Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2017
19.4.2017 | 22:19
Hlýr og úrkomusamur vetur
Nú er komið að sumardeginum fyrsta og rétt að líta á útkomu íslenska vetrarins 2016 til 2017. Veturinn sá hefst á fyrsta vetrardag, sem síðastliðið haust bar upp á 22. október og við teljum honum ljúka með deginum í dag, 19. apríl 2017.
Veturinn var bæði hlýr og úrkomusamur. Línuritið hér að neðan ber saman hita vetra alllangt aftur í tímann. Vegna þess að íslenska tímatalið fylgir ekki mánuðum hins hefðbundna dagatals verðum við að þekkja hita hvers einasta dags til að geta reiknað. Það gerum við ekki á Akureyri nema aftur á árið 1936, en í Reykjavík lengra aftur - en þó ekki samfellt (unnið er að úrbótum, en það er ákaflega seinlegt).
Gráa línan sýnir Reykjavíkurhitann, en sú rauða hitann á Akureyri. Ártölin standa við síðara ártal vetrarins (2017 á við veturinn 2016 til 2017). Við sjáum að í Reykjavík er vitað um fjóra hlýrri, hlýjastur var 2002 til 2003, síðan 1928 til 1929, 1963 til 1964 og 1945 til 1946. Ámóta hlýtt og nú var einnig 1941 til 1942.
Á Akureyri ná reikningarnir aðeins aftur til vetrarins 1936 til 1937. Nýliðinn vetur er sá næsthlýjasti á því tímabili - 2002 til 2003 er sá eini sem var hlýrri. - En við vitum hér ekki nákvæma tölu fyrir 1928 til 1929 - sá næsthlýjasti í Reykjavík.
Óvenjuúrkomusamt var í Reykjavík eins og sjá má á myndinni. Ámótamikið skilaði sér í mælana 1991 til 1992, en síðan þarf að fara aftur til 1925 til að finna jafnmikið eða meira.
Ritstjóri hungurdiska óskar lesendum og landsmönnum öðrum gleðilegs sumars með þökk fyrir vinsemd á liðnum misserum.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 22:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.4.2017 | 02:07
Sjávarhitavik á N-Atlantshafi um þessar mundir
Það er svosem lítið nýtt af sjávarhitavikum á Norðuratlantshafi að frétta - flest við það sama. Neikvæð vik enn á sveimi suðvestur í hafi - kannski ívið minnkandi - en jákvæð fyrir norðan.
Ritstjóri hungurdiska ritaði nokkuð ítarlega um ástæðu neikvæðu vikanna í pistlum í maí 2016 og ætlar ekki að endurtaka það nú - þó fáir hafi lesið og enn færri muna - en minnir samt á að neikvæð vik af þessu tagi á þessu svæði hafa í fortíðinni átt sér mismunandi orsakir - eins og öll önnur vik.
Hitavik eru ekki eingildur mælikvarði á veðurfarsbreytingar, hvað þá umhverfisbreytingar almennt. Við getum ekki ráðið umfangi umhverfis- eða veðurfarsbreytinga með því að liggja á hitastillinum einum - þar að auki er sá hitastillir kvarðalaus (eða að kvarðinn er í besta falli ógreinilegur - þó við vitum með nokkurri vissu að upp þýðir upp og niður niður). Jú, það sakar kannski ekki að reyna - og væri ábyggilega til bóta á ýmsum sviðum - sé það gert falslaust vel að merkja (en á slíku virðist lítill eða enginn kostur).
17.4.2017 | 14:44
Kalt víða í Evrópu - ekki vorsvipur hér heldur
Þó nokkrir kaldir dagar hafi komið hér að undanförnu er samt varla hægt að tala um kulda að ráði. Þetta er ósköp venjuleg aprílveðrátta hvað sem síðar verður. En útlitið næstu vikuna er heldur dapurt, virðist eiga að skiptast á leiðindaveður og skárri en kaldir dagar.
Aftur á móti eru - að tiltölu - enn meiri leiðindi víða í Evrópu. Þar á spretta að vera byrjuð - og er það auðvitað mjög bagalegt þar að sitja uppi með þrálát næturfrost (sem við þolum hins vegar mjög vel á þessum tíma).
Við skulum líta á spá bandarísku veðurstofunnar sem gildir á morgun, þriðjudag 18. apríl.
Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar. Af þeim má ráða vindátt og vindhraða. Þykkt er tilgreind í litum, hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Mörkin á milli bláu og grænu litanna er við 5280 metra. Það er vetrarástand við Hvítahaf (þykkt minni en 5100 metrar) - en það er alvanalegt þar á þessum tíma. Guli liturinn byrjar við 5460 metra - þar sem hann ríkir er komið sumar (á okkar mælikvarða). Það er rétt suður við Miðjarðarhaf þar sem hiti er orðinn sumarlegur - meir að segja mög hlýtt syðst á Pýrenneaskaga.
Annars teygir sig kaldur fingur úr norðri suður til Alpa - bláa litnum fylgir næturfrost og sé skýjað eru dagar líka mjög svalir og hráslagalegir. Skíni sól nær síðdegishiti sér sæmilega upp sunnan undir vegg - og sól er auðvitað hærra á lofti en hér á landi suður á Þýskalandi. - Ívið skárra er á Bretlandseyjum.
Og þetta á víst í aðalatriðum að halda áfram - fleiri kaldra fingra að vænta langt úr norðri síðar í vikunni og um næstu helgi.
Við sitjum, eins og áður sagði, í óttalegum leiðindum, svala og hraglanda lengst af og búum áfram við hótanir um alvöruhret (sem ekki er þó víst að raungerist).
16.4.2017 | 01:52
Aprílmánuður hálfnaður
Þegar aprílmánuður er hálfnaður er hiti á landinu ekki fjarri meðallagi. Í Reykjavík er talan 2,8 stig og er það 0.8 stigum ofan við meðaltal sömu daga 1961 til 1990, en -0.7 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Svipuð staða er á Akureyri, meðalhiti fyrri hluta apríl er nú 1,5 stig, +0,9 yfir meðaltalinu 1961 til 1990, en -0.7 undir meðallagi síðustu tíu ára.
En það er nokkur munur á landshlutum, hlýjast að tiltölu - miðað við síðustu tíu ár - hefur verið á Brúarjökli og í Sandbúðum, vikið á þessum stöðvum er +0,8 stig, en kaldast hefur verið á Þverfjalli þar sem hiti hefur verið -2,0 stig undir meðaltali.
Dagurinn í dag, 15. apríl, var nokkuð kaldur, landsmeðaltalið var -0,9 stig, en það er langt frá metum, sama dag 1951 var landsmeðalhitinn -6,1 stig og -5,9 stig 1963. Í Reykjavík var meðalhiti dagsins +0,7 stig, en köldustu almanaksbræður sem vitað er um í Reykjavík komu 1892 og 1951, meðalhiti var þá -5,3 stig, og hefur nærri 40 sinnum verið lægri en í dag.
Úrkoma hefur verið mikil um mestallt land í apríl, um tvöföld meðalúrkoma bæði í Reykjavík og á Akureyri, en langt frá meti á þessum stöðvum báðum. Sólskinsstundafjöldi hefur náð sér vel á strik í Reykjavík síðustu daga eftir daufa byrjun. Sólskin hefur nú mælst í 67,5 stundir og er það nærri meðallagi í fyrri hluta apríl. Í dag (þann 15.) mældust sólskinstundirnar 14,0 - það er ekki langt frá dægurmetinu 14,7 sem sett var 1936.
Árið, það sem af er, stendur sig vel hvað hita varðar, er í áttundahlýjasta sæti á 69-ára listanum í Reykjavík, í því sjöunda á Akureyri og fjórða austur á Dalatanga.
En það bólar ekki mikið á staðföstum vorhlýindum - frekar hið gagnstæða í spákortunum.
14.4.2017 | 16:33
Vetur eða vor framundan?
Við skulum til gamans líta á klasaspá evrópureiknimiðstöðvarinnar fyrir næstu viku (mánudaginn 17. apríl til sunnudags 23. apríl). Í klasanum er 51 spáruna og kortið sýnir meðaltal þeirra.
Jafnhæðarlínur 500 hPa-flagarins eru heildregnar. Jafnþykktarlínur eru strikaðar (sjást illa nema myndin sé stækkuð) og þykktarvik eru sýnd í lit. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Vik hennar frá meðallagi sýna því hitavik. Það er mikil sunnanátt suðvestur í hafi og hita þar spáð meir en 5 stigum ofan meðallags í næstu viku.
Mjög kalt er hins vegar bæði í austri og vestri. Ísland er svona mitt á milli - kannski hlýtt suma dagana, en kalt aðra.
Þetta er almennt fremur óþægileg (sumir myndu segja spennandi) staða. Óþægindin felast í því að hún hótar leiðinlegum vorhretum. Spenningurinn felst í því hvort þau raungerast - það er ekki alveg víst.
Nýjasta tíu daga spá reiknimiðstöðvarinnar sýnist vera í hretagír - en sú bandaríska síður (en er aftur á móti með leiðinlegri sunnan- og suðvestanáttir). En þetta breytist frá einu rennsli til annars (eins og venjulega).
14.4.2017 | 14:34
Í leit að vorinu 6
Þá er það vindurinn. Hann boðar líka vor, vindhraði minnkar og hann verður lausari í rásinni. Sömuleiðis verða breytingar á vindáttatíðni - en mjög erfitt er að ná tökum á þeim þannig að vel sé.
Við skulum byrja langt uppi í heiðhvolfinu, í meir en 20 km hæð yfir jörð. Þar finnum við 30 hPa-flötinn. Alloft hefur verið á hann minnst áður hér á hungurdiskum og hegðan vinds þar. Þegar kemur upp fyrir um 20 km hæð skiptir alveg um átt á sumrin - vindur snýst úr vestri í austur. Þar neðan við helst vestanáttin allt árið - en úr henni dregur þó mjög á sumrin eins og við munum vonandi fá að sjá í næstu pistlum. Neðst í veðrahvolfinu hagar þó þannig til hér við land að austanátt er í hámarki að vetri, en lágmarki að sumarlagi.
En lítum á vestanáttina í 30 hPa. Til þess notum við háloftaathuganir frá Keflavíkurflugvelli á árunum 1973 til 2016.
Lárétti ásinn sýnir allt árið - og hálfu ári betur (til að veturinn sjáist saman í heild). Lóðrétti ásinn sýnir vestanþátt vindsins (ekki vindhraða). Sé vindur beint af suðri eða norðri er vestanþátturinn enginn, sé vindur af austri er vestanþátturinn neikvæður.
Skiptin milli vestan- og austanáttar á vorin verða í kringum sumardaginn fyrsta. Ekki alveg nákvæmlega á sama tíma frá ári til árs, en samt er furðumikil festa í þessum skiptum. Sumarið í heiðhvolfinu hefst sum sé á sumardaginn fyrsta. Það er varla tilviljun að þær breytingar sem við höfum í fyrri pistlum séð að verða nærri þessum degi eigi sér stað þegar umskiptin verða í heiðhvolfinu.
En við sjáum líka á myndinni að sumri lýkur í heiðhvolfinu seint í ágúst - við skulum bara segja að það sé á höfuðdaginn (þann 29.), en þeir sem lengi hafa fylgst með veðri og hafa tilfinningu fyrir því gætu líka verið veikir fyrir þeim 24. Ritstjórinn minnir af þessu tilefni á fornan pistil hungurdiska sem bar nafnið: September, haustið og tvímánuður. Þar má m.a. finna alþýðuskýringu hans á tvímánaðarnafninu dularfulla.
En vorið er snemma á ferð í heiðhvolfinu - það er byrjað fyrir jafndægur á vori þegar vestanáttin er þar í frjálsu falli. Ef við leitum að jafnsterkri vestanátt að hausti og er við jafndægur á vori kemur í ljós að þar hittum við fyrsta vetrardag fyrir.
Vetur hefst í heiðhvolfi á fyrsta vetrardag (eða aðeins síðar) stendur nær til jafndægra að vori, vorið er stutt, sumar hefst á sumardaginn fyrsta. Það stendur til upphafs tvímánaðar og varir í tvo mánuði til fyrsta vetrardags. Í kringum mánaðamótin nóvember/desember fær vestanáttin í heiðhvolfinu aukaafl - skammdegisröstin nær sér á strik. Á skammdegisröstina var minnst í pistli hungurdiska 5. nóvember 2015. Á sama tíma sýna meðaltöl skyndilegt fall í sjávarmálsþrýstingi hér á landi - kannski er þetta tengt líka?
Nýliðinn vetur var nokkuð óvenjulegur í heiðhvolfi norðurhvels - og þegar þetta er skrifað (14. apríl) er norðaustanátt í 30 hPa yfir Íslandi. Sumar er að ganga í garð þar uppi.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 15:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.4.2017 | 12:40
Í leit að vorinu 5
Við víkjum nú að úrkomu - hvernig breytist hún á vorin? Talið er hversu víða úrkoma mælist á landinu á hverjum degi allt aftur til 1949, hlutfall reiknað og meðaltal dregið fyrir hvern dag almanaksársins.
Lóðrétti kvarðinn sýnir hversu hátt hlutfall stöðva mælir úrkomu - einingin er þúsundustuhlutar (prómill). Talan 500 þýðir að úrkoma hafi mælst á helmingi veðurstöðva landsins.
Á línuritinu eru tvær línur - það virðist skipta litlu máli hvora þeirra við veljum í þessu samhengi. Sú efri miðar við að úrkoman hafi mælst 0,1 mm eða meira, en sú neðri að 0,5 mm eða meira hafi mælst.
Fram undir miðjan mars eru úrkomulíkur oftast um og yfir 55 prósent (550 prómill) á landinu, en þá fer lítillega að draga úr. Upp úr miðjum apríl er tíðniþrep og eftir það eru líkurnar komnar niður í 40 til 45 prósent. Líkur á því að úrkoma sé 0,5 mm eða meiri falla ámóta hratt (eða aðeins hraðar).
Þrepið skömmu fyrir sumardaginn fyrsta vekur auðvitað athygli - það tengist þeim þrepum loftþrýstings og þrýstióróa sem við kynntumst í fyrri leitarpistlum.
Úrkomutíðni á landinu er í lágmarki frá því um 10. maí til 10. júní.
12.4.2017 | 21:18
Í leit að vorinu 4
Í síðasta pistli komumst við að því að mánuðurinn forni, harpa (auk fyrstu viku skerplu) má kannski teljast sérstök árstíð, létum við meðalloftþrýsting ráða árstíðaskiptingu. - Við horfum aftur á sömu mynd, en bætum svonefndum óróavísi við á línuritið. Óróavísirinn segir okkur hversu mikið loftþrýstingur breytist að meðaltali frá degi til dags.
Óróinn er einskonar mælikvarði á það hversu snarpur lægðagangur er við landið. Hann er allvel tengdur þrýstingnum, lægðum fylgja að jafnaði snarpari þrýstibreytingar heldur en hæðum. - Þó koma mánuðir á stangli þegar þrýstingur er lágur án þess að þrýstiórói sé það.
Við vitum af reynslu að vetrarlægðir eru öflugri en þær sem ásækja okkur að sumarlagi. Það kemur því ekki á óvart að þrýstióróinn er miklu meiri að vetri en sumri - en hversu miklu meiri?
Það sýnir rauði ferillinn á myndinni - og kvarðinn til hægri. Kvarðinn til vinstri og grái ferillinn eru óbreyttir frá pistli gærdagsins.
Hér sjáum við að óróinn er svipaður frá áramótum og fram í miðjan þorra, um 9 hPa, en þá fer að draga úr honum. Þetta er um svipað leyti og þrýstingur fer að hækka. Í fyrri hluta apríl er hann kominn niður í milli 7 og 8 hPa en fellur þá snögglega á tveimur vikum niður fyrir 6. Síðan dregur hægt úr - án þess að áberandi þrep sjáist.
Það gerist greinilega eitthvað - lægðagangur minnkar mjög rækilega í kringum sumardaginn fyrsta. Hér er hávetur til miðs þorra, þá taka útmánuðir við og síðan sumarástand strax frá sumardeginum fyrsta. Þrýstiórói vex ekkert við þrýstifallið í maílok - það tengist því einhverju öðru en lægðagangi.
Þrýstióróavorið? Það stendur eiginlega bara frá 15. til 25. apríl.
Vísindi og fræði | Breytt 13.4.2017 kl. 11:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.4.2017 | 11:17
Í leit að vorinu 3
Vorkoma er meira en að hiti hækki með hækkandi sól. Fleira gerist í veðrinu - efni í langan bókarkafla eða heila bók. Hringrás lofthjúpsins breytist - bæði nær og fjær. Vestanvindabeltið slaknar, austanáttin lætur á sér kræla í heiðhvolfinu. Meginlönd og höf bregðast misjafnt við hækkandi sól - sem aftur raskar vindáttum. - Og andardráttur landsins okkar, Íslands, er annar að sumri heldur en vetri.
Margar þessar breytingar hafa verið raktar á pistlum hungurdiska í gegnum árin - það efni er allt aðgengilegt. Á dögunum var hér fjallað um hækkun meðalhita á vorin. Þar skar einn vendipunktur sig úr - eftir flatan vetrarhita tekur hann skyndilega til við að hækka í vikunni kringum 1. apríl. Á landsvísu hækkar hiti um 2 stig milli mars og apríl, um 3,5 stig milli apríl og maí og svo 3,0 stig milli maí og júní. Hækkunin milli júní og júlí er svo um 1,8 stig að meðaltali.
Þennan gang hitans sáum við vel í vorpistli sem birtur var hér á hungurdiskum á dögunum. Þar var því gert skóna að það væri í kringum 25. maí sem aðeins fer að hægja á hlýnuninni og henni væri að mestu lokið við upphaf hundadaga. Stungið var upp á því að vetri lyki 1. apríl, þá hæfist vor og stæði annað hvort til 25. maí (þá slær á hraða hitahækkunarinnar) eða til upphafs hundadaga (þegar hitaflatneskja hins stutta sumars tekur við).
En við munum nú í nokkrum pistlum líta á fleiri atriði vorbreytinga. Eitt í senn. Ef til vill ekki áhugavert fyrir nema fáa - en hafi að minnsta kosti einn lesandi áhuga er ritstjórinn ánægður (jú, hann hefur sjálfur áhuga).
Línuritið sýnir breytingu meðalsjávarmálsþrýstings á Íslandi fyrri hluta árs. Kjarni vetrarins einkennist af nokkurri flatneskju, en hún stendur ekki nema í um það bil 7 til 8 vikur, frá því snemma í desember þar til fyrstu daga febrúarmánaðar.
Lægstur er þrýstingurinn í þorrabyrjun - á miðjum vetri að íslensku tali. Svo fer að halla til vors, tveimur mánuðum áður en meðalhiti tekur til við sinn hækkunarsprett.
Þrýstihækkunin heldur síðan áfram jafnt og þétt, en í kringum sumardaginn fyrsta virðist herða á henni um stutta stund þar til hámarki er náð í maí. Þetta hámark er flatt og stendur í um það bil 5 vikur. Mánuðinn hörpu eða þar um bil. Harpa er eiginlega sérstök loftþrýstiárstíð, rétt eins og desember og janúar eru það - og þrýstihækkun útmánaða.
Í maílok fellur þrýstingurinn - ekki mikið, en marktækt - og þrýstisumarið hefst. - Það stendur fram að höfuðdegi. Árstíðirnar eru því fimm, vetrarsólstöður, útmánuðir, harpa, sumar og haust.
En hver er ástæða þessarar árstíðaskiptingar? Það er afarflókið mál - kannski upplýsist það að einhverju leyti í framhaldspistlum sem fyrirhugaðir eru - hafi lesendur þrek til að fylgjast með.
7.4.2017 | 01:06
Páskahretið mikla 1917 (hundrað ára minning)
Þekktasta páskahret síðustu aldar er vafalítið það sem skall á þann 9. apríl 1963. Þetta var þriðjudagur í dymbilviku. Gleymir því enginn sem þau umskipti lifði. En við lítum nú enn lengra aftur í tímann, til páska 1917. Þá gerði líka afspyrnuslæmt áhlaup, furðulíkt því 1963. Aðalmunurinn var e.t.v. sá að vikurnar á undan voru ekki nærri því eins hlýjar 1917 og í síðara tilvikinu og gróður því ekki jafnlangt genginn þá og 63. Tíð hafði þó almennt verið hagstæð frá því um áramót.
Í tíðarhnotskurn hungurdiska segir um janúar til mars:
Janúar: Fremur hægviðrasöm og hagstæð tíð lengst af. Mjög þurrt víðast hvar. Fremur hlýtt.
Febrúar: Hægviðrasöm og hagstæð tíð lengst af. Fremur hlýtt.
Mars: Lengst af fremur hagstæð tíð, einkum suðvestanlands. Fremur hlýtt þar til undir lok mánaðar.
Hér verða fyrst sýnd nokkur veðurkort amerísku endurgreiningarinnar, síðan gerum við dálítinn samanburð á hretunum og loks rennt í gegnum helsta tjón í hretinu 1917.
Fyrirsögn á forsíðu Morgunblaðsins. Laugardagskvöldið fyrir páska bar upp á 7. apríl 1917.
Veðurkort föstudagsins langa, 6. apríl, virðist heldur sakleysislegt. Grunn lægð á Grænlandshafi - engar opinberar veðurspár að hafa og því síður nokkrar tölvuspár. Gaman væri að vita hvort einhverjir hafa samt haft grun um hvað í vændum var.
Háloftakortið á hádegi sama dag afhjúpar stöðuna - og hér sjá vanir menn að illt gæti verið í efni (ekki þó neitt öruggt að spá eftir þessu korti einu og sér). Nokkuð hraðfara háloftalægðardrag er á austurleið yfir Suður-Grænlandi. Hvort greiningin nær þessu réttu vitum við ekki - en trúlega er farið nærri lagi því framhaldið er mjög trúverðugt.
Hér er komið hádegi þann 7. og hretið skollið á á Vestfjörðum - 10 vindstig af norðausturi talin á Ísafirði. Lægðarmiðjan er hér ekki á alveg réttum stað - enn var hægur suðvestan í Stykkishólmi kl. 14 (15 utc) - og þá var ekki heldur farið að hvessa að ráði í Grímsey. En síðan er eins og veggur af köldu lofti úr norðri falli suður yfir landið, lægðin heldur áfram að dýpka og þrýstingur vestan við land rýkur upp.
Kortið sem gildir kl. 6 að morgni páskadags er vægast sagt ískyggilegt.
Þrýstilínur í knippi yfir landinu og vindhraði ógurlegur, frostharka mikil og blindhríð.
Við getum líka skoðað atburðarásina á línuriti.
Lárétti ásinn sýnir daga aprílmánaðar 1917. Lóðréttu ásarnir eru tveir, sá til vinstri sýnir þrýstimun yfir landið, mun á hæsta og lægsta samtímaþrýstingi við sjávarmál í hPa. Ekki eru hér fáanleg nema þrjú gildi á sólarhring og sýna bláleitu súlurnar þau. Þrýstimunurinn er mestur að morgni páskadags, um svipað leyti og kortið að ofan gildir, 37,4 hPa. Þetta er óvenjuleg tala - hugsanlega eru ekki allar loftvogir alveg réttar, en samt. Þrýstimunur af þessu tagi má telja órækan vitnisburð um fárviðri einhvers staðar á landinu - sé hann er meiri en 20 hPa eru stormlíkur miklar.
Hægri lóðrétti ásinn sýnir hita í Reykjavík og markar rauða strikalínan hann, þrisvar á sólarhring. Á einni nóttu fellur hitinn úr 5 stigum niður í meir en -8 stiga frost - og síðar enn neðar. - Þann 9 dúraði aðeins, en síðan bætti aftur í vind sé að marka þrýstimuninn.
Næst sjáum við samanburð við hitann í Reykjavík 1963.
Blái ferillinn er hér 1917, en sá rauði 1963, alveg ótrúlega líkir ferlar. Hér hefur dögum 1963 verið hnikað um tvo þannig að hretin falli saman. En eins og sjá má var mun hlýrra vikuna áður 1963 heldur en 1917.
Línurit sem sýna þrýstimun í hretunum báðum eru líka ámóta - þó ekki eins lík og hitaritið.
Munurinn varð meiri 1917 heldur en 1963, en síðari toppurinn var hærri 1963 heldur en 1917 (upplausn í tíma þó betri). Loftþrýstiferlarnir (ekki sýndir hér) eru ólíkari. Sá virðist hafa verið helstur munur á veðrunum að grænlandslægðardragið 1963 kom úr norðvestri en 1917 kom það beint úr vestri.
Trúlega yrði veðrum sem þessum báðum spáð með einhverjum fyrirvara í tölvum nútímans. Veður af þessari ætt eru ekki óalgeng, en eru til allrar hamingju sjaldan svona óskaplega hörð og snörp. Þar að auki er auðvitað óvenjulegt að þau hitti á dymbilviku eða páska og komist þar með í hóp páskahreta - sem af einhverjum ástæðum vekja oftast meiri áhuga en önnur köst.
En lítum nú lauslega á helsta tjón í veðrinu.
Að minnsta kosti þrír urðu úti, kona við Valbjarnarvelli í Borgarfirði, maður við Borg í Arnarfirði og maður við Hornafjarðarfljót.
Miklir fjárskaðar, m.a. í Húnavatnssýslum, í Dýrafirði og Arnarfirði. Miklir fjárskaðar urðu einnig á Síðu og í Fljótshverfi og austur í Lóni. Mikið tjón varð á bæjarsímanum á Seyðisfirði og brotnuðu flestir staurar, og allir milli Fjarðarárbrúar og Búðareyrar. Skúta sökk þar á firðinum og önnur á Eskifirði. Vélbátar brotnuðu bæði á Eskifirði, Fáskrúðsfirði og Reyðarfirði. Í Reyðarfirði fauk hlaða og fjárskaðar urðu. Hlaða fauk í Mjóafirði. Bátar og hús skemmdust á Djúpavogi og þar í grennd, einn bátur með þremur mönnum fórst. Bátar sukku á Höfn í Hornafirði.
Fjögur útróðraskip fuku undir Eyjafjöllum og tvær hlöður á Rauðafelli þar í sveit. Hlöður fuku á Háeyri og í Votmúla í Flóa, símstaurar brotnuðu við Eyrarbakka. Skaðar urðu á húsum í Borgarfirði og fé fennti í Fornahvammi, Hraundal og víðar. Vélbátur brotnaði í Grundarfirði. Skaðar urðu á jörðum í Hornafirði og í Lóni af sandfoki og grjótflugi (nákvæm dagsetning þess tjóns óviss).
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (9.11.): 228
- Sl. sólarhring: 324
- Sl. viku: 1662
- Frá upphafi: 2408530
Annað
- Innlit í dag: 214
- Innlit sl. viku: 1494
- Gestir í dag: 207
- IP-tölur í dag: 206
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010