Bloggfærslur mánaðarins, mars 2017
27.3.2017 | 23:42
Heklugosið 1947 (veðrið við upphaf þess)
Á miðvikudaginn, 29. mars, verða allt í einu liðin 70 ár frá upphafi gossins mikla í Heklu 1947. Þó ritstjóri hungurdiska sé of ungur til að muna gosið var mikið um það rætt í barnæsku hans. Meðal annars var talað um að 102 ár (101 frá lokum þess á undan) hefðu liðið frá næsta gosi á undan - og þótti auðvitað óralangur tími.
Engar líkur voru þá taldar á nýju gosi í bráð - gosið 1970 kom því verulega á óvart - og síðan hafa þau komið hvert af öðru. Eitthvað er mörgum nú til efs að goshléið fyrir 1947 hafi í raun og veru verið 101 ár - gosin 1878 og 1913 hafi líka verið Heklugos (kannski gerðist þá líka eitthvað í fjallinu sjálfu - án þess að nokkur gerði sér grein fyrir því).
En nú eru sum sé liðin 70 ár frá síðasta stórgosi og gott að rifja upp að það er í sjálfu sér ekkert ódæmigerður tími milli stórgosa. Stórgos varð t.d. 1693 og aftur 1766, 73 ár á milli þeirra - og að minnsta kosti eitt minna gos varð á milli.
En við látum jarðfræðinga um alvöruna hvað þetta snertir en lítum til gamans á veðurkort þennan morgun. - Veðurlag var mjög óvenjulegt veturinn 1946 til 1947. Janúar einhver sá hlýjasti sem um getur hér á land, febrúar stilltur og bjartur lengst af - allur syðra, en nyrðra og eystra snjóaði talsvert síðari hlutann. Óvenjulegt fannfergi gerði í hægviðri sunnanlands og vestan snemma í mánuðinum - en bara sums staðar - að sumu leyti svipað og fönnin á dögunum, ástæður voru þó aðrar.
Bjartviðrið syðra hélt áfram í mars - en nyrðra og eystra kyngdi niður snjó og endaði í mikilli snjóflóðahrinu nokkrum dögum áður en Heklugosið hófst. Aprílmánuður varð síðan sérlega skakviðrasamur, snjóþungur og óhagstæður. Allt á hvolfi þessa mánuði. Fádæma harðindi gerði víða um Vestur-Evrópu.
Kortið sýnir veðrið á landinu kl. 8 að morgni 29. mars, rúmri klukkustund eftir upphaf gossins (kortið skýrist sé það stækkað). Bjart veður er á Suðurlandi, en éljahraglandi víða fyrir norðan í norðaustanáttinni. Það er kalt, frost um land allt - langkaldast þó á Þingvöllum þar sem frostið er -14 stig.
Veðurathugunarmenn á Arnarstapa, Hamraendum, Hlaðhamri, í Núpsdalstungu, á Húsavík, Grímsstöðum á Fjöllum, í Papey, á Teigarhorni (og ef til vill víðar) segja frá miklum drunum þann 29.
Fáeinar háloftaathuganir frá Keflavíkurflugvelli hafa varðveist frá árinu 1947, þar á meðal tvær sem gerðar voru þann 29. mars. Sú fyrri er merkt kl.4 um nóttina - en hin kl. 16.
Við lítum á þá fyrri á mynd. Æ - ekki svo auðvelt að rýna í þetta, en gerum það samt. Lóðrétti ásinn sýnir hæð í metrum, en láréttu ásarnir eru tveir. Sá neðri vísar til bláa ferilsins og sýnir hita, en sá efri til þess rauða og sýnir vindhraða. Því miður náði þessi athugun ekki nema upp í tæplega 9 km hæð (300 hPa) og er nokkuð gisin.
Til að ná viti í bláa ferilinn (hitann) er best að reikna hversu hratt hiti fellur milli athugunarpunkta. Allt upp í 3 km hæð er hitafallið ekki nema um 0,3°C á hverja 100 m hækkun. Einhvers staðar eru hitahvörf á þessari leið. Á athugunarkortinu má sjá að flákaskýja er getið á ýmsum stöðvum - þau hafa væntanlega legið í þessum hitahvörfum.
Ofan við 3 km hæð fellur hitinn hraðar, 0,6 til 0,8 stig á hverja 100 metra að meðaltali. Þetta er venjulegt hitafall í veðrahvolfinu ofan jaðarlagsins. Veðrahvörfin sjáum við ekki - eða varla.
Rauði ferillinn sýnir vindhraða í m/s. Tölurnar við ferilinn sýna vindátt í gráðum. Hún er bilinu 20 til 40 gráður, áttin af af norðnorðaustri - eða rétt austan við það. Vindhraði vex mjög með hæð - er ekki mikill næst jörð, en er kominn upp í 37 m/s í 7 km hæð. Síðan dregur mjög úr. Efsti hluti makkarins fór miklu hærra, í 25 til 30 km hæð, það staðfesta frægar myndir sem teknar voru af honum.
Athugunin sem gerð var kl.16 náði upp í 13 km. Þá var vindur lítill nema í 9 km, þar sem hann var um 30 m/s, var aðeins talinn um 9 m/s í 13 km. Hvort treysta má þessum vindhraðamælingum fyllilega skal ósagt látið, en mökkurinn fór alla vega til suðurs eins og mælingarnar gefa til kynna.
Margt hefur verið um Heklugosið 1947 og upphaf þess ritað og verður ekki endurtekið hér - en endilega lesið eitthvað af því.
26.3.2017 | 22:06
Masað um meðalhita (ekkert sérlega gáfulega)
Við mösum nú dálítið um meðalhita. Ritstjóri hungurdiska slær á meðalhita hvers mánaðar í byggðum landsins aftur til 1874. Þetta er reyndar frekar vafasamur verknaður og frekar hugsaður sem eins konar skemmtiatriði heldur en hörð vísindi.
Á tímabilinu 1931 til 2012 var hægt að miða að miklu leyti við sama (eða svipað) úrval stöðva. Eftir það fækkaði mönnuðum stöðvum svo mjög að flytja þurfti reikningana yfir á sjálfvirka stöðvakerfið. Samanburður var gerður á aðferðunum tveimur og eitthvað gert til að jafna mun (að mestu).
Fyrir 1931 eru stöðvar færri - en með samanburði mátti gera leiðréttingar sem vonandi taka af misræmi. - En vegna þess að stöðvarnar voru færri verður að reikna með því að breytileiki milli mánaða sé heldur meiri fyrir 1931 en síðar. En við skulum ekki vera að velta vöngum yfir slíku.
Fyrsta mynd dagsins sýnir landsmeðalhita (í byggð) í öllum mánuðum frá janúar 1874 til febrúar 2017.
Ekki mjög auðlesið - en ritstjóranum finnst samt gaman á að horfa. Mánaðarhitinn var lægstur í mars 1881, -11,9 stig, en hæstur í ágúst 2003, 12,2 stig.
Við sjáum að hin síðustu ár hafa mánuðir með meðalhita undir -2 stigum verið sárafáir, eftir aldamót eru það aðeins febrúar 2002 og desember 2011 sem ná slíkum kulda. Ósköp einmana á myndinni. Fyrir 1995 er hrúga af slíkum mánuðum - meira að segja á hlýskeiðinu mikla fyrr á 20. öldinni.
Við sjáum líka að það hitinn virðist hægt og bítandi vera á leið upp á við, tæpt 0,001 stig á mánuði að meðaltali. Þau smáu skref safnast saman og verða að um það bil 1,1 stigi á öld.
Einnig sést að punktarnir eru gisnari um miðbik þyrpingarinnar (þvert yfir myndina) heldur en ofar og neðar.
Þetta má sjá betur á næstu mynd.
Þetta er tíðnirit. Við teljum saman fjölda mánaða á 1-stigs meðalhitabilum. Kemur þá í ljós að algengast er að meðalhiti í mánuði sé í kringum frostmark (dæmigerður vetrarhiti á Íslandi), nú eða 8 til 10 stig (dæmigerður sumarhiti). Ársmeðalhitinn er hins vegar um 3,7 stig.
Ef við nú tökum þetta bókstaflega mætti segja að hlýnunin sem orðið hefur síðustu 100 árin samsvari færslu á súlunum um eitt bil til hægri. - Eða hvað? Færum við að reikna kæmi reyndar í ljós að hlýnunin er meiri að vetri en sumri - erum við að skera kuldahalann langa af dreifingunni - en annars engu að breyta? Er tíðniritið að þéttast saman? Súlan á milli 11 og 12 er harla rýr. Má af því ráða að þess sé varla að vænta að það fari að fjölga mánuðum sem eru hlýrri en 12 stig fyrr en eftir einhverja áratugi?
Þessum spurningum vill ritstjóri hungurdiska auðvitað ekki svara - en telur samt hollt að myndir sem þessi séu hafðar í huga þegar hlýnun ber á góma.
Þegar rætt er um heimsmeðalhita er nær alltaf horft á hitarit sem sýna vik einstakra mánaða eða ára frá einhverju meðallagi. Auðvelt er að búa til slíkt rit fyrir Ísland (hafi tekist að reikna landsmeðalhitann).
Hér má sjá línurit af þessu tagi. Við reiknum meðaltal hvers almanaksmánaðar fyrir tímabilið 1931 til 2010 (80 ár) og síðan vik hvers einstaks mánaðar frá því meðaltali. Mestu jákvæðu vikin eru í febrúar 1932 og mars 1929, mest neikvæðu vikanna er í mars 1881 - og svo í janúar 1918.
Leitnin er sú sama og áður - það hefur hlýnað - en hlýnun síðustu ára er samt ekkert að æpa á okkur - sé miðað við fyrra hlýskeið.
Nú er breytileiki hitafars miklu meiri að vetri en að sumarlagi. Það eru því vetrarmánuðir sem eiga flest þau miklu hámörk og lágmörk sem við sjáum á þessari mynd.
Við skulum reyna að jafna vægi mánaðanna. Til þess að gera það reiknum við staðalvik - miðað við sama tímabil og áður, 1931 til 2010 - og teiknum mynd.
Í ljós kemur að hér slær október síðastliðins haust (við hægri jaðar myndar) út - eða að minnsta kosti jafnar hlýindi mánaðanna sem afbrigðilegastir voru á fyrri mynd. Maí 1979 reynist vera langt til eins kaldur og janúar 1918 - kaldastur allra mánaða frá þeim tíma - keppi hann á jafnréttisgrunni staðalvikanna.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 22:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.3.2017 | 01:27
Hraðfara kerfi fer hjá
Á morgun, sunnudaginn 26. mars fer hraðfara lægð yfir landið (sé að marka spár). Lægðin virðist ekki verða djúp - en henni fylgja mjög skörp skil. Við lítum á þrjú kort sem ættu að sýna þetta. Síðasta kortinu geta flestir lesendur sleppt - og ættu (af heilbrigðisástæðum) kannski að gera það.
Það fyrsta sýnir breytingar á snjómagni á jörð í sýndarheimi harmonie-líkansins milli kl. 6 í fyrramálið og 18 síðdegis. Blái liturinn sýnir bráðnandi snjó, en sá grái þau svæði þar sem bætir í hann.
Landið er alveg tvískipt. Það er enginn snjór á láglendi viða sunnantil á landinu og þar er ekkert til að bráðna þó hlýtt sé, en mikil bráðnun er langt upp á hálendi á Suður- og Austurlandi. - Vestanlands virðist hins vegar eiga að snjóa - ekki svo mikið, en samt. Það er auðvitað óvíst hversu vel líkanið hittir í mörkin milli bráðnunar og ábótar.
Hér má sjá stöðuna í 925 hPa-fletinum - hann verður í um 700 metra hæð yfir Reykjanesi á hádegi á morgun. Jafnhæðarlínur eru heildregnar, vindur sýndur með hefðbundnum vindörvun, en hiti í lit. Hiti er vel yfir 6 stigum (í 700 metra hæð) á allstórum svæðum eystra, en frost er yfir Borgarfirði og þar fyrir vestan og norðan.
Gríðarmikil vindröst er í háloftum - en mikill þykktarbratti verndar okkur frá áhrifum hennar að mestu - helst að vindstrengja að ráði gæti í hlýja geiranum.
Þetta fer allt hratt hjá - og kalda loftið nær undirtökum stutta stund.
Síðasta myndin er erfið - ekki nema fyrir þá sem gleypa nánast hvað sem er.
Þetta kort er sjaldséð á hungurdiskum (og annars staðar líka) og ekki auðlesið við fyrstu kynni. Sýnd eru fjögur atriði, spáin gildir kl. 12 á hádegi á sunnudag 26. mars.
Í fyrsta lagi sést sjávarmálsþrýstingur (heildregnar línur) - bara venjulegt veðurkort. Lægðarmiðjan á svipuðum stað og á 925 hPa-kortinu.
Í öðru lagi sjáum við jafnþykktarlínur(hér rauðar, strikaðar). Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Sé kortið stækkað má sjá að það er 546 dekametra (5460 m) jafnþykktarlínan sem snertir sunnanverða Austfirði. Nánast sumarhiti. Við Vestfirði er þykktin hins vegar 5280 metrar - þykktarbrattinn yfir landinu er 180 metrar og samsvarar það 9 stiga hitamun.
Væri þessi þykktarbratti einn á ferð (án háloftarastar) myndi hann búa til 22 hPa þrýstimun yfir landið - norðaustanstorm um land allt. - En sá stormur skilar sér ekki - hann fer í að útrýma suðvestanfárviðrinu sem röstin - ein og sér - án þykktarbratta -myndi valda.
Þriðja atriðið á myndinni er þykktarvindurinn - sýndur með hefðbundnum vindörvum. - Hann er um 50 m/s yfir landinu - úr suðvestri. Finna má þrýstivind í neðstu lögum með því að draga þykktar(vigur-)vindinn frá 500 hPa-(vigur-)vindinum (alveg satt).
Litirnir sýna styrk þykktarvindsins, því dekkri sem þeir eru því meiri er hann. Blár litur sýnir svo svæði þar sem þykktin hefur minnkað síðustu 3 klst - þar hefur kólnað (EKKI er sagt hversu mikið - kannski nærri því ekkert). Rauðir litir sýna hvar hlýnað hefur á sama tíma.
Kortið sýnir sum sé vel hvar hlýtt og kalt loft eru í framrás - og hversu mikill þykktarbratti fylgir (en EKKI hversu mikil hitabreyting er á hverjum stað).
Við sjáum að kuldaskilin ná ekki mjög langt til suðurs - hlýtt loft er í framrás syðst á kortinu.
25.3.2017 | 02:04
Mikil hlýindi (austurundan)
Hingað til hefur hiti í mars verið ekki svo fjarri meðallagi lengst af. Nú virðast heldur meiri hlýindi framundan. - Sýnd veiði en ekki gefin auðvitað því spár eru bara spár.
Kortið ætti að vera kunnuglegt fastagestum hungurdiska. Það gildir síðdegis á sunnudag (26. mars) og sýnir hæð 500 hPa-flatarins á norðurhveli jarðar (heildregnar línur) og þykktina (litir). Þykktin sýnir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Gulu og brúnu litina teljum við helst til sumarhita og nær hann á sunnudaginn langt norður fyrir venjulega stöðu fyrir austan land. Jafnvel hægt að tala um hitabylgju yfir Noregi og Danmörku.
Fjöll í Noregi gætu dregið eitthvað af hlýindunum niður til byggða, en líklegra er að þau svífi yfir hinni flötu Danmörku. Danska veðurstofan er þó að tala um 10 til 13 stiga hita þar um slóðir.
Þó mestu hlýindin séu hér fyrir austan okkur má vera að tveggjastafatölur verði á mælum nyrðra og eystra - en trauðlega efni í hitamet.
Svo er gert ráð fyrir að hlýindi ríki áfram í háloftum á þessum slóðum - og jafnvel hér á landi líka.
Hér má sjá tíudagaspá evrópureiknimiðstöðvarinnar. Jafnhæðarlínur eru heildregnar. Af þeim má ráða að áttin verður suðvestlæg - með hæðarsveigju (hlýindalegt). Jafnþykktarlínur eru hér strikaðar (sjást betur sé myndin stækkuð). Þær eru nokkuð þéttar (eins og jafnhæðarlínurnar) - það þýðir að kalt loft liggur líklega inn undir það hlýja - við slíkar aðstæður ofmetur þykktin hitann við jörð.
Litirnir sýna þykktarvikin - miðað við tímabilið 1981 til 2010. Bleikrauði liturinn sýnir svæði þar sem þykktarvikið er meira en 100 metrar. Þar er hiti meira en 5 stigum ofan meðallags í neðri hluta veðrahvolfs. - Kannski náum við 2 til 3 stiga viki niðri í mannheimum? - Það er býsna mikið í tíu daga.
En það verður stutt í kalda loftið norðurundan og sjálfsagt mun það sleikja landið suma dagana.
22.3.2017 | 02:21
Tólfmánaðahitinn
Hungurdiskar hafa verið lítt á ferðinni nú um skeið. Því miður verður svo enn um hríð - en vonandi rætist úr síðar. Rétt er þó að svara einni spurningu áður en mánuði lýkur, en hún fjallar um meðalhita síðustu 12 mánaða (til enda febrúar). Hversu hár er hann?
Í Reykjavík liggur hann við 6,4 stig. Hæstur (svo vitað sé) varð tólfmánaðahitinn í Reykjavík í september 2002 til ágúst 2003, og í nóvember 2002 til október 2003, 6,6 stig. Í sömu syrpu (2002 til 2003) var tólfmánaðahitinn fimm sinnum jafnhár eða hærri en nú. Jafnhár og nú var hann einnig í apríl 1941 til mars 1942 (og í mars 1941 til febrúar 1942).
Á Akureyri er meðalhiti síðustu 12 mánaða 5,7 stig og hefur aðeins eitt tólfmánaðatímabil verið hlýrra, september 2002 til ágúst 2003. Þá var meðalhitinn 5,8 stig. Hann hefur þrisvar verið jafnhár og nú: Í mars 1933 til febrúar 1934, í október 2002 til september 2003 og nóvember 2002 til október 2003.
Hiti í marsmánuði hefur hingað til verið nærri meðallagi, en var í fyrra vel ofan þess. Það virðist því trúlegt (þetta er skrifað 21. mars) að tólfmánaðahitinn muni aftur lækka lítillega.
Þó síðustu 12 mánuðir hafi verið sérlega hlýir var það fyrst með október að hlutirnir urðu verulega óvenjulegir. Sé meðaltal reiknað fyrir byggðir landsins yfir tímabilið október til febrúar kemur í ljós að aldrei hefur (svo vitað sé) verið hlýrra á þessum tíma árs hér á landi.
Í ljós kemur að við höfum nú upplifað hlýjustu þriggja, fjögurra, ... og upp í tólf mánaða tímabil mælisögunnar - sem enda á febrúar. Fyrstu tveir mánuðir ársins voru hins vegar hlýrri árið 2013 heldur en nú.
En hvað ef við sleppum því skilyrði að tímabilið endi á febrúar? Við vitum að við höfum ekki náð hæsta tólfmánaðahitanum leyfum við síðasta mánuði að vera frjálsum, þrjú tólfmánaðatímabil sem enda síðla sumars og haust 2003 voru hlýrri á landsvísu.
Það er álitamál hvernig bera skuli saman mismunandi (t.d.) fimm mánaða tímabil. Sá samanburður væri efni í annan pistil. Ritstjóri hungurdiska hefur gert slíkan samanburð og komist að þeirri niðurstöðu að ekkert fimm-mánaða tímabil mælingasögunnar hafi verið jafnhlýtt eða hlýrra og október 2016 til febrúar 2017. - En hins vegar eru til hlýrri fjögurra og sex mánaða tímabil (rétt eins og til er hlýrri 12-mánaðatími).
Munum að berist fréttir af metum þarf ætíð að setja þær í rétt samhengi.
12.3.2017 | 16:04
Greiðar leiðir
Leiðir lægða um Atlantshaf eru frekar greiðar þessa dagana. - En samt fer hver þeirra hjá með sínum hætti. Nokkrar hitasveiflur fylgja hverri lægð - og það er styttra í kalda loftið en það hlýja.
Þetta kort sýnir hæð 500 hPa-flatarins og þykktina eins og evrópureiknimiðstöðin spáir henni síðdegis á þriðjudag 14. mars. Þá er mánudagslægðin komin hjá, en miðvikudagslægðin verður suður í hafi. Þessar lægðin báðar virðast ætla að fara sunnan við land. Vonskuveður er sunnan við þær - en mun skárra norðan við því langt er í mjög kalt loft sem hefði afl til að búa til norðaustan- eða norðanátt að ráði.
En þar sem lægðirnar fara fyrir sunnan land - og ekki er nægilega mikið af köldu lofti til að búa til mikla norðanátt - er líklegt að áttin verði vestlæg sunnanlands í kjölfar lægðanna - og þar með hætta á snjókomu eða éljagangi. Norðanlands hlýtur að gera norðanátt með éljum einhverja dagana.
Undanfarna viku dró mjög úr afli kuldapollsins mikla, Stóra-Bola. Hann er þó enn við góða heilsu og líklegt talið að honum aukist aftur ásmegin. - Veturinn er ekki búinn enn (enda ekki við því að búast).
7.3.2017 | 00:04
Heimskautakuldi
Kuldinn sýnir nú klærnar á heimskautaslóðum í Kanada. Þar er staður sem heitir Mould Bay (Mygluflói?) á Patrekseyju (heilags). Hitinn fór þar niður í -54,4°C (-66°F) á laugardaginn og er sagt nýtt allsherjarlágmarksmet þar um slóðir. Mælt hefur verið frá 1948.
Þetta er tengt ferðum kuldapollsins mikla Stóra-Bola. Miðja hans átti leið hjá og fréttist af því að þykktin hafi farið niður í 4620 metra - ekki einstakt en harla sjaldséð samt á seinni árum. Ritstjóri hungurdiska talar gjarnan um ísaldarþykkt fari hún niður fyrir 4740 metra. - Einhverjar lausafréttir (hefur ekki fengist staðfest) eru um að frostið í 850 hPa-fletinum hafi farið niður í -47 stig sem er einnig óvenjulegt.
Við skulum líta á stöðuna nú síðdegis (mánudag 6. mars).
Þetta er greining bandarísku veðurstofunnar á hæð 500 hPa-flatarins (heildregnar línur) og þykktinni (litir). Stóri-Boli er enn með ísaldarþykkt í miðju (dekksti fjólublái liturinn). - Fremur hlýtt er yfir Íslandi í skjóli fyrirstöðuhæðar yfir Norður-Skandinavíu.
Þetta er frekar óþægileg staða samt - en reiknimiðstöðvar eru þó sammála um að það dragi úr afli kuldans næstu daga - alla vega í bili.
Þó farið sé að hlýna á suðlægari slóðum er sólin enn ekki komin upp á norðurskauti og fram undir þann tíma getur haldið áfram að kólna í Norðuríshafi - ísinn þykknar líka smám saman.
4.3.2017 | 17:35
Fyrra magnmet jafnað (eða nærri því)
Óvenjuúrkomusamt hefur verið um nokkurra mánaða skeið um landið suðvestanvert. Úrkoma hefur reyndar víða verið mikil á landinu í vetur, en ekki þó jafnsamfelld og á Suðvesturlandi. Er að vonum að spurt sé hvort um metmagn hefi verið að ræða.
Hér er miðað við tímabilið október til febrúar. Við eigum til mælingar í Reykjavík samfellt aftur til 1920, og einnig um tveggja áratuga skeið undir lok 19. aldar og í upphafi þeirrar 20. Myndin hér að neðan nær til þessa tíma.
Lóðrétti ásinn sýnir magn í mm, en sá lárétti tíma. Eins og áður sagði nær summan til mánaðanna fimm, október til febrúar. Ártalið er sett í lok tímabilsins.
Hér má greinilega sjá að úrkomumagnið í vetur hefur verið mjög óvenjulegt - mun meira en það sem venjulega er. Alls mældust 691 mm í Reykjavík. Hefur þó einu sinni mælst meira, það var í október 2007 til febrúar 2008, 698 mm (þá var reyndar september alveg sérlega úrkomusamur líka - sem ekki var nú). Ef við teljum september með fer 2007 til 2008 marktækt framúr nútímanum.
Munurinn á 691 mm og 698 mm er auðvitað ekki marktækur - en það er heldur ekki munurinn á þeim 685 mm sem mældust á þessu sama tímabili 1920 til 1921 og úrkomunni nú. - Þeir sem vilja hreina lista segja samt að úrkoman nú hafi verið sú næstmesta í mánuðunum fimm - og því sé ekki um met að ræða.
Úrkoma var ekki mæld í Reykjavík á árunum 1907 til 1919, en hluta þess tíma var mælt á Vífilsstöðum. Úrkoma var þar lengst af grunsamlega lítil - en svo bar þó við að í október 1912 til febrúar 1913 mældist hún 731 mm - miklu meiri en aðra vetur mælinganna - og enn meiri en í Reykjavík nú. - Þetta varð aðfararvetur rigningasumarsins mikla 1913.
Úrkoma vetrarins segir ekkert um sumarið. Sumarið 2008 var mjög hagstætt í Reykjavík eins og margir muna - mjög ólíkt sumrinu 1913. Sumarið 1921 var hins vegar mjög kalsamt - og lítt hagstætt (stöðugt var að snjóa í fjöll) en telst þó ekki rigningasumar. Þessi þrjú sumur, 1913, 1921 og 2008 voru hvert sinnar gerðar.
Jón Þorsteinsson landlæknir mældi úrkomu í Reykjavík og í Nesi á árunum 1829 til 1854. Einu sinni mældist úrkoma í október til febrúar vel yfir 600 mm. Það var 1829 til 1830. Þá varð sumarið kalt og þurrt í Reykjavík - grasbrestur - en nýting hin besta.
Sumarið 2017 er enn óskrifað blað.
3.3.2017 | 13:29
Tímbilið október 2016 til febrúar 2017 (hiti)
Hlýindin að undanförnu hafa svo sannarlega verið óvenjuleg. Tíminn frá október til febrúar er almennt sá hlýjasti sem vitað er um á landinu - miðað við sömu almanaksmánuði.
Við skulum líta á tvö línurit sem sýna þetta. Það fyrra á við Reykjavík en hið síðara Akureyri.
Hér má sjá að meðalhiti mánaðanna í Reykjavík er 3,8 stig, 0,3 stigum ofan við það hlýjasta hingað til [október 1945 til febrúar 1946].
Þetta er enn óvenjulegra á Akureyri.
Meðalhiti mánaðanna 5 var 3,2 stig nú á Akureyri, heilu stigi ofar en næsthæsta gildið á myndinni [október 1941 til febrúar 1942]. Metafall af þessari stærð er sjaldséð - (en segir samt ekkert um framtíðina).
En þessi niðurstaða kallar á fleiri spurningar. Hvernig kemur annar fjöldi mánaða út? Finnum við jafnafbrigðileg jafnlöng tímabil - ef við bara endum í öðrum mánuði en febrúar?
Við munum e.t.v. velta þessu lítillega fyrir okkur síðar - og líka gefa úrkomunni í vetur líka gaum - en hún hefur verið óvenjumikil víða.
3.3.2017 | 11:31
Röðin -
Hér er tafla sem venjulega fylgir mánaðapistlum Veðurstofunnar - (og kemst vonandi um síðir þangað að þessu sinni).
Hún sýnir meðalhita á ýmsum stöðvum í nýliðnum febrúarmánuði og í hvaða röð hann raðast miðað við aðra.
Febrúar 2016 (°C9
stöð | mhiti | vik 61-90 | röð | af | vik 07-16 |
Reykjavík | 2,8 | 2,4 | 8 | 147 | 1,8 |
Stykkishólmur | 2,4 | 3,1 | 5 | 172 | 2,1 |
Bolungarvík | 2,6 | 3,5 | 5 | 120 | 2,9 |
Grímsey | 3,0 | 3,9 | 2 | 144 | 2,7 |
Akureyri | 2,7 | 4,2 | 3 til 4 | 136 | 3,5 |
Egilsstaðir | 2,4 | 4,3 | 2 | 63 | 3,3 |
Dalatangi | 4,0 | 3,4 | 1 | 79 | 2,3 |
Teigarhorn | 3,6 | 3,3 | 1 til 2 | 145 | 2,4 |
Höfn í Hornaf. | 4,2 | 2,6 | |||
Stórhöfði | 3,7 | 1,7 | 10 til 12 | 141 | 1,2 |
Hveravellir | -1,9 | 4,0 | 2 | 53 | 3,3 |
Árnes | 2,0 | 3,0 | 7 | 137 | 2,4 |
Eins og sjá má er þetta hlýjasti febrúar allra tíma víða austanlands (þó var ekki mælt á Dalatanga og á Egilsstöðum 1932) Suðvestanlands drógu síðustu dagarnir hitann nokkuð niður eftir listanum. Litlu munar á hverju sæti.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 11:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (4.1.): 265
- Sl. sólarhring: 273
- Sl. viku: 2982
- Frá upphafi: 2427312
Annað
- Innlit í dag: 241
- Innlit sl. viku: 2678
- Gestir í dag: 221
- IP-tölur í dag: 218
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010