Meltan úr Stóra-Bola

Nú sitjum við í meltunni úr kuldapollinum Stóra-Bola. Vatnið sem gufaði upp þegar hann gekk út yfir Atlantshafið skilar sér aftur sem éljagangur og snjókoma. Einar Sveinbjörnsson fjallar vel um stöðuna á bloggi sínu veðurvaktinni og ætla ég ekki að endurtaka það. Þó kemur hér nærri því sama mynd - gripin úr gervihnettinum aðeins síðar en mynd sú sem Einar birtir, einnig af móttökustöðinni í Dundee, merkt kl. 20:21.

ch5-040211-2030

Kunnugir munu þekkja Ísland og Grænland á myndinni. Bolameltan situr á Grænlandshafi sunnan og vestan við Ísland. Hún hefur þokast til austurs frá í gær og minnkað mikið að umfangi. Enda grynnist Boli um 60 metra á 12 - 15 klukkustundum í 500 hPa.

Í dag og í gær hafa óreglulegir smásveipir sést í meltunni, en mest ber á risavöxnum éljagörðum. Á ratsjármyndum má sjá að uppstreymið (og úrkomumyndunin) á sér mest stað í tiltölulega mjóum einingum innan éljagarðsins en vindur ber nokkra úrkomu út fyrir sjálft úrkomumyndunarsvæðið. Efst í einingunum skefur hvassari vindur ofan af þannig að lítið er af skýjarofi í bakkanum stóra. Núna sjást einingarnar vel á veðursjá Veðurstofunnar Nýjustu myndir eru á brunni Veðurstofunnar, athugið að tengillinn bendir á almenna síðu sem sífellt er endurnýjuð.

Oftast fer það svo að fái kuldapollur sem þessi að grynnast í friði í nokkra daga myndast í honum póllægðir. Það eru smáir en greinilegir sveipir með annað hvort hringlaga mynstri eða þá svokölluð riðalauf en það eru mjög smáar riðalægðir. Hringsveipirnir eru hlýjastir í miðjunni, rétt eins og hitabeltisstormar, en í dæmigerðu laufi eru hæstu skýin austan eða suðaustan í sveipnum. Undirtegundir og sambland má auðvitað einnig greina. Náttúran er sjaldan alveg klippt og skorin.

En eitthvað þarf að koma til svo snúningur geti myndast. Ég ætla ekki að fjalla um það að þessu sinni en hver veit nema tækifæri gefist síðar. Í nótt mun (vonandi) berast miklu skýrari gervihnattarmynd sem nörd hafa væntanlega gaman af að skoða. Hvort snúningsmyndun sést þar vitum við ekki enn.

Ég get ekki látið hjá líða að benda á stóra, hvíta skýjabakkann yfir suðausturhorni myndarinnar. Bakkinn fylgir þeirri gríðarlega skörpu röst (skotvindur í heimskautaröstinni) sem nú liggur um Atlantshafið þvert, frá Bandaríkjunum, austur um til Evrópu. Vindskaðar munu hafa orðið í Skotlandi í dag (föstudag) og verða e.t.v. áfram á morgun. Skýjamyndun af þessu tagi á sér merkilegar skýringar sem við látum líka bíða betri tíma.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

"Stóri-Boli" kleip í kynnar öldurhúsagesta á Reyðarfirði í nótt, er þeir stóðu í höm við reykingar fyrir utan "Kaffi Kósý". Frostið var um tíma 10 stig, en dálítill kuldapollur er í miðhluta þorpsins sem er lægstur yfir sjávarmáli. Munar gjarnan 1-3 gráðum þar og inn á "Kollaleiru", sem er í innan við eins kílómeters fjarlægð. (Hvort sem er , að sumri eða vetri.)

Gunnar Th. Gunnarsson, 5.2.2011 kl. 12:51

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Á sumrin er þá auðvitað hlýrra, í "kuldapollinum", sérstaklega upp veð melinn. Þar er skjólgott fyrir utanáttinni.

Gunnar Th. Gunnarsson, 5.2.2011 kl. 12:57

3 identicon

Tarna var eitt skemmtilegt nýtt orð sem ég þekkti ekki. Utanáttin er líklega svipað fyrirbrigði og Vestfirðingar kalla innlögn og þeir hér norðanlands hafgolu. Takk fyrir þetta, Gunnar.

Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 5.2.2011 kl. 22:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 92
  • Sl. sólarhring: 278
  • Sl. viku: 1408
  • Frá upphafi: 2349877

Annað

  • Innlit í dag: 79
  • Innlit sl. viku: 1282
  • Gestir í dag: 79
  • IP-tölur í dag: 78

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband