Hraðfara kerfi fer hjá

Á morgun, sunnudaginn 26. mars fer hraðfara lægð yfir landið (sé að marka spár). Lægðin virðist ekki verða djúp - en henni fylgja mjög skörp skil. Við lítum á þrjú kort sem ættu að sýna þetta. Síðasta kortinu geta flestir lesendur sleppt - og ættu (af heilbrigðisástæðum) kannski að gera það. 

w-blogg260317a

Það fyrsta sýnir breytingar á snjómagni á jörð í sýndarheimi harmonie-líkansins milli kl. 6 í fyrramálið og 18 síðdegis. Blái liturinn sýnir bráðnandi snjó, en sá grái þau svæði þar sem bætir í hann. 

Landið er alveg tvískipt. Það er enginn snjór á láglendi viða sunnantil á landinu og þar er ekkert til að bráðna þó hlýtt sé, en mikil bráðnun er langt upp á hálendi á Suður- og Austurlandi. - Vestanlands virðist hins vegar eiga að snjóa - ekki svo mikið, en samt. Það er auðvitað óvíst hversu vel líkanið „hittir í“ mörkin milli bráðnunar og ábótar. 

w-blogg260317b

Hér má sjá stöðuna í 925 hPa-fletinum - hann verður í um 700 metra hæð yfir Reykjanesi á hádegi á morgun. Jafnhæðarlínur eru heildregnar, vindur sýndur með hefðbundnum vindörvun, en hiti í lit. Hiti er vel yfir 6 stigum (í 700 metra hæð) á allstórum svæðum eystra, en frost er yfir Borgarfirði og þar fyrir vestan og norðan. 

Gríðarmikil vindröst er í háloftum - en mikill þykktarbratti verndar okkur frá áhrifum hennar að mestu - helst að vindstrengja að ráði gæti í hlýja geiranum.

 

Þetta fer allt hratt hjá - og kalda loftið nær undirtökum stutta stund.

Síðasta myndin er erfið - ekki nema fyrir þá sem gleypa nánast hvað sem er. 

w-blogg260317c

Þetta kort er sjaldséð á hungurdiskum (og annars staðar líka) og ekki auðlesið við fyrstu kynni. Sýnd eru fjögur atriði, spáin gildir kl. 12 á hádegi á sunnudag 26. mars. 

Í fyrsta lagi sést sjávarmálsþrýstingur (heildregnar línur) - bara venjulegt veðurkort. Lægðarmiðjan á svipuðum stað og á 925 hPa-kortinu. 

Í öðru lagi sjáum við jafnþykktarlínur(hér rauðar, strikaðar). Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Sé kortið stækkað má sjá að það er 546 dekametra (5460 m) jafnþykktarlínan sem snertir sunnanverða Austfirði. Nánast sumarhiti. Við Vestfirði er þykktin hins vegar 5280 metrar - þykktarbrattinn yfir landinu er 180 metrar og samsvarar það 9 stiga hitamun. 

Væri þessi þykktarbratti einn á ferð (án háloftarastar) myndi hann búa til 22 hPa þrýstimun yfir landið - norðaustanstorm um land allt. - En sá stormur skilar sér ekki - hann fer í að útrýma suðvestanfárviðrinu sem röstin - ein og sér - án þykktarbratta -myndi valda. 

Þriðja atriðið á myndinni er þykktarvindurinn - sýndur með hefðbundnum vindörvum. - Hann er um 50 m/s yfir landinu - úr suðvestri. Finna má þrýstivind í neðstu lögum með því að draga þykktar(vigur-)vindinn frá 500 hPa-(vigur-)vindinum (alveg satt). 

Litirnir sýna styrk þykktarvindsins, því dekkri sem þeir eru því meiri er hann. Blár litur sýnir svo svæði þar sem þykktin hefur minnkað síðustu 3 klst - þar hefur kólnað (EKKI er sagt hversu mikið - kannski nærri því ekkert). Rauðir litir sýna hvar hlýnað hefur á sama tíma. 

Kortið sýnir sum sé vel hvar hlýtt og kalt loft eru í framrás - og hversu mikill þykktarbratti fylgir (en EKKI hversu mikil hitabreyting er á hverjum stað).

Við sjáum að „kuldaskilin“ ná ekki mjög langt til suðurs - hlýtt loft er í framrás syðst á kortinu. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 6
  • Sl. sólarhring: 58
  • Sl. viku: 404
  • Frá upphafi: 2343317

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 365
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband