Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2020
30.11.2020 | 23:44
Nóvemberhiti á landsvísu
Að vanda látum við Veðurstofuna um uppgjör mánaðarins en getum þess hér að mánuðurinn var á landsvísu nærri meðallagi síðustu tíu ára (-0,1 stigi undir því) og líka nærri meðallagi áranna 1991 til 2020.
Súlurnar á myndinni sýna meðalhita einstakra nóvembermánaða í byggðum landsins aftur til 1874 - fyrir þann tíma (gráa svæðið) voru veðurstöðvar fullfáar til að meðaltalið geti talist áreiðanlegt. Nóvember nú var örlítið hlýrri heldur en sá í fyrra (að vísu var þá töluverður munur milli landshluta - meiri en nú). Varla er hægt að segja að kaldur nóvember hafi komið síðan 1996 - en þá fór reyndar mjög vel með veður lengst af og kuldinn fór framhjá mörgum. Það átti hins vegar ekki við um marga kalda nóvembermánuði tímabilsins frá 1963 og 20 árin rúm þar á eftir. Var það tímabil mikil viðbrigði eftir mikil hausthlýindi árin þar á undan. Ritstjórann rámar í tal um slík viðbrigði haustið 1963 - en veturinn þar á eftir varð hins vegar afbrigðilega hlýr hér á landi.
Við skulum líka líta á alþjóðahaustið - sem við getum kallað svo. Það eru mánuðirnir september til nóvember saman, haust Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar. Veðurstofan telur september hins vegar með sumrinu í uppgjörum sínum - eins og er að flestu leyti skynsamlegt.
Það er sama - meðalhiti alþjóðahaustsins er svipaður og hann hefur oftast verið síðustu árin og talsvert hlýrri en var flest haust á 7. og 8. áratugnum - en skortir nokkuð á að vera jafnhlýtt og 2016 og nokkur haust í kringum 1960 og á fimmta áratugnum. Hlýjast var haustin 1941, 1959, 1945 og 2016, en á þessari öld var kaldast 2005, en á öllu tímabilinu var það 1917. Tímabilaskiptingin vekur athygli sem fyrr. Hausthiti segir harla lítið (ekki neitt) um vetrarhitann.
24.11.2020 | 23:38
Af árinu 1857
Ekki var mikið ritað um veður í fréttablöð á árinu 1857 - þrátt fyrir illviðri af ýmsu tagi og skaða af þeirra völdum, en því meira um fjárkláðann - þó umfjöllun um hann væri rétt að komast á skrið. En tíð var nokkuð breytileg, í heildina séð má þó segja að ræst hafi furðanlega úr. Meðalhiti í Stykkishólmi var 3,4 stig (sama og 1994), og í meðallagi næstu tíu ára á undan. Í Reykjavík er meðalhiti áætlaður 4,2 stig og 2,7 stig á Akureyri. Óvenjukalt var í janúar og einnig var kalt í febrúar, apríl, júlí og desember. September var hins vegar óvenjuhlýr, og einnig var hlýtt í maí, ágúst og nóvember.
Mjög kaldir dagar voru 15 í Stykkishólmi, nokkuð dreifðir um árið (sjá viðhengi), einna kaldast að tiltölu var í skæðu hreti sem gerði um páskana [þeir voru 12.apríl]. Tveir dagar voru mjög hlýir í Hólminum, 21.september og 10. nóvember.
Úrkoma í Stykkishólmi mældist 810 mm, febrúar og síðustu þrír mánuðir ársins voru úrkomusamir en fremur þurrt var í maí og í júní líka - en í síðarnefnda mánuðinum féll stór hluti heildarúrkomu mánaðarins á einum degi (mældist að morgni þess 17.).
Veðurlag var órólegt um veturinn, fram í miðjan mars. Þrýstingur var óvenjulágur í febrúar og sömuleiðis í júlí. Róleg tíð var hins vegar lengst af í maí og júní. Lægsti þrýstingur ársins mældist í Stykkishólmi 26.febrúar, 955,7 hPa, en hæstur á sama stað 24.janúar, 1038,5 hPa. Hafís var lengi að flækjast við Norðurland.
Á árinu urðu mjög umtöluð slys af völdum veðurs, tveggja veðra var lengi minnst. Hið fyrra varð í mars, þegar menn á leið í ver lentu í hrakningum og urðu nokkrir úti á Mosfellsheiði. Nokkuð greinargóð lýsing á því er hér að neðan. Hitt var mikið útsunnaveður 27.nóvember þegar tvö millilandaskip, póstskipið Sjölöven og Drei Annas, fórust við Mýrar og á Snæfellsnesi. Þó greint sé frá þeim í fréttablöðum er samt mesta furða hvað litlar lýsingar er þar að finna. Í Lesbók Morgunblaðsins 27.mars 1949 er fróðleg samantekt á atvikum, eftir Árna Óla, hinn kunna fróðleiksþul [timarit.is], nokkuð ítarlegri en sú sem hér er að neðan. Nefnist samantekt Árna Fjórir kaupmenn farast. Ættu áhugamenn um slysfarir ekki að láta hana fram hjá sér fara.
Hér að neðan má finna helstu heimildir um veðurfar ársins. Nokkuð af veðurskýrslum og dagbókum er enn óyfirfarið. Að vanda er stafsetning að mestu færð til nútímavenju. Fleiri slysa er getið í heimildum heldur en nefnd eru hér að neðan. Óljóst er hver þeirra tengdust veðri og dagsetningar vantar.
Brandsstaðaannáll [vetur]:
Í janúar sunnan og austanátt, frostalítið, smáblotar og oftar fjársnöp á láglendi, þar til 22. janúar að norðanhríð og fönn gjörði langvinnt jarðleysi. Þó voru ei öll hross inntekinn fyrr en um miðþorra. Í febrúar hríðarbyljir af öllum áttum og miklar fannir. Blotar juku svellgaddinn, er ávallt sletti í. 1. mars mikið hvasst með þíðu, svo margir hlutu heyskaða. Tók þá upp í lágsveitum. Aftur mikill hríðarkafli, svo bágt var að hirða um skepnur. Fylltust gil og fram af brekkum venju framar. Hafís kom með þorra. Hann var laus fyrir, á sífelldu reki.
Þjóðólfur segir frá þann 24.janúar:
Það virðist nú sem alvarlegar vetrarhörkur séu komnar, hvað lengi sem þær haldast, því stöðug bylja- og blotaveður á mis, með allmikilli fannkomu hafa nú gengið hér sunnanlands síðan um byrjun þessa mánaðar og mun hér sunnanfjalls vera víðast mjög hagskart orðið ef ekki haglaust. Nóttina milli 13. og 14.[janúar] gjörði hér syðra eitt hið mesta ofsaveður af austri-landsuðri, en ekki hafa spurst af því önnur tjón, en að fáeinir hjallar fuku hér um koll.
Norðri segir frá í pistli þann 5.febrúar:
Veðráttan hefur frá byrjun jólaföstu verið fremur hörð og frostamikil, þó hefur kuldinn orðið mestur hér norðanlands 2025° Reaumur [25 til 31°C], en minni á Austurlandi. Jarðir hafa næstum því einlægt verið nokkrar, en oft ekki gefið að beita fénaði út sökum illviðra. Selaafli hefur verið nokkur hér á Eyjafirði í vetur. Ekki höfum vér spurt, að neinir hafi farið í hákarlalegu hér nyrðra sökum gæftaleysis, nema Fljótamenn skutust út snemma í janúar, og fengu 12 kúta mest, en 4 minnst. ... Hafís liggur nú fyrir Norðurlandi, einkum austur um frá Sléttu til Austfjarða. Til Austfjarða kom hann þriðja í jólum, og hefur hann aldrei komið þar svo snemma í manna minnum.
Þjóðólfur segir fréttir í pistli þann 27.febrúar:
Einstök harðindi, fannfergi og jarðbönn eru sögð allstaðar að vestan, eins og hér sunnanlands, en góð tíð í Norðurlandi til þessa. Fjárkláðans verður nú hvergi vart fyrir vestan eður norðan Hvítá í Borgarfirði, en aftur megn bráðasótt í fé í Suðurmúla- og Austurskaftafellssýslu, í Strandasýslu og sumstaðar í Dalasýslu. Góður fiskiafli í kringum Ísafjarðardjúp síðan um nýár, en fiskilaust enn hér syðra.
Þjóðólfur segir stuttlega frá þann 9.mars:
Hin sömu harðindi og harðveður ganga hér enn; að hlákunni í fyrri viku varð lítill bati; - víða urðu mjög heyskaðar í ofsasunnanveðrinu 2. [mars] og víða hér syðra fuku þá um koll hjallar og tók upp skip og brotnuðu í spón.
[Þann 29.febrúar] varð úti í byl stúlka frá Neðstabæ í Norðurárdal í Húnavatnsýslu. Um mánaðamótin janúarfebrúar urðu og úti yfir fé 2 menn austur á Síðu, Stefán bóndi Þórarinsson á Núpum, ungur maður og röskur, og vinnumaður annars bóndans í Mörtungu. 6.[febrúar] lagði undan Dyrhólaey í Mýrdal skip með 18 manns, og einum kvenmanni að auk, til Vestmanneyja, það voru allt sjóróðramenn; formaðurinn var Helgi Eiríksson frá Ketilsstöðum i Mýrdal, ungur maður og röskur, og hinn mesti fullhugi; þann dag ofanverðan var þar austari landsynnings átt og hagstæð til Eyjanna, en hljóp í útsuður um kveldið með byl; hafa skipverjar að öllum líkindum misst sjónar á Eyjunum og þá borið ekki alllítið vestar áður en hann gekk til, því daginn eftir fannst skipið rekið mölbrotið fyrir Landeyjasandi, árar allar (11) er á voru og færur; voru allar líkur til, að skipið hefði farist mjög nærri landi, og máski inn í brimboðum.
Þjóðólfur segir í viðaukablaði 9.mars:
[Þann 26.febrúar] fórst róðrarskip, sexmannafar, frá Gufuskálum í Garði, og á því 8 manns, 5 þar innlendir og 3 útlendir, einn þeirra unglingspiltur héðan úr Reykjavík. 7.[mars] lögðu 14 sjóróðramenn vestur yfir Mosfellsheiði, náðu 8 þeirra byggð morguninn eftir, flestir aðframkomnir, en 6 urðu úti.
Norðri segir af illviðrum í pistli þann 16.mars:
Nóttina fyrir annan dag þessa mánaðar kom hér eitthvert hið mesta stórveður, sem verið hefur hér norðanlands, og hefur það gjört víða stórskaða, og að líkindum miklu víðar en vér höfum til spurt. Kirkjan á Upsum í Svarfaðardal fauk af grundvellinum og brotnaði til stórskemmda. Á Karlsá í sömu sveit reif bæjardyraloft, og sópaði burtu flestu fémætu er bóndinn átti þar, mat og vöru. Á mörgum stöðum hafa menn misst hey, og það svo stóru nemur. Mest brögð hafa orðið að þessu vestur í Húnavatnssýslu, því þar er mælt að á 2 bæjum í Svínavatnshrepp hafi tapast um 100 hestar af heyi á hvorum bænum, og í landsynningi nóttina milli 13. og 14. hafi Jósep Skaptason héraðslæknir á Hnausum misst 80 til 100 hesta af heyi. Seinast í febrúar brann allur bærinn á Núpdalstungu í Miðfirði en ekki er oss skrifað neitt greinilegt um það. Ekki höfum vér til spurt að mikið hafi tapast af bátum, en þó nokkrir. Nóttina fyrir þann 10. kom hér næstum því eins mikið ofviðri aftur, en ekki ætlum vér að það hafi gjört jafnmikið tjón sem hið fyrra. Úr Svarfaðardal hefur og frést að hrútar hafi kafnað inni í húsi og 40 fjár í einum stað í Húnavatnssýslu, og hlýtur slíkt að vera að kenna hirðuleysi manna, annaðhvort af því, að ekki hefur verið mokað frá húsunum, eða af því að menn hafa vanhirt að líta eftir fjárhúsunum í ofviðrinu. Slíkt ætti að kenna mönnum varúðarsemi framvegis.
Þjóðólfur segir enn af slysförum þann 11.apríl:
Eftir nákvæmari fregnum og skýrslum er síðar hafa borist, skal hér leiðrétta það að Stefán bóndi Þórarinsson frá Núpum varð úti 22.janúar, ekki yfir fé, heldur var hann að fylgja unglingum vestur yfir Hverfisvötnin, og sama daginn varð úti sauðamaðurinn frá Mörtungu á Síðu, sem fyrr er getið, Páll Bjarnason að nafni. Hinn sama dag, eður nóttina þar á eftir, varð og úti yfir fé sauðamaður frá Þvottá í Múlasýslu og þrír menn fyrir norðan: bóndi úr Þistilfirði, vinnumaður frá Fossvöllum á Jökulsdal og annar frá Rafnkelsstöðum í Fljótsdal; þannig hafa þessa dagana, 22.23. janúar orðið úti alls 6 manns og er þó ekki til spurt úr Fjörðunum" í Múlasýslunum. Þessa hina sömu nótt féll snjóflóð yfir bæinn að Hlíð í Lóni (Austurskaftafellssýslu) og brotnaði niður undan því eldhúsið; bóndinn Jón Markússon, var þar þá staddur og vinnukona, var hann að baka sig yfir eldinum og maka með áburði við meinsemd einni, en í því bili brotnaði niður eldhúsið undan snjóflóðinu, og hafði þau bæði undir og ofan á eldinn, og lágu þau þar og gátu enga björg veitt sér, þangað til veðrinu slotaði og menn urðu til kallaðir að bjarga þeim; stúlkuna sakaði lítið, en bóndi var svo skemmdur af bruna að hann var talinn af. Í öndverðum febrúar varð maður úti á leið frá Skagaströnd, hann var drukkinn. ... 9. desember [1856] gekk unglingsmaður, Jóhann Friðrik Ólafsson á Neðri-Glerá í Eyjafirði, að heiman með byssu á rjúpnaveiðar; hann hefir ekki fundist síðan, og var talið víst, að hann mundi hafa farist með snjóflóði í gljúfrum þeim sem Glerá fellur eftir.
Þjóðólfur segir nánar af frægum marshrakningum á Mosfellsheiði í pistli 18.apríl:
Skýrsla um hrakning og harðar farir hinna 14 sjóróðrarmanna er lögðu vestur á Mosfellsheiði [laugardaginn 6. mars] (Skrásett af séra M[agnúsi]. Grímssyni í Mosfelli.) Lögðu allir þessir 14 menn saman á heiðina, og fóru frá Kárastöðum í Þingvallasveit um dagmál, í logni og sokkabandsdjúpri lausamjöll. Héldu þeir síðan áfram, og voru vissir um að vera óvilltir út að Þrívörðum, Úr því kom í Vilborgarkeldu, fengu þeir lága-skafrenning vel ratljósan, en skall á með þreifandi byl á norðan, eða útnorðan, við Þrívörður. Ætluðu þeir þá að hitta sæluhúsið, en gátu ekki. Vissu þeir nú ekki hvar þeir voru, en héldu þó áfram nokkuð, og ætluðu sig komna suður undir Gullbringur. En af því þeir voru þá orðnir villtir og þreyttir, staðnæmdust þeir þar á flatri fönn, skjóllausri, og héldu þá vera um nón. Með ófærðinni tafði það ferð þeirra á heiðinni, að sumir fóru svo fljótt að gefast upp; Guðmundur Pálsson á Hjálmstöðum gafst fyrst upp, þegar fyrir utan Moldbrekku, af máttleysi og fótakulda. Var þá enginn svo fær að geta borið bagga hans að neinum mun, nema Sveinn, sem bar hann mikið af leið. Hinir voru þá og að smá gefast upp; urðu við það biðir á og dvalir, sem mest ollu því, að þeir týndu áttunum og villtust. Þegar um kyrrt var sest, stóðu þeir fyrst lengi, og væntu að lygna mundi veðrið og batna, en þegar það varð ekki, fóru flestir til og grófu sig niður í fönnina, og og skýldu að sér með farangrinum. Um dagsetursbil um kvöldið héldu þeir, að Þorsteinn frá Kervatnsstöðum mundi hafa dáið í fönninni af kulda og þreytu.
Flestir munu hafa sofnað um nóttina, en þó ekki allir; Guðmundur sofnaði aldrei og Pétur varla neitt. Að áliðinni nóttu var farið að reka þá á fætur, sem i fönninni lágu, og gekk Pétur best fram í, að grafa þá upp, sem mest voru fenntir, og dýpst lágu, og ekki voru sjálfbjarga. Kól hann þá og skemmdist á höndum, og allir þeir sem að þessu voru með honum. Þegar allir voru komnir upp úr fönninni, nema Þorsteinn, gátu þeir staðið með veikan mátt sumir, og fóru þá að detta niður, og urðu ekki reistir upp. Voru þeir ferskari þá lengi að stumra yfir hinum, sem ekki gátu bjargað sér, þangað til loks að 9 tóku sig til að fara á stað og leita byggða, en vera ekki lengur yfir hinum 5, er þeir sáu þá ekkert lífsmark með sumum þeirra. Þeir, sem hér urðu eftir við farangurinn voru: Þorsteinn, Egill, Ísak, Jón og Þiðrik. Eftir að þeir höfðu lengi gengið eitthvað áfram í villunni, dó Guðmundur frá Múla í höndunum á þeim. Varð þá enn staða og töf, er þeir Pétur voru að stumra yfir honum og reyna að koma honum með sér áleiðis. Því tóku sig 5 frá, og komust við veikan mátt ofan að Gullbringum til Jóhannesar Jónssonar Lúnd. Var þá enginn þeirra svo fær, að geta staðið upp hjálparlaust, þegar þeir duttu. Jóhannes tók þeim, sem föng voru á. Þegar hann frétti hvað um var, hljóp hann þegar, er hann hafti hjálpað þessum 5 úr fötum, móti þeim 3, sem á eftir voru: Pétri, Einari i og Gísla á Snorrastöðum. Gekk hann þá í braut þessara 5 inn á Geldingatjarnarhæðir, og tafðist honum að finna mennina bæði sökum kafalds, og þess, að þeir voru komnir í aðra átt en hann vænti, eftir brautinni. Loks kom hann auga á þá niður með Geldingatjarnarlæk. Stefndu þeir þá suður beint um austurhalann á Grímmannsfelli. Voru þeir þá mjög af sér komnir, er Jóhannes kom til þeirra, og varð hann að ganga undir Pétri heim til sín. Af þeim 8, sem til Jóhannesar komust var Pétur lakast á sig kominn, hann var rænulaus þegar í bæinn kom og þekkti þá ekki lagsmenn sína. Hjálpaði Jóhannes nú þessum úr fötunum, og setti þá niður í vatn og snjó að þörfum, og veitti þeim allan beina, sem hann gat. Að því búnu fór hann þegar ofan til bæja, að fá menn og hesta, sem þurfti. Um eða undir hálfbirtu á sunnudagsmorguninn lögðu mennirnir á stað þaðan, sem þeir lágu um nóttina.
Klukkan nálægt 6 komust þeir 5 til Jóhannesar, en kl. hér um bil 10 hinir 3, sem hann sótti, að, því er hann segir sjálfur, en um hádegi kom hann ofan að Mosfelli. Allan þann tíma, sem mennirnir voru á heiðinni, frá Þrívörðum, var hörku kafaldsbylur með brunafrosti og ofsalegum vindi. Á laugardaginn sá lengi fram eftir öðru hverju til sólar, og til dags sást á sunnudagsmorguninn, þegar dagur var nokkuð hátt á loft kominn, en batnaði það að ratljóst varð á heiðinni fram úr dagmálunum. Síðan batnaði veðrið alltaf, og gjörð gott veður, nærri kafaldslaust og lygnt, fram úr hádeginu. Undir miðmunda á sunnudaginn voru 8 manns neðan úr Mosfellsdalnum komnir með Jóhannesi upp í Gullbringur með 7 hesta og þurr klæði til að sækja mennina, er þar voru. Voru þá þegar fluttir þaðan 6. Sveinn og Gísli voru langminnst kaldir; Sveinn varla neitt, Gísli helst á kinn og eyra. Bjarni og Guðmundur þóttu ekki flutningsfærir, og voru kyrrir um nóttina í Gullbringum. A mánudaginn voru þeir fluttir niður í byggð.
Séra M. Grímsson skýrir því næst frá því í niðurlagi skýrslunnar, að 3 Mosfellsdalsmanna hafi þegar á sunnudaginn verið sendir með duglega hesta frá Gullbringum til að finna hina látnu og farangurinn, að þeir hafi brátt fundið lík Guðmundar frá Múla skammt eitt frá Smalaskála hinum eystri, þvínæst hafi þeir fundið Ísak nokkru norðar, með mjög litlu lífsmarki; fluttu þeir hann strax að Stardal, því þangað var skemmst, en hann dó á leiðinni og varð ekki lífgaður; því næst sneru þeir 3 byggðarmenn aftur upp í heiðina, og fundu þá farangurinn og hina fjóra mennina sunnan til við Leirvogsvatn í Lómatjarnarlæk. Höfðu þeir lagst rétt í lækinn. Jón frá Ketilvöllum var þá enn með lífsmarki, og fluttu þeir hann að Stardal, en hann dó á leiðinni og varð ekki lífgaður". Séra M. G. skýrir loks frá hversu allar tilraunir hafi verið viðhafðar, eftir réttum læknareglum til að meðhöndla líkin og reyna að kveikja aftur líf með þeim, og frá greftrun þeirra.
Brandsstaðaannáll [vor]:
Með jafndægrum kom snöp og stilltist veður til þess á skírdagskvöld 9. apríl, að mikla norðanhríð gjörði. Báða páskadaga mesta hvassviðri og fannkoma, en reif vel. Við sjó á útkjálkum var frostlítið og veður minna, en harka og sorti var hér fremra. Fór þá að bera á heyleysi, 18.-19. apríl kom norðaustan-þíðvindur, svo alveg tók upp. Með sumri hagstæður bati. Með maí kom gróður í túni. Vorið var hretalaust.
Norðri segir af illri tíð í pistli þann 20.apríl:
Úr öllum áttum eru bágar fréttir úr héruðum sökum hey- og bjargarleysis. Um miðja góuna [undir miðjan mars] kom góður bati, og voru síðan blíðviðri hér nyrðra og eystra fram að skírdegi [9.apríl], en síðan hafa hér gengið hörð veður, einkum báða páskadagana [12. og 13.apríl], nú í 10 daga, og mun víða yfrið lítið um jörð. Hafís er kominn hér inn á Eyjafjörð, og hákarlamenn er út voru komnir fyrir hátíðina í legur hafa einnig orðið varir við töluverðan ís í hafinu. Víða hér um Eyjafjörð og Skagafjörð eru menn komnir í heyskort svo að til vandræða horfir, og að austan höfum vér frétt hið sama, og oss er skrifað að fé hafi verið farið að falla sunnan til í Múlasýslum við sjóarsíðuna þegar póstur fór. Fimmtudaginn næstan fyrir þorra [22.janúar] var mannskaðaveður mikið fyrir austan, urðu 3 menn úti, og fjárskaðar miklir urðu þar víða. Á Þvottá í Álftafirði fórust nærfellt 100 fjár, og rak það fé á sjó; á Þverhamri í Breiðdal týndist 40 fjár, og víða annarstaðar urðu fjárskaðar miklir. Af Suðurlandi hefur líka frést að mjög hörð tíð hafi gengið og fiskileysi framan af vetri, og var orðið hið mesta harðæri af bjargarskorti um Suðurnes.
Á Hvanneyri í Siglufirði segir af hafís í apríl: 14. Hafís inni og útifyrir, 15. Meiri hafís, 16. Hafþök af ís, 17. til 21. Sami hafís, 22. Rak ísinn út, 25. Rak aftur ís inn.
Norðri segir þann 4.maí:
Hér er nú allt þakið ís úti fyrir Eyjafirði, svo að skip þau sem ætluðu út til hákarlaveiða hafa orðið að koma inn aftur.
Þjóðólfur segir frá tíð og slysförum í maípistlum:
[2.] Að vestan og norðan hafa nýfallið ferðir hingað, og voru þar hin mestu harðindi og jarðleysur víðast hvar allt fram til miðs [apríl], og horfði heldur til fellis sakir heyskorts, sem von er, eftir jafnlangan gjafatíma, um 20 vikur eða meira; fyrir norðan land voru hafþök af Grænlandsís; en ekkí vildi vestanmaðurinn segja hann kominn inn á Breiðafjörð, eins og skipherra einn fullyrti er sigldi þar um og kom hér í þessari viku. 23. [apríl] strandaði i Grindavik, frönsk fiskiskúta, la jeuni Delphine" (hinn ungi höfrungur) að nafni; allir skipverjarnir, 14 að tölu, komust af; talsvert af salti var á skipinu, nokkur fiskur, og matvæli; var það allt selt á uppboðsþingi í gær. Hér syðra hefir alla þessa viku verið mjög fiskilítið, nema skást á Akranesi. Í gær og fyrradag fiskaðist hér á lóð.
[9.] Úr öllum áttum fréttist, að kastið um páskana [12.apríl] hafi orðið eitt hið harðasta íhlaup og leitt hér og hvar með sér fjárfelli hjá ýmsum; allt hið innra af Eyjafirði, þ.e. Akureyrarhöfnina, lagði með helluís, svo, að ekki var aðeins gengur ísinn úr landi út í skipin sem lágu þar fyrir akkerum, heldur var ekið í land vörunum úr þeim á ísnum. Harðindi og hagleysur voru víða á Norðurlandi fram til loka [apríl], og horfði til fénaðarfellis, ef ekki kæmi bráður bati, einkum hér og hvar í Skagafirði. Í Skaftafellssýslu, Skaftártungu og Síðu, hafa og gengið hinar mestu vetrarhörkur, og fénaður farinn að falla þar hjá einstöku búendum. Nóttina milli 23.-24.[apríl] strandaði skip frá Horsens á Jótlandi austur í Meðallandi; það var sama skipið og hingað kom með kornfarm í fyrra; nú var það einnig fermt kornmat og annarri vöru, og ætlaði hingað. Hina sömu nótt strandaði og skip í Vestmannaeyjum frá Björgvin i Noregi, hið sama og hér kom i fyrra, og með hinum sama skipherra, Lind; það var að sögn, fermt timbri o.fl. Af báðum þeirra skipum komust allir skipverjarnir lífs af.
[16.] Skipskaði. Aðfaranóttina 7.[maí] fórst bátur héðan í beitifjöruferð, nálægt Kjalarnesi, með 4 manns, einum var bjargað af kjöl; annar bátur sökk hina sömu nótt, einnig í beitifjöruferð; af þeim báti varð öllum bjargað; Þorkell Árnason (frá Brautarholti) á Bala bjargaði af báðum.
Brandsstaðaannáll [sumar]:
Um fardaga norðanátt með breiskjum miklum og náttfrosti, svo gras skemmdist á túnum og bliknaði mög. Maðkur var líka til meins á grasvexti. Í fardögum var geldfé rekið á heiðar. Eftir 10. júní kom hlý og góð veðurátt. Fór þá grasvexti vel fram og var sláttur byrjaður 13. júlí og voru ræktartún þá vel sprottin. Þann 19. skipti um til votviðra, svo ei var þurrkað um 13 daga. Hröktust þá töður hjá allmörgum, helst þar seint var tekið til. 2. ágúst góður þerrir, sem öllum gat komið að notum, en ekki þurfti að skemmast utan 2 daga slægja, ef vel var með farið. Eftir 6. ágúst var rekju- og rigningasamt, (s195) en skarpur þerrir þess á milli, besta nýting fyrir göngurnar og gras dofnaði seint. Heyskapur var í meira lagi, en töðubrestur þó á hörðum túnum fyrir sólbruna og kvartað yfir rýrum heyskap í Vindhælishrepp. Sunnan-og vestanlands varð almennt ónýting.
Þann 8. júní snjóaði niður í byggð á Hvanneyri í Siglufirði og aftur þann 25.júlí, þá var hiti þar 0°R um miðjan dag. Sama júlídag var norðan krapahríð í Laufási (að sögn séra Björns).
Norðri segir af tíð og veiði þann 13.júní:
Um veðráttufarið hér norðanlands í vor viljum vér geta þess, að af því bráðlega batnaði úr sumarmálum varð hér að ætlun vorri enginn fellir, þó víða væru menn farnir að koma fé niður í fóður, og vér ætlum, að fé hafi víðast hvar gengið allvel undan hér nyrðra. Vorkuldar hafa verið hér miklir, eins og von er, því ísinn lá hér svo lengi við land, og dagana í þessari viku 8., 9. og 10. júní var hér grimmdarkuldi, og snjóaði ofan undir Eyjafjörð, og þumlungsþykkan ís lagði á vatn er inni stóð í keri hér á Akureyri. Í Húnavatnssýslu hefur vorkuldinn verið enn meiri en hér norðar, enda hefur íshroði verið inn á Húnaflóa allt til þessa. Hér í Eyjafjarðarsýslu og austur um hefur ísinn ekki fært mönnum nema kulda og tálmað mjög útferðum hákarlamanna, en í Húnavatnssýslu hafa náðst miklir hvalir. Þeir faktorarnir á Hólanesi, og Skagaströnd Holm og Knudsen ásamt öðrum fleirum mönnum á 5 bátum drápu 3 hvali í Vík á milli kaupstaðanna og reru þá síðan í land. Þessir hvalir voru frá 30 til 60 álna að stærð. Aðra 3 drápu sveitarmenn þar nokkru utar í Harastaðavík í Spákonufellslandi, og er sá reki kirkjueign; vér höfum heyrt að þeir hafi verið álíka að stærð. Jón bóndi í Stöpum, klausturlandseti lagði einn hval til bana og náði honum; hann var 3040 álna. Enn rak hval á Bakkakotslandi í Skagafjarðarsýslu, er oss hefur verið sagt, að væri Miklabæjarkirkjueign, Rúmar 20 hnísur voru reknar á land í Víkum á Skaga.
Norðri segir stuttlega 15.júlí:
Veðráttan er hér einlægt hin besta fyrir grasvöxtinn og víðast hvar lítur allvel út með hann; en fremur er tíðin einlægt köld og fáir sólskinsdagar hafa verið hér í sumar.
Þjóðólfur segir 14.september:
[Þann 20.apríl] fórst flutningabátur með 4 mönnum á Hvammsfirði vestra, og týndust allir mennirnir; formaðurinn hét Páll Jónasson, ungur maður og efnilegur. Í öndverðum júlímánuði týndist bátur með 2 mönnum suður í Garði.
Brandsstaðaannáll [haust og vetur til áramóta]:
Haustið var mikið gott með þíðum og góðviðrum, svo haustverk lukkuðust vel, utan landnorðan-veðurofsa og hríð gjörði ytra 2.-6. okt., þá fjártaka og kauptíð stóð hæst. 30.-31. okt. gjörði skarpa hríð og fönn ytra og í Skagafirði. Fórst þá um 20 fjár á Völlum og Vallholti í Vötnin. Í nóvember 4.-21. sífelld hláka og blíðviðri og þó ei rigning að mun utan þann 11. og 27. ofsaveður með slettingskafaldi af vestri. Þá fórst póstskipið og kaupskip Bierings með 4 höndlurum á, vestur á Mýrum og Snæfellsnesi. Þann 3. des. skipti um. Gjörði þá vikuhríð á vestan og fannlög mikil móti austri, en móti vestri reif vel, en þó hláku gjörði 12.-13. des., tók þar ei upp, heldur hleypti í gadd. Var ei teljandi fjárbeit á vestri síðu dalanna, en autt varð á lágsveitum. Blotasamt var um jólin og alltaf frostalítið, smáfjúkasamt og góð tíð eftir áður nefnda hláku. (s196) ... Höfðaverslun hlaut mikinn skaða. Stórt skip þangað sent fórst, líklega norðan land í hafís í páskaofviðrinu. (s203)
Norðri segir af tíð þann 10.október:
Veðuráttan hefur verið hér norðanlands hin besta og hagstæðasta seinni part sumarsins, og hefur því nýting orðið góð, þó að heyföngin séu sumstaðar lítil. Nú um mánaðarmótin er veðri brugðið, snjóveður og rigningar skiptast á.
Norðri lofar tíð í pistli þann 17.nóvember:
Veðuráttan er hér norðanlands einlægt enn hin besta, alautt í sveit og litlir snjódílar hæst í fjöllum nú í miðjum nóvembermánuði, og einkum hefur núna seinustu dagana verið hlýr sunnanvindur eins og á sumardag, þá stundum með regni. Hitinn varð einn daginn 12 mælistig.
Seint í nóvember gerði mikið útsunnanveður. Fréttir af sjósköðum í því voru lengi að berast. Þjóðólfur segir fyrst frá þann 19.desember:
Eftir embættisbréfi sýslumannsins í Mýrasýslu, hr. B. Thorarensens, er sendiboði færði hingað til bæjarfógetans 15.[desember], hefir síðan um jólaföstukomu, 29.[nóvember], verið að smáreka á land, á Álftanesfjörur á Mýrum, ýmislegt af kaupskipi, bæði af sjálfum skipsskrokknum, reiða, farmi, farangri skipverja o.fl, þar á meðal einnig dagbók eins skipverjanna og önnur skjöl; á Ásreka í Melasveit bar líka upp nálægt 10.11. [nóvember] mikinn skipsfleka af aftari hluta kaupskips, tólgartunnur o.fl. Af öllu þessu, en þó einkum af skjölum þeim er fundist hafa rekin, þykir mega ganga að því vakandi og vísu, að mest eða allt þetta strand sé af jagtskipinu Drei Annas skipherra Hans Lundt, er lagði héðan af stað að morgni 26.[nóvember] ... ; átti kaupmaður konsúll M.W. Biering það skip og farminn, og sigldi hann nú sjálfur með því héðan, ásamt konu sinni, og 2 elstu börnunum, James og Valgerði. Virðist allt lúta að því, að skipið hafi enn verið hérna megin Fuglaskerjanna, þegar þetta fádæma ofveður skall á af útsuðri (hér um bil SSV á kompási"), nóttina milli 26. og 27.[nóvember], er hélst fram undir miðaftan á föstudaginn 27., og var svo ofsamikið, að vart neinu hafskipi var siglandi heldur varð að láta reka undan, hvað sem við tók, hafi svo skip þetta borið upp á skerin fyrir framan Mýrarnar austanverðar og molast þar í spón.
Þjóðólfur heldur svo áfram þann 9.janúar 1858:
Bæði með þeim sem fóru héðan upp á Mýrar til þess að vera við uppboðið á skipstrandinu af Drei Annas", farmi þess skips o.fl. af því er rekið var, en komu aftur rétt fyrir jólin, og eins í bréfi einu með sömu ferðum, bárust fréttir um enn einn skiptapann, undir Lónbjargi á Snæfellsnesi sunnanverðu, er hafi átt að bera að undir eða um lok nóvember; bréfið, er segir greinilegast frá, hefir ritað 22. desember Þórður bóndi Benediktsson á Ánastöðum á Mýrum, skilvís maður að allra rómi, hann kveðst hafa komið vestan frá Búðum kvöldinu fyrir, skýrir síðan frá skipstrandinu, sjálfsagt með þeim atvikum er honum hafa verið sögð þar vestra, að reiði, segl, möstrin í brotum, nokkuð af tólg og mikið af eir utan af skipinu sé rekið upp á Malarrifi og Stapanum, á rifinu hafi og rekið upp 3 hesta strax á laugardaginn eftir veðrið", (að líkindum ofsaveðrið föstudaginn 27. nóvember) og að héraðsmenn sé að síga fyrir nefnt bjarg (Lónbjarg) en hafi litlu getað náð. Svo sem nú þetta, sem sagt er rekið, bendir auðsjáanlega til, að ef hér á sér skiptapi stað, þá hefir það verið skip á útsiglingu héðan frá landi, svo liggja og óneitanlega helst til of miklar sönnur að því, að sé viðburðurinn sannur, þá sé ekki ástæðulaust að óttast, að þetta kunni að vera póstskipið Sölöven, er lagði út héðan nokkru fyrir dagmál 26. nóvember, og hefir því að öllum líkindum einnig hreppt hérna megin Fuglaskerjanna hið óviðráðanlega ofsaveður af útsuðri er skall á nóttina eftir. Aftur þykir draga nokkuð úr líkum þessum, það tvennt, bæði að það er fullyrt, að bréf er bárust austur á Mýranar vestan úr Staðarsveit og frá Búðum um sama leyti, geta að engu þessa skiptapa undir Lónbjargi né neins verulegs strands þar vestra, og í annan stað helst hér syðra stöðugt það rykti, sem búið var reyndar að heyrast áður en fréttist um ófarir þeirra Bierings, að í Grindavík hafi sést til skips á útsiglingu, mjög djúpt fyrir, á 3. degi eftir veðrið; og ef svo var, þá gat þetta vart annað skip verið en póstskipið. Nú er búið að senda héðan mann gagngjört vestur, til að fá fulla vissu í þessu efni.
Og enn eru fréttir af sama máli í Þjóðólfi þann 23.janúar 1858:
Vér gátum þess í síðasta blaði, að maður hefði verið sendur héðan vestur til þess að fá vissu um, hvort það væri póstskipið Sölöven, sem týnst hefði nálægt Lónbjargi. Maður þessi kom aftur hingað 19.[janúar], og hafði það tafið ferð hans, auk ófærðar og umhleypinga, að hann fór vestur í Stykkishólm á fund sýslumannsins; en fregnirnar er hann nú færir eru litlar aðrar en full staðfesting þess er fyrr var frétt: að skip hafi farist 27. nóvember nálægt Lónbjargi á Snæfellsnesi, því sama daginn, um sólarlag, varð vart við reka af skiptapa, á Malarrifi, að 3 hesta móalótta hafi rekið á land daginn eftir, ýmislegt af reiða, seglum, eir utan af skipi, smáfleka, o.fl., að mikið sé rekið af ull og af tólg nálega 4 skpd., nokkuð af kjöti, smápakkveti er menn hér bera kennsl á og vita að voru send með póstskipinu héðan, stúfar af karlmannafatnaði, einkum nærfatnaði, með ýmsum fangamörkum, t.d. S.B. o.fl., brot af fjöl með litskornum stöfunum SÖLÖ en þó numið neðan af öllum stöfunum svo að ekki sést t.a.m. glöggt allt ellið"; þetta er og samkvæmt bréfi sýslumannsins í Snæfellsnessýslu til bæjarfógetans í Reykjavík, dags. 5. [janúar], er barst hingað 15. næst á eftir. Allt lýtur þannig því miður að því, að þetta sé póstskipið Sölöven", skipstjóri H. Stilhoff, er hafi borið þar upp að björgunum og molast í spón í ofsaveðrinu 27.nóvember, daginn eftir að það sigldi út héðan; það var með eirhúð utan, fermt með ull, tólg og saltkjöt þegar það nú fór héðan, og hafði innanborðs meðal annars 4 hesta móalótta.
Með póstskipinu sigldu héðan úr staðnum kaupmennirnir Ditlew Thomsen og Jón Markússon og Snæbjörn Benedictsen (Snæbjörnsson) er fyrr var verslunarstjóri hér hjá kaupmanni Havsteen. Engir mennirnir voru reknir upp, hvorki af þessu skipi né af Drei Annas", þegar síðast spurðist. ... Það virðist ekki tilefnislaust út af þessu, að vekja athygli að því, hvað hið opinbera eða embættismennirnir sem hlut eiga að máli, hafa verið afskipta- og aðgjörðahægir í þessu efni, en þótt hér væri að ræða um póstskipið er á að ganga milli Danmerkur og Íslands. [Síðan eru sýslumaður og fleiri gagnrýndir harðlega fyrir seinagang].
Þann 16.mars 1858 segir Þjóðólfur af náttúruviðburði sem átti sér stað 3.desember. Nú er talið fullvíst að um snjóflóð hafi verið að ræða:
Sjaldgæfur náttúruviðburður; (aðsent frá prófasti hr. Ó. Sívertsen í Flatey). Þann 3. desember 1857 í hálfbirtu um morguninn, sást svart ský yfir fjallsgnípunni er skagar lengst í sjó fram fyrir sunnan Patreksfjörð; heyrðist þá líka hastarlegur hvinur í fjallshyrnunni fyrir ofan og utan bæinn að Kollsvík og í sama vetfangi skall bylur á bænum sem braut hann þegar niður, og þrúgaði baðstofunni svo niður og braut, að af viðum í henni fannst ei eftir nokkur spýta einni alin lengri. Ein gift kona og eitt barn dóu strax undir rústunum, en 3 af heimilisfólkinu, sem náðust brátt á eftir, sköðuðust og og lágu síðan veikir. Eitt barn náðist á 4. annað á 6.dægri seinna, bæði lifandi og ósködduð, nema annað kalið á hendinni. Allt innanbæjar, áhöld, verkfæri, kistur, matvæli, rúmföt, bækur, skemmdust og ónýttust með öllu. Hálft hey, sem stóð við bæinn þverkubbaðist sundur sem hnífskorið væri, og í rústunum var allt í samblandaðri hrúgu, snjórinn, heyið, viðarbrotin, moldirnar og grjótið. Fjósið, hlaða og öll önnur útihús stóðu ósködduð. Þenna dag tjáist að í Kollsvík hafi verið allgott veður bæði fyrir og eftir; en hér í Flatey var austan stórviðri og kafald.
Þjóðólfur segir frá 27.mars 1858:
Skömmu fyrir næstliðin jól fóru tvær mæðgur, vestur í Bolungarvík, þar í annan bæ, er að Skálavík heitir, og er háls í milli, en á heimleiðinni datt kafaldsbylur á, á hálsinum svo þær gátu ekki hitt bæinn, urðu því úti og fundust skammt þar frá, báðar örendar.
Þann 22.desember getur Þorleifur í Hvammi jarðskjálfta.
Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um veður og tíðarfar ársins 1857. Þakka Sigurði Þór Guðjónssyni fyrir innslátt texta úr Brandsstaðaannál. Fáeinar tölur eru í viðhenginu.
Vísindi og fræði | Breytt 25.11.2020 kl. 00:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.11.2020 | 00:24
Veturinn nálgast
Ýmislegt bendir nú til þess að veturinn fari að láta hringla í höftunum (hvað sem það orðalag nú þýðir). Við erum svosem orðin vön allskonar ferða- og athafnahöftum af öðrum ástæðum þannig að varla skiptir máli þó eitthvað bætist við (svo um muni). En möguleiki er líka á því að hann (hver er þessi hann? spurði drengurinn í þjóðsögunni) haldi áfram að fara vel með - og ekkert verði úr neinu - nema skrölthljóðum í fjarska.
Á miðvikudaginn nálgast lægð úr vestri - að sögn með sunnanhvassviðri og rigningu í byggð en þá foráttuveðri á fjöllum. Síðan er gert ráð fyrir snörpum útsynningi - kannski þeim fyrsta með alvöruvetrarbragði á þessu hausti - og þar með hefur veturinn haldið innreið sína.
Kortið sýnir stöðuna í 500 hPa-fletinum á fimmtudag 25.nóvember(spá evrópureiknimiðstöðvarinnar). Þá er allmikill háloftastrengur yfir landinu - við ráðum styrk og stefnu af legu jafnhæðarlína. Þykkt er sýnd í lit. Hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Henni er spáð rétt innan við 5200 metra yfir landinu (reyndar er þar blettur með minni þykkt en 5160 metrum - en hann stafar væntanlega af þvinguðu uppstreymi þegar loftið þarf yfir landið). Þessi þykkt bendir til þess að hiti verði í kringum frostmark og því verður éljagangur fremur en skúraveður. Hvasst í éljum og ófært veður víða á fjöllum (rætist spáin).
Hér á eftir er erfiðari umfjöllun - einkum ætluð nördunum - aðrir geta lokið lestrinum hér og nú.
Við skulum líka taka eftir smáatriðum í þessari stöðu. Örin sýnir ás köldu framrásarinnar sem kemur til landsins frá Kanada - fer sunnan við Grænland. Báðu megin er hlýrra loft. Þetta þýðir að þykktarsviðið er flatt við landið (þykktardrag). Það þýðir að háloftavindur á greiðari leið niður í átt til jarðar heldur en algengast er (sérstaklega vestan við þykktardragið). Hes háloftarastarinnar teygir sig neðar en oftast er.
Svo gengur vindur niður - en kalda loftið vestan Grænlands er komið á hreyfingu og við vitum lítið um það enn hvað það síðan gerir. Margar eru spárnar auðvitað - og fullstór hluti þeirra er í dag með einhver áframhaldandi leiðindi. Sjálfsagt er rétt að búa sig undir slíkt - en vona hið besta. - Það hefur farið vel með hingað til og lítið orðið úr veðurógnunum í haust. Kannski er þetta bara einhver tímabundinn sperringur?
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 00:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.11.2020 | 20:18
Af árinu 1856
Árið 1856 var óvenjulegt og talið sérlega hagstætt. Lítið var um illviðri. Janúar og desember voru óvenjukaldir, en marsmánuður sá langhlýjasti á 19.öld, í Stykkishólmi varð mars 1929 ívið hlýrri - og 1964 svipaður. Þessi hlýindi mundu menn svo lengi sem þeir lifðu. Einnig var óvenjuhlýtt í október og hlýtt var einnig í apríl og ágúst. Júlí og nóvember voru fremur kaldir. Vorið olli nokkrum vonbrigðum því það var fremur þurrt og næðingasamt - en samt gerði ekki verulega illskeytt hret. Ársmeðalhiti í Stykkishólmi var 4,0 stig, 0,6 stigum ofan meðalhita næstu tíu ára á undan. Áætlaður ársmeðalhiti í Reykjavík er 4,5 stig, og 2,8 stig á Akureyri.
Eins og áður sagði var kalt í janúar og desember, 10 kaldir dagar í Stykkishólmi í fyrrnefnda mánuðinum og fjórir í desember. Tveir dagar í október voru óvenjuhlýir.
Úrkomumælingar hófust í Stykkishólmi í september. Óvenjuúrkomusamt var í október - mikill sunnanáttamánuður.
Þrýstifar var óvenjulegt á árinu 1856 - við sjáum af myndinni að árstíðasveiflu gætti lítt. Þrýstiórói var líka með minna móti. Munur á hæsta og lægsta þrýstingi sem mældist á landinu á árinu hefur aldrei orðið minni (höfum þó í huga að mælingar voru mun færri en nú er og því erfitt um raunhæfan samanburð). Hæsti þrýstingur ársins mældist í Stykkishólmi þann 2.mars, 1032,8 hPa og hefur aðeins einu sinni síðan verið lægri (1863). Lægstur mældist þrýstingurinn í Stykkishólmi 969,5 hPa, 31.mars. Lægsti þrýstingur ársins hefur aðeins einu sinni verið hærri en þetta á landinu í heild. Það var 1829 - en þá var aðeins ein mæling á dag gerð á landinu.
Hér að neðan má finna helstu heimildir um veðurfar ársins. Nokkuð af veðurskýrslum og dagbókum er enn óyfirfarið. Að vanda er stafsetning að mestu færð til nútímavenju. Fleiri slysa er getið í heimildum heldur en nefnd eru hér að neðan. Óljóst er hver þeirra tengdust veðri og dagsetningar vantar. Í blöðum var minna rætt um veður en stundum áður. Líklega má skrifa ástæður þess á hina góðu og hagstæðu tíð.
Brandsstaðaannáll [vetur]:
Fyrri part janúar stillt sunnan- og austanátt, snjólítið og frosthægt, síðari part sterk frost og fraus mjög fyrir litla bæjarlæki og gjörðist mikil óhægð þar af. Með febrúar frostaminna, lengst góðviðri, snjólítið. Storka var á jörð um 2 vikur, jarðlaust fyrir fé á snögglendi, alls staðar hrossajörð, aldrei hríð að mun. 21. febr. kom besta vorblíða með stilltri þíðu. 28.-29. varð stórflóð í vatnsföllum með ruðningi til stórskemmda, er gekk hærra en vanalega. Hlákan varði til miðgóu, svo góðviðri og næturfrost, svo varla komu skarir að ám og vegir voru þurrir á páskum í góulok.
Þann 14.janúar segir athugunarmaður á Siglufirði að hafís komi inn á Fjörðinn.
Þorleifur í Hvammi segir í veðurskýrslu sinni í lok febrúar: Nú er þelaleyst jörð og hvervetna öríst, nema í giljum og stórum fjallaskurðum, en svell sjást í einstaka stað á mýrum. Þann 17.mars segir hann: Stöðugt eins og best á vordögum, sjólæða, þoka.
Þjóðólfur segir frá þann 16.febrúar:
Bæði að norðan og vestan er að frétta hina sömu veðurblíðu sem hér; og þó að töluverðum snjó kyngdi niður víða til fjalla á öndverðum þorranum, hér sunnan fjalls gætti þess mjög lítið, en um Biskupstungur og Hreppana varð snjókoman til megnrar ófærðar og lá við hagleysum, ... Hafís kom inn með Hornströndum og inn með Húnaflóa þegar fyrir jól; hann var heldur í rénun um 10.[janúar], hið eystra um flóann, en lá þá enn milli Bjarnarnes- og Vatnsnestáar, sem frost á fjörðum, og allir firðir fullir norður með Ströndum; síðan um jól hafa Strandamenn aflað hákarl til góðra muna upp um ísinn, og voru komnar 3 og 4 lýsistunnur til hlutar af þessum afla hjá hinum heppnustu. Aflalaust að kalla hér syðra, það sem af er þessum mánuði, nema í Garði og Leiru; hafa Seltirningar róið þangað og sótt fiskhleðslur.
Norðri segir af ferðum pósta í pistli þann 28.febrúar:
Níels póstur Sigurðsson kom til Akureyrar 30. [janúar]. Hafði hann farið frá Eskjufirði 14. s.m. og þá um nóttina legið úti hérna megin Eskjufjarðarheiðar. Hér og hvar á leiðinni að austan, hafði hann verið hríðtepptur og víða fengið illa færð og hörð veður. Hann sagði að tíðarfarið eystra og nyrðra, hefði verið líkt og hér síðan að spilltist eftir nýárið, og sumstaðar hagskart vegna áfreða. Í næstliðnum janúarmánuði rak hér hafíshroða inn á fjörð allt að Oddeyri, náðust þá 19 hnísur í vök undan Dálkstöðum á Svalbarðsströnd. Það er mál manna, að þá hafi og komið talsvert af fiski, en sem vegna íssins ekki varð sætt. Norðanpósturinn byrjaði héðan ferð sína suður til Reykjavíkur 8.[febrúar], en 3 dögum síðar eða 11.[febrúar] kom Benjamín aukapóstur að sunnan hingað, og hafði farið úr Reykjavík 27. janúar Talsverður snjór hafði verið kominn syðra og á leiðinni norður hingað, en þó víða gott til haga. Kvillasamt hafði verið syðra og fólk legið.
Norðri segir fréttir þann 15.mars:
Fréttir innlendar eru engar aðrar en öndvegistíðin sama og áður er getið. Nú er sagt íslaust hér norðan fyrir landi. Á þorranum höfðu 2 bjarndýr tekið land á Sléttu, og urðu þar bæði unnin, en þó náðist ekki nema annað, því hitt lagði frá landi, en komst skammt og sökk. ... Síðla í janúar hafði aldraður bóndi að nafni Jón Magnússon frá Ísólfsstöðum á Tjörnesi orðið þar úti, og fannst fyrir skemmstu kominn langt afvega til heiðar. ... Nokkru síðar varð og maður úti í hríðarbyl á Axarfjarðarheiði, og hét sá Einar og átti heima á Sjávarlandi í Þistilsfirði.
Þjóðólfur segir af skiptöpum og öðrum slysförum þann 29.mars:
Nálægt Fagurey fyrir vestan varð bátstjón 2. jan. (eða febrúar); voru 3 menn á bát að flytja sig til Jökulferðar, drukknaði einn, en hinum var bjargað. 31.janúar varð úti á Fróðárheiði fyrir vestan ungur maður frá Búðum, að nafni Bjarni Bjarnason, talinn einhver hinn mesti frískleikamaður"; aðrir skrifa: að þessa slysför víst megi eigna ofnautn brennivíns". 17.[febrúar] fórst bátur með 2 mönnum frá Hvassahrauni á Vatnsleysuströnd og drukknuðu báðir; þeir fóru norður yfir að sækja færur sínar í Garðahverfi, en drukknuðu heim í leið. 24.[febrúar] um kvöldið var bóndinn Otti Gíslason í Hrísakoti í Kjós á heimleið til sín hann hafði um morguninn brugðið sér bæjarleið erinda sinna, en daginn eftir fannst hann örendur milli bæja í Brynjudalnum; veður var þar hvasst og úrkoma mikil, en maðurinn heldur óhraustur; hann var álitinn einhver efnilegasti bóndinn þar í sveit, ráðdeildar- og atorkumaður, og á besta aldri".
Enn segir Norðri fréttir þann 31.mars:
Hinn 21.[mars] kom Vigfús póstur Gíslason að sunnan aftur til Akureyrar; hafði hann lagt af stað úr Reykjavík 8.[mars]. Að sunnan og vestan fréttist sama árgæskan á landi, sem hér hefur verið frá í febrúar allt fram á þenna dag. ... Slysfarir: 10.[mars] fórust 2 menn af byttu vestanvert við Tjörnes í Þingeyjarsýslu, og er hald manna, að þeir muni hafa kollsiglt sig. Um sömu mundir hvolfdi bát með 4 mönnum í lendingu á Ísafirði, og fórust þeir allir. Annar bátur var þar á leið í fiskiróður með 6 mönnum, og sigldu þeir sig um, 4 komust á kjöl og varð bjargað, en 2 drukknuðu. Rétt áður en pósturinn fór að sunnan höfðu 2 menn drukknað af báti suður á Vatnsleysuströnd.
Norðri segir af árgæsku þann 16.apríl:
[Þann 10.apríl] kom austanpósturinn hingað, og sama dag sendimaður sunnan úr Borgarfirði, og er allstaðar að, að frétta sömu veðurblíðuna og hér hefur verið. Farið er að sjá í jörð og víða byrjuð vinna á túnum, að húsabyggingum, jarð- og garðyrkju.
Þjóðólfur segir af öndvegistíð - en óþrifum í fénaði í pistli þann 19.apríl:
Hér hjá oss helst stöðugt þessi einstakasta veðurblíða yfir allt landið, og það er annálavert, að meir en 30 manns úr ýmsum héruðum Norðurlands, Bárðardal, Eyjafirði og Skagafirði, skuli nú á góunni hafa farið hina stystu sumarvegi suður yfir þver fjöll, Vatnahjalla- eður Eyfirðingaveg og Kjalveg, suður til Hreppa og Biskupstungna til hundakaupa. Hundafárið var, þegar síðast spurðist, farið að ganga austur um sveitir, og komið austur til Rangárvalla. Þrátt fyrir þessa einmuna tíð, þá eru fjárhöld ill fyrir austan fjall og víða um Borgarfjörð, einkum um Eystri-Biskupstungur, Hreppa, Skeið, Hvolhrepp og Landeyjar; einkum þrífast gemsar sárilla og drepast úr svo nefndri skitupest" og ormum, er finnast bæði í innyflum og lungnapípum þá kindin er dauð; nokkrir bændur eystra kvað þegar hafa misst meir en helming gemsa sinna á þenna hátt. ... [Þann 7.mars] fórst bátur með 4 mönnum í lendingu, á Sandeyri á Snæfjallaströnd, og drukknuðu allir mennirnir. Sagt er að skömmu siðar hafi báti borist á úr Bolungarvík, og farist 2 menn af, en 4 verið bjargað.
Norðri segir frá þann 30.apríl:
Þann 21.[apríl] fréttist hingað að sunnan og vestan, að þar væri sama árgæskan sem hér nyrðra og eystra, enda munu þess fá dæmi síðan er land þetta byggðist, að jafngóðviðrasamur vetur hafi komið sem hinn næstliðni, að undanskildum kaflanum frá nýári til miðs febrúar sem var býsna harður og hretið í næstliðinni viku sem sumstaðar varð stórkostlegt, Skepnuhöld eru allstaðar góð í tilliti til heybirgðanna, en aftur ekki óvíða, helst vestra, kvartað yfir vanþrifum og veiki í fé, helst lömbum, og 1 bóndi fyrir sunnan, er sagt að hafi misst 80 af 90 lömbum hann setti á í haust. Á Suðurlandi höfðu hlutir af fiski verið orðnir í meðallagi, undir Jökli 5 hundr. hlutir á páskum, og við Ísafjarðardjúp fiskhlutir 100 rd. virði. ... Allt að þessu í vor, hefur hér verið gæftalítið, og ekki nema einstakir aflað vel hákarlinn. Nokkrir hafa farið héðan að norðan úr Bárðardal yfir Sprengisand, úr Eyjafirði Eyfirðingaveg, og úr Skagafirði Kjalveg suður í Árnes- og Rangárvallasýslur til hundakaupa næstliðinn mars og apríl, og er án efa sjaldgæft um þann tíma yfir slík firnindi og jökla, sem eru 45 þingmannaleiðir byggða á millum, auk þess sem stór vatnsföll eru á leiðinni.
Brandsstaðaannáll [vor]:
Fyrir sumar grænkuðu tún, svo þá var mátulega búið að breiða þau. Þar á móti var þá sumstaðar óborið á þau ytra. Sóley sá ég (s191) fyrst 6. apríl. Lítið föl gjörði þriðjudag síðasta í vetri og 5. maí, en ei oftar á þessu stillta vori, en lengi voru þurrviðri og næturfrost oft til sólstaða og fór gróðri seint fram. Flæði vantaði nú af ám og lækjum og orsakaði grasbrest á mörgu góðu flæðiengi.
Norðri segir tíðar-, afla- og slysafréttir í maí:
[16.] Í dag (9.maí) eru öll hákarlaskip sögð komin heim fyrir hátíðina [hvítasunna 11.maí], og tjáist að sumir hafi aflað vel í seinustu legunni 2052 kúta í hlut, aftur nokkrir minna, og fáeinir sárlítið Hafís tjáist töluverður djúpt norðan fyrir landinu, og sum skipin höfðu ekki frið fyrir honum í legunni og 2 eða 3 urðu að höggva á stjórafæri sin, og skilja þau eftir með akkerum í botninum. ... 5.[maí] var hákarlaskip eitt frá Haganesi í Fljótum meðal annarra á uppsigling úr legu. Landnorðan veður var með snjókomu, svo varla sá út fyrir keipana. Vissu þá skipverjar ekki fyrri til en komnir voru uppundir svonefndan Svarthöfða fram af Siglunesi, og enda of grunnt. Stórsjór var og albrima. Formaðurinn hlaut að bera um, en í því sló veðrið sigluásnum á hann svo fleygðist langt á sjó út og varð ómögulega bjargað, drukknaði því þegar.
[31.] Veðuráttufarið hefur allan þenna mánuð, verið hér nyrðra úrkomulítið og kalt, og oft frost á nóttunni, svo gróður, að tiltölu við hvað hann byrjaði snemma, tekið litlum framförum. Hákarlsaflinn hefir enn í vor verið mjög misfenginn. Ógæftirnar og hafísinn, sem enn er hér norðan lands, hafa töluvert hamlað aflabrögðunum. Nýskeð er fiskur kominn aftur hér út í firðinum.
Brandsstaðaannáll [sumar]:
Eftir fráfærur hitar sterkir og stundum hélufall, er spillti grasvexti. Sláttur byrjaði 10.-12. júlí. Fengust rekjur og þerrir, mikil taða og hey af flæði, sem notuð varð. Grasbrestur varð á vanaslægjum þurrlendum, en sina var víða í slægjum og þar spratt vel. Alla hundadaga eða 29 daga rigndi ekkert í miðsveitum og gekk seint á harðlendar slægjur. Heyskapur varð mikill á flóum og fjallaslægjum. Sláttartími hinn lengsti og kaupafólksfjöldi kom nú hinn mesti, svo sumt sneri aftur. Hirðing á heyi varð góð, en snemma dofnaði jörð. 16.-18. sept kom mikið hret og föl réttardag, 24. september.
Athugunarmaður á Hvanneyri í Siglufirði segir að ökklasnjór hafi fallið þar 17.september.
Norðri segir í júlíblaði - án dagsetningar:
Veðráttan það sem af er sumrinu hefur allstaðar, sem ég hefi til spurt hér á Norðurlandi, verið fremur köld, og hefur það eflaust að nokkru leyti valdið, að ís hefur einlægt legið hér í norðurhöfunum ekki langt undan landi. Grasvöxtur er því ekki meir en í meðallagi á túnum, og úthagi með snöggasta móti, einkum í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum, svo að ekki lítur vel út með heyskapinn, en það bætir úr, að bæði voru víðast hvar miklar heyfyrningar, og svo getur úthagi enn batnað mikið, ef vel viðrar. Fiskiaflinn hefur verið í besta lagi víða hér nyrðra, þó að ég hafi ekki heyrt enn um hlutahæð.
Norðri segir í ágústblaði - án dagsetningar - ræðir heyskap og kornrækt:
Sumartíðin hefur það sem af er slætti verið hin ágætasta um allt Norður- og Austurland. Tún hafa verið sprottin í góðu meðallagi í Húnavatnssýslu, en í minna meðallagi í öllum hinum sýslunum, og vatnsveitingar á tún hafa víða brugðist sökum þess að vatnið fékkst ekki nóg vegna vorkulda og þurrka, þannig skorti 100 hesta töðu eftir meðalári á Arnheiðarstaðatún í Fljótsdal, er sjaldan er vant að bregðast; en aftur á mót hefur nýting á töðum manna verið hin besta. Engjar eru allstaðar sársnöggvar, og það eins í hinum mestu heyskaparsveitum, t.a.m. Eiða- og Hjaltastaðaþinghám í Múlasýslum og hér í Eyjafirði. Bestur hefur úthagi verið á Jökuldal eystra og í Bárðardal, þar sem vér höfum séð. Ekki höfum vér enn fengið neinar skýrslur um hvernig jarðyrkjutilraunir hafa gefist hér á Norðurlandi, en allmiklar eru þær nú orðnar víða hvar í samanburði við það sem áður hefur verið, og víða höfum vér séð hafragras mikið og fagurt, og eru þeir blettir fagrastir hér nyrðra og eystra í þessu grasleysisári; þó ætlum vér, að þeir verði óvíða fullvaxnir, en hafragrasið er þó hið ágætasta fóður, og þó það launi ef til vill ekki enn alla fyrirhöfn og kostnað, sem fyrir því er haft, þá er þar þó mjór mikils vísir, og vér erum þess fulltrúa, að ekkert efli svo fljótt og vel grasvöxtinn eins og að plægja og sá; því þó að hinar útlendu korntegundir geti ef til vill ekki orðið fullþroska hjá oss, þá getur þó ekki hjá því farið, að það flýti mjög fyrir því að rækta jörðina til grasvaxtar.
Norðri segir í ódagsettu septemberblaði:
Veðráttan hefur verið hin besta og hagstæðasta um allan sláttinn þangað til mitt í þessum mánuði. Rétt við byrjun gangnanna gjörði hið mesta áfelli, svo að það snjóaði niður að sjó og hin mesta fannfergja kom á fjöllin, og það jafnvel svo, að geldfé var á sumum stöðum dregið úr snjó, og munu því heimtur víðast hvar ekki góðar, hvort sem seinna bætist úr því. Sökum þess að grasvöxtur var svo sárlítill, voru menn enn við heyskap þegar ótíðin byrjaði, og allmargir eiga því enn hey úti, og er hætt við að það nýtist lítt.
Þjóðólfur segir af strandi í pistli þann 27.september:
[Þ. 2.september] sleit upp á legunni í Keflavík jagtskip er kaupmaður P. Duus átti og nýkomið var þá frá Kaupmannahöfn og Noregi með korn, timbur og aðrar nauðsynjar, og var litlu sem engu búið að ná upp úr því áður; skipverjum varð öllum bjargað, en skipið sjálft mölbrotnaði og allur farmurinn fór í sjóinn, en rak upp, og var hvorttveggja selt á uppboðsþingi.
Þjóðólfur birti þann 1.nóvember bréf dagsett í Árnessýslu 1.október:
Nú eru heyannir á enda kljáðar þetta sinn; hér í Árnessýslu sem annarstaðar, hefir sú tíð verið mjög blíð og veðurátt hagstæð; grasbrestur var að vísu á sumum stöðum, helst á þurrlendum mýrarreytings-jörðum, enda brugðust líka einstöku góðengi, t.d. Bræðratunguey, sem er orðlagt slægjupláss; engu að síður má þó fullyrða, að heyafli er yfir hér um að tala í betra lagi að kostum og vöxtum.
Brandsstaðaannáll [haust - og vetur til áramóta]:
Haustið var gott og þíðusamt. Síðast í október þíða mikil og jöklaleysing og 5 vikna tíma fyrir 20. nóv. snjólaust góðviðri, þó stundum rosasamt. Skipti þá um með austanfönn og sterkum frostum á eftir. Með desember ísingarbloti, er gjörði jarðlítið. Jólafasta hörð með köföldum, hörkum og áhlaupshríðum. Varð lítið notuð beit þann mánuð. Hross tekin af heiðum vegna snjóþyngsla. (s192)
Norðri segir í ódagsettu októberblaði:
Síðan í miðjum septembermánuði, er hretið gjörði um gangnaleytið, hefur allt hingað til (í lok októbermánaðar) haldist hin blíðasta sumartíð, svo að vér munum ekki annað eins veður hér á Íslandi nokkurn tíma um sama leyti.
Norðri segir í ódagsettu nóvemberblaði:
Veðráttan hefur enn verið hin besta til þessa tíma (26. nóvember), og það er ekki nema rúm vika síðan snjór kom á jörð. Að vestan er oss skrifað, að sumartíðin hafi verið hin besta, grasvöxtur góður á túnum, en lakari á engjum, nýting hin besta. Hákarlsafli rétt góður á þiljuskipum.
Þjóðólfur ritar yfirlit um árið 1856 í pistli þann 20.desember (segir þá árið á enda):
Árið 1856 er nú þegar á enda, og þarf varla meira en miðlungs til þess að sjá, að það er og mun verða í flestu tilliti eitt hið minnisstæðasta ár þeim fulltíða Íslendingum sem nú eru uppi, og þó, að því sem enn er fram komið, ekki minnisstætt að öðru en stakri árgæsku og svo að segja allskonar hagsældum þegar á allt er litið. Hvorutveggju vetrarkaflana, einkum þann frá nýári til vordaga, og jafnvel eins hinn frá haustnóttum víst fram til loka [nóvember], viðraði svo um allt land, að varla hét að nokkur vissi að vetur væri; og fæstir núlifandi menn ætlum vér muni það vor er hafi sýnt jafnt yfir allt land jafnfæran og fríðan útifénað undan vetri eins og vorið er leið; það var almennt álitið, að geldsauðir hefðu tekið að slást við um sumarmál, og jafnvel á einmánuði; að vísu var vorið sjálft ekki að því skapi blítt eða gróðursamt sem veturinn var staklega mildur; það var jafnvel fremur en í meðallagi kalt og næðingasamt og þurrt í Múlasýslunum og staklega gróðurlítið, en þó að sumarið gæfist og í þeim sýslum með þurrasta, kalsamesta og gróðurminnsta slag fram yfir messur, og þó að grasvöxtur yrði yfir höfuð að tala vart meiri en í meðallagi á túnum og valllendi, en mýrlendi með sneggsta slag víðast, þá bætti úr því hin einstaklega góða nýting heyjanna, svo að segja yfir allt land, svo að heyföng urðu ekki aðeins í fullkomnu meðallagi að vöxtum víðast hvar heldur og svo vel verkuð að varla munu í annan tíma hafa verið betri hey í görðum hjá almenningi; meginhluti vestari Skaftafellssýslu, einkum Síðan og Skaftártungan, varð furðulega afskiptur í þeim efnum þar kvoluðust töður mjög svo og hröktust sakir stöðugs þerrileysis, og þessa verst útheyin; en yfir höfuð að tala viðraðist gjörvallt sumarið einstaklega blíðlega og hagstætt til allra athafna og bjargræðisútvega; næstliðið haust má og kalla með hinum betri haustum, en þótt það væri fremur rigningasamt.
Þann 24.nóvember sá athugunarmaður á Hvanneyri í Siglufirði hafís í fjarska.
Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um veður og tíðarfar ársins 1856. Þakka Sigurði Þór Guðjónssyni fyrir innslátt texta úr Brandsstaðaannál. Fáeinar tölur eru í viðhenginu.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 20:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.11.2020 | 03:21
Fyrstu 20 dagar nóvembermánaðar
Meðalhiti fyrstu 20 daga nóvembermánaðar er +2,5 stig í Reykjavík, -0,1 stigi neðan meðallags sömu daga árin 1991 til 2020, og -0,6 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára - og í 13.hlýjasta sæti (af 20) á öldinni. Hlýjastir voru sömu dagar 2011, meðalhiti þá 6,7 stig, en kaldastir voru þeir 2017, meðalhiti +0,8 stig. Á langa listanum er hiti nú í 53.sæti af 147. Hlýjast var 1945, meðalhiti +8,0 stig, en kaldast 1880, meðalhiti -2,9 stig.
Á Akureyri er meðalhiti fyrstu 20 daga mánaðarins 1,6 stig, +0,6 stigum ofan meðallags áranna 1991 til 2020 og +0,3 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára.
Enn er hlýjast að tiltölu á Austfjörðum, þar er hiti í 8.hlýjasta sæti aldarinnar, en kaldast er við Faxaflóa, meðalhiti í 13.sæti á öldinni. Á einstökum veðurstöðvum er jákvæða vikið miðað við síðustu tíu ár mest á Teigarhorni, +1,0 stig, en neikvætt vik er mest á Þingvöllum, -1,4 stig.
Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 44,2 mm og er það um þriðjungur neðan meðallags. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 32,4 mm og er það líka um tveir þriðju hlutar meðalúrkomu sömu daga.
Sólskinsstundir hafa mælst 36 í Reykjavík og er það lítillega ofan meðallags.
Þess má geta að lágmarkshiti þann 18. og 19. var á fáeinum stöðvum sá lægsti á árinu til þessa. Þar á meðal á Keflavíkurflugvelli (-8,5 stig) og í Reykjavík (-10,0 stig). Hiti í gamla mæliskýlinu í Reykjavík fór niður í -9,2 stig nú. - Mánaðarlágmörk (fyrir nóvember) voru líka slegin út á fáeinum stöðvum - en þó aðeins 3 sem athugað hafa í meir en 8 ár, Reynisfjalli (-9,4), Árnesi (-18,5) og Sámsstöðum (-12,0). Helst er óvenjulegt að loft yfir landinu var ekki tiltakanlega kalt - þó kalt væri í byggðum - ekki nema um -5 stiga frost í um 1500 metra hæð yfir Keflavík - og að tiltölu enn hlýrra ofar, þykktin um 5300 metrar sem ætti að samsvara um +3 stiga hita við jörð. - Svona geta hitahvörf stundum verið - þau áttu sinn þátt í mengunartoppnum í Reykjavík fyrr í vikunni.
19.11.2020 | 20:26
Enn fer vel með (í aðalatriðum)
Það hefur farið vel með veður nú í haust - ekki mikið um illviðri og lengst af hefur verið fremur hlýtt - þó kulda hafi brugðið fyrir dag og dag. Nokkrar öflugar lægðir eiga þó leið hjá, t.d. sú sem fer til norðausturs fyrir suðaustan og austan land á morgun (föstudag). Flestir landshlutar virðast þó eiga að sleppa furðuvel við áhrif hennar - þó hvessir sumstaðar fyrir austan - og kannski snjóar nyrðra. Eins og venjulega látum við Veðurstofuna um spár og hvetjum lesendur til að fylgjast með þeim.
Veturinn á norðurhveli hefur samt sinn gang - hefur lagst nokkuð á hluta Norður-Ameríku en lítið látið á sér kræla í Evrópu og meginhluta Asíu.
Kortið sýnir háloftastöðuna eins og evrópureiknimiðstöðin spáir henni síðdegis á laugardag (21.nóvember). Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, af þeim ráðum við vindstefnu og styrk í miðju veðrahvolfi, en þykkt er sýnd í lit. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Mörkin á milli grænu og bláu litanna er við 5280 metra, sem er mjög nærri meðallagi nóvembermánaðar hér á landi.
Það eru þrír mjög kaldir blettir á kortinu - vetrarkuldapollar. Einn yfir heimskautasvæðum Kanada - við höfum hér á blogginu til hægðarauka kallað hann Stóra-Bola. Hann fitnar nú hægt og bítandi - en er ekki búinn að ná fullum vetrarþroska. Hann mun á næstunni leika sér við annan poll - þann sem er nærri norðurskautinu. Við gefum báðum gaum. Þriðji kuldapollurinn er yfir Austur-Síberíu - rétt að ná sér á strik.
Föstudagslægðin okkar er hér komin austur fyrir land - og veikur háloftahryggur vestur af landinu. Af einhverjum ástæðum hafa veikir hryggir sem þessi verið nokkuð viðloðandi á okkar slóðum að undanförnu - risið strax upp aftur ef að þeim hefur verið sótt og þeir bældir niður. Slík staða er í rauninni hagstæð - alla vega meðan kuldi hefur ekki náð að byggjast upp að ráði í norðurhöfum. Framtíðarspár eru heldur á því að þetta ástand haldi áfram - þó út af bregði dag og dag þegar lægðir fara hjá - aðallega fyrir sunnan land. En auðvitað kemur að því að kuldapollarnir taka sig saman í andlitinu og fara að angra okkur - eða það er vaninn.
Vísindi og fræði | Breytt 20.11.2020 kl. 01:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.11.2020 | 03:27
Fyrri hluti nóvember
Meðalhiti fyrri hluta nóvember er 3,9 stig í Reykjavík. Það er +1,0 stigi ofan meðallags áranna 1991 til 2020 og +0,6 stigum ofan meðallags sömu daga síðustu tíu árin. Raðast hitinn í 10.hlýjasta sæti (af 20) á öldinni. Hlýjastir voru þessir sömu dagar árið 2011, meðalhiti þá 6,7 stig, en kaldastir voru þeir 2010, meðalhiti -0,5 stig. Á langa listanum er hitinn nú í 29.hlýjasta sæti (af 145). Hlýjastur var fyrri hluti nóvember árið 1945, meðalhiti þá 8,2 stig. Kaldastur var hann hins vegar 1969, meðalhiti -2,6 stig.
Á Akureyri er meðalhiti fyrri hluta nóvember 3,4 stig, það er +2,0 stigum ofan meðallags 1991 til 2020 og +1,9 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára.
Að tiltölu hefur fyrri hluti nóvember verið hlýjastur á Austfjörðum, þar er hann sá þriðjihlýjasti það sem af er öldinni, en kaldast að tiltölu hefur verið við Faxaflóa, þar er hitinn í 11.hlýjasta sæti aldarinnar. Hiti er ofan meðallags síðustu tíu ára á flestum veðurstöðvum landsins. Mest er jákvæða vikið á Þórdalsheiði og á Egilsstaðaflugvelli, +2,0 stig, en neikvætt vik er mest í Hvammi undir Eyjafjöllum, -0,3 stig.
Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 42,3 mm og er það í tæpu meðallagi síðustu 30 ára. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 27,7 mm eða um 80 prósent meðallags.
Sólskinsstundir hafa mælst 21,7 í Reykjavík og má það heita í meðallagi.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 05:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.11.2020 | 01:34
Af árinu 1855
Árið 1855 var heldur óhagstætt. Óvenjuharðan frostakafla gerði í febrúar en vorið var skárra. Sumarið var blautt á Suðurlandi, en skárra annars staðar. Haustið var hagstætt. Veðurstöðvum hafði nú fækkað, þó voru nokkuð ítarlegar mælingar á hita- og loftþrýstingi í Stykkishólmi og einnig var mælt allt árið í Hvammi í Dölum og á Hvanneyri í Siglufirði.
Meðalhiti í Stykkishólmi var 2,6 stig, 0,9 stigum neðan meðallags næstu tíu ára á undan. Áætlaður meðalhiti í Reykjavík er 3,4 stig, en 1,9 á Akureyri. Sérlega kalt var í febrúar og í október. Sömuleiðis var kalt í janúar, mars, maí og ágúst, en aftur á móti óvenjuhlýtt í júlí - en það var eini hlýi mánuður ársins. Svo virðist sem hlýrra hafi verið norðanlands heldur en sunnan í þeim mánuði.
Nítján dagar ársins voru óvenjukaldir í Stykkishólmi, 7 í febrúar, 4 í mars, 3 í maí, 3 í júní og 2 í október. Kaldast var síðast í febrúar. Sólarhringsmeðalhiti þann 24. var -21,6 stig í Hólminum og lágmarkshiti fjögurra daga í röð neðan við -20°C, mestur -24,5°C þann 24. Meðalhiti var undir -10°C í nærri því hálfan mánuð. Ekki hefur verið lokið við að fara yfir allar hitamælingar á landinu þessa daga en víða var mjög mikið frost. Séra Jón Austmann segir í athugasemdum um febrúarmánuð (sem ekki eru alveg skýrt orðaðar): Himinblíða 1. til 14. feb. [frost fór í -20 stig um þ.20]. Þar eð termometrið tók eigi nema 20- varð eigi með vissu ágiskað hvað frostið steig hátt, svo tók ég það inní hús er vissi að 2-3° herti frostið eftir það. Þurrt mest allan mánuðinn. Að frost fari í meir en -20° í Vestmannaeyjum er vægast sagt óvenjulegt. Meðalhiti í Ofanleiti reiknast -6,6 stig í febrúar. Við vitum ekki fyrir víst hversu vel má treysta þessari tölu en hún er mun lægri en öll síðari tíma mánaðameðaltöl hita á stöðvum í Eyjum. Óvenjuleg ísalög voru á fjörðum, t.d. á Breiðafirði og Eyjafirði. Sömuleiðis er getið um óvenjulega ísa á Þjórsá og Hvítá fram eftir. (Sjá fregnirnar hér að neðan).
Loftþrýstingur var óvenjuhár í bæði janúar og febrúar. Þá var þrýstiórói einnig með minnsta móti í febrúar og mars. Veður var lengst af stillt, þurrt og bjart. Norðurljósanætur mjög margar í Stykkishólmi. Greinilegt er að miklar fyrirstöðuhæðir hafa haldið sig nærri landinu - en svo fór að lokum að þær fóru vestur fyrir og sérlega kalt loft komst til landsins - trúlega alla leið úr Norður-Íshafi. Mikill hafís var fyrir norðan land þannig að ekki var um neina sjávarhitun lofts að ræða þar til komið var suður fyrir Ísland. Febrúar var líka sérlega kaldur á Bretlandseyjum, sá þriðjikaldasti í meir en 300 ára sögu veðurathugana þar - og frost hljóp í jörð á Norður-Írlandi.
Þrýstingur var einnig vel ofan meðallags í maí, en vel undir því í apríl. Lægsti þrýstingur ársins mældist í Stykkishólmi þann 9.apríl, 968,6 hPa, en hæstur á sama stað þann 28.janúar, 1043,7 hPa. Árið virðist ekki hafa verið sérlega illviðrasamt, þrýstiórói þó með meira móti í september.
Hér að neðan má finna helstu heimildir um veðurfar ársins. Nokkuð af veðurskýrslum og dagbókum er enn óyfirfarið. Að vanda er stafsetning að mestu færð til nútímavenju. Fleiri slysa er getið í heimildum heldur en nefnd eru hér að neðan. Óljóst er hver þeirra tengdust veðri og dagsetningar vantar. Óvenjumargir virðast hafa orðið úti. Fregnir voru greinilega mjög óljósar af mörgum slysum og óhöppum og ber heimildum ekki alltaf saman.
Brandsstaðaannáll [vetur]:
Hagleysi yfir allar sveitir og hross mjög hrökuð orðin og komin flest á gjöf, Var nú miklu lógað af folöldum og gömlum hrossum. Þótti búlaust fólk eiga of margt af þeim, með lítilli fyrirhyggju, utan hvað sumir kostuðu upp á óþarft eldi þeirra, sem fór nú af. 13. jan. kom snöp í lágsveitum, en 21. gerði mikla lognfönn ofan á gaddinn. Skeljaði hana og hélst svo bjargleysið, utan í Tungusveit og yst á Ásum og jarðsældarplássum, þar nokkuð reif af, svo léttir var lengi. Allan þorra var veður stillt og bjart, frosthart og ófærð af brotafönn. 3 fyrstu góudaga milt veður, en 21.-26. febr. mesta grimmdarharka. 27. hlóð enn niður lognfönn svo bæir voru í kafi og ófært með skepnur milli þeirra. Var þá ís kominn að öllu Norðurlandi, hey farin mjög að minnka og útlit fyrir felli, kæmi ei jörð upp fyrir sumar. 8. mars blotaði og komu upp rindar í Hlíðar- og Holtastaðafjalli og brátt voru hross og sauðir rekin þar á. Hjarnaði svo í lágsveitum. Um góulokin lagði ísinn frá landi, þá menn síst væntu þess, án þess veður ræki hann. Um það bil kom snöp mót vestri. 27. mars kom þíða, er varði vikutíma. Kom þá upp jörð í flestum sveitum, svo fé lifði af gjafarlítið.
Þann 14.febrúar segir athugunarmaður á Siglufirði frá hafís svo langt sem tilsjáist. Þar fannst jarðskjálfti 11.mars.
Norðri fer yfir tíð og slysfarir í pistli þann 14.febrúar (lítillega stytt hér):
Veðuráttufarið var fyrst eftir nýárið svipað því og fyrir það, en eftir þrettándann blotaði, kom þá upp nokkur jörð; þó lagði aftur að með hríðum, svo í sumum sveitum tókst nær því af öll jörð. Það af er þorranum hafa fádæma stillingar og heiðríkjur gengið. Hafís er nú hér mikill úti fyrir. Þessir menn höfum vér heyrt að hafi orðið úti eða dáið voveiflega: 2. des. f.á. varð vinnumaður Kristján Sigfússon frá Höfða á Völlum í Suðurmúlasýslu, á leið úr Eskjufjarðarkaupstað, úti í svo nefndum Tungudal. Annar 17. [desember] á Seyðisfjarðarheiði, hét sá Halldór og var mállaus. Þriðji frá Ytra-Álandi í Þistilfirði, Marteinn Sigurðsson bóndi þar, fimmtudaginn næsta eftir nýár og hefur hann ekki fundist og er haldið að hann muni hafa i stórhríðinni og náttmyrkrinu, er þá var, hrapað þar fram af sjávarhömrum. Maður, Bergvin að nafni, var sendur frá Fossvöllum á Jökuldal norður að Grjótnesi á Sléttu, og þegar hann fór til baka hafði hann seinast verið á ferð með bræðrum 2, Sakkaríasí og Eiríki frá Ormalóni á Sléttu, en var þó skilinn við þá og kominn á undan þeim, en síðan ekki til hans spurst, og eru ýmsar getur um hvarf hans. Tveir menn lentu í snjóflóði í svonefndu Sauðárgili nálægt Gönguskörðum £ Skagafirði, og komst annar þeirra úr því en hinu lést og var þó sá meiri maður fyrir sér. Unglingsmaður frá Skatastöðum £ Skagafirði hefur týnst, og er haldið að hann hafi hrapað þar og lent í hinni svonefndu Jökulsá eða þá, að ískörin hafi bilað undan honum við ána. Maður hafði orðið úti um jólaleytið úr Miðfirði, sem var þá á ferð um Víðidal, og annar er sagt að hafi í [janúar] orðið úti á Vatnsnesi. Tveir menn er sagt að hafi orðið úti á Mýrum, er áttu heima á Búðum eða þar £ grennd, og sýndist þegar fundust sem einhverjum áverka hefðu sætt, og frá þeim horfið nokkuð af því, er þeir áttu að hafa meðferðis. ... Kvenmaður hafði orðið úti í Álftanesi. ... Á jóladagskvöldið lögðu 4 kvenmenn frá Reynistaðarkirkju, er áttu heima þar á næstu bæjum, en þá brast á stórhríð, svo þær villtust, tóku því til bragðs að grafa sig í fönn og lágu þar úti í full 3 dægur. Ein þeirra var allan þann t£ma á flakki og ýmist vann að því, að hlúa að hinum eða þá bjástra eitthvað sér til hita. Loksins þegar hríðina birti upp, fundust þær þá skammt frá bæjum,var þá ein, er gróf sig í snjónum, kalin til stórskemmda, svo að fætur mun missa upp að ökklum, en hinar lítið sem ekkert, og sú sem úti var, alls ekkert. Og er tekið til þess sem vert er, hvílíkur kjarkur hennar, harka og þol sé. Með sendimanni séra Jóns Kristjánssonar á Ystafelli, er hann á jólaföstunni sendi suður í Reykjavík og kom aftur hingað úr þeirri ferð 18. [janúar], fréttist að miklir útsynningar með snjókomu hefðu þá lengi verið syðra og ógæftir miklar, Maður sá, sem héðan var sendur suður fyrir nýárið eftir bréfum og fréttum, et kæmu með Liverpúlsferð póstskipsins, kom hingað aftur 8.[febrúar] og barst með honum sú frétt, meðal annarra, að í hlákunni, sem gjörði eftir þrettándann hefði víða orðið öríst um Suðurland, og hefðu því þar verið góðir hagar allt norður undir Holtavörðuheiði, en úr því mikil fönn og jarðbannir. Allt fram í næstliðinn mánuð fréttist, að eystra suður í Lón og allt vestur að Rangárvallasýslu hefði og verið lítið um haga vegna áfreða og glerungs, nema í Öræfum góð jörð.
Þjóðólfur segir af tíð og slysförum þann 22.febrúar:
Það vill einatt verða hér, að ýmsir menn fara hörðum förum, þegar slík langvinn illviðri og harðindi ganga almennt yfir, eins og hefir verið á þessum vetri; illviðrin og hörkurnar lögðu víðast að um land fyrir og um jólaföstu, og jafnvel fyrr í Múlasýslum; og með þeim stöðugu byljum og fannfergi, sem upp frá því gengu, fram undir miðjan janúar, þá mun sjaldgæft, að jafnfáir menn hafi kalið og orðið úti sem þó hefir orðið, eftir því sem spurst hefir getað. Hingað hafa ekki spurst aðrar harðar farir i þeim illviðrakafla, Auk stúlkunnar sem varð úti á Álftanesi, en um þær 4 stúlkur, sem gengu frá Reynistaðarkirkju í Skagafirði, á jóladaginn, og áttu allar mikið til samleið, en villtust, og fundust ekki fyrr en á 3. degi, allar með lífi en meira og minna kaldar; þó er haldið, að þrjár þeirra verði jafngóðar að mestu, en ein, og sú hafði verið langverst útbúin, var svo skemmd, að læknirinn varð að kubba af henni báða fætur um mjóalegg,og var þó talið tvísýnt, hvort hún myndi lífi halda. Í hlákunni, sem gerði um miðjan janúar, komu víða upp nokkrir hagar, ekki aðeins hér sunnanlands, heldur einnig fyrir norðan og vestan. En bæði nyrðra og vestra tók svo að segja algjörlega fyrir þenna bata, eftir hinn mannskæða byl, sem þar varð hvívetna 1. sunnudag í þorra, (21. janúar); þá varð úti maður milli bæja á Vatnsnesi; og fullhermt er að vestan, að þann sama dag hafi orðið úti: 2 menn á Fróðárheiði, 2 á Kerlingarskarði, 2 á Skálmardalsheiði og einn á Kleifum i Gilsfirði.
Norðri segir af veðri þann 28.febrúar:
Síðari hluta mánaðar þessa hefur veðuráttan verið mjög frostasöm og hörð, einkum næstliðna viku, svo frostið varð 22 gr. á Reaumur [-27,5°C], enda eru nú sögð hafísþök norðan fyrir öllu landi, allt austur á Héraðsflóa. Eyjafjörður er nú gengur út á Kljáströnd að austan, en Hjalteyri að vestan, og er það héðan á 3. viku sjávar [20 til 25 km], en þaðan er stappað fullt með hafís. Um aflabrögð er nú ekki að tala. Víðast eru jarðbannir, og margir í voða með skepnuhöld sín, batni ekki þyí bráðara og betur. ... Unglingspiltur nokkur frá Gunnarstöðum í Langanesströndum hafði verið á leið til Vopnafjarðar, sem eftir 6 dægra útilegu, komst fyrst til byggða; var hann þá mjög kalinn á fótum, er leiddi hann til bana að tæpri viku liðinni.
Norðri segir fréttir af hörkum í pistli þann 8.mars:
Í 6 daga af mánuði þessum, hafa verið sömu gaddhörkurnar og næst er getið á undan 1025 gr. í Reaumur [-12 til -31°C]. Sagt er nú að ganga megi yfir Eyjafjörð þvert og endilangt, hvar sem vilji. Ferfættu gestirnir frá Grænlandi hafa og látið heyra sönglist sína hér undir landi. Hreindýr hafa venju framar sótt ofan í byggð einkum við Mývatn og ekki allfá þeirra þar lögð að velli, og nokkur orðið bráðdauð fyrir hungurs sakir. 3 höfrungar voru drepnir í vök við Hjalteyri hér á firðinum, um það leyti hafísinn var að reka inn og frjósa saman. 2 hnísur höfðu hlaupið í land í Upsakrók. Nokkrir ern nú farnir að koma fyrir skepnum sínum, og margir eru sagðir á flugstig að skera niður meira og minna af peningi sínum. Fæstir munu birgari en svo af heyjum, að þeir komist lengra með skepnur sínar en í páska [8.apríl] eða sumarmál, ef ekkert svíar þangað til. Þegar á fætur var komið á Hvanneyri í Siglufirði um morguninn 24. janúar brá mönnum heldur en ekki mjög í brún, að sjá kirkjuna þar komna af stæði sínu og í hliðina suðaustur á kirkjugarðinn, sem numdi upp undir gluggana. Presturinn séra Jón Sveinsson hafði verið um nóttina út í Siglunesi, og þótti þá heim kom aðkoma þessi ekki góð, sem ekki var von, og því heldur, sem þá var ekki annað sýnna en hann kæmist ekki hjá, að láta draga kirkjuna þar í sundur. Samt réði hann það af að safna saman mönnum úr sókn sinni, nefnilega þar úr firðinum, utan af Siglunesi, vestan af Úlfsdölum og líka innan frá Hraunum í Fljótum, og urðu þeir yfir 40 saman. Menn þessir komu með mikinn útbúnað, blakkir sumar þríhjólaðar, kapla, akkeri, stórviðu og smærri tré, og skorti þar ekkert af því, er hafa þurfti og heldur ekki góð ráð né dugnað og fylgi. Fyrst fengu þeir reist kirkjuna við og jafnframt komið undir hana stórtrjánum og ekið henni á þeim þar til hún komst að öllu rétt og óskökk á grundvöll sinn og fengu þeir þessu að mestu leyti komið í verk á 2 klukkustundum. Kirkjan hafði ekki framar bifast til en eíntrjáningur og það fáa, sem raskast hafði í gripum, varð komið í samt lag sem áður; og sýnir þetta meðal annars, hve vönduð hún er að smíði, jafnframt sem það lofar meistarann, yfirsmið hennar timburmeistara og stórbónda herra Ólaf Briem á Grund í Eyjafirði. 5 borð höfðu aðeins rifnað til skemmda í vestara, en eitt í austara gafli kirkjunnar, sem voru þegar burtu tekin og önnur ný sett í staðinn. Engin rúða hafði brotnað í gluggunum. 15 tunnur af kornvöru höfðu verið í stokkum á kirkjuloftinu, og fullvissa menn að þyngsli þessi hafi meðfram hamlað því, að kirkjan ekki tókst á loft út yfir kirkjugarðinn. Fellibylurinn hafði komið af vesturútnorðri eða ofan úr þarnefndri Hvanneyrarskál, en aðalvindstaðan var af landnorðri.
Aðfaranóttina hins 28.[febrúar] varð unglingsmaður úti innst á Svalbarðsströnd, rétt á móti Akureyri, sem átti heima í Grenivík á Látraströnd, en þá til veru um tíma á Brekku í Kaupangssveit, hann hét Friðrik Guðmundsson, og er haldið að honum hafi orðið snögglega illt, eða að hann hafi verið kenndur, og var hann þó á réttum vegi og varla nema fjárhúsvegur til næstu bæja, þótt þá væri dimmt af nokkurri hríð og náttmyrkri og frostgaddurinn mikill.
Norðri segir af tíð - bjarndýrum og slysförum í pistli þann 24.mars:
Mánudagsmorguninn þann 12.[mars] urðu nokkrir hér um sveitir varir við jarðskjálfta. Í Fjörðum í Suðar-Þingeyjarsýslu urðu menn varir þar við land tveggja bjarndýra og var annað þeirra lítið en hitt stórt, sem bæði voru að veiða fugla í vökum. Og líka sást eitt utar við svonefndan Sjávarsand, sem liggur fyrir botninum á Skjálfandaflóa, var það og að æðarfuglaveiði varð einum manni, sem þetta heyrði, að orði, að bangsa mundi þykja álíka vænt um veiðilögin og sér, þá segir enn annar að bangsi mundi varla heldur borga þrjú mörk fyrir fuglinn og því síður, að hann bætti við sekt þessa að tiltölu við það hann fækkaði fleirum . Maður einn gekk þar hjá, hér um 20 faðma, austur sandinn, og gaf dýrið sig ekkert að honum. 12. [mars] kl. 9 e.m. ætluðu 5 menn úr Húsavík fram að lagvaðavökum, en þá þeir voru komnir skammt fram fyrir svo nefnda Böku, sáu þeir hvar stórt Bjarndýr kemur mjög mjúkgengt að þeim. Mennirnir voru verjulausir, þorðu því ekki annað en hverfa til baka og í land, og fylgdi bangsi þeim af kurteisi sinni eitthvað á veg. Sagt er að slóðir eftir Bjarndýr hafi sést á Reykjaheiði framan Kelduhverfis og víðar. Hljóð eða öskur þeirra er sagt líkast því, þá blásið er í lúður. Hvergi heyrist getið um að hvalir hafi fundist dauðir eða lifandi í vökum, nema á Skagafirði utan Hofós 12 eða 13 barðerar eða höfrungar, og náðust aðeins 3 af þeim, því þá um þær mundir var blotinn og landsunnan- og austanveðrin, er leystu ísinn víða frá landi, svo nú er hann horfinn úr augsýn, en fullir eru hér allir eða flestir firðir og víkur, svo hvergi gætu nú hafskip náð höfnum. Mjög báglega er nú farið að láta af heybirgðum margra, og ekki allfáir farnir að reka af sér, og enn nokkrir farnir að skera niður af skepnum sínum, enda hross farin að hrökkva af. Víðast til sveita eru þó nokkrar snapir og óvíða sögð aftaka fönn. Fjárpestin hefur hér og hvar verið skæð og fækkað töluverðu. Nýlega hafa oss borist bréf af Vesturlandi, og segja þau þetta hið helsta í fréttum: Hafís kvað vera eins og hér fyrir öllum Vestfjörðum og Breiðafjörður víða þakinn lagísum, svo bæði sé gengur og reiður, og segjast elstu menn þar ekki muna dæmi til slíks. ... Margir vita, að Gjögur norðan við Reykjafjörð og vestan Húnaflóa, er hin mesta veiðistaða til hákarls sem Siglunes hér í sýslu, enda voru á leiðinni þangað á dögunum þegar ísinn var að reka inn og frjósa saman 50 manna á stórskipum, er öll frusu inni í Eyjum í Kaldranasesshrepp, er komust hvorki fram né aftur.
Slysfarir: 21. janúar höfðu 5 menn orðið úti í hríðarbyl vestra, af hverjum 2 á Skálmardalsheiði, milli Ísafjarðar og Barðastrandar, 1 í Gilsfirði og 2 á Kerlingarskarði milli Snæfells- - og Mýrasýslna. Í Kelduhverfi í Þingeyjarsýslu hafði sonur prestsins þar, séra Bjarnar Arnórssonar, Eiríkur að nafni, farið þar ásamt öðrum manni í fjárhús á túninu föstudaginn þann 23. [febrúar], er mestur var frostgaddurinn og víða stórhríð. Mennirnir skiptu sér í húsunum og þá hinn var búinn í húsum sínum og kominn heim, var og von á Eiríki á hverri stundu, það dróst því nokkuð þangað til menn freistuðu til að leita hans en fundu ekki fyrr en morguninn eftir, þá kominn eitthvað afleiðis, þó skammt frá og aðeins með lífsmarki, og dó þegar. Hann hafði þó verið vel út búinn.
Ingólfur segir af árferði þann 18.apríl (heldur bjartsýnni en aðrir):
Þegar vér seinast drápum á árferði, sem var rétt eftir nýárið, þá var hljóðið í oss heldur dauflegt, er vér virtum fyrir oss með hverjum svip árið gamla kvaddi oss, og með hvaða útliti hið nýja gekk í garð. Oss þótti þá bæði loft og láð lýsa fremur ískyggilegu útliti. En það sannaðist þá sem oftar, að ekki er veður lengi að breytast". Sú hin hryðjusama veðurátta, sem gengið hafði frá því fyrir Jólaföstu, hélst aðeins rúma viku framan af árinu; þá gjörði hláku og hægviðri, sem hélst til hins 20. dags janúar; þó leysti ekki svo upp snjó og klaka, að jörð kæmi upp að nokkrum munum, því þegar með þorra komu gekk veðurátta til hægrar kælu með vægu frosti og heiðríkju. Munu færri menn muna jafn bjartan og heiðskíran þorra, því svo mátti kalla að eigi sæist ský á lofti í 5 vikur, nema hvað einstaka sinnum brá yfir hrímþoku, er mun hafa verið undanfari hafíss þess, sem þá var að reka að landinu. Nú þegar góa gekk í garð, gjörðist veðurátta kaldari, þó veðurreynd væri hin sama; var hún tíðast með norðanstormum, nokkru kafaldi og einstaklegri frosthörku um tíma; fylltist þá allt með hafís fyrir norðan og austan, svo að hann rak vestur með landi. En þegar góa var á enda, kom batinn fyrst með heiðríkju og sólbráð, og svo með landsynningum og hláku og hægu skúraveðri; svo vér gjörum ráð fyrir að í miðjan einmánuð hafi jörð víðast hvar komið upp að nokkrum notum. Af því sem nú er sagt af veðuráttufarinu vetur þennan ræður að líkindum, að hann hafi verið allþungur og heyfrekur í flestum sveitum; þó ætlum vér að óvíða hafi orðið tjón að harðindunum bæði fyrir þá sök að flestir, sem heytæpir voru, munu hafa fargað af sér í tíma, og svo þeir, sem birgastir voru, hafa hjálpað hinum, sem í þrot komust, og svo loksins fyrir þá sök, að þegar neyðin var stærst, var hjálpin næst, það er að segja, guð gaf batann, þegar nauðin var bráðust. Þegar litið er nú til aflabragða af sjó vetur þennan, þá má það með sanni segja, að vetrarvertíðin hefir allt til þessa verið einhver hin fiskisælasta; á þorranum var hinn besti afli fyrir sunnan land, sér í lagi í Höfnunum; þá sóttu menn og af Innnesjum góðan afla af haustfiski suður í Garðsjó. Þegar með einmánaðarkomu fór að fiskast innan Faxaflóa í veiðistöðunum kringum Vogastapa, svo eigi hefur í nokkur ár undanfarin aflast eins vel á því sviði; hefur þar verið kallaður landburður til þessa. Fyrst í miðjan einmánuð fór að fiskast hér á Innnesjum, og hefur þar hvervetna gefist hinn besti afli. Þegar vér þá lítum aftur fyrir oss og fram undan, að því leyti sem út litur fyrir bæði til sjós og lands, þá getum vér ekki annað sagt, en að vetur þessi kveðji oss vel, og að vér eigum að horfa fram á gott árferði eftir því sem ráðið verður af aðgjörðum þess oss til handa, sem sendir skúrirnar niður í dalina og stefnir fiskinum inn á miðin.
Norðri segir fréttir þann 16.apríl:
Norðanpósturinn, Vigfús Gíslason, sem byrjaði héðan suðurgöngu sína 8. dag febrúar, kom til Reykjavíkur árdegis 21.[febrúar] og fór aftur þaðan um morguninn 7. mars, og kom hingað fyrir miðmunda 23. [mars] Hann hefur þá verið ekki fulla 11 daga á leiðinni suður, og tæpa 18 hingað norður. Það var fátt merkilegra tíðinda, sem með honum fréttist, annað en veðuráttufar og jarðbannir líkt og áður er hér að framan sagt seinast frá í blaði þessu, og flestir mjög tæpt staddir með skepnuhöld sín. Peningur sumstaðar, sér í lagi hross, orðinn dreginn og vonarpeningur. Fiskilaust hafði lengi verið á Innnesjum og austur með öllum söndum og í Vestmannaeyjum, 12. febr. Þar á mót góður afli í Þorlákshöfn, og suður í Höfnum 700 hlutir. Nokkur afli þá póstur fór verið kominn á Innnesjum. Póstskipið hafði létt akkerum sínum af Reykjavíkurhöfn 1.mars. ... Austanpósturinn, Níels Sigurðsson, hafði lagt af stað til (frá) Eskjufirði mánudaginn 2. [apríl], og kom hingað um miðjan dag þann 10. [apríl]; hafði hann þó víða á leiðinni fengið illa færð, og er þaðan að frétta líkt og hér um veðráttufar, jarðir, heybirgðir og skepnuhöld; einnig að hafísinn hefði verið kominn frá landi eitthvað til hafs. 27. [mars] kom hér, og hvað spurst hefur, góð hláka og gott veður, sem hélst til hins 7. þ.m.; gekk þá veður til norðurs og spilltist, kom þá töluverður snjór, helst um uppsveitir.
[Þann 7. apríl] bar svo til, að Baldvin nokkur Kristjánsson(?) á 5. ári um tvítugt, efnilegur og ágætt formannsefni, til heimilis á Krossum í Árskógsströnd, rak ásamt 6 mönnum öðrum sauðahóp, er komast átti úr Hrísey í land; en þegar skammt var komið leiðar þessarar kom sprunga í ísinn; þar hann var glær, voru sauðirnir tregir að ganga og sumir festu fæturna í sprungunni; fór þá Baldvin að koma þeim úr henni og áfram lengra; dældaði þá ísinn undan honum og sauðunum, og brast niður, svo Baldvin fór í kaf ásamt nokkrum sauðunum, er þá bar fleiri að og lentu í vökinni; en sagt er, að honum hafi í svipan skotið upp aftur, og jafnframt, að annar Baldvin og Þorvaldur faðir hans hafi freistað til að bjarga manninum, og þá við sjálft legið, að þeir mundu farast líka. Sauðirnir náðust allir lifandi og líkami Baldvins heitins morguninn eftir. Í vökinni höfðu tæpir 3 faðmar verið til botns.
Þjóðólfur fer yfir tíðarfarið þann 28.apríl:
Það sýnist sem vetrarhörkunum ætli nú um síðir að linna, enda hefir þessi afliðni vetur verið einhver hinn lang-harðasti sem hér hefir komið síðan um næstliðin aldamót; hann lagðist að víðast um land um jólaföstukomu, og má kalla, að hörkunum hafi ekki linnt fyrr en ef nú er komið hlé; snjókyngið hefir verið dæmafátt, og þar af leiðandi almennar hagleysur og langur gjafatími, víðast fram undir þessi sumarmál hér sunnan og vestanlands. Frostgrimmdin hefir og verið mikil öðru hverju, hér sunnanfjalls 1718°R [-21 til -22°C]; í Dalasýslu eins (-24°C); austanfjalls, á Eyrarbakka, 22°R [-27,5°C]; að norðan og lengra að vestan höfum vér ekki sanna frétt; það er og fádæmi, að Þjórsá og einkum Hvítá í Árnessýslu skuli hafa verið með hestís fram yfir sumarmál, eins og nú. Það er sannfrétt að norðan, að hafísinn hafi farið af Húnaflóa um pálmasunnudag [1.apríl], og að gott veður var þar nyrðra um páskana; en ísinn kom þar aftur eftir hátíðina, þó segir nú ný frétt, að hann sé nú farinn í annað sinn og frá öllum Vestfjörðum. Fyrir suðausturströndum landsins varð hafísinn hvorki mikill né langvinnur. Það gefur að skilja, að fénaðarhöld eru mjög misjöfn og hæpin, eftir slíkan víkingsvetur, og að mest er komið undir vorinu, hvernig þau reynast yfir höfuð að tala; en sé þegar farinn að stökkva af fénaður einnig hjá þeim, sem hafa verið vel birgir af heyjum, eins og frétt hefir um einstöku menn í Rangárvallasýslu, þá eru það hin verstu sjálfskaparviti fyrir þá hina sömu; fréttir segja, að um miðjan [apríl] hafi einstöku hross verið farin að falla um Austur-Landeyjar, og sauðfé bæði þar og í Holtunum.
Frétt að norðan, þó munnleg, segir að þegar hafísinn kom aftur á Húnaflóa eftir páskana, þá hafi 3 menn farið út í hann til að tína rekavið, en einn þeirra farið lengst út, en þá hafi ísinn leyst frá, og farið til hafs og þessi eini maður orðið til á ísnum og tekið út með honum.
Brandsstaðaannáll [vor]:
Seinni part einmánaðar kafalda- og frostasamt, svo þeir hey höfðu létu ei út og gáfu hrossum. Með sumri kom stöðug og hæg þíða með næturfrostum 12 daga. 5.-6. maí mikil áhlaupshríð ytra. Aftur 12. bati, en gróðurlítið til 26., að heiðarleysing gjörði.
Norðri segir fréttir 5.maí - af hafís, vetrarhörkum og fleira:
Þess er getið í 9. og 10. blaði þessa árs, að veður hafi spillst og mikill snjór komið, helst um uppsveitir; en seinna fréttum vér, að snjófallið hafi nær því hvervetna orðið mikið, einkum hér norður undan. En eftir þann 20.[apríl] hófst aftur þíðviðri og besta tíð og hefur, að kalla, síðan verið hverjum degi blíðara og betra; það eru því horfur á, að þótt báglega líti út með skepnuhöld margra, þá muni rætast úr því flestra von betur. Það er sjálfsagt, að sumstaðar mun peningur vera orðinn sármagur og langdreginn. Svo var orðið hæpið með heybirgðir, að nokkrir höfðu við orð, og enda gjörðu það til vonar og vara, að taka korn í kaupstöðum, til þess að gefa peningi sínum, og höfum vér helst heyrt til þess tekið í Húnavatnssýslu, að hversu miklar kornbirgðir sem voru á Skagaströnd og Hólanesi, hafi þær þó að mestu gengið upp á hálfum mánuði, og þykir varla dæmi til, enda ekki á sumartíma í kauptíð, að jafnmiklar birgðir skyldu á jafnskömmum tíma þegar vera uppi. ... Í seinasta hríðarskotinu hafði töluvert komið inn aftur að landinu af hafís, og nú nýskeð hafa borist hingað fréttir, að hafþök muni hér fyrir öllu landi að norðan, frá Rauðanúpi eða jafnvel Langanesi allt til Hornstranda. Vér höfum og fyrir skömmu síðan haft sannar fregnir af Vesturlandi, og að frostið hafi þar orðið í vetur 2526° á Reaumur [að -32,5°C]. Það hafði líka svo verið þakið lagísum á Breiðafirði í vetur, að fara mátti á hestum úr Skáleyjum að Fagradal á Skarðsströnd og þaðan stórskipaleið í Stykkishólm; þá þvert og endilangt eftir öllum Hvamms- og Gilsfirði; einnig hafði lagt alla firði, er liggja norður úr Breiðafirði, og hvergi orðið komist að landi við Barðaströnd fyrir rekís. Svo nefnda Akureyjaröst, sem er millum Akureyja og Reykhólaeyja, hafði lagt, og vita menn ekki dæmi til þess í næstliðin 200 ár. Hafísinn hafði lengst komist suður með landi að vestan, að Látraröst, og ekki til muna inn á Vestfirði, en hafþök voru hvervetna úti fyrir. Á pálmasunnudag voru 10 hndr. (12 ræðra) hlutir orðnir af fiski við Ísafjarðardjúp, en í 10. hndr. undir Jökli. Hákarlsafli lítill. Það hefur venju framar verið lítið um veiði á Eyjafirði síðan hann í vetur lagði allan, og varð nú fyrst 27.[apríl] að kalla auður; og munu allir, sem lífsbjargar sinnar eiga von úr þessu nægtabúri, hafa glaðst við. Í dag og í gær hefur verið austan-landnorðan-stormur með snjókomu.
[Þann 8. mars], þá hafísinn leysti aftur frá útkjálkum landsins, hafði Jón nokkur Bergsson, frá Hvalsnesi á Skaga, verið ásamt fleirum við hákarlaveiði upp um ís austur af Skaganum, 1/2 til 1 mílu undan landi, og seinast verið að flutningi á veiði eða veiðarfærum; en þá tók ísinn sundur, svo Jón komst ekki til lands aftur, og varð heldur ekki bjargað, vegna ofviðurs og ísreks; sást hann þó meðan ljóst var af degi, og seinast í kíki, hlaupa aftur og fram um ísinn til þess að ná landi, en fékk hvergi að gjört. Hundur hafði fylgt honum, sem 6 dægrum seinna hafði komið í land upp að Víkum á Skaga; en til Jóns hefur ekkert spurst síðan; hann hafði verið lítt klæddur. Það er haldið, að hann varla muni hafa getað lengi lifað á ísnum, sem rak til hafs, þar hvassviðrin og heljurnar fóru þá aftur í hönd.
Það er sagt, að Erlingur nokkur Einarsson vinnumaður frá prestsetrinu Hvammi í Laxárdal, er séra Ólafur Þorvaldsson á Hjaltastöðum hafði í heljunum í vetur fundið á leið sinni inn yfir Skörðin nær því frosinn til dauðs, eftir nokkurra dægra útilegu, og flutt til bæjar og sýnt og útvegað alla mögulega hjálp og aðhjúkrun, hafi dáið eftir 14 daga harmkvæli. Stúlka hafði og orðið úti frá Herjólfsstöðum í ytri Laxárdal og var hún ekki fundin þá seinast fréttist.
Norðri segir af tíð, hafís og óhöppum í maípistlum:
[22.] Í norðanveðrinu, sem var á kóngsbænadaginn 4. [maí] hafði um kvöldið orðið skiptapi á Vatnsnesi í Húnavatnssýslu með 3 mönnum, er haldið er að farist hafi þar í lendingu, því 2 mönnum hafði skolað þar upp. Nú tjáist lítill sem enginn hafís hér fyrir landi svo langt sem eygt verður.
[26.] Veðráttufarið hefur oftar, það liðið er af mánuði þessum, verið stillt, en heldur kalt, nema dag og dag, og enn er gróðurlítið; enda hefur hafísinn alltaf verið ýmist grynnra eða dýpra fyrir, og með Grímseyingum, sem komu í land 23.[maí] fréttist, að ekki væri nema vika liðin, síðan hann hvarf þaðan úr augsýn. Grafarósskipið hafði lent í svo miklum hafís undir Austurlandinu og við Langanes, að skipverjum þótti tvísýnt, hvort þeir mundu geta komist úr honum eða í gegnum hann, þó það tækist. Leguskipin [hákarlalegu-] hafa líka hitt meiri og minni ís, og stundum orðið að leysa frá honum. Hákarlsaflinn er mikill hjá sumum, og hefur Baldvin á Siglunesi t.a.m. fengið yfir 100 kúta í 3 róðrum. Það er líka sagt, að jagtir á Ísafirði hafi fengið mikinn afla í fyrstu ferð sinni. Eins er talað um, að nokkrir hafi aflað vel á Gjögri. Selaflinn varð hvervetna lítill hér norður undan. Aflalítið í Grímsey, og lítið af fugli þar enn sest í björg, og bágt um bjargræði. Einnig er mjög látið af bjargarskorti í einstökum héruðum, einkum hér og hvar £ Þingeyjarþingi, hvar sagt er, að nokkrir hafi soðið hákarl sér til matar, og haft lýsi til viðbits. Í vetur var og sagt mikið bjargskart á Barðaströnd og víðar vestra og syðra, þar fiskiaflinn hefur brugðist, og fátæklingar, vegna dýrtíðarinnar, ekki klofið að kaupa matvöru í kaupstaðnum eftir þörfum Mælt er, að peningur sé víða sármagur, og farinn að hrökkva af.
Þjóðólfur greinir frá harðindum í maípistlum:
[12.] Þetta harða íhlaup, sem gengið hefir næstliðna viku, hlýtur að hafa haft hinar þyngstu afleiðingar á fénað sveitabænda, þar sem gjafatíminn hefir verið staklega langur, og fénaður viða sármagur.
[26.] Bréf og fréttir hafa nú borist hingað úr flestum héruðum landsins, og er að frétta alstaðar að, að þessi vetur hafi reynst einhver hinn harðasti og langsamlegasti, sem lengi hefir hér komið; eðlilegur vorbati heitir og fyrst að vera kominn þessa viku, og harðviðrið og gaddarnir, sem gengu fyrstu 10 dagana framan af þessum maí, munu lengi minnisstæðir; frískleikamann kól hér í Mosfellssveit 5. [maí] á báðum fótum. Afleiðingarnar af þessum langsömu harðindum eru þó sagðar hvorki nærri eins illar af Norður- og Vesturlandi yfir höfuð að tala, eins og við mátti búast, og talið víst, að lítið muni verða um almennan fjárfelli; úr Snæfellsnessýslu er hordauðinn sagður meiri, og Mýra- og Hnappadalssýslu að vestanverðu, einkum úr Hraunhrepp og Kolbeinsstaðahrepp, að vér ekki nefnum Borgarfjarðarsýslu sunnanverða: Akranes, Skilmannahrepp, Leirársveit, Melasveit og að nokkru leyti bæjarsveit og Andakíl; um þessar sveitir hefir og verið hrossafellir meiri og minni, og er sagt að skipt jafnvel tugum á sumum bæjum; enda getur ekki öðruvísi farið, né nein guðsblessan fylgt því ráðlagi, að eiga hvorki hús né hey handa mörgum skepnum sinum.
Brandsstaðaannáll [sumar]:
Eftir það [maílok] vorgæði og varð þá en snjóleysing að flæði á hentugasta tíma í dölum móti austri og öllu flæðiengi, sem síðar gaf mikið gras og öllum fjallslægjum og flóum eða hálsum. Sláttur byrjaði 16. júlí. Þó spruttu tún mánuðinn út og við tvíslægju hefði orðið mesta töðufall. Veður gafst vel, rekjur og þurrviðri til. 17. ágúst, að stórrigning gjörði slægjur fljótandi, aftur 24. frostnætur og þerrir, svo hey náðist, þó víða hrakið. Aftur 30. [ágúst] vestan- og norðan-ofsarigning. Eftir það stormasamt til skemmda og erfiður heyskapur. Þó varð að mestu hirt fyrir göngur; í þeim gaf stirt. Krapahryðja (s189) kom hastarleg á fimmtudag í réttum, en varði ei yfir 5 tíma. Aftur 29. sept. mikið regn og vatnsagi í mesta lagi.
Á Hvanneyri í Siglufirði alsnjóaði aðfaranótt 8.júní, aðfaranótt 15.júní alsnjóaði og frysti, 21.ágúst alsnjóaði niður í byggð og sömuleiðis 11.september.
Þjóðólfur segir stuttlega frá þann 6.júlí:
Tún eru að vísu víða kalin hér sunnanlands, einkum nýjar sléttur, en sakir hinna langvinnu votviðra sem nú hafa gengið nærfellt 1/2 mánuð, þá lítur hér út fyrir grasvöxt í góðu meðallagi á túnum og valllendi þar sem jörð er óskemmd; en nýtingin er fyrir öllu og nálega öll velferð sveitabóndans undir henni komin, og svo aðsækni manna og fylgi við heyskapinn, einkum hinn fyrra part sláttarins; í harðærum, eins og nú lítur helst út fyrir, reynast sumrin einatt endaslepp.
Norðri greinir frá þrumuveðrum í frétt þann 14.júlí:
[Þann 1.júlí] að áliðnum degi kom hér dæmafá rigning, sem þó hélst aðeins á aðra klukkustund; heyrðust þá jafnframt yfir 30 reiðarþrumur, sem hér er sjaldgæft. Og aftur 9.[júlí] kom önnur regnsteypan, sem hélst nokkuð lengur en hin; heyrðust þá og 34 reiðarþrumur, eða fleiri, og með mörgum þeirra brá eldingum fyrir.
Norðri greinir frá heyskap í ódagsettu septemberblaði:
Grasvöxtur víða hvar í meðallagi og sumstaðar í túnum í besta lagi. Óþerrar hafa verið nokkrir, sem tálmað hafa heyskapnum að sumu. Heyskaðar hafa og hér og hvar orðið af stórviðrum sunnan útsunnan. ... Frönsk eða flandrenísk fiskiskúta, 14 lesta stór, hafði nú seint á engjaslættinum strandað í svonefndum Bakkakrók á Langanesströndum, var hún fermd fiski og búin til heimferðar, en norðanveður brast á, svo önnur festin, sem áveðurs var, hrökk í sundur, bar hana þá þegar á land og braut. Skútan var síðan með rá, reiða og farmi seld við opinbert uppboð.
Þjóðólfur gerir sumarið upp í pistli þann 29.september:
Sumarið, sem þegar er liðið, hefir verið í mörgu tilliti erfitt og minnisstætt, einkum fyrir sunnlendinga; grasbrestur hefir verið almennur á túnum, svo að hér sunnanlands hefir taða almennt verið rúmum þriðjungi minni en vanalega; vallendi hefir verið þeim mun verr sprottið; og þó að mýrar hafi verið með meðalgrasi eður vel svo það, þá hefir vatnsfylling víðast meinað slátt á þeim, enda hafa hinar stöðugu rigningar og óveður, sem gengið hafa síðan fyrir höfuðdag, verið til hins mesta hnekkis fyrir allan engjaheyskap. Sóttin, sem gekk hér almennt bæði sunnanlands og norðan um aðalheyskapartímann, bagaði menn og mjög frá heyskap. Norðanlands hefir grasvöxtur verið betri, og veðráttan miklu hagstæðari yfir höfuð að tala, einkum fyrir norðan Skagafjörð, en þar og i Húnavatnssýslu hefir og verið rosasamt nokkuð, þó þerriflæsudagar hafi verið innan um. Vestanlands hefir þar i móti verið hið besta árferði með allt slag víst fram til ágústloka.
Jón Austmann segir þann 15.september: Suðaustan stórstormur, gekk í útsuður e.m. [síðdegir] með einstakasta óveður.
Brandsstaðaannáll [haust og vetur til áramóta]:
Í október frostamikið og snjólítið. 16. okt. skipti um með fönn og 21. (sunnudag í aukaviku) mikil hríð og fönn til útsveita og á láglendi, en minni til dalaanna og varð haustskorpa. Með nóvember linaði. Þíður hægar unnu seint á snjóinn, en gott veður á milli. 15.nóv. byrjaði stöðug þíða, nótt og dag, með þurrviðri um 18 daga. Aftur vikuþíða fyrir jólin og snjólaust, frost og staðviðri á milli. Allri furðu gegndi, að með sunnanátt og þíðu rak hafís inn í sanda hér á Flóanum um miðja jólaföstu. Réðu honum straumar á þeim tíma, sem aldrei ber ís að landi. Hann lagði líka út um þorralokin, þá síst er von hann fari. Engin höpp fylgdu honum, en allt að þeim tíma var afli um veturinn.
Norðri segir í ódagsettu októberblaði:
Veðuráttufarið var hér nyrðra og eystra, hvað til hefur spurst, framan af mánuði þessum mikið stormasamt, helst sunnan útsunnan, en þaðan af til þessa norðanátt með snjókomu og hríðum svo ókleyf fönn er nú nær því um allar sveitir, og eins vestra, og ekki óvíða allur peningur, nema hross, kominn í hús og á hey. Fiskiafli hefur verið nokkur, en vegna stakra ógæfta, einkum á útkjálkum, sjaldróið. Hlutir eru því hæstir 14 hndr. Síld hefur heldur ekki aflast til beitu. Hákarlsafli svo að kalla enginn síðan í sumar. Að sunnan hefur frést, að í Skaftafells- og Rangárvallasýslum hafi í sumar grasvöxtur verið í betra lagi, einkum á deiglendri jörðu, en miklu miður á túnum og harðvelli, sér í lagi í Árnes-, Gullbringu- og Mýrasýslum, og nýting yfir höfuð mikið bág, víða hitnað til skemmda í heyjum og á stöku stað brunnið. Á Vesturlandi hefur grasvöxtur og nýting verið góð. Fiskilítið hafði verið austan með öllum söndum og eins um Suður- og Innnes, svo til vandræða horfði með bjargræði margra, af því líka að kornvörulaust var þar á flestum verslunarstöðum. Það hafði líka kaupskip eitt, nefnt Waldimar", er fara átti til Eyrarbakka, nær því 70 lesta stórt, fermt 6800 tunnum af mat og öðru, strandað þar á innsiglingu 14.[september] á skeri utan við höfnina og brotnað í spón, og mikið af farminum farist eða ónýst. Það sem náðist, var selt við uppboð. ... Í september hafði hvalbrot (miðpart) rekið í Mýrdal.
[Þann 20.október] voru meðal annarra staddir hér í bænum 4 menn handan úr Kaupangssveit, fyrrum hreppstjóri Jón Jónsson bóndi á Lórustöðum ... , Jón sonur hans um tvítugt, Stefán Kristjánsson frá Skálpagerði á 19. ári og Sæmundur Sæmundsson frá Gröf á 20. ári, höfðu 3 af þeim verið í fiskiróðri um daginn og ætluðu að flytja heim afla sinn hérum 100 af fiski á lítilli byttu. Hálfrökkvað var orðið og nokkur sunnangola; en þá þeir komu austur undir miðjan pollinn, skammt utan við leiruna, fór að hvessa og gefa á byttuna, ætluðu þeir þá að ausa, en þá var ekkert austurtrogið, tók þá Jón yngri vextan hatt af höfði sér og jós með honum. Jón bóndinn og Stefán sátu undir árum en Sæmundur aftur á. Ágjöfin varð þá svo mikil, að Jón hrökk ekki við að ausa, var þá farið að ryðja út fiskinum, en þá var byttan orðin svo full af sjó, að hún sökk þegar, komst Jón yngri, sem nokkuð er syndur, þrisvar eða oftar á kjöl, en hinir aldrei, og hafði þó Stefán verið miklu sundfærari en Jón, mikill fyrir sér og efnilegur. Loks fékk Jón byttunni komið á kjöl og bjargað sér upp í hana, kallaði hann þá sér hjálp, því svo var orðið myrkt, að ekkert sást til atburðar þessa úr landi; varð honum þá þegar manhjálp af kaupskipi, er lá hér á höfninni, og öðrum hér úr bænum. Sannast hér sem oftar: Margur drukknar nærri landi -. Menn þessir eru enn ekki fundnir. Nýskeð hefur frést hingað, að 4 skip úr Landeyjum hafi farið kaupstaðarferð til Vestmannaeyja og þaðan aftur 29.[september] í land og fórust þar af tvö í lendingunni með 17 manna. Einum kvenmanni varð bjargað. [Frá þessu er líka sagt í Þjóðólfi 20.október]. Fyrsta skipið hafði hleypt upp og tók vel af, en hið seinasta sneri aftur fram til eyjanna, og er haldið að það hafi komist af. Í haust hafði skiptapi orðið með 5 mönnum, á eða frá Ólafsvík undir Jökli.
Norðri segir í ódagsettu nóvemberblaði:
Frá því á Allraheilagramessu hefir veðuráttan oftast verið sunnan og hagstæð með hlákum einkum síðan 16. [nóvember], svo kalla má að öríst sé orðið um flestar sveitir. Áður var orðið mjög hagskart vegna snjóþyngsla og spilliblota. ... Skiptapi hafði orðið í haust á Berufjarðarströnd með 2 mönnum sem voru í fiskiróðri, ... 9.[nóvember] hafði maður látist í snjóflóði, er var að ganga til fjár og hét Eiríkur Einarsson, merkisbóndi frá Þorgrímsstöðum í Breiðdal. [Í þessu sama blaði eru einnig minningarorð um Eggert Jónsson lækni og veðurathugunarmann á Akureyri, en hann lést eftir slæma byltu á hesti].
Þjóðólfur segir af veðurblíðu í pistli þann 8.desember:
Þó að næstliðið sumar og haust væri eitthvert hið erfiðasta með flest slag, þá bætir mikið úr því veðurblíða sú sem gengið hefir nú um rúmar 3 vikur og hefir náð svo langt sem frést hefir, bæði fyrir norðan og austan; er þetta mikil líkn fyrir sveitabændur, einkum hér sunnanlands, því hjá mörgum vilja nú reynast lítil hey, og þar til drepin og skemmd hjá mörgum, eftir hinar langvinnu sumar- og haustrigningar. Bæði skurðartíð og heimtur reyndust víðast með lakasta móti, einkum hér sunnanlands. Fiskiafli hefir í haust verið lítill og tregur, það sem af er vertíð, um öll suður og innnes, nema á Akranesi; þar eru komnir að sögn um 800 hlutir af haustfiski.
Norðri segir í ódagsettu desemberblaði:
[Þann 4. desember] kom hingað í Akureyri norðanpóstur Vigfús Gíslason úr suðurgöngu sinni, hafði hann verið 48 daga í ferð þessari, veikst og legið rúmfastur á leiðinni suður, verið 10 daga um kyrrt í Reykjavík og farið þaðan 16. [nóvember] Veðuráttufarið hafði verið líkt syðra og hér, nema ákafar rigningar, hvassveður og ógæftir. ... Matvælaskortur er sagður á öllum verslunarstöðum syðra, og það líka í sjálfri höfuðborg landsins. Í lausum fréttum hafði borist til Reykjavíkur að eldsumbrot eða eldsuppkoma væri í Kötlu, sem er einn hluti Eyjafjallajökuls, og nú hefur haldið kyrru fyrir í full 100 ár. Á Vesturlandi hafði vel heyjast í sumar, og nýting verið góð. Fjárheimtur af fjöllum ekki góðar. Skurðarfé þar eins og allstaðar annarsstaðar um landið, hvaðan vér höfum frétt, reynst mjög rýrt, einkum á mör.
Hér norðanlands hefur verið allan þenna mánuð að kalla hagstæðasta veðurátt og rauð jörð um flestar sveitir svo sauðfé og hross hefur verið létt á fóðrum, þar sem ekki hefur gengið sjálfala.
Þann 5.desember kom hafís í Siglufjörð.
Þjóðólfur segir þann 29.janúar 1856 frá tíð síðustu mánuði ársins 1855:
Árferðið hefir hina síðustu 3 mánuði ársins 1855 verið allstaðar um land hið æskilegasta og hagstæðasta sem menn til muna á þeim tímum árs, yfir höfuð að tala frost- og snjólítil spakveður með auðri jörð; þessi kafli ársins varð því öllum sveitabændum hinn besti sumarauki, einkum hér á Suðurlandi, þar sem kalsa- og gróðurleysisvor tók við þegar vetrarhörkunum linnti, en sífelld votviðra- og rigningatíð oftar frá Jónsmessu og það fram í öndverðan október; þessi ótíð hér syðra, fyrir norðan og austan og einkum fyrir vestan viðraði svo miklu betur leiddi með sér grasbrest á túnum og harðvelli, víða mjög illa nýtingu, töluverðar heyskemmdir í görðum, og einstaklega illa nýtingu og þar af leiðandi almennan skort á eldivið.
Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um veður og tíðarfar ársins 1855. Þakka Sigurði Þór Guðjónssyni fyrir innslátt texta úr Brandsstaðaannál. Fáeinar tölur eru í viðhenginu.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 01:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.11.2020 | 02:11
Fyrstu tíu dagar nóvembermánaðar
Meðalhiti fyrstu tíu daga nóvembermánaðar er 4,7 stig í Reykjavík, +1,7 stigum ofan meðallags sömu daga áranna 1991 til 2020, en +1,5 ofan meðallags síðustu tíu ára. Hitinn raðast í 6. til 7. hlýjasta sæti (af 20) á öldinni. Hlýjastir voru þessir dagar árið 2004, meðalhiti þá 6,1 stig, en kaldastir voru þeir 2010, meðalhiti 0,1 stig. Á langa listanum er hiti nú í 23. til 24. hlýjasta sæti (af 145). Hlýjast var 1945, meðalhiti 8,2 stig, en kaldast 1899, meðalhiti -4,0 stig.
Á Akureyri er meðalhiti dagana tíu nú 4,9 stig, 3,4 stigum ofan meðallags 1991 til 2020, en 3,8 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára.
Að tiltölu hefur verið hlýjast á Austfjörðum, þar er hiti þessa daga í þriðjahlýjasta sæti á öldinni, en kaldast að tiltölu er við Faxaflóa og á Suðaustur- og Suðurlandi, hiti í 7.hlýjasta sæti. Hiti er ofan meðallags síðustu tíu ára á öllum veðurstöðvum, mest +3,9 stig á Torfum og við Upptyppinga, en minnst er vikið á Sámsstöðum, +0,6 stig.
Úrkoma hefur mælst 34,2 mm í Reykjavík, og er það í rúmu meðallagi. Á Akureyri hefur úrkoma mælst 7,8 mm og er það rúmur þriðjungur meðalúrkomu sömu daga.
Sólskinsstundir hafa mælst 11,2 í Reykjavík og er það um 5 stundum neðan meðallags.
10.11.2020 | 21:31
Kaldir dagar - (froða)
Eins og þrautseigir lesendur hungurdiska hafa óhjákvæmilega orðið varir við dundar ritstjóri þeirra við að taka saman heimildir um veðurfar á árunum 1749 til 1924 - ár fyrir ár. Miðar þessu verki nokkuð (mætti auðvitað ganga hraðar). Þessa dagana er árið 1855 undir - og birtist samantektin um það vonandi fljótlega. Meðal merkustu viðburða þess árs er gríðarlegt kuldakast sem gerði síðari hluta febrúarmánaðar (og fyrstu dagana í mars). Fraus þá flest sem frosið gat. - Meir um það í samantektinni.
Hitamælingar hófust í Stykkishólmi 10 árum áður og hafa verið gerðar linnulítið síðan - en hins vegar var ekki mælt þetta ár í Reykjavík. Jón Þorsteinsson landlæknir og veðurathugunarmaður hafði árið áður orðið fyrir alvarlegu slysi þegar hann féll um 3 metra niður um kjallaraop í húsi þar sem hann vitjaði. Jón lést síðan 1855, náði sér aldrei eftir slysið. Athuganir á Akureyri höfðu einnig lagst af á árinu 1854. Eggert Jónsson læknir og veðurathugunarmaður þar lenti líka í slæmu slysi - reyndar ekki fyrr en 1855. Hestur hans hrasaði og Eggert fékk byltu - lítið virtist hafa gerst - en um kvöldið veiktist hann illa - trúlega vegna innvortis blæðinga - og lést. Fyrir utan hinn persónulega harm varð íslenskri veðurathugunarsögu mikill skaði búinn við lát þessara manna.
En sú spurning vaknaði þegar horft var á þetta kuldakast og köldustu daga þess hversu margir dagar síðan hafa verið jafnkaldir eða kaldari. Við getum reyndar varla svarað því nákvæmlega - en við gerum samt tilraun. Sláum á meðalhita sólarhringsins í Stykkishólmi (frekar en lágmarkshitann) og reiknum vik hans frá meðalhita sama almanaksdags á árunum 1931 til 2010 (80 ár) - og breytum í staðalvik (svona til að gefa öðrum árstímum möguleika).
Hinn 22.febrúar var kaldastur daganna í kastinu 1855 (að þessu máli), -5,6 staðalvik undir meðallagi. Lægsti lámarkshitinn mældist hins vegar að morgni þess 25., -24,5°C - þá var hitinn í loftvogarherberginu (innandyra) í Norska húsinu -14°C. Lágmarkshitinn var lægri en -20 stig 4 daga í röð.
Á öllu tímabilinu síðan hafa komið aðeins 9 kaldari dagar í Hólminum, tveir í janúar 1918 (frostaveturinn mikla) og sjö frostaveturinn 1880 til 1881. Kaldast varð 21.janúar 1918. Önnur ár sem eiga fulltrúa á lista 20 köldustu daga eru 1859 (19.apríl), 1888 (27.mars) og 1892 (8.mars).
Kuldinn varð ekki alveg jafn óvenjulegur 1855 í Hvammi í Dölum eins og í Stykkishólmi (en engar lágmarksmælingar voru þó gerðar þar). Aftur á móti var staðan mjög óvenjuleg í Vestmannaeyjum, þar fór frostið á mæli séra Jóns Austmann í -20 stig - hann segir að mælikvarðinn hafi ekki náð neðar en kvaðst viss um að frostið hafi orðið meira.
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 9
- Sl. sólarhring: 271
- Sl. viku: 2388
- Frá upphafi: 2434830
Annað
- Innlit í dag: 7
- Innlit sl. viku: 2117
- Gestir í dag: 7
- IP-tölur í dag: 7
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010