrei mælst meira í þeim mánuði. Þann 15.ágúst mældist lágmarkshitinn 0,3 stig og hefur aldrei farið jafn lágt svo snemma í þeim mánuði. Enda fór illa með ræktun garðávaxta - uppskera varla jafnmikil og sett var niður.
Fjöldi dægurlágmarksmeta sem sett voru í Reykjavík á árinu standa enn, 33 alls og dreifast á alla mánuði ársins nema janúar og júlí. Á Akureyri standa enn 3 dægurlágmarksmet, og fimm á landsvísu. Nánari upplýsingar um þessa daga má finna í viðhenginu og sömuleiðis lista yfir sérlega kalda daga í Reykjavík og Stykkishólmi.
Úrkoma mældist 729 mm í Reykjavík, heldur undir meðallagi. Janúar var úrkomusamur, en maí og júní þurrir og tafðist gróður þess vegna. Nokkuð rigndi í júlí - en um það bil þegar óþurrkahljóð fór að komast í menn stytti upp og ágúst var þurr, sæmilega hlýtt var þá á daginn, en mjög kalt á nóttum. Ruddaveður var um tíma í september, en október var mjög hægviðrasamur lengst af.
Sólarhringsúrkoma mældist nokkrum sinnum óvenjumikil í Reykjavík. Sennilega hefur veðurathugunarmaður leyft sér að safna saman úrkomu fleiri en einn dag í þessum tilvikum - þarfnast nánari athugunar við.
Eins og sjá má af myndinni var stutt öfganna í milli í loftþrýstingi í janúar og febrúar. Lægsti þrýstingur í Reykjavík - og á landinu mældist í miklu illviðri 21.janúar, 945,1 hPa. Jónas Jónassen segir í pistli að loftvog í Reykjavík hafi um nóttina farið niður fyrir 940 hPa og ekki er sérstök ástæða til að efast um það. Hæstur mældist þrýstingurinn á Akureyri og í Stykkishólmi þann 14.febrúar, 1051,8 hPa og er það hæsti þrýstingur sem nokkru sinni hefur mælst í þeim mánuði hér á landi.
Hér að neðan eru dregnar saman helstu fréttir af veðri, tíð og veðurtengdu tjóni á árinu 1892 og vitnað í samtímablaðafréttir. Stundum eru þær styttar lítillega og stafsetning er að mestu færð til nútímahorfs.
Cand. mag. Pálmi Pálsson ritar yfirlit ársins í Skírni:
Árferð. Veðrátta var mjög óstöðug framan af árinu, ýmist fannkoma mikil með frosti eða blotar með ofsaroki, svo að allt ætlaði um koll að keyra; urðu þá víða skaðar á húsum og heyjum; jarðleysur voru um alt land fram í lok marsmánaðar; á útmánuðum voru svo miklar frosthörkur, að varla mundu menn aðrar meiri; þannig voru í Vestmannaeyjum yfir 20 st. á C. 89.febrúar, í Reykjavík 18 st. á C. um hádegi 18. mars, á Eyrarbakka 25 st. á C. aðfaranótt 28. s.m., og Akureyri 27 st. á C. s.d. Fannfergi og ísalög voru ákaflega mikil um allt land, svo að hvergi sást í dökkva díla og firðir allir fullir af lagnaðarís; á Faxaflóa var ísinn mannheldur langt út fyrir öll innnes og á Breiðafirði var hestís langt út i eyjar og um tíma jafnvel út i Flatey. Í apríl kom nokkur bloti og komu þá upp snapir víða nokkuð í lágsveitum, en til dala var öll jörð hulin snjó fram a vor; vorið var ákaflega kalt með bleytukaföldum og stórhríðum í milli; þannig kom ákaft hret i öndverðum júlímánuði og snjóaði ofan í sjó á Norðurlandi 7-9. s. m. og var sá snjór eigi með öllu horfinn úr byggðum fyrr en eftir viku; mátti heita að sumarið kæmi eigi fyrr en í miðjum júlí; á útkjálkum landsins og á Austurlandi vottaði varla fyrir gróðri fyrr en um mitt sumar, en þá kom hlýindakafli og þaut grasið upp á fám dögum, svo að þar varð jafnvel meðalgrasár, er eigi var sýnilegt annað en að jörð yrði eigi ljáberandi.
Úr því mátti heita öndvegistíð allt til ársloka, enda þótt afskapleg veður og snögg íhlaup kæmu í bili og gerðu mjög mikil spell á mönnum og fénaði (t.d. 28. september og 2. desember); en i október og nóvember var veður óvanalega milt, besta vorveður á stundum með hlýjum regnskúrum; í desembermánuði kom snjór allmikill, en tíðarfarið var hægt og stillt með jafnaði til ársloka.
Hafíss varð vart þegar í janúarmánuði fyrir Norðurlandi, en þó varð hann aldrei landfastur þar nema lítinn tíma um vorið, að firðir allir urðu fullir af ís, en úti fyrir voru hafþök langt fram á sumar, einkum austur með landi; lá ísinn fyrir Austfjörðum allt fram undir höfuðdag, að hann hvarf algjörlega; sigling kom því bæði seint til kaupataðanna á Norður- og Austurlandi og var slitrótt mjög, er skipin gátu eigi hættulaust komist fjarða milli fyrir þokum og íshroða. Lítil höpp fylgdu þessum ís, svo sem oft endranær, en þó voru unnin 2 bjarndýr, er komu með honum á land á Melrakkasléttu. Sökum þeirrar ótíðar er var allt vorið og langt fram á sumar, varð grasvöxtur með minna móti yfirleitt, einkum á túnum, en hvergi þó jafnlítill sem á Austfjörðum. Heyskapur byrjaði eigi almennt fyrr en í 15. viku sumars [seint í júlí], og sumstaðar á Austfjörðum eigi fyrr en 16 vikur af sumri, en þá var hagstæð heyskapartíð lengi og góð nýting víðast hvar, nema á Austfjörðum; þar voru einlæg votviðri fram í septembermánuð og urðu hey þar því bæði lítil og ill, miklu minni en í meðallagi; á Norðurlandi varð heyfengur manna víða á endanum í meðallagi, einkum í Þingeyjarsýslu. Garðrækt brást algjörlega um land allt.
Skeiðará hljóp aðfaranótt 12. mars og næstu daga, enda höfðu menn þóst sjá þess merki áður um veturinn að eldur mundi vera uppi einhvers staðar í Vatnajökli. Skeiðarárjökull sprakk fram og ultu íshrannirnar út um allan sandinn, en vatnsflóðið var svo mikið hinn 13. og 14., að hvergi sást eyri uppi svo langt sem augað eygði; en er vatnið tók að sjatna, var sandurinn allur sem i eina ísmöl sæi og sumir jakarnir að minnsta kosti 5060 feta háir; var sandurinn ófær fram í águstmánuð. Elstu menn þóttust eigi muna jafnstórkostlegt hlaup sem þetta, enda voru 9 ár liðin frá því er síðasta hlaup varð.
(s.14) Slysfarir og fémissur urðu að sumu leyti með minnsta móti þetta árið, jafnvel færri og minni en við mátti búast eftir því, sem árferð hagaði meiri hlut ársins. Þannig fórust nú eigi nema nálægt 30 manns í sjó og vötnum, flestir sunnan lands og vestan, úti urðu alls um 15 manns, þar af rúmur helmingur í aftakahríðarbyl, er skall á 2. desember og stóð nokkra daga; af öðrum slysum fórust 4 menn, hröpuðu eða slösuðust á annan hátt, svo að þeir biðu bana af. Alls braut 5 þilskip hér við land og voru 2 þeirra íslensk fiskiskip, en mönnum varð bjargað. Um vorið (8. maí) hrakti fé í vötn og skemmdust nokkrar jarðir í Skaftafellssýslu og um haustið (28. sept.) gerði slíkt ofviðri undir Eyjafjöllum, að hús rauf á mörgum bæjum, en skemmdir urðu miklar á heyjum og bátum og fénaði, en fugla lamdi við jörð til bana; hafði slíkt veður eigi komið þar um slóðir í mannaminnum. Í ofsaveðri því, sem gerði 2. des. og áður var getið, fennti víða fé eða hrakti í ár og vötn, einkum í Húnavatnssýslu, Dölum og á Snæfellsnesi. Brennur urðu með mesta móti þetta ár; á Vatneyri brunnu 3 timburhús til kaldra kola 18. des. og varð fáu bjargað af innanstokksmunum; var skaðinn metinn um 50,000 kr., en þar af nokkuð vátryggt; auk þess brann timburhús á Eyrarbakka og 2 sveitabæir.
Janúar: Mjög óstöðug tíð, skiptust á ofsarok með ýmist hláku eða frostum. Kalt.
Ísafold segir þann 9.:
Norðanstormur með allmiklu frosti hefir staðið nokkra daga undanfarna þangað til í gær; lagði Skerjafjörð allan og höfnina hér talsvert, en ólendandi skipum. Í dag er blíðviðri og mun almenningur leita suður í Garð til fiskjar.
Og þann 13. segir Ísafold:
Veðrátta er nú með eindregnum vetrarblæ, frost talsverð að jafnaði og fannkoma allmikil síðustu dagana. Fátt um ferðir á sjó og landi.
Austri segir þann 12.frá miklu illviðri.
[N]óttina milli 1. og 2. janúar gekk hér í eitt af þessum ofsaveðrum. er hér geta komið, með norðanhríðum svo að varla var stætt úti og hélst þetta veður í 7 daga með dálitilli uppstyttu framan af degi 4. þ.m. svo póstur mun þó hafa komist upp yfir Fjarðarheiði. Í þessu ólátaveðri urðu hér töluverðar skemmdir. Í flestum húsum voru hlerar ekki teknir frá gluggum þennan tíma, en hér eru víðast hafðir tréhlerar fyrir gluggum vegna veðranna. En þar, sem þeir voru ekki hafðir fyrir, brotnuðu víða rúðurnar inn í húsin fyrir afli stormsins, Nokkrar bryggjur skemmdust, og fjölda báta tók upp er fluttust lengra eða skemmra og mölbrotnuðu sumir. Bát tók hér á Öldunni upp úr ánni, sem var rígbundinn með nýrri pertlínu" sem kubbaðist sundur. Hjall tók upp á Búðareyri með salti, matvælum,sjófatnaði og fleira og feykti langar leiðir. Þung reisla sem var í hjallinum fannst um 60 faðma burtu. Jerúsalem" lítið hús á Hánefsstaðaeyrum tók upp í loft með fótstykkjum og setti aftur niður nokkuð frá, litt skemmda. Á Brekku í Mjóafirði fauk ofan af heyhlöðu, en lítið af heyi því hlaðan var grafin niður. Líklegt er að víðar hafi skaðar orðið þó ekki hafi enn til spurst. Þrátt fyrir hríðarnar er snjólítið hér í fjörðunum og góð jörð.
Austri birti frekari fréttir af sköðum í þessu sama veðri þann 30.janúar:
Í ofsaveðrinu 2. og 3. þ.m. fauk stórt bræðsluhús (frá Hammers tíð) við Djúpavog út á sjó og nýbyggður saltfiskskúr, en við hann má gera. Vér viljum taka það fram, að sá sem mestan skaða leið á Búðareyri í því voðaveðri, var Einar Pálsson á Ósi, er skúrinn átti, með mestum vetrarforða hans. Hann er fátækur maður og greiðvikinn; og væri vel að góðgjarnir menn vildu rétta honum hjálparhönd.
Þann 20. er Austri ánægður með tíðina:
Tíðarfar hefir mátt heita hið æskilegasta það sem af er vetrar en fremur hefir verið jarðskarpt hér um tíma. Frost hafa verið lítil, svo sjór er auður inn á leiru, aðeins lítill ísskæningur hefur komið á Pollinn stöku sinnum, en horfið strax aftur.
Norðurljósið á Akureyri segir þann 18.janúar:
Hér nyrðra hefir tíð verið mjög óstöðug síðan á nýári. Á nýársdag var mesta blíðviðri, en tvo næstu dagana var ofsa norðangarður með miklu frosti og snjókomu. Sjógangur var óvanalega mikill hér. Nokkra báta braut og skemmdi þá á Oddeyri og út með firðinum austanverðum.
Þjóðólfur segir almennt af janúartíð í þremur stuttum pistlum:
[8.] Veðurátta hefur nú um áramótin verið mjög óstöðug. Norðanveður með miklu frosti stóð 2 daga (5. og 6. þ.m.). Í gærmorgun 14 stiga kuldi (Celsius).
[15.] Veðurátta hefur verið hér allvetrarleg síðari hluta næstliðinnar viku. Á þriðjudag (12. þ.m.) kafaldsbylur með mikilli fannkomu og talsverðu frosti.
[29.] Veðurátta hefur verið stirð viðast hvar síðan um nýár, að því er frést hefur. Einna best hefur hún verið á Norðurlandi, nema í Þingeyjarsýslu. Þar var svo mikið illviðri um og eftir hátíðirnar, að varla varð komist bæja á milli. Hefur líklega hvergi verið messað um jól eða nýár hér í sýslu" er skrifað þaðan að norðan 5. þ.m.
Þjóðviljinn ungi segir líka af janúartíð og smávegis af hafís:
[13.] Tíðarfarið hefir frá nýjársbyrjun verið óstöðugt; 5.-6. þ. m. var svört norðanhríð með -12 til -14°R), en endranær hafa oftast verið suðvestanvindar með litlu frosti, uns hann sneri aftur í norðangarð í gær. Hafís. Hr. Pálmi bóndi Jónsson í Rekavik bak Látur, sem hér var staddur í gær, sagði þær fréttir, að þykk hafíshella sæist úti fyrir Aðalvíkinni og norðvesturkjálka landsins; en ísinn liggur þó all-fjarri landi enn, og sést aðeins úr miðjum fjallahlíðum.
[21.] Tíðarfarið hefir verið mjög óstöðugt; frá 11.- 16.þ.m. var sífelldur norðanbylur, og gat ekki heitið fært bæja á milli í sveit; frá 17. þ.m. hafa verið suðvestan hríðir alltaf annað slagið.
Jónas Jónassen segir í pistli þann 23.:
Hinn 20. útsynningur, hvass í éljunum; um kveldið gekk hann allt i einu til austurs með slyddubyl og gjörði ákaflegt öskurok, sem stóð fram undir morgun, er hann gekk í útsuður með éljum; 22. hægur á útsunnan með ofanhríð. Í dag (23.) hægur á austan með snjókomu. Loftþyngdarmælir féll óvanalega lágt síðari part nætur (aðfaranótt h. 21.) allt niður í 705 millimetra [939,9 hPa].
Ísafold birti þann 10.febrúar bréf úr Skaftafellssýslu miðri, dagsett 22.janúar:
Á jólaföstunni snjóaði hér talsvert og frost þá stundum allt að 14 st. á R, en skömmu fyrir jólin tók þann snjó upp. Síðan hafa gengið á víxl umhleypingar með stormum og úrkomu, en hitt veifið snjór og kæla, nálega 14 st. frost með útsynningséljum með nokkrum snjó, ef ástöðuveður væri. Á jólaföstunni varð haglaust víðast hvar hér á sléttlendinu, en til fjallanna oftast hagar.
Þann 13.febrúar birti Ísafold bréf úr Vestmannaeyjum dagsett þann 28.janúar:
Með nýárinu hófst kuldakast, sem hélst fram um miðjan mánuðinn; mestur varð kuldinn aðfaranótt hins 7. -13,8°. Síðan hinn 16. hafa gengið mestu hroðar, rokstormar úr ýmsum áttum, og ýmist snjór og hagl eða stórrigningar. Aðfaranótt hins 21. var feiknamikið afspyrnurok á suð-suðaustan, svo elstu menn þykjast eigi muna annað eins ofsaveður á þeirri átt.
Og í sama tölublaði Ísfoldar er bréf úr Húnavatnssýslu, dagsett 25.janúar:
Tíðarfarið hefir verið æði-stirt síðan með jólaföstu, og nú er hér snjór mikill og hér um bil jarðlaust. Aðfaranótt hins 21. var mesta aftakaveður, einkum í Þinginu. Á Sveinsstöðum brotnuðu 18 rúður, í Steinnesi 15. Á Sveinsstöðum fauk hey, um 20 hesta, að á var giskað, og Hnausum nokkuð meira, 60-70; þar fauk líka niður af heyjum og brotnaði. Í Steinnesi fauk líka smiðja algjörlega um koll. Hætt er við, að veður þetta hafi gjört víðar skaða, þótt ekki hafi heyrst enn.
Þjóðólfur segir fréttir af janúarskaða þann 26.febrúar:
Í ofsaveðri nyrðra 21.f.m. fauk kirkjan á Kvíabekk í Ólafsfirði 15 faðma langan spöl og brotnaði til stórskemmda. Var þó fest niður með 4 járnkrókum og nýsmíðuð að kalla (fyrir 2 árum). Ennfremur fauk þá þvottahús á Laugalandi og mölbrotnaði.
Febrúar: Vond tíð og köld, mikið fannfergi. Mikill lagnaðarís.
Austri birti þann 29. bréf úr Lóni, dagsett 12.febrúar. Segir m.a. af veðrinu mikla í janúarbyrjun:
Um áramótin brá til norðanáttar og frosta, og 2. jan. gjörði ofsaveður af norðri með frosti og grjótfoki, sem gjörði stórkostlegar skemmdir á engjum og högum hér í Lóni, skóf af alla grasrót sumstaðar og setti sand og grjót á tún og slægjuland, svo að til vandræða þykir horfa fyrir ýmsum bændum. Frá sveitunum hér fyrir sunnan er nokkuð líkt að frétta, þó munu minnstar skemmdir orðið hafa í Nesjum; en á Mýrum hefir grjótfok spillt ýmsum jörðum að miklum mun og nálega gjöreytt einni í Suðursveit (Sævarhólum), að sagt er. Veðrið hélst með litlu millibili til 8. jan. og eftir það hafa lengstum verið hér harðindi og sumstaðar hagleysur. 9. þ.m. [febrúar] var allgóð hláka, og komu þá víða upp nokkrir hagar, en viða er líka jarðskarpt enn eða jarðlaust þegar nokkuð er að veðri.
Þann 30.mars segir Ísafold einnig frá tjóni í Lóni, úr bréfi sem ritað er 8.febrúar:
Nýársdag var stillt og blítt veður, en daginn eftir var kominn ofsastormur á norðan með grimmdarfrosti (10°C), og hélst það næstu daga, til 8. jan. (nema hlé varð á veðrinu
4. jan.). Mest frost 6. jan. (11,5° C). Þá urðu stórskemmdir af grjótfoki víða hér um slóðir, bæði á engjum og beitilandi. Í Lóni skóf sumstaðar af alla grasrót og er tómt fag eftir, og á einum bæ (Vík) er þúfnafyllir af sandi og grjóti á túninu, og sumir steinar svo stórir, að hafa má þá í hleðslu. Á Mýrum hafa ýmsar jarðir orðið fyrir miklum skemmdum, og ein jörð í Suðursveit (Sævarhólar) er sögð nálega aftekin fyrir grjótfoki. Eftir þetta skaðaveður hafa oftast verið harðindi, einkum eftir 19. jan., ýmist snjóar eða blotar eða frosthörkur. Flestir munu samt enn vera byrgir að heyjum, en haldist hagleysur til lengdar, verða margir illa staddir. Nú (8. febr.) er hér snjógaddur yfir allri jörð, og svell í rót, þar sem til jarðar nær.
Austri segir enn af veðri þann 20.febrúar (dagsetur pistilinn reyndar þann 29. - en á að vera 19. eða 20.):
Norðanpóstur kom hingað þann 19.þ.m., en sunnanpóstur enn ókominn. Með pósti bárust litlar fréttir að norðan. Hafíshroði hefir sést fyrir Norðurlandi, og þaðan er að frétta allstaðar að sömu harðindi og hér um sveitir, en þar voru menn í flestum héruðum vel búnir undir þau, eftir hið góða sumar. Hér eystra eru menn í efri sveitum Héraðsins, einkum á efra Jökuldal og í Fljótsdal orðnir mjög heytæpir og eru nokkrir Fljótsdælingar þegar farnir að reka af sér hross til hagagöngu út á Velli enda er sagt að eigi hafi verið jafnharður vetur á Dalnum í hálfa öld.
Aðfaranótt þess 12. þ.m. skall allt í einu hér á eitt af þeim ofsaveðrum sem hér eru svo tíð, og brotnuðu í því 2 bátar á Vestdalseyri. Þá sömu nótt kviknaði i skólahúsinu hér, en með því menn voru á ferli, varð strax vart við eldinn og hann slökktur.
Þjóðviljinn ungi lýsir febrúartíð í nokkrum pistlum:
[3.] Tíðarfarið hefir frá þorrabyrjun verið mjög umhleypingasamt, oftast suðvestan kafaldshríðir, en frostlint tíðast.
[13.] Það, sem af er þorra, hefir haldist óstöðug og hretviðrasöm tíð, og hafa sjógæftir því verið mjög stopular.
[20.] Þessa síðustu viku hafa haldist stillviðri, en frostharka töluverð, 10-13 stig Reaumur; sjómenn gera og orð á óvanalega miklu sjófrosti.
Ísafold birti þann 19.mars bréf úr Barðastrandarsýslu, dagsett 22.febrúar:
Síðan um hátíðir hafa haldist stöðugar hagleysur á flestum jörðum. Veðráttan hefir verið mjög rosasöm þenna tíma nær því allan, stormar af ýmsum áttum, köföld og svo blotar þess í milli. Var því allmikill snjór kominn á jörð á þorranum, en snjódýptarinnar gætir eigi eins mikið, af því að blotarnir hafa brætt hann saman; en hvar sem sést á dökkan díl, þá er það svell, allt upp á fjöll. Nú um vikutíma hefir verið stillt og heiðskírt veður, en frost allmikið, allt að 13°R., svo firði er farið að leggja, en allt í einni gaddhellu á landi. Flestir munu vera nokkurn veginn heybirgir, ef harðindin haldast eigi því lengur. Skepnuhöld góð, síðan bráðapestin hætti, en hún gekk á nokkrum bæjum framan af vetrinum.
Þjóðólfur birti þann 4.mars bréf af Eyrarbakka, dagsett 22.febrúar:
Harðindatíð síðan fyrir jól. Oftast umhleypingar og snjógangur, þangað til 3 vikur af þorra, síðan hreinviðri með miklum kulda. Öll jörð undir klaka.
Þjóðólfur birt þann 21.mars bréf úr Svarfaðardal, dagsett 16.febrúar:
Tíðarfar hefur verið hér mjög hart síðan i annarri viku vetrar, allt undir fönn og gaddi, og síðan ég kom i Svarfaðardal fyrir 30 vetrum hefur ekki komið snjóþyngri vetur. Hinar miklu heybirgðir, er voru hér víðast hvar í haust munu því ganga upp og gott ef hrekkur. Hafsíldarafli hefur verið mikill hér á Eyjafirði í haust og vetur allt til þessa, svo að elstu menn muna ekki slíkt um þennan tíma árs.
Mars: Vond tíð og mjög köld. Mikill snjór.
Þjóðólfur segir af frosti og ísalögum þann 11.mars:
Harðindi eru mikil um þessar mundir. Í vikunni fyrir síðustu helgi [sunnudagur 6.] voru þíður nokkra daga, en með helginni brá til norðanáttar og hefur síðan verið aftakafrost einkum 8. og 9. þ. mán. Mestur varð kuldinn aðfaranótt hins 9. -20,5 stig á Celsius, en 18 stiga kuldi um miðjan dag hinn 8., og hefur ekki jafnmikið frost komið hér næstliðin 22 ár. Harða veturinn 1881 var mestur kuldi 20 stig (aðfaranóttina 21. mars). Ísalög eru því óvenjulega mikil nú. Höfn bæjarins er lögð út fyrir Effersey og allar fiskiskútur, sem lágu á henni, frosnar inni, en ísinn svo traustur, að ekið hefur verið á sleðum út i þær vistum og veiðarfærum.
Þjóðólfur segir áfram af frosthörkum og ísalögum þann 21.mars:
Upp til sveita varð frostið 8. og 9. þ.m. 20-23°R, að því er frést hefur. Á Breiðafirði voru meiri ísalög, en þau voru mest frostaveturinn 1880-81. Hvammsfjörður var t.d. ein íshella, svo að ríða mátti eftir honum endilöngum jafnvel út í Stykkishólm, er oss skrifað úr Dölum 8. þ.m. Hafís kom fyrir skömmu inn á Húnaflóa og var þar landfastur að vestanverðu inn á Hrútafjörð. Einnig sagður hafís við Melrakkasléttu. Hláka og blíðviðri hefur verið hér næstliðna viku.
Austri birti þann 22.mars bréf úr Lóni, dagsett 12.mars og segir síðan aðrar tíðarfréttir:
Það varð ekki mikið gagn að hlákunni sem kom hér einn dag snemma í febrúar (9.) því að brátt komu aftur frost og snjóar, og héldust hagleysur út þorrann og fyrstu viku góu, en 2.mars kom góð hláka, sem hélst 4 daga, og komu þá allstaðar upp góðir hagar. En 6. mars hljóp skyndilega í norðanátt með snörpu frosti, og daginn eftir brast á snjóbylur ákaflegur sem hélst næsta dag og var honum samfara mesta harðviðri og grimmdarfrost (mest 18 st.). Hinn 9. hélst enn hvassviðrið, og varð þá jafnvel hvassast um tíma, en daginn eftir lygndi og hafa síðan verið stillingar og bjartviðri með talsverðu frosti á nóttum (10-12 stig C.) Fyrir hlákuna voru stillingar nokkra daga frá 25. febr., var þá róið fám sinnum og aflaðist lítið eitt í Nesjum, annarsstaðar ekki, svo frést hafi. Í ofsaveðrinu urðu miklar skemmdir hér í sveit á túnum, engjum og högum af grjótfoki og lítur illa út með bjargræði manna framvegis. Í þessu sama ofsaveðri brotnaði kirkjan að Hálsi i Hvammsfirði [? á að vera Hamarsfirði] og fjárskaðar urðu nokkrir í Nesjum einkum í Arnanesi. Annars vantar greinilegar fregnir um það, er veður þetta kann að hafa valdið hér nærlendis.
Tíðarfar. Á öskudaginn 2. þ.m, gjörði hér í Múlasýslum allgóða hláku, er hélst til laugardagskvölds þann 5. og kom þá upp töluverð jörð í Héraði, En á sunnudagsnóttina sletti í rót og hljóp síðan í gaddhörku með ofsaveðri fram í miðja viku, og hefir mjög spillst aftur um jörð, en mundi þó fljótt taka ef sólar nyti.
Þjóðólfur birti þann 3.maí eftirfarandi frétt um skaða í veðri 8.mars:
Fjárskaðar. 8.mars hrakti til dauðs 60 fjár frá 3 bæjum i Álftaveri, 45 kindur frá einum bæ í Skaptártungu (Flögu) og 37 frá Sléttabóli á Síðu. Var þann dag aftaka norðanhríð þar eystra með 18° kulda (R).
Ísafold birti þann 19. bréf úr Vestmannaeyjum, dagsett 11.mars (reyndar stendur 11.febrúar í blaðinu - en það getur ekki verið rétt):
Fyrri hluti febrúarmánaðar var býsna stormasamur, en síðari hlutann allan og fyrstu 5 dagana framan af þessum mánuði mátti oftast heita veðursæld eftir árstímanum. Kaldur var mánuðurinn ekki; frost voru þó oftast frá 1.-7. og frá 16.-25.; mest frost var aðfaranótt hins 6. -10,8°. Úrkoman var mjög lítil, aðeins 45 millimetrar. Hinn 7 þ.m. [mars] hófst ákaflega hart norðanveður, er stóð með afspyrnuroki og grimmdarfrosti fram undir kvöld þann 9. Aðfaranætur hins 8. og 9 var frostharkan mest - 20,3° og -20,6°, mun annað eins frost varla hafa komið hér í síðustu 30 ár; frostaveturinn mikla 188081 varð kuldinn hér aldrei yfir 19°.
Þann 9.mars segir Jónas:
Fyrri part laugardagsins [5.mars] var hér logn og dimmviðri en gekk svo til norðurs, bjartur og nokkuð hvass síðari part dags; hvass á norðan fram undir kveld h.6.; logn hér að morgni h.7. en fyrir hádegið genginn til norðurs og hefir síðan verið hvass á norðan með ákaflega miklum kulda. Í morgun (9.) hægur hér á norðan og bjart sólskin. Rok við og við í nótt. Bálhvass útifyrir. Harða veturinn 1881 var mestur kuldi aðfaranótt h. 21.mars nefnilega 20 stiga frost, en aldrei hefið viljað til síðustu 22 árin, að 18 stiga kuldi hafi verið um miðjan dag, eins og nú þriðjudaginn h.8.
Ísafold birti þann 9.apríl nokkur bréf utan af landi. Lýsa þau tíð í marsmánuði:
Mýrdal 13.mars: Manndrápsbyl gjörði um daginn fyrir austan Sand, og er sagt, að Jón hreppstjóri í Klausturhjáleigu og Stefán í Hraungerði í Álftaveri hefir misst alla sína sauði, sem sjálfsagt hafa hrakið í sjó. Fjárskaðar einnig úr Tungunni.
Barðastrandarsýslu (sunnanverðri) 27.mars: Veðurátt fremur stirð í þessum og næstliðnum mánuði, oftast norðan-kófköföld og með miklu frosti, frá 8 til 20 st. á R; mesta frost þ. 7. og 8. þ.m. yfir 20 stig á R. Hinn 23. og 24. brá til útsunnanáttar, hvassviðri og stórrigningar, stóð það hryðjuveður þá tvo daga, kom víða upp jarðsnap, síðan kalt og fremur stillt veður til þessa. Lag-ísar orðnir hinir mestu, er menn til muna sunnanvert á Breiðafirði, gengur ís af Skarðströnd beint á Reykjanes og þaðan út um allar vestureyjar og enda í Flatey, sem yst liggur, af Múlanesi. Enginn kvartar enn um heyleysi, og er þó orðin fremur löng innigjöfin hjá oss í vetur, um 20 vikur, sem var óvanalegt á fyrra helmingi þessarar aldar, að menn gætu gefið svo lengi innigjöf öllum fénaði, og þar til er hann nú sagður í bestu holdum alstaðar, og haldið er að flestir muni hafa hey fram yfir sumarmál fyrir sauðfé, og fyrir kýr fram úr.
Barðastrandarsýslu (vestanverðri) 16. mars: Á góunni hefur veður yfir höfuð verið stillt og hreint, en kuldi allmikill með köflum, hæstur 8. og 9. þ.m. 18 og 19° á R. Síðustu daga hefir þó verið all-hlýtt, allt að 4° á R um hádaginn hæstur hiti, svo síðan hefur tekið í móti sól, og dálitlir hagar komið upp á stöku stöðum. Hafísjakar kvað hafa rekið sumstaðar hér út á annesjum, og skammt undan landi hefur hann legið úti fyrir fjörðunum. Firðir hafa verið með köflum al-lagðir út í mynni og gengir innan til. Ýmsir munu verða tæpt staddir með hey, haldist þessi harðindi miklu lengur, og af sumum hefur þegar verið tekið til fóðurs.
Strandasýslu (sunnanverðri) l.apríl: Tíðarfar hefir verið mjög kalt og frostasamt í vetur, jafnaðarlegast norðanátt og frost stundum allt að 20 stig á Celsius. Hafís er allmikill á Húnaflóa og frést hefir, að bjarndýr hafi gengið á land á Ströndum. Jarðbönn hafa verið hér og í nærsveitunum síðan um nýár; þó hefir oftar verið snjólétt, en svell-gaddur ákaflega mikill yfir allt. Varla mun nokkursstaðar vera farið að brydda á heyskorti enn, en líklega skiptir nú ekki svo bráðlega um tíðina, að heyfyrningar verði til mikilla muna hjá mörgum í vor.
Skagafirði 21. mars: Veðuráttan hefir verið stirð síðan ég reit síðast og víða hefir verið jarðlaust í sýslunni, sökum fanndýptar og harðfennis. Hinn veðursæli framhluti Skagafjarðarins, einkum Blönduhlíðin og Tungusveitin, hefir þó verið í þessu undantekning; þar hefir verið jörð og vanalega eigi mikill snjór. Frost hafa orðið hörðust 6.12. þ.m., stundum nær 20°R. ísinn hefir verið nálægur þennan síðasta harðviðristíma; hefir hann komið inn í fjarðarmynnið, og inn hjá Drangey, og hafst þar við marga daga. Nú hefir aftur brugðið til landáttar og sést nú eigi ísinn héðan innan að. Mjög fáir kvarta um heyleysi. Vonandi, að heyin eftir hið blíða sumar nægi til að koma fénu vel af, þótt það lifi víst með flesta móti, og innigjafatíminn verði víða langur.
Þrjú bjarndýr höfðu í [mars] gengið á land á Melrakkasléttu, og tvö þeirra verið unnin.
Í Þjóðólfi þann 1.apríl er bréf úr Mýrdal dagsett 17.mars:
[Þann 9.mars] gerði hér aftaka norðanveður með 20 stiga frosti, en ekki gerði það neinn skaða hér. En frést hefur, að allmiklir fjárskaðar hafi þá orðið í Álftaveri og Skaftártungu. Hrakti fé þar í sjó og vötn og fraus í hel.
Þjóðviljinn ungi segir af marstíð:
[11.] Mestu aftaka frosthörkur hafa gengið í þ.m., svo að frostið nokkra daga var 20-23 gr. R; 9. þ.m. fór þó aftur að draga úr frostinu, og hafa þessa síðustu daga haldist hreinviðri með 4.-7 gr. frosti. Maður varð úti aðfaranóttina 6. þ.m. ... var á leið héðan úr kaupstaðnum út í Hnífsdal.
[19.] Þessa síðustu viku hafa oftast verið stillviðri og frostalítið. Hafís. Maður, sem nýskeð kom norðan úr Steingrímsfirði, sagði hafþök af hafís um allan Húnaflóa.
[1.apríl] Hlákublotinn, sem kom um 20. [mars] stóð ekki lengi, með því að 24. hleypti í kafaldsbyl með töluverðu frosti, og hefir síðan haldist snjóa- og illviðra-tíð allt af öðru hvoru þangað til aftur brá til þíðviðris í gær.
Þjóðólfur segir þann 1.apríl frá Skeiðarárhlaupi:
Jökulhlaup. 13. [mars] kom hlaup úr Skeiðarárjökli yfir allan Skeiðarársand, og þykir líklegt, að það stafi af eldsumbrotum í jöklinum. Ekki hefur enn frést með vissu, að manntjón hafi orðið í hlaupi þessu, en piltur úr Fljótshverfi hafði lagt á sandinn austur yfir, daginn áður en hlaupið kom, og eru menn hræddir um, að hann hafi ef til vill farist í því. Póstur frá Bjarnanesi var ókominn vestur yfir og var haldið, að hann biði í Öræfunum. Öll umferð um sandinn hefur teppst að minnsta kosti um hálfan mánuð eftir hlaupið, og lengi á eftir verður hættulegt að fara yfir hann sakir hvarfa eftir jökuljakana, er þeir þiðna ofan í sandinn.
Þjóðólfur segir af marstíð og lagnaðarís þann 16.apríl:
Veðurátta hefur verið hörð um allt land í marsmánuði og frost mikil, að því er frést hefur. Í Jökulfjörðum t.d. varð kuldinn mestur 2324°R þ. 20.[mars]. Var hestís af Barðaströnd út í Svefneyjar og um tíma varð gengið allt út í Flatey. Úr Stykkishólmi mátti ganga inn á Skarðströnd og upp á Skógarströnd og milli flestra suðureyja. Er skrifað þaðan að vestan, að jafnmikil ísalög hafi ekki komið þar síðan álftabanaveturinn" 1859.
Þjóðólfur segir þann 10.júní: Kirkja fauk á Hálsi við Hamarsfjörð í marsmánuði og mölbrotnaði.
Apríl: Óhagstæð tíð þrátt fyrir blota.
Þann 30.eru tvö bréf í Ísafold sem lýsa tíð (aðallega í mars þó):
Skaftafellssýslu miðri 14. apríl: Tíðin hefur fram að því fyrir rúmri viku verið harðindasöm, stundum feiknagaddar og byljir, einkum hinn 8. [mars]; þá var 16 til 18° á R og svo mikill fjúkrenningur, að ekki var út úr húsum stígandi. Fyrir liðugri viku brá til mara, svo jörð varð um þessar slóðir alauð, en nú er aftur snjó-gróði og kæla.
Árnessýslu (Eyrarbakka) 14.apríl : Síðan ég skrifaði yður síðast hefir ekki borið neitt nýtt til tíðinda. Sjaldan róið og því nær fisklaust. Síðastliðinn mánuð var veðurátta fremur góð, að undanteknum tveim kuldaköstum, er voru venju fremur ströng. Hið fyrra var frá 5.15. Þ.7. var norðanstormur og frost, 20° á C um hádegi, og er það hið mesta frost um hádegi, er komið hefir með svo miklum vindi síðan 29.janúar 1881. Seinna kuldakastið var frá 25.28. Var frost þá ekki eins mikið á daginn, en steig þar á móti hærra á næturnar, einkum þó nóttina milli 27. og 28.; urðu þá 25,6 á C, sem er það mesta frost, er hér hefir komið um síðustu 10 ár. Úrkoma varð þennan mánuð samtals 104 mm. Þann 29. og nóttina þar á eftir rigndi 42,6 mm, og hefir ekki rignt eins mikið á einum degi síðan 3. sept. 1886.
Þjóðviljinn ungi segir af apríltíð í tveimur örstuttum pistlum:
[6.apríl] Það, sem af er þessum mánuði hafa verið suðvestanþíðviðri og hefir komið upp nokkur jörð.
[26.] Harpa gekk í garð með sannkölluðu sumarblíðviðri 21.þ.m.
Ísafold birti 14.maí bréf úr Eyjafirði, dagsett þann 18.apríl:
Vetur sá, sem nú er nærri því á enda, þykir hafa verið með harðari vetrum einkum, frá nýári. Í snjóléttari sveitum Eyjafjarðar voru lömb 24 vikur í húsi svo, að þau komu ekki út nema til brynningar, en fullorðið fé 21 viku, og þykir það langur tími. Janúarmánuð allan voru mestu óstillingar og miklar fannkomur tíðar; átt var lengst af við norður eða norðaustur. Meðalhiti mánaðarins var -8,35°C. Febrúarmánuð hélst hið sama veður með hríðum og stormum, þangað til síðustu viku mánaðarins; þá komu stillingar, en frostin héldust hin sömu. Áttin var lengst af við norður. Meðalhiti mánaðarins var -10,82°C. Allan fyrri part marsmánaðar hélst hin sama veðrátta; um miðjan mánuðinn stillti til, og 22. og 23. kom hér hláka, svo jörð kom upp í snjóléttari héruðum, en þá sneri jafnharðan i norðanhríð með miklu frosti. Meðalhiti mánaðarins var -9,25°C. Fyrstu viku aprílmánaðar var besta hláka, svo snjólaust varð í sumum sveitum, en jörð kom upp allstaðar; en síðastliðna viku hafa frost verið mikil, að meðaltali á sólarhringnum frá 710 stig, en snjókoma hefir engin verið. Hafíshroða rak hér inn á fjörðinn 8. mars, en rak burt aftur hinn 21. Ekki hefir fjörðinn lagt að staðaldri nema allra innst, og hákarlaskip eru nú komin öll á flot nema þau, sem eru inn á Oddeyri. Mest hefir frost orðið hér -27,5°C ; en veturinn 188081 var það -35,0°C. Um hafís fyrir utan landið vita menn ekki glöggt, en þó þykjast menn hafa séð einhvern hroða hér úti fyrir.
Þjóðólfur birti þann 5.maí bréf úr Húnavatnssýslu, dagsett þann 19.apríl:
Tíðarfar framan af vetrinum, fram um jól, má, að öllu samtöldu, kallast mikið fremur gott, oftast stillingar með fremur vægu frosti; hlákur mjög sjaldan. Hríðarköst komu ekki nema 3, sem teljandi eru; fyrst 8.12.nóvember, aftur seinni partinn í sama mánuði og eitt fyrri partinn í desember. Gamla árið endaði hér hjá oss illa og einkennilega. Einkennilegast var það fyrir hinar óvenjulega miklu og voðalegu slysfarir, er flestar urðu einmitt um hátíðirnar. Það var eins og menn kepptust við að fyrirfara sér á einhvern hátt. Síðan árið 1892 gekk í garð hefur tíðarfarið tekið allmiklum breytingum. Seinni partinn í vetur hafa verið óvenjulegar óstillingar ásamt harðneskjum oft og tíðum. Sama veður hefur varla haldist degi lengur og oft hafa verið 23 veðrin á dag. Hið mesta veður hér var ofviðrið aðfaranótt þess 21.janúar. Þá fauk fjóshey allt að veggjum á Þorbrandsstöðum í Langadal. Annarstaðar hefur ekki frést um stórskemmdir. Heyafli var víðast mikill síðastliðið sumar, og eru nú líka allir birgir með hey, nær því óvenjulega, og þó hefur eyðst mikið af þeim sakir sakir óstilltrar tíðar. Það er örgrannt um, að nokkurstaðar heyrist talað um heyskort. Ís hefur ekki verið hér að neinu ráði. Aðeins hefur núna seinni partinn í mars sést hér út á flóanum lítilfjörlegur hroði vera að flækjast til og frá, en sem nú er horfinn í bráð eða lengd.
Ísafold birti þann 21.maí bréf úr Suður-Múlasýslu, dagsett 21.apríl:
Veturinn hefir verið langur og harður, og voru flestir á þrotum með hey sín þegar jörð kom upp og tíðin fór að batna. Hretið síðasta um alla dymbilvikuna [um miðjan apríl] var afarhart. Þá var töluvert hafísrek hér fyrir utan Austfirði, enda fyllti líka firði alla með ís, en það eru líkur til að hann hverfi nú aftur, því þessa dagana er sunnanstormur fyrir utan land.
Jónas segir í pistli þann 27. apríl:
Tvo fyrstu dagana var hér fegursta veður, hæg útræna 24. og 25. Að kveldi h.25. gekk hann til austurs-landnorðurs og aðfaranótt h. 26. féll hér talsverður snjór og allan fyrri part dags (26.) ofanhríð af landnorðri rétt sem um hávetur; síðari part dags gekk hann til norðurs útifyrir, logn hér Í morgun (27.) blæja-logn hér og sólskin; 6 stiga frost í nótt.
Ísafold segir af hafís í pistli þann 30.apríl:
Enginn var hafís á Húnaflóa nú fyrir viku og ekki á Skagafirði né Eyjafirði, er póstur fór um; en lausafrétt hefir borist á eftir pósti um hafís á Skagafirði. Þar á móti er fullt af hafís fyrir Austurlandi, og flutti þá frétt hingað í dag norskt kaupskip, Guðrún (kapt. Thorsen), er kom annan í páskum (18.apríl) að Vestra-Horni frá Noregi og ætlaði til Mjóafjarðar með við, kol og salt, pantað, eftir ráðstöfun O. Wathne, komst norður fyrir Seyðisfjörð fyrir utan ísinn, er náði 10 mílur út frá landi allt suður undir Papós. Það var íshroði, þéttari við land. Fimm danskar skonnortur lágu við ísinn, þar á meðal Grána. Mánudaginn var hélt Guðrún af stað hingað suður fyrir frá ísnum.
Ísafold birti þann 17.maí tíðarfarspistil úr Vestmannaeyjum, dagsettan 28.apríl og síðan fregnir af Snæfellsnesi dagsettar þann 23.:
Eftir 10.mars var veðrátta í þeim mánuði sjaldan mjög stormasöm, og sjógæftir því oft fremur góðar. Kuldi var heldur eigi tilfinnanlega mikill nema í gaddkastinu, sem stóð frá 25. til 29.; þá var 18° frost aðfaranótt þess 26. Í þessum mánuði [apríl] hefir veðrátta verið býsna storma og umhleypingasöm, og lítið um góð sjóveður, enda fór fiskur héðan algjörlega snemma í mánuðinum, svo varla hefir orðið vart síðan. Fyrstu 12 daga mánaðarins var veður fremur hlýtt með 811° hita á daginn, en svo kom kastið fyrir páskana með snjókomu og 6° frosti, er stóð í viku frá 13. til 19.; síðan hlýnaði aftur, en svo skall á mesta hríð í fyrradag [26.] með austanroki, og hefir verið 13 stiga frost síðustu 4 nætur, en snjórinn sjatnar óðum fyrir sólbráðinu í gær og í dag. Þessi síðustu kuldaköst hafa þó að líkindum vondar afleiðingar; því ekki er ólíklegt að talsvert muni falla hér af sauðfé, er var orðið mjög vorlegt eftir veturinn og gaddköstin í mars, og mátti því illa við að taka á móti þessum vorköstum. Úrkoman í mars var 106 millimetrar, í þessum mánuði 120.
Snæfellsnesi, 23.apríl: Veðrafar mjög hagstætt nærfellt allan einmánuð; tíðast leysingar og góðviðri; er því allstaðar hér orðinn mjög vel leystur snjór, og útigangsskepnur orðnar léttar á gjöf eða komnar af gjöf.
Norðurljósið segir þann 28.apríl:
Á sumardaginn fyrsta [21.apríl] var mesta blíðviðri, en síðan hefir verið afskaplega kalt. Lagís liggur hér enn á pollinum og langt út fyrir Oddeyri. Hákarlaskipin, er sett voru fram af Oddeyrinni fyrir skömmu, gátu þó brotist út í gegnum ísinn á þriðjudaginn var. Hafís mikill sagður úti fyrir austur með landi, en fyrir viku síðan var Húnaflói og Skagafjörður sagður íslaus.
Maí: Kuldatíð með bleytuhríðum og næðingum. Kyrkingsþurrkar á Suður- og Vesturlandi.
Þjóðólfur segir frá hafís þann 3.maí:
Hafís var landfastur við Langanes og Melrakkasléttu í byrjun f.m. og sat Húsavíkurskip þar fast í honum við Langanes (um 10.f.m.). Tvö bjarndýr komu á land með honum á Tjörnesi, en varð ekki náð. Enn fremur sagður hafís fyrir öllu Austurlandi suður undir Papós eftir miðjan f.m.
Ísafold birti þann 21.maí bréf úr Barðastrandarsýslu og Strandasýslu, dagsett fyrr í mánuðinum:
Barðastrandarsýslu vestanverðri 5. maí: Veðrátta mjög köld, 7 til 8 stiga frost um morgna þessa daga. Fiskvart vel við Patreksfjörð, um 30 í hlut af smáfiski.
Strandasýslu miðri 9. maí: Tíðin var fremur slæm í vetur, enda hafa hey eyðst með langmesta móti.Ég hefi séð gjafatöflu hjá bónda, sem haldið hefir slíka töflu með mikilli nákvæmni í 18 ár, sem hann hefir búið hér í þessu plássi, og samkvæmt henni var hinn 26. f.mán. búið að gefa jafnlengi og veturinn 188081, eða í 22 vikur og 5 daga fullorðnu fé, en talsvert hefir verið gefið síðan, svo eftir því eyðast nú meiri hey en nokkuru tíma áður síðast liðin 18 ár (þessi 22 vikna tími er algjör innistaða, því þegar féð léttir sér á t.a.m. um helming, þá er sú vika talin hálf o.s.frv.). Hross hafa staðið hér inni jafnlengi og fullorðið fé, en lömb miklu lengur, 2526 vikur, svo ekki er að furða þó fyrningar verði litlar; flestallir munu þó hafa næg hey, þó vorið verði hart, eins og útlit er fyrir, því nú eru einlægir kuldanæðingar, milt veður aðeins dag og dag.
Þjóðólfur birtir 10.júní bréf úr Suður-Múlasýslu (Álftafirði), dagsett 13.maí:
Tíðin mjög köld og stirð síðan um sumarmál, norðanstormar öðru hvoru með hörkufrosti. 8. þ.m. [maí] skall á moldöskubylur með fannfergju og grimmdarfrosti; fennti þá fé víða og hrakti í ár, á sumum bæjum um 10 kindur og á einum bæ í Lóni 4050. Illa lítur út með allt: grasvöxt, fénaðarhöld, verslun m.m. Kuldi, kröm, vesöld og dauði í hverju horni.
Jónas segir í pistlum 11. og 21. maí:
[11.] Hægur á norðan h.7., en hvass á norðan hinn 8. með miklum gaddi; kl. 9 um morguninn var 8 stiga frost og frusu gluggar um miðjan dag; logn eða hæg útræna h.9. Landnorðan, hvass og kaldur h.10. Hægur á austan og dimmur í morgun (11.) og ýrir regn úr lofti.
[21.] Undanfarna daga á norðan, kaldur og við og við snjór úr lofti, hvítt hér snemma morguns h.20. Ekkert útlit enn að breytast um veður.
Ísafold segir af hafís og kulda þann 14.maí:
Hafís mun nú vera eða hafa verið til þessa kringum allt land, nema sunnan og vestan milli Eystra-Horns og Bjargtanga, en þó eigi inn á fjörðum nema á Austurlandi og vestur undir Eyjafjörð, heldur nokkrar mílur undan landi frá því, nema við Hornstrandir; þaðan er skrifað 2.þ.m., að varla hafi séð í auða vök fyrir austan Straumnes síðan í febrúar, og enn sér eigi út yfir ísinn af Hornbjargi sem augað eygir í heiðskíru veðri. Síðan í febrúar og þangað til í miðjum fyrra mánuði (apríl) hefir skip sést í ísnum, oftast í norðvestur frá Horni og er haldið verið hafi selveiðaskip frá Norvegi. Fiskiskútur á Vestfjörðum segja ísinn vera þar 45 mílur undan landi eða þar um bil, allt suður á móts við Látrabjarg. Vorkuldar miklir eru afleiðingar af þessari hafíssgirðingu og hafa haldist hér þar til nú fyrir 23 dögum. Á Ísafirði hálflagði höfnina á nóttu meðan Laura lá þar, og eins á Dýrafirði; hafði verið 1214 stiga frost (C). Óvanalega lítið leyst af snjó á Vesturlandi, varla af túnum sumstaðar.
Norðurljósið segir þann 16.maí:
Tíðarfar að jafnaði kalt. 7. og 8. þ.m. var norðan hríð og aftaka frost; sagt að eitthvað af fé hafi þá frosið í hel og fennt í Þingeyjarsýslu. Um byrjun mánaðarins var mikill ís fyrir Austurlandi; Eskifjörður var þá alveg fullur. En líklegt er að ísnum hafi þokað eitthvað frá nú að undanförnu, því þann 13. og 14. þ.m. var landaustan átt fremur hlý. Nú veður aftur gengið meira til norðurs, loftið kalt og fullt af regni og þoku.
Ísafold segir enn af hafís í pistli þann 17.maí:
Í gær kom herskipið franska, sem hér er við land, hingað sunnan um land, uppgefið við að komast til Austfjarða, sem það ætlaði; hreppti hafís-þoku og illviðri við Ingólfshöfða og sneri þar aftur; hafði tal af franskri fiskiskútu, sem sagði enn fullt af hafís fyrir Austurlandi. Hér er og enn greinileg hafís-veðrátta, þótt heldur sé að hlýna.
Þann 30.maí birti Austri bréf úr Lóni - dagsetningar ekki getið, en aðallega er fjallað um veðurlag í mars og Skeiðarárhlaupið þá:
Frá því ég skrifaði síðast, (12.mars) var um hríð fremur góð tíð og frostvæg, og hlýnaði smám saman í veðri, til þess er aftur gekk skyndilega í norðanveður með grimmdarfrosti 20°C hinu mesta, er hér hefir komið á þessum vetri og líklega um mörg ár. Veður þetta stóð aðeins einn dag 25. mars en frost mikið hélst næstu dagana 2627. Eftir það brá til hlýinda og hláku, sem enn helst og er nú mesta veðurblíða. Líklega verða skepnuhöld allgóð hér um sveitir ef tíð versnar ekki stórum úr þessu. Nokkuð hefir orðið aflavart í sveitunum fyrir sunnan Almannaskarð, einkum var það einn dag 26. menn urðu vel varir úti fyrir Mýrum, en síðan hvarf sá vottur aftur, og ekkert hefir aflast hér í Lóni. Skeiðará hljóp þ.12. dag marsmánaðar og næstu daga voru þá hér umbil rétt 9 ár síðan hún hafði hlaupið (1883, og þar á undan 1873), en þetta hlaup er talið eitthvert hið stórkostlegasta er menn hafa sögur af. Er svo skrifað úr Öræfum. að svo hafi verið að sjá. sem hún hafi flóað yfir allan Skeiðarársand ég allstaðar farið yfir fjörur og hafi sýnst sem ein hafís breiða væri yfir sandinum. Póstur sá, er fer héðan að austan suður að Prestsbakka, tepptist af hlaupi þessu í Öræfum, og eru menn hræddir um að það muni ef til vill tálma póstferðum að sunnan um lengri eða skemmri tíma.
Austri segir af tíð og hafís þann 30.maí:
Íslaust er sagt hér úti fyrir og hafa kaupskip sést þar á siglingu. Nýlega fréttist að norðan, að íslaust væri á Húnaflóa, Skagafirði, Eyjafirði, og Skjálfanda. Hér í fjörðunum snjóar nær því daglega, en upp á Héraði kvað vera mildari tíð.
Þjóðviljinn ungi segir frá maítíð í tveimur pistlum:
[11.] Vorið hefir verið eitt hið kaldasta, er menn muna, oft 68 gr. frost á nóttu R, og kafaldsköst öðru hvoru; þessa síðustu dagana hefir þó verið allgott veður.
[31.] Vorið má teljast með hörðustu vorum, er komið hafa og lítil sem engin gróðrarmerki eru enn farin að sjást á túnum. Lambadauða töluverðan er víða kvartað um hér í nærsveitunum enda er ærpeningur viða illa fram genginn.
Hafþök af hafís hafa um hríð verið fyrir Norður-landinu og hafa ýms verslunarskip til Norðurlandsins leitað hingað, og bíða þess, að ísinn lóni eitthvað frá landinu. Í gær kom hingað hákarlaskúta norðan frá Siglufirði, og fréttist með henni, að ísnum hefði lónað ögn frá landinu, svo að komast mætti alla leið til Eyjafjarðar; en ísinn þó ekki langt í burtu.
Austri birti 10.júní bréf úr Vopnafirði dagsett 27.maí:
Um tíðarfar, fjárhöld og ís er ekki annað en það versta að segja. Ísinn hefur legið hér við síðan um miðjan apríl og aldrei á þeim tíma verið skipgengt. Það urðu því allir hissa þegar Thyra" sást hér út í firðinum 17.þ.m.; enda komst hún ekki lengra enn inn að Fagradal. Þar gengu farþegarnir af henni allir nema 2 Englendingar, dagana 1921. maí, og komu hingað. Þann 25. var búið að útvega þeim hesta til ferðar norður og lögðu þeir því allir af stað nema einn sem bíður þangað til skipsferð fellur norður. Þann 22. þ.m. hafði Thyra" sig út úr firðinum, en hvað um hana hefur orðið vitum vér ekki, því alltaf hefir mátt heita dimmviðri, og ísinn liggur hér innfjarðar, alltaf eins og verið hefir.
Austri birti þann 20.júní bréf úr Hróarstungu, dagsett 31.maí:
Tíðin er köld og fer nú að verða býsna skaðleg. Enginn gróður er hér enn, og snjókoma á hverjum degi meiri eða minni, þó tekur snjóinn upp daglega.
Júní: Kuldatíð lengst af. Þurrt.
Ísafold segir 1.júní:
Veðrabrigðin um daginn urðu stopul. Sama hafískuldabálið nú aftur og áður. Norskt kaupskip kom hingað í gær frá Ísafirði og sagði þar íslaust að vísu, en fullt við Horn og skammt undan landi fyrir Vestfjörðum.
Þjóðólfur segir líka frá kulda þann 3.júní:
Veðurátta hefur verið hér mjög köld um þessar mundir, oftast norðanþreyskingur með nokkru frosti á nóttum, en úrkoma mjög lítil; snjóaði niður í byggð i fyrri nótt.
Norðurljósið segir þann 3.júní:
Tíðarfar er alltaf mjög kalt. Hefir nú um tíma verið norðaustanátt; og síðustu dagana snjóbleytuhríð; austur undan hafa veður þó verið miklu verri, oft krapahríðar og snjóveður. Var þar viða mikill nýfallinn snjór, er póstur fór að austan. Gróðurlaust enn yfir allt, og útlit hið versta með skepnuhöld. Sumstaðar á útsveitum er nú búið að gefa inni öllum fénaði milli 30 og 40 vikur.
Ísafold birti þann 15. bréf úr Vestmannaeyjum og úr Strandasýslu:
Strandasýslu miðri 5. júní: Dæmalausir kuldanæðingar í allt vor síðan á pálmasunnudag [10.apríl], svo aldrei hefir verið hlé á nema einn dag i bili; aldrei komið dropi úr lofti og kafald heldur ekki. Þó hefir tekið yfir með kuldann og næðingana síðan 14. maí. Þá rak hér inn íshroða og síðan hefir verið hvíldarlaus garður. Ísinn er ekki mikill hér, að eins fjarðafyllir. 31. [maí] kom skip hér inn og gat það smogið inn á Steingrímsfjörð með norðurströndinni; skip þetta á líklega að fara á Borðeyri, því það sigldi inn að ísskörinni, sem liggur frá Vatnsnesi að Ennishöfða. Ís þessi er allur flatís, er hann svo fast skrúfaður saman, að hákarl hefir verið veiddur upp um hann frá einum bæ mína fyrst í júní. Annars eru allar bjargir bannaðar af sjó.
Vestmannaeyjum 10. júní: Síðan ég skrifaði Ísafold siðast, hefir veðurátta verið mjög köld og þurrviðrasöm, í f. mánuði [maí] 8° frost um nætur. Aðfaranótt hins 9. var kaldast -9,2, og er víst langt síðan, að svo mikið frost hefir komið hér í maímánuði; öll úrkoman í mánuðinum var að eins ll,5 millimetrar. Eftir þessari veðuráttu hefir gróðurinn farið, og það er fyrst fyrir skömmu, að tún eru orðin græn. Nú er nokkuð farið að hlýna í veðri; 7. þ.m. var dagshitinn 15,6° og í gær 13,3°, en gróðrarskúrum vill lítið fjölga, úrkoman þessa 9 daga, sem af eru mánuðinum, 8,8 millimetrar.
Austri segir frá þann 10.júní:
Á annan í hvítasunnu [6.júní] brá tíðin allt í einu til besta batnaðar með vestanvindi, sólskini og hlýindum. Hafísinn er nú loksins farinn af fjörðunum hér austanlands og því gufuskipin Vaagen" og Ernst" bæði farin á stað til útlanda, en verslunarskip sögð komin til suðurfjarðanna.
Þann 20. birtist í Austra bréf úr Eyjafirði, dagsett 13.júní:
Veðrátta hefir verið hin versta hér í vor þar til um hvítasunnu. Brá þá til sunnanáttar, er hélst um nokkra daga. Nú er aftur komin norðanátt en fremur stillt veður, kalt á nóttum, en sólskin á daginn. Síðastliðna viku hefir jörð gróið talsvert, svo nú er kominn sauðgróður hér í sveitum, nema á útkjálkum mun vera enn lítið [gróið enn], því þar liggur geysimikill snjór enn á jörð. Fyrir fáum dögum sagði maður af Flateyjardal, að þar væri enn ekki komin upp nema sauðsnöp, Fjöldi fjár er fallinn í Flatey og Fjörðum og yfir það heila eru skepnuhöld slæm hjá mönnum, einkum kveður mikið að lambadauða. Að öllu samtöldu munu Eyfirðingar hafa staðið síg einna best með heyföng og hjá mörgum bændum er fé þar í góðu lagi. Allir dugandi bændur í Eyjafirði eru nú farnir að sjá það, að útbeit er þar aldrei treystandi og reyna því að hafa nægan heyforða. Verður þeim því ekki eins tilfinnanlegt þótt harðir vetrar komi eins og bændum víðast hvar í Þingeyjarsýslu, sem að nokkru leyti eru til neyddir að setja fé á útbeitina.
Þjóðólfur segir þann 14.júní:
Veðurátta enn köld og úrkoma engin, er telja má. Gróður er því mjög lítill. Sumstaðar rétt að eins farið að slá grænum lit á tún upp til sveita fyrir og um síðustu helgi.
Ísafold er heldur jákvæðari þann 25.júní:
Veðrátta mikið blíð og sumarleg hér um slóðir nú um tíma og gróður óðum að batna. En norðanlands og vestan hefir verið gróðurlaust alveg að kalla til skamms tíma.
Í sama blaði eru bréf úr Ísafjarðarsýslu og Barðastrandarsýslu:
Ísafjarðarsýslu 18.júní: Tíðin hefir verið hin harðasta og kaldasta hér vestanlands í vor allt til hvítasunnu [5.júní], bæði til lands og sjávar, sífelldar norðanáttir með frostum, svo enginn gróður er kominn á úthaga, en velræktuð tún eru farin að litkast. Flestir munu hafa haldið rosknu fé. En lambadauði hefir orðið talsverður.
Barðastrandarsýslu vestanverðri 17.júní: Fram að hvítasunnu hélst sífelld kuldaveðrátta, frost-hart á hverri nóttu og suma daga. Þannig 8.[maí]-6°R. Hinn 20.s.m. varð alhvítt af snjó um hádag. Vindar hafa yfir höfuð verið hægir og því góðar gæftir á sjó; þó kom hvasst norðanveður, er hélst nær viku, um mánaðamótin síðustu [maí/júní]. Úrkomulaust að kalla allan þennan tíma. Með hvítasunnu brá til hlýinda og nokkurrar úrkomu; var hellihríð nóttina eftir annan dag hvítasunnu [6.júní] og síðan töluverð rigning í tvo daga, en deyfa lengur. Hæstur hiti 11. þ.m. + 13°R og 14. +12°, og í dag +16°. Síðan þessi veðrabrigði komu, hefir fyrst farið að gróa að nokkrum mun; þó eru úthagar enn mjög hvítleitir, en tún eru orðin græn.
Þjóðviljinn ungi segir þann 24.júní: Blíðviðris vorveðrátta hefir haldist síðan á hvítasunnu [5.júní].
Ísafold birti þann 13.júlí bréf úr Suður-Múlasýslu, dagsett 23.júní:
Harðindi mega nú heita í Múlasýslum. Hafísinn liggur líka hér við Austfirði og inn á þeim, og banna allar bjargir. Veturinn var langur og harður, en þó hefir vorið tekið út yfir. Slík vorharðindi segjast elstu menn ekki muna: sífelldar austan- og norðaustannepjur með frosti á nóttum. Gróður er því mjög lítill enn, rétt að grænn litur sést á túnum; úthagi allur grár enn.
Júlí: Votviðratíð, skiptust á hlýindi og kuldaköst. Kalt.
Austri segir af skriðuföllum á Seyðisfirði í frétt þann 8.júlí:
Skriðuhlaup mikið féll á Búðareyri við Seyðisfjörð aðfaranótt sunnudagsins, þann 3.þ.m. og renndi beint á vöruhús pöntunarfélags Héraðsmanna og fór þvert í gegn um það mitt á nálægt 6 álna breidd og sópaði þeim vörum með sér, er voru í miðju geymsluhúsinu, sem síðan hafa reyndar verið grafnar upp úr leðjunni í flæðarmálinu að miklu leyti, en náttúrlega töluvert skemmdar, svo félagið verður við þetta fyrir töluverðum skaða, mest af skemmdum á vörunum, því flestu mun nú náð upp úr leðjunni, og erfiðistilkostnaði við að grafa vörurnar upp úr hlaupinu í fjörunni, sem var allillt verk og örðugt, því skriðuhlaupið sem bar með sér stór björg, og skildi eitt þeirra eftir á miðju gólfi í húsinu er svo fast límt saman að örðugt er að grafa í það.
Tíðarfarið er hér hið hörmulegasta, sífelldir kuldar, og má varla heita að vera kominn upp almennilegur sauðgróður hér út í firðinum, og mjög mikill klaki i jörðu og tún lítt sprottin. Dálítið er þetta skárra upp í Héraði, en þó með aumasta móti.
Í bréfi sem Austri birti úr Stöðvarfirði þann 9.september segir frá skriðu þar um slóðir í sama veðri:
Nóttina milli annars og þriðja júlí féll ákaflega mikil skriða á túnið og engjarnar á prestssetrinu Stöð og fór einmitt yfir þann hlutann af túninu, sem sléttastur og fagrastur var og gaf mest af sér og niður á engjar, og missir staðurinn víst um 70 hesta heyskap af töðu og útheyi, Á þeim þýfða hluta túnsins, sem skriðan féll eigi á fæst víst ekki nema eitthvað á annað kýrfóður.
Ísafold segir frá þann 6.:
Vætusamt hefir verið mjög nokkra daga að undanförnu, en minna um hlýindi. Aðfaranótt sunnudags 3. þ.m. snjóaði á fjöll og jafnvel ofan í miðjar hlíðar hér við Hvalfjörð. Kuldatíð er að frétta mikla að norðan, með gufuskipinu Stamford. Hafís varð það þó ekki vart við, nema lítið hrafl fyrir Austfjörðum.
Enn segir Ísafold frá kuldatíð í pistlum:
[9.] Enn er lítið um hlýindi, þó nokkuð betra í gær og í dag. Segja menn að klaki muni naumast úr jörðu á votlendi upp til sveita sumstaðar og mýrar varla farnar að grænka.
[13.] Enn þá helst sama kuldaveðráttan, og munu fáir muna jafnkalt sumar. Vætusamt er til muna, en lítið hleypir það gróðri fram, af því að hlýindin vantar.
[20.] Veðrátta er enn köld og stirð. Vætur miklar, en hlýindi lítil, um þenna tíma árs, og grasvöxtur því mjög seinfara. Tún sárilla sprottin víðast og útengi engu betur. Sláttur um það leyti að byrja þessa daga í stöku stað, en víðast ekki borið niður fyrr en úr næstu helgi, í 14. viku sumars. Síra O.V.G., er var á ferðinni um Norðurland fyrir rúmri viku, segir varla kominn bithaga, þá fyrir norðan Skagafjörð; gróður fór batnandi eftir því sem vestar dró.
[30.] Fyrsti þerridagur í dag hér frá því snemma í þessum mánuði og dável hlýtt. Stórvandræði með fiskþurrk orðin og eins á töðu, í þeim fáu stöðum, sem sláttur var byrjaður fyrir nokkru.
Norðurljósið segir þann 12.:
Í júnímánuði var jafnaðarlega þurrviðri og fremur kalt, greri jörð því seint og kól viða. Það sem af er þessum mánuði hefir verið vætusamt, og stórrigning og kuldi 7.9., svo að snjóaði í fjöll ofan undir bæi. Grasvöxtur er því enn sárlitill. Þó er enn lakar látið af tíðarfari og sprettu á Austurlandi, þar er og sagt að víða hafi tapast meiri partur af lömbum.
Þann 20. birti Ísafold bréf úr Strandasýslu sunnanverðri, dagsett 15.júlí:
Veðrátta hefir verið köld mjög í vor og sumar það sem af er, og oftast þurrviðri, þar til nú fyrir mánaðamótin, að brá til votviðra, er héldust í hálfa aðra viku, með kulda miklum og snjógangi til fjalla. Nú hefir verið gott veður í 4 daga og virðist sem nú fyrst sé að koma sumarveðrátta. Grasvöxtur er framúrskarandi lítill allstaðar sem til fréttist. Tún eru víða grá með blettum, og eftir útliti nú virðist óhugsandi að sumir partar af þeim verði slegnir á þessu sumri. Alveg sama er að segja um úthaga.
Þann 23. birti Ísafold fréttir úr Dalasýslu, dagsettar 15.júlí:
Ákaflega þurr og köld veðrátta, oftast töluvert frost á nóttum; nóttina milli 2. og 3. þ.m. var hörkufrost og kafald, varð þó ekki til tjóns, það ég til veit, nema á Jörfa í Haukadal, þar króknuðu 10 ær, líklega verið tekin af þeim ull daginn áður. Úrkomulaust hefur verið oftast, og grasvöxtur því afleitur; þessa síðustu daga hafa verið nokkur hlýindi með regnskúrum, svo heldur er farið, að lifna í túnum, en úthagi hvítur enn eins og á vetri. Í fyrra um þetta leyti voru margir farnir að slá og var það sumstaðar of seint byrjað, þar sem tún voru best ræktuð, en nú er hvergi berandi ljár í gras.
Ágúst: Þurrkar og allgóð heyskapartíð nema austanlands, þar voru votviðri mikil. Kalt.
Austri birti bréf úr Grímsey þann 8.ágúst, bréfið er dagsett 7.júlí og segir frá tíð vetrar og vors - ásamt fréttum af hafís:
Október hófst þegar með hríð og ofviðri, og síðan má kalla að hin harða tíð hafi einlægt við varað nema nokkra daga fyrir páskana. Svo mun til talist að af október hafi fjórða hvern dag verið hríð, af nóvember nær helmingur, desember þriðjungur, janúar yfir þriðjung, febrúar nær helmingur, apríl og maí um fjórðung, og nokkrum sinnum í júní varð alsnjóa. Frostið varð oft yfir þenna tíma í meira lagi þótt yfir tæki í mars, og voru þ, 8. 26° á C. Gylliniský sáust 19. og 20. des. og 1. 4. og 7. jan. Við jarðskjálfta varð vart 9. mars, 27. apríl tvo smáa og einn stóran, 29. Einn stóran og nokkra smáa, 30. einn lítinn og 3. maí einn lítinn.
Af ísnum er það að segja, að hann sást af eynni 13.desember, var horfinn inn 16., sást aftur 31.janúar, kom að eynni 18.febr. var í fráreki 16. mars, kom aftur meiri en áður inn 26. 4. apríl virtist hann vera í fráreki, 13. í aðreki, 19. fráreki, 22. aðreki, 28. fráreki. 6. mai í aðreki, 23. í fráreki, og það sem þá var eftir mánaðarins fór hann heldur minnkandi. 4. 5. og 6. júní rak hann mikið út, en eigi hvarf hann úr sýn frá eynni fyrr en fast að sólstöðum. Sjókuldi var eigi venju fremur nema í frekara lagi í apríl, maí, og júní, fór samt að minnka viku af sumri og í enda júní var orðið sæmilega heitt eftir árstíma og heitast var í honum skömmu áður en ég fór að heiman 4. júlí.
Þann 27. ágúst birti Austri frásögn af heyskorti og harðindum úr Borgarfirði eystra (ódagsetta):
Veturinn síðastliðni var með harðara móti hér i sveit og frosthörkur miklar, einkum seinni partinn. En þó tók vorið yfir; því með sanni má segja að elstu menn muni ekki dæmi til svo langvarandi harðinda. Frá sumarmálum til kongsbænadags [13.maí] var köld og óstöðug tíð, en þó sjaldan alveg jarðlaust. Rétt eftir kongsbænadaginn setti niður bleytusnjó mikinn svo brátt varð jarðlaust. Snjóaði síðan daglega meira og minna i 3 vikur, og má svo heita, að á þeim tíma sæi aldrei sól, og þá var snjórinn orðinn svo mikill að ekki sá á dökkan díl.
Í byrjun áfellisins voru allir í sveitinni heylausir, að kalla, að einum 5 eða 6 bændum undanteknum, sem flestir létu úti mikið af heyi; en sem von var, entust þeir ekki lengi til að hjálpa svo mörgum heylausum. Var því ekki annað ráð, en reka féð upp í Hérað, og tóku flestir það til bragðs, því þar var næg jörð. Þeir sem hey áttu ráku fé sitt þangað líka, til þess að geta frekar hjálpað mönnum með kýrnar; því flestir höfðu ekkert handa þeim, nema það sem þeir fengu hjá þessum fáu mönnum, sem hey áttu, og þara, sem þeir báru frá sjónum. Þó að Héraðsmenn tækju á móti fénu, eftir bestu föngum, þoldi það illa að hrekjast þangað, því fremur sem margt af því var orðið magurt áður, og misstu sumir margt, en flestir eitthvað. Auk þess þurftu menn nokkru til að kosta, að hafa féð þar í 45 vikur. Í sumum víkunum hér fyrir sunnan tók aldrei fyrir jörð; en fáir ráku fé þangað. Nokkrir menn ráku kindur sínar hvergi; enda misstu þeir sumir svo að segja hverja kind.
Austri segir stuttlega frá ágústtíð í pistlum:
[7.] Veðrátta alltaf fjarska köld, stundum frost á nóttum og snjóað í fjöll. Grasspretta hin aumasta, einkum í fjörðunum, þar er sumstaðar ennþá ekki farið að slá.
[17.] Veðrátta alltaf voðalega vot og köld, snjókoma í fjöllum á nóttum. Grassprettunni fer því mjög litið fram.
Ísafold segir frá ágústtíð:
[6.] Þerririnn fyrir síðustu helgi laugardag 30.[júlí], stóð eigi nema þann eina dag. Í þessari viku var sæmilegur þurrkur á miðvikudaginn [3.], og ágætur þerrir í gær og i dag.
[13.] Þerrir hefir verið allgóður þessa viku lengst af, einkum síðustu dagana, og mikið gott af hlotist bæði við heyskap og fiskverkun.
[20.] Ágætis-þerrir alla þessa viku, nema lítil skúr seinni part miðvikudags (17.); oftast logn og hægð með sólskini, en kalt um nætur.
Hafís. Fiskiskútur, nýlega komnar af Vestfjörðum, segja hafís hafa verið skammt undan Horni, 34 mílur fyrir 23 vikum, og annars alltaf í sumar allskammt undan landi, enda leynir það sér eigi, slíkur kuldi sem verið hefir í veðri í allt sumar.
[24.] Heyskapur. Sunnanlands og í vestursýslunum nyrðra hefir orðið mikill töðubrestur, almennt þriðjungs- eða jafnvel helmings-munur, við það, sem var í fyrra, eða 1/4 minna en í meðalári. Í Þingeyjarsýslu þar á móti fullkominn meðal-grasvöxtur á túnum, því betri sem lengra dregur norður. Þar héldust rigningar fram til júlíloka, og byrjaði sláttur mjög seint. Mun nýting hafa orðið allgóð þar, með því að þá tók við þurrkatíð. Enda hvergi kvartað um slæma nýting, með því að sláttur byrjaði svo seint, nema i Skaftafellssýslu; þar lágu töður óhirtar og hálfónýtar orðnar um miðjan þ. mánuð.
Snjó fennti ofan í miðjar hlíðar fyrir norðan (við Eyjafjörð) aðfaranótt 14. þ.m. Frost um nætur þar öðru hvoru, og eins hér syðra til sveita á stundum.
Ísafold birti þann 24.ágúst bréf úr Skagafirði, dagsett þann 9.:
Veðráttan framan af sumrinu var mjög köld og þurr, svo að gras spratt ekki. Eftir miðjan júlí brá til rigninga, sem hafa haldist síðan til 4. þ.m. og hefir gras sprottið nokkuð við þær, en samt verður eflaust mikill grasbrestur, og það mjög tilfinnanlegur á mörgum stöðum, einkum á harðlendum túnum, sem voru orðin brunnin, er væturnar fóru að koma. Sláttur var byrjaður með allra seinasta móti. Er nú verið að slá túnin. Hið fyrsta slegna hey hefir mikið hrakist, en þornað undanfarna daga.
Þann 10.september birti Ísafold tvö bréf utan af landi:
Barðastrandarsýslu vestanverðri 25. ágúst: Með sláttu-byrjun brá til óþurrka, og héldust þeir út júlímánuð; voru allmiklar rigningar síðari hluta mánaðarins. Hlýindi voru oftast þennan mánuð, oftast 1013°R hádaginn, þokur sífelldar á fjöllum og ofan í byggð, og grassprettuveður hið besta, enda batnaði grasvöxtur til mikilla muna þennan tíma. Síðan í byrjun þessa mánaðar hafa verið stöðug þurrviðri og blíðviðri, hin besta heyskapartíð, oft allheitt um daga, hæstur hiti dagana 4., 5. og 24. þ.m. 14°R [17°C]. Aftur hefir oft verið frost á nóttum og héla fram á morgun. Enda þótt töluvert sprytti í votviðrunum i júlí, urðu þó bæði tún og engjar almennt í langversta lagi sprottið, svo sjálfsagt verður í haust að fækka skepnum töluvert, einkum kúm. Taðan velktist nokkuð, sú er fyrst var slegin, en mestur hluti hennar náðist inn með góðri nýtingu. En hætta varð sumstaðar við túnin síðast fyrir hörku sakir, og er þeim fyrir þá sök á stöku stað ólokið enn. Það mun sjálfsagt bæta nokkuð úr með útheyskapinn ef veðrátta helst svona hagstæð til lengdar.
Strandasýslu 21. ágúst: Vetrarharðindin enduðu í 12. viku sumars. Þá fyrst var almennt fært frá, og þóttust þeir heppnir, sem eigi höfðu gert það fyrr. Sláttur byrjaði ekki fyrr en 14 vikur af sumri; voru þá tún mjög illa sprottin og úthagi víðast sömuleiðis. Töður helmingi minni en í fyrra eða meir.
Þann 24.september birti Ísafold bréf með tíðarlýsingu úr Þingeyjarsýslu, dagsett 31.ágúst:
Veturinn er leið var fremur harður, mest sökum áfreða og sífelldra umhleypinga, og þar af leiðandi heyfrekur mjög; en það var vorið allt þar til í byrjun 12. viku sumars [eftir 7.júlí], þá er síðasta snjófelli gjörði, er fram úr keyrði, sökum hinna aldrei þverrandi og stöðugu kulda og þar af leiðandi staks gróðurleysis, og var því sannkallað fimbulvor. Út úr helginni í 12. viku kom hér ágætur gróðrarkafli um 4 vikna tíma, svo að tún, engi og hagi spruttu langt fram yfir allar mannlegar vonir. Sláttur byrjaði hér almennt í byrjun 14. viku (21.23. júlí); voru þá rekjur allt til 2.ágúst. En þá komu 4 ágætir þerridagar (3. til 6. þ.m.) og enn voru góðir flæsudagar 4 í næstu viku (9. til 12. þ.m.); í þessum þurrkum náðu allir öllu heyi, er þá var laust, innan Axarfjarðarheiðar. Þá komu aftur norðaustan kulda-súldrur (til 23. þ.m.). Hinn 24. águst var hér brakandi sólskinsþurrkur austan-landsunnan og alhirtu þá sumir tún sín. Gekk þá aftur í norðan-kuldasúldrur allt þar til í fyrradag. Þá (29. ág.) kom aftur brakandi sólskinsþurrkur, er enn helst.
Um hafísinn hafið þér blaðamenn þegar sagt fregnir, og er þess að eins að geta, að nú komu engin höpp með honum, enda mundi enginn núlifandi manna eins mikinn og jafnan hvalreka hér um sveitir, sem hann færði á land í fyrra.
September: Lengst af kalt, einkum um miðjan mánuð, en tíð var góð framan af og síðan í enda mánaðarins.
Þjóðviljinn ungi segir þann 14.september:
Eftir þurrkana sem gengu í ágústmánuði sneri til rigninga og snjóbleytu með byrjun þessa mánaðar.
Þjóðólfur segir þann 16.september:
Veðurátta hefur verið allköld næstliðna viku. 13. þ.m. snjóaði ofan í sjó hér við Faxaflóa suður á Seltjarnarnes en lengra ekki. Er það fremur sjaldgæft hér svona snemma. Nóttina eftir var allmikið frost (3 1/2°C).
Ísafold segir frá tíð þann 24.september:
Veðrátta afar-rysjótt. Stormar miklir og rigningar tíðar. Vatnavextir og vegir slæmir. Fjárheimtur illar í fyrstu réttum sakir óveðra. Stundum sólskinsblíða, og svo er í dag.
Þjóðólfur birti þann 30.september þrjú bréf að austan og norðan:
Norðurmúlasýslu (Hjaltastaðaþinghá) 7. september: Vorið að öllu samanlögðu hið harðasta er menn muna; sumarið yfirhöfuð kalt og ákaflega rigningasamt allt þar til fyrir tveim dögum, að ágætur þerrir kom; áttu þá margir meir og minna óhirt af töðu og allt úthey, en ná ef útlit fyrir að þurrkurinn haldist fyrst um sinn, enda víðast full þörf fyrir hann, því fyrir viku var t.d. í Borgarfirði öllum einir 17 hestar af heyi komnir í garð. Grasspretta á túnum í Upphéraði víða í meðallagi, en úthagi aftur mjög illa sprottinn. Á Úthéraði voru tún yfirleitt verri en í meðalári, kólu í vor, en útengi víða gott, en svo blautt sumstaðar, að illslægt var. Allt útlit á, að hey verði með langminnsta móti, einkum sökum hinnar óhagstæðu tíðar, en fyrningar engar. Afleiðingin: mjög mikil skepnufækkun. Fiskafli víða i fjörðum góður.
Mjóafirði 12. september: Stirð hefur okkur þótt sumartíðin hér eystra. Frá því á sumardag fyrsta og þar til um sólstöður var einlægur norðan og norðaustan bylur með snjó og fannfergju ofan í sjó. Hafísinn fyllti hverja vík svo aldrei varð á sjó komið. Hey manna gengu víðast upp, og sumir urðu bjargþrota löngu áður en batnaði, þó menn væru yfir höfuð að tala vel byrgir að þeim í fyrra haust, og má geta nærri, hvernig sauðburður hefur þar gengið. Svo kom bati að enduðum júnímánuði og sunnanátt, og lifnaði jörð dálítið, en það stóð eigi lengi; svo náði hann sér aftur í norður og norðaustur og gerði kulda mikla svo jörðu fór sáralítið fram. Sláttur var hér í fjörðum byrjaður 16 vikur af og er það sannast sagt, að mörg tún voru eigi ljáberandi þó menn væru að höggva úr þeim. Svo gekk fjarska illa að þurrka þennan töðusalla; víðast eigi hirtur baggi fyrir septembermánaðar byrjun, að, minnsta kosti við sjávarsíðuna. Svona er nú útlitið til landbúnaðarins. Þá myndi nú margur ætla, að sjávarbjörgin bætti nú um fyrir þeim, er við sjóinn byggja, en það er sama hlutfallið með hann eins og landið, eintómur dauði. Víðast aflast þrefalt minna en í fyrra. Menn hafa setið í landi og ekkert fiskað allan ágúst og það sem af er september, svo að sunnlendingar sem hér hafa dvalið í sumar til róðra, munu hafa fullerfitt að kosta sig á Thyru" heim.
Suður-Þingeyjarsýslu 12. september: Vorið var hér ákaflega kalt og gróður kom mjög seint; sláandi gras sást varla á engjum fyrr en um mánaðamótin júlí og ágúst. ... Jarðepla- og kálrækt má heita að hafi algerlega brugðist í þetta sinn hér í sýslunni.
Ísafold birti þann 1.október bréf úr Ísafjarðarsýslu, dagsett 18.september:
Tíðin i sumar hefir oftast verið köld og þurr til lands og sjávar. Úti til hafs má heita að stöðugt hafi blásið norðvestanvindur meira og minna, þó logn hafi verið til fjarðanna. Þennan mánuð hefir verið mesta rosatíð, hefir snjóað til byggða hér, bæði af norðri og vestri. Í morgun var hér útnorðan-hríðarbylur, svo skóf eftir túnum með 4 stiga frosti (á R). Heyskapur byrjaði hér mjög seint, vegna sprettuleysis. Nýting á töðum var góð, og eins framan af engjaslætti. En nú eiga flestir meira og minna úti, því í þessum mánuði hefir sjaldan komið einn dagur til enda tryggur að ekki hafi komið bleytukafald.
Ísafold segir þann 5.október fréttir af skaða í illviðri þann 28.september:
Skemmdir af ofviðri urðu talsverðar undir Eyjafjöllum 28. f.mán. Brotnuðu tvö skip, fuku þök af húsum og hey til muna; á 1 bæ, Hlíð, þar sem er margbýli, ekkert óskemmt af nálega 20 húsum. Í Vestmannaeyjum urðu og nokkrar skemmdir.
Og þann 15. segir blaðið enn frá sköðum í veðrinu:
Í fádæma-rokinu 28. f.m. sleit upp í Ólafsvík norskt kaupskip, Ólafur Tryggvason, hlaðið íslenskum vörum (500 skpd. af saltfiski) og nær ferðbúið frá S.E. Sæmundsens verslun. Fór undan því botninn. Uppboð haldið 5. þ.m. Skipskrokkurinn fór fyrir 31 kr., og helmingur saltfisksins, sem var auðvitað stórskemmdur, á 1 kr. 50 aur skpd.; hitt í skipskrokknum, og selt með honum. Hinn 20. sama mán. sleit upp skip á Blönduósi, Anna, fermt íslenskum vörum frá Höepfners verslun þar og af fleirum höfnum: ull, lýsi, lax, kjöti. Var og selt við
uppboð. Mannbjörg varð af báðum skipunum. [Í frétt í Þjóðólfi hér að neðan er sagt að Anna hafi strandað í veðrinu þann 28. - og er það líklegra].
Þjóðólfur segir af veðrinu í frétt þann 21.október:
Ofsaveður mikið gerði undir Eyjafjöllum 28. f.m. Fuku þá tvö skip og brotnuðu í spón; var annað stórt skip, er notað hafði verið til sjóróðra í Vestmanneyjum en hitt sexróinn bátur. Á Hrútafelli fuku um 100 hestar af heyi, er komið var í garð. Í Hlíð rauf 20 hús og á Raufarfelli lamdi 13 kindur til dauðs. Í grjótgarða rofnuðu stór skörð og sumir menn meiddust af grjótfluginu. 1020 grágæsir fundust eftir veðrið, sumar vængbrotnar og sumar lamdar til dauðs. Þykjast menn ekki muna jafnmikið ofsarok þar eystra.
Þjóðólfur birti þann 14.október bréf úr Húnavatnssýslu, dagsett þann 2.:
Hinn 28. [september] var hér norðanlands eitthvert hið mesta ofsaveður, sem komið hefur á árinu ásamt áköfu úrfelli. Þá bar svo við, að skipið Anna", sem flutti vörur til Höepfners verslunar á Blönduósi, og lá þar ferðbúið, slitnaði upp og strandaði skammt frá kaupstaðnum. Það var um dag, og björguðust því allir 6 mennirnir, er á vóru. ... Tíðarfar hefur misjafnt verið. Um miðsumarið meðan heyskapur stóð sem hæst 68 vikur, var hér góð og hagstæð tíð; gekk mönnum þá heyskapurinn vel, enn þessi góða tíð varð of skammvinn, því hérumbil viku fyrir göngur breyttist tíðarfarið algerlega, og hefur allt að þessu verið einlægar óstillingar með hretum og ólátaveðrum.
Norðurljósið segir 6.október:
Tíðarfar hefir verið hér mjög óstillt: hvasst og fremur kalt. Mánudaginn þann 26.f.m. að kvöldi dags gekk í norðanveður með rigningu og krapahríð í sveitum, en snjóhríð til dala og fjalla. Hélst óveður þetta samfleytt til 29. s.m. En var allra verst á þriðjudag og þó einkum á miðvikudag. Veðurhæðin var þann dag fádæma mikil og áköf úrkoma. Rak þá niður fjarska mikinn snjó til fjalla svo fé fennti víðsvegar og hrakti. Mun mönnum enn ókunnugt um, hve miklir fjárskaðar hafa orðið. Síðan óveðrinu slotaði hefir verið stillt veður og bjart. Garðrækt hefir allstaðar brugðist á Akureyri, þar sem garðrækt er mest og best stunduð, hefir naumast fengist til útsáðs næsta ár, og er það stórtjón fyrir Akureyrarbúa.
Október: Óvenju hæglát tíð og hagstæð.
Ísafold birti þann 15. bréf úr Strandasýslu og Vestmannaeyjum (lýsa aðallega septemberveðri):
Strandasýslu 6. október; Mestallan septembermánuð var slæm tíð, úrfelli og kuldar; snjóaði oft á fjöll og frost var nálega á hverri nóttu. Leitasunnudaginn (í 22. viku sumars) var t.d. útsynnings-kafald ofan undir sjó fram yfir miðjan dag. Þó féll aldrei mikill snjór. Hinn 29. september skipti um veðráttu, og hafa oftast verið þurrviðri og góðviður síðan. Yfir höfuð hefir þetta sumar verið eitt hið kaldasta, en þurrviðrin í ágústmánuði og fyrstu dagana af septembermánuði gjörðu það að verkum, að útheyskapur var víða í meðallagi eða vel það, þó heyskapar-tíminn væri stuttur. Töðufengur varð almennt með lang-minnsta móti, og allt harðvelli spratt mjög illa; en hér eru víðast fjallslægjur og spruttu þær á endanum með besta móti, því að fjalllendi leysti ekki upp fyrr en mestu vorkuldarnir voru um garð gengnir, en jörð var þar klakalaus, þar eð snjór féll í fyrra haust á þíða jörð.
Vestmannaeyjum 8. október: Veðrátta í umliðnum septembermánuði var yfir höfuð fremur köld, því þótt dagshiti væri oftast í meðallagi, voru næturnar næstum stöðugt kaldar, einkum eftir þann 10. Hinn 28. var ákaflega hart norðanrok, svo elstu menn þykjast eigi muna annað meira, enda gjörði það býsna mikil spell. Skíðgarðar og grjótgarðar féllu um koll, fjölda mörg hús rauf, þak sviptist algjörlega af sumum, menn tóku upp, svo þeim lá við meiðslum o.s.frv. Engar skemmdir urðu á skipum, með því þau voru öll nógu rammlega bundin. Það sem af er þessum mánuði hefir oftast verið hreinviðri og blíður.
Austri segir af októbertíð:
[3.] Hér austanlands mun víðast hafa verið vonskuveður fyrri hluta vikunnar sem leið. Á þriðjudaginn [27.september] varð hér ofsaveður af norðaustri, og þá dagana varð hér alhvítt niður í sjó. Eiga menn viða töluvert hey úti enn þá. Í veðrinu sleit hér á höfninni upp litla fiskiskútu, sem Ísfirðingar höfðu keypt í Norvegi og var á leiðinni vestur. Skipið bar uppá leiruna og fór þar undan því strákjölurinn", er svo er kallaður, og er óvíst um hvort skipið getur haldið leiðar sinnar að svo áliðnu. Í ofveðrinu urðu hér nokkrar skemmdir á bátum o.fl., en engir stórskaðar.
[11. - dagsett 10.] Veðrátta er alltaf mjög köld og óstillt. og svo mikill snjór kominn á Fjarðarheiði, að Héraðsmenn urðu fyrir nokkrum dögum að snúa frá henni, fyrir ófærð þar til snjór harðnaði og braut kom yfir heiðina.
[28.] Haustveðrátta hefir, síðan áfellið síðast í fyrra mánuði, verið fremur stillt og hagstæð og stundum blíðviðri, svo bændur munu víðast hafa náð þeim heyjum inn, er úti voru í áfellinu, Í dag mikil bleytuhríð.
Fjallkonan birti þann 18. bréf úr Vestmannaeyjum, dagsett þann 9.október:
Allan septembermánuð var hér fremur storma- og hrakviðrasamt, og stirðar sjógæftir. 28. ofsalegt norðanrok. ... Kálgarðar hafa brugðist hér tilfinnanlega, og þola menn því ekki sem best kálgarðatollinn. Úr allflestum görðum hefir fengist ¼ - ½ við það sem vant hefur verið af kartöflum, og sumir garðar hafa gefið af sér rúmlega eins og sett var niður í þá. Þarf ekki að lýsa því hver skaði það er, þar sem mikil garðrækt er, þegar kálgarðar, sem eru aðalbjargarstofn fátæklinga, bregðast. Fénaður er hér með rýrara móti, sér í lagi í úteyjum. Eru þær óvenjulega ljótar og skemmdar af sólbruna eftir hina miklu þurrka framan af sumrinu og grasmaðk, sem étið hefir grasrótina. Kveður svo rammt að þessu, að stórar spildur af grassverðinum eru alveg svartar, og grasið liggur laust og visið, og þegar því er sópað til með hendinni úir og grúir allstaðar í rótinni af grasmaðki; má telja undir 20 illyrmi víða á ferfeti.
Ísafold birtir þann 2.nóvember bréf úr Ísafjarðarsýslu, dagsett 15.október:
Síðan seint í september hefir verið öndvegis-tíð til lands og sjávar sem helst ennþá, svo varla muna menn jafn langgæðar stillur. Þess þurfti líka sannarlega með. Öll haustverk voru ógerð hjá fólki, og mikið af útheyskap óhirt. En nú er það allt vel þurrt innkomið fyrir nokkru. Það sem lengst var búið að híða, var talsvert hrakið. En það sem síðast var slegið, náðist líka með fullum krafti og góðum þurrk.
Ísafold segir af októbertíðinni:
[5.] Veðrátta. Stillt og fagurt veður hefir verið nú nokkra daga, oftast sólskin, skúrir stöku sinnum.
[15.] Veðrátta hefir verið óvanalega hagstæð nú í 3 vikur hér um bil, þó að kalt hafi verið nokkuð; bjart og fagurt veður flesta daga. Stórviðrið 28. f.mán. stóð ekki nema þann eina dag.
Þjóðviljinn ungi segir þann 20.október: Mesta blíðviðristíð helst enn hér vestra.
Þjóðólfur segir líka frá blíðu þann 28.október:
Veðurátta hefur verið óvenjulega blíð allan þennan mánuð, oftast logn og þíður með lítilli úrkomu. en frost ekki teljandi.
Í lok mánaðarins gerði þó illviðri. Austri segir frá þann 8. nóvember:
Bleytuhríðin, er byrjaði hér að kvöldi þ. 27. [október], hélst í fjóra sólarhringa, með ákafri snjókomu, svo fé fennti hér í fjörðum ákaflega margt og mun sumstaðar varla vera fundin meir en helmingur af fjáreign bænda, enda mun það varla geta orðið varið, að sumir hafi eigi verið nógu varkárir með að hafa féð heima við og víst, úr því þessi tími er kominn, en útlit mjög ískyggilegt þegar um miðjan dag, þ.27. f.m. Í þessari hríð kom mikil snjókyngja í Bjólf upp af Fjarðaröldu og 3. hríðardaginn (sunnudag 30.október) hlupu snjóflóð úr fjallinu á nokkrum stöðum niður undir ytri hluta kaupstaóarins, fyrir sunnan verslunarhús kaupmanns Síg. Johansens og ofanundir Liverpool. En þar eð snjórinn hafði fallið á auða jörð og var svo þungur og blautur, þá komust að þessu sinni ekki veruleg fart á þessi snjóflóð, sem hefðu að öllum líkindum sópað öllum ytra hluta bæjarins á augabragði útí sjó, hefði snjórinn fallið á hjarnsnjó, og er það mesta ofdirfska að nokkur hús séu lengur höfð á því voðasvæði. Þeir læknir 0.B. Scheving og kaupmaður Sig. Johansen eru fluttir úr íbúðarhúsum sinum, læknirinn í hús herra 0. Wathnes á Búðareyri, Jóhannsen i hús Gests beykis. Þeim hluta bæjarins, er stendur i Tanganum", og niður undir honum, mun varla vera hætta búin af snjóflóðum vegna stefunnar á giljunum í Bjólfi upp undan bænum, sem hafa alltaf beint snjóflóðunum frá þeim hlutanum. Á Úthéraði og í Vopnafirði gekk sama bleytuhríðin yfir og hér á fjörðunum, og hafði þar viða fennt fé til muna en á Upphéraði varð miklu minna, af hríðinni. Eftir hríðina hefir nokkuð af fé verið grafið úr fönn hér i firðinum. Í dag [8.nóvember] og í gær hefur verið góð hláka hér um sveitir.
Austri birti þann 12.janúar 1893 bréf úr Vestur-Skaftafellssýslu dagsett 21.október. Þar er sumar- og hausttíð lýst:
Tíðarfar hefir verið hér í sumar með líku móti og annar staðar frá er að heyra, sífeldir kuldar og þurrkar til júnímánaðarloka. Ám var gefið aftur til mánaðar af sumri, en kýr á fullri gjöf til er 5 vikur voru af sumri. Fé gefið öðru hverju úr því og til Jónsmessu, Heyfyrningar urðu engar víðast hvar, en sumstaðar hrukku hey ekki til. Fénaðarhöld urðu fremur góð og lambadauði mjög lítill. Með júlímánuði fór að hlýna og var hann þó svalari en vanalega gjörist. Jörð öll var því mjög snögg er sláttur byrjaði um þann 20. júlí; þá kom vætukafli. sem hélst rúman hálfan mánuð og bætti nokkuð grasvöxt en hrakti talsvert töðu þá er fyrst var slegin en eftir þann tíma kom þerrir og varð nýting hin besta það sem eftir var sláttar. Samt sem áður varð heyskapur svo rýr að svo telst til að hey séu hér almennt öllu minni en i meðalári eftir sumarið, og taða jafnvel meir en helmingi minni. Valllendi og elftingarmýrar voru i lakasta lagi en votmýrar í tæpu meðallagi. Fyrri helmingur ágústmánaðar var áþekkur júlímánuði hvað sumarhita snertir en úr því að hann var liðinn fór að kólna og frost að verða á nóttum og hélst sú veðrátta út mestallan september. Þann 27. september var hér ofsaveður af landnorðri og hafa heyrst ýmsir skaðar hér í sýslu eftir það veður mest undan Eyjafjöllum og svo líka úr Mýrdal. Undir Pétursey í Mýrdal tók upp stórskip (tíæring eða tólfæring) og brotnaði svo mjög. að það þótti í fyrstu ekki svara kostnaði að gjöra við það. Undir Eyjafjöllum meiddust 4 menn af veðrinu; nokkrar kindur tók upp á fjalli og fundust dauðar og svo sundurtættar að þær voru lítt nýtandi og jafnvel fuglar (gæsir) var sagt hafa fundist dauðir eftir veðrið. 2 sexæringa tók þar upp og fundust seinna brotin af öðrum en hinn hafði fokið út á sjó. Á Raufarfelli (Hrútafelli) þar undir Eyjafjöllum fuku 100 hestar af gömlu heyi upp úr lön upp af garði. Allt það sem af er þessum mánuði hefur veðrátta verið hin besta og fegursta að hugsast getur. Stillt veður með norðanátt en frostlaust og sólar notið allan daginn, og því hlýrra en oft var i sumar, að minnsta kosti að tiltölu.
Nóvember: Stillt og gott veður lengst af.
Þann 23.birti Ísafold bréf úr Mývatnssveit, dagsett 6.nóvember:
Fréttir héðan eru hin mestu harðindi. Til merkis um það er, að fé hefir þrívegis fennt í haust og það tvævetra sauðir. Fyrst 18.19. september, næsta sinn 28. s.m., og nú síðast 30.31. [október]. Síðan 24. september hefir jörð verið gaddfrosin og til eru þau byggðarlög í miðju héraðinu, þar sem aldrei hefir orðið hálfþítt. Sumstaðar aftur á móti hefir lítið fest snjó fyrr en núna um mánaðamótin.
Þjóðólfur birti þann 23.desember bréf af Hornströndum, dagsett þann 6.nóvember:
Grasbrestur var hér mikill næstliðið sumar, taða af túnum hálfu minni en í fyrra, en nýting góð. Í september var votviðrasamt, en með október brá til blíðviðra með frosti og hélufalli, en 25. okt. kom kafaldshríð, er stóð í 3 daga og varð þá jarðbann fyrir allar skepnur. 16. s.m. sást hafís fyrir Norðurströndum og hinn 22. var hann nær landfastur. Það var ísþekja, sem ekki sást út yfir, en nú er hann horfinn sjónum um stund.
Þjóðólfur segir þann 4.nóvember:
Veðurátta var mjög köld í sumar í Norðurlandi eins og annarstaðar. Má telja til marks um það, að 3. júlí króknuðu 10 kindur á Sigríðarstöðum í Ljósavatnsskarði í kalsarigningu og 18. september fennti fé sumstaðar í Fnjóskadal. Eftir jafndægur, dagana 27.-28. sept., gerði hret mikið með frosti og fannkomu, og urðu einkum mikil brögð að því í Þingeyjarsýslu. Fennti þá fjölda fjár einkum í Laxárdal og Mývatnssveit.
Þjóðviljinn ungi lýsir nóvembertíðinni:
[9.] Tíðarfarið breyttist 27. [október] og dyngdi þá niður all-miklum snjó, en áður var auð jörð. Síðan hefir haldist vetrarveðrátta með snjóbyljum og frosti til 5. þ.m., er aftur breytti til blíðu.
[16.] 10. þ.m. gerði norðanbyl, en síðan 13. þ.m. hefir verið stilltara veður, en fannkoma.
[30.] Frá 16.26. þ.m., var hagstæð veðrátta og blíð. en 27. og 28. gerði hér norðanstorm með kafaldi; þó hefir enn hvergi frést um mikinn snjó á jörðu.
Austri birti þann 7.desember bréf úr Þingeyjarsýslu, dagsett 2.nóvember. Er þar lýst sumar- og hausttíð þar um slóðir:
Þú vilt fá fréttir hér úr Suðurþingeyjarsýslu, en það veit trúa mín að héðan er ekkert að frétta, allra síst gott. Veturinn endaði hér 4. júní, þ.e. stórhríðar enduðu þá og sauðfé leið ekki hungur úr því, en allan tímann var kuldatíð og gróðurlítið, glórur um daga og frost um nætur, Júlí 1.9. voru kuldar með úrkomum af norðri en úr því til júlíloka hitar með regni tíðu, og hröktust þá víða töður manna. Ágúst var kaldur og votviðrasamur, en þurrkadagar komu við og við, og náðu menn þá heyi sínu með sæmilegri verkun. Fyrri part september var tíðin lík og i ágúst, eu hinn 18. gjörði norðanstórdrift með mikilli snjókomu. Raunar tók þann snjó aftur og menn náðu þvi heyi sem þeir áttu úti. eu 27.28, var aftur eitthvert hið versta veður, sem fáanlegt er, ofsaveður með krapahríð, sem varð að vatn mikið til í láglendustu sveitum, en huldi gaddi og gjörði haglaust i hinum hærra liggjandi, t.d. Mývatnssveit. Fennti þá fé sumstaðar. Mestallan september var þar og köld tíð, oftar frost nætur og daga, en 28. okt. gekk í norðan stórhríð með afamikilli snjókomu, sem stóð yfir í 4 sólarhringa og rofaði aldrei. Er nú birt upp, en ófærð svo mikil. að engin skepna kemst um jörðina.
Austri birti þann 16.desember bréf úr Austur-Skaftafellssýslu, dagsett 16.nóvember:
Heyskapur varð hér endasleppur sökum ótíðar seinast i september, (einkum 27.-28.) rigninga og ofsaveðra en eftir það komu stillingar og þurrviður er héldust í réttan mánuð (til 26. okt.); þá skipti um veðurátt og setti niður ákaflega mikinn bleytusnjó í austanhríðum 27.31. október, sem minnkaði þó eftir því sem sunnar dró, og varð jafnvel fremur lítill í fjöllunum milli Lóns og Nesja og enginn sunnar; en undir Lónsheiði varð alveg haglaust og mesta ófærð á heiðinni. 4. nóv. var komin rigning, og hefir síðan tekið upp mikinn snjó á fjöllum og nægir hagar komið i byggð. enda voru oftast rigningar til hins 12. þ.m. þá skipti enn um veðráttu og kom snjóveður með frosti, sem hefir haldist síðan, en þó hreinviðri að mestu tvo síðustu dagana.
Þjóðólfur birti 20.janúar 1893 bréf frá Fáskrúðsfirði, dagsett 30.nóvember:
Tíðin hefur verið fremur góð i haust, það sem af er; frá 10. október til 27. s.m. var alltaf logn og blíðviðri og lítið frost. En þann 28. gekk í snjóbyl, sem stóð í 78 dægur, og dreif niður snjó svo mikinn hvíldarlaust nótt og dag, að gamlir menn segja, að síðan haustið 1868 hafi eigi komið jafnmikill snjór í einu um þennan tíma árs; lá við að hér yrði miklir fjárskaðar, því fé var óvist, en til allrar hamingju fór eigi svo og er nú flest aftur fundið.
Desember: Stórviðrasamt í upphafi mánaðarins, en síðan fremur stillt tíð til ársloka.
Austri lýsir hausttíð og hríðarskaða eystra í pistli 6.desember:
Veðrátta hefir verið fremur bíið og hagstæð austanlands síðan áfellið mikla siðast í októbermánuði, sem varð langmest af við sjóarsíðuna, frá Langanesi og allt suður undir Reyðarfjörð. En á Upphéraði féll lítill snjór og má þar nú heita alautt niðri eins og á sumardag og allgóð jörð í Héraði allt út undir sjó, í suðurfjörðum er og dágóð jörð. En hér i norðurfjörðunum kom sú ógnar snjókyngja, að engin jörð er hér enn komin upp og getur eigi komið fyrr en eftir langa hláku, því gaddurinn er svo mikill. Snjórinn mun hafa verið hér fullar 2 álnir á jafnsléttu áður en hann fór að síga. Á Vakursstöðum í Vopnafirði fennti 2 hesta, svo þeir köfnuðu, 1 á Sandbrekku og 2 á Hrafnabjörgum í Hjaltastaðaþinghá. 2 hesta varð að drepa hér fram i dalnum, þar ekki var hægt að koma þeim til byggðar; og víða varð hér að flytja hey til hesta í nokkra daga meðan ófærðin var sem mest. 37 kindur hafa fundist í snjóflóðinu hér upp af Fjarðaröldu og nokkrar af þeim lifandi. Hefði snjóflóðið haldið áfram út að sjó með venjulegu flugi, þá hefði líklega mátt grafa úr því jafnmarga menn. Nú síðustu dagana hefir hér verið hríðar-harðviðri, en ekki mjög mikil snjókoma enda hvassviðri svo snjóinn hefir rifið. Betra veður í Héraði.
Þjóðólfur segir vondar fréttir í pistlum og bréfum þann 23.desember:
Með póstum um norðan og vestan, er komu loks 17. og 18. þ.m. eftir harða útivist, bárust mestu harðindafréttir, fjárskaðar, slysfarir o.fl., einkum í áhlaupaveðri miklu 2.-4. þ.m., og hefur þó ekki enn frést um tjón af því í hinum fjarlægari sýslum á Norður- og Austurlandi. Úr Miðfirði er oss skrifað á þessa leið 8. desember:
Þetta voðalega veður skall á undir kveld. Fljótt eins og hendi væri veifað. Rétt áður var hæg logndrífa á sunnan og hugðu menn það meinleysi eitt. En þegar á skall var bæði hríðin og frostharkan ákafleg. Margir smalamenn misstu féð út úr höndunum á sér. Hrakti það langar leiðir, en hefur þó fundist mestallt síðan hríðina stytti upp 4. þ.m., flest lifandi, en þó sumt dautt og með litlu lífsmarki. Ég hef ekki svo tilspurt, að ég geti sagt með vissu, hvar hríðin hefur gert mest tjón á fé. Eitt það mun þó hafa verið á Múlabæjunum og um miðjan Miðfjörð. Á útnesjum og fram til dala gekk betur að handsama fé og koma því í hús. Þrír menn er talið að hafi orðið hér úti í þessari hríð: unglingspiltur Benedikt Ásmundsson frá Miðhópi, Jón bóndi Gunnarsson á Sporði og sonur hans 16 vetra. Eru tveir þeir síðarnefndu ófundnir enn og hefur þó leitin ekki verið látin falla niður til þessa. Allir þessir menn voru við fé. 28. [nóvember] gerði og fljótlegt áhlaup og biðu þá sumir skaða, því að fé hrakti á stöku bæ. Í þessari hríð varð úti á Miðfjarðarhálsi, skammt frá Sporði, roskinn kvenmaður frá Króksstöðum í Miðfirði, Anna að nafni; ætlaði hún í kynnisferð að Vatnshól, hafði átt von á fylgd frá Torfastöðum og verið bannað af húsbændum hennar að fara einni yfir hálsinn. En svo brást henni fylgdin og hún lagði ein á hálsinn; hafði sést til hennar um það leyti, sem hríðin skall á. Var hún þá búin að beygja af veginum upp að bæ þeim, er hún ætlaði að, en hefur svo slegið sér á veginn aftur og náði ekki bænum. Um sama leyti varð og kvenmaður úti í Skagafirði að sögn.
Úr Dölum er ritað 10. þ.m.: Um kl. 3 e.m. 2.þ.m. gerði á svipstundu ofsarok og moldhríð. Fé manna hrakti víða mjög langt, jafnvel þótt það væri rétt við túnið og maður hjá því; það tættist út úr höndunum á fólki. Sumstaðar fannst nokkuð fennt dagana á eftir, en sumstaðar hrakti það í ár. Allmargt hefur samt náðst lifandi, að því er ég hef frétt. Þennan dag varð maður úti frá Ljáskógaseli Laxárdal, en fleiri voru hætt komnir.
Sama dag varð einnig úti bóndi frá Háreksstöðum í Norðurárdal, Árni Brandsson, og í sömu hríðinni annar maður undir Hafnarfjalli, er Þórður hét. Hafa þá alls farist 8 manns í hríð þessari, að því er enn hefur frést. Dagana 27.-31. október var stórhríð í Múlasýslum með svo mikilli fannkomu, að menn þóttust ekki muna þar eftir jafnmiklum snjó eftir svo fáa daga. Fennti þá víða fé og fórst það allmargt. Þá féllu og nokkur snjóflóð á Seyðisfirði, en urðu eigi að tjóni; úr einu þeirra komu 6 kindur lifandi ofan úr fjallinu. (Eftir bréfi af Seyðisfirði 2. nóv.).
Þjóðviljinn ungi segir af sama veðri í pistli þann 24.desember:
Í áhlaupinu 2. des. hafa víða orðið miklir fjárskaðar; um morguninn var bjart veður, og var fé því víðast í haga; en nokkru eftir dagmál skellti á gríðarbyl með aftaka hörkufrosti og virðist svo, sem mun meira hafi kveðið að áhlaupi þessu í Norðurlandi og fyrir sunnan heiðarnar, heldur en hér í sýslu; í áhlaupi þessu týndist fé víða í Hvammssveit og Dölum t.d. 3040 fjár í Magnússkógum, álíka í Ljárskógum og á Saurstöðum í Haukadal fundust 10 kindur dauðar, en 20 voru dregnar úr snjó með litlu lífi, og vantaði þó enn 20 fjár þar af bæ, er síðast fréttist; heyrst hefur, að séra Jón Bjarnason í Vogi hafi misst allt fé sitt; svo er og mælt, að í áhlaupi þessu hafi farist fleiri hundruð fjár í Húnavatnssýslu, og víðar að eru fréttir um meiri og minni fjárskaða, en greinilegar fregnir vantar.
Í Þjóðviljanum unga 24.janúar 1893 birtust nánari fréttir og leiðréttingar úr Dalasýslu varðandi bylinn 2.desember:
Sögur þær, er borist hafa hér úr byggðarlaginu um mann- og fjártjón það, er varð í ofsabylnum 2. f.mán hafa ekki hermt sem réttast frá atburðum. Pilturinn, sem úti varð, Helgi Þórðarson að nafni, var á ferð yfir fjöll úr Hvammssveit til sín, að Ljárskógaseli; hann hafði hitt á leið sinni fjármann frá Glerárskógum, og fylgdust þeir, þar til þeir sáu bæinn, Ljárskógasel og sá faðir piltsins báða mennina, rétt áður en veðrið skall á um hádegi; bóndinn í Ljárskógaseli var að berjast við að bjarga fé sínu í húsin, og veitti því mönnunum litla eftirtekt, enda hefði það verið að stofna sér í opinn dauða, að fara frá húsum upp á fjall í þeim ofsabyl; en litlu áður en veðrið skall á, höfðu mennirnir skilið samfylgdina, og fannst Helgi 5. desember örendur skammt þaðan er þeir höfðu skilið. Fjármaðurinn frá Glerárskógum fann fé sitt, en réð engu við að bjarga því, og varð það því allt úti, nema örfáar kindur, er komu heim með forustusauðnum um nóttina. Síðan fannst féð allt, en sumt dautt, hálf-dautt, sligað Og illa út leikið, og hafa 40 kindur farist; í Magnússkógum - vantar enn 17 og 10 hafa farist af því, sem fundið er; á Hóli í Hvammssveit fórst milli 30 og 40 fjár, sem allt hefir þó fundist; aðrir stórskaðar á fé hafa ekki orðið hér um sveitir í nefndum byl; en viða skall nærri að stórskaðar yrðu á mönnum og fé; náðu sumir eigi húsum, fyrr en um miðnætti. Það er eitthvað undarlegt, að hvenær sem fjárskaðar verða hér um sveitir, þá skýra blöðin frá fjárskaða i Ljárskógum; þegar fjárskaðarnir urðu mestir í aftakabylnum aðfaranóttina fimmtudagsins í fyrstu viku sumars vorið.1882, þá skýrðu blóðin frá stórum fjárskaða í Ljárskógum, og eins er það enn; en hvorki þá, né i þetta skipti, tapaðist þar ein kind.
Þjóðviljinn ungi á Ísafirði segir af desembertíð:
[12.] Frá 1. í þ.m. var allstirður norðangarður, en síðan hafa verið stillur og frostlint veður, uns 10. þ.m. gerði norðangarð.
[24.] Tíðarfarið hefir verið mjög óstöðugt, ýmist norðangarður eða suðvestan veður, en síðustu dagana hafa þó verið stillur.
Ísafold segir almennt af tíð í tveimur pistlum:
[17.] Harðindi hafa verið nú um hríð eða frá því seinast í fyrra mánuði; fannkoma mikil, frost og umhleypingar. Illt til jarðar. Innistöður tíðar. Póstar komast eigi áfram fyrir ófærð og illviðrum. Ókomnir enn norðan og vestan.
[28.] Hlákan, sem byrjaði fyrir viku, sólstöðudaginn, helst enn, mjög hagstæð, fremur úrkomulítil, oftast þíðvindi, og hefir mjög tekið upp snjó, er var býsna-mikill undir. Eru þetta furðu-blíð jól.
Þjóðólfur birti þann 20.janúar 1893 bréf dagsett í Rangárvallasýslu (eystri hluta) 31.desember:
Yfirleitt telja bændur hér eitthvert hið erfiðasta árferði, er á fyrst rót sína að rekja til grasbrestsins og þar af leiðandi mikilli fækkun á nautgripum og lömbum, og svo í öðru lagi, hversu kartöflur og rófur brugðust tilfinnanlega, sem er oft mikill búfengur, því garðyrkja er hér almennt stunduð vel og gefur af sér mikinn arð, þegar í ári lætur.
Lýkur hér að sinni frásögn hungurdiska af árinu 1892 og harðindum þess. Að vanda eru ýmsar tölulegar upplýsingar í viðhenginu.
23.2.2019 | 02:14
Hár hiti
Það er fremur óvenjulegt að hiti á höfuðborgarsvæðinu fari yfir 10 stig í febrúarmánuði, en gerðist þó í dag (22.febrúar). Við Veðurstofuna fór hiti í 10°C slétt og 10,1 stig á Reykjavíkurflugvelli. Báðar tölur dægurmet. Kvikasilfursmælirinn fór hæst í 9,4 stig - en það er ekki þar með sagt að hann hefði ekki farið enn hærra væru athugunarhættir enn nákvæmlega þeir sömu og áður var. Nú er skýlið nefnilega alveg lokað frá kl.9 til 18 - en var opnað tvisvar á þeim tíma dags hér áður fyrr.
Hæsti hiti sem mælst hefur í febrúar í Reykjavík er 10,2 stig, það var þann 25. árið 2013. Hiti hefur tvisvar mælst 10,1 stig í febrúar í Reykjavík, 1935 og 1942 og einu sinni 10,0 stig (áður en í dag) - það var líka 1942. Reyndar mældist hiti líka rúm 11 stig þann 9.febrúar 1830 - en það var í öðrum heimi.
Nú, svo fór hiti í 12,6 stig á Skrauthólum á Kjalarnesi í dag. Það er hæsti hiti sem vitað er um á höfuðborgarsvæðinu í febrúar. Líkur á svo háum hita eru töluvert meiri á Kjalarnesi heldur en í borginni. Ekki hefur verð mælt á þeim slóðum mjög lengi (þó á Skrauthólum frá 2001 og frá 1998 við Móa). Eldra febrúarhámarksmet höfuðborgarsvæðisins er ekki gamalt, 11,9 stig sem mældust við Blikdalsá fyrir 2 árum.
Hæsti hiti á landinu í dag mældist 14,1 stig á Seyðisfirði, rúmu stigi neðan landsdægurmetsins sem sett var á sama stað 1962.
21.2.2019 | 01:30
Tuttugu febrúardagar
Tuttugu dagar liðnir af febrúar (langt genginn mánuðurinn sá). Í svalara lagi miðað við tísku síðustu ára. Meðalhiti í Reykjavík -0,8 stig, -0,9 neðan meðallags áranna 1961-1990, en -2,1 stigi neðan meðallags sömu daga síðustu tíu árin og raðast í 17. sæti á öldinni (af 19). Dagarnir 20 voru langkaldastir árið 2002, meðalhiti -2,3 stig, en hlýjastir voru þeir 2017, meðalhiti +4,1 stig. Sé litið til lengri tíma er meðalhiti dagana tuttugu í 95. sæti af 145 - og laumast þar með út úr kaldasta þriðjungi inn í meðalþriðjunginn. Hlýjastir voru sömu dagar árið 1965, meðalhiti þá +4,8 stig, en kaldastir voru þeir árið 1892, meðalhiti -4,8 stig.
Á Akureyri er meðalhiti dagana 20 -3,5 stig, -1,5 stigi neðan meðallags 1961-1990, en -3,3 neðan meðallags sömu daga síðustu tíu árin.
Hiti er neðan meðallags síðustu tíu ára á öllum veðurstöðvum landsins, minnst er vikið í Skaftafelli og við Lómagnúp -0,4 stig, en mest -3,8 stig á Torfum í Eyjafirði.
Úrkoma hefur mælst 22,5 mm í Reykjavík, tæpur helmingur meðallags, en 75,3 mm á Akureyri, rúmlega tvöfalt meðallag. Þó þetta sé heldur óvenjuleg úrkoma á Akureyri vantar samt mikið upp á að um met sé að ræða.
Sólskinsstundir hafa mælst 66,8 í Reykjavík og er það óvenjumikið, hafa aðeins 9 sinnum mælst jafnmargar eða fleiri sömu almanaksdaga. Langt er þó í metið frá 1947 þegar sól skein í 102,0 stundir fyrstu 20 daga febrúar.
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.9.): 295
- Sl. sólarhring: 328
- Sl. viku: 1676
- Frá upphafi: 2500488
Annað
- Innlit í dag: 257
- Innlit sl. viku: 1483
- Gestir í dag: 246
- IP-tölur í dag: 242
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- September 2025
- Ágúst 2025
- Júlí 2025
- Júní 2025
- Maí 2025
- Apríl 2025
- Mars 2025
- Febrúar 2025
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010