Bloggfærslur mánaðarins, mars 2023

Snjóflóðalægðin

Lægðin sem olli snjóflóðunum á Austurlandi í dag (mánudag 27. mars) var af minni gerðinni. Hún myndaðist yfir suðvestanverðu landinu seint á laugardagskvöld, þokaðist austur og dýpkaði og var síðastliðna nótt við Suðausturland. Afskaplega „lúmskt“ kerfi, vakið upp af háloftalægðardragi sem kom austur yfir Grænland og hreyfðist til austsuðausturs. Reiknilíkön höfðu fyrir allnokkrum dögum síðan náð myndun lægðarinnar - og samspili hennar og háloftalægðardragsins. Um tíma var útlit fyrir að talsvert gæti snjóað á höfuðborgarsvæðinu, en reyndin varð sú að þar féll nær engin úrkoma - en á Suðurlandsundirlendinu varð alhvítt í gærmorgun (sunnudag). 

Eftir að reiknimiðstöðvar höfðu loks náð taki á lægðarmynduninni varð ljóst að mikil úrkoma var í vændum á landinu austanverðu, sérstaklega á Austfjörðum, og að hún myndi falla ofan á undirlag sem býður upp á snjóflóð. En þrátt fyrir þetta verður að segja eins og er að stærð þessa atburðar er meiri en flestir væntu (telur ritstjóri hungurdiska). 

Lítum nú á fáein veðurkort. 

w-blogg270323a

Háloftalægðardragið kom eins og áður sagði yfir Grænland. Ekkert (nema flóknir líkanreikningar) sýndi lægðarmyndun við sjávarmál, fyrr en lægðardragið nálgaðist Ísland. Lægðin myndaðist ekki fjarri rauða hringnum á myndinni. Éljagarðar tóku að myndast (nokkuð óskipulega) yfir hlýjum sjó - og tengdust loks úrstreymi háloftalægðardragsins í efri hluta veðrahvolfs yfir landinu og rétt sunnan við það. Þar með varð greið leið fyrir ákaft uppstreymi og úrkomumyndun. Kortið sýnir stöðuna í miðju veðrahvolfi, í 500 hPa-fletinum, kl. 3 síðastliðna nótt. Þá var hafði dálítil lægð snarast út úr háloftadraginu og dró raka loftið úr suðri yfir landið austanvert. Meir en -40 stiga frost var þá í rúmlega 5 km hæð yfir Austfjörðum. Í neðri lögum varð vindur austlægari - og norðaustlægari eftir því sem neðar dró.

w-blogg270323b

Kortið sýnir sjávarmálsþrýsting og úrkomuákefð kl.6 á mánudagsmorgunn. Þá er allmikill norðaustanstrengur yfir Austfjörðum og líkanið sýnir 15 til 20 mm úrkomu næstliðnar 3 klukkustundir þar um slóðir. Það ástand stóð lengur - og mikill snjór hefur safnast upp ofan á klaka- og harðfennisundirlag í fjöllum. 

Þó þessi staða sé á stórum kvarða mjög ólík þeirri sem olli snjóflóðunum í Neskaupstað 1974 eru staðbundnar aðstæður ekki svo ólíkar - aðstæðurnar yfir miðjum Austfjörðum. Sérlega köld suðlæg átt í háloftum, en til þess að gera hlýrri norðaustanátt undir. Afskaplega eitruð blanda. Það er hins vegar afskaplega mikil tilviljun að lenda í því að kerfi sem þetta skuli hitta svona nánast „fullkomlega“ í, jafnveigalítið sem það þrátt fyrir allt virðist vera. En þannig getur það verið - og þannig verður það því einhvern tíma. 

Háloftalægðardrög sem þetta, bæði stór og smá, hafa valdið óteljandi vandræðum hér á landi, en við getur þó þakkað fyrir að reiknilíkön nútímans eru farin að vara okkur miklu, miklu betur við þeim heldur en ungir veðurfræðingar af kynslóð ritstjóra hungurdiska ólust upp við - svo ekki sé talað um forfeður okkar sem engar veðurspár höfðu nema eigið hyggjuvit. 

Háloftalægðardragið og lægðin eru nú úr sögunni hjá okkur, koma eitthvað við í Noregi og Svíþjóð á morgun - en vonandi skaðalaust. En svo er að sjá að frekari leiðindi geti tekið við fyrir austan síðar í vikunni. Við látum Veðurstofuna og aðra til þess bæra aðila vara við því - ef þörf er á. 

Fréttamenn (vonandi ungir og reynslulausir) voru spyrjandi að því í dag hvort snjóflóð væru algeng í mars. Rétt að (endur)birta myndina hér að neðan.

w-blogg270323d

Þetta er gamalt súlurit úr fórum ritstjóra hungurdiska. Við höfum engar áhyggjur af sjálfum tölunum (þó úreltar séu), en myndin sýnir greinilega árstíðasveiflu snjóflóðatjónsatburða. Þeir eru ámóta tíðir í janúar, febrúar og mars, nokkuð tíðir í apríl og desember. En sárafáir í maí og september (koma þó fyrir). Mars er því mikill snjóflóðamánuður og rétt að árétta það. 

Þeir sem hafa áhuga geta rifjað upp pistil hungurdiska um veðrið sem olli snjóflóðunum í Neskaupstað 1974.


Hugsað til ársins 1928

Árið 1928 þótti hagstætt lengst af eftir umhleypingasama byrjun. Lengst af var hlýtt og aðeins einn mánuður telst kaldur. Það var júní, þá var kvartað um kulda, þurrka og illa grassprettu. Skaðaveður voru fátíð á árinu og tjón í þeim til þess að gera lítið, en eins og venjulega á þessum árum fórust allmörg skip og togarar. Tengsl þeirra óhappa við veður eru oft óljós.  

Í janúar var óhagstæð tíð, umhleypingasamt var og allmikill snjór. Febrúar þótti sömuleiðis óhagstæður nema síðari hlutinn fyrir norðan. Mikill snjór um miðjan mánuð syðra. Í mars var tíð hagstæð, hægviðrasöm og snjólétt. Þurrviðrasamt var nyrðra. Gæftir voru góðar. Í apríl var hlý og góð tíð, þurrt var nyrðra en úrkomusamt á Suðurlandi. Maí var hagstæður og hlýr, mjög þurrt var víðast hvar. Í júní var óvenjuþurrt og sólríkt um landið sunnanvert, en þurrkar töfðu gróður. Kalsasamt var norðaustanlands. Kalt var í veðri. Júlí var sólríkur, en nokkuð úrkomusamt þótti norðaustanlands. Ágúst var einnig hagstæður. Þá var úrkomulítið á bæði Norður- og Vesturlandi. Í september var nokkuð þurrt norðaustanlands, gæftir voru góðar og tíð almennt talin góð. Í október var tíð mjög hagstæð og hægviðrasöm. Fremur þurrt á Suður- og Vesturlandi. Nóvember var hagstæður til landsins, en gæftir misjafnar. Desember var hagstæður og snjóléttur. Úrkomulítið var norðan- og austanlands.

Við rifjum nú upp fréttir ársins tengdar veðri. Ekki er sá listi tæmandi. Blaðatextar eru langflestir fengnir af vefnum timarit.is, oft styttir hér og stafsetning oftast færð til nútímahorfs (vonandi sætta höfundar sig við þá meðferð). Blöðin vitna oft til „FB“ sem mun vera Fréttastofa blaðamanna. Heimildir eru að auki úr Veðráttunni, tímariti Veðurstofu Íslands, og töluleg gögn úr gagnagrunni Veðurstofunnar. Sömuleiðis notum við okkur fáeinar tíðarfarslýsingar veðurathugunarmanna. Talnasúpu má finna í viðhenginu. 

Veðurathugunarmenn telja tíð heldur órólega í janúar - en líta þó misjöfnum augum til hennar:

Hörðuból í Dalasýslu (Flosi Jónsson): Tíðin má heita að hafi verið góð þennan mánuð. Þó hún hafi verið óstöðug þá hefur alltaf verið smáviðrasamt og frostvægt.

Lambavatn (Ólafur Sveinsson): Það hefir verið heldur stórgert. Reglulegt vetrar veður. Hagar hafa lítið verið notaðir á gjafajörðum síðari hluta mánaðarins vegna harðviðra og kulda. En nú er allstaðar jarðlaust, svellstorka yfir allt.

Hraun í Fljótum (Guðmundur Davíðsson): Tíðarfarið hefur mátt heita gott, yfirleitt - frost fremur væg og oft hiti. Þótt oft væri snjókoma fyrsta hluta mánaðarins var hún svo lítil að lítið sakaði.

Raufarhöfn (Árni Árnason): Tíðarfarið hefur verið umhleypingasamt en ekki stórillt. Ísing og bleytuhríðar hafa gert það að verkum að oft hefir verið slæmt til jarðar og að staðaldri varla nema snöp. En af því frostleysur hafa verið og fjörur þíðar hefir fullorðnu fé ekki verið gefið við sjó.

Stórhöfði í Vestmannaeyjum (Gunnar Þ. Jónathansson): Óláta tíð. Stormar og umhleypingar. Litlar gæftir á sjó.

Aðfaranótt þess 5. janúar gerði vestanhvell. Morgunblaðið segir 6.janúar frá:

Tvo báta rekur á land [á Akranesi]. Snemma í morgun rak á land tvo stóra vélbáta, Geir goða og Hrefnu. Eru þeir 30—40 smálestir að stærð. Var veður mjög hvasst og brim mikið. Bátarnir náðust báðir út seinna í dag, lítið eða ekki skemmdir.

Úr Mýrdal (símtal 5. jan.) Talsverðan snjó hefir sett niður í Mýrdal síðustu daga; fénaður var tekinn á gjöf fyrir jól, en fram að þeim tíma var einmuna tíð.

Morgunblaðið segir af snjóalögum sunnanlands 17.janúar:

Talsverður snjór er sagður fyrir austan fjall, sérstaklega þegar austur í Rangárvallasýslu kemur. Hefir þar dregið í stórskafla, og hefir tæplega verið útbeitandi að undanförnu. En í gær brá þar til þíðviðris og sjatnaði snjór talsvert.

Morgunblaðið segir 20.janúar frá góðri tíð nyrðra:

Akureyri 18. janúar FB. Tíðarfar framúrskarandi. Lítilsháttar snjókoma undanfarið, nú
hláka og hlýindi.

Á þessum árum voru alloft jarðskjálftar við Reykjanesvita, en Morgunblaðið segir í þetta sinn af tíðindaleysi 21.janúar:

Ólafur Sveinsson, vitavörður á Reykjanesi er staddur hér í bænum og náði blaðið tali af honum og spurði frétta að sunnan. Hann sagði að meiri snjór hefði verið á Reykjanesi nú um áramótin en nokkuru sinni hefði komið þar í sinni tíð, en nú mætti snjólaust kalla. Jarðskjálftar hafa verið þar með langminnsta móti að undanförnu eða síðan í vor, aðeins lítilsháttar hræringar við og við.

Þann 20. janúar gekk sérlega djúp lægð yfir landið vestanvert. Þrýstingur mældist lægstur í Grindavík um kl.10, 932,6 hPa. Veðráttan getur þess að líklega hafi hann farið enn neðar síðar um daginn á Ísafirði, en þrýstisíriti náði lágmarkinu þar ekki. Giskað er á 931,9 hPa og að lægðarmiðjan hafi jafnvel verið enn dýpri. 

Slide1 

Eftirtektarvert er hversu endurgreiningar hafa (hingað til) náð þessari lægð illa. Það má t.d. sjá í dæminu hér að ofan. Evrópska greiningin er ámóta og missir líka af þessari lægð. 

Slide2

Myndin sýnir kort sem dregið er á Veðurstofunni kl.8 að morgni 20.janúar 1928. Lægðin er þá skammt suður af Reykjanesi. Hér er þrýstingur kominn niður undir 938 hPa í Grindavík, en fór tæpum 6 hPa neðar um 2 klukkustundum síðar. Hvasst er í kringum lægðina, en þó urðu (eins og áður sagði) skaðar ekki verulegir. Veðrið hefði valdið meiri vandræðum nú á dögum, einkum vegna samgöngutruflana. 

Svo er það eitt togarastrandið, Morgunblaðið segir frá 25.janúar:

Klukkan hálfátta í fyrrakvöld strandaði enskur togari, „Gladwyn“ frá Aberdeen á Bæjarskerseyri hjá Sandgerðisvík. Var þá ákaflega mikið brim og lengi tvísýnt hvort takast mundi að bjarga skipshöfninni ... Það þykir mesta furða, að svo heppilega skyldi takast, að allir mennirnir björguðust, eins og illt var þar aðstöðu og brimið gífurlegt. Var það að þakka framúrskarandi dugnaði manna úr landi, að öllum varð bjargað. Í gær var farið um borð í skipið og er sýnt, að engin von er um að því verði bjargað, því að það er mölbrotið og sennilega verður ekki hægt að bjarga úr því neinu sem nemur.

Veðráttan segir frá því að þann 7. janúar hafi bátur farist nærri Flatey á Skjálfanda, tvennt hafi drukknað og þann 13. hafi maður orðið úti við Kirkjubæ á Rangárvöllum. 

Í Reykjavík var alhvítt samfellt frá 22. janúar til 20. febrúar. Þann 12. til 13. febrúar bætti mjög í snjóinn, snjódýptin fór úr 11 cm þann 11. í 34 cm þann 14. Þann 19. sjatnaði og var nánast alautt orðið þann 20. Aðeins var alhvítt tvo daga í mars í Reykjavík, síðast í þann 19. (5 cm) og síðan ekki aftur fyrr en 18.nóvember (6 cm). Óvenjulegt fannkynngi var á mörgum veðurstöðvum um og fyrir miðjan febrúar. 

Veðurathugunarmenn kvarta undan febrúartíðinni, en hún batnaði þó eftir illviðrið þann 20.:

Hvanneyri (Þorgils Guðmundsson): Þann 20. var mjög mikill stormur og fauk hér að Hvanneyri hlaða og eldiviðarskúr, hvoru tveggja nokkuð feyskið orðið en annars vel um búið.

Lambavatn: Tíðafarið mátti heita heldur slæmt. Til þess 20. var allstaðar jarðlaust fyrir allar skepnur af svellhúð sem kom upp úr nýárinu. Um miðjan mánuðinn setti niður óvenju mikinn snjó á svo stuttum tíma (38 cm snjódýpt þann 12.). Nú er allt orðið alautt svo svell er að hverfa af tjörnum því að hefir í 3 daga verið svo hlýtt og vindur svo mikill að snjór og svell hafa horfið í svipan.

Suðureyri (Kristján A. Kristjánsson): Athugasemdir um mánuðinn: Frostmildur, gjaffeldur, umhleypingasamur, sjógæftafár, óhagstæður.

Raufarhöfn: Þann 19. Rokveður stundum eftir kl.4. Fauk þak af íbúðarskúr í heilu lagi og sleit með því allt símasambandið.

Papey (Gísli Þorvarðsson): Snjólagið var ekki mikið, en afar illa gerði krap á krapa ofan. Frostið lítið svo varla náði að samfrjósa, tók því fljótt upp. Síðan 23. besta tíð svo talsvert er farið að grænka í túnum og úteyjum. Litlar sjógæftir.

Fagurhólsmýri (Ari Hálfdanarson): Þennan mánuð hefur tíðin verið umhleypingasöm og oftast haglaust. Snjór er mikill (56 cm þ. 17.) og illa gerður, gaddur undir snjónum. Versti kaflinn á vetrinum það sem af er.

Stórhöfði: Óvenju mikil harðindi og ótíð fram yfir miðjan mánuð. Litlar gæftir sökum storms og brims. Þann 13. brotnaði mb Sigríður við Ofanleitishamar, menn björguðust. Klifraði einn upp hamarinn morguninn eftir og komst til bæja; voru hinir svo halaðir upp. [Nánari lýsingu á þessu mikla klifurafreki má finna í blöðum og víðar]. 

Blaðafréttir kvarta einnig undan febrúartíðinni. Morgunblaðið segir frá í þremur stuttum fréttum:

[5. febrúar] Úr Mýrdal. Þetta nýbyrjaða ár fór allhöstugt af stað hvað tíðarfar snertir, hefir verið mjög illviðrasamt það af er.

[8.] Tíðarfar heldur umhleypingasamt. Snjóaði talsvert um daginn, síðan hlánaði, en snjó tók ekki upp, svo jörð skemmdist og er nú víðast haglitið.

[10.] Úr Biskupstungum. Öndvegistíð, hér sem annarstaðar fram að nýári, Síðan nokkuð snjóasamt og harðbýll hagi. Allur fénaður á fastagjöf og hross öll í húsavist.

Alþýðublaðið segir frá mikilli ófærð í Reykjavík og grennd 12.febrúar:

Vegna ófærðar var ekki hægt að komast milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur í allan gærdag. Umferðin stöðvaðist frá kl. 2 á laugardag. Bifreiðastöðvarnar voru lokaðar í allan gærdag, því ekki var fært með bifreiðar um göturnar.

Morgunblaðið segir 14.febrúar frá hörmulegu slysi í Óshlíð og kvörtunum undan slæmum veðurspám:

Ísafirði 12. jan. FB. Vélbátur frá Ísafirði fór aðfaranótt sunnudags [12.febrúar] áleiðis til Bolungarvíkur með fólk, sem þaðan hafði komið til að sjá „Lénharð fógeta“ leikinn. — Vegna þess að báturinn þótti ofhlaðinn, voru 5 farþegar settir á land í Hnífsdal og héldu þeir förinni áfram gangandi til Bolungavíkur. En utanvert við Óshlíð skall á þá snjóflóð og fórst fernt.

Vestmannaeyjum FB 13. febr. Sjómannafélag Vestmannaeyja hefir samþykkt áskorun til stjórnar sinnar um að rannsaka ástæður fyrir því að veðurspár Björgunarfélagsins hafa í vetur reynst miklu óáreiðanlegri en á sama tíma í fyrra. Fannkyngi óvenjulegt eftir illviðrið í fyrrinótt. [Það var Björgunarfélagið sem birti spar Veðurstofunnar, útvarpið hafði ekki tekið til starfa]. 

Vísir greinir 13. febrúar frá illviðri í Vestmannaeyjum - og Morgunblaðið segir frá framhaldi í frétt þann 15. 

[Vísir, 13.] Vestmannaeyjum 12. febr. FB. Í gær og nótt einhver hin mesta hríð, sem komið hefir um margra ára bil. Nítján vélbátar náðu ekki til hafnar í gærkveldi og var ófrétt um sjö í aftureldingu. Maí, Skallagrímur, Surprise, Ver og Þór leituðu í nótt. Allir eru nú komnir nema þrír, en frétt komin, að þeir séu á heimleið. Loftnetið á Þór slitnaði í óveðrinu.

[Morgunblaðið 15.] Vestmannaeyjum 14. febrúar. Fjöldi báta var á sjó í Vestmannaeyjum í gær er stórviðri með svartabyl skall á. Brim var með afbrigðum mikið og áttu bátar mjög erfitt með að ná landi.

Slide3

Þessa daga streymdi mjög kalt loft til landsins sunnan Grænlands, lægðir og snjókomubakkar komu í röðum að landinu og snjó kyngdi niður þó kerfin væru ekki sérlega djúp. 

Slide4

Háloftastaðan að kvöldi 13. er dæmigerð. Snarpt og kalt lægðardrag við Suðvesturland. 

Morgunblaðið og Vísir sega enn af fannkynngi í fréttum næstu daga:

[Morgunblaðið 16.febrúar] Snjókoma hefir verið mikil í Borgarfirði undanfarna daga, ekki síður en hér. Hefir bændum reynst mjög örðugt að koma mjólk sinni til niðursuðuverksmiðjunnar Mjallar [í Borgarnesi], og í tvo daga stöðvuðust flutningar alveg frá þeim er lengst eiga að sækja, svo sem úr Þverárhlíð og neðstu bæjum í Hvítársíðu og Reykholtsdal. Í gær höfðu menn rutt mestu snjóskaflana, svo að bifreiðir gátu- farið alla leið upp að Kláffossbrú.

[Vísir 17.febrúar] Óvenjulegt fannkyngi er á Hellisheiði um þessar mundir. Á þriðjudaginn var brutust nokkrir menn austur yfir heiðina og voru um sjö stundir frá Kolviðarhól austur á Kambabrún.

[Morgunblaðið 18.febrúar] Samgönguteppa. Nú er snjókyngið svo mikið hér í bænum og grenndinni, að bílar komast aðeins um bæinn. — Til Hafnarfjarðar komst enginn bíll í gær; var verið að moka skafla allan daginn, en snjó fauk í jafnóðum.

[Vísir 19.febrúar] Íþróttavöllurinn og fönnin. Áður en girðingin var reist umhverfis íþróttavöllinn nýja, var á það bent opinberlega oftar en einu sinni, að sennilegt mætti telja, að svo mikill snjór legðist á vetrum að girðingunni við austurhlið vallarins, að farartálmi yrði að. Girðinguna átti að setja rétt við vesturbrún vegarins, en gatan er mjó og land allt sundurgrafið á löngu svæði þar austur af og oft með öllu ófært umferðar. En ekki þótti „forráðamönnunum" þetta sennilegt. Þeir fengu ekki skilið, að til mála gæti komið, að snjórinn yrði svo hlálegur, að fara að haugast saman á þessum stað, jafnvel þó að annars staðar væri kafhlaup. Síðan girðingin var reist getur varla heitið, að snjó hafi fest á jörðu dægri lengur hér á suðurnesjum, þar til nú. Og nú gefur líka á að lita. Meðfram allri austurgirðingu vallarins er samfelld þilja, sumstaðar nálega jafnhá girðingunni og aflíðandi út á eystri vegarbrún. Má vegurinn heita ófær bifreiðum sem stendur. Verða þær nú að krækja vestur fyrir völlinn og er það ekki til neins hægðarauka. Á veginum sjálfum geta bifreiðir, sem. mætast, ekki komist leiðar sinnar, sakir fannkyngi. Þessa hættu sáu margir fyrir í upphafi og vöruðu „forráðamennina" við, en framsýni þeirra þá var lík því, sem hún hefir alla tíði verið. Minnugur.

Mesta illviðri ársins gerði þann 20. febrúar með hvassviðri, úrkomu og leysingu. Tjón varð þó ekki verulegt. 

Slide5

Endurgreiningin nær þessari lægð mjög vel. Henni fylgdi mikill sunnanstrengur, hvassviðri og hlýindi. 

Vísir segir frá 22. febrúar: 

Akureyri 21. febr. FB. Í gær var afspyrnu suðsuðvestan rok og þeyr, meiri og minni skemmdir á mannvirkjum. Hey fuku og menn meiddust lítillega. Vatnavextir miklir.

Morgunblaðið 23. febrúar:

Borgarnesi FB 22. febrúar Mikið rok um helgina. Í dag gekk á með þrumum og eldingum um kl.5.

Íslendingur [Akureyri] 24. febrúar:

Ofviðri. Á mánudagsmorguninn [20.] gerði ofviðri af suðri og hélst allan daginn langt fram á kvöld. Urðu bilanir miklar á símalínum og ljósleiðslum hér í bænum og ýmsar aðrar skemmdir. Þannig fauk allt járnþakið að sunnanverðu af Oddfellowhúsinu í Gránufélagsgötu. Tveir menn slösuðust í veðrinu, annar all-alvarlega. Fauk á hann vatnsbali og meiddi mikið á höfði. — Ofviðrið geisaði um allt Norðurland, en um verulegar skemmdir af völdum þess hefir ekki frést.

Vísir 24. febrúar:

Ísafirði 23. febr. FB. Ofviðri í fyrradag. Fauk þá hlaða á Ósi í Bolungarvík á sjó út, með öllum heyforða bóndans, kringum áttatíu hestum. Mótorbátur brotnaði og sökk við öldubrjótinn í Bolungarvík.

Enn urðu hörmungar í snjóflóði. Morgunblaðið segir frá 25.febrúar:

Stúlka ferst í snjóflóði í Þistilfirði. Um helgina var [18. til 19. ] voru tveir kvenmenn og einn karlmaður á ferð um Borgarfjörur í Þistilfirði. Gekk önnur stúlkan spölkorn á undan samferðafólki sínu. Yfir hana skall snjóflóð, er varð henni að bana. Hún var á leið til Kollavíkur. (Eftir símfregn frá Akureyri).

Dagur segir einnig af sköðum í illviðrinu þann 20. og Þistilfjarðarmannskaðanum í pistli 27.febrúar: 

Hvassviðrisrok geisaði hér allan mánudaginn 20. þ.m. fram á kveld. Sumstaðar urðu skemmdir á húsum, járn fauk af þökum, reykháfar brotnuðu og gluggarúður. Á stöku stað fauk hey, en ekki í stórum stíl; símalinur biluðu og ljósleiðslur flæktust saman og skemmdust svo að lengi var ljóslaust í bænum á mánudagskveldið. Tveir menn slösuðust, en þó ekki hættulega.

Snjóflóð féll á Borgarfjörum, skammt frá Kollavík í Þistilfirði um miðjan þ.m. Tvær stúlkur og unglingspiltur lentu í snjóflóðinu, voru það tvö systkin frá Völlum í Þistilfirði og Petra Pétursdóttir, til heimilis í Kollavík, hún var um fertugt, fædd og uppalin á Krákárbakka í Mývatnssveit; fórst hún í flóðinu og hafði dáið strax; hin stúlkan barst á sjó út, og gat krafsað sig í land; en pilturinn fannst mjög máttfarinn í snjóskriðunni og þótti tvísýnt um að hann héldi lífi.

Jón Eyþórsson tók sig til og svaraði þeim sem skömmu áður gagnrýndu veðurspár Veðurstofunnar. Gefur þetta svar hans innsýn í hug veðurfræðings fyrir nærri 100 árum. Hér er greinin tekin úr Morgunblaðinu 26. febrúar, en hún birtist víðar:

Veðurspárnar í fyrravetur og nú. Samkvæmt fréttastofuskeyti frá Vestmannaeyjum, sem nýverið stóð í dagblöðunum hér, hafa veðurspár þótt rætast þar miklu verr nú í vetur heldur en um sama leyti í fyrra. Með því að undirritaður hefir samið langflestar veðurspárnar, bæði þær sem vel reyndust í fyrra og þær sem nú þykja illa gefast, tel ég mér vera skyldast að svara til sakar í þessu máli. Í fyrsta lagi þarf að athuga, hvort ummælin virðast á rökum byggð og í öðru lagi, ef svo reynist, hvað muni þá valda afturförinni. Til þess að fá hugmynd um fyrra atriðið, hef ég borið veðurspár, sem gefnar voru út að kvöldinu í janúar 1927 og janúar 1928, saman við veðurskeyti frá Stórhöfðavita í sömu mánuðum. Kvöldspáin gildir fyrir nóttina og næsta dag og er því eðlilega mestu varðandi fyrir þá, sem sækja sjó. —

Samanburðurinn gildir vindátt og veðurhæð, en ekki úrkomu. Hefir verið farið eftir föstum reglum, sem of langt yrði að greina hér frá. En að sjálfsögðu er hverjum, sem óskar, heimil aðganga að öllum gögnum, sem að þessu lúta. — Hvert dægur er tekið út af fyrir sig og einkunn gefin fyrir spána um vindátt og veðurhæð. Rétt spá fær tvo í einkunn, nokkurn veginn rétt fær 1 og röng 0. Með þessu móti er auðreiknað, hve margar spár af hverjum 100, sem út eru gefnar, mega teljast réttar. Sýna eftirfarandi tölur hve margar spár af hundraði hafa reynst réttar í jan. 1927 og 1928:

Tafla: Næturspá (fyrstu tveir dálkar), Spá fyrir næsta dag (síðari tveir dálkar).

w-1928v-t

Þessar tölur benda ekki til þess að afturför hafi orðið, heldur þvert á móti allmikil framför, einkum í spánni fyrir næsta dag. Var og ástæða til að vænta heldur aukins árangurs, með því að veðurskeyti berast nú oftar frá Grænlandi heldur en í fyrra vetur. Hinsvegar hefir janúar í ár verið enn þá umhleypingasamari heldur en í fyrra og því erfiðari. Í janúar í fyrra var 6 sinnum spáð hvössu veðri næsta dag en í sama mánuði í vetur 14 sinnum. Í fyrra komu 4 hvassviðrisdagar (8—9 vindstig), sem ekki var gert ráð fyrir kvöldið áður. Í vetur varð einnig 4 sinnum hvass vindur, þegar aðeins var spáð allhvössu. Í fyrra var tvisvar spáð hvössu, þegar veðurhæðin aðeins varð 4—7 vindstig; en í vetur hefir það komið þrisvar fyrir, er spáð var hvössu, að veðurhæðin varð aðeins snarpur vindur (7 stig). Er hér sem fyrr aðeins átt við janúarmánuð.

Nú kann einhver að segja, að samanburður við veðurathuganir frá Stórhöfða sanni lítið um gildi veðurspánna, vegna þess að veðurhæð sé þar meiri, heldur en við sjávarflöt. En þetta breytir vitanlega engu um samanburðinn milli beggja áranna. Athuganirnar hafa verið gerðar á sama stað og af sömu mönnum. Því má og við bæta, að Stórhöfði er, þrátt fyrir allt, einhver besta veðurstöðin, sem sendir skeyti til Veðurstofunnar, vegna þess að vindur nær sér þar jafnt af öllum áttum. 

Við rannsókn á sjósókn og veðurhæð í Vestmannaeyjum á vertíðunum 1925 og 1926 kom það í ljós, að einungis fáir bátar sækja á sjó úr því veðurhæðin er orðin yfir 7 stig, og tel ég vafalítið að það verði oft slarkferðir með lítinn afla og veiðafæramissi. (Sbr. Mbl 4. tbl. 1927 bls. 76—78). Annars er það margreynt að venjulegir vélbátar geta ekki verið að veiðum í rúmsjó úr því að veðurhæðin er orðin 6—7 vindstig og smábátum er þá hætta búin, ef nokkuð ber af leið. Hér að framan er stormfregn því aðeins talin hafa ræst að fullu, ef veðurhæðin á Stórhöfða verður 8 (hvass vindur) eða meira. — Það væri æskilegt, að þeir sem kvarta yfir veðurspánum gefi um leið bendingar um það, hvort mistökin liggja einkum í því, að veðurhæðin sé áætluð of lítil eða of mikil. Veðurstofan mundi þiggja slíkar leiðbeiningar með þökkum (einkum ef þær væru sendar henni á undan Fréttastofunni).

Að lokum skal það tekið fram, að eins og hér hagar til, er ómögulegt að komast hjá því með öllu, að eigi skelli á illviðri, án þess að hægt sé að vara við því í tíma. Ef engar fregnir eru fyrir hendi, sem benda á hættu innan þess tíma, sem veðurspáin gildir, væri það auðvitað óðs manns æði að spá illviðri, því það væri út í bláinn gert. Í öðru lagi getur einstök fregn bent á, að illviðri sé í aðsigi, án þess að hægt sé þá að vita með vissu um hraða þess eða stefnu. Þegar svo ber undir fylgi ég að minnsta ! kosti þeirri reglu, að vænta heldur hins versta og haga veðurspánni þar eftir. Að öllu þessu samanlögðu verður ekki séð, að spárnar séu í raun og veru lakari nú, heldur en um svipað leyti í fyrra. —

Mundu ekki vonbrigði þau, sem gert hafa vart við sig í Vestmannaeyjum, geta stafað af því, að þegar Björgunarfélagið tók að birta veðurspárnar í fyrra voru þær flestum sem nýmæli, sem litlar kröfur voru gerðar til og þótti því gefast vonum framar, en í vetur hefir hinsvegar verið vænst meira af þeim, heldur en þær geta uppfyllt? Jón Eyþórsson.

Þessari grein svaraði Jóhann Jósefsson þingmaður Vestmanneyinga 28.febrúar og ítrekaði kvartanir eyjamanna.

Þann 27. febrúar varð mikill mannskaði þegar togari strandaði við Stafnnes. Morgunblaðið  segir af því 28.febrúar. Ítarlegri frásögn af björgun er í blaðinu og víðar:

Klukkan eitt í fyrrinótt eða þar um bil strandaði togarinn Jón forseti á Stafnnesi. Er það rétt hjá Stafnnesvita. Er þar að sögn einhver hinn versti og hættulegasti staður hér á landi fyrir skip sem stranda. Rifið er langt frá landi og er þar sífellt brim þótt sjór sé hægur annars staðar. En að þessu sinni var brim mikið. [15 menn af skipinu fórust, 10 komust lífs af].

Hlaupársdagurinn, 29. febrúar 1928 er sá hlýjasti frá upphafi mælinga ásamt sama degi 1964.

Að mati veðurathugunarmanna var góð tíð í mars:

Hvanneyri: Veðráttan framúrskarandi góð. Flesta daga mánaðarins auð jörð og veðurhæð aldrei yfir 5.

Hraun í Fljótum: Tíðin var ágæt í þessum mánuði. Slæmt veður varð aðeins frá 17. til 23, eða einn vikutíma. Þó varð snjókoma aldrei mikil hér í sveitinni eða nokkurs staðar í Skagafirði. Í Siglufirði var miklu meiri snjókoma.

Fagridalur (Kristján N. Wiium): Yfirleitt mjög góð tíð, þó heldur óstillt síðari hluta mánaðarins, en oftast autt og engin stórveður.

Morgunblaðið segir af tíð 17.mars:

Borgarnesi FB 16. mars. Afbragðs tíð, svo vart eru dæmi til slíks á þessum tíma árs.

Seyðisfirði FB 16. mars. Uppsveitir að mestu auðar, ágætt færi milli Héraðs og fjarða. Seyðisfjörður lagður fjögra þumlunga ísi út undir Þórarinsstaðaeyrar.

Þann 17. mars fórst bátur úr Vogum, Morgunblaðið segir frá þann 20.:

Vogum, FB. 18. mars. Bátur ferst. Þrír bátar reru héðan kl. 7 — 7 1/2 í gærmorgun og var þá gott veður. Nokkru síðar hvessti skyndilega og gerði byl og sneru þá tveir bátarnir aftur. Einn báturinn hélt áfram og komst í netin og mun hafa tafist við það og lent í versta bylnum. ... Voru sex menn á honum.

Morgunblaðið lofar fegurð á fjöllum og skíðamennsku þann 24. mars:

Skíðafærið er enn eins gott og hugsast getur hjá Kolviðarhóli og þar í grennd, Veturinn er nú senn liðinn og óvíst að fleiri tækifæri gefist til þess að skemmta sér við þessa fögru og hollu íþrótt, njóta háfjallaloftsins hreina og tæra og hrista af sér Reykjavíkurmolluna. Skyldi nú hver, sem nokkur dugur er í, og kann að standa á skíðum, taka þátt í þessari för. Hvergi í heimi er eins fallegt og á Íslandsfjöllum í marsmánuði og hvergi er loftið heilnæmara né betra, eins og rannsóknir Þjóðverja á sólargeislunum hér hafa sýnt og sannað. Menn drekka hreint og beint í sig „mátt sólar“ uppi í fjöllunum.

Morgunblaðið birtir enn stuttar fregnir af tíð þann 30.mars:

Úr Öræfum er skrifað 16. mars: Veturinn fram að hátíðum var fremur góður, en upp úr því fór að snjóa, og var harðindatíð þar til í þorralok. Með góu kom ágæt hláka og komu víðast hvar hagar í sveitinni eftir fyrstu góuvikuna. Síðan hefir verið einstök blíða og mjög stillt veður.

Austan af Síðu er skrifað 20. mars: Tíð ágæt alla góuna, og eru það mikil umskipti frá því á þorranum; þá var algerður gjafatími, á bestu útigangsjörðum, hvað þá annars staðar. Á Núpstað í Fljótshverfi var fullorðnu fé gefið stöðugt í heilan mánuð og mun það líklega einsdæmi. Þennan harðindatíma var sífelldur snjógangur og krapaveður hvað eftir annað er orsökuðu alger jarðbönn.

Ánægja var með apríltíðina, nema hret gerði í fyrstu sumarvikunni.

Lambavatn: Veðurfarið hefir verið ágætt, nema nú 24.-25. var hér mjög harður norðan garður með frosti og kafaldi.

Hraun í Fljótum: Tíðarfar má heita að hafi verið gott að undanteknum kaflanum 23.-27. Kom þá stórhríð og snjór nokkur. En hann hjaðnaði bráðlega aftur.

Nefbjarnarstaðir (Jón Jónsson): Frámunalegar stillingar og milt tíðarfar. Oftast samt næturfrost, en aðeins fjórir frostdagar. Slíkt tíðarfar er afarsjaldgæft á Austurlandi í aprílmánuði.

Vík í Mýrdal (Júlíus Steindórssón): Óvenju mild og góð tíð. Jörð að mestu algræn í mánaðarlokin.

Morgunblaðið birti 5.apríl fróðlega þýdda grein um hafís og ísrek í norðurhöfum:

Ísrek í norðurhöfum. Það var óvenjulega lítið síðastliðið ár. Síðastliðið ár var ísrekið í norðurhöfunum miklu minna en í meðalári, en svipað nokkuð næstu árum á undan. Einnig virðist svo sem suðlægir straumar hafi flutt meira af hlýjum sjó norður á við en venja er til, því að mælingar leiddu í ljós, að höfin voru um það bil 2 gráðum heitari þar norður frá en undanfarið. Hefir því orðið minna um ísinn en áður. Skipin, sem fóru í rannsóknarferðir austur með Síberíu, til Ob og Jenissej, komust óhindrað gegn um Karahafið og þegar þau komu aftur í septembermánuði var alveg íslaust á þeim slóðum, og í norðurhluta Barentshafsins var ísinn svo dreifður, að skip komust til Franz Jósefs lands. Því fer fjarri, að hægt sé að komast til þessara eyja á hverju ári. Var rekísinn aðeins 1 fet á þykt, en árið 1908, sem er með minnstu ísárum, var hann 3 fet. Við Spitzbergen var svo hlýtt í fyrra, að öll vesturströndin lá fyrir íslausu hafi í ágústmánuði. Í Grænlandshafi voru ísmörkin miklu vestar, en venja er til og í aprílmánuði sáust brot á ísnum hjá Angmagsalik, en það er tveim mánuðum fyrr en vant er að vera. í ágústmánuði var ísinn dreifður um Scoresbysund og um miðjan mánuð var íslaust við Angmagsalik og hélst svo þangað til í desember.

Við Ísland sást enginn ís, og þar hafa menn næstum gleymt, hvernig heimskautaísinn lítur út. Líkt er að segja um Newfoundlandsfiskimiðin. Í júlí sáust einstaka ísjakar á stangli og allt fram í febrúar þ.á. hefir enginn ís komið þangað. Í Davissundi kom ísinn mánuði síðar en í meðalári og yfirleitt var ísinn þar minni en vant er og skammærri, því að í ágúst var orðið íslaust. Í Baffinsflóa gengu skip í íslausu hafi allt til Etah og Cornwallislands, gegn um Lancastersund, en þar fyrir norðan tók við ís mikill. Skip, sem komu frá Alaska, náðu til Cambridgeflóans og var þannig tiltölulega lítill hluti, um 460 sjómílur, af norðvesturleiðinni sem ekki var farinn sumarið 1927. Fyrir norðan Beringshaf unnu rússnesk skip að rannsóknum við góða aðstöðu á líkan hátt og annarstaðar. Þau komust næstum því alla leið norður að Haraldseyjum og Wrangellslandi í auðum sjó og eitt skip komst frá Beringssundi með allri strönd Síberíu alt til ósanna á Lenafljótinu.

Um sumarið 1927 má því segja líkt og um 4 undanfarin sumur, að ísinn í norðurhöfunum hefir verið mjög með minna móti að undanteknum einstökum stöðum, svo sem norðausturhluta Spitzbergen og norðurströnd Alaska, þar sem mikill ís og þykkur lá skammt undan landi. En hvergi er getið um mikið ísrek. Það kynni einhver að spyrja, hvort heimskautaísinn, sem í þessum góðu árum verður kyrr að mestu leyti, verði ekki stöðugt þykkari og þykkari. En ísmyndunin heldur ekki þannig stanslaust áfram. Þegar ísinn er orðinn margra metra þykkur, verður hann frekari ísmyndun til hindrunar. Ísinn er slæmur hitaleiðari og þegar hann er búinn að uá vissri þykkt, kemst jafnvægi á milli kuldans að ofan og hlýjunnar úr sjónum að neðan. Ísinn getur því orðið ævagamall, þó að þykkt hans sé aldrei fram úr hófi mikil. (Þýtt úr Berlingske Tidends.)

Morgunblaðið birti enn skíðafréttir 8.apríl:

Skíðafarir. Á föstudaginn langa [6.apríl] fór um 40 manns í skíðaför upp á Hellisheiði. Var skíðafærið ágætt, hafði nýlega bætt fetþykkum snjó ofan á vetrarsnjóinn. Var því mjúkt undir fæti.

Morgunblaðið segir frá 27. apríl:

Akranesi 26. apríl FB. Heldur slæmar gæftir undanfarið, vegna storma. Stóru bátarnir hafa þó verið á sjó og aflað vel.

Borgarnesi 26. apríl. F.B.
Tíðarfar hefir verið gott undanfarið, en þó gerði kuldakast á þriðjudaginn var [24.]. Menn eru nú sumstaðar farnir að plægja garða og undirbúa kartöflusáningu.

Aðeins varð vart við ís við Vestfirði í maí. Veðráttan greinir þannig frá:

Þ. 8. maí er fyrst getið um is á Halanum. Þ. 18. er talsverður ís frá Ísafjarðardjúpi austur fyrir Horn, ístangi 4 mílur undan Straumanesi, og allmikill ís í Reykjarfjarðarál. Þ.19. er orðið íslaust við Ísafjarðardjúp og Straumnes, en ísinn kominn allur austur fyrir Horn, og liggur óslitin breiða norður af Húnaflóa. Landmegin er auður sjór. Þennan dag sést ísinn frá Grænhól, en er horfinn aftur þ. 22. Þ. 27. sást ísbreiða úti fyrir Norðurlandi, en er horfin vesturúr daginn eftir. 

Maí hlaut aðallega góða dóma, en takið þó eftir muninum á tíðarmati í Papey og á Stórhöfða:

Suðureyri: Frábærlega þurrt, stillt og hlýtt. Hagstætt til lands og sjávar.

Grænhóll (Níels Jónsson) - segir af hafís: 19. maí sást hafísspöng árdegis undan Dröngum. 20. maí hér við Sælusker (Selsker) og austur þar. Fáir jakar landfastir á Reykjanesi og Rifskerjum á Gjögri. 21. Hafísspöngin komin djúpt austur í flóa að sjá héðan um Spákonufell og allir landföstu jakarnir horfnir. 22. maí. Sást enginn ís og aldrei síðan til maíloka.

Hraun í Fljótum: Tíðarfarið hefir verið fremur gott, jafnvel þótt kalt hefir verið flestar nætur og gróðurlítið. Að gróðurleysinu hefur stutt óvanalega litlar úrkomur.

Fagridalur: Fremur óstillt, kalt og þurrt. Þó stöku hitadagar, gróður seinn af þurri jörð.

Papey: Einhver sá besti maí sem ég man eftir, oft blíð veður á sjó og landi, jörð algræn í lok mánaðar.

Stórhöfði: Jörð farið illa fram sökum þurrka og næðinga.

Morgunblaðið 3.maí:

Seyðisfirði 30. apríl. F.B. Sumarveðrátta. Jörð grænkar óðum.

Morgunblaðið 12.maí:

Borgarnesi 11.maí FB Einmunatíð og almenn velmegun. Heilsufar gott. Heybirgðir miklar.

Morgunblaðið 16.maí:

Þjórsá, 15. maí. F.B. Einmunatíð í allan vetur. — Skepnuhöld góð og voru heybirgðir bænda yfirleitt miklar í vetrarlokin. Nógur gróður er kominn fyrir sauðfé, má segja, að gróður sé hátt upp undir mánuð á undan venjulegum tíma.

Júní var mjög kaldur og óhagstæður gróðri:

Hvanneyri: Veðráttan óvenjuköld og þurrviðrasöm. Fraus nokkrar nætur fyrri part mánaðarins, svo að sumstaðar urðu skemmdir á kartöflugrasi. Vegna þessara kulda og þurrka spratt þurrlend jörð illa og sumstaðar brann af harðlendum túnum.

Lambavatn: Það hefir verið þurrt og kalt nú seinni hluta mánaðarins hefur mátt heita óslitin norðan kuldanæðingur og hefir mikill kyrkingur komið í allan gróður einkum á þurrlendi. Tún greru mjög snemma svo víða var farið að slá sléttur á túnum kringum 20. júní og sumstaðar fyrr og er það mjög sjaldgæft hér að spretti svo snemma.

Þórustaðir [Hólmgeir Jensson]: 23. Gras fölnar vegna þurrka á daginn og kulda á nóttum.

Hraun í Fljótum: Mánuður þessi hefir yfirleitt verið þurr og kaldur; oftast næturfrost. Grasvöxtur mjög hægur og útlit með grassprettu slæmt.

Raufarhöfn: Þ.7. Jörð gránaði á 9. tímanum í kvöld.

Fagurhólsmýri: Veðráttan hefir verið góð og hagstæð allan mánuðinn og lítið rignt.

Vík í Mýrdal: Köld tíð. Í öndverðum mánuðinum leit vel út með grasvöxt, en jörð fór tiltölulega illa fram í mánuðinum. Grasmaðkur gerði tjón, einkum austan Mýrdalssands.

Slide6

Kortið sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins, meðalþykkt og þykktarvik (litir) í júní 1928. Köld norðlæg átt er ríkjandi. Óvenjusólríkt var um landið sunnanvert og þurrt um mestallt land.  

Morgunblaðið segir frá 6.júní:

F.B. í maí. Vík í Mýrdal: Tíðarfar einmuna gott frá góubylnum. Þ. 19.—21. febr. rigndi hér stöðugt og tók upp allan snjó, nema í fannstæðum. Síðan var mikið til auð jörð og frostlaust til 24. apríl. Þá gerði lítils háttar frost í 2—3 nætur, en þó ekki neitt til muna. Jörð var orðin óvenjulega gróin með sumri og í annarri viku sumars var víða farið að láta út kýr. Með maí gerði allmikla þurrka og vestan næðinga, svo gróðri hefir lítið farið fram upp á síðkastið. 28. maí. Tíðin hálfköld og stormasöm undanfarna daga og talsvert frost á nóttum. Vöruskip kom til Víkur í síðastliðinni viku og náðist nokkuð af vörum úr því 24. og 25. þ.m. Þó er mikið eftir í því enn, sem ekki hefir náðst vegna brims og storma.

Morgunblaðið segir þurrkafréttir 10.júní:

Tíðarfar ágætt undanfarið, en menn kvarta almennt undan of miklum þurrkum. Útlit með sprettu er þó ágætt á túnum og valllendi, miður á mýrum. Yfirleitt má telja að kominn sé Jónsmessugróður.

Skálholti, FB 8. júní. Blíðviðri, sólskin og þurrkar undanfarið. Spretta góð, en framfarir heldur litlar vegna þurrka.

Mjög víða var talsvert næturfrost 11. til 12. júní, þar á meðal -3,3 stig á Hvanneyri. Morgunblaðið segir frá 13.júní:

Borgarnesi 12. júní. F.B. Svalviðri undanfarið, sólskin og þurrkar. Í morgun hafði verið hvítt af hélu í Þverárhlíð og í gærmorgun var sumstaðar frosið á pollum. Grasi fer lítið fram þessa dagana vegna þurrka og kulda.

Skúra varð sums staðar vart, Morgunblaðið 21.júní:

Borgarnesi 20. júní F.B. Talsverð úrkoma í gær eftir langvarandi þurrka og svalviðri. Hlýtt og gott veður í dag. Grasvöxtur hefir beðið stórkostlegan hnekki undanfarið vegna þurrka. Hefir sumstaðar brennt af túnum og skemmst í kartöflugörðum.

Stykkishólmi 20.júní FB Engin úrkoma hér um slóðir í meir en hálfan mánuð og vætti lítið. Hér hafa verið svalviðri í vor, yfirleitt stormasamt og ókyrr veðrátta.

Morgunblaðið segir enn af þurrkum 23.júní:

Ásgarði. FB 22. júní Undanfarið miklir þurrkar og fer gróðri ekkert fram. Sífellt norðankaldi. Sumstaðar farið að brenna af túnum. Engin úrkoma í meir en þrjár vikur, aðeins dropar í fyrrakvöld, ekki svo að vætti á steinum. Lítur afar illa út með grassprettu ef ekki koma úrkomur. Sumstaðar hafði rignt í suðurdölum, gengið á með skúrum, en einnig þar víða ekki komið dropi úr lofti lengi.

Morgunblaðið 1. júlí:

Akranesi, FB. 30. júní. Norðanstormar, sífeldir þurrkar að undanförnu. Víðast búið að
hirða af túnum hér.

Þegar upp var staðið var júlí góður víðast hvar, en spretta lítil:

Hvanneyri: Oftast votviðri fram til 25. en úrkoma þó lítil. Eftir 25. mjög góður þurrkur.

Suðureyri: Mjög þurrt. Vel hlýtt, bjart og stillt. Vindasamt til hafsins. Mjög hagstætt til heyskapar. Töðunýting ágæt.

Blönduós: Mjög kalt fyrri part mánaðarins. Annars fremur góð tíð. Nýting á töðu ágæt. Grasspretta slæm.

Fagridalur: Þurr og köld tíðin, þó engin stórviðri. Gras og garðavöxtur afar lélegur.

Fagurhólsmýri: Þ.8. (athugasemd): Mest magn í mæli á 24 stundum síðan regnmælir kom (104,7 mm).

Slide7

Mjög djúp lægð (eftir árstíma) kom að landinu 7. og 8. Þrýstingur fór niður í 975,9 hPa á Akureyri þann 8. Þetta er sjöttilægsti júlíþrýstingur sem vitað er um hér á landi. Gríðarleg úrkoma var daginn áður og um nóttina á landinu sunnanverðu. Mældist yfir 100 mm á Fagurhólsmýri og í Hveradölum. Kortið sýnir stöðuna í 500 hPa að kvöldi þess 7. Mikil háloftalægð nálgast þá landið. Ekki fréttist af tjóni í þessu veðri.  

Morgunblaðið segir frá 5.júlí:

Seyðisfirði, FB 4. júlí Norðanátt ríkjandi. Köld veðrátta. Stórrigning í tvo sólarhringa fyrir helgina.

Morgunblaðið segir fréttir af góðri tíð 19.júlí:

Úr Skaftafellssýslu. Tíðarfar, samgöngumál. Tíðin hefir verið ágæt hér í vor, einmuna þurrkatíð og fénaðarhöld því ágæt. Grasspretta er ekki vel góð, því valda þurrkarnir, en þó verður almennt farið að slá. Vötnin hafa verið sem sagt þurr, enda hafa bílar gengið vikulega frá Seljalandi til Víkur, og má það heita mikil samgöngubót fyrir okkur Mýrdælinga.

Morgunblaðið birti þann 1.ágúst fréttir af gróðureldi, sem blaðið kallar hér „heiðareld“ - heldur sjaldséð orð, en var einnig notað i annarri frétt síðar í mánuðinum:

Heiðareldur. Í gær var beðið um aðstoð slökkviliðsins til þess að slökkva heiðareld hjá gömlu Lækjabotnum. Hafði af einhverjum ástæðum kviknað eldur í hraun mosa, rétt fyrir vestan Selfjallsskálann og vegna þess að mosinn var næfurþurr og vindur stóð af eldsvæðinu á skálann, óttaðist eigandi að eldurinn muni ná skálanum. — Þegar slökkviliðsmennirnir komu þangað uppeftir, hafði þó tekist að kæfa eldinn að mestu og vindátt hafði einnig breytt sér svo að eldinn lagði frá skálanum. Um sama leyti gerði líka skúr og er búist við að hún og aðgerðir manna hafi kæft eldinn að fullu. — Menn eiga að muna eftir að fara varlega með eld á víðavangi, helst þar sem mikið er um lyng, mosa og sinu, þegar langvarandi þurrkar og hitar hafa gengið. — Ógætni manna í þeim efnum hefir oft valdið stórtjóni erlendis og getur víða valdið talsverðu tjóni hér á landi, eins og dæmi sanna (t. d. þegar Goðaskógur brann). [Ölkofra þáttur].

Tíð var mjög hagstæð í ágúst.

Hvanneyri: Óvenju úrkomulítið og framúrskarandi góð veðrátta.

Suðureyri: Óminnilega þurr ágúst, frábærlega hlýr og stilltur. Of þurrt við slátt. Hagstæður til lands, miður til sjávar.

Fagridalur: Ágætis tíð, engin stórveður. Hagstætt til lands og sjávar, en grasspretta yfirleitt rýr.

Papey: Stuttir þurrkar, oft þokuskýjað loft. Hey þó ekki hrakist til muna að þessu, fremur góðar sjógæftir.

Vík í Mýrdal: Góð heyskapartíð. Hey nást óhrakin og fjúka hvergi. Grasvöxtur í meðallagi á valllendi, en laklegur á mýrum. Matjurtir þrífast vel, því sjaldan er hvassviðri.

Hrepphólar: Óvenjulega lítill snjór í Heklu í sumar.

Morgunblaðið birtir fréttir af góðviðri og berjatínslu 14.ágúst:

Fátt var um manninn í hænum á sunnudaginn [12.]. Notaði fólkið góða veðrið til ferðalaga suður á Reykjanes, austur í Fljótshlíð, í Þrastaskóg, til Þingvalla, upp á Kjalarnes, upp í Hvalfjörð og um allar trissur hér nærlendis á berjamó. Er nú óvenjulega mikið af berjum, krækiber og bláber hvarvetna þar sem lyng vex.

Morgunblaðið 19.ágúst:

Holti undir Eyjafjöllum, FB. 18. ágúst 1928. Heyskapur, afli og uppskera. Heyskapur hefir gengið afbragðsvel fram að þessu. Engin heyfok, ágæt nýting. Allir búnir að hirða af túnum. Kartöfluuppskera í besta lagi. Eru menn almennt farnir að nota sér kartöflur til neyslu.

Heiðarbruni. Tveir drengir vestur í Arnarfirði kveiktu nýlega af rælni í sinu eða kjarri þar inni í dal. Varð af bál, og magnaðist svo, að menn áttu fullt í fangi með að slökkva það og voru að því í tvo daga. Var þá stórt svæði komið í auðn. Er þetta mönnum viðvörun um að fara varlega með eld úti á víðavangi, þegar miklir þurrkar hafa gengið.

Norðlingur segir af góðri tíð 4.september:

Heyskapur hefir gengið óvenjulega vel í sumar hvað nýtingu snertir, en heyfengur mun verða allstaðar nokkru minni en síðastliðin sumur, sumstaðar munar allt að fjórða hluta. En þess er að gæta, að síðastliðið ár fengust óvenjulega mikil hey.

Vel fór með veður í september, en helst kvartað syðst á landinu:

Hvanneyri: Veðrátta framúrskarandi góð. Fremur úrkomusamt, en aldrei stórfellt rigning. Óvenjuhlýtt og fraus aðeins þrjár nætur allan mánuðinn.

Suðureyri: Fremur stillt. Lítil úrkoma. Vel hlýtt. Hagstætt til lands, miður til sjávar.

Grænhóll (Níels Jónsson): Heyskapartíð alveg óminnilega góð í sumar.

Fagridalur: Sérlega góð tíð, bæði til lands og sjávar.

Vík í Mýrdal: Óstöðugt og rosasamt tíðarfar fram yfir miðjan mánuðinn.

Sámsstaðir: Tíðarfarið mjög óhagstætt fyrir allan fyrri hluta mánaðarins. Miklar rigningar fram að 18. en oftast þurrkur úr því.

Veðráttan segir að þann 15. september hafi bátur slitnað upp og rekið í land í landsunnanroki í Keflavík.

Mjög hagstæð tíð var lengst af í október: 

Hvanneyri: Veðráttan framúrskarandi góð og alveg sérstaklega hægviðrasamt saman borið við það sem vant er að vera á þessum tíma árs.

Húsavík (Benedikt Jónsson): Veðráttan einmunamild. Ekki frosið teljandi og aldrei fölvgað á láglendi. Brim og ókyrrð í sjó aftur meira en vindhæð virtist gefa tilefni til hérna innarlega við flóann.

Fagridalur: Ágætis tíð, þó nokkuð votviðrasamt síðari hluta. Ennþá sjást sóleyjar og fíflar í túnum hér og ýmis blóm eru að sjá nýútsprungin, t.d. blóðberg og fleiri tegundir í úthaga.

Teigarhorn. Fyrsta þessa mánaðar varð vart við öskufall.

Stórinúpur: Ómuna góðviðrasamt.

Morgunblaðið greinir 10.október frá landskjálftum í uppsveitum Borgarfjarðar. Þar var talsverð hrina haustið áður. 

Borgarnesi, FB. 8. okt Frést hefir hingað að landskjálftahræringar komi öðru hvoru í uppsveitunum, en sjaldnar en áður.

Morgunblaðið 19.október:

Úr Rauðasandshreppi. FB. í okt. Yfir vorið og sumarið ágætis tíðarfar. Þurrkar allt til ágúst loka. Haustið votviðrasamt en þó góðviðri. Grasvöxtur var í betra lagi, nema á harðlendum og sendnum túnum. Heyfengur með besta móti og nýting ágæt; óvíða látið í vothey. Uppskera úr görðum með allra mesta móti.

Morgunblaðið 1.nóvember:

Dýrafirði. 29. okt. FB. Sumarið hér vestra mátti teljast með afbrigðum gott. Heyfengur líklega í meðallagi, en nýting sérlega góð. Alauð jörð, og frekar milt veður. Er því óhætt, ef góð veðrátta helst fram á jólaföstuna, að telja árið með þeim bestu, er okkur hér hefir fallið í skaut síðustu 1—2 áratugina.

Tíð þótti góð í nóvember, en þó ekki alveg illviðralaus:

Lambavatn: Það hefir verið óvenju gott, kulda og úrkomulítið. En nokkuð vindasamt, aðallega austan og norðan næðingur. Snjó hefir ekki komið nema einu sinni og stóð hann ekki yfir nema 2 daga.

Húsavík: Mild veðurátt en nokkuð hvikul.

Nefbjarnarstaðir (Jón Jónsson): Tíðin góð. Nokkuð votviðrasöm. Snjór enginn teljandi, aðeins gránaði í rót. Má því teljast hagstæð tíð.

Stórinúpur (Ólafur V. Briem): Góðviðrasamt, snjólaust. Norðurljós tíð.

Morgunblaðið segir 13.nóvember af enn einu togarastrandi:

Vík í Mýrdal í gær. Ofsaveður var í Mýrdal á sunnudaginn var [11.]. Í veðrinu strandaði enskur togari, Solon frá Grimsby, á Mýrdalssandi, en hvar vita menn ekki með vissu ennþá. Sennilegt er að skipið hafi strandað nálægt Álftaveri á sunnudagsmorgun. Voru tólf skipverjar á togaranum, og björguðust. þeir allir á land. En á leiðinni til byggða dó einn maðurinn úr vosbúð og kulda. [nánari fréttir af hrakningunum í blaðinu 14.nóvember].

Norðlingur segir 17.nóvember af tjóni í hvassviðri á Vestfjörðum:

Í landaustan stórviðri því, er gerði um síðustu helgi [10. til 11.], sleit bát upp á legunni á Þingeyri og rak hann á land og brotnaði í spón. Þá sleit bát upp af legunni á Súgandafirði, og hefir hann ekki sést síðan. Ætla menn, að hann hafi rekið til hafs. Hann hét »Mars« og bíður eigandi hans um 20 þús. kr. tjón.

Vísir segir 18.nóvember almennar fréttir af tíð og heyskap fyrir norðan:

Úr Suður-Þingeyjarsýslu. Einmunatíð má kalla að hafi verið síðan í júlíbyrjun í sumar. Í júnímánuði var mjög köld tíð en úrkomulítil hér nyrðra. Voru þá frost svo að segja á hverri nóttu um tíma og oft svo mikil, að jörð var gaddfrosin á morgnana. Í júlíbyrjun hlýnaði aftur og þurrkarnir héldust svo að segja sumarið úf, því þó að kæmi dagur og dagur með úrkomu, þá stóð það varla nokkurntíma nema dægur í einu. Haustið hefir líka verið mjög gott og úrkomulítið og þíð jörð allt fram um veturnætur. Vegna þurrkanna og kuldanna í sumar spratt öll jörð seint og illa. Best spratt þó áveituengi, þar sem það var, og var stór munur á því og öðru engi. Tún spruttu öll mikið ver en vant er, og fengu bændur 1/4—1/3 minna af þeim en árin á undan. — En þó að sprettá væri svo rýr, þá varð heyskapur manna þó tiltölulega meiri en við mátti búast. Gerði tíðarfarið það að verkum, því að allt hey nýttist miklu betur vegna þurrkanna. Einnig mátti heyja viða i flóum og mýrum, þar sem lítið hafði verið hægt að heyja áður vegna bleytu, en nú var það allt þurrt. Uppskera úr kartöflugörðum varð með minna móti, en þó nokkuð misjöfn eftir staðháttum.

Morgunblaðið segir 22.nóvember enn af vandræðum togara:

Í ofveðrinu, sem geisað hefir undanfarna daga, hafa togararnir legið inni á Vestfjörðum, margir á Önundarfirði. Í gærmorgun barst H.P. Duus skeyti frá skipstjóranum á „Ólafi“ og var það svohljóðandi: „Ólafur tók niðri á mölinni á Flateyri í fyrri nótt í blindbyl, og stóð í 6 klukkutíma. Hannes ráðherra dró okkur út. Ég álít skipið mjög lítið skemmt, lítilsháttar leki með stefnisrörinu.“

Íslendingur segir 23. nóvember af símabilunum í illviðri.

Símabilun. Meiri hluta vikunnar hefir síminn verið bilaður á löngum kafla milli Hvalfjarðar og Reykjavikur; brotnuðu um 80 staurar, og ekkert talsamband verið við höfuðstaðinn, og ritsímasamband aðeins lítillega í gær. Í morgun aftur á móti ekkert samband.

Norðlingur segir af sama illviðri 24.nóvember:

Tvo vélbáta rak á land um fyrri helgi [17. til 18.] hér í firðinum. Annar í Hrísey, »Unni«, eign Ágústar Jónssonar á Ystabæ, en hinn »Baldur«, eign Svanbergs Einarssonar í Syðri-Haga á Ársskógsströnd. Báðir bátarnir brotnuðu mjög mikið.

Vísir segir 2.desember frá góðri tíð vestra:

Önundarfirði, í nóv. (FB). Veðrátta hefir verið svo góð hér um langt skeið að fáir muna slíkt eða betra. Sumarið var með afbrigðum sólríkt, og bjuggust menn þó við votu sumri eftir þurrt vor og kviðu hálfgert óþurrkum um heyskapartímann. Sá kvíði reyndist óþarfur, sem betur fór. Hey nýttust afbragðs vel, en vegna vorþurrkanna var spretta heldur í lakara lagi. Heyskapur mun þó víðast hvar hafa náð meðallagi, sumstaðar enda betri. Haustið hefir líka verið gott og hefir aðeins tvisvar fölvað á jörð enn sem komið er (22. nóvember) og þó lítið í bæði skiptin. Má það heita óminnilegt. Eftir sumarið var snjór i fjöllum fádæma lítill sökum snjóleysis í fyrravetur og jafnri hlýju sumarsins. Búast nú sumir við vondum vetri, en aðrir eru hinir vonbestu.

Veðráttan segir frá því að þann 20. hafi þak fokið af fjárhúsum og heyhlöðu í Vigur og þann 22. hafi aldraður maður orðið úti við Reykjavík.

Desember var einnig hagstæður, en órólegur þó framan af:

Lambavatn: Það hefir verið óstöðugt, en snjó- og kuldalítið. Fyrstu viku mánaðarins leit illa út með haga, þá voru umhleypingar og blotar svo allt var að verða að klaka, en síðan alltaf autt öðru hvoru.

Grænhóll: Aðfaranótt 1. desember var byljaveður mikið, urðu þá allstaðar skaðar hér nokkrir. Í Veiðileysu reif rokið hey velumbúið og var talið að 30 til 40 kinda fóður hafi farið, meira og minna skemmt af regni áður en varð tyrft. Á Reykjanesi fuku 30 hestar af heyi. Á Gíslabakka fauk alveg til grunna 30 hesta hey, vel um búið með grjóti og viðum og stór móhlaði, vel umbúinn. Rokið aðfaranótt 1. desember: Seint um kvöldið 30. nóvember kl.23:40 herti byljaveðrið í vindmagn 9, stórspildu rok, sem stóð til kl.3:30 um nóttina, þó að mestu ofsa stórviðri eftir kl.2. Úrkomulaus, sá mikið til lofts. Linaði eftir kl.3:30, ofurfljótt, örhægur kl. 4:30 til 7. Hvessti úr því sunnan og dimmdi að og í loft. Jörð mikið auð og þurr til kl. 9 árdegis. Úr því stórdropaskúrir af og til til kl.17. Skaðarnir urðu um nóttina á 12.-1.-2.- tímanum.

Húsavík: Framúrskarandi mild veðurátt og úrfellalítil. Snjór ekki teljandi.

Nefbjarnarstaðir: Snjólétt og úrkomulítið. Nokkuð frosthart 5.-10. Annars má teljast fremur milt og hagstætt tíðarfar, yfirleitt.

Norðlingur segir frá 4.desember (en nefnir ekki dagsetningu atburðarins):

Þegar Drottningin var hér síðast, lá hún við innri bryggjuna. Gerði sunnanstorm um kvöldið, og lagðist hún svo þungt í vírana, að hún braut 5 festarstólpa og rak frá bryggjunni.

Vísir segir 7.desember frá skipskaða vestra:

Ísafirði, 7. des., FB: Bátur ferst. Róðrarbátur frá Ögurvík fórst í fiskiróðri í gærdag. Drukknuðu fjórir menn, er á bátnum voru.

Vísir ræðir 8.desember um rýrar fannir í fjöllum:

Fátt ber órækara vitni um árferði, en fannir i fjöllum. Er þess því vert, að í minnum sé haft, þegar snjóalög eru meiri eða minni en að venju lætur. Nú hafa farið saman margir vetur snjóléttir og síðasta sumar eitt hið lengsta og besta, er menn muna. Hefir því fannir leyst úr fjöllum og öræfum framar venju. Til þessa má nefna, að ekki sá snjódíl úr Þingvallasveit í haust í Skjaldbreið, að sögn Jóns bónda á Brúsastöðum, skilríks manns. — Í Esju sást aðeins ein fönn úr Reykjavik, litill díll í Gunnlaugsskarði. Þá var og Skarðsheiði alauð úr Reykjavík að sjá, nema tveir örlitlir ská-dílar í giljum, líkt og fingraför. Gera má ráð fyrir, að Veðurstofan athugi þess konar vitni um veðráttufar, sem hér er getið, en engu að síður sendi ég „Vísi" þessar línur til varðveislu.

Vísir rifjar 27.desember upp tíð á Jökuldal:

Úr Jökulsárhlíð. FB. í des. Þetta ár hefir verið einmunatíð að kalla má. Veturinn frá nýári mjög góður, en vorið kalt allt til hvítasunnu og úrkomulaust. Sumarið þaðan frá mjög hagstætt og heyskapartíð með afbrigðum góð. Haustið að þessu milt, aldrei fest snjó, en rignt nokkuð. Grasspretta var mikið með verra móti, bæði á túnum og útengjum, en þó spruttu þau tún vel, sem saltpétur var borinn á með húsdýraáburðinum. Heyfengur manna var þó allgóður, sem þakka má hinni ágætu heyskapartíð.

Vísir rifjar upp árið í stuttum pistli 31.desember og lofar (maklega) góða tíð:

Þetta liðna ár mun mega telja annað hið besta og hagfelldasta íslandi á þessum áratug. Veðrátta hefir verið einhver hin albesta, í flestum héruðum, veturinn frá áramótum nær snjólaus sunnanlands, svo að bifreiðaferðir tepptust nálega aldrei yfir Hellisheiði. Sumarið sólríkt mjög, einkum á Suðurlandi, þerrar háðu grasvexti, en nýting heyja hin besta. Fannir leysti úr fjöllum og hálendi allri venju fremur. Haust hlýtt og snjólaust, svo að varla gránaði í byggðum norðanlands fram til 1. desember, og því síður syðra. Síðan hafa komið fjúk öðru hverju, en hlákur á milli, og snjó tekið að mestu jafnharðan. Einn eða tvo daga nær miðjum desembermánuði hindruðust bifreiðaferðir um Hellisheiði. Þetta ár er hið áttunda, er samfellt hefir verið hin mesta árgæska, svo að margan undrar. Má nærri því segja, að veðráttan hafi farið síbatnandi ár frá ári, eða svo finnst mörgum, hvað sem veðurvísindi kunna að segja. — En hvenær koma „harðindin næstu"?

Morgunblaðið birti 31.desember frétt af Reykjanesi. Menn greinilega að reyna fyrir sér með jarðskjálftaspár:

Geysir á Reykjanesi er ekki farinn að gjósa ennþá og er því búist við jarðskjálftum þar þá og þegar, ef að vanda lætur. Að vísu hefir að undanförnu verið miklu meiri gufuúthlaup í flestum hverum þar en venjulega, og getur það máski valdið því, að ekki verði úr jarðskjálftunum.

Veðráttan segir frá því að þann 29. hafi bæjarbryggjan í Vestmannaeyjum skemmst töluvert í sjógangi. Línuveiðari slitnaði þar upp og rak á land.

Hér lýkur að sinni upprifjun hungurdiska á veðri og tíð ársins 1928. Margvíslegar tölulegar upplýsingar eru í viðhenginu.   


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Fyrstu 20 dagar marsmánaðar

Fyrstu 20 dagar marsmánaðar. Kuldinn heldur áfram. Meðalhiti í Reykjavík þessa daga er -3,0 stig, -3,7 stigum neðan meðallags áranna 1991 til 2020 og -4,4 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Þetta er langkaldasta marsbyrjun aldarinnar í Reykjavík, sú kaldasta síðan 1995. Á langa listanum er meðalhitinn í 136 hlýjasta sæti (af 151). Hlýjastir voru þessir dagar 1964, meðalhiti þá 6,4 stig, en kaldastir voru þeir 1891, meðalhiti -5,8 stig.
 
Á Akureyri er meðalhiti þessa daga -5,3 stig, -4,8 stigum neðan meðallags 1991 til 2020 og -5,6 stigum neðan meðaltals síðustu tíu ára.
 
Dagarnir eru að meðaltali þeir köldustu á öllum spásvæðum. Miðað við síðustu tíu ár er hitavikið minnst á Gufuskálum, -3,4 stig, en mest á Sátu (norðan Hofsjökuls) og á Torfum í Eyjafirði, -6,5 stig.
 
Sérlega þurrt hefur verið um landið sunnan- og vestanvert. Úrkoma í Reykjavík aðeins mælst 1,7 mm, sú þriðjaminnsta sem við vitum um um sömu daga (á eftir 1962 og 1937). Á Akureyri hefur úrkoman mælst 28,1 mm og er það um 80 prósent meðalúrkomu.
 
Sólskinsstundir hafa mælst 149,3 í Reykjavík það sem af er mánuði og hafa aldrei mælst jafnmargar eða fleiri sömu daga. Á Akureyri hafa sólskinsstundirnar mælst 55,6 og er það í ríflegu meðallagi.
 
Loftþrýstingur hefur verið óvenjuhár. Meðaltalið er nú 1919,6 hPa, það áttundahæsta sömu almanaksdaga frá upphafi mælinga (202 ár).
 
Harla óvenjulegt allt saman.
 

Fyrri hluti marsmánaðar

Fyrri hluti marsmánaðar hefur verið sérlega kaldur (þó vel hafi farið með veður). Meðalhiti fyrstu 15 dagana í Reykjavík er -3,2 stig, það langlægsta á öldinni (23. hlýjasta sæti). Rétt fyrir aldamót, 1998, voru sömu dagar þó öllu kaldari heldur en nú, meðalhiti þá -4,0 stig og 1979 var meðalhiti þeirra -5,0 stig í Reykjavík. Á langa listanum er hitinn nú í 136 hlýjasta sæti (af 150). Hlýjastir voru sömu dagar 1964, meðalhiti þá +6,6 stig, en kaldastir voru þeir 1891, meðalhiti -7,7 stig.

Á Akureyri er meðalhiti fyrri hluta marsmánaðar nú -4,7 stig, það kaldasta frá 1998 eins og í Reykjavík, þá var meðalhitinn -5,1 stig og -8,2 í mars árið 1979.

Það er alveg hreint borð á landinu. Þetta er kaldasti fyrri hluti mars á öllum spásvæðunum. Vikin, miðað við síðustu tíu ár, eru minnst vestast á landinu, -2,8 stig á Gufuskálum og -2,9 stig í Grundarfirði. Mest eru vikin á fjöllum og inn til landsins. Hæsta talan er -5,9 stig við Sátu norðan Hofsjökuls og -5,7 stig á Gagnheiði.

Úrkoma hefur verið sáralítil á Suður- og Vesturlandi. Í Reykjavík hefur hún aðeins mælst 1,5 mm. Við vitum um minni úrkomu aðeins þrisvar sömu daga, það var 1962 - þá hafði engrar úrkomu orðið vart í mánuðinum, árið 1937 var hún svo lítil að hún mældist ekki, og árið 1952 mældist hún 0,6 mm. Árið 2018 var hún svipuð og nú, 1,7 mm. Ekki þarf þó mikla úrkomu til að hún taki stökk upp eftir listanum, þurrir kaflar eru ekki mjög óalgengir á þessum tíma árs. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 19,5 mm. Það er um 75 prósent af meðalúrkomu og hlutfallslega er svipaða sögu að segja af Austurlandi. Ekki þurrkur, en úrkoma vel undir meðallagi.

Sólskinsstundir eru óvenjumargar í Reykjavík, 105 til þessa. Sömu daga hafa aðeins tvisvar mælst fleiri sólskinsstundir. Það var 1962 og 1947. Það flækir röðina aðeins að sömu daga árið 2018 mældust stundirnar fleiri en nú - á þann mæli sem nú er notaður. Óverulega munar þó. Á Akureyri hafa sólskinsstundirnar mælst 39, tíu fleiri en í meðalári.

Loftþrýstingur hefur verið óvenjuhár, þó látið heldur undan síga síðustu daga í harðri samkeppni um toppsæti. Stendur nú í 1022,1 hPa í Reykjavík, því tíundahæsta sömu daga síðustu 202 árin.

Heldur linara frosti er spáð næstu daga, en síðan virðast spár hallast aftur að framhaldi á kuldanum. Eins og fram hefur komið hér að ofan fer hann hvað úr hverju að verða óvenjulegur.


Og hvað næst?

Staða veðrakerfa hefur verið nokkuð læst upp á síðkastið. Norðan- eða norðvestanátt ríkjandi í háloftum, og norðan- og norðaustanátt í mannheimum. Bjartviðri og þurrkur hefur verið ríkjandi um stóran hluta landsins, nema hvað á Norðaustur- og Austurlandi hefur snjóað nokkuð. Óvenjukalt hefur verið í veðri - en í sjálfu sér illviðralaust. Vindur hefur ekki verið teljandi nema dag og dag austan- og suðaustanlands. 

Nú er komið að ákveðinni breytingu (að sögn reiknimiðstöðva). Vindur snýst á morgun (fimmtudag 16.mars) til vesturs og síðar suðvesturs í háloftum - með þeim afleiðingum að veðrið breytist. Frostið minnkar heldur og úrkomulíkur aukast verulega um landið suðvestanvert. Síðdegis á föstudag verður sunnanáttin í háloftunum orðin ákveðin. 

w-blogg150323a

Kortið sýnir stöðuna í 500 hPa-fletinum á föstudagskvöld (17.mars). Þá er háloftalægðardrag skammt vestan við land. Vestan við það er hvass norðvestanstrengur (sjá vindörvar), en ákveðin sunnan átt yfir Íslandi. Í neðri lögum læðist loft úr austri í átt að lægðardraginu, meðfram suðurströnd landsins. 

w-blogg150323b

Næsta mynd sýnir sjávarmálsþrýsting (heildregnar línur) - hann sjáum við betur á síðustu myndinni. Hér einbeitum við okkur að litunum. Þeir gefa til kynna uppstreymi (bláir litir) og niðurstreymi (brúnir litir) í um 3 km hæð (700 hPa) - í þeirri hæð er úrkomumyndun gjarnan áköfust. Því dekkri sem blái liturinn er því ákafara er uppstreymið. Einingin er einkennileg, Pa/s, þeir sem stækka myndina geta greint töluna -4,3 í miðju bláu klessunnar suður af Reykjanesi. Þar lyftist loftið um 4,3 Pascal á sekúndu - ritstjóranum sýnist það í fljótu bragði samsvara um 40 cm á sekúndu lyftingu (ekki nákvæmlega reiknað) - afskaplega ákveðin hreyfing. Við þetta kólnar loftið auðvitað og raki fellur út - sem snjór. 

w-blogg150323c

Hér eru upplýsingarnar komnar inn á hefðbundnara veðurkort. Jafnþrýstilínur eru heildregnar. Þær eru heldur gisnar, enda er vindur ekki mikill. En við sjáum mjög greinilegt lægðardrag sem teygir stig úr suðsuðaustri inn yfir Reykjanes og þaðan norður um Dali og Húnaflóa, allt til Jan Mayen. Grænu og bláu litirnir sýna úrkomumagn síðustu 3 klukkustundir. Á dökkbláa svæðinu er það á bilinu 10-15 mm. Það er auðvitað mikið, samsvarar lauslega 10-15 cm snjó. 

Þegar þetta er skrifað - á miðvikudagskvöldi - eru enn tveir sólarhringar í þann tíma sem kortin vísa á. Ekki alveg víst að allt fari eins og reiknilíkön sýna. Bæði staðsetning úrkomunnar, ákefð hennar og svo heildarmagn er ekki neglt niður. Við vitum heldur ekki fyrir víst hvort þetta er allt snjór - eitthvað gæti verið blautara. Höfum þetta allt í huga.

En í fortíðinni þekkjum við fjölmörg ámóta dæmi. Mikið snjóar á fremur takmörkuðu svæði - minna (en samt eitthvað) á stærra. Mestu öfgarnar gera annars vegar ráð fyrir 50-60 cm snjó, en hins vegar engum. Ritstjóri hungurdiska tekur enga afstöðu til þess (frekar en venjulega). Fyrir utan þessa milliþáttahugleiðingu veðurlagsins er síðan gert ráð fyrir óbreyttri tónskipan - norðanátt og frosti svo langt og séð verður. 


Hugsað til ársins 1941

Tíðarfar var mjög hagstætt og hlýtt á árinu 1941. Þetta var eitt mesta hlýindaár tuttugustu aldar, það hlýjasta í Reykjavík, Stykkishólmi, Grímsey og Vestmannaeyjum, það fjórðahlýjasta á Akureyri og þriðjahlýjasta á landsvísu. Aðeins einn mánuður telst kaldur. Það var febrúar, en níu mánuðir voru hlýir. Óþurrkakaflar komu þó um sumarið, sérstaklega til baga á Suðausturlandi. Órólegri tíð var til sjávarins og manntjón þar með mesta móti, en talsvert af því skrifast á ófriðinn en ekki veðurlag. 

Janúar var óvenjustilltur, fénaður gekk mikið úti, gæftir voru góðar, færð góð. Febrúar var hagstæður um landið sunnan- og vestanvert, en nokkuð snjóþungt var á Norðaustur- og Austurlandi. Mikið illviðri gerði á landsvísu í lok mánaðar. Framan af mars var mikill snjór á Norður- og Austurlandi, en annars var snjólítið og tíð var mild og hagstæð. Gæftir góðar við Suður- og Vesturland, en síðri austanlands. Í apríl var óvenjuþurrt norðaustanlands, tíð var mild og hagstæð og hagar góðir. Maí var sömuleiðis kyrr og hagstæður til lands og sjávar. Síðari hluti júní þótti heldur óþurrkasamur, en tíð var annars góð, spretta góð og gæftir góðar. Mjög votviðrasamt var suðaustanlands í júlí, en annar var hlýtt, kyrrt og hagstætt veðurlag. Í ágúst var tíð mjög hagstæð og þurrviðrasöm um landið vestanvert, en austanlands var mjög votviðrasamt og heyskapartíð slæm. Fádæma hlýtt var í september, en votviðrasamt í flestum landshlutum, nema norðaustanlands. Heyfengur var góður og uppskera úr görðum góð. Í október var tíð óstöðug suðvestanlands, en annars var tíð mild og hagstæð, sérstaklega á Norður- og Austurlandi. Óvenju milt var í nóvember, unnið var að jarðarbótum og fé gekk sjálfala. Í desember var afburðagóð tíð á Norður- og Austurlandi, en nokkuð óstöðug og úrkomusöm sunnan lands og vestan.

Við rifjum nú upp fréttir ársins tengdar veðri. Ekki er sá listi tæmandi. Blaðatextar eru langflestir fengnir af vefnum timarit.is, oft styttir hér og stafsetning oftast færð til nútímahorfs (vonandi sætta höfundar sig við þá meðferð). Heimildir eru að auki úr Veðráttunni, tímariti Veðurstofu Íslands, og töluleg gögn úr gagnagrunni Veðurstofunnar. Sömuleiðis notum við okkur fáeinar tíðarfarslýsingar veðurathugunarmanna. Talnasúpu má finna í viðhenginu. Heimsstyrjöldin setti mjög svip á mannlíf, allmörg skipsströnd og óhöpp tengdust henni beint eða óbeint. Veður - eða ókunnugleiki - kom þar stundum við sögu. Við rekjum ekki nema fá slíkra slysa. Hér er ekki um slysaannál að ræða. Stríðið hafði einnig áhrif á fréttaflutning af veðri og e.t.v. fréttist síður af ýmsum viðburðum en ella hefði orðið. 

Slide1

Kortið sýnir tillögu evrópureiknimiðstöðvarinnar (era-20c) um meðalhæð, meðalþykkt og þykktarvik í janúar 1941. Þaulsetinn hæðarhryggur er við Ísland, mikil hlýindi á Vestur-Grænlandi, en kuldar í Evrópu (hluti af einum af kuldavetrum heimsstyrjaldaráranna). Lítið var um lægðir í námunda við landið. Hæðarsvæðið þokaðist smám saman til vesturs frá því að vera austan við landið snemma í mánuðinum. Norðlægar áttir færðust í aukana og það kólnaði smám saman. 

Veðurathugunarmenn kunnu að meta stillta og góða tíð í janúar:

Suðureyri í Súgandarfirði (Kristján A. Kristjánsson): Frábærlega stillt og skemmtileg janúarveðrátta. Frostvægt og svo snjólétt að einungis föl var að sjá upp á hæstu fjöll. Mjög úrkomulítið.

Grímsstaðir á Fjöllum (Sigurður Kristjánsson): Einmuna góð tíð allan mánuðinn.

Bannað var að senda veðurskeyti nema um fastar símalínur og bannað var að ræða veður í talstöðvum skipa og báta. Morgunblaðið segir frá þann 3.janúar:

Skipstjórinn á togaranum „Venus“ frá Hafnarfirði var í gær sektaður um kr.500 fyrir að senda skeyti, sem í voru upplýsingar um veðurfar. Undanfarið hafa nokkuð margir skipstjórar verið kærðir fyrir að tala um veðrið í talstöðvar sínar, eða að senda veðurfarsupplýsingar í skeytum.

Tíminn segir þann 9.janúar frá hlýindum eystra:

Mikil og alveg óvenjuleg hlýindi voru austan lands um áramót. Hinn 4. janúar var 12 stiga hiti á Seyðisfirði klukkan 8 um kvöldið, og fyrir áramótin var suma daga 17 stiga hita á Eskifirði, þegar hlýjast var. Hinn 5. janúar fór maður einn á Seyðisfirði, er ekki hafði unnist tími til eða hirt um að taka upp allar kartöflur sínar í haust, út í garð sinn og tók upp það, sem hann átti þar enn í jörðu. Voru kartöflurnar óskemmdar með öllu. Mun það algert einsdæmi á landi hér, að kartöflur séu teknar upp í janúarmánuði.

Nokkuð sérkennilegt ástand kom upp við Reykjavík seint í janúar. Þá voru óvenjulegar stillur, en kalt í veðri. Nær allur bærinn og stöðvar hersins voru kyntar með kolum. Mengun varð því mikil og skyggni slæmt. Þar að auki mátti ekki loga nema takmarkað á ljósvitum. Skip strönduðu af þessum sökum. 

Morgunblaðið segir frá 23.janúar:

Laust fyrir hádegi í gær sigldi enskur togari, „Lapageria“ frá Grimsby, á sker í mynni
Skerjafjarðar og sat þar fastur. Togarinn var á leið hingað til Reykjavíkur. En svo mikinn reykjarmökk lagði þangað út frá Reykjavík, að vart: sáust handarskil. Gátu togaramenn því ekki áttað sig á siglingaleiðinni og vissu ekki fyrr til en skipið rakst á Kepp, sem er sker sunnan til í mynni Skerjafjarðar.

Og tveimur dögum síðar strandaði annað skip. Morgunblaðið 25.janúar:

Um 11 leytið í gærmorgun strandaði finnskt flutningaskip á svonefndum Leiruboða í  Skerjafirði, en það er sama skerið, sem enski togarinn strandaði á fyrir nokkrum dögum. Það er skoðun sjómanna, að skipstrandið hafi borið að með sama hætti og er enska togarinn strandaði og orsökin verið sú, að kolareykur frá bænum huldi útsýni.

Morgunblaðið segir 30.janúar frá jakahlaupi og enn af strandi:

Laxá í Aðaldal hljóp úr farvegi sínum í fyrradag sökum jakahlaups, skammt frá Knútsstöðum og hefir hlaupið teppt umferð milli Húsavíkur og Akureyrar. Áin rennur nú vestur Aðaldalshraun og yfir þjóðveginn á 2 km breiðu svæði. Skemmdir hafa ekki orðið svo vitað sé, en geta helst orðið á veginum, sem áin rennur viðstöðulaust yfir.

Sömu stillurnar og snjóleysið helst norðanlands ennþá. Frost hefir verið töluvert undanfarið. Hefir frostið komist alt upp í 22 stig, á Grímsstöðum á Fjöllum, 20 stig í Mývatnssveit og oft 18 stig í lágsveitum.

Um klukkan 8 í gærkvöldi strandaði togarinn Baldur á Gróttutanga, rétt sunnan við
vitann, sem er ljóslaus. Mikinn reykjarmökk lagði vestur á sjóinn frá bænum og myrkvaði hann gersamlega siglingaleiðina til Reykjavíkur. Hinsvegar logar ekki á Gróttuvitanum, vegna þess að Bretar hafa fyrirskipað myrkvun hans. Þetta er fjórða skipið, sem strandar nú á fáum dögum við innsiglinguna í Reykjavík. Þessi skip eru: Enskur togari (náðist út), finnskt flutningaskipt (sem fórst), mótorbátur (strandaði á mánudagskvöld, en komst sjálfkrafa út) og nú síðast togarinn „Baldur“. Orsök þess, að skipin strönduðu, er í öllum tilfellum hin sama: Kolareykur og myrkur á innsiglingaleiðinni, þar sem Gróttuvitinn logar ekki.

Veðurathugunarmenn lýsa tíð í febrúar:

Flateyri (Hólmgeir Jensson): Fram yfir miðjan þennan mánuð hefir veðurlag verið óvenju  milt. Úr því fór að kólna og snjóa á pörtum. Um 20. gjörði snjóhríð og hlóð niður miklum snjó svo að vera mun á flatlendi þar sem veðursælt er allt að 80-90 cm djúp fönn.

Sandur (Friðjón Guðmundsson): Góð tíð og auð jörð fram yfir miðjan mánuð. Eftir það sleitulaus harðindakafli mánuðinn út og allmikil fannkoma öðru hvoru.

Papey (Gísli Þorvarðsson): Frá 20. til 28. var hér harka veður daglega. Þó fjörubeit væri eða hagasnöp var ekki hægt að nota það fyrir ófærð og slæmu veðri, jafnvel að fé í úteyjum fennti inni um tíma, þar ekki var hægt að ná til þess fyrir stórsjó. Þetta mun vera 5 mesti snjórinn síðan ég kom hér, í nálega 41 ár. (Snjódýpt mældist 36 cm þann 25.).

Tíminn segir af hríðarveðri í pistli 1. febrúar:

Hríðarveður var norðanlands í fyrradag [30.janúar]. Hefir annars mjög sjaldan hríðað þar í vetur, að minnsta kosti í innhéruðum, svo að jafnvel má til einsdæma telja. Snjór féll þó ekki svo að teljandi sé. Hið syðra er alveg snjólaust eða því sem næst. Í frostharðara lagi hefir verið síðustu dægur, yfirleitt 10—15 stig, og jafnvel 15—20 stig, þar sem mest hefir verið frostið. Á Þingvöllum var 18 stiga frost í morgun.

Tíminn segir af skipssköðum 4.febrúar:

Sjö menn hafa farist í norðanveðrinu í vikunni, er leið [30. og 31.janúar]. Vélbátsins Baldurs frá Bolungarvík hefir eigi orðið vart síðan, þrátt fyrir allmikla leit, og er hann nú talinn af. Á honum voru fjórir menn. Allir þessir menn voru á besta aldri. Vélbáturinn Baldur var litill, aðeins 8 smálestir að stærð. — Á föstudagsmorgun tók út fimm menn af vélbátnum. Pilot frá Njarðvík og drukknuðu þrír þeirra, en tveimur tókst að bjarga. Voru þessir menn að taka inn ljósdufl, sem báturinn hafði legið við um nóttina, þegar alda reið á hann og færði hann í kaf. Samtals voru átta menn á bátnum. Þeir, sem drukknuðu, voru allir ungir að aldri.

Tíminn segir af strandi og hrakningum í pistli 15.febrúar, síðan af rjúpnastofninum:

Belgískur togari, „George Edward", strandaði á Bolhraunafjöru á Mýrdalssandi aðfaranótt föstudags síðastliðinn. Var svartamyrkur, stormur og rigning, er skipið strandaði. Úr landi urðu menn strandsins ekki varir. Tólf menn munu hafa verið á togaranum. Sjö þeirra komust að Höfðabrekku, austasta bæ í Mýrdal, seint í gær, illa til reika og aðframkomnir af þreytu. Var strax hafin leit að þeim, sem vantaði. Tveir þeirra munu hafa farist í lendingunni, en þrír dóu af vosbúð og kulda eða örmögnuðust af þreytu, er á land var komið. Lík þeirra eru öll fundin. Strandmennirnir voru kyrrir á Höfðabrekku um hádegi í dag og voru þá allir komnir á fætur, nema einn.

Rjúpur hafa varla sést í byggð eða á afréttum síðustu árin. í haust sáu gangnamenn nokkru meira af rjúpum en áður, í fjöllunum inn með Jökulsá í Lóni. En fjölgun rjúpunnar gengur seint, því að mikið er af refum á þessum slóðum, þótt eitrað sé fyrir þá á hverju hausti.

Tíminn segir af hríð 20.febrúar:

Tímanum var svo frá skýrt í símtölum, að í gær hefði verið hirðarveður nyrðra, sums staðar þéttingskóf og víða stórhríð. Hefir sjaldan eða jafnvel aldrei brugðið til verulegrar hríðar fyrr í vetur, og má það einsdæmi kallast.

Tíminn segir 25.febrúar frá hríð og snjóflóðum á Austurlandi:

Í lok síðustu viku féll mikill snjór austan lands. Hefir fannkoma þessi valdið snjóflóðum í Mjóafirði og Seyðisfirði. Í Mjóafirði brast snjóhengja fram á laugardaginn [22.]. Varð maður, Óli Ólafsson, bróðir Sveins í Firði, 64 ára gamall, fyrir snjóskriðunni og fórst. Mikið annað tjón varð að snjóflóðinu: Fjárhús með um 50 kindum sópaðist brott og sömuleiðis geymsluhús, skúrar og margir bátar, Símalínur skemmdust einnig. Óli heitinn var maður kvongaður og áttu þau hjónin þrjú börn. Á laugardaginn féll snjóflóð rétt utan við Vestdalseyri i Seyðisfirði. Tók snjóflóðið með sér fjárhús er i voru 65 kindur.

Morgunblaðið segir einnig frá snjóflóðinu í Mjóafirði í pistli 25.febrúar:

Síðastliðinn laugardag hljóp snjóflóð mikið niður svonefndan Fjarðartanga í Mjóafirði.
Sópaði snjóflóðið burtu tveim geymsluhúsum, skúrum, bátum og fjárhúsi, með 48 kindum. Einnig vildi svo hörmulega til, að þegar snjóflóðið reið yfir, var þarna staddur Óli Ólafsson, albróðir Sveins í Firði, og fórst hann í snjóflóðinu. Hann var 64 ára og lætur eftir sig konu og 3 börn. (Fregn þessi er frá fréttaritara útvarpsins á Norðfirði).

Síðustu daga febrúar og fyrstu daga mars gerði mikið og frægt illviðri um land allt, það langmesta á árinu. Um aðdraganda þess og veðuraðstæður má lesa í sérstökum hungurdiskapistli 2016. Hér verður aðeins hnykkt á tjóni sem veðrið olli. 

Tíminn segir frá miklu frosti í pistli 27.febrúar:

Allfrosthart hefir verið síðustu dægur um allt land. Sums staðar hefir það orðið um 20 stig, þegar kaldast hefir verið, eins og til dæmis á Grímsstöðum á Fjöllum. Hér í Reykjavík hefir verið 13—15 stiga frost, þegar kuldinn hefir verið mestur. Í morgun var 11 stiga frost í Reykjavík, en frostharðast var á Grímsstöðum, 19 stig.

Þann 1.mars segir Tíminn af illviðrinu og tjóni í því:

Hið mesta ofsaveður geisaði um meginhluta landsins tvo síðustu sólarhringa [27. og 28. febrúar] og hefir stórtjón hlotist af. Mun þó eigi enn kunnugt um allan skaða, sem veðrið hefir haft í för með sér, því að engar fregnir hafa borist úr fjölmörgum byggðarlögum, enn sem komið er. Þegar er það kunnugt, að bátur hefir farist með sex manna áhöfn, mörg skip og bátar strandað, og sumir bátanna brotnað í spón, margir bátar sokkið, og símalínur, raftaugar og ýmis önnur mannvirki eyðilagst. Af fregnum, sem fengist hafa, má ráða að einna harðast hafi veðrið verið á Suðvesturlandi. Voru öðru hvoru 12 vindstig í Reykjavík og á Suðurnesjum. Hins vegar var stórhríð sums staðar norðanlands og austan undanfarna daga, en þar var mjög tekið að lygna um miðjan dag í gær, og þá aðeins 3 vindstig á Akureyri. Þá voru heldur ekki nema 8 vindstig í Vestmannaeyjum og 9 vindstig á Horni, með fannkomu. Sunnan lands brá til slyddubyls eða hríðarveðurs af norðaustri upp úr miðjum degi í gær, en í Reykjavík stytti þó upp undir kvöldið. Mikið sjórok var í gær og fyrrinótt um allan bæinn, svo sjávarseltan settist í lögum utan á hús og menn og muni. Á fimmtudagsmorgun [27.] var allfrosthart, en er leið á daginn dró úr frostinu og aðfaranótt föstudagsins og á föstudagsmorgun var orðið frostlaust um Suðurland og suðurhluta Austurlands. Var þá tekið að þykkna í lofti og vindur að snúast til austlægari áttar.

Skipströnd og bátstapar í Reykjavík. Tvö erlend vöruflutningaskip, er lágu á ytri höfninni, tók að reka til lands í fyrrinótt. Fengu skipverjar eigi að gert og strönduðu bæði skipin í sandkrika í Rauðarárvík. Var mönnum sem í þeim voru, alls 43, bjargað í gærmorgun. Voru margir þeirra aðframkomnir af vosbúð, enda illa búnir. Um lágflæðurnar í gær lágu skipin að nokkru leyti á þurru landi. Annað þeirra, danskt, Sonja Mærsk, snýr stefni upp í sandinn. Hitt skipið, portúgalskt, Ourem, frá Oporto, liggur fast við danska skipið og snýr þvert við áhlaðandanum. Riðu öldurnar látlaust yfir það í gær. Í skipum þessum mun meðal annars hafa verið kartöflur, áfengi og sement. Lágu víntunnur, er borist höfðu upp, á við og dreif um sandinn. Þriðja skipið var í mjög mikilli hættu statt. Var það komið mjög nærri landi, framan við olíubirgðastöð B.P. Á innri höfninni í Reykjavík sukku bátar, en aðrir bárust á grunn. Í krikanum við Grófarbryggju sukku vélbáturinn Vestri frá Ísafirði, 12—15 smálestir að stærð, og Kristín, smábátur úr Reykjavík, 4—5 smálestir. Þrjú skip, sem lágu við Ægisgarðinn, losnuðu og rak á grunn. Voru það varðbáturinn Óðinn, línuveiðaskipið Rúna og norskt hvalveiðiskip.

Vissa fékkst um það í gær, að vélbáturinn Hjörtur Pétursson frá Siglufirði, 20 smálestir að stærð, er gerður skyldi út frá Hafnarfirði á vetrarvertíðinni, hefði farist undan Garði á fimmtudaginn [27.]. Voru á honum sex menn. Báturinn fór í fiskiróður frá Hafnarfirði á miðvikudagskvöldið. Í gærmorgun var rekald úr bátnum tekið að berast að landi þar syðra. Í Keflavík og Njarðvíkum hefir gífurlegt tjón orðið á vélbátaflotanum. Skýrði Ásgeir Daníelsson, hafnarvörður í Keflavík, svo frá þeim atburðum, er þar hafa gerst: — Þegar á fimmtudag slitnuðu upp tveir bátar á Keflavíkurhöfn. Rak þá báða í land, þar sem þeir brotnuðu í spón. Voru það Sæþór frá Seyðisfirði og Öðlingur, heimabátur. Í fyrrinótt slitnaði vélbáturinn Trausti upp. Rak hann brátt á grunn, þar sem hann brotnaði og gerónýttist. Eru þessir þrír bátar nú ekki annað en sprekahrúga. Í Njarðvíkum rak vélbátinn Gylfa í fyrrinótt upp í fjöru, þar sem önnur hliðin brotnaði úr honum. Í gær [28.] hvolfdi vélbátnum Önnu á bátalegunni í Njarðvíkum. Þá var og mjög tekið að óttast um vélbátinn Ársæl, og þótti ekki annað sýnna en að hann myndi þá og þegar reka til lands, því sjór versnaði æ er leið á daginn. Í Keflavíkurhöfn voru 15—16 vélbátar og tvær færeyskar skútur í hinni mestu hættu, einkum sökum vaxandi brims. Sprengdu bátarnir í sífellu af sér öll bönd, svo að varla hafðist við að festa þeim. Mátti búast við því á hverri stundu að allur þessi skipafloti væri í voða. Ljóslaust var á bryggjunum í gærkvöldi. Það varð bátunum til bjargar, að veður tók að sljákka í gærkvöldi og brim að lægja í nótt. Voru þó sumir bátarnir talsvert laskaðir eftir ofviðrið. Hafskipabryggjan varð fyrir miklum skemmdum. Sviptust plankarnir ofan af meginhluta bryggjunnar. Svo erfitt var um landtöku í Keflavík, að síðasti báturinn komst ekki upp að bryggju fyrr en síðdegis í gær. Hafði hann þá beðið færis í nær tvo sólarhringa. Margir bátar leituðu burt frá Keflavík til Hafnarfjarðar og jafnvel Reykjavíkur. Eins og að líkum lætur voru mörg skip á sjó úti á versta stormasvæðinu við strendur landsins, veiðiskip, bæði togarar og útilegubátar, og strandferðaskip og skip, er voru að koma úr millilandasiglingu eða leggja af stað. Meðal annars lagði Katla af stað frá Hafnarfirði til útlanda í fyrradag, og Dettifoss mun væntanlega hafa verið kominn í grennd við landið. Reyndir sjómenn hafa þó látið uppi, að engin ástæða sé til þess að bera kvíðboga fyrir afdrifum stórra skipa á sjó úti. Tíminn hefir haft þær fregnir af Súðinni, sem var í strandsiglingu, að hún hafi legið á Hvammsfirði. Laxfoss fór héðan úr Reykjavík til Vestmannaeyja á miðvikudagskvöld. Komst hann undir Landeyjasand og lá þar meðan harðasta norðanveðrið geisaði og náði til hafnar í Vestmannaeyjum í gær, nokkru fyrir hádegi. Slysavarnafélagið fékk í gærkvöldi og í morgun nokkrar fréttir af bátum og skipum, sem á sjó voru við Suðvesturlandið. Hefir ekkert slys orðið á þeim skipum, sem frést hefir til. Þó hafa tveir bátar orðið fyrir vélabilunum, en njóta báðir aðstoðar togara. Að sjálfsögðu eru þó mörg skip og .bátar, sem ekkert hefir enn heyrst af. 

Sigfús Johnsen, bæjarfógeti í Vestmannaeyjum, skýrði Tímanum svo frá í morgun, að vélskipið Stella frá Neskaupstað hefði komið þar til hafnar, mjög laskað. Stella var á leið frá Reykjavik til Fleetwood með fisk. Á fimmtudagsnóttina reið brotsjór yfir skipið og braut það mjög, svo að ráðlegast þótti að freista þess að ná höfn í Eyjum. Þá var Stella 70 sjómílur suður af Eyjum.

Strand á Mýrdalssandi. Um hádegi í gær barst hingað neyðarskeyti frá stóru belgísku  flutningaskipi, Persier, sem þá var strandað við Kötlutanga á Mýrdalssandi, suðaustur af Hjörleifshöfða. Enn hafa litlar fréttir borist af skipsstrandi þessu. Þó tjáði Pálmi Loftsson, forstjóri Skipaútgerðar ríkisins, blaðinu í morgun, að björgunarsveit í landi hefði tekist að koma línu um borð í hið strandaða skip, og um ellefuleytið voru 21 af 44 skipverjum komnir í land. Varðskipið Ægir er úti fyrir strandstaðnum, og hafa fregnir, sem komið hafa, borist frá því, þar eð símasambandslaust er með öllu austur í Skaftafellssýslur.

Á símalínum urðu hinar mestu skemmdir víða um land, staurar brotnuðu og þræðir slitnuðu eða flæktust saman. Var talsímasamband mjög lélegt í gær, og aðeins fáir staðir, sem hægt var að ná til. Valda þessar símabilanir því, að enn eru eigi fréttir komnar af veðrinu og því tjóni, sem af því kann að hafa orðið, nema úr fáum byggðalögum. Mjög miklar skemmdir urðu á línunni meðfram Esjunni og ollu þær því, að eigi var hægt að tala til Vesturlandsins eða Norðurlandsins. Suðurlandslínan var rofin í Landeyjum. Hins vegar var ótruflað talsímasamband við Suðurnes og Vestmannaeyjar. Í gær var tilraun gerð til þess að gera við símaskemmdirnar á Kjalarnesi, en viðgerðamennirnir urðu að snúa við, sökum veðurofsans, er upp í Mosfellssveit kom. Ritsímasamband var í gærmorgun til Akureyrar, en í gærdag tókst að bæta svo um, að unnt var að ná sambandi við Seyðisfjörð. Margvíslegt annað tjón, en annað, sem hér hefir verið greint frá, hefir hlotist af veðrinu, járnplötur losnuðu af húsþökum, raftaugar og loftnet eyðilagst og rúður brotnað. Viða á Seltjarnarnesi var rafmagnslaust með öllu í gær, og allt símasamband rofið sumstaðar. Þá eru og komnar þær fregnir frá Akureyri og Húsavík, að þar hafi verið rafmagnslaust með öllu. Féll snjóskriða í Ljósavatnsskarði og sleit niður raftaugarnar, er liggja frá Laxárstöðinni til Akureyrar. Samkvæmt símtali við lögreglustjórann á Akranesi, sem þó var mjög slitrótt vegna símbilana, urðu engar skemmdir á bátum þar, enda aflandsvindur. Breskur hermaður skolaðist í gærmorgun út af hafnargarðinum í Reykjavík, er sjór reið yfir hann. Menn, er nærstaddir voru gerðu tilraun til bjargar og svarflaðist einn íslenskur maður í sjóinn við þær tilraunir. Heppnaðist að bjarga honum, en hermaðurinn drukknaði.

Þótt heldur sljákkaði í veðrinu var það þó áfram vont næstu daga og olli frekara tjóni Morgunblaðið segir 4.mars af snjóflóði á Ísafirði. 

Hörmulegt slys varð á Ísafirði í fyrrakvöld um klukkan 7 1/2. Mikil snjókoma hefir verið undanfarið þar vestra og miklar snjóhengjur myndast í hinum bröttu hlíðum ísfirsku fjallanna. Klukkan 7 1/2 féll svo snjóflóð á húsið Sólgerði við Seljalandsveg. Lyfti snjóflóðið húsinu af grunninum og flutti það niður að sjávarmáli. Er það alllöng leið. Kviknaði þá í húsinu og brann það til kaldra kola. Í húsinu var Sslóme Ólafsdóttir ekkja, eigandi hússins, ásamt þremur börnum sínum og tveimur fósturbörnum. Ennfremur voru stödd í húsinu unglingstelpa, Erna Guðbrandsdóttir, og Höskuldur Ingvarsson. Allt fólkið bjargaðist, en þó við illan leik ,nema tvær telpur, þær biðu báðar bana. Sonur Salóme handleggsbrotnaði og hlaut smærri meiðsli. Snjóflóðið féll einnig á fjárhús Salóme og varð 15 kindum að bana.

Landsmóti skíðamanna aflýst. Skíðamótunum, sem halda átti við Skíðaskálann og Kolviðarhól í miðjum mánuðinum, hefir verið aflýst sökum snjóleysis.

Tíminn segir einnig frá snjóflóðinu á Ísafirði 4.mars:

Á sunnudagskvöldið [2.mars] varð hryggilegt slys af völdum snjóflóðs á Ísafirði. Eftir margra daga stórhríð brast snjóhengja og féll niður skammt vestan við höfnina. Sópaði snjóflóðið með sér húsi, er Sólgerði hét og í bjó ekkja með þrem börnum sínum og tveim
fósturbörnum. Barst húsið með snjóskriðunni niður í fjöru og fórust tvær stúlkur, dóttir ekkjunnar og fósturdóttir, báðar innan fermingar. Konan sjálf, sonur hennar, dóttir og fósturbarn, björguðust nauðulega, sum meidd og þjökuð, einkum sonurinn, er meðal annars handleggsbrotnaði. Eldur kom upp í húsinu, er það var komið til strandar, og brann það til ösku. Einnig brast snjóflóð á fjárhús og drap fjórtán kindur, helming þess fjár, er inni var. 

Samkvæmt því, er Tímanum var hermt í símtali í gær, er enn rafmagnslaust að mestu á Akureyri. Hefir eigi enn tekist að gera við bilanir þær, sem urðu á raftaugum frá Laxárstöðinni, svo að haldi komi. Rafstöðin við Glerá er og (undir) álagi, svo að þaðan fæst aðeins sáralítil orka. Eru Kristneshæli, menntaskólabyggingin og slíkar stofnanir látnar sitja í fyrirrúmi um þá raforku, sem fæst frá Glerárstöðinni. Að öðru leyti notast bæjarbúar langmest við kertaljós.

Morgunblaðið segir 5.mars frá nánari atvikum á Ísafirði:

Nánari atvik þess hörmulega slyss, er tvö börn fórust í snjóflóði á Ísafirði fyrir þremur dögum, eru nú kunn. Hefir fréttaritari blaðsins á Ísafirði, greint nánar frá öllum aðstæðum. Styðst það, sem hér verður sagt til viðbótar fyrri frásögn Morgunblaðsins við frásögn hans. Húsið Sólgerði við Seljalandsveg er einlyft timburhús, portbyggt. Er húsið 8x10 álnir að stærð. Húsið stendur um 100 metra frá sjó. Á sunnudagskvöld um kl. 7:15 hafði eigandi hússins, Salome Ólafsdóttir háttað börn sín tvö uppi á lofti hússins. Stormur var mikill og stórhríð og heyrðist veðurdynurinn mjög á húsinu. Í þennan mund heyrir Salome mikinn hávaða. En með miklum snarleik telur Salome sig hafa getað varpað sér og börnunum tveimur, er hún vafði inn í teppi, út um glugga á svefnloftinu og þannig komist undan snjóskriðu þeirri, sem á húsið féll. Annars telur konan sig naumast geta gert sér þess glögga grein, hvernig hún komst undan snjóflóðinu, sem fór með mjög miklum hraða. Út úr húsinu komust einnig aðrir, sem í því voru, að fráteknum dóttur Salome Sigríði og Ernu Guðbrandsdóttur, sem var gestur í húsinu. Er talið, að þær hafi orðið of seinar til þess að komast út úr húsinu áður en snjóflóðið skall yfir. Snjóflóðið hratt nú húsinu í heilu lagi af grunni þess og flutti það fram að sjó. Vegna þess, að snjóskriðan sem á húsið féll ekki var mjög mikil að magni, staðnæmdist húsið þar. En þá þegar braust út eldur í því. Mun hafa kviknað út frá eldstó. Allt þetta gerðist á örskammri stundu, Salome heyrir dyninn af falli snjóskriðunnar, hún varpar sér og börnunum tveimur á efra lofti út um glugga og hinu fólkinu á neðra gólfi tekst einnig, að undanteknum börnunum tveimur, að komast undan áður en snjóflóðið hefir sópað húsinu með öllu af grunninum og flutt það niður til sjávar. Sakir standa þá svo, að fólkið, sem bjargast stendur húsvana og lostið skelfingu þarna í stórhríðinni, en húsið stendur í björtu báli. Fólkið flýr síðan að Grænagarði; sem er hús þar í grenndinni, en bruninn hefir nú sést handan úr bænum hinsvegar við Pollinn og brunaliðið kemur á vettvang. Skaflar voru nú hinsvegar orðnir svo djúpir, að ekki voru tök á að koma veigameiri slökkvitækjum á brunastaðinn. Var eldurinn svo ákafur, að þegar brunaliðið kom á staðinn, varð við ekkert ráðið. Var þá vitað að í því voru börnin tvö, sem ekki hafði tekist að komast út. Þegar svo var hægt að leita í rústunum, fundust lík þeirra beggja og lítt sködduð. Munu börnin hafa slegist við eða orðið undir reykháfnum, er hann féll. Aðrir þeir, sem í húsinu voru og björguðust, eru lítið meiddir, nema Ólafur sonur Salome, sem handleggsbrotnaði. Þá féll snjóflóð og á fjárhús ekkjunnar og mölbrotnaði það og drápust 11 af 25 kindum, sem í því voru

Stórmiklar skemmdir urðu á símakerfi Norðausturlands í stórhríðinni, sem þar geisaði s.l. föstudag. Einna mestar urðu skemmdirnar frá Skógum til Kópaskers, en þar eru t.d. 40 símastaurar brotnir á stuttum kafla. Fréttaritari Morgunblaðsins á Húsavík átti í gær símtal við Kópasker, en þangað hefir verið sambandslaust þar til í gær, að bráðabirgðaviðgerð var lokið á línunni, en hún liggur á löngum köflum í snjó. Hafa orðið miklar skemmdir á símalínum. Samband við aðrar stöðvar í grennd við Kópasker er slitið, en greinilegar fréttir hafa ekki fengist um frekari skemmdir. Á Raufarhafnarlínunni eru þó ekki margir staurar brotnir, en línan liggur niðri á löngum köflum og er sumstaðar slitin. Aðgerðir á rafmagnslínum í Húsavík eru vel á veg komnar, svo að einhver hluti bæjarins fékk ljós í gærkvöldi, en rafmagnslaust hefir verið í bænum síðan á föstudag,

Tíminn segir enn af tjóni í veðrinu mikla í pistli 6.mars:

Það er nú kunnugt orðið, að símabilanir af völdum ofveðursins á dögunum eru mjög miklar. Bráðabirgðasímasamband er þó komið á nú, því nær hvarvetna, en viðgerðum er haldið áfram. Fullnaðarviðgerðir á skemmdum þeim, er urðu, verða þó ekki framkvæmdar fyrr en í sumar. Alls brotnuðu rösklega 160 símastaurar og mun ástæðan einkum hafa verið ísing, samfara roki. Stórkostlegastar urðu þessar skemmdir í Eyjafirði. Þar brotnuðu 74 staurar milli Svalbarðseyrar og Grenivikur. Vestan fjarðar varð og tjón á símalínunni. Í námunda við Dalvík og á milli Dalvíkur og Krossa brotnuðu 11 staurar. Sunnan við Kópasker, í Núpasveit, brotnuðu um 40 staurar. Víða lögðust línur niður vegna ísingarinnar og símaþræðir slitnuðu. Í Reykjarfirði á Ströndum slitnaði sæsíminn vegna hafróts, og er enn símasambandslaust við Strandir fyrir norðan Reykjarfjörð. Á þrem stöðum, við Ísafjörð, Seyðisfjörð og í Heljardal, urðu skemmdir á símanum vegna snjóflóða. Loks ullu loftbelgir símabilunum á átta stöðum á landinu, á tveim stöðum í Vopnafirði, á Sólheimasandi, í grennd við Esjuberg á Kjalarnesi, á Moldhaugnahálsi í Eyjafirði, á Barðaströnd, hjá Reykjahlíð í Mývatnssveit og undir Eyjafjöllum.

Miklar hríðar hafa geisað um Norðurland og Austurland að undanförnu. Má sums staðar heita, að látlausar hríðar hafi verið í hálfan mánuð. Á Fljótsdalshéraði hefir verið hið versta veður síðustu tvær vikur, sífellt hríðarveður af norðri og norðaustri. Eru hagleysur á Héraði og mikill snjór, nema þá helst í Fljótsdal. Lagarfljót er á ís. Annars var tíð mjög mild þar eystra, þar til þennan harðindakafla gerði, og um Fagradal var fært bifreiðum þar til 20. febrúar. Í Þingeyjarsýslum hafa geisað stórhríðar og er þar kominn mikill snjór víða. Í Eyjafirði hefir verið æðimikil snjókoma og fönn svo mikil í héraðinu, að vegir eru ófærir bifreiðum. Nú er þó komið besta veður þar nyrðra, og hefir verið mokað. Í Skagafirði var snjókoma minni en um austurhluta Norðurlandsins. Stórhríð var þar aðeins einn dag, en skafhríð oft og stundum dálítið ofankóf. Þó er að verða vont á jörð, einkum í  austurhéraðinu, þar sem snjór er til muna meiri. Fram til þess, að gekk að með þetta íkast, var tíðarfar með einsdæmum gott í Skagafirði.

Á Snæfellsnesi varð viða tjón að ofviðrinu á dögunum. Reif þök af húsum á ýmsum stöðum á nesinu. Að Búðum fauk stórt fiskgeymsluhús, og i Staðarsveit svipti þökum af húsum á tveim bæjum, Hofgörðum og Elliða. Í Ólafsvík var mikið brim og gekk sjór mjög hátt á land, svo að til einsdæma má færa.

Veðurathugunarmenn lýsa marsveðráttunni: 

Lambavatn (Ólafur Sveinsson): Það hefir verið óminnilegar stillur og blíðviðri eins og oftar í vetur. Snjór hefir aldrei komið yfir mánuðinn, nema aðeins gránað í rót. Fjöll alauð eins og í byggð, aðeins smáskaflar í lautum.

Sandur: Ágætis tíðarfar, stillt og þurrt, milt og snjólétt. Aðeins fyrstu vikuna var mikill snjór a jörð. En þann snjó leysti upp á mjög skömmum tíma í staðföstum sunnan hlákuvindi. Eftir það stillti til með hreinviðri og frosti.

Enn voru skip að stranda í Skerjafirði, Tíminn 8.mars:

Niðaþoka var hér í grenndinni í nótt og strönduðu tvö skip í Skerjafirði, íslenskur vélbátur og enskur togari.

Tíðindamaður Tímans átti í gær símtal við Karl Kristjánsson oddvita á Húsavík. Sagði hann harðindi þar í héraðinu upp á síðkastið, oft látlaus hríðarveður og mikinn snjó. Bifreiðum er hvergi fært á vegum, en fram að þessu íkasti var bifreiðum fært um allt héraðið. Mikið tjón hlaust á Húsavík af norðaníhlaupinu á dögunum. Um tuttugu staurar, sem tilheyrðu rafveitu þorpsins, brotnuðu, raftaugar og símþræðir slitnuðu víða. Enn er dálítið svæði rafmagnslaust.

Sigurður Arason á Fagurhólsmýri í Öræfum tjáði blaðinu í símtali í gær, að ofsarok hefði verið þar um slóðir i norðanveðrinu á dögunum og töluverðar skemmdir hlotist. Hefðu jarðlög urist upp og sand og möl borið á gróðurlendi, svo að bithagar hefðu spillst af jarðskafinu á nokkrum jörðum, einkum Hnappavöllum, Hofi og Svínafelli.

Morgunblaðið segir 13.mars frá jakahlaupi í Laxá í Aðaldal:

Húsavik, miðvikudag. Síðan hinni löngu hríð slotaði hefir verið hér sunnan hláka og blíðviðri. Er útlit fyrir að snjórinn ætli að hverfa jafn fljótt og kann kom. Í dag kom mikið jakahlaup í Reykjakvísl, rétt hjá Laxamýri, svo að hún hefir hlaupið úr farvegi sínum og flæðir nú yfir veginn á 5—800 metra breiðu svæði. Er há jakahrönn á veginum og er hann í hættu á þessum kafla ef hlaupinu slotar ekki fljótlega.

Tíminn segir 15.mars frá krapa- eða snjóflóði í Steingrímsfirði:

Fyrir nokkru gerði asahláku á Ströndum á mikinn snjó. Leiddu veðrabrigði þessi til snjóflóða. Varð mikið tjón að á Bólstað í Steingrímsfirði. Féll það þar yfir fjárhús og hlöðu og drap 156 kindur. Áður en brá til hlákunnar var fönn svo mikil þar nyrðra, að hús voru kaffennt sums staðar.

Veðurathugunarmenn segja af aprílveðráttu:

Lambavatn: Það hefir verið sama blíðan og stillan yfir mánuðinn eins og veturinn allan. Nú er allt að grænka, tún um hálfgræn að sjá.

Suðureyri: Mjög stillt, hlýtt og úrkomulítið að undantekinni páskahrinu 12.-15. Sjór mjög kyrr og bjart loft.

Sandur: Ágætis tíðarfar. Óvenjulega stillt og þurrt og hreinviðri og sólfar með afbrigðum. Dálítil frost voru öðru hvoru framan af, en óvenjuleg hlýindi er áleið. Snjóa og ísa leysti því óvenju snemma og sést nú ekki lengur snjór í byggð nema í djúpustu lautum og gilskorum.

Fagridalur: Ágæt tíð, en lofthlýindi ekki mikil og lítill gróður.

Tíminn segir af blíðviðri í pistli 3.apríl:

Hin mesta öndvegistíð hefir verið um land allt síðustu vikur, stillur og blíðviðri og mikið sólfar. Frost hefir verið sums staðar, en þó vægt. Um mikinn hluta landsins er snjólaust til efstu fjallabrúna og í öllum byggðarlögum landsins snjólaust að kalla. Veturinn hefir, svo sem að líkum lætur, verið ákaflega gjafaléttur fyrir sauðfjárbændur og sums staðar hefir fullorðnu fé ekki verið gefin nokkur heytugga, ekki síst þar sem bændur hafa haft síldarmjöl til þess að gefa með beitinni.

Skeiðárárhlaup hófst seint í apríl, en fyrstu fregnir voru óljósar. Morgunblaðið segir frá 24.apríl:

Sú saga gekk um bæinn síðdegis í gær, að eldur myndi vera uppi í Skeiðarárjökli og
hlaup í aðsigi í Skeiðará. Morgunblaðið átti í gærkvöldi tal við Odd Magnússon bónda á
Skaftafelli og sagði hann, að undanfarna daga hefði verið mikil jökulleðja í Skeiðará og nokkur vöxtur. Kom Öræfingum til hugar, að þetta kynni að vera undanfari hlaups. En eftir því sem Oddur skýrði blaðinu frá, virðist Skeiðará nú vera að fá sinn eðlilega lit aftur og vöxturinn engan veginn óeðlilegur. Er áin lítil og allsstaðar fær. Hvergi hafa sést nein merki þess, að eldur væri uppi í jöklinum.

Eins og áður sagði var tíð hagstæð í maí. Í kringum þann 20. varð þó mikið úrfelli um landið vestanvert, sérstaklega sunnan til á Vestfjörðum þar sem mikil skriðuföll urðu. 

Veðurathugunarmenn lýsa tíðarfari í maí:

Lambavatn: Það hefir oftast verið stillt og blítt veður yfir mánuðinn. Grænkaði snemma en vegna þurrka fór gróðri ekki vel fram. En svo þegar rigningin kom var hún heldur stórgerð svo grasið þaut upp. Og nú er sumstaðar ágæt spretta orðin á túnum svona snemma á vori. Í rigningunni 19. tók af alla garða hér á einum bænum á sandinum. Var nýbúið að seta niður og skolaðist nær öll mold í burt nema aðeins smábletti voru eftir. Frá 18. kl. 21 til 19. kl.21 var úrkoman 121 mm. [Þann 19. og 20. mældust samtals 147,5 mm úrkoma á Lambavatni].

Sandur: Einmuna gott tíðarfar allan mánuðinn. Stillt og þurrt, óvenjulega hlýtt og gróðurmilt. Muna menn naumast eftir jafnfagra vorveðráttu með þvílíku sólfari. Snjór er orðinn óvenjulega lítill til fjalla miðað við árstíð.

Fagridalur: Fremur köld tíð fram um miðjan mánuðinn, næturfrost og gróðurlítið. Mest ríkjandi norðaustlæg átt, hægviðri. Eftir 20. hagstæð gróðurtíð.

Sámsstaðir (Klemenz Kr. Kristjánsson): Maí sá hagstæðasti sem komið hefur. Sólfar mikið og stillur, úrkoman fremur lítil.

Óvenjuleg hlýindi voru í kringum þann 10. maí. Hiti fór í 24,4 stig á Hallormsstað þann 11. og 20,6 stig á Fagurhólsmýri. Tíminn segir af vorkomunni í pistli 13.maí:

Vorblær er nú mjög tekinn að færast á allt. Skógur er farinn að springa út og tekur senn að laufgast. Opnast brumhnapparnir sem óðast, svo að munar á degi hverjum, að því er Tímanum hefir verið sagt úr skógarsveitum, ekki síst ef skúrir ganga. Verða skógar viða allaufgaðir innan skamms.

Skeiðarárhlaup tók loks við sér, Morgunblaðið segir frá 11.maí:

Síðustu 2—3 daga hefir orðið mikill vöxtur í Skeiðará og samkvæmt upplýsingum sem blaðið fékk hjá Hannesi Jónssyni bónda á Núpstað í Fljótshverfi, eru ýms einkenni þess, að hlaup í ánni kunni að vera í aðsigi. Fyrir nálega hálfum mánuði varð nokkur vöxtur í Skeiðará og kom Öræfingum þá til hugar, að þetta kynna að vera undanfari hlaups. En svo sjatnaði aftur í ánni. En síðustu 2—3 dagana hefir Skeiðará hríðvaxið og virðist enn vera í örum vexti. Ekki hefir áin þó valdið neinum spjöllum ennþá, hvorki á síma né öðru og ekki brotist fram vestur á sandi, sem hún gerir jafnan í hlaupum. Enginn óeðlilegur vöxtur er enn í Núpsvötnum. Hannes á Núpstað fór vestur yfir Skeiðarársand á föstudag, hann var í póstferð. Var Skeiðará þá orðin alófær og fór Hannes á jökli yfir ána. Heyrst hafði, að vart hefði öskufalls eystra en ekki vildi Hannes meina, að svo væri. Að vísu hefði sést kolóttar kindur í haga, en þetta gæti stafað frá mistri. Hannes sá ekki nein merki öskufalls á jöklinum. En Hannes taldi útlit Skeiðarár þannig nú, að hlaup gæti komið á hvaða augnabliki sem væri.

Tíminn segir af hlaupinu og könnun á Grímsvötnum í pistli 15.maí:

Að undanförnu hafa verið að berast fregnir um mikinn vöxt í Skeiðará, svo að nálgast þótti hlaup. Væri áin orðin vatnsmeiri heldur en hún er í hitatíð á sumrin, þegar leysing er mest í jöklinum. Á þriðjudaginn fóru þeir Pálmi Hannesson rektor og Guðmundur Hlíðdal póst- og símamálastjóri austur þangað í flugvél, til þess að athuga vegsummerki. Flugu þeir yfir Vatnajökul og sáu gerla, að dæld mikil var sigin í jökulinn við Grímsvötn, og blöstu ísveggirnir við umhverfis kvosina, þar sem hjarnið hafði brostið í sundur. Orsök þessa er talin vera eldsumbrot, en ekki sáust þar önnur merki þess að eldur væri uppi. Árið 1938 voru eldsumbrot í Vatnajökli. Kom þá sig í jökulinn nokkru norðar en nú. Skál sú, er þá myndaðist, er nú sléttfull orðin af hjarni. Eldur kom þá aldrei upp úr jöklinum, en  gífurlegt hlaup kom í Skeiðará. Er þeir félagar höfðu áttað sig á vegsummerkjum á jöklinum, var flogið suður yfir Skeiðarárjökul og sandinn allt fram til sjávar. Flæddi Skeiðará dökk og úfin á að sjá, undan jöklinum suður yfir sandinn. Mest var vatnsmegnið í aðalfarvegi Skeiðarár og miklu meira en það er venjulega að sumarlagi. Kvísl sú, sem rennur austur við sæluhúsið á Skeiðarársandi, var einnig mjög vatnsmikil. Sums staðar gat að líta íshröngl, en hvergi stóra jaka. Enn sáu þeir á sandinum leifar af jökum, er áin ruddi með sér á hlaupinu 1938. Mikla jökulfýlu lagði af botnsflaumnum og eðjunni við jökulinn. Fregnir, sem borist hafa að austan nú síðast, herma að áin sé enn í vexti, en eigi hafi hún enn brotið fram jökulinn. Árið 1938 brotnuðu gífurlega stór skörð í jökulbrúnina og má enn sjá stórfengleg merki þess.

Að morgni þess 14. maí var alhvít jörð jörð á Kirkjubæjarklaustri. Eins og áður er nefnt féll stór hluti mánaðarúrkomunnar á Vesturlandi á 1-2 dögum kringum þ.20. Fréttablaðið Skutull á Ísafirði skrifar um skriðuföll í pistli sem birtist seint um síðir (16.ágúst).

Í vetur og vor var meira um skriðuföll og jarðrask sumstaðar á Vestfjörðum en dæmi þekkjast til áður i tíð núlifandi manna. Í för um nokkurn hluta Vestfjarða, er ritstjóri blaðs þessa fór fyrir skemmstu, sá hann, að ekki voru fréttirnar af þessu orðum auknar. Hvergi hafði jarðrask orðið eins mikið og tilfinnanlegt og á Lokinhamradal í Arnarfirði — og sögðu bændur í Lokinhömrum, að dag einn í vor hefðu þau ósköp á gengið, að furðulegt mætti teljast. Regnið helltist úr loftinu, og skriðuföll og vatnavextir urðu með fádæmum. Loftið kvað við af dunum og dynkjum, og það var eins og hinir háu tindar léku á reiðiskjálfi. Þá féllu skriður yfir 1/4 - 1/2 af öllu graslendi á Lokinhamradal utanverðum — og allt í á niður. Áin óx geipilega, ruddist yfir bakka sína og reif úr þeim, svo að þar, sem áin féll áður milli gróinna bakka, eru ná breiðar og gróðurlausar grjóteyrar, en svartir aurbakkar, þegar lengra dregur frá ánni. Áin sópaði burt stöpli undan brúnni, og svo bar vatnið fram mikið af aur og grjóti, að þar sem var allhár foss með djúpum hyl undir, er ná lág vatnsbuna, en hylur er enginn, og fellur bunan ofan í aur og grjót. Ós árinnar er horfinn, og hún hefir breytt mjög um farveg, þar sem hún fellur til sjávar, og framan við hana er á löngu svæði grjót- og aurrif, þar sem var sandur áður, sorfið fjörugrjót og þangi vaxin sker. En frammi á dalnum sér nú gráar og aurlitar skriðubreiður, þar sem áður voru lynghjallar, starengi og harðvellisbalar. Sjórinn varð kolmórauður langt fram á fjörð, og þá er vitjað var hrognkelsaneta daginn eftir skriðuföllin, voru hrognkelsin dauð i möskvunum og tálknin full af aur, en í netunum var mikið af mosa og lyngi, og var lyngið svo rammflækt í garnið, að draga varð upp netin til að greiða úr þeim. Svo mikið hafði borið til sjávar af aur, að enn verður sjórinn móleitur fram af Lokinhömrum, ef nokkur alda er við landið.

Fréttaritið Dvergur (á Patreksfirði) segir einnig af skriðuföllunum í pistli 31.maí:

Eftir nær óslitin þurrviðri í mánaðartíma gerði hér um slóðir mikla úrkomu með allhvössum suðvestan vindi aðfaranótt 19. [maí]. Af völdum þessa veðurs urðu víða skemmdir, vegna mikilla vatnavaxta og skriðuhlaupa. Mestar urðu skemmdirnar í Rauðasandshreppi. Á Móbergi hljóp skriða yfir hálft túnið, allt niður að sjó, yfir engjar og beitiland. Gerði hún stórskaða á túninu og eyddi nýsánum kartöflugörðum. Skógarrétt varð veggjafull af aur og möl. Á Kirkjuhvammsland féllu skriður, en skemmdir urðu þar ekki teljandi. Í Saurbæ urðu aftur talsverðar skemmdir. Þar tók af girðingar, skemmdir urðu á kartöflugörðum og skriða hljóp á tún. Skriða hljóp umhverfis samkomuhús ungmennafélagsins á Rauðasandi. Húsið stóð á sléttri grund milli jarðanna Saurbær og Stakkadalur, en er nú mitt í úfinni grjót og aurskriðu. Á jörðunum Stakkadalur og Gröf urðu smá skemmdir. Skriða hljóp yfir stórt svæði af túni jarðarinnar Krókur, þann hluta, sem er í byrgingu Jóns Péturssonar, bónda að Stökkum. Á Stökkum hljóp skriða yfir stóran kartöflugarð. Bílvegurinn á Bjarngötudal, niður á Rauðasand, varð fyrir mjög miklum skemmdum. Vatns- og skriðufarvegir eru í veginn mjög djúpir og er hann með öllu ófær. Er talið að viðgerð á veginum muni kosta tugþúsundir króna. Ívar Ívarsson, bóndi í Kirkjuhvammi, telur, að á Rauðasandi hafi fallið 35 skriður er ollu skemmdum,  en alls muni hafa tekið sig upp um 200 skriður. Á Rauðasandi náðist fé allstaðar nema á Refanesi. Þar króknuðu 10 unglömb. Í Sauðlauksdal urðu vatnavextir feikna miklir. Telur sóknarpresturinn þar að vatnsmagnið í Sauðlauksdalsá hafi um tíma verið jafnmikið og í Soginu. Á þessi er venjulega vatnslítil. Hestar og fé, sem var í haga sunnanvert við ána náðist ekki í hús. Níu unglömb og tvær ær urðu innkulsa og drápust, og einni hryssu varð að farga af sömu ástæðu. Í Kvígindisdal urðu skemmdir á stíflu rafmagnsstöðvarinnar. Í Ketildölum varð allverulegt tjón af skriðuhlaupi, aðallega á þremur jörðum, Öskubrekku, Austmannsdal og Granda. Í Tálknafirði munu einnig hafa orðið nokkrar skemmdir.

Veðurathugunarmenn lýsa tíðarfari í júní:

Lambavatn: Það hefir verið stillt veðurlag allan mánuðinn og fremur hlýtt. Skipst á skúrir og sólskin.

Sandur: Óvenjulega gott tíðarfar, hlýtt stillt og þurrviðrasamt með óvenjumiklu sólfari, einkum framan af.

Reykjahlíð: Frostnóttin 10. skemmdi hér kartöflugras afarlítið til muna [-1,9°C].

Fagridalur: Stillt og hlý tíð, ágæt grastíð, en mikið þokuríki.

Papey: Það hefur verið einstök tíð til sjós og lands. Nokkuð þokusamt og óþurrkar, en oftast góð veður.

Fregnir bárust af ís úti af Vestfjörðum. Þetta mun hafa verið óverulegt magn, en eins og venjulega vöktu þær ugg. Tíminn segir frá 5.júní:

Örn Johnson flugmaður sá í fyrrinótt allmikinn hafís út af Vestfjörðum, er hann var að leita vélbátsins Hólmsteins. Var ísbreiða mikil um 100 kílómetra undan landi, en nær landi voru ísspangir 1000—2000 metrar á breidd. Ísinn virtist nær landi er dró norður undir Ísafjarðardjúp. Fyrir nokkru síðan gaus upp kvittur um að hafís væri hér við land, en síðan hefir hans eigi orðið vart fyrr en nú, að þessi fregn barst af flugferð Arnar.

Tíminn segir þann 13. júní af skógareldi í Öxarfirði:

Skógarbruni varð nú í vikunni [11.] norður i Axarfirði. Herma fregnir, að eigi minna skóglendi en fimm dagslátta svæði hafi ónýst af eldi. Brunasvæðið er milli Þverár og Klifshaga í Axarfirði. Útbreiðsla eldsins var heft með þeim hætti, að vegavinnumenn, sem voru að starfi í grenndinni, voru fengnir til þess að grafa skurði umhverfis brunasvæðið og ryðja rjóður í skóginn. Tókst þannig að koma í veg fyrir það, að eldurinn læsti sig um stærra svæði og ylli enn meiri skaða. Ekki er það vitað, hvernig eldurinn komst í skóginn.

Vísir segir af þrumuveðri og skriðuföllum í Eyjafirði í pistli 27.júní:

TL Akureyri í dag. Þrumuveður með úrhellisrigningu og eldingum, gekk yfir Eyjafjörð og nágrenni á mánudag [23.]. Skriður féllu viða og skemmdu engjar á Jórunnarstöðum og Ártúni og tún og engjar á Gilsá í Saurbæjarhreppi.

Veðurathugunarmenn segja frá tíðarfari júlímánaðar:

Lambavatn: Það hefir verið fremur votviðrasamt. En stillt. Heyskapur gengur ekki vel.

Suðureyri: Hlýtt, stillt, enginn stormdagur. Úrkomulítið. Sólfar fremur stopult. Heyskapartíð ágæt.

Sandur: Ágætis tíðarfar, hlýtt, þurrt og hægviðrasamt. Grasspretta var góð á túnum og í meðallagi á útengjum. Heyskapartíð og þurrkar með ágætum og nýting hin besta er orðið getur.

Fagridalur: Sérlega góð tíð, hlý og stillt. Þurrkdeyfur og smávegis úrkomur. Þó hafa komið þurrkar og hey hafa náðst hér og í nágrenni óskemmd.

Papey: Hér hafa verið þokur og óþurrkur oftast. Hér enginn baggi hirtur enda hætt að slá fyrir löngu, grasið þó mikið.

Morgunblaðið segir heyskaparfréttir að norðan 12. júlí:

Heyskapartíð er hér [í Eyjafirði] ákaflega óhagstæð ennþá svo að töður liggja undir skemmdum á túnum flestra bænda hér um slóðir. Þeir sem fyrstir byrjuðu slátt, hafi samt náð inn nokkru af heyjum sínum, en þeir eru fáir. Í austanverðri Þingeyjarsýslu hefir verið minna um óþurrka en hér í Eyjafirði.

Tíminn segir líka af heyskap 18.júlí:

Tíðarfar hefir víða um land verið óþurrkasamt í júlímánuði. Ekki síst hefir tíðin verið óhagstæð norðanlands. Um helgina seinustu gerði þó þurrk norðanlands og var í ýmsum héruðum, til dæmis í Eyjafirði, það hirt sem úti var af heyi. Var víða allmikið úti í Eyjafirði, einkum fram í héraðinu, en út á Árskógsströnd og í Svarfaðardal var heyskapartíð öllu betri.

Tíminn segir fréttir af Ströndum 22.júlí:

Carl P. Jensen i Reykjarfirði á Ströndum skrifar Tímanum: Tíðin hefir verið óvenjulega góð frá því að þriggja vikna óveðurskafla í febrúarlok og fyrstu dagana í mars létti. Síðan hefir verið óslitin veðurblíða og oftast hægviðri, en fullmiklir þurrkar fyrir sprettuna í maí og júní til Jónsmessu. Þó hefir spretta á túnum orðið allgóð víðast. Sláttur byrjaði með fyrra móti, seint í júní, en síðan hefir verið mikil óþurrkatíð og ekkert náðst inn, og liggur við skemmdum á því, er fyrst var slegið.

Morgunblaðið segir 31. júlí frá bágri afkomu Lundans í Vestmannaeyjum:

Vestmannaeyjum í gær. Lundaveiði byrjaði laust eftir mánaðamótin júní—júlí í Vestmannaeyjum, en hefir hingað til verið afar léleg, sem mun stafa af því, að æti fyrir fuglinn er lítið sem ekkert í sjónum, eða þá langt undan landi. Þetta ætisleysi hefir orsakað það, að fuglinn hefir ekki getað fóðrað unga sína og liggur kofan í hrönnum í holunum dauð af hungri. Þetta er alveg einstætt fyrirbrigði, enda muna elstu menn ekki svipað.

Veðurathugunarmenn lýsa ágústtíðinni:

Lambavatn: Það hefir verið óslitið þurrviðri og stilla allan mánuðinn og hey allstaðar þornað jafnóðum.

Suðureyri: Fönn í Mígandisdal hvarf. Hefur víst ekki horfið síðan 1920. Heyskapartíð frábærlega góð.

Sandur: Fremur góð tíð, þurrviðra- og hægviðrasöm og meðallagi hlý. Þerridagar fáir og daufir, en regnlaus góðviðri dögum saman og nýting heyja sæmilega góð, en seinvirk og tafsöm.

Fagridalur: Fremur hæg norðaustan-austanátt mest ríkjandi. Hlý tíð af þeirri átt, en úrkomusöm með afbrigðum frá þeim 11. Þó var að heita mátti stórregn og rosi í sjö heila viku. Afar óhagstæð heyskapartíð.

Vísir segir 5. ágúst af (tímabundnum) vandræðum á þjóðhátíð í Eyjum. Sagt er frá íþróttakeppni fyrsta dag hátíðarinnar:

„Að [ræðunni] lokinni hófst íþróttakeppni, og var keppt í stangarstökki, en áður en henni var að fullu lokið, varð að hætta vegna roks ... rokið gerðist svo mikið, að ekki var viðlit að halda áfram lengur. Varð þann dag að hætta öllum frekari úti-hátíðahöldum vegna norðaustan roks, tjöldin fuku upp hjá fólki og nokkrar skemmdir urðu. [rétt að taka fram að afgangur hátíðarinnar tókst vel].

Morgunblaðið segir frá einkennilegu fyrirbrigði í pistli þann 6. ágúst:

Það einkennilega fyrirbrigði bar við s.l. laugardag [2.ágúst] uppi í Kjós, að nokkrar smásíldar féllu af himni ofan. Var þetta um kl.6 síðdegis og varð þessa þannig vart, að barn, sem var að leikjum sínum við sumarbústað Bjarna Jónssonar við Eyjar í Kjós fann fyrst eina smásíld á stærð við sardínu og kom með hana inn og sýndi hana. Var þá svipast um í námunda við staðinn er síldin fannst á og fundust þá samtals 23 síldar. Allar voru þær glænýjar, en sumar nokkuð marðar eftir fallið. Engin merki þess voru á þeim. að fuglar hefð tekið þær í nefið. Er því sú tilgáta líklegust um orsök þessa að skýstrókur hafi sogað síldina úr sjónum -og hún síðan borist inn yfir land. Munu þess dæmi, að slíkt hafi hent áður. 

Allmikið norðan- og norðaustanveður gekk yfir dagana 11. til 18. Veðráttan segir frá því að þá hafi orðið miklar skemmdir af skriðuföllum í Vopnafirði. Mikið slægjuland eyðilagðist í Böðvarsdal. Brýr tók víða af. Flóð spilltu engjum á Fljótsdalshéraði. Úrkoman var í hámarki 12. til 13. og aftur 17. til 18. Úrkoma mældist alls 288 mm dagana 13. til 19. í Fagradal í Vopnafirði, þar af 101,5 mm að morgni 13. Fréttir af þessum Vopnafjarðarskriðuföllum virðast ekki hafa birst í blöðum, en sagt er frá flóðunum í frétt hér neðar (en ekki fyrr en í október). 

Síldveiðar gengu frekar illa sökum brælu Morgunblaðið segir frá 14. ágúst:

Sama og engin síld hefir komið síðan í gær, aðeins nokkur skip með slatta. Í dag hefir hvergi frést af síld, enda ekkert veiðiveður nein staðar hér norðanlands. Flest skip liggja í vari og hafast ekkert að, Norðan bræla og þokusúld þaðan sem frést hefir.

Norðanveðrið sem olli úrkomunni á Austurlandi reif í hey og sand syðra. Morgunblaðið  segir frá 16.ágúst:

Heyskaðar hafa orðið víða hér á Suðurlandi í norðanrokinu undanfarna tvo daga (fimmtudag [14.ágúst] og föstudag). Einkum hafa heyskaðar urðið miklir undir Eyjafjöllum, í Mýrdal og austur, allt til Hornafjarðar. Á sumum bæjum tapaðist mikið hey. Norðanveðrið hefir einnig stórskemmt kartöflugarða víða. Sagði tíðindamaður blaðsins í Vík í Mýrdal, að garðar litu þar mjög illa út eftir veðrið, grasið víða gjörfallið. Verður þetta mikill hnekkir fyrir uppskeruna. Sandbylurinn var svo mikill á Mýrdalssandi í gær, að ekki var viðlit fyrir bíla að komast yfir sandinn. Áætlunarbíllinn frá Kirkjubæjarklaustri sem ara átti hingað í gær, varð að snúa við, vegna sandbylsins.

Morgunblaðið segir 22. ágúst frá æskilegri tíð á Vestfjörðum:

Þingeyri í gær. Einmuna heyskapartíð hefir verið hér allan ágúst. Heyfengur er mikill og bráðum lokið víða. Garðuppskera er sæmileg. Byrjað var um miðjan júlí að taka upp meðal kartöflur. Nýlega kom maður hingað úr Reykjavík landveg á tæpum sólarhring, fór hann um Stykkishólm, Brjánslæk, Trostansfjörð, Rafnseyrarheiði. Þetta er framtíðarleiðin milli Reykjavíkur og Ísafjarðar. Rafnseyrarheiði verður bíllögð næsta sumar og vantar þá aðeins bílveg upp frá Barðaströnd til Arnarfjarðar, sem er stutt. Síðan bílferjur á firðina í sambandi við áætlunarferðir.

Hlaup kom í Núpsvötn undir lok ágústmánaðar. Morgunblaðið segir frá 27.ágúst:

Mikill vöxtur er kominn í Núpsvötnin og er búist við, að þetta muni e.t.v. vera byrjun hlaups. Hannes Jónsson bóndi á Núpstað skýrði blaðinu svo frá í gær, að vart hefði verið breytinga á Núpsvötnum á þriðjudaginn var. Þó hefði aðalvöxturinn orðið 2-3 síðustu sólarhringana. Væru Núpsvötnin nú orðin mjög mikil og síminn í hættu; gæti hann farið á hvaða augnabliki. Hannes fór í gær inn með Lómagnúp að austan, til þess að athuga verksummerki þar. Sagði hann, að vatnselgurinn væri farinn talsvert að brjóta jökulinn við Súlu. Hannes sagði, að líkur væru til að hér væri byrjun hlaups í Núpsvötnum hinsvegar gæti liðið langur tími þar til aðalhlaupið kæmi fram. Talið er, að hlaupin í Núpsvötnum komi úr Grænalóni, sem er langt norður í jöklinum.

Septembermánuður er sá hlýjasti sem vitað er um sé litið á landið í heild. Í Reykjavík er hann sá þriðjihlýjasti, næsthlýjastur í Stykkishólmi, hlýjastur í Grímsey, á Akureyri, næsthlýjastur á Teigarhorni og hlýjastur á Stórhöfða í Vestmannaeyjum. En þessu fylgdi mikil úrkoma syðra, en norðanlands var hið besta veður. Þann 19. fór hiti í 22,0 stig á Akureyri, það hæsta sem þar hefur mælst svo seint á sumri. 

Slide2

Kortið sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins, meðalþykkt og þykktarvik (litir) í september 1941 (tillaga evrópureiknimiðstöðvarinnar). Eindregin sunnanátt er ríkjandi við Ísland með miklum hlýindum. 

Veðurathugunarmenn segja af septembertíðinni:

Hamraendar (Guðmundur Baldvinsson). 17. Frestað fjárrétt í Dölum af vatnavöxtum og veðri. Talið að slíkt hafi ekki komið fyrir síðustu 80-90 ár.

Lambavatn: Það hefir verið votviðrasamt og óstöðugt veður yfir mánuðinn.

Flateyri (Hólmgeir Jensson): Snjór að mestu horfinn úr fjöllum. Enginn snjór í Breiðadalsheiði.

Suðureyri: Mjög stillt og hæglát veður. Frábærlega hlýtt, mjög mikil úrkoma.

Sandur: Framúrskarandi góð tíð allan mánuðinn. Þurrkar óvenjumiklir og hlýindin dæmafá. Mikið suðvestanrok gekk yfir hér í grennd þann 27. og olli það talsverðu tjóni á heyjum sumstaðar. Fjöldi fanna hverfur úr fjöllum í mánuði þessum sem aldrei áður í mannaminnum horfið hafa.

Nefbjarnarstaðir (Jón Jónsson): Tíðarfar hið besta. Heyfengur sæmilegur þrátt fyrir óhagstætt tíðarfar í ágústmánuði.

Morgunblaðið greinir frá lélegri síldarvertíð í pistli þann 13. september:

Þessa síldarvertíð verður að telja eina þá lélegustu, sem komið hefir, segir Sveinn Benediktsson. Ástæðan til þess að svo fór er fyrst og fremst hin óhagstæða veðrátta í sumar. Veiði hófst um 20. júlí og hélst alla góðviðrisdaga til 10. ágúst. En góðviðrisdagarnir voru fáir og oftast ekki nema dagsstund eða nokkuð á annan dag samfleytt. Eftir 10. ágúst mátti heita að stöðug þokusúld og kalsaveður héldist á miðunum fram til 29. ágúst að rofaði til. Allan þennan tíma má svo heita að engin síld aflaðist, nema hvað stöku skip fékk sæmilegt kast vestur undir Horni.

Veðráttan segir frá því að 23. september hafi allar símalínur milli Reykjavíkur og Keflavíkur slitnað. Ástæðu ekki getið, en hvöss sunnanátt var þennan dag. Trúlega um hernaðarleyndarmál að ræða. 

Morgunblaðið segir af stórrigningum í pistli þann 23. september:

Undanfarna daga hafa verið stórrigningar hér á Suðurlandi og mikill vöxtur í ám og
vötnum. Hafa vegir víða skemmst og sumstaðar svo, að samgöngur hafa alveg teppst. Þannig hefir það orðið austur undir Eyjafjöllum, fyrir vestan Hrútafell. Þar komast bílar nú ekki lengur vegna vatnselgs, sem brýst þar fram og hefir grafið sig í gegn um þjóðveginn. Komust bílar við illan leik þarna yfir á sunnudag, en í gærmorgun var þar orðið alófært fyrir bíla. Brúarsmiðir og vegavinnumenn voru komnir á staðinn, til þess að lagfæra þetta. Verður að setja þarna bráðabirgðabrú. En það verður erfitt að vinna að þessu, vegna þess að stöðugt rignir og vatnselgurinn verður æ meiri. Hinsvegar er það mjög bagalegt, ef lengi verður ófært fyrir bíla, því að kjötflutningar eru byrjaðir austan úr Vík í Mýrdal.

Morgunblaðið segir af vatnavöxtum á Mýrdalssandi og undir Eyjafjöllum í pistli þann 25. september:

Brúin á Múlakvísl, vestast á Mýrdalssandi er í hættu, vegna þess hve geypilega hefir
vaxið í ánni í hinum látlausu rigningum undanfarna sólarhringa. Í fyrrinótt og fram eftir deginum í gær var vatnið í Múlakvísl orðið svo mikið, að það skall yfir brúna. Var vatnið svo mikið á brúnni, að ófært var gangandi manni. Brúin stóð þó enn uppi, en ef sami vatnsþungi verður lengi á brúnni, er hætt við að hún standist það ekki og sópist burtu. Brúin er mjög vönduð og traust. Seinnipartinn í gær hafði ofurlítið sjatnað í ánni og fór þá Haraldur Einarsson bóndi í Kerlingadal yfir brúna, enda þótt enn rynni mikið vatn yfir brúna. Hefir aldrei annað eins vatn komið í Múlakvísl, nema í Kötluhlaupum. Það yrði óskaplegt tjón fyrir Skaftfellinga, ef brúin færi af Múlakvísl, ekki síst nú, þar sem sauðfjárslátrun er í þann veginn að byrja og reka þarf fé yfir Mýrdalssand. Önnur vötn eystra eru og í stórkostlegum vexti. Leirá, austan til á Mýrdalssandi var hamslaus; sást ekki einu sinni á brúna þar og því sennilegt, að hún sé farin. Það var staurabrú. Í Kötlugili, austan Hólmsár, er svo mikið vatn, að þar er alófært. Þá óttast menn, að varnargarðurinn fyrir Hafursá í Mýrdal hafi skemmst, því að vatn var komið fram hjá Steig og Skeiðflöt, þar sem gamli farvegur Hafursár er. Þá hefir og enn vaxið vatnið í Kaldaklifsá undir Eyjafjöllum, en þar tepptust samgöngurnar á dögunum vegna vatns. Hefir vatnið skemmt þarna veginn enn meir og torveldað viðgerð. Er ekki að vita hvenær hægt verður að lagfæra þarna, svo að fært verði aftur fyrir bíla. Var í gær sent timbur þangað austur og verður lagt kapp á að fá veginn opnaðan aftur.

Morgunblaðið segir 26. september frá rénandi flóðum:

Í gærmorgun var farið að sjatna nokkuð í vötnunum eystra. Brúin á Múlakvísl stóðst raunina. Hún situr kyrr og orðin fær yfirferðar. Brúin á Leirá mun einnig standa, en miklar skemmdir við brúarendana. Vötnin undir Eyjafjöllum hafa einnig fjarað mikið. Þar er nú unnið af kappi að lagfæringu, svo bílfært verði aftur. Feikna flóð kom í Núpsvötnin og slitnaði síminn þar og var sambandslaust austur yfir Skeiðarársand í gær.

Vísir segir enn af rigningum í pistli þann 29.september:

Vísir hafði í morgun tal af Geir Zoega vegamálastjóra og sagði hann að rigningarnar undanfarnar vikur hefðu mjög spillt vegum víðsvegar um land. Hefði á nokkrum stöðum teppst samgöngur vegna rigninga og vatnavaxta, en þó hefðu þær skemmdir ekki verið stórvægilegar á hverjum stað, og víðast búið að lagfæra þær svo að bílfært væri orðið. Helstu skemmdirnar hafa verið á þessum stöðum: Á Hvalfjarðarveginum, féllu skriður yfir veginn innanvert við Þyril aðfaranótt laugardagsins [27.]. Var vegurinn ruddur á laugardaginn, svo akfært varð, en óstaðfest frétt hermdi, að Hvalfjarðarvegurinn hefði aftur teppst í nótt. Á Fagradal og á fjallveginum milli Eskifjarðar og Reyðarfjarðar urðu skemmdir á veginum fyrir helgina, en hann er um það bil að komast i samt horf aftur. Kaldaklifsá undir Eyjafjöllum, braut skarð í veginn við Hrútafell vestanvert. Hefur farið fram viðgerð á þessum vegarspotta, og er hann nú aftur orðinn bílfær, og vegurinn héðan úr Reykjavik og alla leið austur í Mýrdal. Þá hafa miklir vatnavextir verið i Múlakvísl og Leirá, sömuleiðis hafði vatn flætt upp á veginn í Skaftáreldahrauninu, vestan til við Kirkjubæjarklaustur, og varð þar illfært ökutækjum. Þar er ekki neinn farartálmi lengur. Illviðri og vatnavextir hafa og valdið töfum á fjársmölun og fjárrekstrum austur í Skaftafellssýslu og hefir orðið að fresta slátrun af þeim orsökum.

Kröpp lægð fór yfir landið aðfaranótt 27. og nokkuð hvasst varð einnig rúmum sólarhring síðar. Veðráttan greinir frá því að nokkrar skemmdir hafi þá orðið á bátum og húsum í hvassviðri í Hornafirði, peningshús fuku á nokkrum bæjum. Þrjá vélbáta rak á land á Raufarhöfn og hey fauk þar í grennd. Miklar skemmdir urðu í Loðmundarfirði og fuku bæði gripahús og hlöður, ekki er getið á hvaða bæjum. 

Tíminn segir enn af rigningum 2.október:

Rigningar þær, sem undanfarnar vikur hafa gengið að heita látlaust um Suðurland og Vesturland, hafa orðið til verulegs tjóns og baga víða. Vegir hafa spillst ákaflega mikið og sums staðar urðu þeir um skeið með öllu ófærir bifreiðum. Auk þess, sem þetta hnekkti venjulegum samgöngum, varð það til mikils trafala fyrir kjötflutninga landleiðis, sem nú eru með langmesta móti, sökum þess, að saltkjötsmarkaður er enginn erlendis og er því leitast við að frysta sem allra mest af kjötinu, þótt flytja þurfi það langar leiðir á bifreiðum til þess að koma því í frystihús. Varð sums staðar að fresta slátrun um nokkra daga, þar eð vegirnir voru orðnir ófærir eftir allar rigningarnar, og í þokkabót hafa sum sláturhúsin orðið að sitja uppi um skeið með talsvert af kjöti, sem safnast hafði fyrir, áður en það ráð var tekið að fresta slátrun. Sums staðar hafa minni háttar skriður fallið á vegina og hamlað umferð um stundarsakir, og í Skaftafellssýslu flæddu ár úr farvegum sínum á dögunum og skemmdu brýr og vegi. Í göngum og réttum og við fjárrekstra til slátrunarstaða fengu menn á rigningarsvæði víða hið mesta hrakviðri, þótt ekki sé kunnugt, að hlotist hafi af því tjón á mönnum eða skepnum. En hrakningar hafa orðið langt umfram venju vegna veðurfarsins. Norðanlands var hinsvegar yndislegasta veður um þetta leyti, og fengu leitarmenn þar víða svo gott veður i göngum að vart varð á betra kosið.

Veðurathugunarmenn greina frá tíðarfari í október:

Suðureyri: Yfirgnæfandi hlýtt. Snjór 17. til 19., leysti afar fljótt, líka af fjöllum.

Blönduós: (Þuríður Sæmundsdóttir): 13. Smáskaflinn í Hrafnaklettum í Langadalsfjalli sést ekki lengur. Fjallið því alveg snjólaust.

Sandur: Ágætis tíðarfar, hlýtt og lengst af þurrt og hægviðrasamt. Auð jörð og þíð allan mánuðinn í byggð og lítill snjór til fjalla.

Fagridalur: Ágæt hausttíð. Þó dálítill kulda- og úrkomukafli upp úr miðjum mánuði.

Papey: Í þessum mánuði var hér góður þurrkur. Þ. 27. norðvestan rok, 10, 11, 12. [vindstig], Nokkrar skemmdir urðu hér á ýmsu. Í Dv fauk fjárhús með fleiri skemmdum á gluggum og húsum. Hér í Papey fauk í sjóinn 65-70 hestar af hraktri úteyjatöðu. Hér var eitt besta grasár, en mesta óþurrkasumar í 41 ár, síðan ég kom hér.

Tíminn getur þann 7. október um einmuna góða tíð í Skagafirði og þann 9. frá óþurrkum sumarsins á suðaustanverðu landinu:

Jón Ívarsson alþingismaður hefir skýrt blaðinu svo frá: Í Austur-Skaftafellssýslu hefir veðrátta verið fremur óhagstæð í sumar, síðan seint í júní. Rigningar voru miklar í júlí og hröktust þá hey. Sláttur byrjaði seinna en vant var, vegna rigninganna. Í ágúst var veðrátta hagstæðari, en mikið hvassviðri um miðjan mánuðinn olli þó töluverðu tjóni á nokkrum bæjum. Snemma í september brá að nýju til mikilla rigninga, og voru þá allvíða nokkur hey óhirt, sem enn hafa ekki náðst. Heyfengur er víðast allmikill að vöxtum, en ekki eins góður og skyldi. Spretta í görðum varð allgóð og sumstaðar ágæt þrátt fyrir úrkomur og sólarleysi og hvassviðrið í ágúst, sem olli nokkrum skemmdum á görðum. Seinni hluta septembermánaðar hafa verið stöðugar stórrigningar.

Mikið stórviðri gerði nóttina milli 26. og 27. september og varð allmikið tjón af völdum þess. Bátar sukku og brotnuðu eða rak á land, peningshús fuku eða skemmdust á nokkrum bæjum. Vötn runnu yfir vegi og nytjalönd og ollu á þeim talsverðum skemmdum, enda urðu vatnavextir meiri og langvinnari en þeir hafa lengi orðið. Talið er að þetta veður sé hið mesta þar um slóðir síðan stórviðrið seint í janúar 1924, sem þá olli miklu tjóni á húsum og öðrum mannvirkjum.

Tíminn segir 11. október enn af óþurrkum sumarsins á Austurlandi - en einnig góðri tíð:

Páll Hermannsson alþingismaður hefir skýrt blaðinu svo frá: Í vor og sumar fram til 10. ágúst, var ágæt tíð á Fljótsdalshéraði. En þá breyttist veðurfar mikið til hins.verra. Um mánaðartíma skiptust stöðugt á úrhellisrigningar og stormar. Flóð kom í öll vatnsföll. Olli það töluverðu tjóni á heyjum bænda, einkum í Hjaltastaðaþinghá. Vegir urðu mjög blautir og sums staðar ófærir um skeið. Kúm var gefið inni nokkra sólarhringa á meðan að mestu ósköpin dundu yfir. Um 10. september brá aftur til þurrviðris og má kalla að mjög góð tíð hafi síðan verið eystra. Frost kom aldrei til muna, að minnsta kosti ekki það mikið að neitt tjón hlytist á matjurtagörðum af þess völdum. Grasspretta var yfirleitt mjög góð einkum á túnum. Fram til þess 10. ágúst náðu bændur upp miklu af góðum heyjum. En þá hófst óþurrkakaflinn, eins og áður er sagt, og urðu heyin bæði lítil og slæm meðan hann stóð yfir. En í heild mun þá heyfengur bænda á Héraði vera í meðallagi, bæði að vöxtum og gæðum.

Tíminn segir 14.október tíðindi úr Borgarfirði:

Sigurjón Kristjánsson bóndi að Krumshólum í Mýrasýslu, leit inn á skrifstofu blaðsins í gær og tjáði því þetta úr byggðarlaginu: Yfirleitt gekk heyskapur vel í Mýrasýslu þar til veðrátta spilltist í september. Grasspretta var fremur góð, nema á votlendi, þar óx grasið bæði seint og illa, vegna of mikilla þurrka framan af sumri. Há á túnum varð mikil og munu flestir hafa sett hana í votheysgryfjur, enda voru kornin votviðri um það bil þegar seinni sláttur á túnum fór fram. Í september komu miklir óþurrkar og ollu töluverðu tjóni á heyjum. Mun ekki einsdæmi, að bændum hafi ekki tekist að ná öllu heyi í hús ennþá. Í haust fengu bændur yfirleitt meira af garðávöxtum upp úr matjurtagörðum sínum, en þeir hafa fengið um langt skeið, sums staðar meira en þarf til heimilisnota.

Aðfaranótt þess 27. október fór nokkuð kröpp lægð til austsuðausturs fyrir norðan land. Að sögn Veðráttunnar urðu þá skemmdir á húsum og heyjum sums staðar á Norðaustur- og Austurlandi.

Tíminn segir frá 30.október:

Fréttaritari blaðsins í Stykkishólmi skrifar: Við Breiðafjörð var tíðarfar einmuna gott, allt frá vordögum og fram í september en þá brá til óþurrka og síðan í miðjum september hefir tíð verið mjög óstöðug og úrkoma mikil.

Tíminn 4.nóvember:

Fréttaritari blaðsins á Blönduósi hefir sagt blaðinu svo frá: Hausttíð hefir verið einmunagóð í Austur-Húnavatnssýslu. Má segja, að stöðugir hitar hafi gengið fram til þessa. Nýræktin hefir gróið fram á þennan dag, og af og til hafa verið að finnast nýútsprungnar sóleyjar í valllendismóum og á túnum. Heyfengur mun hafa orðið mikill í sýslunni.

Veðursathugunarmenn lýsa hagstæðri nóvembertíð:

Lambavatn: Það hefir verið óvenju hlýtt, en votviðrasamt.

Núpsdalstunga (Jón Ólafsson): Tíðarfar í mánuðinum hefur verið frámunarlega gott.

Sandur: Einmuna veðurblíða allan mánuðinn. Sunnan mjúkviðri og auð jörð flesta daga. Ár og stærri vötn voru að mestu íslaust, en á mýrarsundum og stöku pollum urðu manngengir ísar er á leið. Til fjalla kom enginn snjór í þessum mánuði því úrfelli voru engin. Og í alla staði má líkja tíðarfarinu fremur við sumarveðráttu en vetrar og muna menn varla þvílíka veðráttu.

Fagridalur: Frábærlega góð tíð allan mánuðinn að heita má.

Dagana 9. til 11. kom djúp lægð að landinu úr suðri. Hún olli hvassviðri af suðaustri og mjög mikilli úrkomu um landið austanvert. Þar urðu mikil skriðuföll.

Tíminn segir frá 13.nóvember:

Frá Vestmannaeyjum er blaðinu símað í fyrradag: Í fyrrinótt gekk fárviðri hér yfir eyjarnar. Flutningaskip, sem lá hér við hafskipabryggjuna og var að taka fiskimjöl hjá Ásgeiri Matthíassyni, skemmdist töluvert. Kom svo mikill leki að því, að sjór rann inn í báðar lestir þess. Á öðrum mannvirkjum eða bátum varð ekki tjón svo að vitað sé. Þá er það í frásögur færandi, að frá 1. september og fram til þessa dags hefir aldrei komið það gott leiði á milli lands og eyja, að fært væri upp á sanda. Mun það vera einsdæmi um langan aldur.

Slide3

Kortið sýnir hæð 1000 hPa-flatarins að kvöldi 9. nóvember 1941 (tillaga endurgreiningar bandarísku veðurstofunnar). Hver 5 hPa jafngilda 40 metrum og eru jafnhæðarlínur dregnar með því bili. Lægðin fyrir sunnan land er því innan við 960 hPa í miðju. Gríðarsterk suðaustanátt ber úrkomu upp að Suðaustur- og Austurlandi. 

Tíminn birtir 2.desember fregnir af skriðum og úrkomum á Austurlandi í veðrinu kringum þann 10. nóvember:

Af Héraði er blaðinu skrifað fyrir skömmu: Þann 10. nóvember gekk hér yfir fárviðri af suðaustri. Jafnframt rokinu var mikil rigning. Fárviðri þetta olli nokkrum skemmdum. Meðfal annars féll skriða á Fagradalsveginn í Grænafelli. Í Fljótsdal komu aurhlaup mikil í svokölluðum Suður-Múla sem er á milli Jökulsár og Keldár. Aurskriðurnar, sem ollu mestum skemmdum, féllu á Arnaldsstöðum. Aurskriðan féll á túnið og eyðilagðist það mest allt. Eitt fjárhús lenti í skriðunni og hvarf alveg. Mikil hlaup komu á engjar og beitiland og skemmdu mjög. Vafasamt er hvort jörðin er byggileg. Óttast er um að sauðfé hafi farist í þessum skriðuföllum. Stór aurskriða stöðvaðist á hjalla rétt fyrir ofan bæinn á Arnaldsstöðum. Fólkið flýði bæinn til næsta bæjar. Skriðuföllin komu úr fjallinu á meðan fólkið var á ferð, en þó hlaust ekkert slys af þeim sökum. Aurhlaup komu á tvær aðrar jarðir, Þorgerðarstaði og Langhús. Ollu þau töluverðum skemmdum. Fjallið Suður-Múli er mjög bratt og munu aurskriðurnar hafa átt upptök sín í brún fjallsins. Suður-Múli var mikið til allur skógi vaxið, sérstaklega í Arnaldsstaðalandi, og sópaðist sá skógur að mestu burt með skriðunum. — Regnið olli miklum vatnavöxtum. Meðal annars kom svo mikill vöxtur í Lagarfljót, að það varð eins mikið og það verður mest í vorleysingum. Aldraðir menn á Héraði mun varla eftir slíkum úrkomum.

Ítarlega er sagt frá Fljótsdalskriðunum í ritinu „Skriðuföll og snjóflóð“. Einnig eru skriðufallafréttir að austan í Tímanum 20.nóvember: 

Tíðindamaður blaðsins á Reyðarfirði hefir skýrt svo frá i símtali: Undanfarið hafa gengið stöðugar stórrigningar hér um slóðir og valdið nokkru tjóni. Meðal annars féll einhver stórkostlegasta skriða, sem menn muna eftir á veginn frá Reyðarfirði upp á Fagradal. — Vegur þessi liggur skáhallt upp eftir hlíðum Grænafells og er undirstaða hans að mestu leyti sandskriður. Á þessum kafla féll þessi stórkostlega skriða, og var vegurinn alveg ófær í bili. Mikill mannfjöldi vann að því að ryðja veginn, en það verk sóttist hendur seint því að stóreflis björg höfðu hrunið á leiðina og verður að sprengja þau burt með sprengiefni.

Tíminn birti 25.nóvember tíðarlofgjörð úr Skagafirði:

Blaðinu er skrifað úr Skagafirði 19. þ.m.: Hér hefir verið alveg einstakt góðæri frá því í fyrrahaust, að því er tíðarfar áhrærir. Veturinn í fyrra mildur og snjólaus. Vorið gott — en nokkuð þurrt. Sumarið einn sólskinsdagur, að kalla, og haustið með afbrigðum hlýviðrasamt. Heyfengur var yfirleitt ágætur, nokkuð misjafn, að vísu, að vöxtum, en nýting eins og best getur orðið.

Morgunblaðið segir 27. nóvember frá foktjóni á Siglufirði. Veðráttan segir þar einnig hafa orðið tjón á mannvirkjum og húsum í veðrinu sem olli skriðunum eystra þann 10.:

Frá fréttaritara vorum á Siglufirði. Afspyrnurok af norðaustri gerði hér í bænum aðfaranótt miðvikudags [26.] og urðu talsverðar skemmdir á mannvirkjum. Mestur var veðurofsinn á tímabilinu kl. 1—5 um nóttina. Rúður brotnuðu víða í húsum, þök fuku af nokkrum húsum, girðingar fuku og eitt kolaport brotnaði niður. Þak skemmdist á einni af síldarverksmiðjum ríkisins, SR 30, en einna mestar urðu skemmdirnar á verksmiðjunni Rauðku, Fór einn gaflinn úr húsinu og stórt stykki úr þakinu.

Desember þótti hagstæður, en þó gerði nokkur illviðri sem ollu tjóni. Hugsanlega varð það meira en nefnt er (vegna fréttatregðu). Veðurathugunarmenn lýsa tíðinni:

Lambavatn: Það hafa verið umhleypingar og óstöðugt veður yfir mánuðinn.

Blönduós: Þann 30. Fjöll alauð, snjódílar á stöku stað. Blanda vellur áfram kolmórauð eins og í mestu sumarhitum. 

Sandur: Einmuna gott tíðarfar, milt með afbrigðum meinhægt og stillt. Marar og auð jörð svo naumast fölgnaði og snjólétt upp í fjallabrúnir. Vatnsföll með lélegum ísi lengst af og sum að nokkru leyti auð.

Fagridalur: Sérlega góð skammdegistíð, léttar úrkomur og jafnaðarlega snjólaust, dálítið ókyrrt.

Tíminn segir þann 6.desember frá þrumuveðri í Hveragerði:

Fréttaritari blaðsins í Hveragerði símar blaðinu: Á fimmtudagsmorguninn [4.desember] gekk ógurlegt þrumuveður með eldingum hér yfir þorpið. Fárviðri þetta olli töluverðu tjóni. Meðal annars sló eldingu niður í landsímastöðina. Eyðilagði hún eldingavara hússins og rauf samband stöðvarinnar við landsímalínurnar og símakerfið í þorpinu. Ennfremur eyðilögðu eldingar nokkur móttökutæki.

Morgunblaðið segir 6. desember af foktjóni á Bíldudal og Akranesi:

Í veðri því, sem geisað hefir undanfarna daga hefir orðið töluvert tjón að því, þegar er fullvitað. Á Bíldudal sleit upp 3 vélbáta og rak þá þvert yfir fjörðinn og sökk einn þeirra, en hinir löskuðust. Voru bátarnir frá 6—15 smálestir að stærð. Á Akranesi slitnaði vélbáturinn Aldan upp af læginu á Lambhúsasundi og rak á land. Brotnaði báturinn mikið, en von er þó talin til þess að honum verði bjargað.

Morgunblaðið segir frá hörmulegum skipskaða 7. desember. Við vitum ekki hvort hann tengdist veðri eða ófriðnum:

Það er nú talið fullvíst, að togarinn „Sviði“ GK.7, frá Hafnarfirði hafi farist með
allri áhöfn þriðjudaginn 2. desember síðastliðinn. Á togaranum voru 25 menn.

Mjög djúp lægð kom að landinu þann 13. og 14. og olli austanstormi, einkum þó sunnanlands. Tíminn segir frá 16.desember:

Um síðustu helgi bilaði landssíminn allvíða, en þó einkum á Austurlandi. Í Öræfum slitnaði síminn á 4 km. löngu svæði og 6 staurar brotnuðu. Þá slitnuðu vírar á þessari sömu línu á milli Egilsstaða og Reyðarfjarðar. Talsímalínan fyrir austan Vík í Mýrdal slitnaði og á Norðurlandslínunni slitnaði síminn á milli Ketilsstaða og Fagradals. Smáskemmdir urðu á nokkrum stöðum. Álitið er að ísing á vírunum sé orsök þessara símabilana.

Tíminn segir 18.desember frá frekara tjóni í veðrinu 13. til 14.:

Jón Sigurðsson, kaupfélagsstjóri á Djúpavogi, sagði blaðinu þessar fréttir í gær: Um síðustu helgi olli fárviðri skemmdum á símalínu við bæinn Stræti á Berufjarðarströnd. Eldingu sló niður á símann og eyðilagði hún sjö símastaura. Veður hefir verið mjög umhleypingasamt hér um slóðir undanfarið og hefir töluvert tjón orðið á landssímanum annarsstaðar en þar sem áður er frá greint.

Morgunblaðið segir frá skipsstrandi í pistli 19.desember. Allmikið suðvestanveður gerði á landinu:

Í fyrrinótt [aðfaranótt 18.] rak gufuskipið Lyru upp á Engey austanverða. Bresk björgunarsveit náði skipinu út í gær. Ekki er vitað um skemmdir á Lyru, en talið er að nokkur leki hafi komið að skipinu.

Morgunblaðið segir þann 24. desember frá meira tjóni í sama veðri [18.]:

Djúpavík í gær. Síðastliðinn fimmtudag gerði snögglega eitthvað mesta afspyrnurok á suðvestan, er komið hefir hér í manna minnum. Skall það á kl.6 um morguninn og eftir
4 klukkustundir var veðrið um garð gengið. Stórt skip, sem lá hér bundið við bryggju, sleit frá bryggjunni og varð síðan að andæfa með fullum krafti móti veðrinu, þar til lægði. Víða hér um slóðir urðu menn fyrir tjóni af völdum ofveðursins. Í Norðurfirði, á Gjögri og víðar fauk talsvert af heyi og mó, á Veganesi fauk allstórt geymsluhús með öllu, sem í því var, veiðarfærum o.fl. í Birgisvík fauk nýbyggð hlaða og þak af fjósi. Á Steingrímsfirði varð tjón á bátum, 2 dekkbátar slitnuðu upp og ráku á land og brotnuðu mikið. 3 opnir vélbátar sukku og lítil trilla, sem var á þurru landi, fauk eitthvað út í buskann, og hefir ekkert, sést af henni síðan.

Vísir fjallar þann 31.desember um sjóslys á árinu:

Drukknanir manna. Árið 1941 er langmesta slysaár, sem sögur fara af hér á landi, eða það drukknuðu 142 menn. Árið 1906 er annað mesta slysaárið, en þá drukknuðu 125 menn. Af þeim sem drukknuðu hafa flestallir farist með skipum úti á hafi, bæði í ofviðrum og sökum sjóhernaðarins. Sum tilfellin er þó að vísu óvíst um. 112 þessara manna hafa farist með íslenskum togurum, en 30 hafa farist með bátum, erlendum skipum eða drukknað í höfnum, sundlaugum eða ám.

Skipstapar. Miklir skipstapar hafa orðið á þessu ári. Ellefu íslenskir bátar og togarar hafa farist, annaðhvort í ofviðrum eða af sjóhernaði og hlaust manntjón af. Erfitt að segja um suma á hvern hátt þeir hafa farist, því áreiðanlegar heimildir eru alls ekki fyrir hendi, t.d. Gullfoss og Jarlinn. Sex erlend skip fórust hér við land á árinu, og drukknuðu nokkrir erlendir skipverjar af þeim. Sjö íslensk skip og bátar strönduðu hér við land og eyðilögðust.

Hér með lýkur upprifjun hungurdiska á veðri og tíðarfari ársins 1941. Margskonar tölulegar upplýsingar má finna í viðhenginu.  


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Smávegis kuldametingur

Það er óvenjukalt á landinu þessa dagana, sólarhringsmeðalhiti gærdagsins (10.mars) var -9,3 stig í byggðum landsins. Við eigum samt slatta af kaldari marsdögum á lager, en þó engan eftir aldamót. Í mars 1998 voru fimm dagar kaldari en gærdagurinn. Líklega verður enn kaldara í dag (11.mars). Það er því varla kominn tími á að gera þetta kuldakast upp. 

w-blogg110323a

Hér má sjá hádegisgreiningu evrópureiknimiðstöðvarinnar á þykktinni (heildregnar línur) og hita í 850 hPa-fletinum á hádegi í dag (11.mars). Þykktin yfir miðju landi er ekki nema 405ö metrar. Það er ekki oft sem svona lágar tölur sjást yfir landinu. Þykktarbratti er nokkur - yfir Kaflavík er þykktin t.d. um 4 metrum hærri heldur en yfir landinu miðju. Við eigum til þykktarathuganir yfir Keflavík aftur til 1952. Ámóta lágar tölur hafa þar nokkrum sinnum sést í mars, síðast í kuldakastinu mikla 1998. 

Við eigum líka samanburð lengra aftur, með aðstoð endurgreininga. Hafa verður þó í huga að þær eru ekki mjög nákvæmar, við höfum bandarísku endurgreininguna t.d. grunaða um að vera lítillega of hlýja miðað við núverandi líkan evrópureiknimiðstöðvarinnar og örugglega of hlýja förum við meir en 100 ár aftur í tímann. 

Þrátt fyrir þennan óvenjulega kulda stendur þannig á spori að langt er í lágmarksmet í einsökum þrýstiflötum yfir Keflavík. Við erum næst meti í neðstu flötunum, 925 og 850 hPa, en langt frá þeim í 700 (3 km hæð) og 500 (5 km hæð).

Það er í raun allt of snemmt að vera að skrifa eitthvað hér um þetta kuldakast - ekkert er útséð um það - (ritstjóri styður á „vista og birta“ og stendur síðan upp - án þess að hneigja sig eða biðjast afsökunar). . 

 


Fyrstu tíu dagar marsmánaðar

Fyrstu tveir dagar mánaðarins voru nokkuð hlýir, en síðan hefur staðið samfellt kuldakast. Meðalhiti fyrstu tíu dagana er -0.9 stig í Reykjavík, -1,2 stigum neðan meðallags 1991 til 2020 og -1,6 stig neðan meðallags síðustu tíu ára. Hitinn raðast í 20. hlýjasta sæti á öldinni (þrisvar sinnum hafa sömu dagar verið kaldari). Kaldast var 2002 og 2009, meðalhiti í báðum tilvikum -2,1 stig, en hlýjast 2004, meðalhiti þá +6,3 stig. Á langa listanum er hiti nú í 97. hlýjasta sæti (af 151). Kaldastir voru þessir sömu dagar 1919, meðalhiti -9,9 stig, en hlýjastir voru þeir 2004 eins og áður sagði, meðalhiti +6,3 stig.
 
Meðalhiti fyrstu tíu daga mánaðarins á Akureyri er -1,6 stig, -0,6 stigum neðan meðallags sömu daga 1991 til 2020 og -0,7 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára.
 
Það hefur verið kaldara að tiltölu austanlands heldur en vestan. Á Vestfjörðum raðast hitinn í 14. hlýjasta sæti aldarinnar, en á Austfjörðum og Suðausturlandi er hann í næstneðsta sæti. Á einstökum veðurstöðvum hefur að tiltölu verið hlýjast á Möðruvöllum í Hörgárdal, þar er hiti fyrstu 10 dagana í meðallagi síðustu tíu ára, en kaldast á Höfn í Hornafirði þar sem hiti hefur verið -2,8 stigum neðan meðallags.
 
Sérlaga þurrt hefur verið á Suður- og Vesturlandi. Aðeins hafa mælst 1,5 mm í Reykjavík. Nokkrum sinnum hefur úrkoma mælst minni í Reykjavík sömu daga, síðast 2018 þegar hún var aðeins 0,1 mm. Á Akureyri hefur úrkoman til þessa mælst 13,6 mm og er það um 75 prósent meðalúrkomu þar.
 
Sólskinsstundir hafa mælst 51,8 í Reykjavík, um 19 fleiri en í meðalári, en hafa þó 10 sinnum mælst fleiri sömu almanaksdaga. Á Akureyri eru sólskinsstundirnar nú orðnar 20,4 og er það í meðallagi.
 
Loftþrýstingur hefur verið óvenjuhár það sem af er mánuði. Meðaltalið er nú 1026,4 hPa í Reykjavík og hefur aðeins tvisvar sinnum verið hærra sömu daga síðustu 202 árin. Það var 1847 og 1962.
 
Hiti fór ekki upp fyrir frostmark á landinu í gær (10.) og ekki heldur þann 7. Þannig var einnig um þrjá daga í desember. Hin síðari ár hafa dagar sem þessir verið mjög fáir, t.d. voru þeir aðeins tveir samtals á átta árum, 2014 til 2021.
 
Lágmarkshiti í Reykjavík í nótt (aðfaranótt 11.mars) var -14,8 stig, á kvikasilfursmælinn fór frostið í -14,6 stig. Þetta er óvenjumikið frost. Spurt var hvert væri mesta frost sem mælst hefði í mars í Reykjavík. Það er -22,1 stig sem mældust 22. mars 1881. Um þær mundir fór frostið í meir en -20 stig þrjá daga í röð. Ellefu árum síðar, þann 9. mars 1892 mældist frostið -20,5 stig í Reykjavík. Mesta frost í Reykjavík í mars síðustu 100 árin er -16,4 stig, þann 9. mars 1969. Daginn áður mældist það -16,3 stig - þetta verður þó að teljast sama tilvikið. Þann 7.mars 1998 mældist frostið í Reykjavík -14,9 stig - ómarktækt meira en nú.

Þurrir dagar

Úrkoma það sem af er mars hefur aðeins mælst 1,5 mm í Reykjavík. Það er reyndar alls ekki einsdæmi þessa sömu daga, hefur gerst nokkrum sinnum að hún hefur mælst enn minni og sömu daga árið 1962 hafði ekki einu sinni orðið vart við úrkomu. Hugur ritstjórans reikar - eins og oft áður til þeirra daga. Þetta var fyrsti veturinn sem segja má að hann hafi fylgst með veðri frá degi til dags. Febrúarveðráttan 1962 var mjög ruddaleg framan af (svipað og nú) en síðan reis upp fádæma mikið háþrýstisvæði (öflugra en nú) - fyrst austan við land og yfir því en það þokaðist síðan vestur um og til Grænlands og Baffinslands. Varð alveg sérlega þaulsetið og varð marsmánuður sá þurrasti sem nokkru sinni er vitað um bæði í Reykjavík og í Stykkishólmi. Norðaustanlands var éljagangur viðloðandi, en sjaldan hríðarveður. 

Upp úr miðjum mánuði varð lítilsháttar breyting - heldur hlýrra loft komst til landsins, en þó hélst þrýstingur hár og norðanáttin var viðvarandi út mánuðinn. Frostið fór mest í -33,2 stig í Möðrudal, það var mesta frost sem mælst hafði á landinu frá 1918. - Meira frost hefur mælst síðar. 

w-blogg090323a

Á kortinu giskar evrópureiknimiðstöðin á meðalhæð 500 hPa-flatarins, meðalþykkt og þykktarvik (miðað við 20.öldina). Norðvestanátt er ríkjandi í háloftunum. Mjög hlýtt vestan Grænlands, en kalt í Skandinavíu og á Íslandi. 

Spáin fyrir næstu 10 daga sýnir svipaða stöðu, nema að neikvæðu þykktarvikin eru mest yfir Íslandi. Við þurfum að vara okkur á því að kortið frá 1962 sýnir meðaltal mánaðar, en kortið að neðan aðeins mánaðarþriðjung (10 daga). Líklega smyrjast vikin eitthvað út þegar tölur mánaðarins alls verða teknar saman. 

w-blogg090323b

En við sjáum stöðuskyldleikann vel. Ritstjórinn minnist þess að einhvern tíma var verið að ræða um það hvenær hafísárin hafi byrjað. Þótt það sé út af fyrir sig skemmtileg umræða og athyglisverð spurning verður svarið samt alltaf nokkuð út í hött - sérstaklega ef farið er að negla hina meintu byrjun niður á ár, mánuð eða dag. Auðvitað kom hafísinn ekki að landinu fyrr en seint í febrúar 1965, eftir alveg sérlega óvenjulega þráláta suðvestanáttarstöðu. En til að geta komið í þeirri stöðu þurfti hann að vera til. 

Eins og fjallað hefur verið um hér á hungurdiskum áður er það ólíkt með ís í Barentshafi annars vegar og við Austur-Grænland hins vegar, að hinn fyrrnefndi hverfur nær alveg hvert einasta sumar, en það gerir ísinn við Austur-Grænland hins vegar ekki (eða hefur alla vega ekki gert það hingað til). Austur-Grænlandsísinn er í árstíðabundnu hámarki seint í mars eða byrjun apríl. Magnið tengist nýmyndunarákefð vetrarins, en líka leifinni frá fyrra vetri. Sú hugmynd kom upp að þessi marsmánuður, 1962, hafi bætt vaxtarskilyrði við Norðaustur-Grænland og rutt þykkari ís út úr Norðuríshafinu, búið í haginn fyrir næstu ár. Það er ekki mikið um það talað að veturinn 1963 var nærri því orðinn að ísavetri. Þá var þrýstifar við Ísland mjög óvenjulegt - og hagstætt ís við Norðaustur-Grænland. Ísinn komst upp að Hornströndum í fáeina daga í lok janúar - en ríkjandi austanáttir í febrúar og mars flæmdu hann suðvestur um Grænlandssund - það voru sérlega hlýir og hagstæðir mánuðir. Nærveru íssins gætti hins vegar í páskahretinu fræga 1963 - sem var (í eftiráskýringu) eins konar forboði hafísáranna. 

Það er ólíkt með stöðunni þá og nú að ís hefur verið sáralítill við Austur-Grænland í vetur. Hugsanlega minni en dæmi eru um. En hann er ekki lengi að myndast - fái hann frið til þess. Dálítil sýning kannski - því hann yrði svo þunnur. Þunnur ís væri fljótur að eyðast aftur. 

En það verður samt athyglisvert að gefa ísnum gaum næstu vikurnar. Hvessi mjög á norðurslóðum er hann líklega dauðadæmdur, sömuleiðis ef austan- og suðaustanáttir ná sér aftur á strik, en haldist núverandi háþrýstistaða - með aðstoð hugsanlegra vestan- og suðvestanátta sýnist ritstjóranum að hann eigi meiri möguleika heldur en í meir en áratug. 

Takið ekki of mikið mark á þessum vangaveltum - þær eru óábyrgar og klukkan að verða eitt. 

 


Kólnandi veður

Svo virðist sem veður fari nú kólnandi - eftir mildan kafla. Það kemur nokkuð á óvart hversu átakalítið það á að gerast (í fyrstu). Einfaldlega skiptir úr hægri breytilegri átt í hæga norðlæga á innan við sólarhring og kólnar um 10 stig (og svo meira). 

w-blogg040323a

Kortið sýnir stöðuna í 925 hPa-fletinum (með augum evrópureiknimiðstöðvarinnar) kl.9 að morgni sunnudags 5. mars. Flöturinn er þá um það bil í 800 metra hæð (sjá merkingar við jafnhæðarlínurnar). Grunn lægð er á suðausturleið austur af landinu. Hún er svo grunn að hún er varla merkjanleg þegar hún fer austur með Norðurlandi á morgun (laugardag). Hún er samt eins konar ættingi stórbrotinna hretalægða. Svona getur þetta verið á stundum.

Hiti verður nærri frostmarki í Esjuhæð yfir Suðvesturlandi, en yfir Melrakkasléttu segir spáin -11 stiga frost - í framsókn. Við verðum að kalla þetta kuldaskil - og lítilsháttar úrkoma mun eiga að fylgja þeim - og vindur breytist eins og áður sagði. 

Kannski er þetta nærri því það sem ameríkumenn kalla bakdyrakuldaskil - (þeir eiga nöfn yfir allt) - kuldaskil sem læðast að úr norðaustri (öfugri átt) - án teljandi óláta. Ritstjórinn er ekki sérlega hrifinn af hrárri þýðingunni - við hljótum að geta gert betur - og aðlagað hugmyndina að „okkar“ aðstæðum. 

En síðan á kuldi að haldast - líklega út vikuna að minnsta kosti. Ekki er samkomulag um hvers konar veður verður boðið upp á með honum - fer það mest eftir því hvort vindur nær að snúast til vestlægari áttar í háloftunum - gerist það er snjókoma næsta vís. Evrópureiknimiðstöðin er til þess að gera þurr - en bandaríska veðurstofan rakari - sérstaklega þegar á líður. 


Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 12
  • Sl. sólarhring: 183
  • Sl. viku: 2459
  • Frá upphafi: 2434569

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 2184
  • Gestir í dag: 10
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband