Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2018
3.1.2018 | 23:01
Meira af desembervikum
Við lítum til gamans á tvær vikamyndir úr safni evrópureiknimiðstöðvarinnar - að venju með aðstoð Bolla Pálmasonar.
Sú fyrri sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins og meðalþykkt í desember - og auk þess þykktarvikin í lit. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið.
Við sjáum að það hefur verið dálítið kaldara en að meðallagi við Ísland og norðaustan við það. Þó ekki svo mjög kalt og vikin talsvert minni en við sáum á samsvarandi korti fyrir nóvembermánuð sem við litum á í pistli 2. desember síðastliðinn. Þá var hæðarhryggurinn flati ívið vestar en á þessu korti og áttin hér á landi því norðlægari.
En hlýindi eru meira áberandi á þessu korti heldur en kuldi. Svipað má segja um kort sem sýnir sjávarhitavikin í desember.
Ekki mikið um kulda hér (litirnir sýna hitavik), hiti yfir meðallagi á mestöllu Atlantshafi norðanverðu.
Þrátt fyrir að háloftavestanáttin hafi verið ívið stríðari en í meðalári voru vindar fremur hægir í desember og segja verður að vel hafi farið með veður.
Um og uppúr helgi kemur högg á kerfið úr vestri - reiknimiðstöðvar gefa til kynna tvenns konar framhald eftir það. Annars vegar að það hlýni verulega hér á landi og háþrýstisvæði byggist upp fyrir austan land, en hins vegar að hryggurinn sem varið hefur okkur undanfarna daga brotni niður og lægðir haldi svo áfram að ganga til austurs fyrir sunnan land eins og oftast hefur verið undanfarna tvo mánuði.
3.1.2018 | 17:21
Áramótaveður í Reykjavík
Nokkuð hefur verið rætt og spurt um áramótaveðrið í Reykjavík. Ekki var þar athugað um miðnætti fyrr en árið 1940 - (hiti þó mældur nokkur ár áður). Af einhverjum ástæðum féll áramótaathugun niður 1945.
Í meðfylgjandi textaskjali er listi yfir veður við áramót í Reykjavík. Frá og með 1987 fer reykur að koma fyrir æ oftar. Var þó einnig í athugun frá áramótum 1952/53 (þó skyggni væri ekki slæmt). Þá segir athugunarmaður í athugasemd:
Ég mátti til með að gefa reyk, þar sem svo mikill eldur var allstaðar í bænum! - Þá var stafalogn og talsvert frost, rétt eins og nú.
Einnig var reykur á áramótum 1964/65 - þó ekki hafi verið logn.
Í fáein skipti hefur verið meira frost en var nú, mest 1975/76, -12,1 stig. Mestur hiti var 1989/90, +7,4 stig á áramótum.
Á listanum má sjá að veðrið hefur langoftast verið skikkanlegt, hvassast 1984/85. - Hafa verður í huga að jörð hefur verið mjög misjöfn - og þó veður kunni að hafa verið gott gæti hafa verið mikil hálka og vandræði af hennar völdum.
2.1.2018 | 23:11
Alhvítir dagar á Akureyri óvenjufáir 2017
Þegar upp var staðið reyndust alhvítir dagar óvenjufáir á Akureyri árið 2017, aðeins 50 talsins. Þeir hafa aldrei verið svo fáir síðan snjóhuluathuganir hófust þar 1924, fjöldinn aðeins tæpur helmingur af meðallagi og innan við þriðjungur þess sem mest gerist.
Hér má sjá fjölda alhvítra daga á ári á Akureyri. Árið 1933 voru þeir 54 (fjórum fleiri en nú) og 56 árið 1964. Flestir voru þeir 1999, 161. Árin 1949 og 1950 vantar allmarga daga í snjóhuluathuganir - og hefur ritstjóri hungurdiska ekki treyst sér til að bæta úr þeirri vöntun. Ljóst er þó að alhvítir dagar þessi ár voru fleiri en 2017.
Við reiknum með því að útkoman 2017 sé eins og hver önnur tilviljun - að öðru leyti en því að hin almenna regla er sú að því hlýrra sem er í veðri því minni er snjóhulan - og árið 2017 var vissulega óvenjuhlýtt á Akureyri, í 4. til 6. sæti á hitalistanum (af 137). Hlýjasta árið á listanum er enn 1933 - sem áður er getið.
Sömuleiðis sjáum við að kuldaskeiðið frá 1965 og áfram sker sig nokkuð úr hvað almenn snjóþyngsli varðar. En samt er það svo að einstök ár njóta nokkurs frelsis - ár sem er bæði hlýtt og snjóþungt gæti gefið sig fram - rétt eins og kalt ár og til þess að gera snjólétt getur líka sýnt sig (þó líkur á slíku séu meiri syðra heldur en fyrir norðan).
Svo verður að taka fram að snjóhula í byggðum landsins 2017 hefur enn ekki verið reiknuð og borin saman við fyrri tíð - og að snjóþyngsli eru mæld á fleiri vegu en með því einu að telja alhvítu dagana.
2.1.2018 | 01:40
Dálítil fyrirstaða sér um vikuveðrið
Hún virðist ekki veigamikil fyrirstaðan sem evrópureiknimiðstöðin segir okkur að muni sitja nærri okkur þessa vikuna - en hún fer samt ekki nema sparkað sé rækilega í hana.
Kortið sýnir spá um meðalhæð 500 hPa-flatarins vikuna 1. til 7. janúar 2018. Hæðarhryggur á að verða í námunda við landið og heldur hann lægðum frá - svona að miklu leyti. Hafa skal þó í huga að hér er um meðalkort heillar viku að ræða. Litirnir sýna hæðarvik að þessu sinni. Sé spáin rétt verða litlar grundvallarbreytingar á veðri - kannski eitthvað hlýrra þó við sjávarsíðuna en verið hefur. Háloftahæðir eru oftast hlýjar - þó undir þeim geti verið harla kalt.
En svo eiga víst stórir hlutir að gerast vestur við Ameríkustrendur eftir miðja viku - kannski þar sé komið stígvélið sem sér um sparkið - ekki vitum við það enn. Bandarískir bloggarar og tístarar eru lausir á límingum þess vegna.
1.1.2018 | 22:28
Af hitavikum 2017 - eftir landshlutum
Eins og margoft hefur áður komið fram á þessum vettvangi var nýliðið ár mjög hlýtt og víðast hvar á landinu var það hlýrra en meðaltal síðustu tíu ára.
Kortið sýnir landfræðilega dreifingu vikanna á allmörgum sjálfvirkum stöðvum. Rauðar tölur sýna hvar vikið er jákvætt (hiti yfir 10-ára meðaltalinu), en þær bláu sýna þær fáu stöðvar þar sem árið 2017 var lítillega kaldara en meðaltalið.
Í Reykjavík var árið nákvæmlega í meðallagi áranna 2007 til 2016. Neikvæða vikið var stærst uppi á Botnsheiði (-0,14 stig). Um landið norðan og austanvert var hiti yfirleitt meira en 0,5 stigum ofan meðallagsins. Mest var jákvæða vikið á Öxi, 0,99 stig ofan meðallags, og ámóta á Eyjabökkum (0,96 stig ofan við).
1.1.2018 | 00:32
Hlýtt ár
Eins og að undanförnu hefja hungurdiskar nýtt ár með því að líta á stykkishólmshitalínuritið, en það nær nú allt aftur til ársins 1798 og fram til 2017 (að vísu með töluverðri óvissu fyrstu 30 árin).
Árið 2016 var það hlýjasta á öllu tímabilinu, en það nýliðna, 2017 ívið neðar og endaði í 4,93 stigum, 10. til 12. hlýjasta sæti tímabilsins alls. Væri árshitinn algjörlega tilviljanakenndur mætti búast við svo hlýju ári á aðeins um 20 ára fresti. - En við upplifum nú hlýtt tímabil, flest ár eru hlý miðað við það sem áður var og er einfaldast að kenna það almennum hlýindum á heimsvísu vegna aukningar gróðurhúsaáhrifa - þó eitthvað fleira kunni að koma við sögu hér á landi - svosem eins og hagstæðar vindáttir hin síðari ár.
Hin almenna leitni, sem reiknast 0,8 stig á öld síðustu 200 árin segir ekkert um framtíðina - munum það.
Rauða línan á myndinni sýnir 10-árakeðjumeðaltal hitans. Það hefur aldrei verið hærra en nú, engin 10 ár hafa verið hlýrri en þau síðustu (2008 til 2017) og eru þau 0,4 til 0,5 stigum hlýrri en hlýjustu tíu ár eldra hlýskeiðs.
Sömuleiðis hafa 30-ára meðaltöl aldrei verið hærri en nú (1988 til 2017), 0,2 stigum ofan við það sem hæst var á hlýskeiðinu fyrra - og það þrátt fyrir að enn séu mörg mjög köld ár í pottinum (1988 til 1995 flest). Verði meðalhiti næstu tíu ára 4,6 stig (0,3 kaldari en í ár) mun þrjátíu ára meðaltalið 1998 til 2027 verða 0,4 stigum hlýrra en fyrra hlýskeið, en verði meðalhitinn sá sami og síðustu 10 ár verða þessi 30 ár orðin meir en 0,5 stigum hlýrri en mest varð á fyrra skeiði.
Þó líklegast sé að hlýindin malli hægt og bítandi áfram upp á við með sveiflum frá ári til árs er þó vel mögulegt að eitthvað kólni um sinn verði vindáttir úr vestri eða norðri algengari en verið hefur á undanförnum árum - nú, sömuleiðis er ekki ólíklegt að hafís sýni sig að minnsta kosti á einu skeiði til viðbótar með viðeigandi kulda - þrátt fyrir norðurslóðahlýnun og almenna rýrnun hafísbreiðunnar.
Svo er líka mögulegt að gróðurhúsahlýnunin hafi ekki öll skilað sér hér á landi og að þrep upp á við (0,5 til 1,0 stig) leggist óvænt yfir á næstu árum eða áratugum. Völva hungurdiska glottir við tönn og lætur lítið uppi - þrátt fyrir áskoranir ritstjórans - sem hins vegar óskar lesendum og öðrum velunnurum árs og friðar og þakkar jákvæð samskipti á liðnum árum. Hungurdiskar hafa nú lifað sjö áramót - færslurnar orðnar 2040 - og enn skal hjakkað eitthvað áfram þó sjálfsagt fari risið lækkandi - pistlum fækkandi og meira og meira beri á endurunnu efni. Fidel og Fido biðja líka fyrir kveðjur af fjasbókarsíðum hungurdiska, svækjusumri og fimbulvetri.
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (19.4.): 5
- Sl. sólarhring: 105
- Sl. viku: 891
- Frá upphafi: 2461209
Annað
- Innlit í dag: 5
- Innlit sl. viku: 775
- Gestir í dag: 5
- IP-tölur í dag: 5
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Apríl 2025
- Mars 2025
- Febrúar 2025
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010