Óvenjuillviðrasamur janúar

Þó veðurlag síðustu daga hafi verið bærilegt verður ekki annað sagt en að nýliðinn janúar hafi verið óvenjuillviðrasamur. Það er e.t.v. erfitt að mæla slíkt á kvarða sem allir eru sammála um. Meðalvindhraði í byggðum landsins var óvenjumikill, hefur aðeins einu sinni verið ámóta síðan farið var að mæla með sjálfvirkum stöðvum um land allt. Það var í febrúar 2015. Sé litið til lengri tíma finnum við ekki marga mánuði með meiri vindraða síðustu 7 áratugi - en þeir eru til. Stöðvakerfið hefur hins vegar breyst nokkuð - og smáatriðametingur því erfiður.

Ritstjóri hungurdiska reiknar líka það sem hann kallar stormahlutfall, á hversu mörgum stöðvum (af öllum) vindur nær 20 m/s eða meira á hverjum sólarhring. Síðan má leggja tölur allra daga saman og fá út eins konar mál á stormatíðni mánaðarins. Það er hér fer á eftir má ekki taka of hátíðlega, t.d. er ekki búið að leiðrétta fyrir mislengd mánaða (og kemur því niður á febrúarmánuðum í samkeppninni). Lítum fyrst á sjálfvirku stöðvarnar - við getum reiknað svona tölur fyrir þær allt aftur til 1997.

w-blogg010220

Lárétti kvarðinn sýnir árin, en sá lóðrétti er mál á „stormatíðni“ mánaðar. Hér kemur árstíðasveiflan vel fram - illviðri eru mun fleiri á vetrum en að sumarlagi - allir vetur eiga eindregna toppa - toppurinn 2009 til 2010 er lægstur, veturinn 2014 til 2015 feitur og pattaralegur, bæði desember 2014 og febrúar 2015 mjög háir á myndinni - og janúar hár líka. En janúar 2020 slær alla aðra mánuði út. 

Mannaðar athuganir eru að leggjast af - en þó er mesta furða hvað vel tölur þeirra og tölur sjálfvirka kerfisins fylgjast að á þeim tíma sem hægt var að tala um að kerfin tvö væru óháð. 

w-blogg010220b

Síðari myndin nær alveg aftur til 1949. Við stelumst til að nota summu nýliðins mánaðar úr sjálfvirka kerfinu (ekki víst að sú mannaða verði alveg hin sama). Hér má sjá að það eru ekki margir mánuðir á síðustu 72 árum sem skáka þeim nýliðna. Við getum þó sagt að allir mánuðir sem ná tölunni 4000 megi heita sambærilegir. Toppurinn veturinn 2014 til 2015 sést vel - og svo eru allnokkrir mánuðir um og upp úr 1990 sem eru svipaðir - febrúar 1989 mjög ámóta og sá nýliðni - og gerir raunar betur sé tekið tillit til lengdar hans. Það er þó janúar 1975 sem best stendur sig á myndinni. Afskaplega eftirminnilegur illviðramánuður. 

En líklega er best fyrir ritstjóra hungurdiska að fara að halla sér - ef til vill getur hann sagt fleiri tíðindi af janúar 2020 á morgun - svo birtist yfirlit Veðurstofunnar væntanlega upp úr helginni. . 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

 • Slide10
 • Slide9
 • Slide11
 • w-1945v
 • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

 • Í dag (24.5.): 27
 • Sl. sólarhring: 82
 • Sl. viku: 1495
 • Frá upphafi: 2356100

Annað

 • Innlit í dag: 27
 • Innlit sl. viku: 1400
 • Gestir í dag: 27
 • IP-tölur í dag: 27

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband