Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2017

Um stöðu frá októberbyrjun

Smávegis um stöðuna. Þó hlýtt hafi verið bæði í febrúar - og allan tímann frá áramótum - er hitinn þennan tíma samt langt frá metum. En allur tíminn frá 1. október hefur hins vegar aðeins einu sinni verið hlýrri í Reykjavík heldur en nú. Það var 1945 til 1946. Meðalhiti þessa tíma nú er 4,0 stig, en hefur mestur orðið 4,2 stig. Þetta er lítill munur.

Febrúar 1946 var ekki kaldur, en meðalhiti var þó ekki nema -0,1 stig. Meðalhiti mánaðanna október til febrúar (samtals) var hæstur 2002 til 2003, 3,5 stig, næsthæstur 1945 til 1946, líka 3,5 stig og þriðjihæstur 1941 til 1942, 3,2 stig. Ritstjóra hungurdiska sýnist að eigi hitinn nú (október til febrúar) að verða fyrir ofan öll þessi tímabil þurfi meðalhiti í núlíðandi febrúar að verða að minnsta kosti 1,7 stig. - Sem er auðvitað vel hugsanlegt - ennþá. - Sérstaklega ef við förum að trúa spá evrópureiknimiðstöðvarinnar á kortinu hér að neðan sem gildir fyrir næstu tíu daga - að vísu í 850 hPa - og hlýindi þar uppi skila sér sjaldnast til jarðar í hafátt. 

w-blogg090217a

Meðalhiti í Reykjavík það sem af er febrúar nú er 3,4 stig - sömu febrúardagar hafa 13 sinnum verið hlýrri svo vitað sé.

Úrkoma frá 1. október hefur líka verið óvenjumikil, komin yfir 610 mm. Hefur aldrei verið meiri á sama tíma - svo vitað sé - en nokkrum sinnum litlu minni en nú.

Sólskinstundir hafa verið óvenjufáar - munar mest um sólarlítinn október - því sólarstundir geta aldrei orðið margar í desember og janúar.


Hesvindur og snúðvindur? [Án ábyrgðar]

Hér er rétt að vera örlátur á spurningarmerkin (?). Hugtökin í titli pistilsins eru eiginlega ekki til - þá sem þekkja þau má sennilega telja á einum fingri annarrar handar - en samt gaman að grípa til þeirra fyrst tækifæri gefst til. 

Hesvind köllum við þær aðstæður þegar vindur er meiri í efri hluta veðrahvolfs en þeim neðri - háloftavindröst með lafandi hes í átt til jarðar. Stundum lafir hesið lóðrétt niður - en oftast hallast það lítillega. Vindátt verður að vera svipuð í röstinni og hesinu - allt þar til svo neðarlega er komið að núnings við jörð fari að gæta. 

Snúðvindur er meiri í neðri hluta veðrahvolfs heldur en þeim efri - þar er alltaf kröpp beygja nærri (eins og nafnið bendir til) - alltaf orðin til vegna niðurstreymis við veðrahvörf. Vindáttarbreytingar eru hóflegar með hæð.  

En við lifum sem kunnugt er ekki í hreinum heimi - sjaldan sér til hinna kristaltæru (platónsku) hes- og snúðvinda - og ekki heldur nú. 

w-blogg080217a

Hér má sjá vindaspá harmonie-líkans Veðurstofunnar sem gildir kl.13 miðvikudaginn 7. febrúar. Litir sýna 10-mínútna meðalvindhraða, örvar vindátt og litlar tölur í gulum kössum líklegar hámarksvindhviður. Ef við tökum spána bókstaflega verður hesið hér komið framhjá höfuðborgarsvæðinu - sem gæti með heppni sloppið nokkuð vel (en við látum Veðurstofuna alveg um spárnar). 

Röstin yfir landinu er hesvindur - hann hangir neðan úr háloftaröstinni. Landið hjálpar þó til - við að streyma upp og niður fjallgarða myndast bylgjur - eitthvað af þeim brotnar og hjálpar vindorkunni að berast neðar en ella væri - hesið er því í þessu tilviki öflugra yfir landi heldur en hafi - auk þess leitar loftið staðbundið í kringum fyrirstöður - og aukavindstrengir myndast. - Hinum hreina hesvindi er spillt. 

Í vesturjaðri kortsins er fárviðri á bletti (brúnn litur) - í snarpri beygju á hafi úti. Þetta er ekki hreinn hesvindur - gæti hins vegar verið snúður. Það sem truflar er að háloftaröstin fyrir ofan er að bera allt kerfið á svo miklum hraða til norðnorðvesturs að snúðvindurinn sést ekki einn og sér. Skítugur á hausnum. 

Hungurdiskar spá engu - vísa bara á Veðurstofuna. Góður gangur er hins vegar í spurningarmerkjaframleiðslunni - og er þá til nokkurs unnið. 


Flókin sameining

Lægðin ofurdjúpa sem hefur valdið nokkrum vindi og úrkomu í kvöld grynnist nú ört - en fór um stund niður undir 930 hPa í miðju (langt fyrir suðvestan land). Ný lægð er við Nýfundnaland - stefnir til okkar, kemst ekki með góðu móti framhjá fyrri lægðinni - en reynir sameiningu. 

Kortið hér að neðan gildir síðdegis á morgun - þriðjudag 7. febrúar.

w-blogg070217a

Þá verður nýja lægðin um 800 til 1000 km suðsuðaustur af Hvarfi á Grænlandi (segir evrópureiknimiðstöðin) - en úrkomubakki hennar kominn mun lengra (sú rauða ör sem nær er Íslandi bendir á hann). Svo virðist sem kröpp lægð muni svo myndast um það bil þar sem syðri rauða örin reynir að benda á. Sú færi þá á miklum hraða til norðnorðausturs og norðurs - vonandi þó vel fyrir vestan land - því foráttuveðri er spáð næst miðju hennar. - Látum Veðurstofuna um að greiða úr því.

En landið sunnanvert sleppur vart við úrkomu þessara lægða - reiknimiðstöðvar gera mismikið úr henni - en rétt samt að reikna með vatnavöxtum - mikill snjór bætist á hájökla - það vill til að lítill sem enginn snjór er fyrir neðar til að bráðna. 

Svo er vaxandi hæð yfir Skandinavíu - kannski hún nái 1050 hPa um miðja viku. - Og spáð er ótrúlegum hlýindum austanlands um helgina - en það verður varla (eða hvað)?


Djúp lægð suður í hafi

Foráttulægð er nú að ná sér á strik suður í hafi, gert er ráð fyrir því að í kvöld fari miðjuþrýstingur niður í 935 hPa og vindhraði í fárviðri á allstóru svæði. Þó lægðin stefni síðan í átt til okkar verður samt talsvert af henni dregið þegar vindur og úrkoma ná hingað til lands síðdegis á morgun. - Samt ástæða til að gefa vindi og úrkomu gaum.

w-blogg050217a

Kortið sýnir sjávarmálsþrýstispá evrópureiknimiðstöðvarinnar (heildregnar línur) og vind í 100 metra hæð (litir). Hún gildir kl. 21 í kvöld, sunnudag 5. febrúar. Vindur í 100 metra hæð er talsvert meiri en niður við sjávarmál - og oftast mun meiri en yfir landi, en aftur á móti vísar hann oft vel á raunstyrk í slæmum vindstrengjum í fjöllóttu landi. 

Það verður talsvert um að vera í veðri á okkar slóðum næstu vikuna - átök milli mikillar fyrirstöðuhæðar í austri og kaldra lægða í vestri. - Vonandi fer þó fátt úrskeiðis. 


Mikil úrkoma?

Þó hér sé fjallað um nýja spá eru skýringarnar samt að mestu endurtekið efni pistils sem birtist á hungurdiskum 27. maí 2016 (og var endurtekning á enn eldri pistli). 

Til að læra að lesa þarf að lesa - og helst mikið. Sama á við um lestur veðurkorta - til að læra á þau þarf að lesa þau oft og mikið. Þetta á jafnt við um ritstjóra hungurdiska sem aðra. Þegar nýjar gerðir af veðurkortum birtast þarf hann að sitja við og lesa sem flest - til að læra á þau. Ekkert er við ólæsinni að gera nema lesa því meira.

Evrópureiknimiðstöðin reiknar tvisvar á dag 50 spár 15 daga fram í tímann og þuklar jafnframt á útkomunni og segir frá ef farið er nærri eða fram úr því sem mest hefur orðið í samskonar spám sem ná til síðustu 20 ára. Oft er ein og ein af spánum 50 með eitthvað útogsuðurveður - og telst það ekki til tíðinda.

En stundum gefur stór hluti spánna 50 til kynna að eitthvað óvenjulegt kunni að vera á seyði. - Líkur á því að svo sé raunverulega aukast eftir því sem styttra er í hið óvenjulega.

Reynslu þarf til að geta notað þessar upplýsingar í daglegum veðurspám. Sú reynsla mun byggjast upp - og til munu þeir sem orðnir eru vanir menn. Við lítum reynslulitlum augum á spá sem evrópureiknimiðstöðin hefur gert fyrir miðvikudaginn 8. febrúar 2017.

Kortið sýnir hana.

w-blogg040217a 

Hér er reynt að spá fyrir um hvort 24-stunda úrkomumagn er nærri metum. Tveir vísar eru sýndir - hér kallaðir útgildavísir (lituðu svæðin) og halavísir (heildregnar línur). Líkanið veit af árstíðasveiflu úrkomunnar - sömuleiðis veit það að úrkoma yfir Vatnajökli sunnanverðum er að jafnaði mun meiri en norðan hans.

Hér verða vísarnir ekki skýrðir frekar, en þess þó getið að veðurfræðingum er sagt að hafa varann á ef útgildavísirinn fer yfir 0,9 - og sömuleiðis ef halavísirinn (nafnið vísar til hala tölfræðidreifingar) nálgast 2,0 - hér er hann hins vegar vel yfir 2 á allstóru svæði yfir Vatnajökli - og fer hæst í 3,2 - það er mjög óvenjulegt, gildið 0,0 mun algengt.

Það sem er þó einna óvenjulegast við þessa spá er að hún tekur ekki gildi fyrr en á miðvikudaginn (nú er laugardagur). Venjulega eru úrkomuspárnar 5 orðnar það ósammála á þriðja til fimmta degi að vísarnir tveir smyrjast út. En ekki nú - mjög stór hluti spánna 50 virðast sammála um að gera verði ráð fyrir óvenjumikilli úrkomu á miðvikudaginn - og fádæmaúrkomu á Bárðarbungu. 

Þess má geta að hin almenna spá reiknimiðstöðvarinnar gerir ráð fyrir allt að tífaldri meðalúrkomu á Suðrausturlandi næstu 10 daga. 

En - líkan evrpópureiknimiðstöðvarinnar er ekki með full tök á landslagi - auk þess eru enn margir dagar til úrslitadags og spár hafa nægan tíma til að taka aðra stefnu. Þar að auki er ritstjóri hungurdiska nær reynslulaus í túlkun útgildaspáa af þessu tagi. Hvort kortið er að vara við einhverju sérstöku verður reynslan að skera úr um. Lesendur eru beðnir um að hafa þetta í huga.

En til að læra að lesa þarf að lesa - og helst mikið.

Orðið „útgildavísir“ er þýðing á því erlenda „extreme forecast index“, EFI, en „halavísir“ reynir að íslenska „shift of tail“, SOT. - Þýðingar þessar hafa ekki öðlast hefðarrétt (né annan) og aðrar (og vonandi betri) munu e.t.v. sýna sig síðar.


Raskaður hringur

Veturinn virðist nú hafa náð hámarki í heiðhvolfinu - þar fer honum að halla til vors. Sama má trúlega segja um syðstu svæði tempraða beltisins - en hér á norðurslóðum getur brugðið til beggja vona um langa hríð enn - munum að það hefur komið fyrir að apríl er kaldastur mánaða ársins. 

Hin síðari ár hefur komist í tísku að halda því fram að breytingar á norðurhvelshringnum séu líklegar í þann mund sem heiðhvolfshringurinn slær af - ekki síst geri hann það snögglega. Ritstjóri hungurdiska er satt best að segja ekki alveg viss um hvað um tísku þessa skal segja. Vill gjarnan trúa því að eitthvað sé til í þessu - byggir þá á þeirri reynslu að breytingar verða mjög oft þegar heiðhvolfsveturinn gefur loks upp öndina í kringum sumardaginn fyrsta. -

Tvenns konar vandi (sjálfsagt enn margslungnari) blasir þó við þegar ráðið er í heiðhvolfsslökun í janúar eða febrúar. Í fyrsta lagi má spyrja hversu mikil eða skyndileg þarf heiðhvolfsslökun að verða til þess að hennar gæti í veðrahvolfi - og þar með í mannheimum? Og í öðru lagi - hvar verður breytinga helst vart (séu þær einhverjar)? 

Sé fylgst með skrifum erlendra bloggara og tístara kemur berlega í ljós að þeim hættir mjög mörgum til að fara offari - eru alltaf að boða miklar breytingar - sem svo ekkert verður úr. Mjög erfitt er að meta hverjir eru að segja eitthvað af reynslu og viti - og hverjir eru aðeins að jarma eitthvað út í loftið. 

En lítum nú á hefðbundið norðurhvelsveðrahvolfskort (reynið fara með að þennan tunguþvæli nokkrum sinnum í heyranda hljóði) evrópureiknimiðstöðvarinnar - það gildir síðdegis á laugardag 4. febrúar. 

w-blogg030217a

Jafnhæðarlínur eru heildregnar - því þéttari sem þær eru því stríðari er vindurinn sem blæs nokkurn veginn samsíða línunum. Þykkt er sýnd með litum (kvarðinn skýrist sé myndin stækkuð). Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs - því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. 

Tveir gríðarhlýir göndlar - fyrirstöðuhæðir - stinga sér langt til norðurs. Annar yfir Alaska - en hinn er við Norður-Noreg. Í aðalatriðum hagstæð staða fyrir okkur - nokkuð ákveðin suðaustanátt yfir Íslandi ber hingað fremur hlýtt loft. Stundum er suðaustanátt af þessum styrk varasöm - mæti hún mikilli mótstöðu kulda að norðan í neðri lögum. Nú er sá kuldi víðsfjarri.

Saman ýta þessar miklu hæðir við kuldapollunum vestra og eystra - og er órói mikill í þeim - sérstaklega Síberíu-Blesa. - Ekki gott að segja hvað út úr því kemur. 

En atlantslægðum er spáð dýpri eftir helgi - minnst á þrýsting undir 940 hPa - og/eða Skandinavíuhæð öflugri - jafnvel upp í 1050 hPa - hvort tveggja gerist þó vart í senn. 


« Fyrri síða

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 29
  • Sl. sólarhring: 113
  • Sl. viku: 1520
  • Frá upphafi: 2348765

Annað

  • Innlit í dag: 28
  • Innlit sl. viku: 1326
  • Gestir í dag: 27
  • IP-tölur í dag: 27

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband