Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2020
3.2.2020 | 03:25
Enn á hann að sækja að
Eftir að hafa verið á hillunni í nokkra daga með rólegu veðri er líklegt að aftur dragi til tíðinda. Fyrst með sunnanátt og hlýindum, en síðan miklum rosum. Ekki ljóst á þessu stigi hversu grófgerðir þeir verða - en alla vega eru skemmtideildir reiknimiðstöðvanna í essinu sínu - rétt einu sinni.
Það ærir óstöðugan að elta uppi slíkar öfgaspár nema endrum og sinnum - enda eiga þær fæstar stoð í raunveruleikanum - alla vega eru smáatriði jafnan út og suður í þoku framtíðar. Það er ekki fyrr en komið er inn í tveggja- til þriggjadagarammann að raunveruleikinn fer að koma í ljós.
En framtíðarspárnar eru að nefna nýja stórsókn kanadakuldans (Stóra-Bola) út yfir Atlantshaf - hún hefst raunar á því að hlýju lofti að sunnan er sparkað norður til okkar og áfram norður í höf - á undan aðalsókn kalda loftsins úr vestri. Margar spár skemmtideildanna gera ráð fyrir alls konar metum í þessari nýju sókn - hvort þau verða vitum við ekki - og því síður hvort þau koma okkur svo nokkuð við þótt þau eigi sér stað einhvers staðar á svæðinu.
En við skulum samt nota tækifærið og rifja upp hver febrúarmet þrýstings og stöðu háloftaflata eru hér við land - þá sjáum við betur hvort einhverjar nýjungar eru að eiga sér stað eða ekki - þegar nær dregur stefnumótum.
Fyrst eru það lágþrýstimet febrúarmánaðar á landinu. Það er sárasjaldan að þrýstingur á veðurstöðvum fari niður fyrir 940 hPa í febrúar. Lægst er þó nærri 200 ára gamalt met sem sett var í Reykjavík 4.febrúar 1824, Jón Þorsteinsson mældi þá 923,8 hPa. Þetta var lengi lægsti þrýstingur sem vitað var um við allt norðanvert Atlantshaf - gott ef ekki um allt norðurhvel utan hitabeltisins. Næstlægsti þrýstingur sem við vitum um í febrúar hér á landi mældist á Stórhöfða í Vestmannaeyjum þann 5. árið 1989 - 931,9 hPa. Þess má geta að janúarmánuður nú og janúar 1989 eru mjög skyldir. Þriðjalægsta febrúartalan er líka úr Vestmanneyjum, 932,3 hPa sem mældist þar þann 24. árið 1903. Í þeim mánuði gengu fleiri óvenjudjúpar lægðir nærri landinu. Þó skaðar hafi ekki orðið tiltakanlega miklir miðað við það sem stundum var er ljóst að þetta var vandræðaveðurlag - og hefði líka þótt það nú.
Fjórðilægsti febrúarþrýstingurinn mældist í Stykkishólmi í halaveðrinu svonefnda, 8.febrúar 1925 - um það fjölluðu hungurdiskar nýlega. Þrýstingur hefur tvisvar að auki farið niður fyrir 940 hPa í febrúar hér á landi, þann 19. 1922 (Grindavík) og þann 8. 1982 (Keflavíkurflugvöllur). Síðastnefnda dagsetningin er minnisstæð ritstjóra hungurdiska - hann hafði aldrei fyrr upplifað jafndjúpa lægð á eigin skinni á sinni nördatíð (en fleiri fylgdu á eftir).
Þá kemur að háloftametunum - úr mælingum gerðum yfir Keflavíkurflugvelli. Spár eru nú í raun og veru að gera því skóna að þeim kunni að vera ógnað.
Metin í 400 hPa og neðar eru öll úr áðurnefndu veðri 1982 - kannski hafa fletirnir orðið enn lægri í veðrunum 1922, 1903 og í halaveðrinu. Bandaríska endurgreiningin nefnir 4730 m í 500 hPa í halaveðrinu og 4760 þann 7.febrúar 1894 - þá fór þrýstingur lægst í 944,9 hPa á athugunartíma hér á landi, en gæti hafa farið neðar að næturlagi - þegar engar athuganir voru gerðar - þá varð frægt sjóflóð í Norðfirði.
Miðfletirnir, 400 og 300 hPa, eiga sín met þann 3.febrúar 1962. Sá mánuður hefur komið við sögu á hungurdiskum áður - var mjög illviðrasamur lengst af - en endaði með einhverjum hæsta þrýstingi sem við vitum um hér á landi - gekk öfganna á milli. Þá urðu líka skelfileg illviðri í Vestur-Evrópu - en slíku er líka verið að hóta nú - rætist vonandi ekki. Metin í efstu flötunum sem hér eru nefndir, 100 og 30 hPa eru ekki mjög gömul, frá 2011. Þá gekk talsvert á hér á landi - eins og hungurdiskar fjölluðu um - geta menn t.d. rifjað upp pistil frá 5.febrúar það ár. [Endalaust lesefni á hungurdiskum - og margt nýtist vel sem svefnvaki (er það nú orð líka?)].
2.2.2020 | 22:33
Af árinu 1863
Eitt af hinum erfiðu árum 19.aldar. Lengst af gengu miklir umhleypingar og illviðri. Hiti var þó nærri langtímameðaltali í júlí og ekki langt undir því í febrúar, mars og apríl. Aðrir mánuðir voru kaldir, og sérlega kalt var í maí, júní og desember. Júní sá kaldasti sem vitað er um í Hólminum. Ársmeðalhiti í Stykkishólmi var 2,0 stig, áætlaður meðalhiti á Akureyri er 1,1 stig og 2,9 stig í Reykjavík.
Myndin sýnir meðalhita hvers dags í Stykkishólmi árið 1863. Þar var enginn dagur hlýr á okkar mælikvarða, en aftur á móti 13 kaldir, að tiltölu kaldast 13. og 14. júní. Ársúrkoma mældist 637 mm í Stykkishólmi, lítillega undir meðallagi áranna 1961 til 1990. Úrkomusamast var í febrúar, og einnig nokkuð úrkomusamt í mars og júlí, en með þurrara móti í janúar og ágúst.
Myndin sýnir þrýstifar ársins, byggð á morgunmælingum í Stykkishólmi. Þrýstingur var lágur í apríl og september, og hann var stöðugur og ofan meðallags lengst af í ágúst. Lægsti þrýstingur ársins mældist í Stykkishólmi þann 4.desember, 947,9 hPa, en hæstur var hann 1030,8 hPa þann 6.nóvember.
Eldvirkni hélt áfram við vestanverðan Vatnajökul og gerði einkum vart við sig um sumarið og þá með mistri og trúlega líka gróðurskemmdum vegna brennisteinsmengunar.
Hér að neðan má finna helstu blaðafregnir af veðri og veðurtengdum atburðum árið 1863. Stafsetning er víðast færð til nútímahorfs.
Annáll 19.aldar dregur saman tíðarfar ársins 1863 (mjög stytt):
Vetur frá nýári fram yfir miðjan mars mun víðast hafa verið umhleypingasamur, brá syðra til hægðar upp úr páskum [6.apríl]. ... Júní varð aðeins frostvægari en maí, en þó frost til fjalla nálega á hverri nóttu og um útkjálkasveitir norðanlands var eigi sagður kominn sauðagróður fyrr en um byrjun júlí. Víða upp til sveita var eigi nema hálf páltorfa ofan að klaka um júnílok, og eigi stunguþítt til húsa uppi á heiðarlöndum syðra í júlí. ... Grasvöxtur á túnum syðra var undir það í meðallagi, nema í fjallasveitum. Norðan- og vestanlands var grasbrestur miklu meiri, einkum í útkjálkasveitum og um Múlasýslur, en nýting hin besta yfir allt. Kályrkja og sér í lagi jarðeplarækt misheppnaðist allstaðar, enda varð eigi fyrir frosti sett niður í garða á venjulegum tíma. Seint í september gjörði mesta íhlaup með fannkomu, bæði syðra, svo megnis snjór var víða í byggð ... frá veturnóttum og þangað til mánuð af vetri voru hörkubyljir og frost og víða haglaust.
Annállinn segir af fjölda slysa og mannskaða. Flest sem tengt er veðri kemur fram í blaðafregnum þeim sem hér fara á eftir.
Janúar: Stirð og stormasöm tíð.
Norðanfari segir af janúartíð nyrðra (útgáfan er ekki dagsett nákvæmlega fremur en fyrri ár):
Fleiri daga af mánuði þessum hefir hér verið hríð, oftar norðan og stundum útsunnan, en þó mest 14. og 15. Töluverður snjór er kominn, og fremur víða hvart lítið um jörð og útigangshross helst í Skagafirði sem enga hjúkrun hafa haft farin mjög að slást enda horfur á því, að hin vesælustu þeirra féllu ef ekki þegar farnir að falla. Fremur leikur orð á því, að heyin munu verða lítil þá vorar, þótt þau víðast hér nyrðra hafi reynst með besta móti. Seinustu dagana af mánuði þessum varð frostið harðast og mest 16 gr. á Reaumur.
Mánudaginn 12. [janúar] hefir spurst hingað, að almennt hafi verið róið til hákarls af Siglunesi úr Siglufirði frá Dölum og úr Fljótum, en miðvikudaginn hinn 14. brast á vestanveður og síðan útnorðan, svo að 4 eða 5 skipin hrakti í Fjörðu og Flatey á Skjálfandaflóa. Af þeim skipum, er reru, vantar 2 enn úr Fljótum með 14 mönnum, sem menn vita víst að farist hafa. því ýmislegt, hefir rekið af skipunum í Fjörðum á Flateyjardal, Sjóarsandi og Tjörnesi.
Íslendingur segir þann 8.janúar:
Síðan minnst var á tíðarfar seinast í blaði þessu (15.des.), má kalla, að viðrað hafi í góðu meðallagi. Tæpri viku fyrir jól gjörði góða hláku, og mun síðan vera allgott til jarðar víðast til sveita hér sunnanlands. Um það bil fréttist og norðan úr Húnavatnssýslu, að vetur hefði verið þar góður, það sem þá var liðið. Um jólin gjörði nokkurt kuldakast, og mun frostið þá einn dag hafa náð 13°R, og það hefur það mest orðið í vetur. Um þessa daga er hér dálítill snjór á jörðu, en þurrviðri og gott til haga. Aldrei róið hér á Innnesjum og sagt aflalaust á fiskimiðum; en milli jóla og nýárs fiskaðist suður í Garði, en þar mun lítið um sjógæftir.
Þjóðólfur segir af tíð þann 24.janúar:
Tíðarfarið síðan með jólaföstu og fram á þenna dag hefir verið hér syðra stormasamt og hrakviðrasamt, með allmikilli fannkomu öðru hvoru og blotum á mis, oftar frosthægt og frostlítið; aðalveðurstaðan hefir verið af útsuðri, hafátt og öfugum útsynningi eður landnyrðingi á mis. Hrosspeningur allur hefir hrakist mjög á útiganginum og enda allur útigangsfénaður, og þykir fremur horfa til illra fjárhalda ef sömu hrakningaveðrátta héldist. Haustvertíðin varð hér um öll nes ein hin ógæftasamasta.
Norðanfari birti í mars bréf úr Dalasýslu, dagsett 20.janúar:
Veðuráttufar hefir að haustinu og vetrinum, verið mjög umhleypingasamt; þó gjörði góðan kafla frá 20. nóv. og fram í miðjan des. Síðan óstöðug veðurátta aftur allt til þessa. Á jóladagskveldið gjörði moldkafaldsbyl á svipstundu, sem stóð hér um 68 stundir, þá kól 2 menn til stórskemmda, sem voru á ferð yfir Holtavörðuheiði; sá þriðji sem með þeim var komst lítt skemmdur.
Norðanfari birti í júní bréf frá Árnesi í Strandasýslu, dagsett 30.janúar:
Héðan er nú ekkert markvert að frétta nema vellíðan manna yfir höfuð; tíðarfarið hefir verið hér mjög stirt og stormasamt, það sem er af þessum vetri, en þó hafa til þessa verið nokkrar jarðir fyrir útigangspening; hákarlsafli varð hér rétt góður um byrjun jólaföstunnar ... Viðarreki hefir verið hér fremur lítill í vetur en ágætur í fyrravetur, mikil harðindi voru hér næstliðið ár en nú er eins og heldur fari að batna í ári og bændur rétta smámsaman við, ef þeir geta haldið peningi sínum í vetur.
Febrúar. Stormasöm úrkomu- og snjóatíð, en ekki mjög köld. Eystra var tíð betri og talin góð um tíma.
Norðanfari lýsir tíð nyrðra í febrúar:
Síðan mánuður þessi byrjaði, hefir veðrið oftast verið hríðaminna og bjartara, frostið ekki hart, 13. og 14. þ.m. var hér besta hláka svo víða kom upp mikil jörð. 11. þ.m., kom austanpóstur Níels Sigurðsson hingað til kaupstaðarins. Með honum fréttist, að tíðarfarið eystra, hefði verið líkt og hér, snjóar og jarðbannir. Framan af hafði veturinn mátt teljast góður, og lömb sumstaðar eigi tekin á gjöf fyrr en um jól.
Norðanfari birti í júní alllangt bréf af Snæfellsnesi (stytt hér), dagsett 18.febrúar:
Haustið var hér dauðans bágt, svo að segja sífelld illviðri og jafnast rigningar eða köföld, varð því hvorki bætt við þann sárauma heyafla sem þegar var fenginn, né varið fyrir skemmdum, það sem inn var komið. Haustrigningarnar hérna eru nokkuð frekar og leiðinlegar. Allur útigangspeningur hrakaðist á hold í stað þess að taka haustbata, var því skurðarfé harla rýrt til framlags og ásetningarfé fóðurþyngra en vanalega, eða þegar betur haustar, og kom sér það því lakar, sem flestir voru illa undir vetur búnir. Það hefir borið til, þegar vel hefir viðrað á hausti, að hér hefir reyst dálítið heilagfiski, en þegar líkt viðrar og í haust, er ekki til slíks að hugsa; það er líka tvennt ólíkt að fara hér út á sjóinn, þar sem ekki er annað fyrir en opið og ólgandi haf, ef eitthvað lítt af ber, eða inn á fjörðum, þar, sem bæði er sjólaust og land svo að segja á alla vegi. Þetta hefir nú alltaf verið svona, er sextugir menn og eldri segja, að fiskigengd sé nú orðin minni en fyrir 30 eða 40 árum, það lítur svo út, sem fiskigengd sé alltaf að þverra hér kringum Jökul, en aftur að aukast fyrir Vestur- og Norðurlandi. Í annálum eru oft nefndir lestarhlutir undir jökli um vetrarvertíð, eða frá aðventu til krossmessu, en nú held ég sjaldan gangi betur en helmingur þeirrar hlutatölu fáist á þeim tíma, en oftast mikið minna; en ekki minnist ég að í annálum sé getið slíks afla við Ísafjarðardjúp, og með öllu Norðurlandi, eins og nú er farið að tíðkast. Lengi framan af var hákarlaveiði lítið stunduð hér kringum Jökul, en nú eru menn farnir að afla talsveri af hákarli á opnum bátum. ... Vetrarfar hefur mátt heita í meðallagi hér, og í góðsveitunum í betra meðallagi til þorra, en á honum hefir verið fullkominn vetrarbragur, enda eru nú sumir farnir að kvarta. Alltaf sýnist mér að búhag manna hér fari hnignandi og það sem verst er, mér þykir sem þol og þrek til allar varanlegrar áreynslu, sé að draga úr fólki, en makindi og sællífi fari alltaf vaxandi, og það enda hjá þeim, sem ekkert fiskvirði skuldlaust undir höndum hafa. Það myndi svo sem fyrir mannsaldri hafa þótt ótrúlegur sjúkdómur, að karlmenn sem þykjast fullröskir, gætu ekki unnið verk sitt með besta og kjarnmesta fæði, nema alltaf væri við og við verið að dreypa á þá kaffi, og það jafnvel brennivínsblandað til muna; og að þeir ættu bágt með að komast á fætur nema þessum volga drykk væri á þá dreypt millum rekkjuvoðanna. Og eftir þessu fer nú þolið að standa að verki í misjöfnum veðrum. Kvefvesöld hefir mátt heita almenn framan af í vetur, en öllum þó batnað aftur. Ég hefi tekið eftir því, að þetta vetrarkvef er nú orðið tíðara en það var á mínum yngri árum, sem mér liggur við að kenna meðfram lifnaðarhættinum, hvert sem það er rétt eða ekki. Allmikil lungnaveiki er sumstaðar í fé, og er mest gjört orð á henni í Helgafellssveit sem er langt um fjárríkari en Staðarsveit. Einn maður þar var með þorra búinn að missa úr þessari fjárveiki fullar 40. Nýju heyin reynast létt bæði til holda og mjólkur, og sumir kvarta bæði í fyrra og nú um ótíma á kúm; sem er jafnan meinlegur búhnykkur.
Einnig birtist í sama blaði stutt bréf frá Ísafirði, dagsett 24.febrúar:
Góða veðrið hélst alla jólaföstuna, hægviðri og lítil frost, en síðan hefir mátt heita hart og fannkoma næsta mikil, og þó við og við blotar hálfa eða heila daga, sem ekki hafa bætt um, og er jarðlaust að kalla hér í kring. Ísinn hefir sést undan Ströndum, en er þó eigi landfastur enn, að spurst hafi. Fiskafli var hér í besta lagi til jóla, en síðan hefir varla orðið vart, enda hefir sjaldan á sjó gefið. ...
Íslendingur lýsir tíð í tveimur pistlum í febrúar:
[9.] Veðuráttin hefur verið heldur stirð síðan með jólaföstu og fram á þenna dag, stormasöm nokkuð og stundum með talsverðri fannkomu, enda eru fremur sögð harðindi úr sveitum; stundum með blotum, en oftast hefur frostið verið lítið. Aðalvindstaðan hefur oftast verið af útsuðri eða landnorðri. Hrosspeningur er almennt sagður í magrasta lagi um þetta leyti, og margir ætla að fóðurekla muni verða almenn ef útmánuðirnir verða eigi því betri.
[20.] Veðuráttin er að vísu hvorki köld eða frostasöm, en þó er hún mjög óviðfelldin og óhagstæð, því að aldrei linnir umhleypingum og hretviðrum, sem hljóta að spilla öllum útigangspeningi. Frést hefur og að útigangshross sé farin að hrökkva upp af hér og hvar. Snemma á þorra barst hingað fregn um megnt vetrarríki úr Strandasýslu, svo að jarðlaust hefði verið þar sumstaðar fyrir hesta síðan um veturnætur. Góð tíð sögð úr Norðurlandi allan fyrri part vetrar fram yfir nýár. Aflalaust á öllum Inn-nesjum hér syðra, enda gefur aldrei á sjóinn; en suður í Garði fiskast þegar róa gefur, og þaðan er sagður hákarlsafli góður.
Íslendingur segir þann 3.mars:
Síðan minnst var síðast á veðurátt í blaði þessu (19. febr.) hefur hún versnað stórum, svo að daglega hafa gengið kafaldsbyljir, varla verið farandi milli húsa, og mátt heita ófært veður bæði á sjó og landi. Menn eru því nær engir á ferðum, sem við er að búast, meðan þessi óveðratíð stendur; þó er austanpóstur nýkominn, og er lítið úr hans för að frétta nema harðindi. Þannig er oss skrifað (6. febr.) úr Rangárvallasýslu: Hér gengur storma- og snjóatíð yfir, sem allt ætlar að kæfa; er fénaður þess vegna víða orðinn magur, bæði hross og fé, ekki síst á Landinu, hvar stöku skepna er farin að falla úr hor, og er þá fleira orðið magurt. Veturinn getur varla orðið svo góður, að þar verði ekki mikill fénaðarfellir, því að þar hafa því nær alltaf verið slæmir hagar sökum áfreða, en heyskapurinn fjarska lítill; eins og þar mun líka mjög hart manna á milli. Á pest í sauðfé hefur borið á stöku stað, en hvergi þó nærri því eins og á Eyvindarmúla; þar voru 70 kindur sagðar dauðar, þegar seinast fréttist. Víð trjáreka hefur víða orðið talsvert vart. Með vermönnum nýkomnum norðan úr Skagafirði og Húnavatnssýslum hefur frést, að tíðin hafi verið þar slæm síðan í janúarmánuði. Milli þorra og þrettánda er sagt að mörg skip hafi farið í hákarlalegu úr Fljótum, gjört á þau veður mikið, og að eins eitt þeirra náð lendingu í sinni sveit, en hin hleypt austur með landi, og náð landi á Höfðaströnd, nema 2; til þeirra var eigi spurt, þegar seinast fréttist, sagt að farið væri að reka af öðru, en bæði talin af.
Hafi í september og október 1862 mátt kalla bauluhaust hér syðra, þá er eigi ólíklegt, að vorið sem kemur, megi kalla hrossavor; því að nú, snemma á góu, eru hross farin að falla hingað og þangað: á Kjalarnesi, í Mosfellssveit, í Grindavík og Selvogi, og sjálfsagt víðar. Hvað mun þá verða, þegar frá líður og nálgast sumarmálin?
Íslendingur birti þann 26.mars úr bréfi ritað í Breiðafjarðardölum þann 3.:
Veðráttufarið mátti heita gott fram á þorra, þó að það væri umhleypingasamt, því að hægviðri og frostlinjur voru jafnast, en nú í næstliðnar 3 vikur hefur verið ein hin höstugasta og umhleypingasamasta tíð, ýmist stórblotar og jafnvel flóð í ám, eða utan vestan fannfergjur, og nú fyrir skemmstu norðan áhlaup hvern daginn eftir annan. Jarðbönn mega því heita eins og stendur og víða farið að brydda á heyskorti. Skipskaði varð í Rifs veiðistöðu núna á þorranum. Skipið fórst í lendingu, af 8 sem á því voru náðist með lífi formaðurinn, sem lifði, þá síðast fréttist, og annar maður til, sem dó strax á eftir.
Mars. Hægari tíð framan af, en þó var gæftaleysi vestanlands. Síðan brá aftur til umhleypinga.
Norðanfari segir um marstíð (og síðari hluta febrúar). Fram kemur í textanum að hann er ritaður 20.mars:
Allan febrúarmánuð var hér meira eða minna skakviðrasamt, oftar vestan útsunnan, og nokkra daga norðan, en sjaldan mikið frost. Og stundum hríðar og fannkoma og víða orðið jarðskart. Ótíðin enn meiri vestra en hér. Síðan þessi mánuður byrjaði og allt til þess í dag 20. marsmánaðar hefir flesta daga verið kjurrviður og sólskin og stundum hláka, svo heita hefir mátt öndvegistíð og nóg jörð víða uppkomin.
Þjóðólfur segir af tíð þann 18.mars (lítillega stytt hér):
Póstar og aðrir sendimenn hafa fært hingað bréf og fregnir víðsvegar að af landinu, og ná þær fréttir víðast að fram í miðjan [febrúar], úr Múlasýslunum fram yfir 20.janúar. Í Múlasýslunum, Þingeyrarsýslu og um Eyafjörð var góð vetrartíð fram yfir nýár, en miklu umhleypingasamara og snjóameira þegar vestar dró, beggja megin landsins, og aðalveðurstaðan hin sama og hér hefir verið á Suðurlandi, útsynningur oftast og hafátt, en hlaupið öðru hvoru í landnorður með frostbyljum. Um Skagafjörð, Húnavatnssýslu og Vesturland er fremur kvartað yfir illviðrum, umhleypingum og hrakningum á fénaði, og þar af leiðandi skorti á sætanda ástöðuveðri, heldur en almennum jarðbönnum eður hagleysum; aftur hefir því verið að sæta um flatlendis-sveitirnar hér á Suðurlandi austanfjalls, um Flóa, Landeyjar, Eyjafjöll og Meðalland, og einkum um Borgarfjarðardalina, sakir snjókyngis; er víðast þar um dalina að hver skepna hefir verið á gjöf frá því fyrir jól og fram til miðgóu. Allstaðar er talinn heyskortur, og kviðið almennum peningsfelli, ef ekki gefst eindreginn bati frá miðgóu til páska, en nú munu víðast nokkrar jarðir komnar upp hér syðra, og sumstaðar góðir hagar. Hey hafa allstaðar reynst vel, bæði til mjólkur og fóðra, og skepnuhöld talin hin bestu yfir höfuð að tala, nema á hrossum. ... Hross eru allstaðar sögð sármögur, einkum hér um gjörvallt Suðurland, og talin vonarpeningur víða, en sumstaðar farin þegar að falla á þorranum og síðan, bæði hér um öll Inn-nes og Suðurnes, Mosfellssveit, Grindavík, Selvog og Landsveit; þar í sveit er sagt að hafi verið fallin um 20 hross, tryppi og fylsugur öndverðlega á þorra; hin einstöku hausthrakviðri, og umhleypinga og hrakningsveðrin, er gengu hér gjörvallt skammdegið, valda mest megurð hrossanna, er það og almennt mál, að öll stóðhross hafi verið hálfhoruð er þau komu af fjalli, en hin miklu skárri, er höfðust við í heimalöndum. Um hin einstöku illviðri og snjóíkyngi, er lagði að um veturnæturnar síðustu, er oss skrifað, að 19. október fyrra ár hafi nýfallinn snjór tekið hestum í kvið á jafnsléttu um Hornafjörð, og sé það einsdæmi þar um sveitir um þann tíma árs. ... [Þann] 4. [febrúar] fórst bátur í Rifi undir Jökli, hann var á uppsiglingu úr róðri; þar týndust 7 menn, en formanninum einum varð bjargað.
Þjóðólfur segir þann 23.mars frá fleiri skipsköðum og einkennilegum hrossadauða:
Skipskaðar. 18. [mars] týndist bátur með 2 mönnum á Borgarfirði, á leið innan úr Andakíl út á Skipaskaga. ... 21. [mars], þegar róið var alskipa af Álftanesi, en datt á með ofsaveður þegar fram á daginn kom, fórst bátur frá Hliði út á rúmsjó, voru 4 á og týndust 3 þeirra ... en 4. mönnunum var bjargað. - Einstakt gæftaleysi viðhelst, lítill afli um syðri veiðistöðurnar vikuna sem leið, en líklegt um fisk hér á Innesjamiðum, ef gæfi.
Náttúruafbrigði. Þann 29. janúar næstliðinn fundust á Bergstöðum á Vatnsnesi 5 hestar dauðir á hörðum hjarnskafli er lagt hafði yfir slétta mýri. Voru þeir allir meira og minna beinbrotnir, fjórir lágu næstum hver hjá öðrum, en einn 120 faðma frá hinum, og var hann einna mest beinbrotinn; allir lágu þeir á hliðinni, nema einn, hann lá á kviðnum og allir fæturnir krepptir undir hann, líkast og þegar hestur er skotinn. Ekkert var það sjáanlegt, að hestum þessum hefði getað orðið að tjóni; og er það helst hugmynd manna, að þeim muni hafa grandað loftslag eður skýstrokkur, þótt eigi sé hér á landi algengt. Oss þætti gott að herra ábyrgðarmaður Þjóðólfs vildi taka þetta í blað sitt, ef líkt kynni víðar til að bera. Klemens Bergmann.
Norðanfari birti í júní nokkur bréf að austan, rituð í mars:
Úr bréfi að austan, dags. 28 mars 1863. Síðan um nýár hefir hér verið mjög misjöfn tíð, fram að síðustu viku þorra, snjóasöm en frostahæg, en síðan öndvegis góð. Komu miklir snjóar á útsveitum og í Norðurfjörðum, svo að þar er sumstaðar lítil jörð. Fénaðarhöld með betra móti og veikindi á mönnum lítil í héraði, síðan taksóttin var gengin um garð snemma í vetur. Nú gengur hún í syðri fjörðunum og fylgir vond slímsótt".
Í öðru bréfi dags. 20. og 30. [mars] segir svo: Ég hefi fengið bréf sunnan úr Nesjum (Skaptafellssýslu) og er ekkert sérlegt að frétta úr því nema stirða veðráttu og umhleypingasama, því þar segir, að sama veður hafi sjaldan staðið daginn út og skepnur orðnar mikið magrar. Sótt hefir þar gengið í vetur og ýmsir úr henni dáið".
Í Breiðdal eftir bréfi 22. mars: Tíðin hefir verið hagasæl síðan um nýár, nema svo sem þriggja vikna tíma á þorranum, en síðan allra besta tíð. Fram að nýári gengu miklar sjóbleyturigningar og skemmdist víða hey manna, enda þó í hlöðum væri. Kránkdæmi hefir alltaf verið á fólki hér um svæðin í vetur en fáir dáið. Fjárhöld eru góð allstaðar að frétta, og einnig hér í sveit, þar til nú fyrir nokkrum dögum hefir borið á drepandi lungnaveiki á einum bæ og lítill snertur víðar".
Eftir bréfi úr Reyðarfirði dags 28. mars: Hér hefði orðið ískyggilegt með skepnuhöldin, ef að sú góða tíð hefði ekki komið á góunni, því menn muna varla til slíkra þurrka og hlýinda í fullan mánuð, eða að snjó hafi tekið hér upp á Austfjörðum án vatnavaxta, varla að hlaupið hafi í læki, eða að hús hafi lekið. Fénaður hefir haldist vel við á tómum útigangi, svo líkur eru til þótt eitthvað harðni, að allir komist vel fram. Skip kom á Djúpavog fyrir miðjan mars og annars þangað bráðum von, bæði tilheyrandi kaupmanni Ivarsen".
Apríl. Enn erfið umhleypingatíð, einkum um landið norðan- og vestanvert.
Norðanfari lýsir tíð í aprílblaðinu - og dagsetur 9.apríl:
Frá því 20. [mars] og til þess nú í dag 9. apríl, hefir fleiri daga verið hríð eða úrkoma með töluverðu frosti (mest 29. [mars] 14 gr.á R.). Vindstaðan oftast norðan eða útsunnan, 31. [mars] og aðfaranóttina hins 1 þ.m. var besta hláka, tók þá upp mikið og örísti víða. Til sumra dala og fjalla, hefir veturinn þótt fremur harður vegna jarðbanna og skakviðra og nokkrir búendur þar sagðir komnir á nástrá og farnir að reka af sér. Nýlega heyrðist hingað, að ís ætti að liggja við Vestfirði, en hér nyrðra hefir þó ekkert orðið vart við hann.
Íslendingur segir frá þann 14.apríl:
Veðuráttin hér syðra hefur verið hin stirðasta sem hugsast getur allt fram yfir páska [5.apríl], með einlægum útsynningsstormum, en þá skipti um til norðanáttar; á 3.5. í páskum fiskaðist vel hér á Inn-nesjum, einkum í Hafnarfirði; Akurnesingar höfðu fiskað miður. Mjög er hart hér í öllum nærsveitum og hross eru viðast hvar að falla meir og minna.
[Þann] 20. [mars] fórst skip á Stokkseyri í Árnessýslu með 13 manns, voru (að sögn) 11 þeirra úr Árnessýslu en 2 úr Rangárvallasýslu; eigi höfum vér frétt enn hve margir þeirra voru bændur. Þann dag var allgott sjóveður hér syðra, en brim í lendingu hefur að líkindum grandað þessum þar eystra. Daginn eftir (21. mars) reri almenningur hér til fiskjar, en gjörði á ófært útsynningsveður þegar leið á daginn; þá drukknuðu 3 menn af fjögramannafari frá Hliði á Álftanesi, en hinum fjórða varð bjargað. Litlu áður en þetta varð drukknuðu 2 menn af báti upp á Borgarfirði. 1. apríl hraktist bátur af Vatnsleysuströnd með 2 mönnum norður og inn í Flóann og barst loksins daginn eftir að landi á Seltjarnarnesi; hásetinn lifði af, en formaðurinn dó þegar er á land var komið.
Eftir manni, sem kom norðan úr Eyjafirði hingað til Reykjavíkur 10. apríl, fréttist að hafíslaust væri fyrir Norðurlandi, en talsverður snjór og ísalög á landi; skip hafði verið komið á Skagaströnd og að því er hann hafði heyrt, til allra kaupstaða í Snæfellsnessýslu.
Íslendingur segir þann 25.apríl:
Póstskipið, sem hingað kom 8. [apríl], lagði út héðan til Kaupmannahafnar 19. þ.m. snemma dags; á því fóru utan verslunarmaður P. C. Knudtzon og kandid.med. Magnús Pjetursson Stephensen. Tvo hina næstu daga eftir að skipið fór var hér bjartviðri og norðanátt, síðan gekk vindur til austurs, en veðurátt má heita allgóð, þó er talsverður snjór til sveita, og allstaðar er talað um heyskort. Fiskiafli má heita afbragðsgóður hér á innnesjum. Á sumardaginn fyrsta (23. þ.m.) var ágætt sjóveður, og mátti þá heita landburður á Seltjarnarnesi, og fiskurinn vænn. Hér eru komnir háir hlutir. Syðra er vist talsvert minni fiskiafli, þó vitum vér það eigi glöggt. Fyrir austan fjall er farið að fiskast þegar á sjóinn gefur, og sagt var að næstliðinn mánudag [20.apríl] hefði fiskast vel í Þorlákshöfn. Í Vestmannaeyjum voru fyrir nokkru síðan sagðir 3 hundraða hlutir. Að vestan er sagt fiskilítið. Austur með Söndum er sagður mikill trjáreki í vetur. ... Jarðskjálfti býsna harður fannst hér nóttina milli 20.21. þ.m. hálfum tíma eftir miðnætti, veður var hægt með nokkurri snjókomu.
Þjóðólfur segir af tíð, afla og strandi þann 29.apríl (dálítið stytt hér):
Hin sama kalsaveðrátta helst með éljagangi og fannkomu og enn meiri kulda og næðingum heldur en aflíðandi páskunum. Vandræðin til sveitanna af heyleysi og bjargarleysi fyrir skepnurnar aukast dag frá degi; um Skógarströnd og Dali og hér og hvar um Snæfellsnessýslu eru bændur farnir að sækja korn í lestaferðum handa nautpeningi sínum og öðrum skepnum, og ætti nærsveitirnar hér syðra að vinda að hinu sama sem fyrst, heldren að draga kúpening sinn fram nytlausan og horaðan til stórskemmda frá sumarmálnytu, þótt af lifði, sem víða mun tvísýnt, ef þessi dauðans ótíð helst. Hér um Álftanes og Seltjarnarnes hefir hinn sami gæðaafli haldist síðan páska, og á hverjum virkum degi róið, þó að gæftir hafi verið stirðar ... Undir Jökli hafði aldrei gefið á sjó, frá páskum fram til 21. þ.mán., hvorki að norðan- né sunnanverðu Jökulsins, ... Skipstrand. Fyrir næstliðna helgi [26.apríl] strandaði frönsk fiskidugga, að sögn 70 lestir að stærð, í Grindavík; allir skipverjar (18) komust af, en oss skortir að öðru nákvæmar skýrslur um það mál.
Þann 26.júní birti Þjóðólfur fréttir af slysum í mars og apríl:
Í marsmánuði urðu samtals 3 menn úti i leið milli Keflavíkur, Hafna og Voga, og voru allir sagðir ölvaðir, og sömuleiðis fylgjarar þeirra, er þeir urðu eftir af; hinn 4. varð úti um sama leyti, á leið frá Hafnarfirði til Selvogs. Í aprílmánuði [] fórst bátur með 2 mönnum úr fiskiróðri suður í Garði. Í sama mánuði barst á 2 skipum í lendingu, öðru undir Eyjafjöllum en hinu í Mýrdal, löskuðust bæði skipin mjög, en 2 menn drukknuðu, sinn af hvoru. Í sama mánuði barst á bát frá Brunnastöðum á heimleið með salt úr Hafnarfirði, bátnum hvolfdi eða barst svo á, að mennina tók út, og komust þó á kjöl; var báðum að vísu brátt bjargað, en annar þeirra var þá þegar liðinn, eða í andlátinu og dó þá þegar, ...
Norðanfari birti í nóvember bréf úr Nesjum í Skaftafellssýslu - og segir:
Úr bréfi sunnan úr Nesjum í Skaftafellssýslu, dagsett 12. apríl þetta ár, sem kom hingað 31. október eftir 202 daga útivist. Það er fyrst að segja, að næstliðið sumar, 1862, var grasbrestur, en nýting góð allt fram í miðjan september, þá brá til umhleypinga og má kalla, að þeir hafi verið síðan. Fyrir veturnætur kom hér svo mikill snjór á einum sólarhring að hann mátti heita jafnfallinn í mitt lær og klyptir. Vegna þess að ei hvessti á hann og hlánaði eftir fáa daga, varð hér enginn fjárskaði. Frá jólum og til þorraloka var hér mikil snjókoma, sem þó jafnótt annaðhvort fauk burtu eða hlánaði svo aldrei varð til lengdar jarðbönn; og alltaf mesta frostavægð nema fáa daga síðast í mars.
Norðanfari birti í október bréf úr Strandasýslu, dagsett 1.maí:
Í fréttaskini er það helst að segja, að hagur almennings á útkjálka þessum er næsta bágborinn og erfiður, og eru það eðlilegar afleiðingar hinna langvinnu vetrarharðinda sem fast hafa kreppt að búendum sýslu þessarar. Heyföng manna næstliðið sumar [1862] urðu með minnsta móti og haustið var ákaflega votsamt og þegar rigningum létti gekk veturinn í garð um Mikalismessu [29.september] með kafaldsbyljum og fannfergju, sem ollu þegar gjörsamlegri jarðleysu bæði fyrir búfénað og hross, og urðu mest brögð að því fram til dala, því við sjávarsíðuna voru fyrst framan af lítilfjörleg jarðsnöp. Á jólaföstunni voru staðviðri og frost, en jarðbönnin héldust ávallt allan veturinn út, og hefir hér verið samfelld innistaða fyrir allan pening nærfellt um 30 vikur enda hafa ýmsir búendur sökum heyleysis orðið að lóga bjargargripum sínum og misst hross og búfénað. Einn bóndi hér í Staðarsveit varð fyrir því tjóni nálægt miðþorra í vetur, að nálega 40 af kindum hans hröktust í sjóinn og fórust þar, en sveitamenn bættu honum skaða sinn að svo miklu leyti, sem þeim var unnt eftir efnahag sínum. Fiskiafli hér við Steingrímsfjörð var með besta móti næstliðið haust.
Maí. Sæmilegir dagar um tíma eftir miðjan mánuð, en annars illviðrasamt og kalt.
Í júníblaðinu greinir Norðanfari frá tíð og hag manna þar nyrðra í apríl og maí:
Síðan 9. apríl og og til maímánaðarloka hafa hér á Akureyri verið 20 snjókomudagar, með hvassviðrum, helst norðan kulda og stundum frostgaddi; en aftur þess á millum vægilegra og bjartara veður. Dagana 18.23. maí var besta hláka, tók þá mikið upp snjóinn, einkum í hinum veðursælari sveitum; þar á móti hefir lítið grynnt á fannfergjunni, [sem] komin var til flestra dala og á útkjálkum; hvar næg sauðjörð er eigi enn upp komin. Hafís er nú sagður fyrir Vestfjörðum og öllu Norðurlandi, frá Hornströndum að Rauðagnúp á Melrakkasléttu, ýmist dýpra eða grynnra en óvíða landfastur. Flest hákarlaskip lögðu hér út fyrir og um miðjan aprílmánuð, og fleirum þeirra gengið mjög erfitt með aflann, vegna stakra ógæfta, stórviðra og hrakninga, vestur fyrir Hornstrandir og á Vestfirði, eða þá austur með landi lengst á Seyðisfjörð. Hafísinn hefir tálmað aflanum, nokkrir hafa og orðið fyrir skemmdum og tjóni á skipum og útbúnaði. ... Mikill vöðuselur hafði komið hér yst inn á fjörðinn, og skutluðu og skutu þeir, er mest fengu af honum 4050 seli, á skip. Allur selafli hér á Eyjafirði í vetur og vor, er á þriðja hundrað. Nokkrir af hákarlaskipamönnum hafa og slegið seli á ísnum. 15 selir höfðu fengist í nætur á Siglunesi, sárfáir á Tjörnesi, yfir 30 á Fjallahöfn í Kelduhverfi, svo hundruðum skiptir á Sléttu, einkum á Ásmundarstöðum, hvar sagðir eru komnir um 260 selir á land, og á annað hundrað á Langanesi. Hrognkelsaafli mjög lítill; hvergi orðið hér enn fiskvart. Vér höfum átt tal við nokkra af sjómönnum þeim, sem í seinustu vetrarvikunni hröktust vestur á Vestfirði og lengst suður á Arnarfjörð, að Álftamýri, og er hið helsta eftir þeim að frétta af Vesturlandi, að harðindi voru þá mikil og peningur enda farinn að falla, 100 fjár og 6 hross á einum bæ. Margir farnir að gefa skepnum sínum korn, ... Íshroði þá litill fyrir Ströndum, en stangl fyrir Vestfjörðum. Mestu bágindi meðal fólks, verslunarstaðir þar nema Ísafjörður matarlausir frá því í fyrra sumar. Sumstaðar hafði fé lifað í vetur einungis á útigangi; hey höfðu og verið sárlítil og skemmd, og töluvert af þeim orðið úti í haust. Arnfirðingar höfðu komið skutuljárnum sínum í einn hval í fyrrasumar en misst hann. Veikindi engin vestra. Hey eru nú að sögn, þrotin hér nyrðra að kalla hjá flestum og skepnur víða mjög dregnar einkum hrossin, og munu þó nokkrir hafa gefið kúm og sauðfé mjöl og korn, svo mjög er tvísýnt um skepnuhöldin; að sunnan hefir nýlega frést að fiskafli sé mikill á Suðurnesjum en lítill suður í Höfnum, mest 3 hundraða hlutir. Kuldaveðurátt sem hér og líkt með horfurnar á skepnuhöldunum; hross farin töluvert að falla, sem í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum.
Í næstliðnum mánuði [maí], var þilskipið Úlfur frá Úlfsdölum í Eyjafjarðarsýslu, ásamt fleirum skipum við hákarl, fram á hinu svonefnda Fremragrunni; var þá svo mikið harðviðri og gaddur, að allt sem vott var sýlaði og klakaði, og meðal annars skipsbáturinn, er bundinn var við gafl skipsins og þá orðinn svo áriðaþungur, að skipverjar voru á glóðum, um að báturinn þá og þá mundi kippa gaflinum úr skipinu; réðu þá það af, að höggva hann eigi frá sér, en slitnaði þó frá um síðir. Nokkru eftir þetta héldu þeir í land; en tveim dögum síðar fannst báturinn rekinn upp á fjöru í Fögruvík hjá Dalalendingu jafn heill og þá hann fór frá skipinu, og hjá honum 18 álna langt rekatré, en skammt frá 3 álna löng lúða. Þetta mun fáheyrt dæmi, enda eru þeir feðgar á Úlfsdölum þorvaldur Sigfússon og Páll sonur hans miklir giftu- og ágætismenn.
[Fimmta] dag maímánaðar höfðu 2 menn verið á ferð yfir Hólsstig á Sléttu í norðanstórhríðinni og frostgaddinum þá var. Annar þessara manna var með þungan bagga og uppgafst, svo hinn varð að ganga frá honum, og sem aðeins komst mjög þrekaður til bæja, en hinn látinn þá fannst; sá hét Árni Jónsson ungur og ógiftur maður frá Höfðahólum í Núpasveit.
Í viðaukablaði sem kom út í júní Norðanfari bréf þar sem segir af hrakningum og mannskaða á Þistilfirði í miklu illviðri snemma í maí. Við birtum það lítið stytt hér - þó langt sé:
Mánudaginn hinn 4. dag maímánaðar 1863, lagði ég á jaktinni Anne Margrethe", sem var 10 1/2 lest að stærð, ásamt 9 skipverjum mínum út af Raufarhöfn á Melrakkasléttu, í landnorðan kuldagráði, en um kveldið kl.10 var komið logn, var ég þá kominn 3 mílur í landnorður af Rifstanga, vörpuðum vér þar akkerum, renndum út vaðarhöldum og litum þar til þess kl. 8 morguninn eftir, og höfðum eigi orðið varir hákarls, en þá komin sunnanhríð; leysti ég þá og ætlaði mér að sigla vestur að Grímsey, jafnframt og lét taka eitt rif úr hverju segli, en þegar siglt höfðum 3 mílur, vorum vér í norður af miðri Sléttu; snerist veðrið þá á svipstundu til norðurs með stórhríð og særoki, svo allt ætlaði sundur að ganga, og eigi annað sýnna enn að jaktinni mundi þá og þá fleygja um, áður en seglin næðust niður. Enginn kostur var annars en leita lands, sem veðrið stóð nú rétt upp á, en ómögulegt að færa segl. Þegar við höfðum alrifað seglin og klossrifað stórsegl og halað upp hálsinn, höfðum vér horf á landnorðurhorn Sléttu: Vér héldum að veðri þessu mundi bráðum slota, en oss brást það. Nú settum vér upp rifaða stagfokku og hleyptum undan suður með Sléttu, og ætluðum að ná Ásmundarstaðavík, en vegna stórsjóa urðum vér að fara djúpt fyrir Ásmundarstaðaeyjar, en af því leiddi, að þá þurfti að beita aftur upp að landi, sem þó varð eigi fyrir rokinu og því að fokkan fór að bila; misstum því af víkinni. Það var því eigi annað til ráða, en hleypa inn á Þistilfjarðarflóann og freista til, ef unnt væri, að ná Viðarvík, sem er sunnanvið Rakkanesið, vegna þess að þar er vægra brim í norðanátt en á Þórshöfn, en þá er vér nálægðumst téða vík, var rokið enn svo mikið, að við ekkert varð ráðið, og að ekkert grillti frá sér fyrir stórhríðinni, hrakti oss þaðan jafnskjótt. hér var nú eigi annað til úrræða en leita Þórshafnar, þó kveld væri komið og náttmyrkrið þegar skollið á, eður að öðrum kosti að leggja austur í flóann til drifs, sér í lagi ef upp kynni að rofa, sem fjærri fór, því alltaf var sem veðrið og harkan harðnaði og hafrótið úthverfðist æ meir, samt sem áður var það þó afráðið að leggja austur í flóann til drifs um stund og síðan til vesturs; og þegar góðan tíma hafði þannig rekið undan, þóttumst vér sjá þess merki, að ekki mundum langt undan landi, eða innarlega við Langanes, og lét nú horfa eftir því striki réttast mundi á Þórshöfn; og jafnsnart settur upp rifaður klyver", (þríhyrnt framsegl) sem var danskt og að kalla óbrúkað; en það leið eigi lengi áður hann sviptist sundur, eins og væri blautur pappír, varð því að taka þetta segl niður, og setja fokkuna; þó hún biluð væri, að nýja upp aftur, er og svo sviptist bráðum í marga parta. Nú voru öll ráð þrotin til að geta bjargað sér með seglum; skipaði ég þá að taka niður fokkuræfilinn, en á meðan á því stóð, sé ég, sem var við stýrið, hvar óttalegur brotsjór ríður að, lá þá Jón bróðir minn á þilfarinu til þess allt af að sjá hvað áttavitanum liði, því ekki varð séð á hann nema grúfa fast yfir honum. Ég kallaði sem mátti og bað menn vara sig, og þegar hafði sleppt orðinu reið sjórinn yfir, er setti skipið á hliðina og á kaf; greip ég þá í bakstaginn goluborða og hélt mér þar; sjórinn hljóp í seglið; allt var á kafi og engan sá ég manninn, varaði þetta litla stund, að jaktin lá á hliðinni, og ekkert upp úr nema goluborðskeipurinn; en rétti sig þó smátt og smátt við, keipafull á þilfarinu, en þegar út af henni fór að flæða, sá ég sumt af mönnunum, og að tveir voru að skríða inn, sem út höfðu farið; sá ég þá að enn vantaði 2 mennina, Jón bróður minn og Jón frá Ási. Í þessari andrá heyrði ég til manns framanundir jaktinnni, og hljóp þegar þangað, var það þá Jón frá Ási, sem hafði náð þar kaðalenda, en í þeirri svipan kom sjór og sleit Jón af kaðlinum og sást hann ekki framar; lét ég þá varpa út akkerum til að halda skipinu upp í veðrið, sem vegna seglaleysis varð að liggja flatt fyrir brotsjóunum og veðrinu, og á hverja augnabliki, ekki annað líklegra en það mundi fara af kjölnum, og vér allir skipverjar týnast. Er þetta allt bar að, var kl. hérumbil 1 f.m. 6. maí. Meðan sandbotninn var, krakaði jaktina með 3 akkerum, er út voru komin, sem að hún laus væri æ lengra upp í boðana, þar til fór að taka við skerin og flúðirnar í botninum; en þá ekkert gat undan látið, kubbuðust festarnar hver af annarri, og á meðan vorum í versta brotinu hafði hver nóg með að halda sér, en þegar komið var upp í brimlöðrið sáum við fyrst land, og landtakan ekki nema sker og urð, og þá hrökk í sundur seinasta festin, og í þeirri kviku barst jaktin langt upp og tók þá fyrst niðri, og í næsta ólagi en lengra og þá yfir mannhæðar há björg, og í hinu þriðja bar hana að tveimur skerjum, öðru að framan en hinu að aftan, hvar hún loksins nam staðar; var þá orðið svo grunnt með útsoginu, að næstum var þurrt ofanvið hana, en botninn þá að mestu liðaður undan henni. Lét ég þá einn manninn fara á kaðli í land; eftir það fór líka að falla út. Vér sáum þá og að strikið á áttavitanum, er ég hafði siglt eftir að landi, var einmitt upp á Þórshöfn, og seglin haldið nokkrum mínútum lengur, hefði oss ekkert sakað. Fyrsta áfallið er vér biðum, hefir víst verið eina 1000 faðma undan landi, Jóhannes, bóndinn á Syðralóni, sagði mér, að í öll þau 2030 ár hann væri búinn að vera þar, hefði aldrei jafnmikið brim komið sem nú, nema einu sinni um haust. Allan tímann frá því ég ætlaði að bjarga Jóni sáluga hafði ég verið berhentur, þess vegna kól mig á höndurnar. Þá er við höfðum náð úr skipinu hinu mesta af farangri okkar og komnir heim að Ytribrekkum, var kl. orðin 6 f.m. Gunnlaugur Gunnlaugsson.
Þjóðólfur segir af tíð mann 15.maí:
Vorhörkurnar hafa verið hinar sömu til þessa, því þó að nú haft verið nokkrir hlýir dagar 11.13. þ. mán., þegar hæst var dags, hefir verið stöðugt frost um nætur og oftast frost í forslu um daga. 6. þ.mán. var hér syðra gaddbylur með 7°R frosti um kvöldið og morguninn eftir. En sunnanlands er að vísu mest allt láglendi orðið snjólaust, en einlægur jökull yfir allt hið efra til fjalla og framdala; yfir alla Mosfellsheiði var rifahjarn byggða í milli, 13.þ. mán., og sá hvergi i dökkan díl; hér syðra er sauðfénaður að vísu viða dreginn og magur, en þá í von að óvíða verði fjárfellir til muna, nema á Landinu; en þar og víða hér sunnanfjalla og um Borgarfjörð eru mörg hross fallin. Af líðandi sumarmálum voru hinar sömu hörkur og snjókyngi um Skagafjarðar- og Húnavatnssýslu, ...
Þann 10.júní birti Þjóðólfur bréf dagsett í Meðallandi 18.maí:
Það hefir stöðugt gengið, að kalla má, sama ótíð síðan í fyrrasumar að brá, og eftir því sem meira hefir áliðið veturinn og vorið verið stirðari tíðin; með góu urðu sjálfsagt umhleypingarnir minni og betra veður jafnaðarlega en áður, en síðan pálmadag [29.mars] hefir mikið versnað aftur, og seinasta kastið sem hér gjörði varð þó einna verst, af því líka svo var áliðið. Fénaðarhöld eru hér mikið slæm, en þó held ég að almenningur hér í Meðallandi missi ekki mikið, en að öllum líkindum misheppnast sauðburður. ... Mun víst mega fullyrða, að það sé eftirstöðvar af eldi þeim í fyrra. Það hafa hér sumir fyrir satt, að lifa muni ennþá eldur þar sem hann var í fyrra, því menn Þykjast hafa séð það víst um nætur. Ekki hefi ég séð það fyrir víst, en óvenjulega skýbólstra hefi ég séð í sama stað.
Þann 20.maí sagði Þjóðólfur frá tíð víða að:
Sendimaður að norðan kom hér að kvöldi 17. þ.m. og færði fregnir og bréf frá Akureyri 3. þ.m.og þaðan af yngri fregnir úr hinum vestari sveitum Norðurlands. Veðráttan og tíðarfarið allt norður fyrir vestari hluta Þingeyjarsýslu hefir verið líkt og hér syðra síðan í góu, umhleypinga- og snjókomusamt, jarðskortur, og fénaður á þungri gjöf, en snjókyngið þó öllu mest um Húnavatnssýslu vestanverða og vestur fyrir Hrútafjörð; var það í mörgum þeim sveitum að eigi sá dökkan díl um sumarmál. Kastið sem hér kom 6.10. [maí] og varð hér mjög þungt og reið víða á slig dregnum og mögrum sauðfénaði og hrossum, náði einnig norður um allt, og varð gaddurinn þar 14° á Reaumursmæli, (sama sem 17,5 á Celsius) og snjókyngi svo mikið um Skagafjörð og Húnavatnssýslu að víða var kviðsnjór í byggð; hafís var þá kominn fyrir öllu Norðurlandi vestanverðu, var orðinn landfastur á Skaga og hrófl komið á Húnaflóa; það er og í annál færandi að á Bræðratungu i Biskupstungum, sem er talin ein hin besta hrossagöngujörð og hagasæl að öðru, voru 60 hross hýst og gefin full gjöf fimmtudag og föstudag í 3. viku sumars [7. og 8.maí], og öllum sauðfénaði. Frost hefir verið á hverri nóttu fram til 17. þ. m., kalsi, þyrringar og gróðurleysi; í gær gafst hinn fyrsti hlýi dagur á þessu vori með áleiðingum og úða.
Júní var sérlega kaldur og snjóaði langt fram eftir mánuði. Síðar í mánuðinum skánaði heldur.
Séra Þorleifur Jónsson veðurathugunarmaður í Hvammi í Dölum segir frá því að þann 2.júní hafi hvesst og þá hafi snjóað ofan í sjó að kveldi og um nóttina. Þann 29.maí snjóaði einnig í byggð í Hvammi.
Þjóðólfur segir stuttlega 10.júní:
Eyjafjallasveit er hið vorsælasta og gróðursælasta pláss þegar úti líður, sem hér er til á landi, þar sást ekki litur á jörð nú um mánaðamótin, og um byrjun þ.mán. hét ekki að sæi á dökkan díl um fjallbyggðirnar á Mosfellsheiði, gaddbylur var þar um byggðina nóttina 3.-4. þ. mán. [júní], og frost á hverri nóttu og víða til fjallsveita fram til þessara daga; en ekki svo klakalaust í kálgörðum að þeir yrði yrktir framan af þessum mánuði.
Norðanfari birti í ágúst tvö bréf að austan:
(Úr bréfi að austan 24.júní). Veðuráttan var frá sumarmálum til Vítusmessu [15.júní] einhver hin grimmasta og kaldasta vortíð, og gróður nærri enginn, voru bleytu snjóveður alloft, svo tók fyrir jörð um sumarmál síðan harðviðri og grimmdir. 5. maí var svo ofsalegt norðanveður með dimmviðri, að verra kemur sjaldan á þorra 1214°R frost, síðan var jafnan kuldanæður norðaustan, með snjó og sífelldum frostum. Vikuna fyrir hvítasunnu var bærilegast nokkra daga og fór að slá grænku í tún, síðan harðnði aftur og nú seinast 11.12.júní, snjóaði um fjöll og byggðir; en síðan tók að hlýna, og eru nú blíðudagar. Víða komust menn í heynám af þessum vorharðindum, einkum norður í fjörðum vegna jarðbanna og harðinda á undan og í efstu sveitum, því hey voru þar nauðalítil fyrir grasbrestinn i fyrra. þó hafa engir misst og fénaðarhöld furðu góð eftir svo vont vor, því þessi litlu hey reyndust holl, menn gáfu allvel fénu meðan fóðrið entist og pest var með minnsta móti.
Úr bréfi 11. f.m. [júlí], að austan líka, sem kom með Níelsi pósti; er kom úr austanferð sinni hingað til kaupstaðarins hinn 24 f.m. var þetta hið helsta að frétta: Kuldarnir og gróðurleysið hafði þar verið, sem hér, allt til þess fyrir hálfum mánuði síðan, að þá hlýnaði og fremur horfur á, einkum í fjörðum, að grasvöxtur mundi verða í meðallagi. Fráfærur urðu þar eystra, sem hér, í seinasta lagi; og eigi urðu lömb rekin sumstaðar á afrétti fyrir gaddi og gróðurleysi. Hákarlaskipin frá Berufirði höfðu aflað allvel, þó miður en í fyrra. Fiskiafli kominn fyrir löngu eystra. Eggverin fremur brugðist.
Júlí. Fær ekki mjög ill eftirmæli, þrátt fyrir rigningakast.
Í október birti Norðanfari bréf af Rangárvöllum, dagsett 22.júlí:
Tíðarfarið á útmánuðum og allt fram að hvítasunnu var hér mjög óstöðugt og kuldasamt og snjóþyngsli mikil í fjallbyggðunum; heyskortur var víða, en þó mest í Landmannahrepp; féll þar margt af sauðfé og hrossum. Einnig í Fljótshlíð fé það sem gekk í heiðarlandinu Þórsmörk og venjulega er þar sjálfala, enda gjörði hér ekki lítið til aðkast það sem var fyrstu vikuna af maí, því hér á Rangárvöllum var þ.5. og 6. maí 12-14 stiga frost. Síðan með júnímánaðarbyrjun hefir verið rétt góð tíð, grasvöxtur alltað því í meðallagi. Vegna ógæfta urðu fiskihlutir fyrir Landeyjasöndum mjög litlir í vetur eða 100-200, en betri hlutir undir Eyjafjöllum og í Vestmannaeyjum hæstir hlutir hálft sjötta hundrað, og í sumar hér austanfjalls hæst á fjórða hundrað. Eftir miðjan marsmánuð lagði þiljubátur frá Vestmannaeyjum út til hákarlaveiða, með 7 mönnum, og hét formaðurinn Sæmundur, ungur og efnilegur; og hefir eigi enn spurst til þessa skips, og er það því talið frá. ... Merki hafa sést til þess hér syðra, að eldur muni uppi einhverstaðar í óbyggðum, því mistur hefir verið mikið, og sólin rauð sem eldhnöttur, einkum þann 15 þ.m., en þó eigi orðið vart öskufalls.
Þjóðólfur segir frá eldmistri í pistli þann 29.júlí:
Eldur uppi. Þess var getið í Þjóðólfi í vor, að í næstu sveitunum fyrir austan Mýrdalssand hefði sést reykjarmökkur í óbyggðum, um sömu stöðvar, eins og i fyrra, þ.e. borið í fjallið Kaldbak, sunnan úr Meðallandi. Allan fyrri mánuð [júní] mun samt lítið eða alls ekki hafa borið á þessu; en þegar rigningatíðinni linnti, sem gekk allan fyrri hluta þ.m. [júlí] fram til kvölds 13. þ.m., þá var það þegar hinn næsta morgun, að um uppkomu sólar var hún rauð sem blóð, og eins að sólarlagi um kvöldið. Bæði þenna dag og alla dagana fram til fimmtudags 23. þ. m. var loftið fullt með mistur, og sólin svo döpur um hádag, að það var oft, að hún gaf hvorki eðlilegt skin né skugga, [þó] skýjalaust væri í kring; um sólarupprás og sólarlag var jafnan roði á sól, þegar hún rann í heiði og svo var einnig að morgni 23. þ. m., var heiði, þá mikill roði á sól fyrst um morguninn, og brá fyrir öðru hverju fram yfir miðjan morgun, en hún óvenju döpur og hét skinlaust allan þann dag; síðan hefir ekki borið á neinu þessleiðis á sólu né lofti. Hvergi hér syðra né eystra hefir orðið vart öskufalls, enda hefir veðurstaðan verið stöðug vestanátt og útræna hér syðra og eystra frá 13. þ. mán. Menn hafa tekið eftir þessum missmíðum á lofti og sól víðsvegar um Norður- og Vesturland og einnig á franska herskipinu Danaé, sem nú fór kringum landið á þessu tímabili, en austan yfir Mýrdalssand eru eigi yngri fregnir en frá 13. þ.m., var þá eigi orðið vart neins öskufalls þar um sveitir, né misbrests á jörðu eða málnytu; það eina þóttu afbrigði, að jarðeplagras í görðum var farið að skrælna upp og verða svart, eins og eftir norðanveður með frosti á haustin; svona fór einnig jarðeplagrasið þar um sveitir í fyrra, á meðan eldurinn var uppi.
Eldmisturs er víða getið á veðurathugunarstöðvum um og upp úr miðjum mánuði.
Í frétt um veikindi og dauða sem birtist í Þjóðólfi 5.nóvember segir af veðri sunnanlands í júlí:
Um miðjan júlímánuð er almenningur hér syðra var í heimleið úr kaupstaðarferðum sínum gengu hér miklar rigningar og óveður um þá daga.
Í ágústblaði Norðanfara er fjallað um tíð og eldmistur - pistillinn virðist ritaður kringum þann 10.:
Síðan 10. f.m. [júlí] hefir veðuráttan hér nyrðra mest verið norðan og köld og frost oft á nóttunni, svo lagt hefir vatn í byggð. Hafísinn allt að þessu víða hvar skammt undan landi, svo hákarlsafla hefir eigi orðið sætt á hinum venjulegu miðum, enda nú fáir aflað til muna hinn seinasta hlut vertíðarinnar, og aflinn yfir höfuð hjá flestum með minna móti. Hæstur hlutur 7 tunnur lýsis. Fiskiafli hefir mátt heita nú um tíma góður fyrir Ólafs- og Héðinsfjörðum og nokkur hér yst í firðinum, þá ný síld hefir verið til beitu, lítill fiskiafli hér innar á firðinum, og aðeins orðið fiskvart á Pollinum. Hvorki á Húnaflóa né Skagafirði hefir verið sagt mikið um fiskaflann enn, og heldur ekki norður undan. 15.f.m. [júlí] var hér óskýað loft, en þó svo þykkt af mósku, að varla sást til sólar, og hún svo rauð, sem eldhnöttur og skin hennar líkast eldsbirtu. Einkum þann 25. s.m. var hér mistur mikið, svo langt til að sjá var sem kafa rigning; það er því ætlun manna, að eldur muni uppi, þó hvergi hafi enn spurst til hans. Grasvöxtur er víða, sér í lagi á útkjálkum, sagður með minnsta móti, og varla nú sjáanlegt, að jörð muni sumstaðar þetta sumar verða ljáborin. Aftur er sagt í sumum sveitum, að tún séu sprottin sem í meðalári, einnig flæðiengi. Þar sem fénaður gekk bærilega undan í vor er sagt að málnyta hafi verið í meðallagi þar til frostin fóru að koma á nóttunni, sem hafi rýrt hana að mun.
Þjóðólfur birti þann 25.ágúst kafla úr bréfi úr Skaftártungu. Það er dagsett 11.ágúst:
Ekkert vitum vér heldur en vant er, um eldinn, og víst er um það, að vér hér upp til fjallanna höfum ekkert til hans séð í vor, eða sumar, en Meðallendingar þykjast »hafa séð hann líkt og í fyrra. Hér er samt oft að sjá, sem loftið sé fullt af móðu og mistri, en ekkert er það á við mikla blámann í fyrra; enn mjög er hér þurrkasamt o.s.frv.
Ágúst. Framan af var óvenjuleg norðankuldatíð og illt fyrir norðan en skárra syðra. Um miðjan mánuð skánaði nokkuð.
Þann 9.ágúst segir Séra Jón Sveinsson veðurathugunarmaður á Hvanneyri í Siglufirði frá því að alhvítt sé þar af snjó. Hiti var við frostmark allan daginn.
Norðanfari lýsir tíð í ágúst og fram eftir september í septemberblaðinu:
Frá 4.-16. ágúst, voru oftast miklir norðan kuldastormar, með minni og meiri úrkomu, regni, krapa eða snjó, og stundum ofan undir bæi, helst frá 6.10. s.m. Varð þá á sumum fjöllum ókleyf færð fyrir fanndýpi og gaddi, því hörkurnar voru oft miklar til fjalla og stundum í byggð. Síðan þann 16. [ágúst] og allt til þess í dag, 17. september hefir veðuráttan verið stilltari, þurrari og hlýrri, en frost aftur meira eða minna á hverri nóttu. Heyin sem búið er að ná heim í garð, máttu hjá flestum vera með góðri verkun, þó sumstaðar sé sagt að töluvert hafi hitnað í töðunum. Fiskiafli hefir verið mikill, allstaðar hér fyrir Norðurlandi þá gefið hefir að róa, eða honum vegna heyanna orðið sætt. Nokkrir hér á Eyjafirði hafa aflað mikið af haf- eða hæringsíld. Við hákarlsaflann hefir lítið bæst frá því áður er getið, ... Móðan eða mistrið [sem] getið er um að verið hafi í júlímánuði var hér öðru hverju fram í ágúst; eru það enn gátur manna, að eldur muni uppi einhvers staðar í óbyggðum, helst Skaftárjökli, Skaftárgljúfrum eða Trölladyngjum.
Í októberblaði Norðanfara er bréf úr Snæfellsnessýslu, dagsett 18.september - þar segir frekar af manntjóni í maíhretinu mikla:
Síðan hinum hörðu vornæðingum linaði, sem hér var 18 maí hefir veðráttan mátt góð heita, en þó oftast köld og framan af þyrrkingsleg. Skepnuhöld voru hér víða bág, og lambadauði óvanalegur. Málnyta því harla rýr, svo sumir áttu ekkert lamb lifandi og enga á í kvíum. Ég sem hafði nóg hey bæði fyrir mig og marga aðra, þó allt ynnist upp, af því gjafartíminn náði svo langt fram á sumarið, átti ekki lömb undir helmingi ánna, sem þó ekki voru nema 90. Fiskiaflinn brást hér í vor eins og að undanförnu, og er það mest kennt þeim grúa af frönskum fiskiskipum, sem hér liggja framan af vorin, meðan gengdar er von, enda upp á efstu miðum. Einstakur grasbrestur var hér á túnum, svo þau harðlendu urðu ekki hærð nema að nokkru leyti í þeim sífelldu þurrkum, sem gengu í sífellu fram undir lok f.m. [ágúst]. Engjar og úthagi hafa sprottið vel í meðallagi, en nýting á öllu góð. ... Ég man ekki hvort ég hefi séð þess getið í blöðunum, að sama daginn sem Gunnlaugur á Lóni var að hrekjast á jakt sinni á Þistilfirði , urðu 2 skiptapar undir Jökli: 2 skip hleyptu þann 5. maí frá Sandi til að lenda í Gufuskálum. Af öðru fórust 4 menn, en 4 varð bjargað af kjöl með því móti, at 2 menn vaðbornir óðu útí brimið og köstuðu til hinna bólum, og drógu þá þannig til lands. Á hinu skipinu voru 8 og fórust allir, það fór ekki af kjöl, en brimöldurnar tóku mennina út, sú fyrsta 4, önnur 2, svo tók 1 út, en 1 var lengst á skipinu, og tók loks út, er það var komið nálægt landi, en mannhjálp var þar í stórgrýti og hafróti ómöguleg. Sama dag drukknuðu 2 menn, sinn af hverju skipi í lendingu, annar undir Jökli, annar í Eyrarsveit: svo 14 menn drukknuðu þann sama dag svo að segja í sömu veiðistöðu.
Þjóðólfur birti þann 12.desember bréf úr Suður-Múlasýslu, dagsett 16.september:
Tíðin hefir verið þurr og köld, lítið gras víðast, en nýting besta til 10. þessa mánaðar. Nú hafa síðan verið rigningar. Frost hafa á sumrinu verið svo mikil og þrálát, að ég man ei eftir slíkum, og þess vegna hefir jarðeplarækt hér eystra öldungis misheppnast, og það verst að ekkert fæst til útsáðs.
Í nóvemberblaði Norðanfara voru birt tvö bréf dags í september.
Hið fyrra úr Nesjum í Austur-Skaftafellssýslu 15.september: Sumarið hefir verið þurrkasamt, og stöðugt góðviðri, nema tvo sunnudaga hvern eftir annan [9. og 16.ágúst], kom hér fjarska mikið veður af norðri. Þó varð af því lítill skaði, nema nokkuð fauk af töðu í Hoffelli og Svínafelli. Grasvöxtur varð hér í minna lagi, helst á mosajörð en að samanlögðu þó betri en í fyrra. Tún urðu seinunnin sökum þurrka, en vegna staklegra góðra gæfta eru heyföng hjá flestum í meðallagi.
Hitt septemberbréfið er úr Suður-Múlasýslu, dagsett 27.september: Upp úr þingmaríumessu [2.júlí] fór veðuráttan að hlýna og grasið að spretta; var öndvegistíð nærri heilan mánuð, nærri sífelldir þurrkar og kom varla vatnsdropi úr lofti. Þó uxu tún og harðlendi nærri í meðallagi, því jörðin hafði haldið þar í sér vökvanum fyrir það frostið var svo lengi undir niðri. Vatnsengjar, sem aldrei þorna uxu og vel, en mýrar sem vanar eru við að vaxa við bleytu uxu lítið og var þar allstaðar mikill grasbrestur bæði í Fjörðum og Héraði. Nýting heysins sem fékkst varð víðast hvar mæta góð. Þó tíðin væri harla góð allan júlímánuð var þó loftið jafnan kalt um nætur, frost á fjöllum og jafnvel í byggð. Bar mest á þessu í heiðarbyggðinni hjá Jökuldal, svo þar var bágt að bjarga sér fyrir frosti í flóunum. Sunnudaginn í 16. viku sumars [9.ágúst] var hér foraðsnorðvestanveður með stórviðri frosti og snjó á fjöllum, fauk víða hey, og í heiðabyggðum lagði engjar undir gadd. Annað veður litlu betra kom um næstu helgi eftir, og alloft var veður kalt og hretasamt í ágústmánuði og fram um 20 viku sumars, þá brá til rigninga mikilla og hafa nú verið óþurrkar síðan allt til þessa. Fjöll eru þakin snjó og eru menn hræddir [um] fé hafi fennt. Göngur hafa gengið erfitt og fjárheimtur illar. Allir eiga mikið hey úti, og flestir hafa heyjað lítið. ... Kartöflurækt hefir öll orðrið ónýt á Austurlandi þetta sumar: fyrst óx lítið fram í 16 viku sumars, því seint var sett niður og loftkuldinn var æði mikill, og svo braut og drap í skemmdaveðrinu í sömu viku allt grasið, svo ekki óx telandi síðan.
September var enn umhleypingasamur og með úrkomu og jafnvel hríðarbyljum.
Þjóðólfur var um hríð upptekinn af fjárkláða og slíku - en birti þann 19.október alllangan pistil um sumartíðina:
Í maí og júníblöðum þessa árs var skýrt frá árferðinu fram yfir fardagana; í öndverðum maí var frostið 12°R á Svalbarðsströnd en 14 til fjallsveitanna þar nyrðra; 16. [maí] fór síra Þórarinn prófastur Kristjánsson á skíðum á eina útkirkju sína. Fénaður féll víða eins og fyrr var sagt, og fjarska unglambadauði víðast hvar um land, en málnytufénaður allur gekk magur undan, og gróður kom fjarska seint, um útkjálka-sveitirnar norðanlands var eigi kominn sauðgróður fyrr en um byrjun júlí. Júnímánuður var frostavægari en maí, en þó nálega frost á hverri nóttu til fjallbyggða, og eins var allan júlí og ágúst. Það var víða upp til sveita, að eigi var nema 1/2 páltorfa ofan að klaka um júnílok, og eigi stunguþítt til húsa uppi á heiðarlöndum hér syðra í júlímánuði. Dagana 9.11. ágúst gjörði megnt norðaníhlaup er tók yfir allt land, nema hafi orðið minna úr því um Austur-Skaftafells- og Múlasýslur; í Skaftártungu voru þá öll moldarrof gödduð um hádag og hraun lögðust undan hesthófunum, kafaldsbylur svo mikill um Fljót og Siglufjörð að illfært þótti milli bæja, og 56°R frost um Miðdali. Grasvöxtur á túnum var hér syðra víðast hvar undir það í meðallagi en lakari í fjallasveitum ; útvalllendi í betra lagi allstaðar eystra fyrir austan Þjórsá en miður hér vestan til, mýrlendi víðast með sneggsta móti nema flóð og flæðiengi; norðan- og vestanlands var grasbrestur miklu meiri, einkanlega í öllum útkjálkasveitum og um Múlasýslur, en nýting hin besta yfir land allt. Hér sunnanlands er því talinn heyskapur i meðallagi yfir höfuð að tala, sjálfsagt að gæðum þótt ekki sé að vöxtum, en miklu miður norðan- og vestanlands, er það nú ef eigi hafa náðst lítt skemmd útheyin sem lentu undir snjó í byljunum um mánaðarmótin. Kályrkjan og einkanlega jarðeplaræktin hefir allstaðar misheppnast, enda varð aldrei sett í garða í sumum fjallasveitum þar sem ekki var orðið stunguþýtt í görðum um messur; það bættist og á að allt gjafafræið frá stjórninni var að þessu sinni ekki kálrabíi, heldur næpnafræ, og gabbist margur maður stórilla á því. Undir síðustu mánaðamót [septemberlok] gjörði mesta íhlaup með fannkomu bæði hér syðra, svo megnis snjór var hér víða í byggð og lá við ófærð á Mosfellsheiði, en einkum norðanlands og vestan; bæði um Dali og víðar vestanlands um Stranda-, Húnavatns- og Skagafjarðarsýslu varð mikill hluti útheyja undir þeim snjó, því allan seinni helming [september] gengu óþurrkar þar um sveitir; heyi þessu var ónáð þegar síðast spurðist, á fjallvegum nyrðra varð koffortabraut, t.d. á Laxárdalsheiði; um þær heiðar varð 40 fjár undir fönn, og kafnaði flest; víðar fennti þá fé norðanlands, og varð maður úti í Reynistaðaleit í Skagafirði.
Norðanfari segir af sérlega illri tíð, skriðuföllum og snjóflóðum þar nyrðra í októberblaðinu:
Síðan 17. september næstliðinn, að vér sögðum frá veðráttufarinu, skipti strax þar eftir um það, því þá gekk að rík norðanátt, hvassviður og dæmafáar úrkomur, ýmist stórrigningar, krapi eða snjókoma, einkum frá 18.-23. [september]; láku þá og streymdu flest hús, er voru með torfþaki, svo að hvergi var flóafriður. Flest sem í húsunum var lá undir meiri og minni skemmdum. Hey sem komin voru undir þak eða í hlöður, drap sumstaðar, svo upp þurfti að draga; skriður og jarðföll hlupu fram hér og hvar t.a.m. millum Þóroddstaða og Geirbjarnarstaða í Köldukinn í Þingeyjarsýslu, hvar mælt er að fallið hafi skriða eða jarðfall, 100 faðma breitt ofan úr fjallsbrún og allt niður í Skjálfandafljót svo það stíflaðist að nokkru leyti, 7 eða 8 skriður og jarðföll, er sagt að fallið hafi í Garðsnúp í Aðaldal og nefndri sýslu, og tekið töluvert af heyi t.a.m. frá einum bæ um 30 hesta. Í skriðum þessum, einkum þeirri í Kinninni, lenti sauðpeningur, er menn eigi gjörla vita tölu á. Ókleyf fönn kom ekki aðeins á fjöllum heldur víða í byggðum sér í lagi á útkjálkum, svo líklegt þykir að fé hafi fennt; allur peningur settist sumstaðar í hús, og varla að hross gætu bjargað sér fyrir fannfergju, Vegir urðu ófrir eða lítt færir, vegna snjóa eða aura: Snjóflóð féll í Ausugili á Látraströnd og víðar. Snjóflóð féll og í ágústmánuði í sumar á Gæsadal sem liggur undir Laufás, og fórust þar nokkrar kindur er fundust í því og talið víst, að fleiri kindur hafi týnst þar. Mikið af heyjum lá úti, þá áfellið skall á, já svo að nokkrum 100 hesta namdi á einstöku bæjum, og í sumum sveitum ekki svo fáir sem aðeins væri búnir að fá 620 hesta af útheyi undir þak; eldiviður hjá flestum þá og úti; jarðepli óupptekin. Dagana millum 23.28. september birti dálítið upp, en frá þeim degi og til hins 7. október aftur oftast meiri og minni úrkoma ýmist bleytuhríð eða krapi og stundum töluvert frost með norðan hvassviðri. Síðan og til þess í dag 13. [október] hefir mátt heita góð tíð, og margir í hinum vetursælu sveitum getað bjargað hinu mesta af heyjum sínum, en að líkindum ekki með sem bestri verkun. Vegna illviðranna hefir orðið mjög stopult með fiskaflann, og hann nú horfinn að mestu ef ekki öllu hér af innfirðinum, en síðan að nú batnaði og gæftirnar fóru að koma, er sagður mikill afli hér útfirðis og víðar. Þá áfellið kom fyrst á og fjallgöngur víðast stóðu yfir, var Árni nokkur bóndi á Skarði í Dalsmynni í Laufássókn í göngum ásamt fleirum á svo nefndum Skarðsdal, sem varð svo yfirkominn af vosi og kulda, ásamt annarri vesæld, að hann dó þar, svo hann varð að flytja örendan heim. Tveir menn er sagt að um sömu mundir hafi orðið úti, einnig í fjallgöngum, annar á Gönguskörðum í Skagafjarðarsýslu, en hinn í Miðfirði í Húnavatnssýslu, var það drengur 12 vetra; og hvorugur þessara fundinn þá seinast fréttist hingað. Fleiri menn voru og nær því orðnir úti í göngunum, en sem komust aðeins ódauðir til bæja. Þessi óveðrakafli, er einhver sá stríðasti [sem] elstu menn hér muna til um þennan tíma árs.
Október. Illviðra og umhleypingasamt.
Þjóðólfur segir þann 24.nóvember af skipsköðum í október og nóvember:
[Þ.] 24. [október] barst inn á skipaleguna að Stapa á Snæfellsnesi masturslaus Slup skipið Karen Jóhanna frá Kristjania í Noregi, skipherra Chr. Nielsen, með 3 undirmönnum, og gáfust þar upp og seldu skip og góss fram til strandreks; þeir voru á heimleið frá Akureyri, en hittu ofveður hér fyrir framan Faxaflóa eða í honum utanverðum, svo mikið, að þeir urðu að kubba mastrið niður við þilfar til þess að bjarga lífi, og bárust síðan inn að Stapa. Skipið var þar selt, með rá og reiða fyrir 600 rd. við opinbert uppboð, og hreppti það boð Jón Bergsson, skipstjóri, sá er hér var fyrir félags-hákarlaskipinu í hitteðfyrra; annar farmur og góss af skipinu er mælt að hafi selst á samtals 100 rd. og þar á meðal hver lýsistunna á 15rd. [Þ.] 12.13. [nóvember] bar uppá Kirkjubólsreka á Suðurnesjum »Skonort« skipið Katharina, skipherra Binas, frá Kaupmannahöfn; P.L. Henderson í Glaskow átti; það kom út á Seyðisfirði í ágústmánuði þ.á., fór þaðan til Grafaróss, og svo hingað, og átti að taka við verslun hans hér ýmsa vöru, en hitti fyrir ofveðrin 11. 13. [nóvember] hér í Faxaflóa, laskaðist mjög og bar svo uppa sker og grynningar fyrir framan Miðnesin, og fór þar allur botninn undan skipinu. Einn skipverjanna af 7 tók þá út, en hinum var bjargað. Skipstrand þetta var selt að uppboði 20. þ. mán., með öllu góssi fyrir samtals á 7 þúsund rd.
Þjóðólfur segir af árferði og fleiru þann 27.nóvember:
Fregnirnar víðsvegar að norðan og vestan samróma allar, að heyskapur varð svo endasleppur, að til mestu vandræða má horfa víðast, enda hvernig sem veturinn ræðst. Um Dali, Hrútafjörð og Húnavatnssýslu var það víðast, að engi tugga náðist í garð, úr því komið var fram í 19. viku sumars, böguðu óþerrar fyrst, en síðan snjóar og illveður; því snjór sá er féll síðari hluta september og framan af [október] með útsynningskrapahríðum, var nógur til þess, þó að ekki væri fannfergi á láglendi, að aldrei tók upp þann snjó í fjallabyggðunum, svo að heyið næðist. En síðan um veturnætur og fram til 24. [nóvember] hafa verið sannar vetrarhörkur af byljum og frostum, og haglaust sumstaðar. Fregnir og bréf úr Múlasýslum er ná til 30. september ... , segja þar eins endasleppan heyskapinn, og megnis úthey óhirt, en svo er að sjá, að þá hafi þar verið miklu snjóminna en hér, og þess vegna væntu þeir aðeins þurrviðris til að ná heyinu undan. Af þessu sem nú var sagt, leiðir auðsjáanlegan fóðurskort og önnur vandræði vestanlands og norðan, enda kvað fjöldi manna þar verða að skera niður lömb sín og annan fénað. Hér sunnanlands allstaðar er miklu betur statt með allan heyforða og vér ætlum í fullu meðallagi víðast af nýjum heyjum, sjálfsagt að gæðum og sumstaðar að vöxtum; en um fyrningar frá fyrra ári er hvergi að tala, að kalla má. Hvergi á landi ætlum vér vandræða ástandið sé eins almennt og opið fyrir, eins og nú, er skrifað úr Barðastrandarsýslu, einkum vestari hreppunum, og virðist þar horfa til hungurs og hallæris, ... Fiskigæftir hinar stirðustu og fiskiafli lítill hér um allan Faxaflóa, það sem af er haustvertíð.
Nóvember. Ekkert lát á umhleypingum.
Norðanfari segir af tíð í nóvemberblaðinu:
Síðan 13. þ.m. hefir líku viðrað hér norðanlands og oftast í haust, nema dag og dag bærilegt veður. Víða er sagt orðið hagskart vegna spilliblota, áfreða eða snjóþyngsla, ofan á það sem hvervetna fréttist, að heyin sem komin voru undir þak, séu meira og minna drepin og skemmd. Vatn er sagt að sumstaðar hafi gengið upp í tóftum og hlöðum og á nokkrum bæjum hrunið inn á heyið. Margir eiga enn úti hey sín undir gaddinum, af því ekki eru troðin af skepnum og étin eða flutu burtu af flóðum og vatnagangi. Útigangspeningur farinn að láta hold venju framar um þenna tíma, þar sem töðurnar hafa drepið eða ofhitnað af bruna, er málnyta af kúm mjög við minni mun það er því, sem horfur á ástandi manna hafi sjaldan verið ískyggilegra en nú og alla mögulega forsjá verði við að hafa, ef ekki menn og skepnur eiga að verða bjargþrota og hungur og manndauði fyrir dyrum. Frostið hefir orðið mest 14 stig á Reaumur. Aðfaranóttina hinn 27. þ.m. brast hér á allt í einu fjarskalegt ofviður sunnan útsunnan, fuku þá víða skip og fleira sem tjón varð af.
Norðanfari birti í desember bréf að austan, dagsett 18.nóvember:
Tíðarfarið hefir verið svipað hjá okkur, og nyrðra, Má svo kalla að sífelld ótíð hafi verið síðan í 20. viku sumars til þessa dags, þó hægviðri og úrkomulaust hafi verið margan dag og brugðið stundum til þíðu, þó hefir enginn verulegur bati komið allan þennan tíma; gengu fyrst lengi rigningar og krapaveður, stundum frost grimmdir með kafaldi á fjöllum og í byggð. Hey voru almennt úti fram að veturnóttum og lengur; í Suðurfjörðum og Fljótsdal náðust þau nokkru fyrr, en þó mjög hrakin og illa hirt; sumstaðar er hey úti enn og undir gaddi, er það helst í Jökuldalsheiðum og Hrafnkelsdal. Í sumum sveitum hefir orðið svo skarpt um jörð, að lömbum varð að gefa. Nú sem stendur er hér snjólítið um flestar sveitir en sollin jörð og óholl. Jarðeplarækt varð hér allstaðar ónýt og það litla sem var fraus víða áður enn menn náðu því upp til að tína úr því útsáðsber.
Í janúarblaðinu 1864 birti Norðanfari tvo bréfstúfa, dagsetta í nóvember 1863:
Gullbringusýslu í nóvember: Dagana 20. 23. september var eitthvert hið mesta norðanveður, sem hér hefir komið. Undir Eyjafjöllum, er sagt að hey hafi þá tekið úr görðum. Fyrst í októbermánuði komu kýr alveg á gjöf; gekk þá af með frosti og snjókomu, svo kviðsnjór varð á fjöllum.
Strandasýslu 21.nóvember: Vandræðahaust mikið í framhaldi af illu ári á undan. Hey lítil, víða úti enn og stórskemmd það litla innkomst af sífelldum rigningum og snjóbleytum dæmalausum í allt haust.
Desember. Óvenjukaldur mánuður. Sennilega skárri syðra heldur en nyrðra.
Norðanfari segir af tíð í desemberblaðinu:
Tíðarfarið hefir síðast vér sögðum seinast frá því að framan, verið sem oftast áður, mjög stormasamt og ýmist meiri eða minni snjókoma, nema dagana sem hlánaði, og kom upp víða hvar allgóð jörð, en nú er hér Um sveitir og norðurundan sögð komin aftur mikil snjóþyngsli, eða þá jarðlaust fyrir áfreða, og sumstaðar farið að taka gaddhesta á gjöf. Þar á móti er sagt betra til jarðar víða hvar um Skagafjörð og Húnavatnssýslu. Frostið hefir orðið mest 17 18 stig á Reaumur.
Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um árið 1863. Að vanda eru fáeinar tölur í viðhenginu - hitameðaltöl og fleira.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 22:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.2.2020 | 02:56
Þrýstivik í janúar
Loftþrýstingur var lágur í nýliðnum janúar, meðaltal mánaðarins í Reykjavík 984,5 hPa og það lægsta í nokkrum mánuði síðan í febrúar 1997 og lægsta í janúar síðan 1993.
Hér má sjá meðalsjávarmálsþrýstikort mánaðarins (heildregnar línur). Vik eru sýnd í lit. Lægðasvæðið við Ísland er mun öflugra heldur en venja er - og þrýstingur yfir Miðjarðarhafi er meiri en að meðaltali. Þetta veldur því að vestanáttin yfir Evrópu var mun sterkari í mánuðinum en að meðaltali. Þrýstivik sem þessi valda venjulega miklum jákvæðum hitavikum í norðanverðri álfunni - í þessu tilviki norður í miðja Skandinavíu. Methlýindi voru þar sem vestanvikin voru mest.
Sama á við um vik í 500 hPa-fletinum.
Meðalhæð 500 hPa-flatarins í mánuðinum var aðeins 5100 m yfir Íslandi, sú lægsta síðan í desember 2011 (einum sárafárra kaldra mánaða þessarar aldar) og sú lægsta í janúar síðan 1993.
Þessar lágu tölur rifja ýmislegt upp í huga ritstjóra hungurdiska. Á þeim árum sem hann byrjaði að fylgjast ítarlega með veðri var loftþrýstingur oftast fremur hár (á sjöunda áratugnum) - alla vega sást lítið til mánaða með mjög lágum meðalþrýstingi. Er honum því mjög minnisstæður janúar 1974 - sló allt sem hann hafði kynnst fram að því út af borðinu. Meðalþrýstingur var aðeins 977,1 hPa í Reykjavík - nýmeti var fram borið. Það var reyndar ekki fyrr en fáeinum árum síðar að ritstjórinn fór að gefa háloftaflötum nánari gaum og sá að þessi mánuður átti líka sérlega lágan 500 hPa-flöt, 5090 m yfir Íslandi - líka algjör nýjung frá upphafi samfelldra háloftaathugana 1949.
Við skulum til gamans líta á 500 hPa-vikakort þessa merka mánaðar:
Vikin liggja reyndar á annan hátt en nú - en það voru einnig óvenjuleg hlýindi viða um Evrópu - og áttin var suðlægari en nú hér á landi og úrkoman því blautari. Umskiptin frá hinum ofurkalda desember 1973 (næsta mánuði á undan) voru gríðarleg. Báðir þessir mánuðir, desember 1973 og janúar 1974 virtust hvor á sinn hátt vera afturhvarf til tímans fyrir 1920.
Ritstjórinn fór nú í það að giska á mánaðameðaltöl 500 hPa-flatarins aftur fyrir tíma háloftaathugana og fann að á fyrri tíð mátti finna ámóta mánuði - þeir höfðu bara ekki sýnt sig lengi.
Svo gerist það að fleiri og fleiri lágþrýstivetrarmánuðir fóru að bætast í hópinn, janúar 1975 var mjög efnilegur, og síðan janúarmánuðir áranna 1983 og 1984. Síðan kom nánast hrúga af ámóta mánuðum frá og með 1989 og næstu ár þar á eftir. Að sjálfsögðu fylgdu mikil vetrarhlýindi í Vestur-Evrópu - og þar sem hlýnun af völdum vaxandi gróðurhúsaáhrifa var komin af alvöru inn í umræðuna fullyrtu fleiri og fleiri að þessi nýja staða væri þeim áhrifum að kenna. Gallinn var hins vegar sú að hún var ekki ný - heldur gömul. Þegar lágþrýstimánuðum fór aftur mjög fækkandi eftir 1995 datt þessi umræða niður - og snerist að lokum upp í andhverfu sína þegar háþrýstingur komst aftur í tísku - þá var hann allt í einu vaxandi gróðurhúsaáhrifum að kenna. Þetta er auðvitað hálfpínlegt - eða hvað?
En - þrátt fyrir þetta er ritstjórinn samt á því að greina megi áhrif aukinna gróðurhúsaáhrifa - alla vega í hæð 500 hPa-flatarins - og evrópsku hitametin eru sjálfsagt lítillega snarpari en ella hefði orðið. En höfum ætíð í huga að veðurlag einstakra daga, mánaða og ára hefur lítið með vaxandi gróðurhúsaáhrif að gera - hinn mikli þungi þeirra er undirliggjandi - alla vega enn sem komið er (hvað sem svo síðar verður).
Þakka Bolla Pálmasyni fyrir kortin.
1.2.2020 | 03:02
Óvenjuillviðrasamur janúar
Þó veðurlag síðustu daga hafi verið bærilegt verður ekki annað sagt en að nýliðinn janúar hafi verið óvenjuillviðrasamur. Það er e.t.v. erfitt að mæla slíkt á kvarða sem allir eru sammála um. Meðalvindhraði í byggðum landsins var óvenjumikill, hefur aðeins einu sinni verið ámóta síðan farið var að mæla með sjálfvirkum stöðvum um land allt. Það var í febrúar 2015. Sé litið til lengri tíma finnum við ekki marga mánuði með meiri vindraða síðustu 7 áratugi - en þeir eru til. Stöðvakerfið hefur hins vegar breyst nokkuð - og smáatriðametingur því erfiður.
Ritstjóri hungurdiska reiknar líka það sem hann kallar stormahlutfall, á hversu mörgum stöðvum (af öllum) vindur nær 20 m/s eða meira á hverjum sólarhring. Síðan má leggja tölur allra daga saman og fá út eins konar mál á stormatíðni mánaðarins. Það er hér fer á eftir má ekki taka of hátíðlega, t.d. er ekki búið að leiðrétta fyrir mislengd mánaða (og kemur því niður á febrúarmánuðum í samkeppninni). Lítum fyrst á sjálfvirku stöðvarnar - við getum reiknað svona tölur fyrir þær allt aftur til 1997.
Lárétti kvarðinn sýnir árin, en sá lóðrétti er mál á stormatíðni mánaðar. Hér kemur árstíðasveiflan vel fram - illviðri eru mun fleiri á vetrum en að sumarlagi - allir vetur eiga eindregna toppa - toppurinn 2009 til 2010 er lægstur, veturinn 2014 til 2015 feitur og pattaralegur, bæði desember 2014 og febrúar 2015 mjög háir á myndinni - og janúar hár líka. En janúar 2020 slær alla aðra mánuði út.
Mannaðar athuganir eru að leggjast af - en þó er mesta furða hvað vel tölur þeirra og tölur sjálfvirka kerfisins fylgjast að á þeim tíma sem hægt var að tala um að kerfin tvö væru óháð.
Síðari myndin nær alveg aftur til 1949. Við stelumst til að nota summu nýliðins mánaðar úr sjálfvirka kerfinu (ekki víst að sú mannaða verði alveg hin sama). Hér má sjá að það eru ekki margir mánuðir á síðustu 72 árum sem skáka þeim nýliðna. Við getum þó sagt að allir mánuðir sem ná tölunni 4000 megi heita sambærilegir. Toppurinn veturinn 2014 til 2015 sést vel - og svo eru allnokkrir mánuðir um og upp úr 1990 sem eru svipaðir - febrúar 1989 mjög ámóta og sá nýliðni - og gerir raunar betur sé tekið tillit til lengdar hans. Það er þó janúar 1975 sem best stendur sig á myndinni. Afskaplega eftirminnilegur illviðramánuður.
En líklega er best fyrir ritstjóra hungurdiska að fara að halla sér - ef til vill getur hann sagt fleiri tíðindi af janúar 2020 á morgun - svo birtist yfirlit Veðurstofunnar væntanlega upp úr helginni. .
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 20
- Sl. sólarhring: 214
- Sl. viku: 985
- Frá upphafi: 2420869
Annað
- Innlit í dag: 15
- Innlit sl. viku: 864
- Gestir í dag: 15
- IP-tölur í dag: 15
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010