Smávegis um illviðratíðni

Mjög dregur úr tíðni illviðra á vorin - sé miðað við vindstyrk veðranna. Illviðratalningar eru nokkuð erfiðar - alltaf álitamál hvaða daga telja skuli með. Ritstjóri hungurdiska hefur löngum notað tvær skilgreiningar - sem ná til landsins alls. Ekki getur hann haldið því fram að þær séu réttastar eða bestar. 

Sú fyrri (t1) segir að dagur nái máli komist mesti 10-mínútna vindur sólarhringsins einhvern tíma í 20 m/s á fjórðungi veðurstöðva á landinu. Engin krafa er gerð um að þessi mikli vindur standi lengi. Sú síðari (t2) að dagur komist með í skrána sé sólarhringsmeðalvindur í byggð á landinu 10,5 m/s eða meiri. - Oft hefur verið minnst á þessar skilgreiningar áður hér á hungurdiskum - og það sem hér fer á eftir verður að mestu að flokkast undir endurtekið efni. 

Við gætum tengt t1-skilyrðin við snerpu, en t2 við úthald. 

Báðar skrárnar ná aftur til 1949 og út árið 2016. Á þessu tímabili náði 791 dagur t1-mörkunum, en 715 t2-mörkum. Tvöfaldir dagar (uppfylla bæði skilyrði) voru 510. 

Nú má telja hvernig dagar þessir dreifast á mánuði ársins. Það sýnir myndin hér að neðan.

w-blogg200517a

Bláu súlurnar sýna tíðni snerpuveðra (t1), en þær brúnu úthaldsveðrin (t2). Til að við getum séð veturinn í heild nær línuritið til 18 mánaða, byrjar á janúar lengst til vinstri og endurtekur hann til hægri við miðja mynd. 

Tölurnar á lóðrétta ásnum sýna tíðni illviðradagana í prósentum. Febrúar er greinilega illviðrasamasti mánuður ársins - sé miðað við snerpuveðrin (t1), meir en 8 prósent febrúardaga flokkast með illviðrum, um 12. hver dagur að jafnaði. Aukning veðranna á haustin er hægari heldur en fækkunin síðla vetrar - hún er mjög hröð. 

Munur á janúar- og febrúartíðni úthaldsveðranna (t2) er ekki mikill, janúar hefur þó vinninginn. 

Ef við förum í saumana á smáatriðum sjáum við að úthaldsveðrin (t2) eru tíðari en hin á vorin, bæði í apríl og maí. Sömuleiðis er munur á tíðni ekki mikill á haustin. 

Þessi mynd sýnir vel hversu miklu illviðrasamara er á vetrum en að sumarlagi hér á landi. Illviðratíðni í maí er vel innan við 1 prósent, það er aðeins 3. til 4. hvert ár sem dagar ná máli í þeim mánuði. 

Við skulum líta á aðra mynd.

w-blogg200517b

Hér hefur áttum verið skipt, við teljum norðvestan-, norðan-, norðaustan- og austanáttir saman, (og köllum norðlægar), en hinar áttirnar fjórar suðlægar. 

Veturinn sker sig mjög úr í samanburði áttflokkanna, sérstaklega þó febrúar. Grænu súlurnar sýna mismun á tíðni suðlægra og norðlægra illviðra. Þau norðlægu eru algengari en hin í apríl, október og nóvember (mismunurinn neikvæður). 

Í maí er tíðni norðanveðra tvöföld á við sunnanveðratíðnina. - Versta veður (hvað vind varðar) sem vitað er um á landinu í maí var þó vestanveður. - Við rifjum það vonandi upp fljótlega. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

 • w-blogg120424c
 • w-blogg120424b
 • w-blogg120424a
 • w-blogg110424b
 • w-blogg110424b

Heimsóknir

Flettingar

 • Í dag (15.4.): 23
 • Sl. sólarhring: 148
 • Sl. viku: 1796
 • Frá upphafi: 2347430

Annað

 • Innlit í dag: 23
 • Innlit sl. viku: 1553
 • Gestir í dag: 23
 • IP-tölur í dag: 23

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband