Öðruvísi mér áður brá

Undanfarna daga hafa fréttir borist um ísrek í Grænlandssundi og að ísinn hafi nálgast land. Þessar fréttir eru auðvitað réttar og alltaf ástæða til að vara sæfarendur við jökum. En sannleikurinn er samt sá að sérlega lítið er af ís á þessum slóðum. Það litla sem er er sundurtætt og nánast hvergi um samfelldan ís að ræða í sundinu. 

w-blogg300420a

Hér má sjá klippu úr modis-gervihnattamynd sem birtist á vef Veðurstofunnar í gær (29.apríl). Það er með ólíkindum hvað ísmagnið er rýrt miðað við árstíma, ef öllu væri safnað saman yrði úr örmjór straumur suðvestur sundið. 

Ísinn liggur í röstum - sem mótaðar eru af straumum og vindi - og iðuvarðveislu (engin miskunn þar). 

Öðruvísi mér áður brá. Athygli vekur að autt er með nánast allri Blosseville-strönd. Sjálfsagt gerist það alloft að vindur hreinsi ís þar frá á mjóu belti, en þetta er að jafnaði hvað óaðgengilegasta svæði á allri Grænlandsströnd sunnan 75. breiddarstigs. Ófær ís er oft á þessum slóðum allt sumarið. Gera má ráð fyrir því að forfeður okkar hafi einhvern tíma séð til strandar á þessum slóðum á sínum tíma og trúlega eitt og eitt skip á síðari öldum. Ströndin er kennd við franskmanninn Jules de Blosseville sem sá þar til strandar 1833, laskaði skipið - sneri til Íslands til viðgerðar. Þegar henni var lokið reyndi hann aftur - en til hans og áhafnar hans hefur ekki spurst síðan. Inúítar höfðu auðvitað farið þarna hjá, en Blossevilleströnd, frá Kangerlussuaqfirði (þar sem þeir höfðu talverða sumarútgerð á stundum) norður til Brewsterhöfða sunnan Scoresbysunds var rýr vegna ísa og illviðra. 

Frá erfiðri könnunarsögu Austur-Grænlands er sagt í góðri bók - titillinn er að vísu fádæma kauðalegur - (sjá mynd hér að neðan). 

Still000535

Á árum áður var sum sé nánast aldrei íslaust á þessum slóðum - jafnvel þó íslítið væri norðar. 

Satt best að segja er ritstjóri hungurdiska undrandi á þessari ísrýrð á þeim árstíma þegar ísmagn er venjulega í hámarki á þessum slóðum. Hefur þó gerst áður. Ekki hefur ritstjórinn neitt vit á lífkerfi hafísslóða - en ástand sem þetta hlýtur að reyna nokkuð á. 

En eins og sagði í upphafi er allaf rétt að gefa ísnum gaum - hann getur valdið hættu fyrir sæfarendur og svo er spurning um ísbirni á hrakningi. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

 • w-blogg120424c
 • w-blogg120424b
 • w-blogg120424a
 • w-blogg110424b
 • w-blogg110424b

Heimsóknir

Flettingar

 • Í dag (16.4.): 212
 • Sl. sólarhring: 250
 • Sl. viku: 1991
 • Frá upphafi: 2347725

Annað

 • Innlit í dag: 185
 • Innlit sl. viku: 1717
 • Gestir í dag: 180
 • IP-tölur í dag: 174

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband