Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2020

Enn af október

Eins og um var getið hér á dögunum var nýliðinn október óvenjulegur að því leyti að austlæg átt var ríkjandi í háloftunum yfir landinu - að meðaltali. Slíkt gerist ekki oft - aðeins vitað um þrjú önnur tilvik síðustu 70 árin rúm (og ágiskanir benda til þess að ekkert tilvik sé að finna næstu 50 árin þar á undan heldur. Aðeins einu sinni hefur háloftaaustanáttin verið áberandi meiri í október heldur en nú - það var 1976. Í október 2002 var hún svipuð og nú, og árið 1961 var hún rétt merkjanleg (hvorki úr vestri eða austri). Sterkust var háloftavestanáttin í október í okkar minni árið 1972 - og kannski jafnsterk 1921. Þetta segir víst harla lítið um komandi vetur. - Veturnir 1961-62, 1976-77 og 2002-03 voru að vísu allir hver á sinn hátt eftirminnilegir í huga ritstjóra hungurdiska fyrir miklar fyrirstöður í háloftunum - en það kann að vera fullkomin tilviljun.

w-blogg041120a

Kortið sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins (heildregnar línur), en hæðarvik eru sýnd í lit. Neikvæð vik blá, en þau jákvæðu eru rauðbrún. Jafnvikalínur eru þéttar yfir landinu - og gefur lega þeirra mikinn austanáttarauka til kynna. - En það má taka eftir því að ekki er austanáttin sterk (við metum hana af legu jafnhæðarlínanna) - hún er það nær aldrei. Lægðir gengu til austurs fyrir sunnan land og til Bretlands, en hæð þar þaulsetin fyrir norðan.

Við jörð var austanáttin líka í sterkara lagi - en hún er reyndar ríkjandi - ekki þó alveg jafn óvenjuleg og ofar í lofthjúpnum. 

w-blogg041120b

Hér má sjá meðalsjávarmálsþrýstinginn (heildregnar línur) og hitavik í 850 hPa-fletinum (í um 1500 metra hæð). Gríðarlega hlýtt var við Norðaustur-Grænland, en kalt yfir Frakklandi. Við getum auðveldlega reiknað þykktarbratta líka - hann segir okkur til um það hversu miklu munar á hita fyrir norðan og sunnan land. [Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs]. Hann var óvenjulítill nú - hefur síðustu 70 árin aðeins fjórum sinnum verið lítillega minni í október heldur en nú (1976, 1959, 2002 og 2016) og 1961 var hann jafnlítill og nú. Veðurnörd, sum hver, muna þessa mánuði. Mestur var hann 1994, þrisvar sinnum meiri heldur en nú. 

w-blogg041120c

Hér má sjá stöðuna í október 1976, eina mánuðinn sem alveg slær út núverandi mánuð í austanáttakeppni októbermánaða. Afskaplega eftirminnilegt haust og vetur eftir mikið rigningasumar - og reyndar margra ára nær stöðuga umhleypinga (sem smáhlé varð þó vor og sumar 1974). Man ritstjóri hungurdiska varla jafngagnger og langvinn umskipti í veðurlagi á einum degi, höfuðdaginn sjálfan 29.ágúst. 

Þökkum BP fyrir öll kortin.


Af árinu 1854

Samtímaheimildir greinir nokkuð á um það hversu óhagstæð tíðin var árið 1854 - en eru sammála um óvenjulega umhleypinga vetur, vor og haust - og þá útsynningstíð. Það þýðir að væntanlega hefur verið skárra veðurlag austanlands heldur en t.d. á Vestfjörðum. Matið virðist líka fara eftir því hvernig snjóalög voru. Óvenjusnjóasamt var víða haustið 1853, þar sem þann snjó tók ekki upp var hart um haga allan veturinn. Meðalhiti í Stykkishólmi var 3,0 stig og er það -0,6 stigum neðan meðallags næstu tíu ára á undan. Mælingar lögðust af í Reykjavík í lok febrúar og á Akureyri í lok september. Fyrir utan Stykkishólm var þó athugað áfram í Hvammi í Dölum og á Hvanneyri í Siglufirði - og mælingar eru til frá fleiri stöðum en hafa ekki verið yfirfarnar. Meðalhiti í Reykjavík er áætlaður 3,8 stig og 3,2 stig á Akureyri. 

Einn mánuður ársins, desember var mjög kaldur og einnig var kalt í maí og október. Hlýtt var í mars og júlí. 

ar_1854t

Einn dagur var óvenjuhlýr í Stykkishólmi (16.ágúst), en fimm kaldir, 30.nóvember kaldastur. 

Úrkomumælingar lögðust af í Reykjavík í febrúarlok og engar úrkomumælingar voru gerðar á landinu þar til að byrjað var að mæla hana í Stykkishólmi í október 1856. Úrkoma var mikil í janúar og febrúar í Reykjavík. 

ar_1854p

Þrýstingur var hár í nóvember og fremur hár í júlí. En fremur lágur í janúar, mars, maí, ágúst, september, október og desember. Lægsti þrýstingur ársins mældist í Stykkishólmi þann 14.mars, 942,1 hPa og hæstur á Akureyri þann 25.mars, 1041,1 hPa. Þrýstiórói var óvenjumikill í mars, október og desember - og bendir til illviðra. 

Hér að neðan má finna helstu heimildir um veðurfar ársins. Nokkuð af veðurskýrslum og dagbókum er enn óyfirfarið. Að vanda er stafsetning að mestu færð til nútímavenju. Fleiri slysa er getið í heimildum heldur en nefnd eru hér að neðan. Óljóst er hver þeirra tengdust veðri og dagsetningar vantar. Fregnir voru greinilega mjög óljósar af mörgum slysum og óhöppum og ber heimildum ekki alltaf saman. Seint í maí féll Jón Þorsteinsson landlæknir og veðurathugunarmaður í Reykjavík niður um kjallaraop, 5 álnir (um 3 m) og lemstraðist. Var sagt að hann hefði ekki orðið samur. Hann lést 1855.   

Gestur vestfirðingur lýsir árferði 1854 í blaðinu 1855:

Þegar á það er litið, hvað títt er að kalla hörð ár á landi hér, þá verður ár þetta, eftir því sem það reyndist í Vestfirðingafjórðungi, að teljast harðæri í fullkomnu meðallagi. Eins og það byrjaði með hretviðrum og hagleysum, sem héldust í janúar, febrúar og mars, eins skildi það við með líku veðráttufari um hina tvo síðustu mánuði þess: nóvember og desember. Vorið var allt fram á messudaga bæði kalt, skakviðra- og úrfellasamt. Þess eru og ekki dæmi nú í 40 ár, að jafnlengi hafi svo úrsvalt verið og á þessu ári, enda má ei á því telja fleiri daga heiðbjarta frá morgni til kvölds, en svo sem svari einni viku. Fyrst um Jónsmessu komu hlýindi náttúrleg; spratt gras þá furðufljótt, fyrir því að fyrir löngu var öríst og jörð öll klakalaus; því þó veturinn hefði verið harður sökum fannfergju og áfreða, var hann þó með minnstu frostavetrum. Grasvöxtur varð því í betra lagi, einkum á öllu harðvelli, en nýting að sínu leyti langtum lakari, því allvíða hröktust hey og skemmdust, einkum þá á leið á sumarið, og talsvert af heyi varð undir fönnum sumstaðar upp til sveita og norðantil í fjórðungnum. Sjógæftir voru jafnan mjög bágar og urðu fyrir þá skuld aflabrögð í flestum veiðistöðum miklum mun lakari en undanfarin ár. Það má fáheyrt þykja, að í Dritvík gekk á þessu vori ekki nema eitt skip, og náði það 2 hundr. hlut. Afli undir Jökli varð fremur rýr frá byrjun jólaföstu til miðs einmánaðar, og ollu því ógæftir; ... Svo er að sjá, sem fiskigengdir að landinu hafi venju fremur lagst norður með landi, því aflabrögð reyndust að því skapi betri, sem norðar dró. Haustafli í Strandasýslu, einkum á Steingrímsfirði, varð enn góður, og hélst við fram að jólum, og ætlum vér, að hlutarhæð þar hafi alltað því jafnast við vetrarhlutina undir Jökli. Hákarlsafli á Gjögri mun hafa orðið í meðallagi; róa þeir þar nú til hákarlaveiða á tíræðíngum, taka svo lifrina uppá skip sín, en sleppa hákarlsskrokkunum, og þykir sú reyndin á verða, að veiðiaðferð þessi spilli þar veiðinni, eins og hvervetna annarstaðar. Víðast annarstaðar varð hákarlsaflinn í rýrara lagi, eins var og hrognkelsaveiði mjög svo lítil. Vöðuselaafli í nótum tókst nú miður en áður. Önnur selveiði mun víðast hafa náð meðallagi, en útselakópaveiði á Reykhólum var furðu mikil þetta haust. Þetta sumar rak hval upp í Rekavík fyrir norðan Ísafjörð, og annan í Trékyllisvík, og hinn þriðji var róinn dauður á land í Steingrímsfirði.

Í ofanverðum janúarmánuði týndist maður ofan um ís í Tunguósi í Skutulsfirði; var það Jóhannes bóndi úr Vatnsdal í Súgandafirði; en vinnumaður hans, sem með honum var, komst af. Seinast í mars löskuðust tvö hin stærstu hákarlaskip í Strandasýslu; annað þeirra kom með vörufarm frá Skagaströnd, og átti að flytja hann í Kúvíkur; þá braut og hið þriðja hákarlaskip í Patreksfirði; en ekki varð manntjón af. [Þann 30. apríl] reru 7 skip úr Bolungarvík til hákarlaveiða; en sem á daginn leið skall á sterkviðri mikið af norðri með frosthríð allmikilli; komust þó 4 af skipum þessum að landi, en hin 3 fórust og týndust þar 24 menn. Eitt þeirra skipa, er týndust, var frá Seljalandi; formaðurinn hét Benedikt Gíslason úr Jökulfjörðum, ... annað skipið var frá Skutulsfjarðareyri, og réði því Guðmundur Jónsson frá Arnardal; hið þriðja var frá Vatnsfirði, og stýrði því Engilbert, son Ólafs og Bergljótar, Hjalta dóttur prests Thorbergs; hann var frá Vatnsfirði. Þá týndust og í sama veðri 3 þiljuskip úr Ísafjarðarsýslu, og létust þar 18 manns. Ein af fiskiskútum þessum var nýkeypt frá Suðurlandi og var nefnd „Katrín"; formaðurinn hét Jóhann Árnason frá Valþjófsdal. Á því skipi lést og Jón hreppstjóri Indriðason frá Kaldá í Önundarfirði; átti hann hlut í skipi þessu. Önnur skútan var nefnd „Lovisa", hana átti Ásgeir borgari Ásgeirsson á Ísafirði, en formaðurinn hét Guðmundur Bjarnason af Ísafirði. Þriðja skútan var þilbátur einn úr Dýrafirði, er „Hákallinn" hét; formaðurinn hét Gísli Jónsson smiðs Gíslasonar á Lækjarósi, og áttu þeir feðgar saman skútu þessa; einn af hásetum á skipi þessu hét Friðrik, hann var frá Haukadal, Árnason, Geirssonar biskups Vídalíns. Í júní rak á land í Steingrímsfirði frakkneskt fiskiskip; bar það að landi við sléttan sand hjá Skeljavík, og var lítið skemmt. Skipverjar komust af allir; en skipið og það er á því var af útbúnaði öllum og veiðarfærum var selt á uppboðsþingi; þar var og seldur af skipi þessu fiskur saltaður í tunnum, einnig salt það er skipverjar höfðu, og var það í tunnum, hver tunna með saltinu í fekkst fyrir 36 til 40 sk. — Skip þetta var frá Dunkirkju.

Í október hlekktist á 2 skipum við Ísafjörð, og drukknaði þar þó eigi nema einn maður, er Þorbergur Hjaltason hét. Í þessum mánuði drukknaði Guðundur Jónsson bóndi í Mávahlíð við 5. mann í lendingu; hann var talinn merkisbóndi, góður búhöldur og ötull sjófaramaður. Þá drukknuðu og í þessum sama mánuði kvenmenn tveir af báti á Mýrum, sem kom úr Reykjavík, og lenti í logni á Mýrum um nótt. [Þann 21. desember] var hér ofsaveður mikið af vestri, hafrót og sjávargangur; þá brotnuðu 14 skip og bátar í kringum Breiðafjörð; þá gekk líka sjór svo langt á land upp, að verið mun hafa allt að því 6 fetum hærra að þverhníptu máli, en með alstórstraumsflóð og spillti það hér víða grasveg á eyjum úti og á sjávarjörðum. Fiskiskútu eina tók út í Dýrafirði og brotnaði og sökk síðan; átti hana Guðmundur Bjarnarson í Lokinhömrum og fleiri bændur.

Ingólfur gerir upp árið 1854 þann 6.janúar 1855:

Þegar vér rennum augum yfir þetta ár, til að skoða huga vorn um hversu það hefur gefist oss, þá verður reyndin á því sú, að það hafi verið eitt af vorum meðalárum, eða jafnvel í lakara meðallagi. Árið hefur haft mikla annmarka í för með sér fremur mörgum öðrum árum, en það hefur líka gjörst á því það, sem gefur oss von um góðar heillir. Þegar vér lítum til veðráttufarsins, undir hverju eigi er alllítið komin hagsæld hvers ársins, sér í lagi fyrir oss, sem eigum undir högg að sækja við höfuðskepnurnar allt bjargræði vort, þegar vér í þessu tilliti virðum fyrir oss umliðið ár, þá getum vér eigi annað sagt, enn að það hafi verið yfrið stirt, úrkomumikið og umhleypingasamt, og fullkomin harðindi með köflum. Árið byrjaði að sönnu blíðlega, en áður en fyrsti mánuðurinn var á enda, gekk í garð hinn þráláti útsynningur með snjókomu og hroða, og hélst hann við allt fram á vor, en aldrei voru frosthörkur að munum. Það má telja svo til, að eigi hafi komið veruleg breyting á þetta veðurlag fyrr enn undir enda maímánaðar; þá gjörðist veðrátta stilltari, en nöpur og köld eftir því sem orðið var áliðið; hélst sú veðurreynd allt til sólstaða. Með þeim byrjaði hjá oss sannkölluð sumarveðrátta, og hélst hún allt fram í septembermánuð. Skiptust um þurrkar og rigningar allhaganlega fyrir heyannir manna, að minnsta kosti hér á Suðurlandi. Kaflinn, sem þá var eftir af sumrinu, var heldur rosafenginn og rigningasamur, og sumarið endaði með fullum vetrarbrag. En þegar vetur gekk í garð, batnaði veðrátta aftur, og mátti heita öndvegistíð til jólaföstu. Með henni byrjuðu aftur snjókomur og hroðar af útsuðri, með blotum og frostum á víxl; og þannig kveður nú árið oss með harðindalegu lofti, með mikilli snjókyngju og jökli á jörðu. Þannig höfum vér lýst veðráttufari um næstliðið ár, eftir því sem oss rekur réttast minni til, og eftir því sem það reyndist hér á Suðurlandi. Má vel vera að þessi lýsing þyki eigi alls kostar við eiga í sumum öðrum fjarlægari héruðum landsins, því það vitum vér, að eins og skipst veður á skammri stundu, svo skiptist veður á skömmum vegi. ... Þó veðrátta væri lengi fram eftir mjög óvorleg, varð þó grasvöxtur á endanum í góðu lagi, og nýting að minnsta kosti framan af slætti allhaganleg; en það ræður að líkindum, eftir því sem haustveðráttan var, að heyannir muni víða hafa orðið heldur endasleppar. ... en aftur hefur ár þetta verið einkennilegt fyrir slysfarir manna á sjó; og víst eigum vér á fá ár að minnast, er fleiri menn hafa drukknað, en á þessu ári gjörðu. Kvað mest að þeim slysförum í Faxaflóa og á Ísafirði.

Brandsstaðaannáll [vetur]: 

Í janúar frostalítið, jörð til lágsveita, en lítil snöp til dalanna. Með þorra þítt 3 daga, en sífellt jarðbann vestanvert í dölum. Blotar gengu margir til 13. febr. Þá lagði að verstu vetrarskorpu. Voru þá öll hross á gjöf komin. Héldust þá hríðar og blotar á víxl, svo bágt varð að hirða um skepnur og tóftir tæmdust. Með einmánuði komu upp rindar. 29. mars var mikið vestanhlákuveður, en um miðjan dag brast á mesta bleytuhríð, er hélst um nóttina og herti frostið. Urðu þá miklir fjárskaðar, mest á Guðrúnarstöðum og Gili, þá minni á Fljótum, Selhaga, Vatnshlíð og Mjóadal. Allvíða hrakti [fé] og náði öðrum bæjum. Eftir það var jörð, þá út gaf. Í Blönduhlíð og Hólmi gengu hross nokkur af. Á Efribyggð varð allra versti vetur. Þar voru líka flestir komnir í heyþrot, hross gefin út á hagagöngu og sauðum komið á hús og haga án gjafar.

Norðri segir af tíð í ódagsettu janúarblaði:

Veðráttufarið hefur yfir mánuð þenna, það til hefur frést, verið gott og frostalítið, og víðast hvar nóg jörð fyrir útigangspening, einkum við sjávarsíðuna.

Ingólfur segir lauslega frá 3.febrúar:

Nú er þá liðinn fyrsti mánuðurinn af ári þessu, og hefur lengst af honum verið æskileg tíð hér syðra, nema hvað heldur hefur brugðið til umhleypinga síðan leið undir enda hans. Lítið lætur hér enn af aflabrögðum.

Norðri segir frá í ódagsettu febrúarblaði:

Veðuráttufarið hefur síðan um næstliðið nýár verið oftast gott og frostalítið; snjókomur mjög sjaldan, en fremur umhleypingasamt. Aðfaranóttina hins 17.[febrúar] og fram á dag, gjörði hér og víða um sveitir hina mestu landnorðan stórhríð, með snjókomu, sem komið hefur á þessum vetri. Jörð hefur víðast hvar verið næg fyrir útigangspening, þó hafði, þá er seinast fréttist hingað enn verið hart á Jökuldal, Fjöllum og í Mývatnssveit, og nokkrir þegar á nástrái, sem og þar sem við hefur staðið síðan í haust að fyrst lagði að með hríðum og jarðbönnum. — Þó nú svona sé hart í sumum sveitum, þá er að vona, að þeir, þar sem betur hefur viðrað og verið jarðsælla, geti hjálpað hinum, eftir þörfum.

Jón Þorsteinsson segir í lok veðurskýrslu sem dagsett er 28.febrúar: 

„Ellers har Vejrlighed i denne Vinter, skjöndt mildt hvad Frosten angaar, dog været ofte yderst ustadigt og omlöbende, med stærke endog orkanagtige Stormer, men dog ret godt imellem, som fra midt i December til midt i Januar derimod var i det sidste af Sept fra 23de og enda meget af October usædvanlig slemt og ubehagelig Vejrig og saa usædvanlig meget Snee i Höjlandet, paa den Tid, at den har siælden været mere midt om Vinteren“.

Í lauslegri þýðingu: Annars hefur veðurlag í vetur, þó frostalítið hafi verið, oft verið sérlega óstöðugt með sterkum stormum, jafnvel fárviðriskenndum, en þó nokkuð gott á milli, eins og frá miðjum desember til miðs janúar. Þar á móti var síðasti hluti september (1853), frá þeim 23. og megnið af október óvenju slæm tíð og svo óvenjulega mikill snjór á fjöllum miðað við árstíma að sjaldan hefur verið meiri á miðjum vetri.

Séra Jón Austmann í Ofanleiti segir í athugsemd þann 9.mars:

Er sá eini blíði dagur sem komið hefur á þessari vetrarvertíð. Athgrein: Ber sjálft með sér og útvísar að ég ekki tali um þessa seinustu 3ja mánuði þá mönnum minnisstæðu umhleypinga er verið hafa þetta haust. 

Norðri segir frá 31.mars:

Fyrra hluta mánaðar þessa var, sem að undanförnu, mjög stormasamt og stundum snjókoma. Víða hvar var orðið skart um jörð vegna áfreða og sumstaðar gamalla og nýrra snjóþyngsla. En einkum 21. og 22. [mars] var þíðvindi mikið og fjarska veður seinni daginn, svo víða kom upp mikil jörð. Það er haft fyrir satt, að í sumum sveitum muni vera farið að sneyðast um heybirgðir og það enda í góðsveitunum, hvað þá þar, sem peningur hefur verið að mestu á gjöf síðan í haust, t.a m. í Mývatnssveit. Þar eru og sagðir einstakir farnir að reka af sér sauði og hross.

Skipbrot: Sú fregn hefur borist hingað, að þeir verslunarfulltrúi J. Hólm á Skagaströnd og presturinn séra Björn Þorláksson á Höskuldsstöðum hafi sent hákarlaskip sitt, nýtt og vandað mjög að öllum útbúnaði, til hákarlaveiða yfir á Gjögur, sumir segja eftir korni á Reykjarfjörð. Á skipi þessu er sagt að hafi verið 15 manna, en þá þeir komu undir land að vestan, eða voru að fara þaðan, vissu þeir ekki fyrri til, enn að skipið reið fast á skeri nokkru frá landi. Skipverjar fengu bjargað lífi sínu með því að einn þeirra, sem syndur var, komst að landi með streng, og á þessum svo hver af öðrum. Það er mælt, að skipið hafi liðast í sundur og brotnað, og mikið af útbúnaði þess og farmi með öllu farist.

Húsfok: Það hefur frést hingað, að nú á þorranum hafi tekið upp af veðri lítið timburhús á Seyðisfirði, og fleygst fram í sjó, með einum manni í, Þorsteini Halldórssyni bókbindara, sem daginn eftir rak dauður að landi.

Þjóðólfur segir af skipsköðum í pistli þann 30.mars:

Almenningur reri hér um Nesin árdegis 14. [mars] í góðu veðri en ótryggu útliti, en aflíðanda miðjum-morgni gekk hann upp með éljagang og storm af suðri útsuðri, og veitti mjög torsótt að ná landi, einkum á Álftanesi, og urðu allflestir þeirra að láta berast undan fyrir ofveðrinu og hingað inneftir; þá fórust fjögur skip af Álftanesi og einn bátur, en tveir bátar héðan af nesinu; einstöku mönnum varð samt bjargað af skipshöfnunum, þar á meðal 2 af öðum bátnum héðan; 27 týndust alls af Álftanesi, en margt af þeim var utansveitar, og 6 hér af nesinu, flestir einnig útlendir. 

Ingólfur segir af tíð og slysförum þann 8.apríl:

Vér gátum þess seinast, er vér minntumst á árferði hér syðra, að brugðið hefði til umhleypinga, þá er leið undir enda janúarmánaðar. Þeir hafa og haldist síðan næsta miklir allan febrúar- og marsmánuð. Mátti veðrátta á þorra og góu heita mjög stirð, eftir því sem menn nú um langan tíma hafa átt að venjast hér á Suðurlandi; því þó að eigi væru frost að munum, þá voru oft og tíðum allákafir byljir af útsuðri; og hefir sú áttin oftast ráðið mestu og ræður enn í dag, þó að heldur mætti heita mari fyrstu vikuna af einmánuði. Þegar veðráttan var nú svona með sífelldum hroða og hafátt, þá fóru að vonum gæftir og aflabrögð eftir því; var hvorttveggja með lakasta móti þangað til með byrjun einmánaðar, að víða að úr veiðistöðum hafa borist nokkrar fiskifregnir, bæði úr útverum og eins úr syðstu veiðistöðum innan Faxaflóa, en mjög eru þær þó misjafnar enn sem komið er; og ollu því meðfram hinar stöðugu ógæftir. Það eru nú 20 ár síðan að vér eigum að minnast á annan eins mannskaða, og varð hér á Innnesjum þriðjudaginn seinastan í góu [14.mars]. Að meðtöldu skipi sem vantaði daginn áður af Álftanesi, fórust þar á nesinu 27 menn; af þeim 10 innlendir og 7 bændur. Að meðtöldum 1 bát, sem nokkru fyrir mannskaðaveðrið hafði farist inn á Sundum, og öðrum báti, sem nokkru eftir það týndist af Seltjarnarnesi, hafa alls farist héðan af nesinu 12 menn. Það segja margir, sem voru á sjó þennan mannskaðadag, að veðrið hafi hvorki komið svo brátt né verið svo ákaft, að menn skyldu hugsa, að slíkt manntjón mundi af hljótast; enda höfum vér og heyrt það af mönnum, sem bjargað var, að það hafi orðið sumum skipunum að minnsta kosti að tjóni, að áhöldin biluðu; og ættu þá slíkar slysfarir að gjöra menn vandari framvegis um útbúnað allan á skipum þeirra.

Þjóðólfur segir lauslega af tíð þann 8.apríl:

Það var hvort tveggja, að þessi vetur, sem nú telst bráðum liðinn, lagði snemma að, enda sýnist svo, sem hann ætli að reynast einhver hinn þyngsti bæði til sjós og sveita. Þessi langvinnu skakveður með éljagangi og blotum á mis, og víða með lélegum högum eða hagleysum, eins og hefir verið til þessa í sumum sveitum, kreppir mjög að öllum útigangsfénaði og tálgar af honum hold, en hey ganga til þurrða, sem von er, þegar gjafatíminn er svo þrauta-langur. — Vér höfum bréf norðan úr Miðfirði frá 20. [mars] og segir þar, að til almennra vandræða horfi með fénaðarhöld og heyskort, ef ekki komi bráður bati þá þegar, og sé líkt að frétta úr sveitunum þar næst fyrir norðan. Hér i nærsveitunum er og víða sagt heyskart hjá sumum, og útifénaður magur. Í Árnessýslu ofanverðri hefir verið hagskart og illviðrasamt allt þetta útsynningskast, og snjókyngið verið þar mikið, en miklu minna í sunnanverðri sýslunni og i Rangárvallasýslu; austar að hefir engin fregn komið.

Bátur með 2 mönnum fórst hér enn, frá Mýrarhúsum þriðjudaginn 28.[mars]; menn héldu fyrst að hann hefði máski hleypt undan inn í Sund; en báturinn er nú rekinn, og formaðurinn.  

Enn er stutt frétt í Þjóðólfi 15.apríl:

Hið sama veðráttufar og hrakviðri, eins og hér hafa gengið, er að frétta af öllu Austurlandi; víða haglítið en illt ástöðuveður allstaðar, og útifénaður magur. — Fyrir öllum Landeyjum og Eyjafjöllum var aldrei á sjó komið þegar síðast spurðist, ekki heldur í Mýrdal eður Meðallandi, nema einu sinni sitt skipið í hverjum stað.

Norðri segir í ódagsettu aprílblaði:

Veðráttufarið hefur um land allt verið mjög stormasamt og óstillt. Vetur þessi, síðan fyrir jól, er nær því hvervetna við sjávarsíðuna og í sumum sveitum talinn með hinum betri og bestu vetrum, sér í lagi með snjóleysur; aftur í nokkrum sveitum, efst til dala og fjalla og á stöku útkjálkum, einhver hinn harðasti með snjóþyngsli, áfreða og jarðbannir, og það sumstaðar síðan í haust, mánuði fyrir vetur. Það er því engin furða, þótt margir þar séu tæpir með hey, og sumir komnir á nástrá. Einstakir höfðu skorið af heyjum í Árnessýslu fyrir jólin, og hefði þá ekki batnað, ætluðu Skaftfellingar að gjöra slíkt hið sama. Vegna skakviðranna hefir peningur verið þyngri á fóðrum en ella, heyin víða að miklu upp gengin, og minna um fyrningar, en vænta hefði mátt í svo snjólitlum vetri og oft góðviðrasömum.

Hinn 29. [mars] var víða um land, að því leyti frést hefir, það ofsaveður, útsunnan, að elstu menn muna varla þvílíkt. Það urðu því hér og hvar skaðar og skemmdir í skepnum, húsum og skipum. Á Aðalbóli í Miðfjarðardölum, Guðrúnarstöðum í Vatnsdal, Gili, Fjósum og Botnastöðum í Svartárdal og í Vatnshlíð á Vatnsskarði er sagt, að samtals hafi hrakið víðsvegar, slengt niður, og fennt í giljum til dauðs hátt á 3. hundrað fjár; en þó varð fjárskaðinn stórkostlegastur á Gili; því þar er sagt, að farist hafi 70 ær og 24 sauðir. Einnig er sagt, að 12 sauði hafi hrakið á Siglunesi í sjó út. Í sama veðri fauk timburkirkjan á Fagranesi á Reykjaströnd um, og brotnaði mjög. Kirkjan í Flatey í Skjálfandaflóa ýttist hálf út af stæði sínu, og víða lá við sjálft, að hús færu um; þó varð mest tjón á Vopnafirði á kaupskipinu Hermóði, sem, eins og áður er getið, var komið þangað; það sleit upp í veðrinu, og rak að landi, og brotnaði, svo það fylltist þegar með sjó, og voru í því á sjötta hundrað tunnur af kornmat, steinkol og drykkjuvara öll, sem komið hafði með því. [Í Þjóðólfi 6.maí er sagt að þetta veður hafi verið 14.til 15.mars, en Brandsstaðaannáll tekur af vafa, það var 29. - sem og Þjóðólfur leiðréttir síðar].

Skiptapar höfðu orðið margir á Suðurlandi 14. [mars] í útsunnanverðri, og er sagt, að farist hafi um 40 manns, eða fleiri. Þeir voru í fiskiróðri. 3 menn höfðu og áður, [3.mars], drukknað af báti á leið úr Reykjavík inn í Mosfellssveit, og er sagt, að formaðurinn hafi verið drukkinn af brennivíni.

Brandsstaðaannáll [vor]:

[Þann] 26. apríl kom fyrst fjallleysing. Allan veturinn kom sjaldan meðalfrost, en þar á móti 50 blotar, en þó fleiri kafaldsdagar. 30. apríl kom snögglega mikill kafaldsbylur af norðri. Fór þá í maí að verða almennur töðuskortur. Héldust þá frost og gróðurleysi. 20-23. [maí] mikil hríð og fannkyngja á útsveitum. Þar hafði kringum allan Skaga og Skagafjörð verið lengst snöp og fjara. 24. kom góður bati og fljótur gróður. Flóði þá leysingarvatn yfir jörð mót austri og gjörði þar mikinn grasvöxt, en mót vestri í meðallagi.

Norðri segir af tíð og tjóni í tveimur pistlum í maí:

[16.] Það sem af er mánuði þessum, hefir veðuráttan oftast verið köld, og afleiðingar áfellisins, sem varð 30.[apríl] mjög stórkostlegar, ekki aðeins á fjöllum uppi, heldur og víða um byggðir, þar sem fé er sagt að fennt hafi bæði vestra, hér um sveitir og nyrðra, svo að samtals nemur mörgum hundruðum. Peningur er sagður víða orðinn magur og dreginn, og sumstaðar farið að hrökkva af; margir líka komnir á nástrá með töður og úthey. Fiskilaust hefir nú verið um tíma hér fyrir Norðurlandi; þar á mót hákarlsafli góður hjá þeim, er hann sækja. Yfir 300 selir höfðu fengist á Sléttu, þá seinast fréttist, en lítið í öðrum veiðistöðum.

[31.] Síðari hluta mánaðar þessa hefir veðráttan verið stilltari og blíðari, en áður, og furðanlegur gróður kominn. Eins og áður er getið, urðu um næstliðin mánaðamót dæmafáir fjárskaðar í hinni miklu landnorðan stórhríð; hraktist þá fé víðsvegar í vötn, gil eða ófærur, eða fennti, sumstaðar 20—50 frá bæ, og frá einum bæ 90, og í Möðrudal á Fjöllum 120.

Þjóðólfur segir af sköðum í pistli þann 6.júlí:

Svo fréttist úr hinum fjarlægari héruðum, að víða hafi króknað og fennt fénaður í illveðrunum, sem gerði vikuna eftir hvítasunnu [4.júní], og einkum á trinitatis [11.júní], bæði norðan- og austanlands; í Mývatnssveit fennti þá margt fé, í Öræfum samtals rúml. 120, og á einum bæ á Möðrudal á Fjöllum yfir 100 fjár. [Hér er óvissa um dagsetningar - líklega er átt við veðrið 30.apríl].  — Í hinum miklu veðrum í vor hafa enn farist þrjár hákarlajagtir af Ísafirði: „Litla-Katrín", sem héðan var keypt. „Lovísa", og einn „Dekksbátur"; á þessum jögtum öllum drukknuðu 18 manns. — Litill hákarlaafli er sagður þar að vestan, og mjög hart í ári.

Þjóðólfur segir 17.júní:

Satt er um skipskaðann úr Bolungarvík, þar fórust alls 24 manns, og var mannval þar úr sveitum. Oss er skrifað vestan úr Barðastrandasýslu 23.[maí] að þá sé þar kominn litill afli bæði af fiski og hákarli; að hinn vanalegi hrognkelsaafli þar um firðina hafi brugðist; að flestir kaupstaðirnir hafi verið matvælalausir í allan vetur, en talsverður fjárfellir hafi verið orðinn um Dýrafjörð, Arnarfjörð, Tálknafjörð og Patreksfjörð, og svo, að mörg heimili væru orðin sauðlaus. Besta vetrarfar er að frétta úr Múlasýslum og Austurskaftafellssýslu; þar var mjög aflalítið vetrarvertíðina, en ... mikill fiskur hljóp á land i Hornafirði, ...

Brandsstaðaannáll [sumar]:

Á heiðum var jörð svört og fúin, en sein til gróðurs, þó klakalaus væri í kafi frá 19. sept. [haustið áður], 36 vikur. Í júní og júlí blíðviðri stöðugt. Sláttur hófst þann. 17. [júlí]. Var þá lengi hagstæð norðanátt. Töðufall var mikið, þar ei bagaði áburðarleysi haustið áður, sem víða var í Skagafirði. 8.-15. ágúst votviðri, aftur 19. stórrignt og votviðri á eftir, 2.-3. sept, flæsa og 12. þerrir. Hey hraktist víða mikið, þó mátti ná því fyrir göngur. Voru fjöll auð og gott veður. Út á Skaga var ónýting og heyskortur fyrir þokur og votviðri, en heyfyrningar urðu þar góðar. Frá júlíbyrjun var stöðug jöklaleysing til 26. sept. Gjörði þá vestankafald mikið.

Eggert Jónsson á Akureyri mældi 20 stiga hita eða meira fjórum sinnum þetta sumar (en hafði þó ekki hámarksmæli): 9.júlí (22,8°C), 10.júlí (22,0°C), 12.júlí (20,7°C) og 4.ágúst (20,0°C). 

Norðri segir í ódagsettu júníblaði:

Fyrra hluta mánaðar þessa var veðuráttan á landnorðan, köld og hretasöm, en síðan kyrrari og hlýrri með sunnanátt. Gróður er kominn víða hvar allt að því í meðallagi, þar sem jörð ekki hefur kalið, sem sumstaðar kvað vera til stórskemmda. Ennþá er víða hvar mikill jökull á fjöllum uppi og í afréttum. Í [maí] kom töluverður hafís hér undir land, og varð sumstaðar landfastur, og hroði af honum er enn sagður yst á Húnaflóa, en austar er hann sagður horfinn úr augsýn. Peningshöld voru víða hvar orðin á veikum fótum, og hjá nokkrum til muna hrokkið af.

Norðri segir í ódagsettu júlíblaði:

Grasvöxtur er sagður víðast hvar, einkum á harðvelli vel í meðallagi og jafnvel betur sumstaðar. Nýting á heyafla að þessu góð, enda hefur veðráttan verið oftast úrkomulítil og fágætlega stillt og kyrrviðrasöm allan þenna mánuð út nema dag og dag. Hákarlsafli varð hjá mörgum í vor og sumar með besta móti, og einkum hjá nokkrum dæmalaust mikill, allt að um og yfir 100 tunnur lifrar á skip, ... Fiskiafli var sagður allstaðar kominn fyrir sláttinn þar til var reynt, hér fyrir norðan land, en nú er svo sem ekkert talað um hann.

Skiptapar og skipbrot. Satt er það, að 2 fórust jagtirnar og 1 dekkbátur frá Ísafirði í vor, með 18 manna. Og einnig er satt sagt um skiptapana frá Bolungarvík með 24 menn. Franskt fiskiskip frá Dynkirken, hér um 60 lesta stórt, hefir nýlega strandað í Steingrímsfirði, vestanvert við Húnaflóa; skipverjar 16 að tölu, komust allir af, en skipskrokkurinn með seglum, reiða og áhöfn, selt við opinbert uppboð.

Norðri segir í ódagsettu ágústblaði:

Veðuráttan hefur fremur verið óperrasöm yfir mánuð þenna, og víða erfitt að verja hey fyrir skemmdum, einkum á útsveitum.

Þjóðólfur segir af loftsjón þann 26.ágúst:

[Þann 17.ágúst] varð vart við loftsjón bæði að Hraungerði í Flóa, að Fellsenda í Þingvallasveit og hér í Reykjavík; það var um kvöldið um náttmálabil, og var loft blikað og skýjað; miklum bjarma sló niður á jörðina og lagði með henni sem af eldingu, niðurganga bjarmans var um hánorður (héðan úr Vík að sjá um norður-landnorður); skömmu eður nálægt l 1/2 til 2 mínútum síðar, heyrðist úr sömu átt svo miklar drunur, að líkast var sem fallbyssuskot riði af, og heyrðist ómurinn lengi eftir jörðunni. Á þessa leið hafa þeir lýst loftsjón þessari, séra S.G Thorarensen í Hraungerði og Árni hreppstjóri á Fellsenda, og kemur það heim við það, sem staðarbúar hér, sem þá voru á gangi, veittu eftirtekt. Telja menn víst, að þetta hafi verið vígahnöttur.

Norðri segir í ódagsettu septemberblaði:

Fyrri hluta mánaðar þessa var mjög rigninga- og hretasamt, og einkum dagana 10. og 11. þ.m. dæmafá rigning, en seinni hlutann þurrviðri og sunnanátt. Víða voru mikil hey úti, sem nú flest munu að mestu, ef ekki öllu, komin í garð, og það með allgóðri verkun. Annars hefur grasvöxtur verið yfir land allt, þaðan vér höfum haft fréttir af, í betra lagi, einkum í harðvelli, og nýting í heyjum sæmileg, nema miður í sumum útsveitum. Fiskiafli mikill, þar honum hefur orðið sætt, og eystra í suðurfjörðum, helst ýsa og skata.

Þjóðólfur segir frá 14.október:

Grasvöxtur hefir á þessu sumri verið í betra lagi víðast um land, en nýting á mörgum stöðum í lakara lagi, og hin versta í sumum héruðum t.d. í Húnavatns- og Strandasýslu og víðar vestra, og svo austur um Fljótshlíð, Eyjafjöll, Mýrdal og Meðalland; svo þó að heyafli sé víða í meira lagi að vöxtum, þá óttast menn að hann gefist illa, einkum til mjólkur, því víða hefir mjög hitnað í görðum manna, og hjá báðum bændunum í Bræðratungu í Biskupstungum brunnu upp fyrir skemmstu mestöll hey þeirra ný og gömul; segja sumir að það hafi verið nálægt 3000 hestum alls. 

Brandsstaðaannáll [haust og vetur til áramóta]:

Eftir það [frá 26.september] slæmt haust með rigningum, mest 12. okt., upp á mikið stormveður. Drap þá víða hey, sem rifið hafði. 6. okt. norðanhríð og þar eftir rigning mikil. 15. okt. fannkyngja og tók fljótt af, svo óstöðugt og frostasamt. Í nóvember góð tíð til 27., að mikinn snjó og storku gerði til lágsveitanna og hagleysi, svo sauðir komu á gjöf. Jólafasta varð sú versta, með hríðum og rigningarblotum. Lagði mikinn svellgadd yfir jörð. 7.-8. des, tók fyrir hrossbeit. Lengst var frostlítið og vestanátt. Á jólum brast á mikil norðanhríð um 3 dægur. Aftur á þriðja sunnanbylur. Voru þá komnir 11 blotar síðan með vetri.

Þjóðólfur segir af slysförum í pistli þann 6.janúar 1855 (stytt hér):

Eggert Jónsson sem lengi hafði búið í Grímstungu, hóf ferð sína að heiman 26.sept.[1854], og ætlaði „fyrir gafl", sem kallað er, vestur í Víðidal eður Miðfjörð; hríðaveður var, en hann vildi ekki þiggja, að fylgdarmaður færi með sér til bæja; villtist svo Eggert, og fannst hann eftir mikla leit örendur undir steini hjá ánni „Kornsá" vesturundan Ási í Vatnsdal; Eggert heitinn var 82 ára þegar hann dó. ... Nálægt 17. október fórst skip undir Jökli með 5 manns; fyrir því var Guðmundur bóndi Jónsson í Mávahlíð.

Norðri birtir tíðarfarspistla í október:

[14.] Í byrjun þessa mánaðar, og einkum þann 4. og 5. dag hans, keyrði víða niður, með norðanátt og hvassviðrum, mikla fönn, svo nær því var ókleyft í giljum og varla vegfært. Innistaða varð sumstaðar fyrir sauðpeningi í 1 og 2 daga. En þann 7.—10. gekk veðráttan til suðurs með þíðum og hvassviðrum, svo um fleiri sveitir varð öríst. — Flestir, ef ekki allir, hafa náð heyjum sínum. Það er sagt, að víða á útsveitum; og til sumra dala, séu hey, sem í garð eru komin, meira og minna hrakin og soðin niður. — Þar sem afréttir eru landþröngir og hagaléttir, hefur skurðarfé reynst að sögn í lakara meðallagi á mör.

[31.] Veðuráttan hefur verið þenna síðari hluta mánaðarins lík því að undanförnu, óstillt og hvassviðrasöm og stundum með snjókomu.

Norðri birti fréttir af tíð í nóvemberblöðum:

[16.]Hér um 12. október hafði í Húnavatnssýslu, og víðar vestra, gjört fjarska veður, svo hey tók niður að veggjum á Stóru-Giljá í Þingeyrasókn, og víðar hafði svipt meira og minna þökum af húsum og heyjum, og á einum bæ hafði veðrið klofið sundur gildingarvegg [veggur sem verið var að hlaða?] að endilöngu.

[30.] Það til hefur frést um land allt, hefur, það af er vetri, viðrað líkt og hér norðanlands. — Fiskiafli hafði verið góður á Suðurlandi þá sjaldan gaf að róa.

Norðri segir af tíð í ódagsettu desemberblaði:

[Þann 3.desember] kom austanpósturinn Níels Sigurðsson hér á Akureyri, og lét hann illa af hríðum og snjóum á leið sinni, sér í lagi frá Jökulsá i Axarfirði og hingað, enda hefur sjaldan viðrað annað þennan mánuð. Enda eru nú jarðbannir af áfreðum og snjóþyngslum yfir allar sveitir hvað til hefur frést. Vopnafjarðarskipið kom loks þangað 12. [nóvember] eftir 10 vikna hrakning landa á millum.

Norðri gerir upp árið 1854 í ódagsettu janúarblaði 1855:

... Veturinn í fyrra var og víðast við sjávarsíðuna svo góður, að útigangspeningur gekk að mestu sjálfala. Aftur á móti lagði að í sumum sveitum, mánuði fyrir vetur og með vetri [haustið 1853], og hélst við fram á vor. Sumir lentu því í heyþroti, peningur varð magur og það víða, því mjög oft var skakviðrasamt, og enda mun sumstaðar hafa hrokkið af. Vorið var framan af heldur kalt og hretasamt, en þá á leið, eða eftir miðjan júní, hlýnaði veðurátta og gjörðist hagstæð, greri þá vel svo grasvöxtur varð góður, einkum á harðvelli. Heyföng urðu víða í sumar mikil og hirtust allvel í meginsveitum, en miklu mun miður til sumra dala og á útkjálkum, og enda svo illa, að mikið mein varð að, því þegar á leið sumarið varð veðurátta votviðrasöm og með hretum, óstillt og gjóstug; og í byrjun október keyrði niður mikla fönn í byggðum, svo fé fennti, auk heldur á fjöllum uppi. Batnaði þá veðuráttan aftur með köflum svo heita mátti góð tíð og jarðsælt til nóvembermánaðarloka, að lagði algjörlega að með frosti og snjókomum og dag og dag spilliblotum. Fór þá að þrengjast um haga, vegna snjóþyngsla og áfreða, og við árslokin heyrðist, að hvervetna um allar sveitir væri miklar jarðbannir orðnar.

Sláturfé reyndist víðast hvar í haust í meðallagi á hold en síður á mör. Málnyta varð víða hvar næstliðið sumar í betra lagi. Fjárskaðar urðu á nokkrum bæjum í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum 29. mars í útsunnanbyl, er allt í einu brast á og hrakti fé víðvegar, sem sumt fennti í giljum eða sló niður til dauðs. Og aftur 30. dag apríl gjörði hina mestu landnorðanstórhríð, svo fádæma fjárskaðar urðu, helst eystra, frá 10—120 fjár á bæ. Í maímánuði rak hér norðan að landinu töluverðan hafís, og sumstaðar varð hann landfastur.

Húsfok: Á þorranum tók lítið timburhús á Seyðisfirði upp í veðri og fleygðist fram á sjó með 1 manni í, sem rak dauður að landi daginn eftir. 29. mars fauk timburkirkjan á Fagranesi á Reykjaströnd um koll og brotnaði mjög. Í sama veðri ýttist kirkjan á Flatey á Skjálfandaflóa hálf út af stæði sínu. — Hey fuku 12.(?) október á Stóru-Giljá í Húnavatnssýslu og víðar; og 6. nóvember 60 hestar af heyi á 2 bæjum, og 1 hús á öðrum, í Borgarfirði eystra.

Skiptapar og mannskaðar hafa orðið þetta ár á Álfta-, Seltjarnar- og Akranesjum, suður í Garði eða Vogum, á Ísafirði, Bolungarvík, Siglufirði og undir Jökli. Telst svo til að alls muni hafa farist á skipum þessum yfir 100 manna. Auk þessa hafa 6 orðið að kalla bráðkvaddir, 3 orðið úti og 3 hrapað, 2 fyrir björg og 1 ofan af húsþaki; 1 brann inni og 1 stytti daga sína. Hafskip hafa strandað, Hermóður á Vopnafirði 29. mars, franskt fiskiskip á Steingrímsfirði í ágúst og frakkneskt herskip laskaðist við Austfjörðu en varð bætt. Allir menn á skipum þessum komust af.

Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um veður og tíðarfar ársins 1854. Þakka Sigurði Þór Guðjónssyni fyrir innslátt texta úr Brandsstaðaannál. Fáeinar tölur eru í viðhenginu.  

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Smávegis um október

Það fór mjög vel með veður í október og hik kom á framsókn haustsins. Fyrri hluti mánaðarins var þannig að tiltölu kaldari en síðari hlutinn. Við látum að vanda Veðurstofuna um að gera grein fyrir mánaðarmeðalhita einstakra Veðurstöðva (sú greinargerð birtist vonandi fljótlega upp úr helginni), en lítum á stöðuna á landsvísu og á einstökum spásvæðum. 

Í byggðum landsins var hitinn nú +0,7 stigum ofan meðallags áranna 1991 til 2020 og +0,2 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. 

w-blogg011120a

Hér má sjá röðun meðalhitans á einstökum spásvæðum meðal annarra októbermánaða aldarinnar. Við Breiðafjörð og og Vestfjörðum er þetta fjórðihlýjasti októbermánuður hennar, og um allt vestan- og norðanvert landið var hitinn í efsta þriðjungi. Að tiltölu var kaldast á Suðausturlandi - þar raðast mánuðurinn í 10.sæti.

Fyrstu 10-mánuðir ársins hafa verið hlýir líka - sé miðað við langtímameðaltöl, en samkeppnin er hörð á þessari hlýju öld þannig að meðalhiti á landsvísu raðast í 16.hlýjasta sæti (af 20) - og ljóst að árið verður ekki meðal þeirra allrahlýjustu. 

w-blogg011120b

Myndin sýnir landsmeðalhita fyrstu 10-mánuði ársins (mikil óvissa er með meðalhita landsins fyrir 1874 - þó við vitum meira fyrir einstakar stöðvar á því tímabili). Árið 2020 er greinilega hlýtt - mun hlýrra en flest ár tímabilsins 1965 til 2000 og á hlýskeiðinu 1925 til 1964 hefði það líka verið í hópi þeirra hlýrri.

Á myndinni má líka sjá 10- og 30-árahitakeðjur. Við lítum nánar á þær á mynd hér fyrir neðan.

w-blogg011120c

Við sjáum að báðar hitaraðirnar eru nú í hæstu hæðum, 10-árahitinn hefur ekki mikið breyst síðustu 10 árin - enda hefði áframhald hlýnunar með þeim hraða sem var talist til óhugnaðar. Þrjátíu ára meðaltalið hefur aldrei verið hærra en er nú - og líklegt að það haldi áfram upp á við í fáein ár í viðbót (aldrei hægt að fullyrða neitt um slíkt að vísu) - spurning hvernig 2021 kemur út í samanburði við 1991 - sem var fremur hlýtt en árin 1992 til 1995 hins vegar köld. Ekki er ólíklegt að heldur slái á 30-ára hlýnunina þegar kemur fram undir 2030 - þegar alvörusamkeppni hefst við hlýju árin. Það ræðst auðvitað af hlýnun á heimsvísu líka.

Hægviðrasamt var í október - þó ekki methægviðrasamt því nokkuð blés síðasta þriðjung mánaðarins. Austanátt var með tíðasta móti - sérstaklega í háloftunum og er aðeins vitað um meiri austanátt í miðju veðrahvolfi einu sinni áður síðustu 70 árin - það var í október 1976, háloftaaustanáttin var svipuð og nú í október 2002.

Það gerðist einnig að október varð lítillega hlýrri í neðri hluta veðrahvolfs heldur en september. Það er ekki algengt, gerðist síðast 1985. Ritstjórinn hefur ekki enn farið í saumana á mismuni hita mánaðanna á veðurstöðvunum - en gerir það fljótlega.  


« Fyrri síða

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 27
  • Sl. sólarhring: 68
  • Sl. viku: 425
  • Frá upphafi: 2343338

Annað

  • Innlit í dag: 23
  • Innlit sl. viku: 383
  • Gestir í dag: 22
  • IP-tölur í dag: 21

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband