Í heiðhvolfinu - í 16 og 23 km hæð

Við lítum á tvö spákort um vinda og hita í heiðhvolfinu síðdegis á föstudag 6. nóvember. Ekki það að eitthvað óvenjulegt sé þar á seyði - heldur er ágæt tilbreyting að líta stundum upp. 

Fyrra kortið sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um hæð 100 hPa-flatarins og vind og hita í honum.

w-blogg051115a

Jafnhæðarlínur eru heildregnar og hér má sjá mikið lægðardrag teygja sig um Grænland langt suður í höf. Merkingar á línunum eru í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Það er 15840 metra línan sem liggur um Ísland. Litafletir sýna hita (kvarðinn batnar sé kortið stækkað). 

Það er sérlega eftirtektarvert að mun kaldara er yfir Spáni (<-72 stig) heldur en á austurvæng lægðardragsins (>-52 stig) - það munar meira en 20 stigum, 100 hPa flöturinn yfir Spáni er nærri veðrahvörfum. Reiknimiðstöðin segir þau vera þar í um 120 hPa hæð (rétt undir kortafletinum). Þar sem hlýjast er á kortinu er hæð þeirra hins vegar ekki fjarri 300 hPa - eða í um 9 km hæð. 

Að jafnaði fellur hiti frá yfirborði jarðar allt til veðrahvarfa - stígur síðan gjarnan lítillega/nokkuð næst ofan við þau - en breytist síðan lítið þegar enn hærra er haldið. Þar sem veðrahvörfin eru há getur hitafallið frá jörð því verið meira heldur en þar sem þau liggja lágt. Þetta skýrir að nokkru hitamynstrið á myndinni. 

En við skulum líka líta á vindinn - hann er mestur austan við hlýjasta svæðið - þar undir er einn skotvinda heimskautarastarinnar. Vindrastir hafa áhrif á lóðréttar hreyfingar lofts í kringum þær. Á þessu korti liggur röstin þannig að niðurdráttur verður vestan hennar - og loft sem streymir niður hlýnar. Niðurstreymi er því hluti skýringar á því hvers vegna þarna er hlýjast á kortinu. 

Í 23 kílómetra hæð er þrýstingur kominn niður í 30 hPa - það er sá flötur sem við sjáum á neðra kortinu. Það gildir á sama tíma og það efra - kl. 18 síðdegis á föstudag 6. nóvember.

w-blogg051115b

Þetta kort sýnir mun stærra svæði (og er úr ranni bandarísku veðurstofunnar). Þetta er langt ofan veðrahvarfa - lægðardragið suður um Grænland er ekki jafn eindregið og á hinu kortinu - en er samt þarna - því fylgir hlýrra loft - er það rastarvakið niðurstreymi sem veldur því að það er hlýrra en umhverfis? - eða er það hlýrra vegna þess að það er komið að sunnan? Ekki gott að segja. 

Við sjáum hins vegar að hlý pylsa liggur austur um alla Asíu - þetta eru örugglega rastarvakin hlýindi. Á þessum slóðum eru heimskautaröstin og svokölluð hvarfbaugsröst oft(-ast) samsíða á vetrum - mikill niðurdráttur er norðan þessara sameinuðu rasta. Hvarfbaugsröstin er ofar í lofti en heimskautaröstin. Við getum reyndar séð niðurstreymi vakið af henni í hitahámörkum yfir Líbýu og svo nærri hvarfbaug í Atlantshafi (undir textahólfinu). 

Langkaldast er yfir Norðuríshafi - þar er skammdegishvirfillinn að búa um sig. Varmabúskapur heiðhvolfsins ræðst af námi sólargeisla annars vegar (óson sér aðallega um það) og langbylgjuútgeislun hins vegar. Þegar sólin hættir að koma upp - heimskautavetrarnóttin tekur við - kólnar hægt og bítandi. Við það minnkar fyrirferð lofsins og þrýstifletir falla - og til verður þriðja meginröst norðurhvels - skammdegisröstin (heimsskautaskammdegisheiðhvolfsröstin). 

Muna þetta - gjöra svo vel: (i) Heimskautaröstin („lausa“ búta hennar köllum við gjarnan skotvinda), (ii) hvarfbaugsröstin, (iii) skammdegisröstin. 

Ensku heitin eru: Heimskautaröstin er "(polar) jet stream", skotvindur er "jet streak", hvarfbaugsröstin er "sub-tropical jet stream" og skammdegisröstin er "polar night jet".

Fróðleiksfúsir geta netflett sér til bóta (eða óbóta).  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 202
  • Sl. sólarhring: 365
  • Sl. viku: 1518
  • Frá upphafi: 2349987

Annað

  • Innlit í dag: 177
  • Innlit sl. viku: 1380
  • Gestir í dag: 175
  • IP-tölur í dag: 170

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband