Bloggfærslur mánaðarins, maí 2017

Sumareinkunn maímánaðar

Undanfarin ár hefur ritstjóri hungurdiska leikið sér að því gefa sumarmánuðum og heilum sumrum einkunn. Aðferðafræðin er skýrð í fyrri pistlum. Sú óraunhæfa krafa kemur stundum upp að meta beri veður í maí á sama hátt - og það heyrist meira að segja að menn taki kalda, sólríka þurrkþræsingsmaímánuði fram yfir vota og hlýja eins og þann sem nú er að ljúka. Slíkt er hins vegar í töluverðri andstöðu við það sem tíðkast hefur þegar vortíð er metin. 

Gott og vel - við skulum nú bera saman maímánuði í Reykjavík eins og um sumarmánaðakeppni væri að ræða.

w-blogg310517a

Hér má sjá að núlíðandi maímánuður fær 7 stig - er nærri meðallagi tímabilsins alls. „Bestur“ var maí 1932 með fullt hús stiga - en lakastur er maí 1992 með aðeins 1 stig (bæði kaldur og blautur). Við skulum taka eftir því að hinn hræðilegi og kaldi maí 1979 er hér metinn góður - fær 12 stig. Jú, sólin skein og úrkoma var lítil og úrkomudagar fáir - mánuðurinn fékk hins vegar 0 stig (af fjórum mögulegum) fyrir hita. 

En það er kannski að nútíminn vilji hafa veðrið þannig - menn geta vökvað garðinn sé þurrviðrasamt - en erfiðara er að verjast rigningu. 

En það er hins vegar skoðun ritstjóra hungurdiska að votur og hlýr maí sé góður - núlíðandi maímánuður sé þannig í hópi þeirra bestu. Einu hugsanlegu frádráttarstigin fær hann fyrir það að vindur hefur verið heldur meiri en æskilegast er. 


Af hlýjustu maímánuðum

Útlit er fyrir að maímánuður 2017 verði meðal þeirra hlýjustu frá því mælingar hófust - en þó ekki methlýr. Hann á enn möguleika á að verða sá hlýjasti á öldinni. Landsmeðalhiti í byggð stendur nú í 7,3 stigum (gæti orðið 7,4), en á landsvísu varð hlýjast á öldinni (hingað til) í maí 2008, 7,2 stig. 

Standi 7,3 stig þurfum við að fara aftur til 1946 til að finna hærri tölu, 7,4 stig. Svo hlýtt varð 1946 - og einnig 1928. Enn hlýrra var í maí 1939 (7,5 stig) og 1935 (7,6 stig). En þó meti verði ekki náð er árangurinn samt mjög góður.

Á einstökum stöðvum er meðalhiti það sem af er hæstur í Öræfasveitinni, í Skaftafelli er hann 9,1 stig og 9,2 stig við Sandfell. 

Þó nú hafi verið athugað á þessum stöðvum í meir en 20 ár voru þær ekki í gangi í þeim maímánuðum sem eru hlýrri en sá núverandi. Við vitum því ekki hvort þær hefðu þá staðið sig enn betur heldur en þær stöðvar sem þá mældu hæstan meðalhita.

Hér að neðan eru tvær töflur sem sýna háan meðalhita í maí. Sú fyrri tekur nær til allrar meðalhitaskrár ritstjóra hungurdiska - en er ekki opinberun frá Veðurstofunni. Sú síðari er nær því að vera það - þar vantar elstu tölurnar. Satt best að segja eru elstu tölurnar harla vafasamar - og ekki mælt með því að þær séu teknar alvarlega. 

röðstöðármánhiti °C nafn
111830511,2 Reykjavík
28171845510,2 Ofanleiti í Vestmannaeyjum
311845510,0 Reykjavík
420193559,6 Elliðaárstöð
5846193559,5 Sámsstaðir
5846194659,5 Sámsstaðir
7422193359,4 Akureyri
820196059,3 Elliðaárstöð
9772201059,2 Kirkjubæjarklaustur
9817185359,2 Ofanleiti í Vestmannaeyjum
11772194659,2 Kirkjubæjarklaustur
12477193959,2 Húsavík
12923193559,2 Eyrarbakki
14983193559,2 Grindavík
15817184259,2 Ofanleiti í Vestmannaeyjum
16105193559,1 Hvanneyri
1720194159,1 Elliðaárstöð
181184259,1 Reykjavík
19772193559,1 Kirkjubæjarklaustur
19923189059,1 Eyrarbakki

Já, 11,2 stig í Reykjavík í maí 1830 hlýtur að vera vafasöm tala - en ábyggilega mjög hlýr mánuður samt. Tölur segja einnig að meðalhiti í Reykjavík í maí 1845 hafi verið mjög hár, 10,0 stig - reyndar var þá líka afbrigðilega hlýtt á Ofanleiti í Vestmannaeyjum hjá séra Jóni Austmann (sem þekktur er nú fyrir lýsingu sína á Kötlugosinu 1823). - En við vitum að sumarhitamælingar séra Jóns sýna almennt of háar tölur - bein eða óbein sólaráhrif valda því. Mjög erfitt er hins vegar að meta nákvæmlega hver þau voru - kannski verður það einhvern tíma mögulegt.

En maí 1845 hefur líklega verið hlýr mánuður. Svo komum við hins vegar að mun trúlegri tölum. Elliðaárstöðin í Reykjavík er vænn staður, meðalhiti í maí 1935 er talinn 9,6 stig þar, en var 9,3 stig á þaki Landsímahússins sem hin opinbera Reykjavíkurstöð var um þær mundir. Samræmingar við Veðurstofutún færa þá tölu niður í 8,9 stig sem nú er hin opinbera tala hlýjasta maímánaðar Reykjavíkurraðarinnar. Samræmingar sem þessar eru alltaf álitamál og eiga örugglega eftir að breytast í framtíðinni - alla vega verður að búa til nýja röð þegar Reykjavíkurstöðin verður enn á ný flutt í framtíðinni (vegna byggingalandsglýju sem nú blindar allt og alla - svo mjög að sólin virðist dauf í samanburði). 

Fyrir neðan Elliðáatöluna eru svo tvær frá Sámsstöðum í Fljótshlíð, maí 1935 og 1946. Sámsstaðir hefur helst hitaforskot á aðrar stöðvar á vorin, apríl- og maígott þar um slóðir. 

Talan háa á Akureyri í maí 1933 (9,4 stig) hefur löngum talist dálítið vafasöm - ástæðan er sú að einmitt þetta afbrigðilega ár varð leiðinleg bilun í hitasírita sem alltaf var notaður við reikninga á næturhita (og þar með meðalhita) á Akureyri - reikningar voru því ekki gerðir nákvæmlega eins um þessar mundir eins og bæði rétt fyrir og eftir. Bilunin stóð frá því í mars og fram í júní. - En hlýr var þessi maímánuður víða fyrir norðan og vestan, sá hlýjasti sem vitað er um á 9 stöðvum. Maí 1935 er sá hlýjasti á 21 stöð. Við trúum þessari Akureyrartölu því (nokkurn veginn). 

Ef við nú sleppum þessum vafasamari tölum um og fyrir miðja 19. öld af listanum verður hann svona:

röðstöðármánhiti °C nafn
120193559,6 Elliðaárstöð
2846193559,5 Sámsstaðir
2846194659,5 Sámsstaðir
4422193359,4 Akureyri
520196059,3 Elliðaárstöð
6772201059,2 Kirkjubæjarklaustur
7772194659,2 Kirkjubæjarklaustur
8477193959,2 Húsavík
8923193559,2 Eyrarbakki
10983193559,2 Grindavík
11105193559,1 Hvanneyri
1220194159,1 Elliðaárstöð
13772193559,1 Kirkjubæjarklaustur
13923189059,1 Eyrarbakki
15846200859,1 Sámsstaðir
16477194659,1 Húsavík
16798193559,1 Vík í Mýrdal
18772194159,0 Kirkjubæjarklaustur
1920194759,0 Elliðaárstöð
20846194759,0 Sámsstaðir

Tvær tölur eru á listanum frá þessari öld - á Sámsstöðum 2008 og Kirkjubæjarklaustri 2010. Vegagerðarstöðvar eru ekki á þessum lista - en hæstu maígildin þar eru frá Steinum 2008, 9,3 stig, úr Hvammi sama ár og 2010 (9,2 stig) og frá Sandfelli, líka 2008, 9,2 stig. Nú er spurning hver hæsta tala núverandi maímánaðar verður - skyldi hún komast á listann? - 


Eiginlega án fyrirsagnar

Sökum flutninga og breytinga á ritstjórnarskrifstofum hungurdiska er nokkur hiksti í framleiðslunni þessa dagana. Lesendur beðnir velvirðingar á því ástandi (sem vonandi lýkur einhvern tíma). 

Á þessum árstíma er mjög hlýtt í Pakistan og á Indlandi - á Indlandi er hlýjasti tími ársins venjulega rétt áður en sumarmonsúninn nær undirtökunum. Hlýindi þessi sjást mjög vel á korti dagsins sem bandaríska veðurstofan sýnir okkur. Útlínur Suður-Asíu ættu að sjást ef vel er að gáð. 

w-blogg280517a

Það er á vorin sem vestanvindabeltið yfirgefur Himalajafjöll og Tíbet - hörfar til norðurs og hitabeltið sækir til norðurs. Á milli beltanna tveggja ríkir mikið niðurstreymi og verður veðrahvolfið mjög hlýtt. Meginland Asíu nær aðeins að snúa upp á hringrásina þannig að á Indlandi og þar austan við nær vindur að blása af hafi - um síðir - og hitabeltisregnið nær þangað - en vestar sleppir niðurstreymið ekki völdum sínum.

En hér er þykktin meiri en 5940 metrar þar sem mest er - dægurhámörk geta þá farið í 45 til 50 stig, jafnvel rúmlega það - þrátt fyrir gríðarlegt varmatap í heiðríkju yfir þurri jörð að næturlagi - eins gott að búa ekki við örstuttar nætur undir slíkri ofurþykkt. 

Rauða örin bendir á hitabeltislægð á Bengalflóa - slíkar lægðir þekkjast á kortum sem þessum sem litlir hringlaga blettir þar sem þykktin er meiri heldur en umhverfis. Í blettunum er þykktinni haldið uppi með dulvarmalosun og miklu úrfelli. 

Everestfarar nýta sér tímann á milli vestanvinda og monsúns, þá eru skárri líkur á sæmilegu veðri en áður og eftir. - Annars mun það nokkuð misjafnt hvenær best er að reyna göngur á fjöllin á þessum slóðum - vestar - þar sem áhrif monsúnsins eru minni en við Everest kvu oftast vera beðið lengur fram á sumarið. Minnir t.d. að K2-farar reyni helst í júlílok. 


Árstíðasveifla hita á landinu

Lítum á (kraðaks-)kort sem sýnir meðalmun kaldasta og hlýjasta mánaðar ársins á árunum 2007 til 2016. Læsilegri listi yfir stöðvar og tölur þeirra fylgir í viðhengi. Kortagrunninn gerði Þórður Arason. 

w-blogg220517a

Algengt er að miða mörk meginlands- og úthafsloftslags við 20 stiga mun á hlýjasta og kaldasta mánuði ársins. Úthafsloftslag er á Íslandi öllu - jafnvel langt inni í landi. Hér skulum við líka muna að í hinni alþjóðlegu skilgreiningu er miðað við 30-ára mánaðameðaltöl. Reiknum við þannig fáum við heldur lægri tölur í innsveitum hér á landi. Það er vegna þess að það er mjög misjafnt frá ári til árs hver kaldasti mánuður ársins er. - Við gætum notað okkur þetta til að reikna út eins konar festuhlutfall árstíðasveiflunnar og athugað hvort munur er á því milli landshluta - en til að gera það þurfum við langtímaathuganir. Kannski við finnum það síðar.  

Munur á meðalhita hlýjasta og kaldasta mánaðar hefur líka farið heldur minnkandi á síðari árum. 

En hæsta talan á kortinu er fengin frá Mývatni - þar hefur undanfarin tíu ár munað 16,1 stigi á meðalhita hlýjasta og kaldasta mánaðar ársins. Á allmörgum stöðvum er munurinn meiri en 15 stig. Meðaltalið er 12,4 stig - svo vill til að það er líka tala Reykjavíkur. 

Langlægsta talan er úr Seley, úti fyrir Reyðarfirði, þar hefur ekki munað nema 6,9 stigum á meðalhita hlýjasta og kaldasta mánaðar ársins. Á Vattarnesi og Dalatanga er munurinn einnig lítill, en þó tæpu stigi meiri en í Seley.

Munurinn er minni en 10 stig á strandarstöðvum á Austurlandi öllu og vestur með Suðurlandi allt á móts við kuldafossinn sem fellur út af strönd suðurlandsundirlendisins. Önnur kuldaelfur liggur líka fram Álftaver og Meðalland í Vestur-Skaftafellssýslu. Tíu stigin teygja sig líka til vesturs úti fyrir Norðurlandi, allt vestur á Hornstrandir.

Tölurnar eru fremur háar bæði á Eyrarbakka og í Þykkvabæ - kuldinn ofan úr sveitum leitar stríðar á heldur en sjávarloftið - og að sumarlagi vill hafgolan oft heldur taka á sig sveig austur með frekar en að ryðjast inn (hún gerir það að vísu stundum). 

Það er að mörgu að hyggja í veðráttumálum. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Smávegis um illviðratíðni

Mjög dregur úr tíðni illviðra á vorin - sé miðað við vindstyrk veðranna. Illviðratalningar eru nokkuð erfiðar - alltaf álitamál hvaða daga telja skuli með. Ritstjóri hungurdiska hefur löngum notað tvær skilgreiningar - sem ná til landsins alls. Ekki getur hann haldið því fram að þær séu réttastar eða bestar. 

Sú fyrri (t1) segir að dagur nái máli komist mesti 10-mínútna vindur sólarhringsins einhvern tíma í 20 m/s á fjórðungi veðurstöðva á landinu. Engin krafa er gerð um að þessi mikli vindur standi lengi. Sú síðari (t2) að dagur komist með í skrána sé sólarhringsmeðalvindur í byggð á landinu 10,5 m/s eða meiri. - Oft hefur verið minnst á þessar skilgreiningar áður hér á hungurdiskum - og það sem hér fer á eftir verður að mestu að flokkast undir endurtekið efni. 

Við gætum tengt t1-skilyrðin við snerpu, en t2 við úthald. 

Báðar skrárnar ná aftur til 1949 og út árið 2016. Á þessu tímabili náði 791 dagur t1-mörkunum, en 715 t2-mörkum. Tvöfaldir dagar (uppfylla bæði skilyrði) voru 510. 

Nú má telja hvernig dagar þessir dreifast á mánuði ársins. Það sýnir myndin hér að neðan.

w-blogg200517a

Bláu súlurnar sýna tíðni snerpuveðra (t1), en þær brúnu úthaldsveðrin (t2). Til að við getum séð veturinn í heild nær línuritið til 18 mánaða, byrjar á janúar lengst til vinstri og endurtekur hann til hægri við miðja mynd. 

Tölurnar á lóðrétta ásnum sýna tíðni illviðradagana í prósentum. Febrúar er greinilega illviðrasamasti mánuður ársins - sé miðað við snerpuveðrin (t1), meir en 8 prósent febrúardaga flokkast með illviðrum, um 12. hver dagur að jafnaði. Aukning veðranna á haustin er hægari heldur en fækkunin síðla vetrar - hún er mjög hröð. 

Munur á janúar- og febrúartíðni úthaldsveðranna (t2) er ekki mikill, janúar hefur þó vinninginn. 

Ef við förum í saumana á smáatriðum sjáum við að úthaldsveðrin (t2) eru tíðari en hin á vorin, bæði í apríl og maí. Sömuleiðis er munur á tíðni ekki mikill á haustin. 

Þessi mynd sýnir vel hversu miklu illviðrasamara er á vetrum en að sumarlagi hér á landi. Illviðratíðni í maí er vel innan við 1 prósent, það er aðeins 3. til 4. hvert ár sem dagar ná máli í þeim mánuði. 

Við skulum líta á aðra mynd.

w-blogg200517b

Hér hefur áttum verið skipt, við teljum norðvestan-, norðan-, norðaustan- og austanáttir saman, (og köllum norðlægar), en hinar áttirnar fjórar suðlægar. 

Veturinn sker sig mjög úr í samanburði áttflokkanna, sérstaklega þó febrúar. Grænu súlurnar sýna mismun á tíðni suðlægra og norðlægra illviðra. Þau norðlægu eru algengari en hin í apríl, október og nóvember (mismunurinn neikvæður). 

Í maí er tíðni norðanveðra tvöföld á við sunnanveðratíðnina. - Versta veður (hvað vind varðar) sem vitað er um á landinu í maí var þó vestanveður. - Við rifjum það vonandi upp fljótlega. 


Fjórir (fremur) óvenjulegir atburðir

Nú er maí að verða hálfnaður og hefur sýnt fremur óvenjulega veðráttutilburði 

Fyrst var það hitabylgjan. Hún var með öflugasta móti miðað við árstíma, sérstaklega voru dagarnir 3. og 4. óvenjuhlýir. Nimbusarbloggið gerir ágæta grein fyrir henni og er áhugasömum lesendum vísað þangað

Í öðru lagi mældist loftþrýstingur hærri en hann hefur orðið í maí í rúm 20 ár. Þrýstingurinn nú fór hæst í 1040,8 hPa á Reykjavíkurflugvelli. Það var 13. maí 1996 að þrýstingur fór síðast í 1040 hPa hér á landi, þá á Raufarhöfn. Til fróðleiks sjáum við hér töflu sem sýnir tilvik hærri maíþrýstings.

röðármándagurstöðpxtími nafn
21879551781044,424 Stykkishólmur
118945184221045,015 Akureyri
111932548151040,838 Stórhöfði
719355116751041,43 Teigarhorn
519475111042,412 Reykjavík
319485197721043,01 Kirkjubæjarklaustur
1019685177721041,020 Kirkjubæjarklaustur
419755279901042,87 Keflavíkurflugvöllur
619885162851041,713 Hornbjargsviti
819935122851041,35 Hornbjargsviti
819965135051041,33 Raufarhöfn
1120175814771040,821 Reykjavíkurflugvöllur

Þau eru hér í tímaröð - „stærðarröðina“ má lesa í fyrsta dálki. Hæsta gildið er orðið gamalt, 1045,0 hPa á Akureyri 18. maí 1894. Að meðaltali má búast við að þrýstingur fari yfir 1040 hPa á 10 til 15 ára fresti að meðaltali. Af töflunni sjáum við þó að þetta gerist mjög óreglulega, einu sinni tvö ár í röð, 1947 og 1948, en einu sinni liðu 38 ár á milli „atvika“. 

Þriðja óvenjulega atriðið er vindhraðinn á dögunum. Þann 10. reiknaðist meðalvindhraði í byggð 11,2 m/s sem er með mesta móti í maí - hefur að vísu orðið meira - en aðeins 1 sinni eða tvisvar á öldinni (í maí). Stormhlutfall var 19 prósent - og er það líka í meira lagi (aðeins 1 eða 2 tölur hærri á öldinni (í maí). Maívindhraðamet voru sett á allmörgum stöðvum - þar á meðal nokkrum sem athugað hafa alla öldina eða langur (Þverfjall, Bolungarvík, Siglufjörður, Hafnarmelar, Búrfell, Steingrímsfjarðarheiði, Hálfdán og Mýrdalssandur).  - Sömuleiðis var óvenjuhvasst þann 12., meðalvindhraði 10,9 m/s. 

Það sem kom þó mest á óvart varðandi vindinn var að þetta reyndust vera næsthvassasti og fjórðihvassasti dagur ársins (til þessa). - Verður að teljast til marks um að vel hafi farið með veður í vetur. 

Fjórða óvenjuatriðið er úrkoman. Sólarhringsúrkoma á sjálfvirku stöðinni í Neskaupstað mældist meiri en 200 mm. Ekki hefur það enn verið staðfest - gæti tekið nokkurn tíma - en alla vega mældist sólarhringsúrkoma á mönnuðu stöðinni 159,6 mm þann 13. og er það meira en áður hefur mælst á íslenskri veðurstöð í maímánuði (ekki heldur staðfest). Gamla metið er 147,0 mm - sett á Kvískerjum í Öræfum þann 16. 1973. Sama magn mældist á sjálfvirku stöðinni í Grundarfirði 26. maí 2012. 

Hiti, loftþrýstingur, vindur og úrkoma. Allt úti á kanti nú fyrri hluta maímánaðar. 


Kast

Nú virðist norðankast í uppsiglingu (eins og áður hefur verið minnst á). Hvort við getum kennt það við kóngsbænadaginn látum við liggja á milli hluta (held hann sé á föstudaginn kemur). 

Kastinu veldur mjög dæmigert lægðardrag á leið suður og suðaustur yfir Grænland. Miðja þess fer rétt fyrir vestan land. Þrátt fyrir leiðindin eru svona lægðardrög oftast falleg á litríkum veðurkortum nútímans. 

Fyrsta kortið hér að neðan sýnir stöðuna í 500 hPa-fletinum kl.3 aðfaranótt miðvikudags (10. maí) - að mati evrópureiknimiðstöðvarinnar.

w-blogg080517a

Lægðardragið er hér orðið að lokaðri lægð sem er á hraðri ferð til suðausturs. Spárnar í dag eru með hana örlítið austar en í gær, sem er frekar óheppilegt. Lægðin á að hringa sig fyrir suðvestan land - því vestar sem það gerist því styttri tíma tekur fyrir hana að beina norðankuldanum aftur frá. - Það munar um hvert lengdarstig í því sambandi. 

Við sjáum að vindur yfir landinu er fremur hægur í miðju veðrahvolfi, hann er sýndur með hefðbundnum vindörvum. Hiti er sýndur í litum, kvarðinn skýrist sé myndin stækkuð. Hlýindin sem hafa yljað okkur undanfarna daga hafa hér hörfað langt til vesturs. 

Næsta kort sýnir stöðuna í 925 hPa - en sá flötur er samkvæmt spánni í um 700 metra hæð yfir landinu þegar hún gildir. 

w-blogg080517b

Hér er vindur með öðrum hætti en ofar, mjög mikill norðaustanstrengur í Grænlandssundi er um það bil að ná til Vestfjarða. Er undravert til þess að hugsa að það hefur aðeins tekið strenginn 6 til 9 tíma að leggja undir sig allt sundið. 

Tölvuspár nútímans ná veðrum af þessu tagi nokkuð vel (eitthvað getur þó brugðið út af). Á árum áður var staða sem þessi beinlínis stórhættulag, vorvertíð á fullu, blíðviðri hefur staðið dögum saman og í raun fátt sem varar við. Þeir fáu sem fylgdust grannt með loftvog og áttu vænar innistæður í reynslubanka hafa þó e.t.v. getað gert sér grein fyrir yfirvofandi illindum í tíma. Veðurstofan átti meira að segja í vandræðum, þó háloftaathuganir og skeyti frá Grænlandi hafi einhverju bjargað - en aðeins 12 til 24 tímum fyrir veðurbreytinguna. 

En loftvogir urðu ekki algengar hér á landi fyrr en seint á 19. öld (þó ein og ein væri til áður). Hvað gerðu menn með svona nokkuð fyrir þann tíma? Eitthvað segir far skýja - ef eitthvað annað sést heldur en lágskýjabreiða. 

w-blogg080517c

Síðasta kort dagsins sýnir stöðuna í 300 hPa á sama tíma og hin kortin (kl.3 á aðfaranótt miðvikudags 10. maí). Lægðardragið sést vel (ekki orðið að hringaðri lægð - en verður það). Veðrahvörfin sveigjast niður í kjölfar þess með miklu niðurstreymi sem hitar loftið á til þess að gera litlu svæði. Þetta býr til lægðarsnúning og veldur því að dragið hringar sig en fer ekki áfram til Bretlands. 

Hringi lægðin sig nægilega vestarlega nær hún fljótt í öllu hlýrra loft aftur þannig að versta kastið tekur fljótt af - alla vega sunnanlands. Hringi svona drag sig aftur á móti austar lokast ekki fyrir norðaustanstrenginn og heimskautaloftið heldur áfram að streyma til landsins. - Hvort gerist nú er varla alveg ráðið enn.


Umskipti - hæðin gefur eftir

Eftir margra daga samfellda blíðu og óvenjuleg hlýindi virðist nú stefna í umskipti. Hæðin gefur eftir og við fáum yfir okkur lægðardrag úr norðvestri. 

w-blogg070515a

Kortið sýnir stöðuna á hádegi í dag (sunnudag 7. maí), að mati evrópureiknimiðsöðvarinnar. Hæð 500 hPa-flatarins er heildregin, þykktin er sýnd með rauðum strikalínum, en bleikgráir fletir sýna iðu. 

Hæðin er hér við landið, það er sumarþykkt, meiri en 5460 metrar, en þykktin mælir sem kunnugt er hita í neðri hluta veðrahvolfs. En hæðin er að þokast vestur (blástrikuð ör) og verður á þriðjudagskvöld komin vestur undir Baffinsland. Þar er nú lægð sem mun fara sem lægðardrag til suðausturs yfir Grænlands og valda veðurbreytingu hér (grænblá ör).

Lægðardrög sem þessi eru oftast leiðinleg og stundum mjög svo, bæði vetur, sumar, vor og haust. - En samt er fjölbreytni nokkur í gerð þeirra.

w-blogg070515b

Myndin sýnir þrjár dæmigerðar brautir (úr norðnorðvestri), en stærð lægðardraganna skiptir einnig miklu máli. Austasta brautin er gjarnan sú versta og óheppilegasta. Mestar líkur á lofti langt úr norðri sem þar að auki situr lengi. Eftir því sem brautin liggur vestar aukast líkur á að lægðardragið strandi - þá er að jafnaði ekki langt í hlýrri austan- eða suðaustanátt eftir skammvinnt norðaustanskot - jafnvel svo skammvinnt að loft mjög langt að norðan nær ekki að komast að hér á landi. 

Á myndinni eru brautirnar úr norðnorðvestri, en ætli stefna úr vestnorðvestri yfir Ísland sé ekki einna óheppilegust - þá nær lægðardragið ekki að stöðvast fyrir suðvestan land en fer austurfyrir með slæmu norðankasti á eftir.

En hvernig verður þetta nú?

w-blogg070515c

Kannski einhvern veginn svona. Kortið sýnir stöðuna á þriðjudagskvöld (9. maí). Hér er gert ráð fyrir því að miðja lægðardragsins fari til suðurs fyrir vestan land - en ekki yfir það. Það eykur líkur á því að það stöðvist fyrir suðvestan land og að aðalnorðanskotið verði skammvinnt - fremur hlýtt loft úr austri taki aftur völdin (ekki þó eins hlýtt og verið hefur að undanförnu). 

Þeir sem rýna í tölurnar á kortinu sjá að þykktin á þriðjudagskvöld er ennþá meiri en 5400 metrar yfir Suðurlandi, en á að fara niður í um 5300 metra á fimmtudag - sem þá yrði kaldasti dagur „hretsins“. Á Vestfjörðum er þykktin á kortinu um 5340 metrar og segir spáin hana fara niður í 5240 metra á fimmtudag - en það er meðalþykkt í janúar hér við land. Þó það geti talist vel sloppið miðað við þessa stöðu eru samt mikil viðbrigði frá hlýindum undanfarinna daga þegar þykktin hefur gælt við 5500 metra, munurinn er 260 metrar eða um 13 stig á hita í neðri hluta veðrahvolfs. 

En þessi umskipti koma nokkru losi á loftstrauma á svæðinu og ekki gott að segja í hvaða farveg þeir leggjast eftir að þau eru orðin - það gæti samt orðið nokkur bið eftir næsta tuttugustigadegi. 


Inn til landsins

Það var nokkuð óvenjulegt veðurlag á landinu í gær, föstudag 5.maí (miðað við árstíma). Ritstjóri hungurdiska reiknar daglega út meðalhita á stöðvum í byggð og svo á öllum veðurstöðvum - horfir svo á báðar tölur. Nú brá svo við að byggðarmeðaltalið var lægra en heildarmeðaltalið. Stöðvar á hálendi hækkuðu sum sé heildina - ekki mikið að vísu, 0,1 stig, en samt. Þetta ástand kemur helst upp á miðju sumri þegar sjórinn kælir strendur og nes - en er óvenjulegra á vorin þegar snjóbráðnun ætti að vera að halda hálendishitanum niðri. - En það er e.t.v. best að rannsaka málið áður en farið er að gera eitthvað úr því.

Sjálfvirka stöðvakerfið er búið að vera í sæmilegu jafnvægi í rúman áratug. Fram að þeim tíma fjölgaði stöðvunum hratt, og var hlutur eiginlegra hálendisstöðva í meðalhita allra stöðva nokkuð hár framan af - en hefur svo minnkað eftir því sem öðrum stöðvum hefur fjölgað. Fyrstu ár sjálfvirka kerfisins eru því ekki alveg samanburðarhæf við þau síðari hvað varðar þann þátt sem við erum að horfa á í dag. 

Að meðaltali er meðalhiti „allra“ stöðva um 1,0 stigi lægri heldur en meðaltal í byggð.

w-blogg060517c

Myndin sýnir að munurinn er breytilegur eftir árstímum - meiri á vetrum en að sumarlagi (bláar súlur). Gráu súlurnar sýna mesta mun einstakra daga, en þær grænu þann minnsta - í maí, júní og júlí hefur hann stöku sinnum orðið neikvæður - rétt eins og í gær. 

Þegar farið er í saumana á þessum neikvæðu tilvikum kemur í ljós að þau mynda gjarnan klasa - marga daga í röð. Um einn slíkan má lesa í gömlum pistlum hungurdiska 25. og 26. júlí árið 2013. Þá mældist hærri hiti á hálendinu en fyrr eða síðar - en svalt var við sjávarsíðuna víðast hvar á landinu. 

Það er óþekkt á vetrum að landsmeðalhiti í byggð sé lægri heldur en meðalhiti allra stöðva yfir heilan sólarhring - og að það gerist staka klukkutíma, eða fáeina í röð er einnig mjög sjaldséð - hefur þó gerst. En sólarhringsmunur hefur ekki orðið neikvæður nema í fjórum mánuðum ársins á árabilinu 2004 til 2017.

w-blogg060517a

Á myndinni má sjá að þetta „ástand“ er langalgengast í júlímánuði, en ámótaalgengt í júní og ágúst. Þegar nánar er að gáð kemur reyndar í ljós að öll ágústtilvikin sem hér eru sýnd eru frá því í hitabylgjunni miklu 2004. - Svo eru þrjú tilvik í maí, þar af þetta sem varð tilefni pistilsins. 

w-blogg060517b

Við lítum einnig á klukkustundargögnin - og teljum tilvik fyrir hverja klukkustund sólarhringsins. Þá kemur í ljós (ekki svo óvænt) að sjórinn heldur hita niðri yfir miðjan daginn - mest kl.15 og gefur hálendinu tækifæri til að njóta sín. 

Dægur- og árstíðasveiflur alls konar eru ritstjóra hungurdiska hugleiknar - vel má vera að hann mali eitthvað um skyld mál í fleiri pistlum. Til dæmis má benda á að meðaltal „allra“ stöðva sýnir auðvitað ekki meðalhita hálendisins sem slíks - heldur er það einungis almennt meðaltal sem er dálítið „mengað“ af mælingum hálendisstöðva. Hvernig væri nú að gera eitthvað svipað fyrir hálendið eitt og sér? 


Myndarleg hæð

Nú er myndarleg hæð við landið. Henni hafa í dag fylgt óvenjuleg hlýindi miðað við árstíma enda er hún af hlýju gerðinni. 

w-blogg040517a

Spá evrópureiknimiðstöðvarinnar gildir á hádegi á morgun fimmtudag og verður sjálfsagt nærri lagi. Jafnhæðarlínur eru heildregnar, en þykkt sýnd í lit. Bæði þykkt og hæð eru með hæsta móti. Hæð 500 hPa-flatarins hefur aðeins í örfá skipti orðið jafnhá eða hærri en þetta í maí, hæst um 5890 metrar þann 27. árið 1975. 

Þykktin virðist ætla hæst í um 5530 metra í þetta sinn, við vitum um nokkuð hærri maítölur, hæst í athugun yfir Keflavík í maí eru 5580 metrar, frá þeim 26. árið 1956 og endurgreiningin bandaríska segist muna eftir um 5580 í maílok 1915. Meiri þykkt en í dag mælist alloft hér við land í maí - en yfirleitt ekki fyrr en undir lok mánaðar. 

Loftþrýstingur er líka óvenjuhár, fer e.t.v. yfir 1040 hPa, það gerist í maí á aðeins 10 til 12 ára fresti að jafnaði. Hefur hins vegar ekki gerst síðan 1996.

Ritstjóra hungurdiska finnst hæðir sem þessar alltaf dálítið óþægilegar. Það er e.t.v. vegna þess að öfgar kalla oft á öfgar. Sé litið á nokkrar mestu maíháloftahæðirnar er hins vegar alveg upp og ofan hvað svo hefur gerst.

Eftirminnileg leiðindi urðu eftir methæðina 1975 - meðalhiti í júní innan við 8 stig í Reykjavík og rétt rúm 7 á Akureyri. Ámóta hæð kom hér svo í maí 1987 - en þá fór vel með. 

En auðvitað er rétt að fylgjast með þessari miklu hæð. 

Hitinn í dag (miðvikudag 3. maí) komst hæst í 22,8 stig, bæði í Ásbyrgi og í Bjarnarey. Þetta er landsdægurmet - og hefur hiti aðeins einu sinni mælst meiri svo snemma sumars. Það var í Ásbyrgi þann 29. apríl 2007 (minnir að framhaldið hafi valdið vonbrigðum). 


Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 11
  • Sl. sólarhring: 183
  • Sl. viku: 2458
  • Frá upphafi: 2434568

Annað

  • Innlit í dag: 9
  • Innlit sl. viku: 2183
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband