Heimskautakuldi

Kuldinn sýnir nú klærnar á heimskautaslóðum í Kanada. Þar er staður sem heitir Mould Bay (Mygluflói?) á Patrekseyju (heilags). Hitinn fór þar niður í -54,4°C (-66°F) á laugardaginn og er sagt nýtt allsherjarlágmarksmet þar um slóðir. Mælt hefur verið frá 1948. 

Þetta er tengt ferðum kuldapollsins mikla „Stóra-Bola“. Miðja hans átti leið hjá og fréttist af því að þykktin hafi farið niður í 4620 metra - ekki einstakt en harla sjaldséð samt á seinni árum. Ritstjóri hungurdiska talar gjarnan um „ísaldarþykkt“ fari hún niður fyrir 4740 metra. - Einhverjar lausafréttir (hefur ekki fengist staðfest) eru um að frostið í 850 hPa-fletinum hafi farið niður í -47 stig sem er einnig óvenjulegt. 

Við skulum líta á stöðuna nú síðdegis (mánudag 6. mars).

w-blogg070317a

Þetta er greining bandarísku veðurstofunnar á hæð 500 hPa-flatarins (heildregnar línur) og þykktinni (litir). Stóri-Boli er enn með ísaldarþykkt í miðju (dekksti fjólublái liturinn). - Fremur hlýtt er yfir Íslandi í skjóli fyrirstöðuhæðar yfir Norður-Skandinavíu. 

Þetta er frekar óþægileg staða samt - en reiknimiðstöðvar eru þó sammála um að það dragi úr afli kuldans næstu daga - alla vega í bili. 

Þó farið sé að hlýna á suðlægari slóðum er sólin enn ekki komin upp á norðurskauti og fram undir þann tíma getur haldið áfram að kólna í Norðuríshafi - ísinn þykknar líka smám saman. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Sú staðreynd blífur að sólin skín ekki af neinu gagni á norðurskautinu í meiri hluta ársins þótt loftslag hlýni að meðaltali á jörðinni. En hægt er að hugsa sér að meiri mismunur á hitanum (kuldanum) á skautinu og á syðri slóðum en áður kalli á meiri átök og öfgar í veðurfari.

En stærsta spurningin er um áhrif þess ef Golfstraumurinn fer að sökkva sunnar en áður vegna vaxtar leysingavatns af jöklabráðnun.  

Ómar Ragnarsson, 7.3.2017 kl. 14:28

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Þó sólin sé lin við norðurakautið megnið af árinu er inngeislun þar samt sú mesta á dag í heiminum öllum í kringum sólstöðurnar. Gallinn (eða hvað við köllum það) er bara sá að hún nýtist mjög illa vegna þess hve endurskinshlutfall íss er hátt. - Væri snjólaust meginland á þessum slóðum myndu sumur vera þar ofurhlý - en stutt. - En þarna er auðvitað ekkert meginland - en fari að verða íslítið eða íslaust á sólskinstíma ársins gjörbreytist ástandið þarna norðurfrá - sjávaryfirborð hitnar verulega og sú orka geymist til hausts og veturs en týnist ekki strax út úr kerfinu eins og nú er. Það er almennt álit að fari fram sem að undanförnu hlýni mun meir á norðurslóðum en sunnar. Um óbein áhrif þess á veðurlag í tempraða beltinu er deilt. - Stór hluti þess varma sem við njótum af sjó á vetrum er afgangur sólaryls næstliðins sumars - sá varmi sem Golfstraumurinn sjálfur ber er aðeins lítill hluti af vetrarhlýindum okkar (skiptir samt miklu máli hjá okkur). - Hef skrifað drjúgt um þessi mál hér á hungurdiskum í gegnum árin - og verð að vísa á það. Má þó benda á:

http://trj.blog.is/blog/trj/entry/1231508/

  og punktar úr landafræði lofthjúpsins:

http://trj.blog.is/blog/trj/entry/1373154/

http://trj.blog.is/blog/trj/entry/1117817/

 og breytingar á hringrás í júlí:

http://trj.blog.is/blog/trj/entry/2173403/

Trausti Jónsson, 7.3.2017 kl. 16:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 20
  • Sl. sólarhring: 62
  • Sl. viku: 511
  • Frá upphafi: 2343273

Annað

  • Innlit í dag: 17
  • Innlit sl. viku: 463
  • Gestir í dag: 17
  • IP-tölur í dag: 16

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband