Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2021

Af ákveðnum degi í desember 1980.

Á laugardaginn var (6.nóvember 2021) hittist þannig á að töluvert snjóaði í neðanverðum Borgarfirði, en sáralítið úti á Hafnarmelum, þar sunnan við og sömuleiðis ofar í Borgarfirði og vestan við. Þetta er út af fyrir sig ekki óalgengt, alla vega man ritstjóri hungurdiska eftir allmörgum slíkum tilvikum. Munur á veðri og hitafari getur verið býsnamikill þótt stutt sé milli staða - ekki síst í nágrenni brattra fjalla.

Af einhverjum ástæðum rifjaði þetta upp dag fyrir rúmum 40 árum. Þá var ritstjórinn á vakt á spádeild Veðurstofunnar og átti í símaviðskiptum við menn sem börðust við vinnu sína í miklum hríðarbyl uppi í Borgarfirði. Jú, veðurskeyti frá Síðumúla sýndu einmitt slíkan byl - engin ástæða til að efast um það, en það er sérstaklega minnisstætt að frá Veðurstofunni séð sást þá síðdegis vel til Skarðsheiðar og nánast þar upp á topp og í Reykjavík var besta veður, vindur hægur og góð hláka. 

w-blogg081121a

Hér má sjá veðurkort um hádegi þennan dag, mánudaginn 8.desember 1980 (sem er víst dagurinn sem John Lennon var myrtur á götu í New York). (Kortið skýrist nokkuð sé það stækkað). Sjá má að í Reykjavík er vindur hægur af norðaustri, lítilsháttar rigning og súld, skyggni 20 km og hiti 3 stig. Í Síðumúla var hins vegar vindur allhvass af norðaustri (15 m/s) í snjókomu, 500 metra skyggni og -3 stiga frosti. Úrkomulítið var vestur á Snæfellsnesi, en hríðarveður fyrir norðan - einkum þó í útsveitum. Eins snjóaði fyrir austan og vestur með suðausturströndinni. Slydda var í uppsveitum austanfjalls, en rigning við sjóinn - og á Þingvöllum rigndi líka. 

w-blogg081121b

Atlantshafskortið sýnir skarpt lægðardrag við Suðurland - lægðabylgjur berast í því til austurs fyrir sunnan land - á milli hæðar yfir Grænlandi og annarrar yfir Frakklandi. Við tökum eftir því að jafnhitalínur 850 hPa-flatarins eru mjög þéttar yfir landinu. Frostlaust er í um 1400 metra hæð yfir Suðurlandi, en hátt í -15 stiga frost í sömu hæð rétt norður af landinu. 

w-blogg081121c

Háloftakortið sýnir að ákveðin vestanátt er yfir landinu og mikill þykktarbratti. Af kortunum öllum má ráða að kalt loft úr norðri nær að stinga sér undir það hlýja. Við skilyrði sem þessi hafa fjöll mun minna að segja varðandi úrkomumyndun heldur en oftast er. Það sem ætti að vera þurr austanátt á Vesturlandi er það ekki - austanvindurinn er bara „plat“. Við höfum hér á hungurdiskum kallað þennan viðsnúning vindátta með hæð öfugsniða. Freistandi líka að grípa hið gamla heiti „hornriði“ - gott að eiga það á lager, en ritstjóranum er ekki alveg vel við að gera það að skilgreindu tækniheiti, því það er það ekki. 

Þetta veður olli engu tjóni svo vitað sé, en tafði þó ferðalanga og var útivinnandi mjög til ama í Borgarfirði. 

Á kortinu að ofan var munurinn á hita í Reykjavík og Síðumúla 6,1 stig. Hann hefur auðvitað oft verið enn meiri. Gerum við þá kröfu að vindur í Síðumúla sé meiri en 10 m/s - þar sé frost, en frostlaust í Reykjavík á sama tíma er mesti munur sem við finnum frá 1949 að telja 11,3 stig. Í næsta pistli skulum við rifja upp veðrið þann dag, 9. febrúar 1971. 


Smávegis af október

Í fljótu bragði virðist sem staðan í háloftunum hafi verið ekki fjarri meðallagi yfir Íslandi í október. Það eru þó atriði sem vekja eftirtekt. 

w-blogg011121va

Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar - meðalhæð flatarins var mjög nærri meðallagi. Slitnu, daufu línurnar sýna þykktina, en litir þykktarvikin. Við sjáum að þykktin var lítillega yfir meðallagi áranna 1981 til 2010. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Meðalvindátt var rétt norðan við vestur og vindstyrkur nærri meðallagi. Við jörð var norðaustanátt ríkjandi, talsvert meiri en að meðallagi - við sjáum það reyndar að nokkru á þessu korti því jafnþykktarlínurnar eru þéttar. Það eru hlýindin við Baffinsland sem eru auðvitað óvenjulegust á þessu korti - fyrir nokkrum dögum bárust fréttir af því að menn keyrðu enn um í drullu í Igaluit (Frobisher Bay). Það er mjög óvenjulegt seint í október og væntanlega ekki viðvarandi staða. 

Það var ekki sérlega auðvelt að finna ámóta (hálofta-) október. Sting kannski upp á október 1970. Þá var alla vega vestanorðvestanátt í háloftum, en norðaustanátt ríkjandi í neðribyggðum eins og nú - þykktar- og hæðarvik voru svipuð - en norðaustanáttin ekki jafnstríð og nú.

w-blogg011121vb

Þá var líka hlýtt á Baffinslandi - en ekki þó nærri því eins og núna. Heldur svalara var hér á landi og úrkomudreifing önnur. Þar réði miklu stór úrkomuatburður sunnanlands og vestan um miðjan mánuð. Mætti kannski rifja betur upp. Í atburðaskrá ritstjóra hungurdiska segir:

Þ. 16. til 17. október 1970: Mikil skriða féll við Eyri í Kjós, kringum bæjarhúsin en ekki á þau. Skriða féll á Tindstöðum á Kjalarnesi, tók vatnsleiðslu, fyllti vatnsból og eyðilagði skrautgarð. Vegaspjöll í Borgarfirði vegna stórrigninga.

Í nýliðnum október var úrkoma hins vegar í minna lagi suðvestanlands, en því meiri á Norðurlandi. Ekki hefur oft mælst meiri úrkoma á Akureyri í október. Sýnist í fljótu bragði að úrkoma í október hafi þar einu sinni mælst meiri en nú og að talan nú verði sennilega í 6. úrkomumesta sæti allra mánaða. En endanlegar tölur koma fljótlega frá Veðurstofunni. 

Við þökkum BP að vanda fyrir kortagerðina.

 


« Fyrri síða

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 20
  • Sl. sólarhring: 214
  • Sl. viku: 985
  • Frá upphafi: 2420869

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 864
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband