Fer enn vel með

Veður hefur verið býsna breytilegt í vetur en þó má segja (með örfáum undantekningum) að sérlega vel hafi farið með veður. Oft hefur litið illa út en síðan ekkert eða lítið orðið úr. Á árum áður hefði manni jafnvel þótt þetta nokkuð skítt - en er nú bara þakklæti í hug í garð máttarvaldanna.

Oft er málum öðruvísi háttað - verður einhvern veginn vont úr öllu veðri eða þá verra en útlit var fyrir. - Hinni hagstæðu veðurreynd mun að sjálfsögðu ljúka einhvern tíma, við vitum bara ekki hvenær. 

Svo virtist nú fyrir helgina að ný tíska tæki við þegar í næstu viku - jafnvel strax í dag - en enn einu sinni enn virðist minna ætla að verða úr en spár gerðu helst ráð fyrir. Þó koma að landinu í næstu viku tvær til þrjár djúpar og miklar lægðir sem allar gætu valdið verulega slæmu veðri - ef slíkt væri í tísku. En eins og fyrr í vetur er tilhneigingin sú að reiknimiðstöðvar draga meir og meir úr eftir því sem lægðirnar færast nær. - Við megum þó ekki líta alveg til hliðar - verðum að alltaf að gefa hættunum gaum þó meinlitlar virðist.

w-blogg090319a

Kortið sýnir stöðuna í 500 hPa-fletinum á hádegi í dag (laugardag 9.mars). Enn er hæðarhryggur fyrir norðan land eins og oftast að undanförnu. Vindur er hægur í háloftum í námunda við landið. Það ráðum við af legu jafnhæðarlína flatarins (heildregnar). Þykktin er að venju sýnd með litum. Þykktarsviðið í kringum landið er líka heldur gisið - við segjum að þykktarvindur sé hægur. 

Nú eru að verða nokkrar breytingar á stöðunni. Háloftalægðin kalda sem er við vesturjaðar kortsins er á leið til austsuðausturs og á að stinga sér á móts við hlýtt loft sem er að koma inn á svæðið úr suðvestri. Á mánudaginn verður útlitið nokkuð annað.

w-blogg090319b

Kortið hér að ofan sýnir tillögu evrópureiknimiðstöðvarinnar um stöðuna á hádegi á mánudag (11.mars). Hæðarhryggurinn hefur hörfað til austurs - og nú er opið fyrir kalda loftið til suðurs og suðausturs nærri Grænlandi. Hér má ekki miklu muna að hann verði slæmur - en svo virðist sem þessi bylgja eigi að ofrísa - það yrði til þess að háloftalægðin kæmist aldrei til Íslands en velti þess í stað til suðausturs um Bretlandseyjar. Við sleppum að vísu ekki alveg - en samt miklu betur en á horfðist í spám fyrir nokkrum dögum.

Alveg dæmigert fyrir veðurlag þessa (hingað til) hagstæða vetrar.

Næsta aðsókn illviðris er síðan á dagskrá á fimmtudag - og enn og aftur um næstu helgi. Skyldi hann halda uppteknum hætti - reiða til höggs - en síðan láta geiga?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mér sýnist nú Veðurstofan gera ráð fyrir stormi, roki eða jafnvel ofsaveðri á mánudagskvöldinu, þannig að samkvæmt því á lægð nr. 2 að komast til landsins. Þetta þýðir þá líklega að hinum "hagstæða" vetri er að ljúka og umhleypingar að taka við, þ.e. dæmigert síðvetrarveður.
Hagstæði veturinn kvaddi með -29,3 stiga frosti (í fyrradag) og -21,7 stig í nótt (í Bárðardal).
Það verður fróðlegt að sjá hitatölur yfir fyrstu 10 daga marsmánaðar ... Metkuldi í mars á öldinni?

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 10.3.2019 kl. 11:07

2 identicon

Það er undarlegt með þennan kulda sem liggur oft í þekktum kuldapollum á landinu enda hefur oft verið hægviðri eða blankalogn í vetur. Flugvöllurinn á Sauðárkróki er alræmdur og gremst okkur Skagfirðingum stundum þegar ógnarmikið frost mælist þar og getur munað jafnvel 5-10 gráðum þar og t.d. á Sauðárkróki eða annars staðar í héraðinu. Á föstudaginn sl lenti ég í öðrum kuldapolli er ég keyrði sem leið lá til Akureyrar og leit á mælinn í bílnum. Í Skagafirði vestan Öxnadalsheiðar var 7-10 stiga frost og 12-14 stig á heiðinni. Síðan keyrði ég niður í Öxnadalinn og viti menn mælirinn fór mest í 21,5 gráður (auðvitað veit maður að þessir mælar eru ekki nákvæmir en gefa þó vissa mynd). Síðan var á Akureyri um 10 gráður. Alveg vita ótrúlegt. 

Hjalti Þórðarson (IP-tala skráð) 10.3.2019 kl. 19:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 179
  • Sl. sólarhring: 352
  • Sl. viku: 1495
  • Frá upphafi: 2349964

Annað

  • Innlit í dag: 155
  • Innlit sl. viku: 1358
  • Gestir í dag: 154
  • IP-tölur í dag: 149

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband