Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2018
3.2.2018 | 21:28
Glitský
Ritstjóri hungurdiska trúði vart eða ekki eigin augum við sólarlag í dag þegar hann þóttist sjá glitský í norðausturátt yfir Borgarfirði - þau voru ekki með allraskýrasta móti því afarþunn blikubreiða var einnig á lofti - en samt.
Nú í kvöld var Ingibjörg Jónsdóttir í HÍ svo vinsamleg að vísa á gervihnattamynd sem tekin var um svipað leyti og sýn ritstjórans átti sér stað. Hér að neðan er klippa úr þeirri mynd.
Örin bendir á skýin sem ritstjórinn sá - en annars var mikil breiða glitskýja yfir landinu. Lesendur hungurdiska á fjasbókinni hafa þar sett inn fáeinar ágætar myndir teknar fyrir norðan í dag og í gær - takk fyrir það gott fólk. Sjálfsagt má víðar sjá fleiri myndir á vefmiðlum.
En staðan í dag er nokkuð óvenjuleg - í gær (föstudag) var glitskýja beinlínis að vænta - hvöss vestlæg átt í öllum hæðum, allt frá jörð og langt upp í heiðhvolf - og að auki kalt í heiðhvolfinu. Tilefni til reglubundinna bylgjusendinga upp á við. Svipuð staða á að verða uppi á morgun sunnudag. Sýning er þá líkleg um landið norðan- og austanvert - en syðra sést ekkert fyrir skýjum.
Í dag var vindastaða hins vegar flóknari - og í fljótu bragði síðri til sýningarhalds.
Þetta kort gildir á hádegi í dag (laugardag). Þar má sjá jafnhæðarlínur 300 hPa-flatarins heildregnar og sömuleiðis hefðbundnar vindörvar. Þunnu rauðu línurnar sýna hvernig hæð 300 hPa-flatarins á að breytast næstu þrjár stundir (flöturinn hækkar), en þær bláu eru dregnar þar sem lækkandi flatar er að vænta.
Litafletirnir sýna hins vegar vindhraðabreytingu næstu 3 klst. Hún er svo mikil yfir Íslandi að hún sprengir kvarðann. Í hvítu blettunum á vindur að aukast um meir en 100 hnúta (50 m/s). Það sem er að gerast er að veggur af lofti úr suðvestri er að ganga yfir landið rétt neðan veðrahvarfa - og trampar á lægðardragi sem á undan er. Við þetta lyftast veðrahvörfin snögglega og allt þar fyrir ofan kólnar og bylgja myndast. Við sjáum að glitskýabandið yfir landinu (á myndinni) er nokkurn veginn samsíða litasvæðinu á kortinu.
Nú er ruðningur við norðausturbrún hæðarhryggja eins og við sjáum hér ekki sérlega óalgengur (þó 100 hnúta vindhraðabreyting sé í mesta lagi). Til að búa til glitský þarf frost helst að fara niður fyrir -75 til -78 stig. Venjulega er ekki nægilega kalt í heiðhvolfinu til að atburður af þessu tagi nái að búa til glitský - en er það hins vegar þessa dagana. Við skilyrði sem þessi er skýjamyndun hins vegar mjög algeng við veðrahvörfin - langar skýjapylsur verða til - jafnvel þúsundir km á lengd.
Hér sjáum við vind og hita í 30 hPa hæð, um 22,5 km ofan við jörð. Glitskýin gætu verið svona hátt uppi - kannski þó eitthvað neðar. Gríðarlegur vindur er þarna uppi og frost á fjólubláa svæðinu er meira en -82 stig - og meira en -90 stig í hvítu blettunum norðaustur í hafi. Fylgjum við jafnhæðarlínunni sem liggur rétt við Suðurland sjáum við að hún fer til skiptis í gegnum blá og fjólublá svæði. Það þýðir að lóðrétt hreyfing loftsins er trúlega töluverð (það kólnar á uppleið en hlýnar á niðurleið).
Venjulega er það landið sjálft (eða Grænland) sem býr til bylgjuhreyfinguna sem svo myndar glitskýin. Í dag virðist sem málið hafi verið heldur flóknara - ruðningurinn við veðrahvörfin hafi gert það (kannski með hjálp landsins).
En öll þessi romsa er án ábyrgðar - ritstjóri hungurdiska er ekki sérfræðingur í myndun glitskýja og vel má vera að slíkir kæmust að annarri niðurstöðu um atburð dagsins.
3.2.2018 | 01:53
Sunnudagshlýindi - og svo kuldi úr vestri
Lægðin sem fer hjá á sunnudaginn (4.febrúar) færir okkur gusu af mjög hlýju lofti langt sunnan úr höfum. Henni fylgir mikil úrkoma um landið sunnanvert en hlýindi víða nyrðra - víða um land verður hvasst.
Þykktarspá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir kl.18 á sunnudag sýnir hlýindin yfir landinu vel.
Þykktin yfir Austurlandi er meiri en 5500 metrar á allstóru svæði - sumarhiti raunar. Mættishiti í 850 hPa fer yfir 22 stig austanlands og í spám nú undir kvöld mátti finna 18 stig á korti sem sýnir hita í 100 metra hæð yfir jörðu. Ekki útilokað að landsdægurmet fjúki, en allt yfir 15 stigum telst fremur óvenjulegt í febrúar - og að hiti í þeim mánuði fari yfir 17 stig er mjög óvenjulegt. En orka fer í að bræða snjó - og dregur það úr líkum að svo hlýtt verði á mælum.
Vestan við Grænland er hins vegar gríðarkalt loft, þar sýnist sjást í 4820 metra jafnþykktarlínuna, um 35 stigum kaldara loft en yfir Austurlandi. Hlýja loftið stendur ekki lengi við, kuldinn sækir að úr vestri. Næstu daga verður mjög spennandi að fylgjast með því hvernig Grænlandi gengur að halda aftur af kalda loftinu. Það er mjög áhrifaríkur veggur til verndar okkur í stöðu sem þessari. Kalda loftið kemst ekki greiðlega yfir - verður helst að fara suðurfyrir á leið sinni úr vestri.
Þetta kort er úr safni iga-harmonie-líkansins og sýnir skynvarmaflæði milli lofts og yfirborðs. Það er hér skilgreint sem jákvætt sé yfirborðið að hita loftið og eru jákvæðu svæðin lituð rauð, brún og bleik á kortinu. Sjá má kalt loft streyma yfir hlýrri sjó (ekki endilega hlýjan sjó - heldur sjó sem er hlýrri en loftið). Varmastreymið er því meira sem hitamunur lofts og sjávar er meiri - og sömuleiðis eykur vindur varmastreymið mjög. Kortið gildir kl. 13 á sunnudag og kalda loftið þá greinilega enn vel fyrir vestan land - þó það leiti á.
Á grænu svæðunum kælir yfirborðið loftið hins vegar - því meira eftir því sem græni liturinn er dekkri. - En reyndar er kælingin svo mikil á smáblettum yfir Norðurlandi - einkum Eyjafirði - að hún sprengir litakvarðann. Þar leita hlýindin að ofan hvað ákafast niður í gríðarmiklum flotbylgjum - líkanið talar þar jafnvel um fárviðri í fjallahlíðum.
Sjá má ör á kortinu - hún bendir á svæði við austurströnd Grænlands þar sem kalt loft streymir í mjórri rás (reyndar fleiri en einni) niður af jöklinum og út yfir sjó. Þetta loft virðist áberandi kaldara heldur en það sem umhverfis taumana er - nægilega kalt til að geta fallið ofan af veggnum allt til sjávarmáls - misst flot og sokkið.
Undanfarna daga hafa spár verið að velta þeim möguleika fyrir sér að þessir kuldastraumar af Grænlandsjökli - einn eða fleiri kunni að ná til Íslands úr vestri. Það er ekki sérlega algengt - en kemur þó fyrir og þeim fylgja alltaf leiðindi á þessum árstíma, skafrenningur, kuldi og kóf, jafnvel í byggðum.
En það er erfitt að komast yfir Grænland - léttara að fara suður fyrir Hvarf og megnið af kalda loftinu frá Kanada mun fara þá leið á mánudag - hvort við lendum inn í þeim straumi öllum er líka óvíst á þessu stigi máls.
Mikill gangur verður á veðri næstu vikuna - og jafnvel lengur.
1.2.2018 | 21:52
Margt að gerast
Nú er margt að gerast í veðrinu eins og oftast á þessum tíma árs. Öflug veðurkerfi ganga yfir okkur úr suðvestri og þeir sem eitthvað eiga undir fylgjast með veðri og veðurspám - já, ekki aðeins spám heldur veðrinu líka.
Norðurhvelskortið sem gildir síðdegis á laugardag sýnir stöðuna vel. Þá er illviðrið sem nú er að ganga yfir landið horfið úr sögunni - það má segja að það hafi brotnað í þrjá hluta - einn fór norður í íshaf (og sést varla) annar til suðausturs um Bretlandseyjar - er á þessu kortið á Biskæjaflóa og mun ásamt öðru kuldakerfi valda leiðindum á Spáni - og jafnvel suður í Afríku næstu daga. Þriðji hlutinn byggði svo upp hæðarhrygginn sem sjá má á kortinu milli Íslands og Noregs.
En næsta lægð steðjar að okkur og veldur okkur ama á sunnudag og mánudag. Gróflega má segja að þetta sé í boði Stóra-Bola, kuldapollsins mikla yfir Norður-Kanada, en hann er nú með öflugra móti - þó á réttum stað sé. Þykktin er niðri undir 4700 metrum, og 500 hPa hæðin að komast niður í 4600 metra og er það með lægsta móti - sérstaklega í jafnstóru kerfi og hér um ræðir.
Hæðin mikla ríkir enn yfir Austur-Síberíu en er heldur að gefa sig. Þar kom mikil hitabylgja á stöku stað og fréttist af því að lágmarkshiti sólarhrings hafi verið ofan frostmarks - en slíkt mun óvenjulegt á þeim slóðum - og trúlega ekki til bóta fyrir jörð.
Sunnanstrokan sem yfir okkur fer á sunnudag (rauð ör á kortinu) á að fara alveg norður í Íshaf - þar breytist hún í háloftahæð. Spár eru ekki alveg sammála um hvað gerist með þá hæð - hún gæti lent austan megin - þ.e. norðan Rússlands - en líka farið í að styrkja hæðina gömlu yfir Austur-Síberíu. Það kemur víst í ljós.
Hlýjar hæðir sem slitna alveg norður úr heimskautaröstinni eru oft ótrúlega þaulsetnar á norðurslóðum - jafnvel þó þær séu ekki endilega sérlega öflugar geta þær haft mikil áhrif á hringrásina og samskipti kuldapollanna stóru.
Þessi mikla sókn úr suðri inn á norðurslóðir mun trúlega raska eitthvað rásinni í heiðhvolfinu - en samband hennar við veður á jörðu niðri er harla óljóst - sumir segja það mikið - en aðrir gera lítið úr. Trúlega er sannleikurinn einhvers staðar þar á milli.
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 125
- Sl. sólarhring: 251
- Sl. viku: 1090
- Frá upphafi: 2420974
Annað
- Innlit í dag: 115
- Innlit sl. viku: 964
- Gestir í dag: 112
- IP-tölur í dag: 111
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010