Árstíðasveifla hita á landinu

Lítum á (kraðaks-)kort sem sýnir meðalmun kaldasta og hlýjasta mánaðar ársins á árunum 2007 til 2016. Læsilegri listi yfir stöðvar og tölur þeirra fylgir í viðhengi. Kortagrunninn gerði Þórður Arason. 

w-blogg220517a

Algengt er að miða mörk meginlands- og úthafsloftslags við 20 stiga mun á hlýjasta og kaldasta mánuði ársins. Úthafsloftslag er á Íslandi öllu - jafnvel langt inni í landi. Hér skulum við líka muna að í hinni alþjóðlegu skilgreiningu er miðað við 30-ára mánaðameðaltöl. Reiknum við þannig fáum við heldur lægri tölur í innsveitum hér á landi. Það er vegna þess að það er mjög misjafnt frá ári til árs hver kaldasti mánuður ársins er. - Við gætum notað okkur þetta til að reikna út eins konar festuhlutfall árstíðasveiflunnar og athugað hvort munur er á því milli landshluta - en til að gera það þurfum við langtímaathuganir. Kannski við finnum það síðar.  

Munur á meðalhita hlýjasta og kaldasta mánaðar hefur líka farið heldur minnkandi á síðari árum. 

En hæsta talan á kortinu er fengin frá Mývatni - þar hefur undanfarin tíu ár munað 16,1 stigi á meðalhita hlýjasta og kaldasta mánaðar ársins. Á allmörgum stöðvum er munurinn meiri en 15 stig. Meðaltalið er 12,4 stig - svo vill til að það er líka tala Reykjavíkur. 

Langlægsta talan er úr Seley, úti fyrir Reyðarfirði, þar hefur ekki munað nema 6,9 stigum á meðalhita hlýjasta og kaldasta mánaðar ársins. Á Vattarnesi og Dalatanga er munurinn einnig lítill, en þó tæpu stigi meiri en í Seley.

Munurinn er minni en 10 stig á strandarstöðvum á Austurlandi öllu og vestur með Suðurlandi allt á móts við kuldafossinn sem fellur út af strönd suðurlandsundirlendisins. Önnur kuldaelfur liggur líka fram Álftaver og Meðalland í Vestur-Skaftafellssýslu. Tíu stigin teygja sig líka til vesturs úti fyrir Norðurlandi, allt vestur á Hornstrandir.

Tölurnar eru fremur háar bæði á Eyrarbakka og í Þykkvabæ - kuldinn ofan úr sveitum leitar stríðar á heldur en sjávarloftið - og að sumarlagi vill hafgolan oft heldur taka á sig sveig austur með frekar en að ryðjast inn (hún gerir það að vísu stundum). 

Það er að mörgu að hyggja í veðráttumálum. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2020
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

 • w-blogg220120a
 • w-180120ia
 • w-blogg180120a
 • w-blogg-150120a
 • w-blogg140120b

Heimsóknir

Flettingar

 • Í dag (23.1.): 291
 • Sl. sólarhring: 546
 • Sl. viku: 3143
 • Frá upphafi: 1881117

Annað

 • Innlit í dag: 262
 • Innlit sl. viku: 2825
 • Gestir í dag: 257
 • IP-tölur í dag: 252

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband