Veturinn nálgast

Ýmislegt bendir nú til þess að veturinn fari að láta hringla í höftunum (hvað sem það orðalag nú þýðir). Við erum svosem orðin vön allskonar ferða- og athafnahöftum af öðrum ástæðum þannig að varla skiptir máli þó eitthvað bætist við (svo um muni). En möguleiki er líka á því að hann (hver er þessi hann? spurði drengurinn í þjóðsögunni) haldi áfram að fara vel með - og ekkert verði úr neinu - nema skrölthljóðum í fjarska. 

Á miðvikudaginn nálgast lægð úr vestri - að sögn með sunnanhvassviðri og rigningu í byggð en þá foráttuveðri á fjöllum. Síðan er gert ráð fyrir snörpum útsynningi - kannski þeim fyrsta með alvöruvetrarbragði á þessu hausti - og þar með hefur veturinn haldið innreið sína. 

w-blogg231120a

Kortið sýnir stöðuna í 500 hPa-fletinum á fimmtudag 25.nóvember(spá evrópureiknimiðstöðvarinnar). Þá er allmikill háloftastrengur yfir landinu - við ráðum styrk og stefnu af legu jafnhæðarlína. Þykkt er sýnd í lit. Hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Henni er spáð rétt innan við 5200 metra yfir landinu (reyndar er þar blettur með minni þykkt en 5160 metrum - en hann stafar væntanlega af þvinguðu uppstreymi þegar loftið þarf yfir landið). Þessi þykkt bendir til þess að hiti verði í kringum frostmark og því verður éljagangur fremur en skúraveður. Hvasst í éljum og ófært veður víða á fjöllum (rætist spáin). 

Hér á eftir er erfiðari umfjöllun - einkum ætluð nördunum - aðrir geta lokið lestrinum hér og nú. 

Við skulum líka taka eftir smáatriðum í þessari stöðu. Örin sýnir ás köldu framrásarinnar sem kemur til landsins frá Kanada - fer sunnan við Grænland. Báðu megin er hlýrra loft. Þetta þýðir að þykktarsviðið er flatt við landið (þykktardrag). Það þýðir að háloftavindur á greiðari leið niður í átt til jarðar heldur en algengast er (sérstaklega vestan við þykktardragið). Hes háloftarastarinnar teygir sig neðar en oftast er. 

Svo gengur vindur niður - en kalda loftið vestan Grænlands er komið á hreyfingu og við vitum lítið um það enn hvað það síðan gerir. Margar eru spárnar auðvitað - og fullstór hluti þeirra er í dag með einhver áframhaldandi leiðindi. Sjálfsagt er rétt að búa sig undir slíkt - en vona hið besta. - Það hefur farið vel með hingað til og lítið orðið úr veðurógnunum í haust. Kannski er þetta bara einhver tímabundinn sperringur?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30 31      

Nýjustu myndir

  • w-blogg220724b
  • w-blogg220724a
  • w-blogg210724
  • Slide2
  • Slide1

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.7.): 17
  • Sl. sólarhring: 427
  • Sl. viku: 2733
  • Frá upphafi: 2378309

Annað

  • Innlit í dag: 14
  • Innlit sl. viku: 2421
  • Gestir í dag: 14
  • IP-tölur í dag: 14

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband