Bloggfærslur mánaðarins, júní 2022

Hugsað til ársins 1940

Merkisár í sögu þjóðar. Bretar hernámu landið þann 10.maí og allt var breytt. Tíðarfar var almennt talið hagstætt árið 1940, nema hvað leiðinlegir kaflar komu um sumarið. Janúar var mjög hagstæður, lengst af var hlýtt, snjólétt og hægviðrasamt. Febrúar var hagstæður framan af, en síðan snjóaði talsvert á Norðausturlandi og sunnanlands gerði einnig slæma hríð. Í mars var tíð talin óhagstæð um landið norðan- og austanvert, en betri suðvestanlands. Tíð var óhagstæð og fremur illviðrasöm í apríl, einkum þó norðaustanlands. Í maí var góð tíð norðaustanlands, en sólarlítið og votviðrasamt syðra, en gróður tók vel við sér. Svipað var í júní, heldur illviðrasamt, en tíð þótti góð norðaustanlands. Í júlí var tíð lengst af hagstæð. Í ágúst var mjög votviðrasamt á Suður- og Vesturlandi og reyndar einnig norðaustanlands þegar á leið. Í september var votviðrasöm og slæm tíð norðaustanlands, en syðra var fremur þurrt. Fyrri hluta október gerði illviðrakafla norðanlands með snjókomu, en annars var tíð hagstæð. Í nóvember og desember var tíð hagstæð, einkum á Norður- og Austurlandi. 

Janúar var hagstæður og hægviðrasamur. Um miðjan mánuð var sérlega öflug hæð yfir Grænlandi, og þrýstingur hér á landi fór í 1050,6 hPa í Stykkishólmi þann 15. Getið er um þessa hæð í gömlum pistli hungurdiska (18.mars 2018). Lítum á janúarlýsingar nokkurra veðurathugunarmanna:

Lambavatn (Ólafur Sveinsson). Janúar: Það hefir verið góð tíð yfir mánuðinn eftir því sem vant er um þetta leyti vetrar. Oft autt og alltaf snjólétt og nú er snjólaut í byggð og má heita eins á fjöllum nema aðeins litur.

Suðureyri (Kristján. A. Kristjánsson) Janúar: Óvenju stillt og hlýtt, nema 10 daga um miðbik mánaðar. Úrkoma lítil. Hagi oftast góður.

Sandur í Aðaldal (Friðjón Guðmundsson) Janúar: Tíðarfar þurrt, milt og snjólétt og fremur stillt, nema nokkuð rosasamt um miðjan mánuðinn. Hagi fremur góður nema fyrstu dagana, þá lá lognsnjór yfir jörð, sem tók þó fljótt upp í asahláku 9.-10. Úrkoma lítil, en þó líklega 4 til 6 sinnum meiri en mælingar benda til, því sá snjór sem fellur í hvassviðri og frosti tekur sér ekki bólfestu niðri í snjómælinum.

Reykjahlíð (Pétur Jónsson) Janúar: Mikill lognsnjór var hér um áramót. Fór hann að mestu 6.-10. Eftir það snjólítið. Hagar góðir og marga daga mjög góð veður. Úrkoma lítil nema 29.-30., þá mæld hér 18,5 mm sem er sjaldgæft hér. 

Papey (Gísli Þorvarðsson) Janúar: 1., 2.-3. var hér óvenjulega mikil snjór [52 cm þ.2.] sem tók fljótt upp með SV og S hlýindum sem vöruðu til þess 13. Þá kólnaði aftur á auða jörð til 24.

Febrúar byrjaði vel, Morgunblaðið birti þann 10. örstutta frétt úr Eyjafirði, og sama dag birti Tíminn frétt úr Mýrdal.

[Morgunblaðið 10.febrúar] Síðustu daga hefir í Eyjafirði verið eitthvert hið besta blíðviðri, sem menn muna á þessum tíma árs.

[Tíminn 10.febrúar] Frá áramótum hefir verið einstakt blíðviðri, frost mjög vægt og úrkoma lítil. Jörð er nú alauð í byggð og klakalaus að mestu. 

Eftirminnilegt hríðarveður gerði kringum þann 20.febrúar. Um það var ritað sérstaklega í hungurdiskapistli 23.janúar 2021 - verður það ekki endurtekið hér, nema stuttur pistill úr Morgunblaðinu þann 20.:

Geysimikinn snjó hefir hlaðið niður hér í bænum og nágrenni undanfarna daga og Veðurstofan spáir áframhaldandi snjókomu í dag og kaldara veðri. Umferð hefir teppst vegna snjóa á Hellisheiði, en fært var í gær suður með sjó og í Mosfellssveit og Kjalarness. Frá Steindóri fór bíll í gær austur og komst að Kolviðarhól en bílar, sem ætluðu að austan, komust ekki vestur yfir fjall. Skíðafólkið lét ekki sitt eftir liggja, loksins þegar snjórinn kom. Fór fjöldi skíðafólks út úr bænum á sunnudagsmorgun [18.febrúar], en sumir létu sér nægja að æfa sig í skíðagöngu hér í bænum eða við bæinn. Nokkrir hópar skíðafólks fóru úr bænum á laugardag, áður en fór að snjóa, í þeirri von, að „það myndi snjóa“. Haldist þessi snjór eitthvað, að ráði, má búast við að líf fari að færast í skíðafélögin og skíðafólkið.

Fréttaritari vor á Akureyri símar, að óvenjumiklum snjó hafi kyngt niður þar um helgina og í gær. Mikil ófærð er orðin á götum á Akureyri. Rafstraumur féll niður frá Laxárstöðinni nýju til Akureyrar á sunnudagskvöld vegna krapastíflu og var settur straumur á bæjarkerfið til ljósa frá gömlu rafstöðinni í Glerárgili. Um 2 leytið í gær komst rafmagnið aftur í lag frá Laxárstöðinni. Frá Ísafirði barst einnig frétt um mikla snjókomu, en þar hefir verið blíðu veður síðan um nýár.

Veðurathugunarmenn voru almennt ánægðir með febrúarmánuð:

Lambavatn. Febrúar: Framan af mánuðinum var hér eins og víðar sumarblíða. En seinni hlutann hefir verið austan og austnorðan hvassviðri og stundum rok, en oftast frostlítið og úrkomulaust, aðeins fjúk á milli, jörð alltaf alauð og eins fjöll. Í miðjum mánuðinum var hér út á Látrum ekki farið að taka neitt lamb í hús, né hýst fé.

Sandur í Aðaldal. Febrúar: Einmuna veðurblíða fyrri hlutann, auð jörð að kalla og góðir hagar. Seinni hlutinn í kaldara meðallagi, þó var snjólétt út mánuðinn og hagar allgóðir en stundum allskörp frost. Tíðafar í heild í besta meðallagi.

Fagridalur í Vopnafirði (Oddný S. Wiium). Febrúar: Ágæt tíð fram að miðjum mánuði. Þá breytti til norðaustlægrar áttar og hvassviðra. Mjög stormasamt og reif snjóinn og eru óvenjumiklir skaflar en ekki hægt að mæla snjódýpt. Hér og í nágrenni er þessi snjór álitinn mesta snjókoma á vetrinum.

Nefbjarnarstaðir (Jón Jónsson). Febrúar: Fram undir miðjan mánuð var tíðarfar hið besta. En svo brá til fannkomum og kulda. Var frosthart til mánaðaloka. Hagbönn algjör síðustu vikuna. [Snjódýpt 57 cm þann 26.]

Heldur meira var kvartað undan marsmánuði: 

Sandur í Aðaldal. Mars: Tíðarfar í mildara lagi, en úrkomur allmiklar, oftast fannkomur og allmikill snjór á jörð. Hagi mjög slæmur og notaðist þó verr, sökum slæmra veðra. Frost voru væg, en sjaldan hlákur en aðeins smáblotar, sem ekki unnu á að neinu ráði. Fremur var veðráttan hægviðrasöm.

Nefbjarnarstaðir. Mars: Fremur köld tíð með töluverðri snjókomu. Mjög haglítið og gjafafrekt.

Sámsstaðir (Klemenz K. Kristjánsson) Mars: Mars að mörgu með óhagstæðu tíðarfari. Hitinn jafnan lítill og á stundum allmikið frost með nokkurri snjókomu og það mikilli að jörð var oftast snævi hulin fram til 19. Varð þó snjór aldrei þykkur. Síðustu 10 daga mánaðarins var milt og gott veður með töluverðu sólfari. Mánuðurinn mun óhagstæðari og kaldari en árið á undan.

Morgunblaðið talar um góðviðri í pistli 2. apríl:

Mörg hundruð Reykvíkingar notuðu góða veðrið á sunnudaginn [31. mars] til skíðaferða. Er óhætt að fullyrða, að betra færi og veður hefir ekki komið á vetrinum. Nú er sól komin það hátt á loft, að þegar hennar nýtur á fjöllum, verða menn „brúnir" af nokkurra klukkustunda veru á fjöllum. Forstöðumenn margra skóla hér í bænum skilja heilnæmi fjallaloftsins og sólarinnar og gefa „skíðafrí“ þegar veður er gott. Það sér enginn eftir því að bregða sér á fjöll núna, þegar gott er veður.

Tíð var órólegri í apríl heldur en lengst af hafði verið um veturinn. Afgerandi illviðri gerði um miðjan mánuð með símabilunum og foktjóni. Veður batnað mjög með sumarkomu og blíðviðri lofuð undir lok mánaðar.

w-kort_1940a

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Kortið (bandaríska endurgreiningin) sýnir stöðuna kl.6 að morgni þriðjudags 16. apríl. Hörku norðanveður um nær allt land. Blöðin birtu fréttir af illviðrinu:

Tíminn 16. apríl:

Allvont veður hefir verið um meginhluta landsins síðustu dægur, rok og sums staðar hríðarveður, einkum norðaustan lands. Hafa bilanir á símalínum og truflanir á símasambandi orðið allvíða um land. Að því er Ólafur Kvaran ritsímastjóri tjáði Tímanum urðu símabilanir á eftirtöldum stöðum í fyrrinótt: í Leirár- eða Melasveit milli Vogatungu og Hafnar, í Borgarhreppi nokkru ofan við Borgarnes, fyrir ofan Þverárhlíð á Grjóthálsi biluðu Norðurlandslínurnar, og loks varð Suðurlandslínan fyrir bilunum milli Holts undir Eyjafjöllum og Skarðshlíðar. Ísing hefir eigi valdið bilunum og taldi ritsímastjórinn, að þær væru smávægilegar flestar, litið um brotna staura, en hins vegar hefðu þræðir slegist saman eða slitnað. Við sumar af þessum bilunum var gert þegar í gær, en þó var eigi alls staðar hægt að sinna viðgerðunum vegna ofsaroks.

Tveir bátar hafa orðið fyrir tjóni af völdum roksins hin síðustu dægur. Í Vestmannaeyjum sökk 12 smálesta vélbátur þar á höfninni, Sæbjörg að nafni. Líkur eru taldar á, að hann náist upp aftur. Í Innri-Njarðvík losnaði í gær vélbáturinn Björn Jörundsson frá Hrísey, þar sem hann lá á bátalegunni, og rak upp í flæðarmál. Báturinn skemmdist þó lítið, því að ströndin var sendin, þar sem hann bar að landi. Á laugardaginn [13.] varð og það slys á Húsavíkurhöfn, að bátur losnaði frá bryggju og hvolfdist í brimróti. Einn maður var í bátnum og drukknaði hann.

Morgunblaðið 17. apríl:

Allmiklir erfiðleikar hafa verið á símasambandi um landið undanfarna daga, vegna bilana af ofviðri. Skemmdir á símanum hafa þó hvergi verið miklar, því engin ísing hefir verið á þráðunum, en þá eru skemmdir alltaf stórfelldastar þegar hún kemur til sögunnar. Eftir því sem Ólafur Kvaran skýrði blaðinu frá í gær, hafa bilanirnar orðið sem hér segir: Sambandslaust í gær milli Borðeyrar og Ísafjarðar. Ritsímasamband er við Akureyri, en allmiklar bilanir á þráðum í Húnavatnssýslu. Einn staur brotnaði fyrir vestan Esjuberg á Kjalarnesi. Gert við þá bilun í gær, og eins var gert við bilun milli Vogatungu og Hafna. Síminn slitinn yfir Markarfljót. Þingvallasíminn slitinn fyrir ofan Laxnes. Talsverðar bilanir í Grjóthálsi, milli Króks í Norðurárdal og Norðtungu.

Tíminn 18. apríl:

Tíminn hefir þær fregnir frá Veðurstofunni, að seint í gær hafi borist skeyti um hafís út af Horni, 20—25 sjómílur undan landi. Er það í fyrsta skipti á þessum vetri, er hafíss verður vart. Enn eru ísfregnir þessar óljósar og óvíst, hvort um miklar ísbreiður er að ræða eða aðeins lítils háttar dreifar.

Í stórviðrinu, er geisaði i byrjun þessarar viku, varð nokkurt tjón á bátum við Eyjafjörð. Á Árskógssandi slitnaði 8 smálesta vélbátur, Gideon, upp og rak til lands, en skemmdist fremur lítið, Þrír hreyfilbátar sukku, en hinn fjórða rak & land. Við Flatey á Skjálfanda sökk einnig 8 smálesta vélbátur, Óli Björnsson. Óvist er, hvernig tekist hefir um björgun sumra þessara báta, en sumir hafa náðst lítið skemmdir.

Úr almennum tíðarfarslýsingum veðurathugunarmanna í apríl:

Lambavatn. Apríl: Það hefir verið stillt og gott veður yfir mánuðinn. Dálítið kalt þar til nú síðustu vikuna hefir verið hlýindi og væta og allt að byrja að gróa.

Suðureyri (Kristján A. Kristjánsson). Apríl: All-harðneskjulegt og vindasamt til 20., úrkomulítið. Eftir það brá til vorveðráttu og var blíðviðri til mánaðarloka. Merkilega ládauður sjór allan mánuðinn.

Sandur í Aðaldal. Apríl: Tíðarfar fremur slæmt fram um þann 20. en þá brá til hlýinda og leysti upp snjóa óvenju ört. En til þess tíma var mikill snjór á jörð og hagar slæmir.

Reykjahlíð. Apríl: Veðrátta mislynd þennan mánuð. Á honum komu verstu hríðar vetrarins hér 14.-16. Sérstök blíða og vorblær á öllu síðustu dagana. Frá 13. til 16. kom mikill snjór sem náðist aldrei í mæli svo mælanlegt yrði.

Í apríl dró til stórtíðinda í styrjöldinni. Danmörk og Noregur voru hernumin af þjóðverjum. Þá urðu einnig tíðindi í veðurfréttamálum. Morgunblaðið segir frá þann 16.apríl:

Svohljóðandi tilkynningu sendi ríkisstjórnin út í gær: Vegna ástands þess er nú ríkir i alþjóðamálum, og vegna hlutleysisafstöðu Íslands, og í samræmi við það er margar aðrar hlutlausar þjóðir hafa gert fyrir löngu, hefir ríkisstjórnin ákveðið áð hætta að útvarpa öllum veðurfregnum og veðurspám og einnig að hætta að senda þær út frá stuttbylgjustöðinni og loftskeytastöðinni. Veðurstofan mun í dag birta tilkynningu um hvernig veðurfregnum innanlands verður að öðru leyti hagað. Ríkisstjórnin. Síðar í gær sendi Veðurstofan út svohljóðandi tilkynningu: Fyrst um sinn verða veðurspár birtar tvisvar á dag á símastöðvum nokkurra helstu verstöðva og kauptúna á morgnana kl.10, eða skömmu þar á eftir, og gildir sú spá fyrir hlutaðeigandi stað og nærliggjandi i svæði þann dag til kvölds. Kvöldspáin verður birt um kl.19, og gildir á sama hátt fyrir næstu nótt. Veðurstofan, 15. apríl 1940. Þorkell Þorkelsson. 

Var þetta auðvitað mjög bagalegt ástand og olli varanlegum breytingum. Fyrir þennan tíma höfðu Veðurstofan og Ríkisútvarpið um hríð verið í sama húsi. Veðurfræðingar lásu veðurspár og sögðu þar fleira en ritað var í opinberar spábækur. Var þeim ekki aftur hleypt að með eigin (óformlegar) hugleiðingar um veður fyrr en veðurfregnir hófust í sjónvarpi í febrúar 1967. 

Maí var til þess að gera hagstæður. Kalt var þó framan af. Aðfaranótt 10.maí kom breskur her til Reykjavíkur og hernam síðan allt landið. Hernámsliðið var heppið með veður. Svalt var daginn áður. Við skulum til gamans líta á stöðuna.

island_1940-05-09_08

Kortið sýnir veðrið að morgni 9. maí (fyrir hernámið). Ekkert samsvarandi kort er til frá hernámsdeginum. Landsímahúsið var tekið - og starfsmann Veðurstofunnar komust ekki strax þar inn og fengu ekki að sinna störfum sínum þá um morguninn. Úr því rættist þó fljótlega og afgang styrjaldarinnar var lengstum mikið og gott samstarf milli Veðurstofunnar og athugunarmanna og veðurfræðinga breska hersins. Kortið skýrist sé það stækkað. Þá má sjá að kalt var um land allt og dálítil él vestanlands.

w-kort_1940b

Á miðnætti hernámsdaginn var lægðin sem var nærri Vestfjörðum daginn áður komin norðaustur í haf og hafði náð fullum þroska. Kortið sýnir hæð 1000 hPa-flatarins (í metrum). Hægviðri var um allt vestanvert landið. Landtakan í Reykjavík hefði orðið tafsamari í mikilli norðanátt. 

w-kort_1940c 

Af háloftakortinu (úr bandarísku endurgreiningunni) sjáum við að kalt hefur verið yfir landinu. Greiningin giskar á að þykktin hafi verið um 5200 metrar. Enda voru lítilsháttar éljadrög á Faxaflóa. Næstu daga var fremur kalt og snjóaði talsvert á norðanverðum Vestfjörðum og víðar norðanlands um miðjan mánuð. 

Lýsingar nokkurra veðurathugunarmanna: 

Lambavatn. Maí: Framan af mánuðinum var kalt og gróðurlaust, en seinni hluta mánaðar hefur verið fremur heitt og rigning af og til. Gróður þýtur nú upp og er allt að verða grænt.

Suðureyri. Maí: Tiltölulega hlýr mánuður. Þó komu 2 köst með snjó yfir allt. [snjódýpt 10 cm þ.16].

Sandur. Maí: Ágætistíð í maí. Sérstaklega hlýnar eftir þ.18 og verður eftir það einmuna tíð til mánaðarloka og greri óvenjuvel síðustu vikuna.

Berustaðir í Rangárvallasýslu (Óskar Þorsteinsson) Maí: Tíðarfarið yfirleitt vætusamt og fremur kalt; gróður kom í seinna lagi.

Júní fékk nokkuð misjafna dóma. Í mánuðinum gerði þrjú eftirminnileg veður, hvert á sinn hátt, þrumuveður þann 7., suðvestanillviðri þann 19. og hvassvirði og úrhelli þann 28. til 29. 

Ólafur á Lamavatni lýsir tíðarfari mánaðarins þar um slóðir:

Það hefir verið mjög votviðrasamt. Fáir dagar að ekki hafi eitthvað rignt. Oft kalsaveður og gróður mikið minni og seinvaxnari en undanfarin ár. Á fjöllum hér er nær enginn gróður kominn, aðeins að byrja að litka.

Þ.7 varð mikið þrumuveður syðst á landinu, og gekk það austur með landi. Sagt var frá veðrinu í frétt frá Vestmannaeyjum í Vísi þann 8. Töldu menn að þrumurnar stöfuðu frá sjóorrustu langt suðaustur frá Eyjunum. Athugunarmaður á Stórhöfða, Sigurður V. Jónathansson er þó ákveðinn með þrumurnar og segir frá þrumuveðri í athugun kl.17 (enda rétt hjá honum). Sömuleiðis segir hann í athugasemd: „Þrumuveður í dag“. Frétt Vísis er svona:

Um kl. 4 í gær heyrðust í Vestmannaeyjum þrumur miklar utan frá hafi úr suðausturátt. Heyrðust fyrst um 10 þrumur á mínútu og gekk svo alllengi, en hríðinni slotaði um kl.
6 og höfðu hvellir þessir orðið strjálli eftir því sem á leið. Fólk, sem býr utan við bæinn, fullyrti að hér hefði ekki verið um þrumuveður að ræða, heldur greinilega skothvelli, en björgin í Eyjum bergmáluðu svo að erfitt var að greina hvort um skothríð eða þrumuveður væri að ræða. Sólskin var í Eyjum til kl. 1 í gær, en þá tók að rigna. Var dimmt til hafsins og sást ekkert til skipaferða, enda bárust þrumur þessar greinilega mjög djúpt að. Nokkrir menn voru um þetta leyti dags staddir í Súlnaskeri, sem stendur eitt sér, og runnu því þrumur þessar ekki saman af bergmáli, og telja þessir menn að um greinilega skothríð hafi verið að ræða. Tíðindamaður Vísis í Eyjum telur að hvellir þessir hafi verið alt of þéttir og allt of stuttir til þess að um þrumuveður hafi getað verið að ræða, og bætir því við, að elstu menn fullyrði, að aldrei hafi þekst þrumuveður í Eyjum er vindstaða hafi verið slík, sem hún var í gær.

Þrír veðurathugunarmenn í landi geta veðursins. Það virðist hafa gengið úr suðvestri til norðausturs. Fór hjá Vestmannaeyjum, yfir Mýrdal, Meðalland, Fagurhólsmýri og Papey. Heyrðist á Kirkjubæjarklaustri. 

Guðbrandur Þorsteinsson á Loftsölum í Mýrdal segir svo frá í veðuryfirliti júnímánaðar:

Um tíðarfar júní mánuð er yfirleitt að segja að hann hafi helst til kaldranalegur verið, enda á honum gengið talsverðum ósköpum. Nefnilega fyrst ofsann 7. júní, helst ómunanlegar þrumur og eldingar, rétt allan daginn. Urðu allvíða að skemmdum á útvarpstækjum og vott kinda dauða. Svo aðfaranótt 28., ægilegasta illveður, bæði að veðurhæð og úrfelli, enda orðið æði mörgum sauðkindum að dauða, einkum austan Mýrdalssands. 

Ari Hálfdanarson á Fagurhólsmýri lýsir veðrinu svo:

7.júní: Í kvöld gekk hér yfir allmikið þrumuveður. Það kom úr suðvestri og færðist austur. Fyrstu þrumurnar mun hafa heyrst í Meðallandi kl.16:30. Hér á Fagurhólsmýri heyrðust þær fyrst kl.19. Þær enduðu kl.23. Til jafnaðar munu hafa komið um eða yfir 100 þrumur á klukkustund, (samkvæmt athugun um kl.21). 

Og Gísli Þorvaldsson í Papey lýsir veðrinu í yfirliti mánaðarins:

Júní: Hann byrjaði með óþurrk og endaði með þokulofti og óþurrki; oft mikið regn þó mest væri hér óveður þ.28. með hávetrar stórsjó. Þann 7.-8. heyrðust hér þrumur frá kl. 23 til kl.3. Þær voru óvenjulega háværar hér á Austurlandi, fólk hafði ekki næði í húsum inni á meðan á þeim stóð.

Þetta hefur verið óvenjulegt þrumuveður. Endurgreiningar eru ófullkomnar. Giska má á eðli veðursins (ritstjóri hungurdiska hefur ætíð skoðanir - en ekki endilega réttar). Látum  þær skoðanir eða ágiskanir bíða betri tíma - eða betri greininga.

Annað óvenjulegt veður gerði um landið norðanvert þann 19. Hvessti þá mjög af vestri og suðvestri. Er þetta með verri veðrum af þessari átt í júnímánuði.

Tíminn segir þann 21. júní fyrst af vænlegu útliti - sem hafi brugðist að nokkru, en síðan af veðrinu fyrir norðan:

Snemma í vor leit vel út um gróðurkomuna og tún tekið að grænka í maíbyrjun víða í hinum hlýviðrasamari sveitum. En skjótlega brátt aftur til kuldatíðar og hélst svo um skeið. Á Suðurlandi hefir í allt vor verið mjög úrkomusamt og getur varla heitið, að sólardagur hafi komið hinar seinustu vikur. Jafnframt hefir oft verið fremur kalt í veðri. En þótt sólfar hafi verið lítið um venju fram, hefir gróðri farið sæmilega fram og mun spretta á túnum vera í góðu meðallagi sunnan lands.

Í fyrradag brast á í Eyjafirði ofsarok af suðri og suðvestri og olli nokkrum skemmdum í héraðinu. Kartöflugrös, sem komin voru upp í görðum, skemmdust allvíða eða jafnvel ónýttust, gras á túnum bældist til muna og lá við skemmdum a húsþökum á Akureyri. Á tveim eða þrem bæjum i Hrafnagilshreppi og stöku stað í Öngulsstaðahreppi var búið að slá ofurlitið. Fauk það að mestu, sem búið var að losa á þessum bæjum.

island_1940-06-19_08

Kortið sýnir veðrið að morgni þess 19. júní. Veðurathugunarmenn fara sumir um það nokkrum orðum í yfirlitspistlum sínum:

Sandur í Aðaldal. Júní: Ágætistíð allan mánuðinn, hlý og þurrviðrasöm. Sífelld sunnanátt og sólfar venju fremur mikið. Óveðrið þann 19. olli stórtjóni í matjurtagörðum og gereyðilagði sums staðar heila garða. Grasspretta í meðallagi.

Höfn í Bakkafirði (Halldór Runólfsson). Júní: Veðráttan hefur verið köld síðari hluta mánaðar og grassprettu því lítið farið fram. Þann 19. var hér vestan stormur og urðu sumstaðar skemmdir i görðum vegna sandfoks.

Fagridalur í Vopnafirði. Júní: Ágæt tíð og hagstæð fyrir gróður fyrst í mánuðinum. En nokkuð vindasamt og þurrkar um of til 20. Síðan votur, stormar og kaldara. Veðrið þ. 19. var afar hvasst og gjörði víða skaða í matjurtagörðum og skrúðgörðum.

Nefbjarnarstaðir. Júní: Ágætis tíð þar til 24. Þá gerði kuldakast en hlýnaði aftur 29. Þann 19. var suðvestan hvassveður með mikilli móðu svo sporrækt varð í flögum. Var vont að fara á móti veðrinu. Fauk víða úr görðum.

island_1940-06-28_08

Þann 28. til 29. gerði þriðja óvenjulega veðrið í mánuðinum. Fyrst hvessti mjög af austri um landið sunnanvert, en síðan gerði ofsafengna rigningu eystra. Kortið sýnir veðrið að morgni þess 28. Hér að ofan höfum við þegar lesið lýsingu Guðbrandar á Loftsölum á veðrinu og tjóni sem það olli í Mýrdal og Meðallandi. Klemens á Sámsstöðum segir einnig frá veðrinu í sínum júnípistli:

Aðfaranótt 28. gerði afspyrnurok á austan og olli það miklum skemmdum í kartöflugörðum, ökrum og túnum, einkum þeim sem best eru sprottin. Tíðarfarið allan mánuðinn óhagstætt allri sprettu vegna hvassviðra og vætu.

Morgunblaðið segir af hvassviðrinu í pistli þann 2. júlí.:

Fjárskaðar allmiklir urðu víða í Vestur-Skaftafellssýslu í ofviðrinu þann 28. júní. Var víða nýbúið að rýja fé, er óveðrið skall á. Tjónið er talið mest í Meðallandi, talsvert á annað hundrað fjár, sem ýmist króknaði úr kulda eða fórst í vötnum. Annars er ekki fullkunnugt um fjártjónið ennþá. Miklar skemmdir hafa einnig orðið á matjurtagörðum víðsvegar í héraðinu.

Í sama veðri gerði einnig mikið úrfelli á Austurlandi. 

Morgunblaðið 30.júní:

Stórfelldar skemmdir hafa orðið af vatnsflóðum í Eskifirði. Brúin á Eskifjarðará hefir sópast burtu. Stífla rafmagnsstöðvarinnar sömuleiðis. Fiskreitir eyðilagst og mikið af fiski, sem á þeim var. Kálgarðar og tún einnig. Þessi miklu flóð byrjuðu um kl. 2 aðfaranótt laugardags [29.júní] og stóðu látlaust til kl. um 10 á laugardagsmorgun. Fólk varð að flýja úr húsum víða á Eskifirði, því að kjallarar fylltust af vatni. Tíðindamenn Morgunblaðsins í Eskifirði og Seyðisfirði skýrðu þannig frá þessum flóðum: Stórfeldar rigningar hafa vérið á Austfjörðum síðustu dagana. Snjór var talsverður í fjöllum og kom þessvegna brátt mikill vöxtur í ár og læki. Brúin á Eskifjarðará sópaðist burtu. Var ekkert eftir af brúnni nema grjótgarðarnir beggja megin. Þessi brú var fullgerð 1928. Hún var 27,6 metrar á lengd, byggð úr járnbentri steypu á stöplum. Margar skemmdir aðrar urðu á Eskifirði. Þannig hljóp skarð úr stíflu rafmagnsstöðvarinnar og var kauptúnið rafmagnslaust. Í kauptúninu sjálfu urðu einnig stórfeldar skemmdir. Þrjú tún gereyðilögðust af skriðu- og vatnshlaupi. Einnig margir fiskreitir og mikið af fullverkuðum fiski, sem var í stökkum á reitunum. Margir kálgarðar eyðilögðust einnig og stórskemmdir á öðrum. Þá urðu einnig miklar skemmdir á götum í kauptúninu. Eru götur víða sundurtættar og stórfeldar gryfjur í þeim, eftir vatnsflóðið. Nokkrar skemmdir urðu einnig á húsum. Kjallarar fylltust af vatni og eyðilagðist mikið af því sem inni var. Fólk flúði úr flestum húsum í innkauptúninu, því að lífshætta gat verið, að vera í þeim. Hlaup kom á útibú Landsbankans og  hálffyllti  kjallara hússins. Varð að brjóta gat á kjallaravegginn, til þess að vatnið gœti fengið útrás. Eigi vartalið, að skjöl bankans eða verðmæti hafi skemmst. Hjá olíustöð Shell kom mikið hlaup og voru djúpir skurðir beggja megin við stöðina, en sjálfa sakaði hana ekki. Ekki urðu neinar skemmdir á bryggjum. Heildartjónið í Eskifjarðarkauptúni er gífurlegt.

Þar varð feikna flóð í ám. Í Grímsá varð vöxturinn svo mikill, að áin flæddi langt upp á bakka, svo að hólmar mynduðust á Vallanesinu. Þar á nesinu var fé á beit og var það innikróað. Enginn bátur var við hendina til þess að bjarga fénu og ekki viðlit að vaða út í hólmana. Var þá bíll sendur til Reyðarfjarðar og þangað sóttur bátur til að bjarga fénu. Var róið út í hólmana og féð ferjað í land. Ekki hefir heyrst um tjón annars staðar á Austfjörðum, en vöxtur var alls staðar mjög mikill í ám og lækjum. Þó urðu einhverjar skemmdir á vegum í Neskaupstað. Samkvæmt upplýsingunni, sem blaðið hefir fengið hjá Veðurstofunni mældist úrkoman á Dalatanga við Seyðisfjörð 113 mm frá kl.6 á föstudag til sama tíma á laugardag. Í Öræfum gerði einnig stórrigningu og mældist úrkoman þar svipuð og eystra. Kalsaveður var í Öræfum, aðeins 4 gr. hiti, með rigningunni. Króknaði margt fé í sveitinni. Hafa þegar fundist dauðar 60 ær, er allar hafa króknað.

Tíminn 2.júlí:

Aðfaranótt laugardagsins síðastliðins geisaði austan- og suðaustanveður víða um Austurland og Suðausturland. Fylgdi því fádæma mikil rigning, sem olli gífurlegu tjóni í Eskifirði, og víðar voru brögð að skriðuföllum og skemmdum af völdum úrkomunnar. Sumstaðar króknaði nýrúið fé. Benedikt Guttormsson, bankaútibússtjóri í Eskifjarðarkauptúni, skýrði blaðinu svo frá tjóni því, er þar varð: Stórrigning, meiri en dæmi eru til hér, var á laugardags-nóttina, og ollu skriðuföll og vatnsflóð gífurlegum skemmdum í kauptúninu. Eyðilögðust fiskþurrkreitir kauptúnsins að mestu af völdum aurs og grjóts, er á þá barst, sumir fiskstakkarnir sópuðust burtu, en aðrir eru hálfkafðir í eðju. Garðar og tún eru viða eyðilögð, vegir mjög skemmdir og sums staðar er ófært fyrir aurhlaupum. Brúin af Eskifjarðará sópaðist brott, en skarð kom í stíflugarðinn við rafstöð þorpsins. Vatn flóði inn í nokkur hús, einkum hús bankaútibúsins og vélaverkstæði þar skammt frá. Liggur aur og grjót að þeirri hlið bankahússins, er snýr mót hlíðinni. Húsaþyrping innan til í þorpinu, er umkringd aurdyngjum og grjóthröngli og djúpir vatnsfarvegir hvarvetna. Ennfremur urðu skemmdir á engjum og túni á bænum Eskifirði. Tjónið á fiskbirgðum einvörðungu nemur sennilega tugum þúsunda króna og tjónið, sem orðið hefir á ýmsum eignum og verðmætum, er gífurlegt, eins og lýst hefir verið, og úr sumum verður alls ekki bætt, þótt fjármunir væru fyrir hendi.

Sigurður Jónsson bóndi á Stafafelli sagði Tímanum eftirfarandi tíðindi úr Lóni: Hér skall óveður á á laugardagsnóttina. Vorum við þá ellefu saman frá Stafafelli og bæjum þar í grennd við rúningu sauðfjár í rétt við Eskifell. Var stormur mikill og rigning meiri en dæmi eru til. Urðum við að sleppa fénu úr réttinni og yfirgefa tjald, er við höfðum með okkur, og leita athvarfs í gangnamannakofa, uppi í fellinu. Á laugardagsmorgun, þegar við komum aftur á vettvang, var skriða fallin úr fjallinu yfir réttina og tjaldið. Komumst við við svo búið til bæjar að Þórisdal, og var þó harðsótt, því að vatnavextir voru miklir, en yfir  svokallaða Skyndidalsá að fara.

Úr Öræfum hafa þær fregnir borist, að nýrúið sauðfé hafi króknað úr kulda í veðri þessu. Í Meðallandi króknaði fé og úr kulda og víðar í Vestur-Skaftafellssýslu hefir orðið tjón af rigningunni, einkum í görðum. Á Fljótsdalshéraði urðu talsverðir vatnavextir og í Norðfirði urðu einhverjar skemmdir af völdum regns og vatnavaxta.

Veðurathugunarmenn tala almennt vel um júlímánuð:

Lambavatn. Júlí: Það hefir verið í meðallagi. Hagstætt fyrir heyskapinn. Spretta er í góðu meðallagi. En tíð hefir verið fremur votviðrasöm, nema eina viku og náðu menn þá því er búið var að slá, voru þá margir hér langt komnir með tún. Nú um hálfan mánuð hefir enginn reglulega góður þurrkdagur komið.

Sandur. Júlí: Allgott tíðarfar lengst af og ágætir þurrkar fyrri hluta mánaðarins. Þurrklítið síðustu vikuna, skúraveður tíð og óhagstæð heyskapartíð. Grasspretta í meðallagi, en heyfengur lítill víðast hvar.

Grímsstaðir (Sigurður Kristjánsson) Júlí: Mánuðurinn mestallur kaldur en litlar úrkomur. Þó er grasspretta að verða allt að meðallagi. Þann 25. töluverðar þrumur.

Fagridalur í Vopnafirði Júlí: Ágæt tíð, stillur, en fremur óþurrkasamt.

Nefbjarnarstaðir Júlí: Heldur óþurrkasamt svo hey hraktist nokkuð. Spretta á tínum heldur í lakara lagi, en á engjum fremur góð.

Tíminn segir frá skýfalli í pistli þann 23. júlí:

Þriðjudaginn 9. júlímánaðar, um kl.5 síðdegis, varð skýfall mikið hjá Þórarinsstöðum í Hrunamannahreppi. Dag þenna hafði verið gott veður, en skyndilega kólnaði og gerði feikilega úrkomu. Fyrst var bleytuhríð eða krapi, og síðan haglél. Voru haglkornin á að giska 6—7 millimetrar í þvermál. Veður þetta stóð yfir i eina klst ,og var, er upp stytti, orðið alhvítt og telja elstu menn í Hreppum sig ekki muna nein dæmi slíkrar úrkomu á svo skammri stundu. Snjór og krap í mjóalegg og meira í lautum. Náði úrkoman yfir svæði, sem er um 3 kílómetrar á breidd og 4—5 á lengd. Lenti hún aðallega á fjalli, sem bærinn Þórarinsstaðir stendur undir. Olli skýfallið miklum aurskriðuföllum úr fjallinu og skemmdust beitilönd og sömuleiðis land innan túngirðingar, bæði af grjótskriðum og aurburði úr bæjarlæknum, sem venjulega lítill en varð að þessu sinni nær ófær yfirferðar.

Þann 14. júlí varð mosabruni í Grábrókarhrauni - Tíminn segir frá þann 16.:

Snemma á sunnudag (14.júlí) urðu menn þess varir, að eldur hafði kviknað við Hreðavatn, fyrir sunnan Grábrók. Á þessu svæði eru gisnir runnar og mikill mosi, sem var orðinn skrælþurr. Vatn var ekki við hendina til að hindra útbreiðslu eldsins, og mynduðu því sumargestir á Hreðavatni einskonar „slökkvilið" og var rudd þriggja metra braut umhverfis allt svæðið, nema að norðanverðu, en þar stöðvaði vegurinn útbreiðslu eldsins. Slokknaði eldurinn síðan um nóttina, enda var nokkur úrkoma. Allmiklar skemmdir urðu á svæðinu, sem er um 3—4 dagsláttur að stærð.

Heyskapartíð var erfið í ágúst. Veður umhleypinga- og heldur skakviðrasamt. Skárra var um landið norðaustanvert fram eftir mánuðinum, en síðan skall þar á allmikið hret. Alhvítt varð að morgni þess 26. ágúst bæði í Reykjahlíð og á Grímsstöðum á Fjöllum. 

Tíminn segir frá heyskaparhorfum í löngu máli þann 23. ágúst, þá var enn talið gott útlit nyrðra. Við styttum pistilinn mikið:

Um gervallt Suðurland og meginhluta Vesturlands hefir sumarið verið ákaflega votviðrasamt og heyskapartíð verri en hún hefir verið mörg síðustu ár. Á Austurlandi og um mikinn hluta Norðurlands hefir aftur á móti viðrað allvel og sums staðar verið sérstaklega ánægjuleg heyskapartíð. Einna þrautleiðinlegust hefir tíðin til heyskapar verið um Skaftafellssýslur, Rangárvallasýslu, einkum eystri hreppana, og í uppsveitum Árnessýslu. Grasspretta hefir í þessum héruðum verið mjög nærri meðallagi, en taðan hrakist mjög. Framan af júlímánuði var dágóð tíð og náðu þeir, sem þá voru byrjaðir að slá, inn töðu með góðri verkun. En síðan um miðjan júlímánuð hefir verið óslitin rosatíð og varla komið þurr dagur. Þótt snöggvast hafi greitt úr lofti, hafa flæsurnar ávallt verið svo skammvinnar, að lítið hefir náðst inn af heyi og mjög illa þurrt það sem hirt hefir verið.

Lambavatn. Ágúst: Það hefir verið votviðrasamt, vandræði með heyþurrk. Nema 7.-9. var ágætur þurrkur. Síðan aldrei nema ógerðar flæsur, aldrei eindreginn þurrkdagur. Þar til í dag, 1. september er einsýnn þurrkur. Það lítur fremur illa út með sprettu í görðum sem vonlegt er því það hefir aldrei, hvorki í vor, né sumar verið regluleg sumarveðrátta.

Sandur í Aðaldal. Ágúst: Óstillt tíðarfar. Stopulir þurrkar og endasleppir. Skúraveður tíð en engar stórrigningar. Hey náðust með allgóðri verkun, en tafsamri.

Reykjahlíð (Gísli Pétursson). Ágústmánuður verður að teljast í kaldara lagi. Sjaldan öruggir þurrkar, en sjaldan rigningar að nokkru ráði og hey hröktust því ekki teljandi. Kartöflugras stórskemmdist allstaðar í sveit nema í Bjarnarflagi þann 23.

Fagridalur. Ágúst: Fram að miðjum mánuði var hlý og góð tíð, en oft landskúrir. En síðan mjög óstöðug og úrkomusöm tíð, óhagstæð bæði á sjó og landi. Næturfrost kom þann 23., féll þá víða kartöflugras í görðum gjörsamlega, einkum í innsveitum og byrjaði þá gras að sölna og er nú óvenju fölt.

Sámsstaðir. Ágúst: Mánuðurinn mjög kaldur og óþurrkasamur. Hröktust töður og annað hey afarmikið og víða illa hirt, því þurrkar voru stuttir og stopulir. ... Næturfrost fóru að verða eftir miðjan ágúst, en skaðlegasta frostið varð þann 27., felldi það víða kartöflugras í görðum, einkum þeim sem lágt liggja.

Berustaðir (Ólafur Þorsteinsson). Ágúst: Kalt og votviðrasamt. Slæm heyskapartíð. Kartöflugrös gjörféllu í görðum eftir frostið aðfaranótt 27.

Tíminn segir frá kuldatíðinni í pistli þann 27.ágúst:

Kalt hefir verið í veðri um allt land hina seinustu daga, tíðast norðlæg átt og mjög víða hret eða úrkomuslitringur. Norðanlands hefir verið hinn mesti garri og snjóað niður í miðjar fjallahlíðar og stundum verið næturfrost, sem leitt hafa til mikilla skemmda í görðum og kartöflulöndum. Á Vestfjörðum hefir einnig snjóað niður til miðra fjalla. Jafnvel hér sunnan lands hefir gránað til fjalla að næturlagi. Til dæmis féll snjóföl á Skarðsheiði og Esju í fyrsta skipti að haustlaginu í fyrrinótt. Austanlands, svo sem á Úthéraði, hefir verið ákaflega svalt um nætur upp á síðkastið. Er það venju fremur snemma, sem brugðið hefir til næturfrosta að þessu sinni, svo vítt um landið, enda jafnan verið kalt í veðri í sumar. Er hætt við, að afleiðingarnar af næturfrostunum, þar sem þau voru bitrust, verði mjög rýr kartöfluuppskera, svo treg sem sprettan var þó áður.

Fyrri hluti september var sérlega kaldur og snjóaði þá í sjó víða fyrir norðan. Á Akureyri varð alhvítt að morgni bæði 7. og 10. og hefur síðustu 100 árin aldrei orðið alhvítt svo snemma hausts þar í bæ. 

island_1940-09-07-08

Kortið sýnir veðrið að morgni þess 7. september (verður skýrara sé það stækkað). Snjókoma eða krapahríð um nær allt landið norðanvert og einnig kuldi á Suðurlandi. Í þessu veðri fórst bátur frá Þórshöfn á Langanesi á Þistilfirði og með honum tveir menn. 

Blöðin segja frá þessari ótíð:

Tíminn 10. september

Síðastliðinn föstudag [6.september] og laugardag gerði hið versta norðaníhlaup um land allt, hvassviðri og hret. Snjóaði í byggð, allt niður að sjó, um gervallt Norðurland og á Suðurlandi urðu fjöll alhvít niður til miðra hlíða. Uppi á hálendinu var stórhríð þessa daga. Frostlaust mun þó hafa verið í byggð niðri. Í dag var alhvítt í Eyjafirði og víðar.

Tíminn 13. september:

Á Akureyri var í gær húðarigning af norðri og mjög kalt í veðri. Hefir tíðarfar verið mjög leiðinlegt norðanlands að undanförnu, og einn morguninn nú í vikunni var snjór á götum á Akureyri. Að undanförnu hefir oft snjóað í fjöll. Fyrir fáum dögum fór maður með hest úr Fnjóskadal um Bíldsárskarð vestur í Eyjafjörð. Tók snjórinn víða á fjallinu hestinum í hné, og á einum stað hafði lagt svo djúpan skafl, að hann nam við kvið. Kartöflugras er með öllu fallið í görðum, sökum frosts og hreta, en ekki hefir verið hægt að sinna því, að taka upp úr, görðunum vegna úrfellis. Lítið sem ekkert hey hefir verið hirt í Eyjafirði síðasta hálfan mánuðinn og er því mikið hey úti í héraðinu. Er það elsta nokkuð tekið að hrekjast, en þó er það eigi skemmt til stóra muna. Veldur því hversu kalt hefir verið í veðri. Hefir heyið haldið sér betur sökum kuldans. Næturfrostin, sem verið hafa að undanförnu, einnig hér sunnan lands, hafa mjög skemmt viðkvæman gróður, eins og kartöflugrös. Víða hefir kartöflugras fallið og sortnað. Það mun hyggilegast fyrir þá garðeigendur, sem þungar búsifjar hafa hlotið af völdum frostsins, að taka kartöflur sínar upp áður en langt líður. Þær munu eigi þroskast héðan af. Hins vegar liggur ekki á að taka strax upp úr görðum, er ekki hafa orðið harðar úti en svo, að grösin eru að verulegu leyti óskemmd og hæf til að sinna náttúrlegu hlutverki sínu.

Morgunblaðið 12. september: 

Síðastliðna sunnudagsnótt [8.september] gerði svo mikið frost á Akureyri, að kartöflugras og annar viðkvæmur gróður eyðilagðist með öllu. Á hverri nóttu snjóar niður í miðjar hlíðar og í fyrramorgun var jörð alhvít niður að sjó og tveggja stiga frost. Víða í sveitum eru mikil hey úti, enda hefir ekki komið þurrkur síðan í lok ágústmánaðar. Þannig eiga bændur í Arnarneshreppi mörg þúsund hesta óhirta af heyi, allt flatt og mikið í ljá. Einnig eru víðast óhirtar töður frá síðari slætti. Í gær var kalt í veðri, suðaustan stormur og snjóél.

Á Bíldudal hefir undanfarið verið óvenju köld og stormasöm tíð. Í fyrradag var þar alhvít jörð og snjólagið um 5 cm á dýpt, og muna elstu menn ekki eftir, að slíkt hafi skeð áður um þetta leyti árs.

Veðurathugunarmenn kvarta einnig undan illri tíð. 

Lambavatn. September: Fyrri hluta mánaðarins var sama tíð og í sumar. Votviðri og kuldi. Um miðjan mánuð gerði þurrk og stillt veður, þar til nú síðast var væta en hlýtt. Menn alhirtu hey viku fyrir göngur.

Flateyri (Hólmgeir Jensson). September: Veðurfarið í þessum mánuði hefur verið í meira lagi úrkomusamt og kalt. Stundum snjóaði á fjöll. Þann 11. varð alhvítt í byggð.

Reykjahlíð (Pétur Jónsson). September: Alveg óvenjulega vond veðurátta í september að þessu sinni. Enginn heyþurrkur fyrr en 5 síðustu dagana. Náðust þá mestöll hey hér í sveit. Hríðar og þokur voru alla þá daga sem fjallgöngur fóru fram.

Fagridalur. September: Yfirleitt köld og úrkomusöm tíð. Oft alhvítt fjöll og stöku sinnum hvítt í byggð. Hey söfnuðust fyrir og náðust ekki fyrr en um mánaðamót.

Nes í Loðmundarfirði (Halldór Pálsson). September: Þann 10. tók ekki snjó af láglendi fyrr en eftir hádegi.

Þann 24.september var talan 36,0 stig lesin af hámarkshitamæli á Teigarhorni. Enginn hefur viljað trúa því. Lesa má um þetta „met“ í gömlum pistli hungurdiska (Hæsti hiti á Íslandi).

Ótíðinni linnti um 10. daga af október og þegar fram yfir 20. kom var farið að tala um blíðviðri. 

Lambavatn. Október: Það hefir verið óvenju góð tíð yfir mánuðinn. Alltaf kuldalaust og oftast stillt veður. Aðeins gránað á fjöll einstöku sinni og alltaf tekið strax af aftur.

Sandur í Aðaldal. Október: Látlaus illviðrakafli til þess 12. Eftir það óslitinn góðviðriskafli. Hlýtt tíðarfar og hægviðrasamt. Alauð jörð allan mánuðinn í lægri sveitum. Allmikið fannfergi til fjalla og hærri heiða.

Reykjahlíð. Október: Hið einkennilegasta við október er hið mikla úrfelli 6.-10. Að morgni 7 var hér 24 cm snjór á sléttu, en þá 45 cm snjór á heiðinni fyrir sunnan og vestan Mývatn. Sauðfé stóð þar í sveltu í 4 daga og varð varla rekið fyrir snjódýpi. Mývatn lagði 25. og var genginn ís 27. Ísinn farinn 31. Yfirleitt góð veðurátta talin frá 11. til mánaðamóta.

Fagridalur. Október: Sérlega úrkomusöm og óstillt tíð, nema síðustu vikuna.

Berustaðir. Október: Það skal tekið fram að tíðarfarið seinni partinn í þessum mánuði var með því allra besta sem þekkist hér á Suðurlandi á þessum árstíma. Hæg austanátt er það albesta sem hægt er að fá hér á haustin.

Nóvember var hagstæður og sama má segja um desember. 

Lambavatn. Nóvember: Það hefir verið fremur stillt tíð og oftast kuldalaust. Farið var að hýsa fé hér á gjafajörðum. Kringum 20. var þá dálítill snjór og umhleypingar.

Sandur. Nóvember: Tíðarfar milt og snjólétt með afbrigðum, en óvenju úrkomusamt fyrstu vikuna. Upp frá því þá stillt tíð og hægviðrasöm með vægum frostum og snjólausri jörð að kalla.

Fagridalur. Nóvember: Tíð hefir verið umhleypingasöm og köld, oft úrkomur.

Lambavatn. Desember: Það hefir verið umhleypinga- og úrkomusamt, en alltaf kuldalítið og snjólétt. Nú síðan fyrir jól hefir verið stillt og gott veður.

Flateyri. Desember: Um 21. gjörði svo mikla veðurkyrrð og stillu með hlýviðri að ég man ekki jafn alblíðu veðurfar um þetta leyti árs.

Sandur. Desember: Óvenju mild veðrátta og auð jörð að kalla allan mánuðinn. Nokkuð hagskarpt um tíma vegna áfrera, en annars voru hagar mjög góðir. Suðrænir vindar með þíðum og hlákum voru ráðandi löngum en frost eða hríð voru nær óþekkt fyrirbrigði.

Reykjahlíð. Desember: Alveg einstaklega góður desember að þessu sinni. Mun sjaldgæfur hér jafn mikill munur á hita dags og nætur á þeim tíma og nú kom fram. Allir vegir bílfærir. Var farið á bíl alla leið í Herðubreiðarlindir 27. desember. Var það eftirleit.

Raufarhöfn (Rannveig Lund) Desember: Sérstakar blíður allan mánuðinn snjólaust með öllu. Þíð jörð marga daga. Bílar ganga um allan vesturhluta sýslunnar til Raufarhafnar.

Fagridalur. Desember: Afbragðsgóð skammdegistíð, mild en fremur óstöðug nema jólavikuna voru sérstök blíðviðri.

Tíminn birti fréttapistla sem gera upp sumarið: 

Tíminn 19.nóvember:

Ásmundur Helgason bóndi á Bjargi við Reyðarfjörð skrifar Tímanum: Veturinn gekk i garð með auðri jörð á hæstu tinda. Nýliðið sumar var undarlegt sambland af ýmsum veðrabrigðum. Samkvæmt dagbók, er ég hefi haldið, er þetta þriðja kaldasta sumar austanlands, sem komið hefir síðan ég tók að skrá athuganir mínar. Hin voru arin 1908 og 1887, en þá lá hafís við Austfirði, kom í 12. viku [snemma í júlí], en fór í 19. viku [ágústlok]. Í hverjum mánuði í sumar snjóaði í fjöll, og frá Jónsmessu til ágústloka voru fáir þeir dagar, að ekki kæmi regnskúr. En stórrigningar voru aðeins einu sinni. Þrátt fyrir kalda tíð, var grasvöxtur á flestum stöðum ágætur. Átti hin sólríka og indæla tíð, sem var hér síðari hluta maímánaðar og fram til Jónsmessu, óefað mestan þátt í því. Þótt svona væri skúrasamt í sumar, hraktist hvorki hey né eldiviður til skemmda. Telja menn, að heyin séu ágætlega verkuð og með meira móti að vöxtum. Garðávextir spruttu yfirleitt frámunalega illa, en þó eru til þeir garðar, sem gáfu betri arð í ár heldur en í hinu góða sumri í fyrra. Best reyndust garðar, þar sem moldin var blandin smásteinum eða sandborin. Sláturfé reyndist illa til frálags í haust og álíta sumir að jafnhliða köldu sumri eigi sök hin illkynjaða lungnaveiki, er var í sauðfénaði víða hér um slóðir í fyrravetur og gerði talsverðan usla.

Tíminn 12. desember:

Jón H. Fjalldal bóndi á Melgraseyri við Ísafjarðardjúp skrifar Tímanum: Í fyrravetur var tíðarfar fremur milt hér vestra og veturinn snjóaléttur. Á heiðunum inn af Langadal og Lágadal gengu sex kindur úti og komu fjórar þeirra til byggða í vor, en tveir hrútar tvævetrir í haust, og voru mjög föngulegir. Ber það sjaldan við, að fé sé úti vetrarlangt hér um slóðir. Elstu menn muna ekki til þess, að sex kindur hafi gengið úti hinn sama vetur. Vorið var kalt og úrfellisamt. Greri því fremur seint og ærpeningur leið vegna þrálátrar krapaúrkomu. Dilkaföllin urðu að meðaltali einu kílógrammi léttari nú heldur en í fyrrahaust. Tún urðu síðsprottin þrátt fyrir alla úrkomuna, en þó í betra lagi áður en lauk. Flestir byrjuðu að slá í byrjun júlímánaðar, fáir fyrr. Nýting töðu varð yfirleitt mjög góð og hið sama má segja um annan heyfeng. Enda þótt votviðrasamt væri í sumar, komu jafnan þurrkdagar öðru hvoru, svo að hey varð varið hrakningum. Heyfengur varð heldur meiri en i meðallagi. Sumarið mun hafa verið eitt hið kaldasta hér við Djúp, hitinn sjaldan meiri en 8-—12 stig. Frost voru ekki teljandi fyrr enn 12. september. Þá kolféll kartöflugras alls staðar. Garðávextir spruttu yfirleitt illa. Kartöfluuppskeran í Nauteyrarhreppi varð minni en i fyrra, en gulrófnauppskera miklum mun lélegri. Kál og gulrætur brugðust að mestu. Annars hefir garðyrkja eflst mjög síðastliðinn áratug og náð almennri útbreiðslu; einkum hefir hún þó aukist síðastliðin tíu ár. Flest heimili við Djúp munu vera sjálfum sér nóg um garðmat i sæmilegu árferði. Í fyrra var kartöfluuppskeran í Nauteyrarhreppi alls 305 tunnur, eða um 2 tn. á mann. Álíka mikil mun garðræktin vera í öðrum hreppum vestan Djúps. Í Norðurhreppunum er öllu örðugra um garðræktina, en áhugi er þar mikill og undraverður sá árangur, er náðst hefir, þar sem vel er í garðana búið.

Tíminn segir frá 10.desember:

Fram að þessu hefir verið ákaflega snjólétt um allt land í vetur. Þó hefir alls staðar fölvað nokkuð og nú í byrjun þessarar viku var, að því er Veðurstofan tjáði blaðinu og símfregnir hafa hermt, nær alls staðar ofurlítið föl á jörðu, Þó var það mjög litið sunnan lands og sums staðar þíð jörð undir fölinu. Til fjalla hefir hins vegar snjóað allmikið, því að úrkoma hefir verið mikil undanfarna daga, einkum á Suðurlandi, og tíðast snjóað, er dró til fjalls, þótt þíða eða krapaúrkoma hafi verið í byggð og láglendi. Er því þung færð fyrir bifreiðar yfir Mosfellsheiði og Hellisheiði, en snjónum er mokað af veginum og leiðinni haldið færri á þann hátt. Vestan lands er hins vegar meiri snjór að sögn, sér í lagi norðan til á Vestfjörðum. Sömuleiðis mun vera nokkur snjór í uppsveitum, til dæmis norðan lands á Hólsfjöllum og í Þingvallasveit á Suðurlandi. Hagar fyrir beitarfénað munu þó víðast góðir, en é stöku stað hefir snjóinn þó lagt illa, þótt lítil sé fönn, svo að storka og hörsl er til baga.

Nokkur sjóslys urðu um haustið, sum trúlega tengd illviðrum. Hér lýkur samantekt hungurdiska um veður og veðurlag ársins 1940. Ýmsar tölulegar upplýsingar eru í viðhenginu. Stafsetningu hefur yfirleitt verið breytt til nútímahorfs. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hvasst í háloftunum

Nú er hvasst í háloftunum yfir landinu - miðað við árstíma. Tveir litlir, en snarpir kuldapollar eru að fara til austurs fyrir norðan land, sá fyrri í dag (föstudag 3.júní), en sá síðari á sunnudaginn. Öflugur hæðarhryggur er hins vegar fyrir sunnan land og virðist hann ætla að halda meginkuldanum frá landinu - að mestu. Hryggurinn kemur svo yfir landið á mánudaginn - en slaknar jafnframt. 

Á hádegi í dag mældist vindur í 500 hPa yfir Keflavíkurflugvelli 37 m/s - og verður e.t.v. heldur meiri þegar mælt verður í kvöld. Spá evrópureiknimiðstöðvarinnar gerir ráð fyrir að vindur í 500 hPa fari í um 50 m/s yfir Snæfellsnesi og Breiðafirði í kvöld. Þetta gefur tilefni til að gramsa í gögnum og spyrja hver sé mesti vindur sem mælst hefur yfir Keflavík í júní - og hvort vindur dagsins sé óvenjulegur. 

Í ljós kemur að við eigum tvö dæmi þess að vindur í 500 hPa hafi náð 60 m/s yfir Keflavík í júní. Langt er orðið síðan. Fyrra skiptið var 23. júní 1953, en þá var vindur af suðsuðaustri. Ekki fréttist af neinu tjóni á landinu, en gríðarmikið rigndi á Suðausturlandi. Síðara tilvikið var 13. júní 1959. Þá var vindur af vestsuðvestri, svipað og nú (og í öllum öðrum tilvikum sem hér er minnst á). Í því tilviki fylgdu veruleg leiðindi veðrinu - eins og bestupplýstu veðurnörd muna (auðvitað) - og stóðu í marga daga. 

Hæsta talan frá síðari árum er 49,9 m/s sem mældust í 500 hPa yfir Keflavík þann 8. júní árið 2015. Óttalega leiðinlegt veður (og minnst á það í stuttum pistli hungurdiska). Svipaður vindhraði (47,7 m/s) mældist yfir Keflavík 25.júní 2018 og veðrið þá daga fékk líka smáumfjöllun á vettvangi hungurdiska (bæði fyrir, og eftir). Næst á eftir, neðar á metalistanum eru svo tilvik frá 1992, 1962 og 1988, öll með vindhraða yfir 45 m/s í 500 hPa og öll tengd leiðindum af ýmsu tagi. - En við getum huggað okkur við að tilvikið nú er heldur vægara - og kuldapollarnir tveir ekki eins afgerandi kerfi og þau sem talin hafa verið upp. 

w-blogg030622a

Hér má sjá sunnudagskuldapollinn, kort evrópureiknimiðstöðvarinnar gildir kl.15 síðdegis á sunnudag fyrir 500 hPa-flötinn.. Hringur er utan um blett þar sem vindur er 50 m/s. Vindur yfir Keflavík er talsvert minni. Þó ekki sé gert ráð fyrir sérlega miklum vindi í mannheimum er samt fulla ástæða fyrir ferðalanga á landi og á sjó að gefa veðri og spám gaum um helgina. 

Viðbót: Að kvöldi 3. júní mældist vindhraði í 500 hPa 47,9 m/s yfir Keflavík. Það er það þriðjamesta sem vitað er um í júnímánuði yfir stöðinni (athuganir að mestu samfelldar frá 1952). 


Meira af maí

Loftþrýstingur var með lægra móti í maímánuði, þó ekki eins lágur og fyrir fjórum árum, 2018. 

w-blogg010622a

Kortið (að vanda úr smiðju BP og evrópureiknimiðstöðvarinnar) sýnir meðalsjávarmálsþrýsting (heildregnar línur) og þrýstivik (litir). Á bláu svæðunum er þrýstingur neðan meðallags, hér á landi um -6 hPa. Austan og norðaustanáttir voru því tíðari heldur en að meðallagi. 

w-blogg010622b

Þrátt fyrir norðaustanáttina var ekki kalt. Vestanáttin í háloftunum var lítillega sterkari en að meðallagi, en sunnanátt nærri meðallagi (heildregnar línur sýna meðalhæð 500 hPa-flatarins. Daufar strikalínur sýna þykktina, en litir þykktarvik. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs og var hún lítillega  yfir meðallagi yfir landinu - enda var hiti víðast hvar ofan meðallags. Kalt var á Grænlandi og sömuleiðis austur í Finnlandi, en mjög hlýtt á Spáni og í Frakklandi og yfir hluta Kanada. 

Mánaðarmeðaltalið felur nokkra tvískiptingu veðurlags í mánuðinum. Kalt var framan af, og var sá hluti hans í flokki 3 til 4 köldustu á öldinni, en síðan rétti hitinn sig af og síðari hlutinn var hlýr, og nokkrir dagar mjög hlýir. 


« Fyrri síða

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 20
  • Sl. sólarhring: 214
  • Sl. viku: 985
  • Frá upphafi: 2420869

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 864
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband