Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2020

Smávegis af apríl

Mjög kalt var í veðri framan af aprílmánuði og útlit var fyrir að hann yrði í hópi hinna köldustu á öldinni. Þó ekki sé beinlínis hægt að tala um hlýindi síðustu tíu dagana hafa þeir samt verið góðir og nægt til þess að koma hitanum upp í meðallag síðustu tíu ára á landsvísu og upp í 9. til 13. sæti (af 20) á aldarlista hinna mismunandi spásvæða. Hlýjast að tiltölu hefur verið á Norðausturlandi, þar er mánuðurinn í 9.hlýjasta sæti á öldinni, en kaldast að tiltölu hefur verið á Suðurlandi, þar er hann í 13.sæti. Til lengri tíma litið telst mánuðurinn í hlýja þriðjungi, á landsvísu í 33. hlýjasta sæti af 147. 

Úrkoma í Reykjavík mældist 74,6 mm - það er í ríflegu meðallagi. Á Akureyri mældist úrkoman 33,1 mm sem er líka rétt ofan meðallags. Þetta eru óstaðfestar tölur. 

Lengi vel var mjög sólarlítið í Reykjavík, en síðustu dagar hafa verið óvenjusólríkir. Endanleg summa liggur ekki fyrir, en gæti orðið í kringum 115 stundir. Það er nokkuð undir meðallagi. Fæstar sólskinsstundir sem við vitum um í apríl í Reykjavík mældust 1974, 57,2, en flestar 242,3 árið 2000. Í fyrra mældust sólskinsstundir í apríl 116,4 í Reykjavík. Á Akureyri eru sólskinsstundirnar á sjálfvirka mælinum nú orðnar rúmlega 180 - en við bíðum fram í næstu viku með uppgjör úr þeim hefðbundna. Líklega telst apríl sólríkur á Akureyri. 

Illviðrið snemma í mánuðinum er í flokki hinna verstu í apríl. Sennilega í hópi þeirra 10 verstu síðustu 100 árin.  


Öðruvísi mér áður brá

Undanfarna daga hafa fréttir borist um ísrek í Grænlandssundi og að ísinn hafi nálgast land. Þessar fréttir eru auðvitað réttar og alltaf ástæða til að vara sæfarendur við jökum. En sannleikurinn er samt sá að sérlega lítið er af ís á þessum slóðum. Það litla sem er er sundurtætt og nánast hvergi um samfelldan ís að ræða í sundinu. 

w-blogg300420a

Hér má sjá klippu úr modis-gervihnattamynd sem birtist á vef Veðurstofunnar í gær (29.apríl). Það er með ólíkindum hvað ísmagnið er rýrt miðað við árstíma, ef öllu væri safnað saman yrði úr örmjór straumur suðvestur sundið. 

Ísinn liggur í röstum - sem mótaðar eru af straumum og vindi - og iðuvarðveislu (engin miskunn þar). 

Öðruvísi mér áður brá. Athygli vekur að autt er með nánast allri Blosseville-strönd. Sjálfsagt gerist það alloft að vindur hreinsi ís þar frá á mjóu belti, en þetta er að jafnaði hvað óaðgengilegasta svæði á allri Grænlandsströnd sunnan 75. breiddarstigs. Ófær ís er oft á þessum slóðum allt sumarið. Gera má ráð fyrir því að forfeður okkar hafi einhvern tíma séð til strandar á þessum slóðum á sínum tíma og trúlega eitt og eitt skip á síðari öldum. Ströndin er kennd við franskmanninn Jules de Blosseville sem sá þar til strandar 1833, laskaði skipið - sneri til Íslands til viðgerðar. Þegar henni var lokið reyndi hann aftur - en til hans og áhafnar hans hefur ekki spurst síðan. Inúítar höfðu auðvitað farið þarna hjá, en Blossevilleströnd, frá Kangerlussuaqfirði (þar sem þeir höfðu talverða sumarútgerð á stundum) norður til Brewsterhöfða sunnan Scoresbysunds var rýr vegna ísa og illviðra. 

Frá erfiðri könnunarsögu Austur-Grænlands er sagt í góðri bók - titillinn er að vísu fádæma kauðalegur - (sjá mynd hér að neðan). 

Still000535

Á árum áður var sum sé nánast aldrei íslaust á þessum slóðum - jafnvel þó íslítið væri norðar. 

Satt best að segja er ritstjóri hungurdiska undrandi á þessari ísrýrð á þeim árstíma þegar ísmagn er venjulega í hámarki á þessum slóðum. Hefur þó gerst áður. Ekki hefur ritstjórinn neitt vit á lífkerfi hafísslóða - en ástand sem þetta hlýtur að reyna nokkuð á. 

En eins og sagði í upphafi er allaf rétt að gefa ísnum gaum - hann getur valdið hættu fyrir sæfarendur og svo er spurning um ísbirni á hrakningi. 


Nýleg háloftamet

Ritstjóri hungurdiska fylgist með háloftaathugunum yfir Keflavíkurflugvelli og gefur nýjum metum þar gaum. Háloftathuganir eru að vísu býsna gisnar, lengst af gerðar aðeins tvisvar á dag (um tíma þó fjórum sinnum). Sömuleiðis er stöðin einmana. Líkur á að ýmiskonar Íslandsmet fjúki hjá - án þess að nást á mæla - eru því allmiklar. Svo bilar stöðin stundum og athuganir falla niður um stund. Tímaraðir neðri flata, upp í 100 hPa eru þó allsæmilegar aftur til 1952 og efri flatanna aftur til 1973. Mælingar í efri flötum frá 1952 til 1972 eru þó til - en ekki á tölvutæku formi. Seinlegt er að leita meta í slíkum gögnum. Neðsti staðalflöturinn, 925 hPa komst ekki í flokk þeirra útvöldu fyrr en seint og um síðir og eigum við ekki til gögn úr honum nema aftur til 1993. 

Slæðingur af mánaðametum féllu í vetur - fleiri en í fyrra. Við höfum áður skýrt hér frá októberkuldametinu í 500 hPa fletinum, þann 24. mældist frostið í honum -43,2 stig. Nú í apríl féllu mánaðarlágmarkshitamet í allmörgum flötum - frá 400 hPa og upp í 50 hPa, ekki öll þó sama daginn. Flest tengdust þau illviðrinu mikla sem hér gerði helgina þann 4. og 5.apríl - því sem olli fannferginu í Hveragerði og víðar. 

Í 100 hPa-fletinum (rúmlega 15 km hæð) voru þá sett bæði mánaðarlágmarkshita- og lágstöðumet (flöturinn hefur aldrei mælst lægri í apríl). Lágmarkshitametið var sett þann 4. kl.18, -73,0 stig, en lágstöðumetið sama morgun kl.11, 15150 metrar. 

Við lítum á kort evrópureiknimiðstöðvarinnar kl.18 - bæði fyrir 100 hPa og sjávarmál.

w-blogg290420a

Lægsti hitinn í kerfinu er reyndar austan við land, -76 stig. Mikið og vaxandi lægðakerfi fyrir sunnan land olli þessum mikla kulda. Hlýtt loft úr suðri lyfti veðrahvörfunum - og öllu þar ofan við. Þegar loft lyftist kólnar það rækilega - við getum því - óbeint - séð atganginn neðar með því að fylgjast með hitabreytingum þarna uppi. Veðrahvörfin voru mjög neðarlega við Ísland - en lágmarksmetin féllu eins og áður sagði í 400 hPa og ofar - ofan veðrahvarfa.

w-blogg290420b

Sunnanáttin mikla í veðrahvolfinu sést mjög vel á sjávarmálskortinu - og þrengir að kuldanum norður undan. Enda fengum við aldeilis að finna fyrir átökunum. 

Aðeins nokkrum dögum áður höfðu hins vegar mánaðarhástöðumet hrunið umvörpum (fletir stóðu sérlega hátt) - allt frá jörð (þar sem sjávarmálsþrýstingur var í hæstu hæðum) og upp í 200 hPa - um það bil veðrahvarfahæð þann daginn).

w-blogg290420c

Kortið sýnir nýja marsmetið í 300 hPa, hæðin á fletinum yfir Keflavík mældist 9350 metrar kl.11 þann 29.mars. Gríðarmiklar sviptingar í veðri. 

Í mars var líka sett mánaðarhámarkshitamet í 20 hPa-fletinum, -22 stig þann 22. Mikil viðbrigði frá nýja lágmarkshitametinu í þeim fleti sem sett var í janúar, -92 stig, 70 stiga munur. Frá lágmarkshitametinu var sagt í pistli hungurdiska 3.janúar í vetur.

Svo er lengi von á einum - eins og sagt er. Því fyrir nokkrum dögum var sett nýtt met í hæð 70 hPa-flatarins yfir Keflavík, hæð hans fór í 18660 metra þann 22.apríl, og líka þann 23. Við erum ekki með kort á hraðbergi fyrir þann flöt.

Allt eru þetta út af fyrir sig merkir atburðir - þó fáir kunni að meta þá - nema allraallraæstustu veðurnörd (og þau meira að segja varla). Þeir sem vilja smjatta geta litið á viðhengið.   


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Vetrarhitinn

Nú er vetrarmisseri íslenska tímatalsins liðið, sumardagurinn fyrsti er á morgun, 23.apríl. Heldur hefur verið illviðrasamt á landinu allt fram í byrjun þessa mánaðar. Nóvember var að vísu óvenjuhægur en snemma í desember skipti um yfir í skakviðri og hríðar. Síðasti hálfi mánuður hefur verið öllu skárri, sérstaklega um landið norðaustan- og austanvert. 

w-blogg220420a

Myndin sýnir hita vetrarmissera í Reykjavík 1872 til 2020. Meðalhiti nú var +1,1 stig, -0,3 stig neðan meðallags síðustu 30 vetra. Það er það lægsta frá vetrinum 2000 til 2001 að telja, en eins og greinilega má sjá á myndinni sker sá nýliðni sig ekkert úr - hiti hefur nokkrum sinnum á öldinni verið mjög ámóta og nú, síðast 2017-18. Þeir sem vel sjá taka eftir rauðri punktalínu sem liggur þvert yfir myndina, markar sú meðalhitann nú. Það má taka eftir því að allan tímann frá og með vetrinum 1965-66 að telja og allt fram til aldamóta voru ekki nema 6 vetur hlýrri en sá nýliðni. Á (vetra-) hlýskeiðinu 1921 til 1965 voru 23 vetur (af 65) hlýrri en sá nýliðni. Á hlýskeiðinu mikla 1931 til 1960 var vetrarmeðalhiti í Reykjavík 1,2 stig, nánast sami og nú - meðalhlýr hlýskeiðsvetur. En illviðri hafa verið ríflega umfram meðallag. 

Á Akureyri er meðalhiti vetrarins 2019 til 20 -0,3 stig, kaldast frá 2015-16 og í Stykkishólmi var meðalhiti vetrarins +0,6 stig, kaldast frá 2001-02. 

Eins og venjulega vitum við ekkert um framhaldið - það er frjálst. En ritstjóri hungurdiska óskar lesendum og velunnurum öðrum gleðilegs sumars. 

Þeir sem vilja geta rifjað um gamla pistla tengdan sumardeginum fyrsta (vonandi eru þeir ekki úreltir). Sumardagurinn fyrsti - sundurlausir fróðleiksmolarÞegar frýs saman - sumar og vetur - þá hvað?


Fyrstu 20 dagar aprílmánaðar

Þetta líður víst allt saman - meðalhiti 20 fyrstu daga aprílmánaðar er +2,8 stig í Reykjavík, -0,4 neðan meðallags áranna 1991 til 2020, en -1,0 stigi neðan meðallags sömu daga síðustu tíu árin. Meðalhitinn er nú í 15.hlýjasta sæti (af 20) á öldinni. Hlýjastir voru dagarnir 20 árið 2003, meðalhiti +6,0 stig, en kaldastir voru þeir 2006, meðalhiti þá +0,9 stig. Á langa listanum er hiti nú í 62.sæti (af 146). Hlýjast var 1974, meðalhiti +6,1 stig, en kaldast 1876, meðalhiti -3,7 stig.

Það hefur verið hlýtt fyrir norðan undanfarna daga. Meðalhiti fyrstu 20 daga mánaðarins á Akureyri er +2,0 stig, -0,1 stigi neðan meðallags áranna 1991 til 2020, en -0,8 neðan meðallags síðustu tíu ára.

Að tiltölu hefur verið einna kaldast við Breiðafjörð, hiti þar í 17.sæti á öldinni, en hlýjast á Norðurlandi eystra, Austurlandi að Glettingi og Austfjörðum, hiti í 13.hlýjasta sæti á öldinni.

Hiti er enn undir meðallagi síðustu tíu ára á öllum veðurstöðvum, vikið er minnst í Sandbúðum, -0,1 stig, en mest á Flateyri og á Bröttubrekku, -1,8 stig.
Úrkoma hefur mælst 69,8 mm í Reykjavík, það er um 50 prósent umfram meðallag. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 33,1 mm, líka í kringum um 50 prósent umfram meðallag.

Sólskinsstundir hafa mælst 52,9 í Reykjavík í mánuðinum til þessa, um 50 stundum undir meðallagi sömu daga síðustu tíu ára - og hafa aðeins 5 sinnum mælst færri sömu daga (110 ár).

Svo virðist sem eitthvað sem við getum kallað hófleg hlýindi séu framundan - en þó gæti næturfrostum brugðið fyrir nótt og nótt sé vindur hægur og bjart í lofti.


Gamall pistill um Grænland

Þeir sem liggja mikið yfir gervihnattamyndum reka sig fljótt á að oftast er auðvelt að finna Grænland - þó skýjasúpa liggi gjarnan yfir Íslandi og umhverfi. Á síðustu árum er að vísu búið að útbía flestar þær myndir sem á borð eru bornar með útlínum landa, breiddar- og lengdarbaugum þannig að sérstaða Grænlands er nú kannski ekki alveg jafn augsýnileg og var á þeim árum sem ritstjóri hungurdiska þurfti vegna starfa sinna sem mest að rýna í myndirnar. 

En hvað um það. Árið 1988 birtist grein með nafninu „Sunny Greenland“ í riti breska veðurfræðifélagsins [Quarterly Journal of the Royal Meteorological Society]. Höfundur var Richard S. Scorer, mjög þekktur maður í faginu og höfundur kennslubóka og fjölda greina. Kom reyndar hingað til lands um þær mundir, var ráðgjafi við kaup á veðursjá - sem síðan var sett upp á Miðnesheiði. Ritstjóri hungurdiska var svo heppinn að fá spjallstund með honum. Aðallega var rætt um gervihnattamyndir og svo umrædda Grænlandsgrein. Afskaplega ánægjuleg stund. Greinin er því miður lokuð almenningi - bakvið greiðslugirðingu. Ritsjórinn er svona eftir á að hyggja e.t.v. ekki alveg sammála öllu sem þar stendur, en eftir situr nafn greinarinnar og sá sannleikur sem í því fellst. 

Í samantekt greinarinnar stendur m.a. (í mjög lauslegri þýðingu): „Óvíða í heiminum er meira skýjað en á Svalbarða, Íslandi og öðrum svæðum [í nágrenni Grænlands], en aftur á móti er Grænland sólskinsstaður“. Ástæður þessa eru ræddar í greininni - stærð landsins, hálendi og síðast en ekki síst viðvarandi niðurstreymi lofts niður eftir jökladölum landsins. 

En víkur nú til 12. og 13.aldar. Í norrænu fræðsluriti frá þeim tíma „Konungsskuggsjá“ er furðumikið fjallað um Grænland og ekki nóg með það heldur er líka greinilegt að sá sem skrifar veit vel um hvað hann er að tala. Hefur jafnvel reynt á eigin skinni. Hér verður sjónum aðeins beint að einu atriði - hinu sólríka Grænlandi.

Við notum hér norska uppskrift úr handriti sem gefin var út á prenti í Kristjaníu 1848:

[Þ]að vitni bera flestir Grænalandi, þeir sem þar hafa verið, að kuldinn hefir þar fengit yfrið afl sitt, og svo ber hvervetna vitni á sér landið og hafið, að þar er [gnógt] orðið frostið og meginafl kuldans, því að það er bæði frosið um vetrum og sumrum, og hvorttveggja ísum þakt.

En þar er þú spurðir eftir því, hvort sól skín á Grænalandi, eða verði það nokkuð sinni að þar sé fögur veður, sem í öðrum löndum, þá skaltu það víst vita, að þar eru fögur sólskin, og heldr er þat land veðurgott kallað. En þar skiptist stórum sólargangur, því að þegar sem vetur er, þá er þar nálega allt ein nótt, en þegar er sumar er, þá er nálega sem allt sé einn dagur; og meðan er sól gengur hæst, þá hefir hún ærið afl til skins og bjartleiks, en lítið afl til yljar og hita; en hefir hún þó svo mikið afl, at þar sem jörðin er þíð, þá vermir hún svo landið, at jörðin gefur af sér góð grös og vel ilmandi, ok má fólkið fyrir því vel byggja landið, þar sem það er þítt, en það er afar lítið.

En þar er þú ræddir um veðurleik landsins, að þér þótti það undarlegt, hví það land var veðurgott kallað, þá vil ég það segja þér, hversu því landi er farið. Þeim sinnum er þar kann illviðri að verða, þá verðr það þar með meiri ákefð en í flestum stöðum öðrum, hvorttveggja um hvassleik veðra og um ákefð frosts og snjóa. En oftast halda þar illviðri litla hríð, og er langt í millum að þau koma, og er þá góð veðrátta millum þess, þó að landið sé kalt, og verður því náttúra jökulsins at hann verpur af sér jafnan köldum gust, þeim sem élum hrindur brott af hans andliti, og heldur hann oftast beru höfði yfir sér. En jafnan gjalda hans þó nálægir grannar, því að öll önnur lönd, þau er í nánd honum liggja, þá taka mikil illviðri af honum, og koma þau öll þá á, er hann hrindur af sjálfum sér með köldum blæstri.

SPECULUM REGALE. KONUNGS-SKUGGSJÁ. Christiania 1848 [R. Keyser. P.A. Munch. C.R. Unger], s.45 til 47.

Við skulum til áherslu endurtaka það síðasta:

„og verður því náttúra jökulsins at hann verpur af sér jafnan köldum gust, þeim sem élum hrindur brott af hans andliti, og heldur hann oftast beru höfði yfir sér“.

Strax og hvíldarstund gefst frá sífelldum lægðagangi hérlendis og um hægist sýna íslenskir jöklar sama eðli. Oft er hreint yfir þeim þó skýjað sé í kring. Þessu veldur hið sama niðurstreymi og verður yfir Grænlandsjökli. Sá stóri er þó svo umfangsmikill að hann getur haft áhrif á lægðirnar sjálfar og þá loftstrauma sem bera þær. Þeir íslensku eru þar ekki hálfdrættingar þó eðlið sé hið sama.  


Fyrri helmingur aprílmánaðar

Fyrri helmingur aprílmánaðar hefur verið kaldur á landinu. Meðalhiti í Reykjavík er +1,5 stig, -1,4 stigum neðan meðallags sömu daga árin 1991 til 2020, en -2,1 stigi neðan meðallags síðustu tíu ára og í 17. til 18.sæti á hlýindalista aldarinnar. Kaldastir voru sömu dagar árið 2006, meðalhiti +0,4 stig og +1,0 árið 2005. Hlýjastir voru sömu dagar 2003, meðalhiti +5,1 stig. Á langa listanum er hitinn nú í 89. til 90.sæti (af 146). Kaldastir voru sömu dagar 1876, meðalhiti þá -4,1 stig, en hlýjast var 1929, meðalhiti +6,6 stig.

Meðalhiti dagana 15 á Akureyri er +0,1 stig, -1,5 stigi neðan meðallags 1991 til 2020, en -2,3 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára.

Að tiltölu hefur verið kaldast um landið vestanvert, þar er hitinn í 18. sæti af 20 á öldinni, en hlýjast á Austfjörðum þar sem hann er í 14. hlýjasta sæti (6 kaldari en nú).
Hiti er neðan meðallags síðustu tíu ára á öllum veðurstöðvum, minnst er vikið í Kvískerjum í Öræfum, -1,0 stig, en mest -3,1 stig í Þúfuveri.

Úrkoma hefur mælst 43,6 mm í Reykjavík sem er í ríflegu meðallagi, en 31,8 mm á Akureyri, það er nærri tvöföld meðalúrkoma sömu daga.

Sólskinsstundir hafa mælst 51,0 í Reykjavík. Það er nokkuð undir meðallagi.


Fyrsti þriðjungur aprílmánaðar

Fyrsti þriðjungur apríl hefur verið kaldur hér á landi. Meðalhiti í Reykjavík er -0,1 stig, -2,7 stigum neðan meðallags sömu daga áranna 1991 til 2020 og -3,6 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Þetta er kaldasta aprílbyrjun á öldinni. Hlýjastir voru sömu dagar árið 2014, meðalhiti þá +6,0 stig. Á langa listanum er hitinn í 120.sæti (af 146). Hlýjast var 1926, meðalhiti +6,6 stig, en kaldast 1886, meðalhiti -4,4 stig.

Á Akureyri er meðalhiti fyrstu tíu daga mánaðarins -1,8 stig, -3,0 stigum neðan meðallags 1991 til 2020, og -3,7 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára.

Þetta er kaldasta aprílbyrjun aldarinnar (20.hlýjasta sæti) á svæðinu frá Mýrdal, vestur og norður um til Stranda og Norðurlands eystra. Á Suðausturlandi er þetta næstkaldasta aprílbyrjun en á Austurlandi, Austfjörðum og á Miðhálendinu sú þriðjakaldasta (18. hlýjasta sæti).

Hiti er langt neðan meðaltals á öllum veðurstöðvum. Miðað við síðustu tíu ár er neikvæða vikið mest við Búrfell (-4,8 stig), en minnst á Steinum undir Eyjafjöllum (-1,9 stig).

Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 35,8 mm - vel umfram meðallag, en 31,3 mm á Akureyri, nærri þrefalt meðallag (þó vantar nokkuð upp á met).

Sólskinsstundir hafa mælst 34,6 í Reykjavík, nokkuð undir meðallagi.


Eru bjartir dagar hlýrri en þeir alskýjuðu?

Svar við spurningunni er auðvitað ekki algilt. Það fer bæði eftir stað, árstíma og fleiri þáttum. En hið almenna svar - það sem tengist meðaltölum - er samt það að í Reykjavík er sólarhringsmeðalhiti hærri þegar alskýjað er heldur en léttskýjað - nema á tímabilinu frá því svona viku af júní og rétt fram í ágústbyrjun. Um maí má segja að meðalhiti sé hærri upp síðdegis á sólardögum heldur en þegar alskýjað er, en mestallan sólarhringinn eru alskýjuðu dagarnir hlýrri. 

Við skulum byrja á því að sjá hvernig þessu er háttað í aprílmánuði - á árunum 1997 til 2019 í Reykjavík.

w-blogg100420a

Blái ferillinn sýnir meðalhita hverrar klukkustundar þá daga sem alskýjað var á þessum árum (meðalskýjahula sólarhringsins meiri en 7,5 áttunduhlutar). Munur á hita dags og nætur er ekki mjög mikill - rétt rúm 2 stig. Rauði ferillinn sýnir meðalhita hverrar klukkustundar þegar léttskýjað er (meðalskýjahula sólarhringsins minni en 3 áttunduhlutar). Eins og sjá má er þónokkuð kaldara í bjartviðrinu, meira að segja um miðjan daginn. Dægursveiflan er mun meiri - hátt í 5 stig. 

Ástæða þessa ástands er fyrst og fremst sú að bjartviðrið er mest í norðlægum áttum - þær eru í eðli sínu kaldar. Þó sólin sé dugleg að hita að deginum nær hitinn samt ekki því sem gerist þegar alskýjað er - þá er áttin oftast suðlæg. 

Þegar kemur fram í maí minnkar munurinn á rauðu og bláu ferlunum, rauði ferillinn fer rétt upp fyrir þann bláa frá því kl.15 til kl.19 (0,4 stig þegar mest er), en sólarhringsmeðaltal björtu dagana er samt lægra. 

Á Akureyri víkur þessu öðru vísi við.

w-blogg100420b

Hér eru björtu dagarnir hlýrri en þeir skýjuðu - ívið kaldara yfir blánóttina, en en eftir kl.8 er hiti þeirra björtu kominn með vinninginn. Þegar bjartviðri er á Akureyri er ríkjandi vindur af landi - eða hægur (þar til hafgolan dettur inn). Hér eru tölurnar frá árunum 2006 til 2019 - mældar við Krossanesbrautina.

Við lítum líka á júlímánuð.

w-blogg100420c

Jú, nú eru björtu dagarnir í Reykjavík hlýrri en þeir alskýjuðu - mestallan sólarhringinn. Það eru aðeins fáeinar klukkustundir síðla nætur sem eru kaldari bjartar en skýjaðar. Örvarnar benda á tvær „axlir“ á rauða ferlinum. Á morgnanna stefnir hitinn hratt upp - en síðan er eins og hik komi á hækkunina - skyldi þetta vera hafgolan? Eins er síðdegis - hitinn tregðast við að falla fram undir kl.20. Þegar mesti broddurinn er úr hafgolunni er eins og hitinn hiki við að falla - er það síðdegislandloftið að austan sem kemur yfir borgina? Það er furðuoft sem hámarkshiti dagsins í Reykjavík er ekki náð fyrr en um og uppúr kl.18 (valdandi hitauppgjörsvanda sem hefur oft verið rakinn á hungurdiskum). 

w-blogg100420d

Á Akureyri er staðan svipuð - smástund yfir blánóttina í júlí þegar kaldara er á björtum dögum en skýjuðum. En - það kemur mikið hik á hlýnun frá og með kl.12 - hiti helst svipaður allt fram til kl.19. Trúlega er þetta hafgolan - bjartir dagar þegar hennar gætir ekki eru hlýrri. (En um það fjöllum við ekki hér og nú). 

Að lokum athugum við mun á sólarhringsmeðalhita alskýjaðra og léttskýjaðra daga í Reykjavík og á Akureyri í öllum mánuðum ársins.

w-blogg100420e

Bláu súlurnar sýna tölur frá Reykjavík. Mjög mikill munur er á hita bjartra og alskýjaðra daga að vetrarlagi - í janúar munar hátt í 8 stigum. Hiti bjartra daga hefur betur í júní og júlí - staðan er í járnum í ágúst, en afgang ársins eru björtu dagarnir kaldari en þeir alskýjuðu.

Brúnu súlurnar sýna akureyrartölurnar. Bjartir dagar eru hlýrri en þeir alskýjuðu á Akureyri frá því í apríl og þar til í september. Á vetrum munar ekki jafnmiklu á hita og í Reykjavík. 

Gera má ráð fyrir því að niðurstöður séu svipaðar Reykjavík um meginhluta Suður- og Vesturlands, en Akureyrarniðurstöður eigi við Norður- og Austurland. Auðvitað er hugsanlegt að einhverjar veðurstöðvar skeri sig eitthvað úr. Nú er því miður orðið lítið um skýjahuluupplýsingar þannig að ekki er hægt að fara í þennan reiknileik fyrir nema sárafáar stöðvar - því miður. 


Meira af mars (enn)

Þegar upp var staðið voru þrýstivik marsmánaðar ekki mjög mikil hér á landi - eins og sjá má á kortinu hér að neðan. 

w-blogg060420a

Þetta felur þó raunveruleikan nokkuð - lengi framan af var þrýstingurinn óvenju lágur, en í síðustu vikunni hins vegar nánast methár. - En svona eru meðaltölin stundum. Heildarvikamynstrið á kortinu er þó það að þrýstingur var í lægra lagi á norðurslóðum í mars, en í hærra lagi suður í höfum. Vestlægar og norðvestlægar áttir báru kalt meginlandsloft út yfir Atlantshaf sunnan Grænlands - og norðanátt var einnig með meira móti austan við Grænland norðaustanvert. 

w-blogg060420b

Á þessu korti sýna heildregnar línur meðalhæð 500 hPa-flatarins, en daufar strikalínur þykktina. Þykktarvik eru sýnd með litum. Á bláu svæðunum var hún neðan meðallags áranna 1991 til 2010, þar var hiti í neðri hluta veðrahvolfs neðan meðallags. Vikin eru mest í vestanstróknum fyrir suðvestan land, og sömuleiðis við Svalbarða, en þar urðu þau tíðindi að hiti var neðan meðallags í fyrsta skipti í ein tíu ár. - Það hlaut að gerast um síðir.

Meðalhæð 500 hPa-flatarins var í neðsta þriðjungi tíðnidreifingar í öllum vetrarmánuðunum fjórum. Við vitum aðeins til að það hafi gerst þrisvar áður, 2015, 1995 og 1920 (fyrir þann tíma eru heimildir óljósar). 

Bolli Pálmason gerði kortin. 


Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 14
  • Sl. sólarhring: 273
  • Sl. viku: 2393
  • Frá upphafi: 2434835

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 2120
  • Gestir í dag: 10
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband