Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2018

Lægðin stóra

Í pistli gærdagsins var fjallað um lægðina miklu sem nú er við landið. Þegar þetta er skrifað (seint á laugardagskvöldi 13. janúar) er ekki vitað hversu vondu veðri hún mun valda hér á landi - vonandi sleppa flestir. Eins og minnst var á í sama pistli er lægðin óvenjulegust fyrir lága stöðu 500 hPa-flatarins. Nú er hins vegar ljóst að hún nær ekki að grípa hlýtt loft sem er á leið til austurs fyrir sunnan land og mun því ekki slá nein lágþrýstimet. 

Tölvulíkönum er ekki alveg að treysta varðandi smáatriði - og þau breytast frá einni spárunu til annarrar. Í gær litum við á kort evrópureiknimiðstöðvarinnar sem sýndi stöðuna á mánudagsmorgun kl.6 og lítum nú á kort fyrir sama tíma úr nýjustu rununni (frá hádegi).

w-blogg140118a

Á spákortinu frá í gær var lægðarmiðjan ekki fjarri Vestmannaeyjum, en hér er hún yfir landinu. Dýptin er ámóta, var 943 hPa, er hér 944 hPa. Allmikill garri er hér á Vestfjörðum og skammt sunnan við land. Hvassast þó við Norðaustur-Grænland þar sem loft að austan hefur þrengt að heimskautastrengnum sem tíðast liggur úr Íshafinu til suðurs meðfram Grænlandi. Þorpið í Scoresbysundi gæti skafið í kaf í snjó - (ekki veit ritstjórinn þó neitt um smáatriði þess máls - og þær hugleiðingar kannski úr lausu lofti gripnar - en bæði er þó spáð fárviðri og ofankomu). 

Lægðin dælir nú gríðarköldu lofti frá Norður-Kanada út yfir Atlantshafið, en hlýtt loft virðist í augsýn skammt suður af Nýfundnalandi. Hitti það rétt í mun ofsaveður ganga inn yfir Vestur-Evrópu síðar í vikunni. Ekkert er þó ráðið í þeim efnum. 


Harla merkileg staða

Námund við veðurmet heillar ætíð veðurnördin - þau kunna að meta hið sjaldséða. Eins og fjallað var um í pistli í gær fáum við nú yfir okkur efri hluta hringrásar kuldapollsins Stóra-Bola, Grænland sér um að skera versta kuldann undan honum áður en hingað er komið - en hér fer hæð 500 hPa-flatarins neðar en gerst hefur um langt skeið. - Leit í metaskrám ritstjórans skilar aðeins örfáum ámóta eða lægri gildum. - Enn er auðvitað spurning hvort spár reiknimiðstöðva eru réttar. 

Við skulum líta lauslega á málið.

w-blogg130118a

Myndin sýnir stöðuna í 500 hPa-fletinum kl. 6 á mánudag (15. janúar). Jafnhæðarlínur eru heildregnar - innsta línan í kringum kjarna lægðarinnar sýnir 4740 metra. Eins og venjulega er þykktin mörkuð með lit, því minni sem hún er því kaldara er í neðri hluta veðrahvolfs. Við sjáum greinilega hvernig Grænland hefur stíflað framrás kuldans í vestri til austurs - það er aðeins mjó tunga sem nær suður fyrir Hvarf og þaðan til austurs. - Grænland bjargar okkur ekki alltaf í svona stöðu - en mjög oft. 

Við sjáum líka gríðarlega vindröst sunnan Grænlands og stefnir hún á Bretland. Kalda loftið sækir aðeins á undir henni - en við sjáum enga bylgju á hlýja loftinu. Engin kryppa er á jafnþykktarlínunum. - Eins gott, því slíkt myndi gefa tilefni til fárviðra á svæðinu. Staðan ógnar Evrópu í raun og veru næstu daga - þó nýjasta runa reiknimiðstöðvarinnar sé tiltölulega hógvær í þeim efnum - en veðurfræðingar þar um slóðir verða að fylgjast vel með.

Og það verður að gera líka hér á landi. Það er enn óráðið hvernig fer með gusuna sem fylgir ferð kuldapollsins yfir Grænland og yfir á Grænlandshaf. Hún kemur hér að landi síðdegis eða undir kvöld á morgun, laugardag 13. janúar. Sem stendur telja spár að foktjón sé ekki mjög líklegt - en aðalóvissan varðar samgöngur og sjávarstöðu. Rétt fyrir „aðila“ að fylgjast vel með spám og veðri (- auk þess að berja gamlar loftvogir og gefa á veður- og sjávarhljóðum gaum).

w-blogg130118b

Loftþrýstingur fer mjög neðarlega - annað hvort strax á sunnudag eða þá á aðfaranótt mánudags. Kortið sýnir tillögu evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir á mánudagsmorgni með 943 hPa lægð við Suðvesturland. Við vitum þó að líkanið nær smærri lægðum innan í stórum kuldapollum frekar illa marga sólarhringa fram í tímann og ekki víst að þrýstingur verði alveg svona lágur í lægðarmiðjunni þegar hér er komið sögu. 

En hvaða tilvik eru það sem keppa við þetta í lágri 500 hPa-hæð? Þau eru fljóttalin - í öfugri aldursröð:

a. 5. janúar 1983 - einhverjir hljóta að muna hríðarveðrin miklu á Suðvesturlandi í kringum þá dagsetningu - loftþrýstingur fór niður í 929,9 hPa á Stórhöfða.

b. 8. febrúar 1982 - þá sluppum við furðuvel, en þrýstingur fór niður í 937,0 hPa á Keflavíkurflugvelli og banaslys varð í umferðinni í illviðri á Kjalarnesi.

c. 7. janúar 1952 - eitt mesta útsynningsveður aldarinnar, tveimur dögum áður hafði þrýstingur farið niður í 941 hPa í Stykkishólmi. Um þetta veður ritaði ritstjóri hungurdiska tvo langa pistla fyrir rúmu ári.

d. 3. janúar 1933 - og aftur þann 15. sama mánaðar (e.). Í fyrra tilvikinu var veður furðugott, en loftþrýstingur fór niður í 923,9 hPa á Stórhöfða og niður í 925,9 hPa í Reykjavík. Í síðara tilvikinu var hið versta veður, stórbrim og mikil útsynningshríð með samgöngutruflunum. - Þann 12. fauk úrkomumælirinn á Stórhöfða í Vestmannaeyjum - fannst morguninn eftir.  

f. 8. febrúar 1925. Halaveðrið svonefnda. 

Listinn er ekki lengri - en lengist nokkuð ef við gefum 20 til 30 m hæð til viðbótar. 

Þetta eru 5 eða 6 tilvik (þau frá 1933 kannski ekki alveg óháð). 


Tvísýnt útlit

Heiðarlegt illviðri dagsins í dag (fimmtudag 11. janúar) er nú gengið niður um landið vestanvert, en austurhluti landsins hefur enn ekki bitið úr nálinni - bálhvasst verður þar sums staðar langt fram á morgundaginn (föstudag) og svo gera spár ráð fyrir hellirigningu á Suðausturlandi og sunnanverðum Austfjörðum á sama tíma. 

Á meðan mest rignir eystra verður veður allskaplegt um landið vestanvert í sunnanátt og slydduéljum - og viðeigandi hálkutilburðum sem hin freðna jörð ýtir mjög undir. Svo sækir hefðbundnari útsynningur að um tíma - hlutur snævar í úrkomunni vex og hvassara verður í éljunum. 

w-blogg110118a

Kortið sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um sjávarmálsþrýsting, úrkomu og hita í 850 hPa-fletinum um hádegi á laugardag (13. janúar). Sýnir það alltvísýnt útlit. Við sjáum að gert er ráð fyrir talverðri úrkomu vestanlands í útsynningséljunum, - erfiðleikum á heiðavegum (og kannski víðar) en á sunnanverðu Grænlandshafi er að verða til lægð sem rétt er að fylgjast vel með.

Að henni standa mjög öflug kuldaframrás vestan Grænlands, þar sem frostið er meira en -35 stig í 850 hPa, og mjög hlýtt loft sem sækir til norðausturs austur af Nýfundnalandi - þar má finna loft sem er hlýrra en +10 stig í sama fleti. 

Svo vill til að sóknarherirnir virðast að einhverju leyti ætla að fara á mis, en þó ekki meira en svo að lægðin er þarna í foráttudýpkun og sé eitthvað að marka reiknimiðstöðina á hún að vera komin niður í 941 hPa sólarhring síðar og þá yfir Vestfjörðum eða rétt þar vestan við. 

Við njótum nú Grænlands mjög því kaldasta loftið rekst á það og ekki nema hluti kemst yfir jökulinn - en dálítið sleppur sunnan við. Hlýjasta loftið fer til austurs fyrir vel fyrir sunnan- og hittir ekki í háloftalægðina, til allrar hamingju. 

w-blogg110118b

Háloftakortið gildir á sama tíma (kl.12 á hádegi á laugardag). Jafnhæðarlínur eru heildregnar - gríðarhvasst er sunnan við kuldapollinn, uppi við veðrahvörf er vindhraði í rastarkjarna (skotvindi) heimskautarastarinnar meir en 100 m/s (360 km/klst). Litir sýna þykktina en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Kuldapollurinn Stóri-Boli er mættur á svæðið - fimbulkaldur að vanda og ryðst í átt að Grænlandi. Hlýja loftið er eins og sjá má aðallega á austurleið. Engu má þó muna að það kalda nái í það og keyri inn í kuldann. 

w-blogg110118d

Rúmum sólarhring síðar er hringrás Stóra-Bola að miklu leyti komin til Íslands, en aðalkuldinn skorinn undan honum og situr eftir vestan Grænlands - við sjáum þó bláan slóða liggja í átt til Íslands. Það sem er sérlega óvenjulegt við þetta kort er hversu lágur 500 hPa-flöturinn er á stóru svæði, ef vel er að gáð má sjá lítinn svartan punkt við L-ið - hann markar 4740 metra jafnhæðarlínuna - og 4800 metra línan nær utan um stórt svæði. Það er ekki algengt að við sjáum svona lágan flöt. 

Sé spáin rétt fer hæð 500 hPa-flatarins yfir Keflavík niður í 4780 metra - kannski hittir háloftaathugun í það - kannski ekki. Nær ekki alveg meti, en stappar nærri, aðeins er vitað um 2 lægri tilvik síðustu 65 ár. 

Kæmist hlýtt loft fyrir alvöru inn að svona lágum fleti fengjum við einfaldlega metdjúpa lægð, 910 hPa - til að nefna einhverja tölu - en við sleppum eitthvað betur í þetta sinn. 

En satt best að segja er útlitið mjög tvísýnt og rétt að fylgjast vel með veðri. Á árum áður, fyrir tíma sæmilegra öruggra tölvuspáa hefði staða þessi vakið mikinn ugg með ritstjóra hungurdiska - en niðurstöður reiknimiðstöðva ná nú að slá verulega á hann, en samt. Fyrir 8ö árum, fyrir tíma háloftaathugana - áður en menn vissu að Stóri-Boli væri til var hins vegar ekkert hægt að gera nema horfa á loftvog, hitamæli og himininn - og hlusta á náttúruhljóðin. 

Svo virðist sem hringrásin taki sér síðan nokkra daga í að jafna sig á þessum atgangi - og veðrið gæti jafnvel orðið sæmilegt hérlendis. Pollurinn heldur hins vegar áfram að ógna Vestur-Evrópu alla vikuna og eru þar blikur á lofti - kannski fá þeir krappar lægðir í hausinn - kannski ekki. Reiknimiðstöðvar hafa ekki getað ráðið það við sig. 

Að lokum má svo benda á óvenjulega framtíðarspá sem evrópureiknimiðstöðin sendi frá sér nú í kvöld um veðrið í þarnæstu viku. Hún er óvenjuleg að því leyti að hita er spáð ofan meðallags á öllu norðuratlandshafskortinu - 

w-blogg110118c

- ekki mjög stórum vikum að vísu, en samt á öllu svæðinu. Slík niðurstaða verður að teljast harla ólíkleg, en við bíðum og sjáum hvað setur.


Af dægurmetauppskeru ársins 2017

Uppgjör ársins 2017 stendur yfir - í þetta sinn er það dægurmetauppskeran. - Vægast samt nördalegt efni - en samt er stöðugt verið að tala um dægurmet í alþjóðlegum fréttum bæði af hitabylgjum og kuldaköstum. Jafnvel eru einkennileg og harla tæknileg hugtök eins og hitabylgjuhlutfall eða hlutfall á milli hita- og kuldameta orðin fréttnæm í skotgrafahernaði þeim sem tengdur er veðurfarsbreytingum.

Það sem hér fer á eftir er að miklu leyti endurtekið efni frá því í fyrra (30. janúar 2017) og hitteðfyrra ( 21. janúar 2016) - en látum það fljóta - tölur eru auðvitað nýjar.

Eins og áður sagði er í fréttum að utan er oft gert talsvert úr svonefndum dægurmetum - hæsta eða lægsta hita sem mælst hefur á einhverri veðurstöð ákveðinn dag ársins. Ein og sér segja þessi met lítið - en geta samt falið í sér skemmtileg tíðindi. Nú, hafi verið mælt mjög lengi á stöðinni verða þessi tíðindi eftirtektarverðari. Svipað má segja um mjög miklar metahrinur - daga þegar dægurmet falla um stóra hluta landsins.

Talning leiðir í ljós að alls féllu 3671 hámarksdægurmet á almennu sjálfvirku stöðvunum hér á landi á árinu 2017 - séu þær stöðvar sem athugað hafa í 5 ár eða meira aðeins taldar með. Lágmarksmetin urðu hins vegar 2504. Hlutfall hámarks- og lágmarksmeta er mjög breytilegt frá ári til árs og hlýtur að segja okkur eitthvað? Rétt rúmlega 60 þúsund dægurmet hvorrar tegundar eru skráð alls á tímabilinu frá 1996 til 2017 - Það sem flækir málið er að stöðvum hefur fjölgað - en við sjáum samt að hámarksmet 2017 eru fleiri en búast hefði mátt við - ef metafallið væri alveg óháð frá stöð til stöðvar - og í tíma. Lágmarksmetafjöldinn er hins vegar heldur undir væntingum.

Lítum nú á línurit sem sýnir hlutfall hámarksdægurmeta af heildinni frá ári til árs.

w-blogg090118a

Aðeins þarf að doka við til að skilja myndina - lárétti ásinn sýnir ár tímabilsins. Lóðrétti ásinn til hægri sýnir landsmeðalhita, það gerir rauðstrikaða línan einnig. Hlýjust eru árin 2003, 2014 og 2016, en 2015 var hins vegar ámóta kalt og árin fyrir aldamót. Árið 2017 var einnig í hópi hinna hlýju, en þó ekki alveg jafnhlýtt og þau þrjú fyrsttöldu.

Lóðrétti ásinn til vinstri sýnir hlut hámarksdægurmeta af summu útgildametanna (hámarks og lágmarks). Hlutur lágmarksmetanna fæst með því að draga frá einum.

Við sjáum að allgott samband er á milli hámarksmetahlutarins og landsmeðalhitans. Hámarkshitametin eru líklega fleiri þegar almennt er hlýtt í veðri.

Eftir því sem árunum fjölgar verður erfiðara að slá metin 60 þúsund. Þrátt fyrir það er á þennan hátt hægt að fylgjast með veðurfarsbreytingum. Skyndileg breyting á veðurlagi á hvorn veg sem er - nú eða í átt til öfga á báða bóga kæmi fram við samanburð við hegðan metanna síðastliðin 22 ár. - En því nenna nú fáir nema útnörd - eins og ritstjóri hungurdiska - varla að slíkt eftirlit verði í forgangi hjá því opinbera (þrátt fyrir tal um veðurfarsbreytingar).

Við skulum líka líta á línurit sem sýnir samband hámarksmetahlutarins og landsmeðalhitans (hana má líka finna sem pdf-skjal í viðhengi - skýrari).

w-blogg090118b

Lárétti ásinn markar hámarksmetahlutinn, en sá lóðrétti meðalhitann. Punktadreifin raðast vel og reglulega í kringum beina línu - því fleiri sem hámarkshitametin eru miðað við þau köldu, því hlýrra er árið. Fylgnistuðull er 0,92. En við skulum ekki venja okkur á að líta alveg hugsunarlaust á dreifirit sem þetta - athugum t.d. að hlutur hámarksmeta getur ekki orðið hærri en 1,0. Skyldi árið þegar landsmeðalhiti nær 6,14 stigum verða algjörlega lágmarksmetalaust? - eða árið þegar landsmeðalhitinn fellur niður í 2,6 stig - skyldu þá nákvæmlega engin hámarkshitamet verða sett? 

Við þurfum ekki að fara lengra aftur í tímann en til 1983 til að finna lægri landsmeðalhita en 2,6 stig - og árið 1979 var hann ekki nema 1,8 stig. - Það var ábyggilega ekki mikið um hámarkshitamet þessi ár. - En þau eru samt til og standa enn á þeim fáu stöðvum sem athugað hafa allan tímann. Sé eingöngu miðað við þær stöðvar er hámarksmetahlutur ársins 1979 0,05, en 0,14 árið 1983. Bæði árin lenda langt neðan við þau sem við sjáum á línuritinu. Hið hlýja ár, 1964 stendur á sama stað og það nýliðna við hlutfallið 0,6. Þá var hiti svipaður og 2017 (lítillega lægri þó). 

En fleira nördalegt kemur fram í metaskránum. Hvaða daga féllu flest dægurmet? Svarið sem gefið var í fyrra hefur ekkert breyst - sömu dagar eru á toppnum og þá.

Flest hámarksdægurmet féllu samtímis á jóladag árið 2005, á 90 prósentum stöðvanna. Man nokkur nokkuð frá þessum degi? Varla, en hann er sum sé allt í einu orðinn merkilegur. Enginn annar hlýr jóladagur hefur hreyft við þeim fjölda meta sem þá féll. Þetta var fyrir tíma hungurdiskabloggsins.

Flest féllu lágmarksmetin 30. apríl 2013, á 94 prósentum stöðvanna - hlutfallstalan var 92 prósent í pistlinum í fyrra - en eftir það bættust við stöðvar inn á 5. ár og urðu þarmeð mettækar - og hækkuðu hlutfallið. Um þetta merkilega kuldakast fjölluðu hungurdiskar - dögum saman - því kuldinn hélst í marga daga. Auðvelt er að fletta þessum fróðleik upp - hafi einhver þrek til.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Af frosinni jörð

Nú má minna á að eftir snjóleysi og frost er jörð víða frosin (og þar með gangstéttir, bílastæði, vegir og fleira). Regn sem fellur á frostkalda jörð verður fljótt að ís - jafnvel þó hiti í lofti sé langt ofan frostmarks. - Kannski er óþægilegast hversu misfrosið er - glærahálka getur því verið á litlum blettum þótt yfirborð sé þítt annars staðar.

kaupfjelagsfjara_des1974

Ástand sem þetta getur orðið viðvarandi allt þar til hádegissólar fer að gæta að gagni upp úr 20. febrúar - nema meiriháttar hlýindi taki nú við (sem varla er mjög líklegt). Ástandið er skárra þar sem snjór hylur jörð - tímabundin snjóalög gætu einnig flýtt fyrir, jafnvel þó frost fylgi - þá gæfist jörðinni færi á að hlýna hægt að neðan - og léttara verður fyrir síðvetrarsólina að vinna sitt verk þegar að henni kemur.


Hvað getur hiti mælst hár á landinu?

Fyrir nokkrum dögum veltum við vöngum yfir því hversu kalt getur orðið á Íslandi. Rétt er að láta ámóta umfjöllun um hæsta mögulega líka fljóta með þó miður vetur sé (svo hún gleymist ekki alveg). Ekki er hún þó alveg jafnlöng og hin. – Er ritstjórinn eitthvað farinn að mæðast?

Til að hitabylgju geri þarf hlýtt loft að vera yfir landinu, ekki dugir eitt og sér að sólin skíni liðlangan daginn. Verði upphitun af völdum sólar nægileg kemur að því að loftið verður óstöðugt. Sé kalt loft yfir þarf litla upphitun til að koma af stað lóðréttri blöndun sem endar oft með skúraveðri og skýjum, en sé loftið hlýtt þarf meira til að mynda skúrir og ský. Loft „ber“ því mismikla hitun að neðan.

Þykktin (fjarlægðin) milli 500 og 1000 hPa flatanna er ágæt nálgun á hita í neðri hluta veðrahvolfs. Því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Venja er að mæla hana í dekametrum, 500 hPa flöturinn er á sumrin gjarnan í um 5,5 km hæð, en það eru 550 dam, 1000 hPa flöturinn er mjög nærri jörðu, oft á sumrin í um 80 m eða 8 dam, sé notast við þessar tölur væri þykktin 542 dam (550-8). Þykktin er góður mælikvarði á „burðarhitann“

Mjög sjaldgæft er að þykkt yfir landinu verði meiri en 560 dam. Hæsta gildi sem við þekkjum á tíma háloftaathugana er 567 dam sem mældust yfir Keflavíkurflugvelli í hitabylgjunni miklu í ágúst 2004.

Það lætur nærri að hver dekametri samsvari u.þ.b. 0,5°C fyrir allt loftlagið milli þrýstiflatanna tveggja. Á vetrum á kalt heimskautaloft erfitt með að komast hingað óblandað vegna upphitunar yfir hlýjum sjó. Áhrif sjávarins eru öfug að sumarlagi, hann kælir þá ætíð hlýtt loft sem hingað berst þannig að loftið er tiltölulega langkaldast neðst en hlýrra ofar. Þykktin „ofmetur“ þá hita í neðstu lögum, mismikið þó.

w-blogg080118

Myndin sýnir dæmi um samband þykktar og hámarkshita á landinu. Í kuldapistlinum var miðað við tímabilið 1949 til 2016, en hér látum við tímann frá og með 1996 nægja – og mælingar sjálfvirku stöðvanna eingöngu. Gögnin voru matreidd þannig að gerður var listi þar sem annars vegar má finna þykkt á hádegi ákveðinn dag, síðan var hæsti hámarkshiti sama dags fundinn. Að því loknu var meðaltal reiknað fyrir hvern dekametra í þykkt, auk þess sem hæsta og lægsta hámark sama dekametra var fundið.

Grænu krossarnir sýna meðalhámark hvers þykktarbils og víkur nær ekkert frá beinni línu. Rauðu krossarnir sýna hæsta landshámark á hverju þykktarbili og rauða línan er aðfallslína hámarkaþýðisins. Ekki er fjarri lagi að telja „hámarksburðarhita“ viðkomandi þykktar liggja í punktasafninu rétt ofan rauðu línunnar, en þó verður að hafa í huga að hér er nokkur árstíðasveifla bæld (ekkert um hana fjallað hér).

Svo kann að virðast að hámarkaferillinn víki nokkuð frá línunni efst og neðst, en hér er nær örugglega um sýndarvik að ræða sem orsakast af því að úrtakið er svo lítið nærri útgildunum. Líklegast er að tilviljanakennt stak liggi nær meðaltali heldur að um útgildi sé að ræða, eftir því sem stökum í þessum þykktarbilum fjölgar (með árunum) mun tilviljun sveigja gildin í kringum 560 dam og neðan við 500 dam nær aðfallslínunni. Takið eftir því að hallatalan er hér 0,42 sem er litlu minna en þau 0,5°C/dam sem minnst var á að ofan.

Við 500 dam þykkt er rétt svo að hæstu landshámörk nái frostmarki, við 560 dam er meðaltal landshámarka um 23°C, en miklar líkur eru á að tilvik eigi eftir að koma þar með 30°C sem landshámark, við þessa þykkt.

Eins og áður sagði er mesta þykkt sem hefur komið á tímabilinu 567 dam (sú mæling var þó ekki á hádegi og sést því ekki á myndinni). Sú þykkt á mest að geta gefið 32,5°C sé eitthvað að marka aðfallslínuna. Hærri hitatölur eru mögulegar, í fyrsta lagi vegna þess að (líkleg) 100 ára þykkt er meiri en 567 dam og í öðru lagi vegna þess að allmargir punktar eru lítillega ofan aðfallslínunnar þannig að á lengri tíma myndi hún væntanlega hækka vegna þess að þau frávik sem sjá má neðan línunnar lækka hana, þeim fækkar alveg örugglega í tímans rás. Við bestu skilyrði gæti hitinn því orðið 1 til 2°C hærri en nefnt var eða um 34°C. Auk þess flýtir þétting stöðvakerfisins fyrir því að raunverulegt ítrasta hámark (burðargeta) hvers þykktarbils finnist.

Aukin hlýindi af völdum aukinna gróðurhúsaáhrifa munu um síðir valda aukinni tíðni mikillar þykktar yfir landinu – en jafnerfitt mun samt verða að hitta vel í og nú. Við tökum t.d. eftir því að sé að marka grænu aðfallslínuna ætti meðallandshámarkshiti við þykktina 570 dam „einungis“ að vera um 27 stig. Tugir daga (og 100 ár) með 570 dam gætu því þurft að líða áður en 34 stiga hámarkshita verður náð. – Nú, eða að fyrsti 570 dam dagurinn gæti hitt vel í – miði er möguleiki eins og sagt er.


Nokkrar gamlar kuldatölur

Við (veðurnördin) skemmtum okkur yfir nokkrum gömlum kuldatölum. Ritstjórinn hefur gert lista um 15 köldustu daga í Stykkishólmi og Reykjavík - svo langt sem mælingar sjá. Stykkishólmslistinn er býsna áreiðanlegur - en meiri vafi leikur á elstu tölum Reykjavíkurlistans - en þær hafa samt eitthvað gildi. 

röðármándagurmhiti
11918120-27,2
21918121-26,7
31881320-23,2
41881129-23,1
51881321-22,8
61881128-22,6
71918112-22,3
81855224-21,7
91881322-21,4
101855222-21,2
11189238-21,2
12188123-21,1
121881319-21,1
141918111-21,1
151855223-21,0

Tveir köldustu dagar alls tímans frá upphafi mælinga í Stykkishólmi (haustið 1845) eru frá frostavetrinum mikla 1918. Það eru 20, og 21. janúar. Dagur úr sama mánuði, sá 12. er í sjöunda sæti listans og sá 11. í því 14. Alls fjórir dagar af 15. 

Frostaveturinn 1881 á hins vegar 7 fulltrúa á listanum, bæði úr janúar, febrúar og mars. Kuldarnir þá stóðu mun lengur en 1918. Febrúar 1855 á þrjá fulltrúa á listanum. Mjög merkilegt kuldakast gerði í þeim mánuði - ekki fullrannsakað, en þá var ekki mælt í Reykjavík - hins vegar víðar á landinu. 

Um þær mundir mældi Sr. Jón Austmann hita daglega á Ofanleiti í Vestmannaeyjum. Í athugasemdum við mánuðinn (febrúar 1855) segir hann: 

Himinblíða 1. til 14. Feb. Þar eð termometrið tók eigi nema 20- varð eigi með vissu ágiskað hvað frostið steig hátt, svo tók jeg það inní hús er vissi að 2-3° herti frostið eptir það. 

Hvað um það - meir en -20 stiga frost í Vestmannaeyjum er allnokkuð og sýnir hörkuna þessa daga - sem líka voru hvassir. 

Þjóðólfur segir 28. apríl: Frostgrimmdin hefir og verið mikil öðru hverju, - hér sunnanfjalls 17—18°R.; í Dalasýslu eins (-24°C); austanfjalls, á Eyrarbakka, 22°R.; að norðan og lengra að vestan höfum vér ekki sanna frétt; - það er og fádæmi, að Þjórsá og einkum Hvítá í Árnes-s. skuli hafa verið með hestís fram yfir sumarmál, eins og nú.

Fréttablaðið Ingólfur segir 18. apríl: Sú hin hryðjusama veðurátta, sem gengið hafði frá því fyrir Jólaföstu, hjelzt að eins rúma viku framan af árinu; þá gjörði hláku og hægviðri, sem hjelzt til hins 20. dags janúarm.; þó leysti ekki svo upp snjó og klaka, að jörð kæmi upp að nokkrum munum, því þegar með þorrakomu gekk veðurátta til hægrar kælu með vægu frosti og heiðríkju. Munu færri menn muna jafn bjartan og heiðskýran þorra, því svo mátti kalla að eigi sæist ský á lopti í 5 vikur, nema hvað einstaka sinnum brá yfir hrímþoku, er mun hafa verið undanfari hafíss þess, sem þá var að reka að landinu. Nú þegar Góa gekk í garð, gjörðist veðurátta kaldari, þó veðurreynd væri hin sama; var hún tíðast með norðanstormum, nokkru kafaldi og einstaklegri frosthörku um tíma; fyltist þá allt með hafís fyrir norðan og austan, svo að hann rak vestur með landi.

Þá er það (hinn vafasamari) Reykjavíkurlisti:

röðármándagurmhiti
11918121-23,7
21918120-21,8
31918113-21,3
41784118-21,2
51785129-20,1
6189238-19,3
61918111-19,3
81918112-19,2
9189239-19,0
101789219-18,8
111782129-17,8
121881127-17,8
13191934-17,7
141881129-17,6
151785128-17,6

Hér eru sömu dagar og í Stykkishólmi kaldastir, og þrír janúardagar 1918 til viðbótar á listanum (í 3.,6.-7. og 8. sæti). Árið 1881 á ekki nema tvo. 8. mars 1892 er á báðum listum, en á Reykjavíkurlistanum er líka kaldur marsdagur 1919 - þá lagði Reykjavíkurhöfn innan garða - rétt eins og 1918 og fór þá um menn í nokkra daga. Borgarfjörð lagði líka - og vafalaust fleiri firði víða um land, en hafís var lítill. 

Í fjórða sæti er dagur frá móðuharðindavetrinum 1783-84 - gott að minna á þau, en líka dagar fleiri vetra um það leyti - 1782, 1785 og 1789. Þó við vitum ekki um nákvæmni þessara talna - gæti hæglega skeikað um 1 til 2 stig til eða frá - sjáum við vel að um mjög kalda daga var að ræða. 


Sunnanáttarvæntingar

Nú er sunnanáttarhljóð í reiknimiðstöðvum. Við lítum á kort sem sýnir stöðuna í háloftunum síðdegis á mánudag, 8. janúar.

w-blogg070118a

Jafnhæðarlínur eru heildregnar, þar sem þær eru þéttar er vindur mikill. Þykktin er sýnd í lit en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. 

Ísland er á kortinu í mikilli sunnanátt og hlýnandi veðri - og þar með trúlega mikilli úrkomu um tíma um landið sunnanvert. Að undanförnu hefur verið ákveðin tilhneiging til hæðar- eða hryggjarmyndunar yfir Skandinavíu og kannski er nú að verða af slíku. Bylgjugangurinn úr vestri er reyndar nokkuð stríður og bæði ræðst hann á hrygginn og byggir hann upp - má vart sjá hvort hefur betur upphleðsla eða niðurrif. 

Kuldapollurinn Stóri-Boli er aftur að komast í sæti sitt eftir nokkra útrás til suðurs að undanförnu og eitthvað er að hlýna aftur í Bandaríkjunum - í bili að minnsta kosti. Í Evrópu fer framhaldið mjög eftir því hvort hryggurinn slitnar frá og myndar sjálfstæða hæð - fari svo gæti kalt loft úr austri skotið sér vestur úr og valdið vandræðum - jafnvel verulegum. En um þann möguleika eru spár ekki sammála. 

Hér á landi er gert ráð fyrir nokkrum hlýjum landsynningshvassviðrum í röð - en vægum sunnanáttum eða hægum svalari útsynningi á milli. - Lengra framhald ræðst svo auðvitað af örlögum hæðarinnar - víki hún gætum við lent aftur í norðanáttum - standi hún sig og setjist að fyrir norðan eða norðaustan land gæti tíð orðið góð hér á landi. Um þetta vitum við þó ekkert - auðvitað. 


Hvað getur hiti orðið lágur á Íslandi?

Hér fylgja mjög langar vangaveltur og lítið er um svör. Löng og torsótt leið er að því svari sem þó er gefið. Munu margir gefast upp áður en komið er á leiðarenda og aðeins mestu þrekmenn komast alla leið. Hvað finna þeir þar? Gengu þeir framhjá svarinu á leiðinni?

Við byrjum á umræðum um „þykktina“, hugtak sem oft kemur við sögu á hungurdiskum.

Þykktin (fjarlægðin) milli 500 og 1000 hPa flatanna er ágæt nálgun á hita í neðri hluta veðrahvolfs. Því minni sem hún er því kaldara er loftið. Venja er að mæla hana í dekametrum (1 dam = 10 metrar), 500 hPa flöturinn er á vetrum að meðaltali í um 5,2 km hæð, en það eru 520 dam, 1000 hPa flöturinn þá að meðaltali mjög nærri yfirborði eða í 0 dam.

Sé notast við þessar tölur væri þykktin 520 dam (520-0). Sé þrýstingur við jörð lægri en 1000 hPa er 1000 hPa-flötinn strangt tekið hvergi að finna, en til að þykktin sé reiknanleg er miðað við að þrýstingur breytist um 1 hPa á hverja 8 metra og þrýstingur við jörð er framlengdur niður fyrir sjávarmál. Sé þrýstingur t.d. 995 hPa er 1000 hP-flatarins að leita í fjarlægðinni 5*8 = 40m = 4dam undir sjávarmáli eða í -4 dam hæð. Sé 500 hPa hæðin á sama tíma 520 dam yrði þykktin 524 dam (520 mínus -4 = 520+4)).

Mjög sjaldgæft er hérlendis að þykkt fari niður fyrir 495 dam og sömuleiðis er sjaldgæft að hún fari yfir 550 dam að vetrarlagi. Frá og með 1949 hefur hún minnst orðið 489 dam yfir landinu (aðfaranótt 1. mars 1998), næstlægstu gildin eru 490 dam (aðfaranótt 28. desember 1961) og 493 dam (4. janúar 1968 og 18. desember 1973).

Afburðakalt var á landinu alla þessa daga og má af ráða að aftakalágri þykkt fylgja aftakafrosthörkur. Það lætur nærri að hver dekametri samsvari u.þ.b. 0,5°C fyrir allt loftlagið milli þrýstiflatanna tveggja. Að vetrarlagi ræður útgeislun mjög hita yfir landi, þykktin „ofmetur“ þá hita í neðstu lögum, mismikið þó.

Fyrsta myndin sýnir tíðnidreifingu þykktarinnar yfir Íslandi 1949 til 2016. Til aðstoðar var bandaríska endurgreiningin svonefnda notuð auk gagna frá evrópureiknimiðstöðinni. Aðeins var litið á gildi yfir miðju landi (65°N, 20°V) og í greiningu á hádegi hvers dags. Ítrustu aftök vantar því í skrána – þau hitta hvorki á mitt land, né á hádegi. Í safninu eru 24.837 dagar.

w-blogg060118a

Í þessum pistli höfum við einkum áhuga á lágri þykkt – köldum dögum. Gögnin segja okkur að á því 68 ára tímabili sem undir liggur hafi hádegisþykktin verið 500 dam eða lægri aðeins 53 sinnum, innan við einu sinni á ári að meðaltali. – Enda sést varla marka fyrir þeim á tíðniritinu. Þykktin er 510 dam eða minni í um 3,4 prósent daga. Það eru þó 12 dagar á ári.

Á næstu mynd má sjá dæmi um samband þykktar og lægsta lágmarkshita á landinu. Gögnin voru matreidd þannig að eftir að þykkt dagsins var fundin var jafnframt leitað að lægsta lágmarkshita í byggðum landsins sama dag. Að því loknu var meðaltal reiknað fyrir hvern dekametra í þykkt, auk þess sem lægsta lágmark og hæsta lágmark sama dekametra var fundið.

w-blogg060118b

Bláu krossarnir á myndinni sýna lægsta landslágmark hvers þykktarbils fyrir allt árið og víkur mjög frá beinni línu. Rauðu krossarnir sýna hæsta landslágmark í hverju þykktarbili, vik frá beinni línu er mun minna en frávik bláu krossanna en vikið stafar trúlega af fjöldarýrum þýðum hæstu og lægstu þykktarbilanna (sjá fyrri mynd), líklegt er að eftir því sem stökum í bilunum fjölgar (með árunum) muni tilviljun sveigja efsta og neðsta hluta „bláa þýðisins“ nær beinni línu.

Meðallandslágmark hvers þykktarbils er merkt með grænum krossum og er beina græna línan aðfallslína meðalþýðisins sem fellur mjög vel að gögnum. Hafa ber í huga að á myndinni er ekki tekið tillit til árstíðasveiflu af neinu tagi. Takið eftir því að hallatala grænu línunnar er hér 0,40°C/dam sem er ívið minna en þau 0,5°C/dam sem minnst var á að ofan.

Sitthvað athyglisvert má sjá á myndinni og skal bent á nokkur atriði.

(i ) Lægsti lágmarkshiti á landinu hefur alltaf verið undir frostmarki þegar þykktin er undir 520dam.

(ii) Ekki er tryggt að frostlaust sé á öllum stöðvum jafnvel þó þykktin sé í algjöru hámarki, líkur eru þó sáralitlar sé þykktin yfir 557dam. Í þessum tilvikum má þó ætíð reikna með því að um „gamalt“ loft sé að ræða sem ekki hefur blásið burt þegar hlýja loftið kom yfir - eða að kalt sjávarloft ráði ríkjum á útnesjum. Örfáar stöðvar á landinu geta „leyft sér“ að hegða sér með þessum hætti – kynna mætti þær við annað tækifæri.

(iii) Lægstu gildin (frost meir en 30°C) eru öll á þykktarbilinu 507 til 520, við lægri þykkt eru lægstu landslágmörk hærri. Þetta stafar af einhverju leyti af því hversu miklu algengari þykkt á efra bilinu er en því neðra og lítið úrtak neðri gildanna hafi enn ekki skilað lægstu mögulegu gildum við þá þykkt.

Ef við t.d. framlengjum gráu línuna sem sett hefur verið nærri neðstu punktunum á bilinu 540 til 510 niður til 490 sitjum við uppi með rúmlega 40 stiga frost í lægstu þykktinni. Miðað við þetta þurfum við ekki að gera ráð fyrir því sem skýringu á metkuldanum um 20. janúar 1918 að þykktin hafi verið undir 490dam. Dagarnir þeir hafi bara „hitt vel í“ – rétt eins og aðrir dagar sem nærri gráu línunni liggja - nýtt landslágmarksmet mun geta fallið án þess að lágþykktarmet sé endilega slegið. Líkur á nýju lágmarkshitameti verða þó meiri fari þykktin enn neðar - sem hún getur gert. 

Að minnsta kosti tvær aðrar skýringar á háum lægstu lágmörkum við lága þykkt koma til greina.

(i) Kuldaköst ráðast mjög af aðstreymi, en Ísland er eyja og kalt loft sem berst til landsins þarf að streyma yfir sjó sem er miklu hlýrri. Sé aðstreymið tiltölulega hægt hitnar loftið mjög að neðan og verður mjög óstöðugt með þeim afleiðingum að uppstreymi hefst og þar með blöndun (og þykktin hækkar smám saman). Því kaldara sem aðstreymisloftið er (því minni sem þykkt þess er) því óstöðugra verður það yfir sjó. Á bak við dreifingu landslágmarks má finna stöðugleikaróf, en það (rófið) er ekki eins fyrir öll þykktarbil. Sé þykktin mikil eru möguleikar á afbrigðilega miklum stöðugleika í neðstu lögum miklir, eftir að loft er orðið kaldara heldur en sjórinn hraðminnka möguleikar á miklum stöðugleika í neðstu lögum. Þetta þýðir að jafnvel þótt stök í þykktarbili við t.d 495 væru jafn mörg og stök í bili við 515 væri líklegra að finna gildi fjarri meðallínunni í síðarnefnda bilinu en því fyrra. Af þessari ástæðu mætti því búast við því að sjórinn „spillti fyrir“ möguleika köldustu dagana til landsmeta fari þykkt niður fyrir ákveðin mörk sem gögnin benda til að séu hér á landi nærri 510dam. En muna skal að þessir dagar eru þrátt fyrir allt þeir köldustu á landsvísu því ofsafrost við sjóinn er einungis mögulegt þegar þykktin er mjög lág.

(ii) Kalt loft (lág þykkt) sem berst með hvössum vindi til landsins verður síður fyrir áhrifum af sjónum en loft sem kemur í hægviðri, einfaldlega vegna þess að það er styttri tíma yfir hlýrri sjó. Í hvassviðri blandast loft hins vegar í neðstu lögum vegna kviku og stöðugleiki í kvikulaginu er lítill. Hvassviðrið breytir því stöðugleikarófi þykktar rétt eins og sjávarhitinn einn og sér og spillir fyrir stórum neikvæðum hitavikum við lága þykkt.

Þegar veðurlagið 1918 og 1881 er skoðað frekar kemur í ljós að kuldaköstin um 20. jan 1918 og 20. mars 1881 eiga það sameiginlegt að vindur var hægur og veður bjart dagana sem kaldast varð. Óvenju kalt loft kom að landinu í báðum tilvikum í ákveðinni norðanátt, lyftist og kólnaði innrænt á leið sinni fram dali, metin urðu síðan þegar loftið kólnaði enn frekar með hjálp útgeislunar. Hitahvörf myndast þá skammt frá yfirborði, en við slík skilyrði verður hiti ekki lægstur á fjallatindum heldur í skálarlaga sléttlendi fram til heiða þar sem loft sér aðeins hæga útrás, Svartárkot, Möðrudalur, Grímsstaðir og Mývatn eru einmitt dæmi um slíka staði.

Trúlega má finna svipaðar aðstæður heldur hærra yfir sjó, fjölgun sjálfvirkra veðurstöðva verður til þess að slíkir staðir finnast um síðir, en hægt væri einnig að leita að þeim með hjálp landupplýsingakerfa og veðurlíkana. Ritstjóri hungurdiska (og fleiri) sitja yfir spákortum harmonie-líkansins og leita að afburðalágum tölum þásjaldan mikil kuldaköst gerir.

Landfræðilega svipaða staði má einnig finna á láglendi en líkur á algjörum metum eru minni þar vegna þess að það munar um innrænu kólnunina sem átti sér stað þegar loftið streymdi upphaflega til hærri staða. Sömuleiðis eru algjör met ólíkleg sunnan vatnaskila vegna þess að þar ríkir loft sem er á niðurleið.

Í hvassviðri er hins vegar kaldast á fjallatindum því þá er loft oftast vel blandað og hitahvörf ekki að finna fyrr en komið er upp fyrir flesta ef ekki alla tinda hér á landi. Fyrsti dagur fárviðrisins sem gerði í lok janúar 1881 (kennt við póstskipið Fönix) var afspyrnukaldur, þá var hiti í Stykkishólmi -25,4°C í norðaustan 5 vindstigum að fornum hætti (20-25m/s). Líklegt er að hiti í 1000 m hæð hafi þá verið -34 til 35°C og jafnvel -40°C í 1500m (sem aldrei hefur gerst á síðari áratugum). Af þessu má sjá að ólíklegt er að kuldamet verði slegin á veðurstöð sem er undir 1200 til 1500 m hæð vegna innræns hitafalls eingöngu, en á tindi Öræfajökuls gæti frostið við slík skilyrði orðið meira. - Eins konar „útgeislunarviðbót“ þarf að koma til. 

Hiti hefur verið mældur í Möðrudal eða á Grímsstöðum í hátt í 140 ár og í um 90 ár við Mývatn. Lágmörkin 1918 teljast því nokkuð örugglega 100 ára gildi landslágmarks, miðað við þetta gisið stöðvakerfi. Lágmarkið frá Neslandatanga við Mývatn frá 1998 virðist í fljótu bragði vera 40 til 50 ára lágmark þar ef miðað er við samtímalágmörk nágrannastöðva, en varlegt er þó að fullyrða þar um fyrr en mælt hefur verið í enn fleiri ár.

Hafís eykur greinilega líkur á því að mjög kalt loft berist að landinu (það sýnir hegðan kuldakasta á hafísárunum svonefndu, 1965 til 1971) – heimskautaloftið er þá styttri tíma yfir sjó á leið til landsins. Líklegra verður því að telja að algjört lágmarksmet verði sett í hafísári fremur en hafíslausu, en þó skal bent á það að marslágmarkið í Möðrudal 1962 kom án hafíss og við tiltölulega háa þykkt. Samsvarandi tilvik með lægri upphafsþykkt gæti því gefið nokkru lægri hita og þar með orðið ógnun við aðalmetin frá 1918.

Útgeislunarskilyrði hljóta að hafa verið með besta móti 1962, ef sá ólíklegi kostur kemur upp að jafngóð skilyrði skapist við þykktina 490 dam og gerði þá við 520 dam gæti hitinn, þykktarinnar vegna, orðið 15 stigum lægri en -33°C, þ.e. -48°C. Loftið sem lá yfir Möðrudal 1962 var að vísu þangað komið við nokkru minni þykkt en var sjálfan metdaginn, viku áður hafði þykktin farið niður í 500 dam, sé miðað við þá tölu gefa 490 um 5°C lægri hita en -33°C, þ.e. -38°C. Það er hins vegar mikill „vandi“ að halda lofti yfir sama stað i viku, til þess má ekkert loft renna burt svo heitið geti, en í stað þess sem rennur burt kemur hlýrra loft að ofan og spillir metum auk þess sem hinn minnsti vindur blandar hlýju lofti að ofan niður í kalda lagið neðst. Snjór verður auk þess að vera á jörðu til að jörðin fari ekki að velta þunnu loftlagi neðan hitahvarfa. 

Að vetrarlagi getur loft kólnað mjög í neðstu lögum vegna útgeislunar og þar sem þannig hagar til að loftið rennur ekki jafnóðum í burtu getur kuldi legið yfir jafnvel dögum saman sé vindur hægur eða enginn og blöndunarmöguleikar því takmarkaðir. Þegar sól hækkar á lofti endist útgeislunarkuldi yfirleitt ekki nema frá sólarupprás og fram á dag sé kalda loftlagið þunnt. Kalt loft rennur að jafnaði burt eftir halla undan þunga sínum ekki ósvipað og um vatn væri að ræða. Sé land bratt á leið þess aukast líkur á ókyrrð og þar með blöndun við hlýrra loft ofan við. Þetta veldur því að kuldamet eru sjaldan slegin þar sem brattlendi er nærri þó skýranlegar undantekningar megi finna frá meginreglunni.

Loft sem leitar niður á við vegna áhrifa þyngdaraflsins hlýnar að sjálfsögðu vegna þrýstihækkunar, en jafnframt heldur útgeislun áfram þannig að það kólnar. Fer þá eftir aðstæðum hvort hefur betur, sé hreyfingin mjög hæg og landlækkun ekki mikil er líklegt að loftið haldi áfram að kólna eftir að það leggur af stað.

Sömuleiðis kemur fyrir að það hittir annað loft sem líka er á niðurleið upprunnið á annarri heiði eða í öðrum dal. Sé vindur nægilega hægur er ekki ólíklegt að það loft sem hærri mættishita hefur lendi ofan á hinu. Þetta gæti t.d. gerst inni í Eyjafirði, veikur straumur lofts með mjög lágan mættishita leitar út breiðan dalinn en loft úr hlíðunum sem kemur hærra að og að auki úr meiri bratta (blandað) og hefur því hærri mættishita, lendir ofan á loftinu í miðjum dalnum sem heldur áfram sinni hægu hreyfingu til Akureyrar. Þetta veldur því að lægsti hiti í Eyjafirði öllum getur orðið á svæðinu rétt við fjarðarbotninn.

Eitt atriði vill gjarnan gleymast í umræðunni um útstreymið, loftið sem kemur í stað þess sem streymdi burt. Leki loft af stórri sléttu hægt í átt til sjávar verður hægfara niðurstreymi yfir, þar er ætíð fyrir loft með hærri mættishita og sé lekinn nægilega mikill endar þetta loft niður undir jörð og hitinn á sléttunni hækkar. Hér er auðvitað einnig um samkeppni útgeislunar og niðurstreymis að ræða eins og í dæminu að ofan. En svo virðist vera sem miklir kuldar í hægum vindi haldist sjaldan við til lengdar vegna þess að kalda loftið er svo fljótt „búið“.

Mestra kulda er því að vænta á stöðum langt frá sjó þar sem frárennsli er lítið (og helst ekkert). Flatneskjan í kringum Möðrudal, Svartárkot og frosið Mývatn er sú sem næst kemst þessu á þeim stöðvum sem nú eru í rekstri. Líklegt má þó telja að kaldasti staðurinn sé ekki fundinn ennþá.

Útgeislunarhitahvörf eru að jafnaði mjög þunn og standast ekki vind að ráði, e.t.v. mætti giska á að hinn minnsti þrýstivindur blandaði þeim upp. Aðstreymishitahvörf eru dýpri en það er aðeins í undantekningartilvikum að engin hitahvörf finnast undir veðrahvörfum. Algengt er hins vegar að neðstu 1-3 km lofthjúpsins myndi svokallað kvikulag og hitahvörf séu við efra borð þess, en mættishiti sé hinn sami í því öllu. Kalt loft berst venjulega með vindi að landinu í lagi sem þessu, það telst oftast fremur grunnt. Um leið og lægir yfir landinu fer loftið að kólna neðanfrá (tapar varmaorku, mættishiti þess lækkar) og útgeislunarhitahvörf myndast. Jafnframt fer útgeislunarlagið að renna niður í móti og þá dregur það loft niður í staðinn sem lendir alveg niður undir jörð.

Svo lengi sem niðurstreymisloftið uppruna sinn í gamla kvikulaginu verður hlýnunar af völdum niðurstreymisins lítið vart (mættishiti í kvikulaginu var þvínæst hinn sami í því öllu), en um leið og loft ofan hitahvarfanna (þar sem mættishiti er hærri) nær til jarðar hlýnar. Eigi kuldi að haldast er því heppilegt að kvikulagið hafi verið sem þykkast í upphafi, sömuleiðis er heppilegast að niðurstreymið sé sem minnst þannig að langur tími líði þar til hlýrra loftið er komið niður. Niðurstreymið er minnst þar sem lítið getur lekið burt af kalda loftinu, en það er á flatlendi.

Á hájöklum landsins getur orðið mjög kalt í hvassviðri og allra fyrst eftir að lægir. Á flatneskju og í breiðvöxnum dældum á Vatnajökli rennur loft ekki greiðlega burtu. Þar gæti því orðið kaldast á Íslandi. Sífelldir kaldir straumar renna niður skriðjökla og jökulbungur, þeir hlýna hins vegar innrænt í niðurstreyminu (um 1°C/100m lækkun) og verða þá jafnvel hlýrri en loftið á hásléttunni umhverfis þar sem loft streymir hægar burt. Þetta hefur sést vel bæði í mælingum og í veðurlíkönum.


Skemmtileg lægð

Á morgun (föstudag 5. janúar) á að myndast dálítil lægð vestan við land - þvert ofan í norðaustanstrekkinginn sem ríkjandi hefur verið undanfarna daga. Lægðir sem þessar eru ekkert óskaplega sjaldséðar en ritstjóra hungurdiska finnst þær alltaf skemmtilegar, ekki síst vegna þess uppáhalds sem þær voru í hjá honum á hans fyrstu sokkabandsárum veðurástarinnar.

Það var haustið 1961 sem veðuráhuginn braust fram af miklum þunga - enda margt skemmtilegt á seyði. Veðurkort þau sem Morgunblaðið birti ýttu mjög undir áhuga og greiningu. Börn og unglingar hafa oftast gaman af snjó og svo var einnig um ritstjórann á þeim árum (nokkuð sem hann hefur svo algjörlega vaxið upp úr - en kannski ellin bjóði honum aftur upp á þá skemmtan). 

Þann 6. desember 1961 kom að landinu lægð - flestar lægðir koma með rigningu og slagviðri í Borgarfirði, en ekki þessi. Hún var minni um sig - og einhvern veginn allt öðru vísi en hinar og töluvert snjóaði. 

Við skulum líta á (óskýrt) veðurkort sem Morgunblaðið birti daginn eftir, þann 7. desember. Mér sýnist það vera félagi Jónas Jakobsson sem dregur kortið, en hefur sleppt ártalinu 1960 fram úr pennanum - en árið er í raun réttri 1961.

w-blogg050118

Heldur óskýrt er þetta - vekur samt hlýjar minningar - en vel má sjá litla lægð skammt fyrir vestan land.

Við skulum líta betur á stöðuna með aðstöð japönsku veðurstofunnar.

w-blogg050118b

Hér sést lægðin vel - orðin til úr engu að því er virðist á Grænlandshafi vestur af Íslandi. Það er sunnanáttin suður í hafi sem gefur í lægðina og mætir köldu lofti að norðan. 

w-blogg050118c

Háloftakortið sýnir stöðuna enn betur - og hversu lítið kerfið var. Tota af hlýju lofti (rauð strikalína) teygir sig í átt til landsins, en kalt lægðardrag (gul strik) kemur á móti. Samspil þessara litlu kerfa búa til lægðina við yfirborð og úrkomuna. Lægðin fór síðan til suðausturs og var úr sögunni. 

Staðan er ekki eins í dag - en stærð kerfisins sem er nú að fara í gang er mjög svipuð, staðurinn nánast sá sami, og grunnaðstæður svipaðar. Dálítil tota af hlýju lofti mætir köldu háloftalægðardragi.

w-blogg050118d

Evrópureiknimiðstöðin sýnir okkur hugmynd um stöðuna síðdegis á morgun (föstudag). Við sjáum lægðina litlu á Grænlandshafi vel - einmitt þegar hún er hvað skemmtilegust og óráðnust. 

w-blogg050118e

Háloftakortið gildir á sama tíma. Rauðu strikin sýna hlýju totuna sem fyrr, og þau gulu kalt lægðardrag. Ekki stórbrotið mjög - en nægir til að mynda skemmtilega lægð (með hálfleiðinlegu veðri - þykir ritstjóranum nú - trampandi á þeim unga sem veit ekkert um veðurfræði en vill bara snjókomu og fjör). 

En snjóar eða rignir? Það er nú það. Það rignir varla nema við sjávarsíðuna - en hversu víða þá? Í desember 1961 náði hlýja loftið ekki upp í Borgarfjörð - það snjóaði þar - og reyndar í Reykjavík líka (sjá mynd á forsíðu Morgunblaðsins 7. desember), en suður á Reykjanesi fór hitinn upp í 4 stig í rigningunni. 

Árið 1961 hreinsaði norðanaustanáttin alveg upp eftir lægðina litlu - en nú sækir hins vegar að mikil lægð úr suðvestri strax á sunnudag með að því er virðist afgerandi hláku - í bili að minnsta kosti. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 220
  • Sl. sólarhring: 279
  • Sl. viku: 2045
  • Frá upphafi: 2350781

Annað

  • Innlit í dag: 202
  • Innlit sl. viku: 1830
  • Gestir í dag: 196
  • IP-tölur í dag: 195

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband