Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2017

Í leit að vorinu

Síðla sumars árið 2014 birtust sex pistlar á hungurdiskum undir fyrirsögninni „Í leit að haustinu“. Nú verður reynt að leita vors - í fáeinum pistlum. Sá fyrsti er nær orðrétt samhljóða fyrstu haustpistlunum - en ritstjóranum finnst í góðu lagi að rifja þá upp - langflestir lesendur löngu búnir að gleyma (ágætu) innihaldinu. 

Í dag lítum við eingöngu á landsmeðalhita - reynum að finna vorinu stað í árstíðasveiflu hans. Grunnurinn er byggðarlandsmeðalhiti sem ritstjórinn hefur reiknað og nær nú til tímabilsins 1949 til 2016. Menn ráða því hvort þeir taka mark á tölunum.

Við lítum á nokkrar myndir (nærri því eins).

w-blogg050417a

Lóðrétti kvarðinn sýnir hita - en sá lárétti árstímann og er hann látinn ná yfir eitt og hálft ár. Það er til þess að við getum séð allar árstíðir í samfellu á sömu mynd.

Árslandsmeðalhitinn er 3,6 stig. Dökku fletirnir ofan til á myndinni sýna þann tíma ársins þegar hiti er yfir meðallagi þess og þeir neðan við sýna kaldari tímann.

Eitt megineinkenni íslensks veðurfars er sú hversu lítill munur er á meðalhita einstakra mánaða á vetrum. Hitinn er næstum sá sami frá því um miðjan desember og fram til marsloka. Tilsvarandi sumarflatneskja stendur mun styttri tíma - og víkur meir frá ársmeðaltalinu. Þetta hefur þær afleiðingar að hiti er ekki ofan meðallags nema 163 daga ársins - en er aftur á móti undir því 202 daga. Gleðilegt - eða sorglegt - það fer væntanlega eftir lundarfari hvort mönnum þykir.

Það er 6. maí sem hitinn á vorin fer upp fyrir ársmeðaltalið - en 16. október dettur hann niður fyrir að að nýju. Við gætum skipt árinu í sumar og vetrarhelming eftir þessu og er það mjög nærri því sem forfeður okkar gerðu - ef við tökum fáeina daga af vetrinum til beggja handa og bættum við sumarið erum við býsna nærri fyrsta sumardegi gamla tímatalsins að vori og fyrsta vetrardegi að hausti.

En í þessari skiptingu er ekkert haust og ekkert vor. Vilji menn hafa árstíðirnar fleiri en tvær verður að skipta einhvern veginn öðru vísi.

Eitt af því sem kæmi til greina væri að nota „vendipunkta“ á línuritinu - það er dagsetningar þar sem halli ferilsins breytist. Að minnsta kosti fjórir eru mjög greinilegir. Fyrst er til að taka á mörkum vetrar og vors, vetrarflatneskjunni lýkur greinilega um mánaðamótin mars/apríl, kannski 3. apríl - eftir það hækkar hiti óðfluga. Í kringum 15. júlí hættir hitinn að hækka, nær þá 10 stigum - og hin stutta sumarflatneskja tekur við. Staðbundið hámark er 8. ágúst og frá og með þeim 14. er hitinn aftur kominn niður í 10 stig. 

Hitafall haustsins stendur síðan linnulaust þar til næsta vendipunkti er náð - 15. desember. Þá tekur hin langa vetrarflatneskja við. Við höfum hér fengið út árstíðaskiptinguna: Vetur 15. desember til 3. apríl, vor 3. apríl til 15. júlí, sumar 15. júlí til 14. ágúst, haust 14. ágúst til 15. desember. Þetta hljómar ekki mjög vel - sumarið orðið býsnastutt - á þó vel við í svartsýnisrausi samtímans. 

Sé vel að gáð má sjá tvo vendipunkta til víðbótar - en erfitt er að negla þá niður á ákveðnar dagsetningar. Sá fyrri er um það bil 25. maí - þá hægir aðeins á hlýnuninni. Sá síðari er í kringum 15. nóvember - þá hægir á kólnun haustsins.

Við gætum svosem byrjað veturinn 15. nóvember og sumarið 25. maí, fundið hitann þessa daga og leitað að svipuðum hita vor og haust til að nota til að draga tímamörk á móti. Byrji sumarið 25. maí ætti það að hætta þegar svipuðum hita er náð í september. Sú dagsetning er 20. september. - Á móti vetrarlokum 3. apríl kemur þá vetrarbyrjun 15. desember - með svipaðan hita. 

Þessi nýja skipan yrði því svo: Vetur 15. desember til 3. apríl, vor 3. apríl til 25. maí, sumar 25. maí til 20. september, haust 20. september til 15. desember. - Eða byrjar veturinn 15. nóvember? 

Vendipunktaárstíðir gætum við kallað náttúrulegar - einhver umskipti eiga sér stað í náttúrunni á reglubundinn hátt.

Þegar þetta er skrifað er 4. apríl - vendipunktavorið 2017 rétt hafið. Við höldum leitinni að vorinu áfram síðar - og finnum fleiri skilgreiningar. 

Í viðhenginu er allur pistillinn. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hefur ekki umturnast

Af umræðum um veðurfar má stundum skilja að veðurfar hafi á einhvern hátt umturnast að undanförnu. Jú, hiti hefur farið hækkandi bæði á heimsvísu og hér á landi og er það - hvað heiminn varðar - áhyggjuefni sem síst skal dregið úr vegna þeirra varasömu afleiðinga sem slík hækkun hefur til lengri tíma litið. 

Þótt nýliðinn vetur hafi verið sérlega hlýr hér á landi sló hann þó ekki met - og að auki eru hitavikin að mestu leyti skýranleg. Um þann skýranleika hefur verið fjallað nokkuð ítarlega hér á hungurdiskum áður og verður ekki endurtekið nú. Sömuleiðis hefur líka verið fjallað um þátt hnattrænnar hlýnunar í hlýindum undanfarinna ára hér á landi. 

Á síðasta ári var hér á hungurdiskum nokkrum sinnum fjallað um að vestanátt háloftanna hefur verið í linara lagi að sumarlagi nú um nokkurt skeið - gæti verið áhyggjuefni, en jafnlíklegt samt að ástandið sé tilviljanakennt og að sumarvestanáttin muni ná sér aftur á strik.

Að vetrarlagi ber minna á eftirgjöf vestanáttarinnar - mjög lítið reyndar.

Vestanþáttur að vetrarlagi

Lárétti ásinn sýnir ár háloftamælitímabilsins (frá 1949) en sá lóðrétti styrk vestanáttarinnar yfir Íslandi. Einingin er torkennileg - en með því að deila með 5 nálgumst við meðalvigurvind í m/s. Vestanáttin var sérlega slök veturna 2013 og 2014 - og einnig slök 2016, en í ríflegu meðallagi nú í vetur. Sé línuleg leitni reiknuð virðist heldur hafa dregið úr vestanáttinni á tímabilinu - en breytileikinn er svo mikill frá ári til árs að fráleitt er að tala um að eitthvað hafi umturnast - eða að merki séu um slíkt. 

Sunnanþáttur að vetrarlagi

Næsta mynd sýnir sunnanvigurinn. Hér breytum við í m/s með því að deila með fjórum (það er alveg óþarft að gera það). Aðeins virðist hafa bæst í sunnanáttina - en alls ekkert marktækt. Veturnir 1979 og 2010 skera sig úr með sunnanáttaleysi - sá fyrri sérlega kaldur, en sá síðari sérlega hlýr. Skýringar á þessu hafa birst á hungurdiskum (oftar en einu sinni). - Sunnanáttarbrestur vetranna 1965 til 1970 vekur athygli - þetta eru hafísárin svonefndu. 

Mikil sunnanátt var ríkjandi lengst af í vetur - dró þó svo úr í mars að ekki varð um met að ræða. Hér er engin umturnun á ferð - varla þróun heldur. Það eru hins vegar töluverðar áratugasveiflur auk breytileika frá ári til árs. 

Hæð 500 hPa-flatarins að vetarlagi

Þriðji háloftaþátturinn sem við lítum á er hæð 500 hPa-flatarins, hún var í rétt rúmu meðallagi í vetur. Áratugasveiflur eru hér nokkuð áberandi - og flöturinn hefur fallið lítillega á tímabilinu í heild - en marktækni þeirrar leitni er engin. Með aukinni hnattrænni hlýnun ætti hæð 500 hPa-flatarins að aukast lítillega, en það hefur ekki gerst hér á landi - alla vega ekki enn.

Þykkt að vetrarlagi

Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Veturinn í vetur (2016 til 2017) var sá næsthlýjasti á öllu tímabilinu - aðeins var hlýrra 1963 til 1964. Í aðalatriðum fylgjast hiti á landinu og þykktin vel að (sjá fyrri pistla á hungurdiskum þar um) - en samt eru athyglisverðar undantekningar. Leitni þykktarinnar er aðeins minni en leitni hitans á sama tíma - enda kemur vel fram í háloftaathugunum frá Keflavíkurflugvelli að hlýnun undanfarinna áratuga er því meiri eftir því sem neðar dregur. (Sjá þar um í gömlum hungurdiskapistli). 

Þykktin er meðaltal hita alveg upp í 500 hPa - minna hefur hlýnað þar uppi heldur en neðst og meðalhlýnun á bilinu niður í 1000 hPa því minni en neðst. 

Breytingar á þykkt frá vetri til vetrar eru að miklu leyti skýranlegar með ríkjandi vindáttum og hæð 500 hPa-flatarins. Því hærri sem 500 hPa-flöturinn er því meiri er þykktin - því meiri sem sunnanáttin er því meiri en þykktin. Vestanáttin slær svo lítillega á - mikil vestanátt lækkar þykktina heldur. 

Þykkt yfir Íslandi - áætluð eftir hringrásarþáttum

Þetta sést vel á myndinni hér að ofan. Reiknað er samband þessara þriggja hringrásarþátta við þykktina (giskað á hana) - síðan er borið saman við rétta útkomu. Fylgnistuðull er 0,85 - þykktarbreytingar skýrast að mestu af hringrásarbreytileika. Leifin (munur á raunveruleika og giski) hefur þó farið vaxandi á síðari árum - (að meðaltali) - trúlega vegna hinnar áðurnefndu mishlýnunar neðri og efri laga veðrahvolfsins. 

En - þótt við reynum hvað við getum og þótt við vitum af hlýnandi veðri sjást engin merki um að veðurlag hér á landi hafi að einhverju leyti umturnast á undanförnum árum. Þegar það gerist (ritstjórinn útilokar auðvitað ekkert slíkt í framtíðinni) - mun það koma fram á línuritum sem þessum. Líklegast er þó að það taki þá nokkur ár að verða augljóst að breytingar hafi átt sér stað. 


Fjórðihlýjasti veturinn (í byggðum landsins)

Fyrir mánuði fjölluðum við um landsmeðalhita alþjóðavetrarins (desember til febrúar). Nú er komið að veðurstofuvetrinum (desember til mars). - Svo verður það vonandi íslenski veturinn (vetrarmisserið forna).

En þetta var hlýr vetur. Reiknast sá fjórðihlýjasti í byggðarhitaröð hungurdiska. 

Vetrarhiti í byggðum landsins

Fjórir hlýjustu veturnir skera sig nokkuð úr á myndinni. Hlýjastur var 1964 (2,2 stig), síðan 1929 (2,0 stig), 2003 (2,0 stig) og loks 2017 (1,7 stig). Nokkuð langt er í þá næstu þar fyrir neðan, 1972 og 2006 (1,1 stig). 

Langkaldastur var veturinn 1880 til 1881 (-9,6 stig) - svo langt fyrir neðan aðra að slíta þurfti lóðrétta ásinn á línuritinu í sundur til að koma honum inn. Næstkaldastur (á þessu tímabili var svo 1874 (-4,3 stig).

Vetrarhlýindi segja víst lítið um framhaldið - það er jafn óráðið og venjulega. 


« Fyrri síða

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 48
  • Sl. sólarhring: 146
  • Sl. viku: 1969
  • Frá upphafi: 2412633

Annað

  • Innlit í dag: 48
  • Innlit sl. viku: 1722
  • Gestir í dag: 47
  • IP-tölur í dag: 46

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband