Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2020

Alþjóðaveturinn 2019 til 2020

Alþjóðaveðurfræðistofnunin telur vetur á norðurhveli ná til mánaðanna desember, janúar og febrúar. Alþjóðaveturinn er því styttri en vetur á Íslandi, við teljum mars með - enda oft kaldasti mánuður ársins hér á landi. Ritstjóri hungurdiska hefur undanfarin ár reiknað meðalhita alþjóðavetrarins hér á landi og fjallað um niðurstöður þeirra reikninga.

w-blogg290220

Reiknaður er meðalhiti veðurstöðva í byggð aftur til 1874 - og árum aftur til 1823 bætt við (en landsmeðalhiti fyrstu áranna er mikilli óvissu undirorpinn). Meðalhiti í byggðum landsins síðustu 3 mánuði er -0,2 stig og telst það nokkuð hlýtt á langtímavísu (eins og sjá má á myndinni), en er samt 0,6 stigum lægri en í fyrra.

Veruleg leitni reiknast yfir tímabilið, +1,5 stig á öld. Á 20. öld allri var meðalhiti alþjóðavetrarins 16 sinnum ofan við frostmark, en hefur 9 sinnum verið það nú þegar á þessari öld - þó veturnir séu aðeins orðnir 20. Fari svo fram sem horfir verða 45 vetur ofan frostmarks á 21.öld. Slíkt væri mikil breyting frá fyrra ástandi. Á 19.öld þekkjum við ekki nema 3 vetur ofan frostmarks (gætu þó verið eitthvað fleiri - reiknióvissa er mikil) á 78 árum.

En sannleikurinn er þó sá að við vitum ekkert um framtíðina frekar en venjulega. Rætist spár um hnattræna hlýnun að fullu verða hlýju veturnir væntanlega enn fleiri en 45 á 21.öld - en einnig er vel hugsanlegt að við höfum þegar „tekið út“ meiri hlýnun en okkur „ber“ og talan orðið nær 45 - jafnvel lægri.

Reiknuð leitni á myndinni er ekki síst há fyrir þá sök að vetur kuldaskeiðs 19. aldar voru almennt töluvert kaldari heldur en kaldir vetur kuldaskeiðs 20.aldar. Sömuleiðis hafa mjög kaldir vetur alls ekki látið sjá sig á nýrri öld. Minni munur er á hlýskeiðunum en samt voru kuldaköst 20.aldarhlýskeiðsins snarpari heldur en skyldulið þeirra á síðustu árum - eins og glögglega má sjá á myndinni. Er þetta allt í samræmi við ísrýrnun í norðurhöfum.

Febrúarmánuður hefur reyndar verið furðunærri meðallagi síðustu 30 ára, en almennt rúmu 1 stigi kaldari en meðallag síðustu tíu ára. Úrkoma hefur verið vel yfir meðallagi á Norður- og Austurlandi, en undir því suðvestanlands. Sólskinsstundir eru nærri meðallagi í Reykjavík. Vindhraði er yfir meðallagi í febrúar, en þó sker mánuðurinn sig ekki eins úr hvað vind varðar eins og janúar gerði. Alþjóðaveturinn hefur í heild verið vindasamur hér á landi, en þó var meðalvindhraði ámóta og nú 2013 til 2014 og 2014 til 2015. Þar með er þessi hluti vetrarins orðinn einn af þremur þeim vindasömustu í 25 ár. Illviðradagar hafa líka verið óvenjumargir - en við látum uppgjör á slíku bíða þar til allar tölur hafa borist.

Loftþrýstingur hefur verið óvenjulágur, í hópi þeirra tíu febrúarmánaða sem lægstir eru síðustu 200 ár og meðalloftþrýstingur mánuðina þrjá virðist ætla að verða sá lægsti í 200 ár - að vísu er ómarktækur munur á því sem lægst er vitað um áður og þrýstingnum nú. Merkileg tíðindi samt. Hin miklu hlýindi sem ríkjandi hafa verið í Evrópu og langt austur í Síberíu eru fyrst og fremst afleiðing þessa óvenjulega ástands - hvað sem svo aftur veldur því. 

En eins og áður sagði telst mars til vetrarins hér á landi og stöku sinnum hefur hann sýnt á sér vægari hliðar en hinir vetrarmánuðirnir - en stundum er hann kaldastur og verstur þeirra allra. 

 


Kannski ekki óalgengt

Ritstjórinn varð (vægt) undrandi þegar hann sá kortið hér að neðan (eða öllu heldur fyrirrennara þess) fyrir nokkrum dögum. Kannski er það bara vegna minnisleysis - en einhvern veginn þykir honum þetta ekki mjög algeng sjón (en kannski er hún ekki óalgeng).

w-blogg270220a

Nú verður að skýra út hvað kortið sýnir. 

Litafletirnir sýna norska pólarlægðavísinn [mismunur sjávarhita og hita í 500 hPa]. Verði vísirinn 43 eða hærri eru taldar góðar líkur á myndun lægða af þessu tagi. Fleira þarf þó að koma til, við förum ekki út í það hér. Jafnþrýsilínur við sjávarmál eru gráar, heildregnar, 500/1000 hPa, jafnþykktarlínur eru rauðar og strikaðar og einnig má sjá vínrauðar heildregnar línur afmarka svæði þar sem veltimætti (CAPE) er meira en 50 J/kg. 

Það sem er óvenjulegt er að sjá nær allt hafsvæðið sem kortið nær til þakið gulum og brúnum litum. Á þessum svæðum er munur á sjávarhita og hita í 500 hPa-fletinum (í um 5 km hæð) meiri en 40 stig. Þetta kalda loft er mestallt komið úr vestri (melta úr kuldapollinum Stóra-Bola) - en líka beint úr Norðuríshafi - það sem er austarlega á kortinu. Þetta þýðir að loft í neðri hluta veðrahvolfs er mjög óstöðugt á öllu svæðinu - allt fullt af éljaflókum sem sums staðar raðast upp í garða eða sveipi. Reynslan sýnir að veðurlíkön eiga ekki gott með að ná smáatriðum í þróun slíkra kerfa - sérstaklega þegar þau eru í myndun. Heldur betur gengur að fylgja þeim eftir að þau eru orðin til. 

Pólarlægð er samheiti yfir fremur litla lægðasveipi sem verða til er kalt loft streymir út yfir hlýrra haf. Við að hitna að neðan verður kalda loftið mjög óstöðugt og myndar háreista skúra- og éljaklakka. Þessi sameiginlegi uppruni leynir þó því að eðli þeirra að öðru leyti er misjafnt. Þvermál lægðanna er yfirleitt á bilinu 100 til 500 km, dýpt oft í kringum 5 hPa, vindhraði á bilinu 10 til 20 m/s þar sem mest er og úrkoma talsverð. Þó Ísland sé ekki stórt hefur það veruleg áhrif á lægðir sem ekki eru stærri en þetta. Þó pólarlægðir séu mjög algengar á hafinu umhverfis Ísland er það ekki algengt að þær gangi á land. Þá sjaldan það gerist valda þær oft verulegri snjókomu og samgöngutruflunum en varla teljandi foktjóni. Vindhraði getur þó verið mjög hættulegur minni bátum á sjó.

Lægðin sem olli snjókomu og hálfgerðum leiðindum víða um landið suðvestanvert í dag er þó öllu stærri en svo að ritstjórinn sé fáanlegur til að tala um hana sem eiginlega pólarlægð, en bakkar hennar minna þó á slíkt.

En víst er að suðaustanáttin var með kaldasta móti í dag (fimmtudag 27.febrúar).  


Fyrstu tuttugu dagar febrúarmánaðar (og fleira)

Meðalhiti 20 fyrstu daga febrúarmánaðar er +0,8 stig í Reykjavík, +0,1 stigi ofan meðallags áranna 1991 til 2020 en -0,4 neðan meðallags sömu daga síðustu tíu árin. Hitinn raðast í 13.hlýjasta sæti (af 20) á öldinni. Hlýjastir voru sömu dagar 2017, meðalhiti +4,1 stig, en kaldastir voru þeir 2002, meðalhiti -2,3 stig. Á langa listanum er hitinn nú í 50.sæti (af 146). Hlýjastir voru dagarnir 20 árið 1965, meðalhiti +4,8 stig, en kaldastir voru þeir 1892, meðalhiti þá -4,8 stig.

Á Akureyri er meðalhiti fyrstu 20 daga mánaðarins -1,3 stig, -0,7 stigum neðan meðallags 1991 til 2020, en -1,1 stigi neðan meðallags síðustu tíu ára.

Hitavik raðast svipað um land allt, einna hlýjast að tiltölu á Vestfjörðum og Suðausturlandi (11.sæti af 20). Að tiltölu hefur verið hlýjast á Ingólfshöfða og Breiðdalsheiði, +0,2 stig ofan meðallags síðustu tíu ára, en kaldast á Egilsstaðaflugvelli, -1,4 stig neðan meðallags.

Úrkoma hefur mælst 37,6 mm í Reykjavík, nokkru minna en í meðalári. Á Akureyri hefur verið meiri úrkoma, 65,7 mm, um 50 prósent umfram meðallag. Úrkoma hefur á fáeinum stöðvum mælst meiri en áður sömu daga, t.d. í Hnífsdal, á Reykjum í Hrútafirði, Ásbjarnarstöðum á Vatnsnesi og í Dalsmynni í Hjaltadal. Á öllum þessum stöðvum hefur verið athugað í meir en 20 ár.

Sólskinsstundir hafa mælst 34,2 í Reykjavík, má það heita í meðallagi.

Loftþrýstingur hefur verið óvenjulágur, í Reykjavík 980,3 hPa, -17,8 hPa neðan meðallags 1991 til 2020 og hefur aðeins 5 sinnum verið lægri sömu daga síðustu 199 árin. Lægsta meðaltalið er frá 1990, 972,4 hPa.

Mánaðarvindhraðamet var sett á Bláfeldi í morgun (20.febrúar), 10-mínútna meðalvindur fór í 33,7 m/s.

Eins og talað hefur verið um undanfarna daga er ekki afgerandi breytingar að sjá í spám reiknimiðstöðva. Þó virðist þær gera ráð fyrir því að næsta vika verði heldur kaldari en þær að undanförnu.

w-blogg210220a

Hér má sjá spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um hæð 500 hPa-flatarins og vik frá meðaltali í næstu viku (24.febrúar til 1.mars). Þetta er nokkuð óvenjuleg staða og óráðin og rímar ekki við margt í (götóttu) minni ritstjórans. Þessu fylgir svo spá um hitafar 4 til 5 stig neðan meðallags árstímans. Þó þessu fylgi ekki neinar spár um veruleg illviðri er samt allur varinn góður. Þetta fer að verða að ýmsu leyti óvenjulegt - rétt eins og ástandið á meginlandi Evrópu og austur um.  

 


Umhleypingar áfram

Ekkert lát virðist á lægðaganginum. Þær eru að vísu misillskeyttar og nokkrar þær næstu fara kannski að mestu fyrir sunnan land - eða strjúka landið. Lægðin sem kemur að landinu síðdegis á morgun (miðvikudag 19.febrúar) er mjög öflug - en það er dálítið skrýtið að eftir stóru lægðirnar tvær sem plöguðu okkur um og fyrir helgi virðist hún slök - en er það í raun ekki. Okkur þætti hún slæm ef ekki væri fyrir samanburðinn. 

w-blogg1802020a

Kort evrópureiknimiðstöðvarinnar sýnir stöðuna í 500 hPa-fletinum síðdegis á fimmtudag, þegar þessi lægð verður nokkurn veginn komin hjá. Næsta lægð er svo suður af Hvarfi á Grænlandi á þessu korti. Við sjáum líka kuldapollinn mikla, Stóra-Bola yfir Kanada - hann sýnist ætla að verða aðeins of seinn á sér til að búa til eitthvað mjög stórt úr nýju lægðinni. Sem stendur gera spár því ráð fyrir því að hún renni sína leið rétt fyrir sunnan land - en verði ekki alveg eins öflug og morgundagslægðin. 

Svo heldur þetta bara áfram. Eins og reikningar eru nú þegar þetta er skrifað (á þriðjudagskvöldi 18.febrúar) gæti snjór farið að setjast meir að okkur hér suðvestanlands heldur en verið hefur að undanförnu. Séu þessar spár réttar sýnist svöl vestanátt verða viðloðandi í háloftum eftir að þessar tvær lægðir líða hjá. Það snjóar vestanlands í svalri háloftavestanátt að vetrarlagi - alveg sama þó norðaustanátt sé í sveitum. - Liggi straumar beint af Grænlandi er þó heldur meiri von um bjartara veður. 

En þetta er allt til þess að segja eitthvað - þreyja þorrann og góuna. Eins og venjulega hvetur ritstjóri hungurdiska landsmenn til að fylgjast vel með aðvörunum og spám Veðurstofunnar. 


Smáviðbætur varðandi veðrið í gær

Í dag, laugardag 15.febrúar var óvenjudjúp lægð fyrir sunnan landið. Kort evrópureiknimiðstöðvarinnar hér að neðan sýnir 919 hPa í miðju hennar. Ekki hefur þó frést að neimun mælingum sem staðfesta þetta en veðurlíkön eru orðin það nákvæm að líklega er þessi útreikningur varla mjög fjarri lagi. Breska veðurstofan segir þó 922 hPa - gæti líka verið rétt.

w-blogg150220b

Ritstjóri hungurdiska man aðeins eftir 2 dýpri lægðum á sinni „vakt“. Við vitum ekki um tíðni svona lágs sjávarmálsþrýstings, trúlega er hann þó tíðari í raun en fyrirliggjandi gögn sýna. - En algengt er þetta ekki. En nú fer hringrás á norðurhveli að tölta vorgötuna - þó löng sé leiðin sú og oftast nær torfarin í byrjun. 

Þó lægð gærdagsins (föstudags) væri nokkuð grynnri fylgdi henni mun meiri vindur hér á landi og það svo að á landinu í heild verður veðrið í flokki þeirra sex mestu síðastliðin 20 ár rúm og það mesta frá 7.desember 2015 - en þá gerði ámóta veður. Nokkrum dögum síðar birtist á hungurdiskum riss sem greindi átt og meðalvindhraða hvössustu klukkustunda þessara mestu veðra á tíma sjálfvirku stöðvanna. Við skulum nú bæta veðri gærdagsins á þá mynd. 

w-blogg150220

Á myndinni hefur meðalvigurvindátt veðranna verið reiknuð fyrir hverja klukkustund þegar meðalvindhraði var meiri en 18 m/s.

Lórétti ásinn sýnir stefnuna norður-suður, en sá lárétti austur-vestur. Dagsetningar eru við hverja punktaþyrpingu og tölurnar sýna klukkustundir.

Veðrið sem gekk yfir 16. janúar 1999 var norðanveður - meðalvigurstefna var úr norðnorðaustri - og hélst stöðug allan tímann sem meðalvindur í byggðum landsins var meiri en 18 m/s (frá kl.1 til 8). Norðanveður eru að jafnaði stöðugri en þau sem koma af öðrum áttum.

Næst kom ámóta veður 10. nóvember 2001. Það var eins og sjá má af vestsuðvestri og var verst síðla nætur (frá kl.2 til 8). Vindátt snerist smám saman meira í vestlæga stefnu.

Síðan þurfti að bíða allt til 2008 til þess tíma að klukkustundarmeðalvindhraði í byggð næði aftur 18 m/s. Fjölda illviðra gerði þó í millitíðinni - en voru annað hvort ekki jafnhörð - nú, eða þau náðu ekki sömu útbreiðslu þó jafnhörð væru á hluta landsins. Veðrið 8. febrúar 2008 var úr landsuðri - hallaðist meir til suðurs þegar leið á kvöldið (20 til 23).

Svo var það 14. mars 2015 sem gerði eftirminnilegt veður af suðri, byrjaði af suðsuðaustri, náði hámarki kl.9 - meðalvindhraði þá sjónarmun meiri en í nokkru hinna veðranna.

Veðrið í desember sama ár var svo hið fimmta í röðinni á tímabilinu. Það var af austnorðaustri eða austri - hallaðist meir til austurs eftir því sem á leið (kl.21 til 01 merkt á myndina).

Veðrið gær var afskaplega líkt desemberveðrinu 2015 - vindhraði ámóta, en áttin ívið suðlægari. Veðurharka á hverjum stað er að jafnaði mjög bundin vindátt. Vestanveðrin koma illa niður á öðrum stöðum en austanáttin. Samtals eru veðrin sex búin að koma víða við. 

Meðalvindhraði sólarhringsins í byggðum landsins í gær var 15,1 m/s (bráðabirgðaniðurstaða - sjálfvirkar veðurstöðvar - meðalvindhraði á mönnuðum stöðvum var 15,0 m/s). Þetta er mesti sólarhringsmeðalvindhraði síðan 2.nóvember 2012 og sá næstmesti á tíma sjálfvirku stöðvanna. Mestur varð meðalvindhraðinn 16.janúar 1999. 

Stormavísir ritstjóra hungurdiska náði tölunni 695 (þúsundustuhlutum), 10-mínútna meðalvindhraði náði 20 m/s á nærri 70 prósentum veðurstöðva í byggð. Frá 1997 hefur hann 8 sinnum orðið jafnhár eða hærri, síðast í desemberveðrinu 2015. 

Þrátt fyrir að vera versta veður á Suðurlandsundirlendinu um langt skeið sluppu byggðir á höfuðborgarsvæðinu (að Grundarhverfi á Kjalarnesi og e.t.v. einhverjum stöku stað öðrum undanteknum) frekar vel undan því - alla vega er það langt frá toppsætum á lista sem nær til svæðis frá Korpu og suður í Straumsvík [90. hvassasta klukkustundin frá 1997]. Hvassast var í marsveðrinu 2015, síðan í landssynningsveðri sem ekki kom við sögu hér að ofan, 13.desember 2007.  - Minnir okkur á að meðaltöl eru meðaltöl.

[Enn viðbót]

Í þessum rituðu orðum fór þrýstingur niður í 932,3 hPa í Surtsey. Þetta er þriðjalægsta febrúartala sem við þekkjum á landinu, deilir reyndar sætinu með mælingu úr Vestmannaeyjum frá árinu 1903 - en þá var aðeins mælt þrisvar á dag og ótrúlegt að mælingin hafi hitt nákvæmlega á lægstu tölu - hefði verið mælt á klukkustundarfresti - auk þess voru ekki mælingar í Surtsey þá. - Að vísu - og að auki - er ein lág tala til í viðbót - en var þurrkuð út á sínum tíma (önnur saga). En alla vega er þetta lægsti febrúarþrýstingur hér á landi frá 1989 þegar þrýstingur á Stórhöfða mældist 931,9 hPa, en þrýstingur fór niður í 930,2 hPa á Kirkjubæjarklaustri þann 30.desember 2015.  

Þá er það hálfur febrúar. Meðalhiti hans í Reykjavík er +0,7 stig, +0,3 stigum ofan meðallag áranna 1991 til 2020, en -0,5 neðan meðallags síðustu tíu ára. Hitinn er í 10.hlýjasta sæti (af 20) á öldinni. Hlýjastir voru dagarnir 15 árið 2017, meðalhiti þá +4,1 stig, en kaldastir 2002, meðalhiti -2,2 stig. Á langa listanum er hitinn í 52.sæti (af 146). Á þeim lista eru fyrstu 15 dagar febrúar 1932 hlýjastir, hiti þá +4,5 stig, kaldastir voru dagarnir 15 árið 1881, meðalhiti -5,9 stig.

Á Akureyri er meðalhiti dagana 15 -1,8 stig, -2,0 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára, en -1,0 neðan meðallags áranna 1991 til 2020.

Að tiltölu hefur verið hlýjast á Suðausturlandi, meðalhiti þar í 9.hlýjasta sæti á öldinni, en kaldast á Norðurlandi (báðum spásvæðum), hiti í 15.hlýjasta sæti á öldinni.

Á einstökum stöðvum hefur verið hlýjast að tiltölu við Reykjanesbraut (hiti +0,1 stigi ofan meðallags síðustu tíu ára), en kaldast við Mývatn þar sem hiti hefur verið -2,7 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Þar fór frostið niður í -28,1 stig á dögunum, lægsta tala vetrarins til þessa á landinu.

Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 35,4 mm og er það lítillega neðan meðallags. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 30,7 mm - lítillega ofan meðallags.

Sólskinsstundir hafa mælst 16,4 í Reykjavík - vantar 9 upp á meðallag.

Loftþrýstingur er áfram heldur lágur, meðaltal fyrstu 15 dagana í Reykjavík er 982,8 hPa, met sömu daga er talsvert lægra, 971,6 hPa - frá 1990.


Veðrametingur enn

Þó þessu illviðri - sem við eigum eftir að kenna við eitthvað - sé ekki lokið (síðdegis þann 14.febrúar) er samt sitthvað hægt um veðurhörku þess að segja. Ársvindhraðamet voru slegin á nokkrum stöðvum - bæði hviðu- og 10-mínútna meðalvindhraðamet. Lítum á það helsta (sleppum stöðvum sem athugað hafa í aðeins örfá ár alveg). Setjum byrjun athugana í sviga.

Ársmet var slegið í Vestmannaeyjabæ (2002), á Þyrli í Hvalfirði (2003 þar fór 10-mínútna vindurinn í 39,5 m/s), á Hellu (2006 - þar var líka fárviðri, vindur fór í 35,1 m/s). Mörk á Landi (2008, líka fárviðri, 35,2 m/s), í Bláfjöllum (1997), í Grindavík (2008 - eftir að athuga met á eldri stöð), á Kálfhóli á Skeiðum (2003), á Austurárdalshálsi (2009 - þar fór vindur í 43,2 m/s), Steinar undir Eyjafjöllum (1997 - þar var fárviðri, 36,9 m/s), við Akrafjall (2009), í Skálholti (1998), á Lyngdalsheiði (2010), við Markarfljótsbrú (2010, þar var fárviðri 37,1 m/s) og við Þjórsárbrú (2004).

Hviðumet var sett á sjálfvirku stöðinni á Stórhöfða (57,5 m/s) - minna en mest mældist á mönnuðu stöðinni þar á árum áður. Árshviðumet var einnig sett á Hellu, við Vatnsfell, Vatnsskarðshóla, Árnes, Kálfhól, Mörk á Landi, Hjarðarland, á Hafnarmelum og Austurárdalshálsi. Sömuleiðis voru sett ársvindhviðumet á vegagerðarstöðvunum við Blikdalsá, Markarfljót, í Hvammi, á Lyngdalsheiði og á Vatnsskarði. Vindhviða við Hafnarfjall fór í 71,0 m/s. Hafa þarf í huga að á stöðvum vegagerðarinnar eru hviður sagðar miðaðar við 1 s, en 3 s á öðrum stöðvum - á móti kemur að vindmælar vegagerðarinnar eru flestir í 6 m hæð en ekki 10 eins á öðrum stöðvum. Met á stöðvagerðunum tveimur eru því ekki alveg samanburðarhæf.

Vindmælirinn á Skrauthólum á Kjalarnesi virðist hafa brotnað - og eitthvað kom fyrir á Keflavíkurflugvelli, en ritstjóri hungurdiska veit ekki hvað er á seyði þar - einhverjar fleiri bilanir kunna að hafa orðið víðar. 

Þar sem veðrinu er ekki alveg lokið þegar þetta er skrifað er ekki tímabært að gera upp stöðu þess í sólarhringsvindhraðakeppni á landsvísu, en við getum litið á einstakar klukkustundir. 

Meðalvindur í byggðum landsins í heild varð mestur kl.10 í morgun, 19,4 m/s. Síðustu 24 árin eru það aðeins fimm önnur veður sem ná svipuðum „árangri“, þar af tvö árið 2015, þann 14.mars og 7.desember. Hin eru eldri, 8.febrúar 2008, 10.nóvember 2001 og 16.janúar 1999. 

Það má líka bera veðurhörku klukkustunda saman á einstökum spásvæðum og sjá hvernig röðun þeirra er miðað við önnur veður - veðurviðvaranir miðast við spásvæði. Hér var aðeins flett upp 10 vindasömustu klukkustundum hvers spásvæðis. Það er aðeins á Suðausturlandi og Suðurlandi sem klukkustundir nú ná á listann - á Suðausturlandi er það í 3., 4. og 7.sæti, innan um desemberveðrið 2015. En á Suðurlandi er veðrið nú í 1. til 3. sæti - og hirðir helming sætanna 10 á listanum. 

Nokkuð ljóst er því að það þetta veður er í flokki þeirra allra verstu á þessum tveimur landsvæðum síðasta aldarfjórðunginn eða svo, sérstaklega á Suðurlandi. Sömuleiðis sýndu vindhraðametin okkur að það er líklega í flokki þeirra verstu á stöku stað á Faxaflóasvæðinu, eins og tölurnar frá Þyrli og hviðan undir Hafnarfjalli sýna. 

Full ástæða var því til að veifa rauðum viðvaranalit á þessum svæðum. 

Vonandi hefur ritstjóri hungurdiska þrek til að fjalla aðeins meira um veðrið síðar - kannski verður einhverju bætt við þennan pistil þegar uppgjör sólarhringsins liggur fyrir í nótt (eða á morgun). 

En illviðrin halda áfram - vonandi þó ekki af sömu hörku og í dag. Lægð morgundagsins (laugardags) er alveg sérlega djúp - spurning hversu neðarlega loftþrýstingur fer hér á landi, en miðjuþrýstingi er nú spáð niður undir 920 hPa - eða jafnvel neðar. Venjulega líður ár og dagur á milli þess sem svo djúpar lægðir sjást við Norður-Atlantshaf - sennilega eru þær þó heldur algengari en almennt var talið hér á árum áður. Þá töldu menn miðjuþrýsting þurfa staðfestingar við annað hvort með beinni mælingu á þrýstingi eða vindi - en nú láta menn sýndarheima tölvulíkana duga - þau hafa sennilega oftast rétt fyrir sér hvað þetta varðar. 


Éljagarður

Nú (mánudagskvöldið 11.febrúar) er éljagarður fyrir suðvestan land - sést vel á gervihnattamyndum - og veðursjáin á Miðnesheiði hefur hann líka í sigti. 

w-blogg110220a

Myndin segir af vindi í 100 metra hæð (yfir líkanjörð). örvar sýna stefnu en litir vindhraða. Sé rýnt í stefnuna má sjá að vestanvindur sækir að - en mætir vindi úr norðri og heldur sá á móti. Báðir sóknaraðilar sveigja af - vestanáttin öll til suðausturs með vaxandi hraða - en norðanáttin sveigir bæði til suðausturs - en vestasti hluti sóknararmsins til norðvesturs. Svo virðist sem litlar hringiður myndist á sjálfum mörkunum og leitast þær við að rífa göt í garðinn. - Þar sem vindarnir rekast á verður til nokkuð uppstreymi - þar eru élin - smáatriði þeirra sjálfsagt flókin, en heildarmyndin einföld og hrein. 

Vestanáttin á heldur að vinna á í nótt - garðurinn nálgast land - en vaxandi lægðir sunnan við kortið draga úr vindinum og snúa honum þannig að svo virðist sem ekki takist að koma éljum alveg inn á Reykjanes. Á sneiðmyndum má sjá að vindhraði er í hámarki í um 1000 metra hæð í garðinum. 


Stormatíðni - árstíðasveifla

Það sem hér fer á eftir er að nokkru endurtekið efni (reyndar þrautendurtekið) - en þó uppfært hér og ekki alveg eins fram sett og í eldri pistlum. 

Ritstjóri hungurdiska reiknar daglega út það sem hann nefnir stormahlutfall. Deilir heildarfjölda veðurstöðva á hverjum tíma upp í tölu þeirra sem vindur hefur náð 20 m/s þann daginn - og margfaldar með þúsund. Upplýsingar um mannaðar stöðvar ná allt aftur til 1949 - en sjálfvirkar frá og með 1997. Hvað umfjöllunarefni dagsins varðar eru niðurstöður efnislega nánast þær sömu - sama hvora stöðvagerðina er miðað við.

Við athugum árstíðasveiflu stormhlutfallsins. Leggjum einfaldlega saman hlutfall hvers almanaksdags fyrir sig og deilum með árafjöldanum. Því hærri tala sem kemur út - því illviðrasamari hefur dagurinn verið. Nokkuð „suð“ er í röð sem þessari - hún er ekki nógu löng til þess að árstíðasveifla verði alveg hrein (og verður það víst aldrei alveg). Suðið er meira í röðinni sem reiknuð er út frá mælingum sjálfvirku stöðvanna (23 ár) heldur en þeirri sem byggir á mönnuðu stöðvunum (71 ár) - sýnir kannski enn og aftur hversu æskilegt er að eiga nægilega langar raðir. 

Nú má flokka illviðrin eftir áttum - eða einhverju „eðli“ þeirra. Hér lítum við aðeins á tvo flokka: Það sem ritstjórinn kallar norðlæg veður og suðlæg. Til norðlægu veðranna teljast þau sem hafa verið af norðvestri, norðri norðaustri og austri. Önnur teljast suðlæg. Svo vill til að meirihluti norðlægu veðranna teljast til svonefndra lágrastarveðra - vindur er stríðastur í neðri hluta veðrahvolfs, en oft hægur á sama tíma í efri hlutanum. Meirihluti suðlægu veðranna tengjast hins vegar vindröstum í efri hluta veðrahvolfs - eru hárastarveður - hes rastanna ná til jarðar. Samt eru til norðlæg hárastarveður - og suðlæg lágrastarveður - en við skulum ekki sinna slíku í þessari einföldu talningu (þó það væri æskilegt). 

Fyrst er það árstíðasveifla norðlægu veðranna.

w-blogg100220a

Línuritið nær frá júlíbyrjun til júníloka. Illviðrin eru mun tíðari að vetrarlagi heldur en yfir sumarið. Við sjáum að talsvert suð er í ferlinum (súlurnar) - en þegar hann er jafnaður út verður til ferill sem er furðusamhverfur um hámarkið - sem virðist vera í fyrri hluta janúar. 

Sunnanveðraferillinn er ekki eins - og ekki samhverfur um hámarkið:

w-blogg100220b

Tíðni suðlægu veðranna vex jafnt og þétt að hausti, en nær ekki hámarki fyrr en í febrúar - um eða rúmlega mánuði á eftir hámarki norðanveðranna - þegar kemur fram í miðjan mars fellur tíðnin mjög ört - mun örar en hún vex að hausti. 

Við getum borið útjöfnuðu ferlana saman. Kannski er þó rétt að taka fram að lögun þeirra fer dálítið eftir því hvernig þeir eru gerðir - aðrar aðferðir myndu e.t.v. skila lítillega öðruvísi niðurstöðum. 

w-blogg102020c

Blái ferillinn sýnir norðanveðrin, en sá grái sunnanveðrin. Norðanveður eru algengari allt árið - nema tímann frá sólstöðum til jafndægra - sunnanveður eru hvað áköfust umfram norðanveður í febrúar, en norðanveður umfram þau suðlægu í september, október og framan af nóvember - og svo aftur á hörpunni. Á sjálfvirku stöðvunum er sá tími sem sunnanveðrin hafa vinninginn heldur lengri - báðu megin (frá nóvemberlokum fram undir miðjan apríl). Við vitum ekki hvort þetta misræmi (sem ekki er stórt - tölulega) stafar af breyttri hegðan veðrakerfisins á síðustu 20 árum eða af mun á stöðvakerfunum sjálfum. Við reynum ekki að svara þeirri spurningu hér. 

Ritstjóri hungurdiska hefur ákveðnar hugmyndir um það hvers vegna þessar niðurstöður eru eins og þær eru - og hefur eitthvað á þær minnst áður. Lætur samt vera að lengja þennan texta með einhverri froðu þar um. Það er þó merkilegt hvað þessu viðfangsefni hefur lítið verið sinnt á heimsvísu - nánast ekki neitt. Alþjóðatrúboð ritstjórans fyrr á árum hefur engum árangri skilað - en það var þó reynt - en hann er orðinn allt of latur og gamall til að nenna að standa í slíku - best að liggja bara á meltunni. 


Smáatriði í stórgerðu veðurkerfi.

Risastórt láþrýstisvæði ríkir nú á Atlantshafi. Verst er veðrið á suðurjaðri þess eins og rætt hefur verið um í fréttum frá meginlandinu í dag (sunnudag 9.febrúar). Við erum hins vegar inni í kalda loftinu (ámóta því sem ritstjóri hungurdiska kallaði einhvern tíma meltu Stóra-Bola). Atlantshafið hefur séð til þess að heimskautaloftið vestræna er ekki svo mjög kalt (eða þannig).

Myndin hér að neðan er af vef Veðurstofunnar nú í kvöld.

w-blogg090220a

Á henni má sjá mikinn lægðasveip fyrir norðaustan land. Þó þessi lægð sé ekki mjög fyrirferðarmikil og ekki heldur sérlega kröpp er hún samt mjög djúp og óþverraveður er á belti í suðvestur- og vesturjaðri hennar. Lægðin á að fara suður um landið austanvert í dag, jafnframt því sem hún grynnist. Spár hafa ekki verið sérlega sammála um braut hennar - um tíma átti hún að fara yfir landið vestanvert - en nú er veðjað á Austurland. Fyrir sunnan land er éljagarður. Hann var talsvert gerðarlegri fyrr í dag - en hefur hörfað eftir því sem hringrás lægðarinnar fyrir norðan hefur nálgast. Yfir Færeyjum er norðvesturjaðar illviðrislægðar þeirrar sem í dag hefur verið að angra nágranna okkar og kölluð hefur verið ýmsum nöfnum. Vindur og fleira hefur verið til ama á Englandi og austur á meginlandið, en norðmenn eru órólegastir yfir sjávarstöðunni.

w-blogg090220b

Kortið sýnir sjávarmálsþrýsting (heildregnar línur) kl.21 í kvöld og þrýstibreytingu síðastliðnar þrjár klukkustundir. Lægðin fyrir norðan er út af fyrir sig ekki mjög fyrirferðarmikil - en þrýstingur í lægðarmiðju er um 942 hPa - það er nokkuð óvenjulegt, hin lægðin er við Noregsströnd, ámóta djúp - og sú þriðja, tengd éljagarðinum áðurnefnda er fyrir sunnan land. Allar þessar lægðir eru hluti af risastóru kerfi - sem að hluta til er leifar lægðar sem var á Grænlandshafi í gærmorgun, þá 929 hPa í miðju. Telst sérlega óvenjuleg tala í febrúar - þó mun algengari á Grænlandshafi og fyrir sunnan land heldur en austan Færeyja og í norðurhöfum. 

w-blogg090220c

Við höfum líka fengið að heyra í fréttum af gríðarmiklum vindstreng í háloftunum. Hann liggur um Atlantshafið þvert og vindhraði nær um 360 km/klst í rastarmiðju. Kortið sýnir hæð 300 hPa-flatarins og vind í honum, vindhraði er litaður í röstinni. Flugvélar fara á methraða austur um haf frá Bandaríkjunum til Evrópu, en verða að taka á sig allstóran sveig til norðurs á vesturleiðinni. Við sjáum að lægðin fyrir norðaustan land nær alveg upp í 300 hPa. Flöturinn liggur mjög neðarlega - ekkert óskaplega langt frá febrúarmeti, en nær því þó ekki alveg.

w-blogg090220d

Lægðin nær reyndar líka upp í 100 hPa, í um 15 km hæð. Litirnir á þessu korti sýna hita. Þó vindur sé mikill fyrir sunnan land er hann samt ekki alveg jafnstríður og neðar, hér erum við vel ofan veðrahvarfa. Langhlýjast er hér yfir Kanada. Líklega stafar það af niðurstreymi sem verður þegar röstin (neðar) grípur loft og eykur hraða þess - og veldur niðurdrætti - og þar með hækkar hiti. 

En hæð 100 hPa-flatarins í lægðarmiðju er ekki nema 14850 metrar, aðeins neðar en febrúarmetið í Keflavík. Það er 14920 metrar - örlítið lægra en sést yfir Keflavík á þessu spákorti (sem gildir kl.6 í fyrramálið - mánudag 10.febrúar). Metið var sett 4.febrúar 2011 - í furðulíkri stöðu og nú - nema að éljabakki náði þá alveg inn á land og talsvert snjóaði - en vindskaðar urðu líka í Evrópu. 

Áfram er spáð mjög stórgerðu veðurlagi - en reiknimiðstöðvar að vanda ekki alveg sammála um hvort við verðum fyrir því að ráði eða ekki. Flestir þeir sem lesa þennan pistil gera það varla fyrr en lægðin fyrir norðaustan land er gengin yfir - en samt rétt að minna á að varasamt veður getur fylgt henni - sérstaklega þar sem snjór er á jörð.  


Stundarhlýindi á Suðurskautsskaganum

Að sögn argentínsku veðurstofunnar (og Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar) fór hiti í dag í 18,3 stig í dag á Esperanza - stöð sem argentínumenn reka á Suðurskautsskaganum. Þetta er hugsanlega nýtt met fyrir Suðurskautslandið (en en hærri hiti hefur þó mælst á úteyjum). 

w-blogg060220a

Kortið er úr smiðju bandarísku veðurstofunnar og sýnir hæð 500 hPa-flatarins (heildregnar línur) og þykktina (litir). Eins og sjá má var þykktin mjög mikil yfir norðurhluta skagans og vindur að auki mikill í lofti - og hásumar - allt æskilegt til að slá met. Þessi hryggur virðist ekki eiga langa æfi - frekar en langflestir bræður hans þarna syðra - fýkur hjá á 2 til 3 dögum. Vind lægir að auki og þar með eiga hlýindi litla möguleika á að ná til jarðar. 


Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • w-blogg120425b
  • w-blogg120425a
  • w-blogg080425b
  • w-blogg080425a
  • w-blogg060425b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.4.): 161
  • Sl. sólarhring: 173
  • Sl. viku: 790
  • Frá upphafi: 2461519

Annað

  • Innlit í dag: 148
  • Innlit sl. viku: 707
  • Gestir í dag: 140
  • IP-tölur í dag: 140

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband