Mikil úrkoma?

Þó hér sé fjallað um nýja spá eru skýringarnar samt að mestu endurtekið efni pistils sem birtist á hungurdiskum 27. maí 2016 (og var endurtekning á enn eldri pistli). 

Til að læra að lesa þarf að lesa - og helst mikið. Sama á við um lestur veðurkorta - til að læra á þau þarf að lesa þau oft og mikið. Þetta á jafnt við um ritstjóra hungurdiska sem aðra. Þegar nýjar gerðir af veðurkortum birtast þarf hann að sitja við og lesa sem flest - til að læra á þau. Ekkert er við ólæsinni að gera nema lesa því meira.

Evrópureiknimiðstöðin reiknar tvisvar á dag 50 spár 15 daga fram í tímann og þuklar jafnframt á útkomunni og segir frá ef farið er nærri eða fram úr því sem mest hefur orðið í samskonar spám sem ná til síðustu 20 ára. Oft er ein og ein af spánum 50 með eitthvað útogsuðurveður - og telst það ekki til tíðinda.

En stundum gefur stór hluti spánna 50 til kynna að eitthvað óvenjulegt kunni að vera á seyði. - Líkur á því að svo sé raunverulega aukast eftir því sem styttra er í hið óvenjulega.

Reynslu þarf til að geta notað þessar upplýsingar í daglegum veðurspám. Sú reynsla mun byggjast upp - og til munu þeir sem orðnir eru vanir menn. Við lítum reynslulitlum augum á spá sem evrópureiknimiðstöðin hefur gert fyrir miðvikudaginn 8. febrúar 2017.

Kortið sýnir hana.

w-blogg040217a 

Hér er reynt að spá fyrir um hvort 24-stunda úrkomumagn er nærri metum. Tveir vísar eru sýndir - hér kallaðir útgildavísir (lituðu svæðin) og halavísir (heildregnar línur). Líkanið veit af árstíðasveiflu úrkomunnar - sömuleiðis veit það að úrkoma yfir Vatnajökli sunnanverðum er að jafnaði mun meiri en norðan hans.

Hér verða vísarnir ekki skýrðir frekar, en þess þó getið að veðurfræðingum er sagt að hafa varann á ef útgildavísirinn fer yfir 0,9 - og sömuleiðis ef halavísirinn (nafnið vísar til hala tölfræðidreifingar) nálgast 2,0 - hér er hann hins vegar vel yfir 2 á allstóru svæði yfir Vatnajökli - og fer hæst í 3,2 - það er mjög óvenjulegt, gildið 0,0 mun algengt.

Það sem er þó einna óvenjulegast við þessa spá er að hún tekur ekki gildi fyrr en á miðvikudaginn (nú er laugardagur). Venjulega eru úrkomuspárnar 5 orðnar það ósammála á þriðja til fimmta degi að vísarnir tveir smyrjast út. En ekki nú - mjög stór hluti spánna 50 virðast sammála um að gera verði ráð fyrir óvenjumikilli úrkomu á miðvikudaginn - og fádæmaúrkomu á Bárðarbungu. 

Þess má geta að hin almenna spá reiknimiðstöðvarinnar gerir ráð fyrir allt að tífaldri meðalúrkomu á Suðrausturlandi næstu 10 daga. 

En - líkan evrpópureiknimiðstöðvarinnar er ekki með full tök á landslagi - auk þess eru enn margir dagar til úrslitadags og spár hafa nægan tíma til að taka aðra stefnu. Þar að auki er ritstjóri hungurdiska nær reynslulaus í túlkun útgildaspáa af þessu tagi. Hvort kortið er að vara við einhverju sérstöku verður reynslan að skera úr um. Lesendur eru beðnir um að hafa þetta í huga.

En til að læra að lesa þarf að lesa - og helst mikið.

Orðið „útgildavísir“ er þýðing á því erlenda „extreme forecast index“, EFI, en „halavísir“ reynir að íslenska „shift of tail“, SOT. - Þýðingar þessar hafa ekki öðlast hefðarrétt (né annan) og aðrar (og vonandi betri) munu e.t.v. sýna sig síðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

Hvað þýðir þetta í úrkomu? Landafræðibókin í denn sagði að 4000 mm á ári og meir en það væri ákoma Vatnajökuls. Fyrir mér lítur út fyrir að það verði mikil úrkoma en í hvaða samhengi er torskilt. Er hægt að magntaka svona spár?

Sindri Karl Sigurðsson, 4.2.2017 kl. 17:00

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Svona spár eru fyrst og fremst hugsaðar sem aðvaranaábendi fyrir veðurfræðinga og aðra viðbragðsaðila - fylgjast beri sérstaklega með raunverulegum magnspám. Magnið að baki þessum tölum er bæði háð árstíma og stað - 100 mm í maí gefa fleiri „stig“ heldur en sama magn í febrúar - og 100 mm á Norðurlandi fleiri en 100 mm á Suðausturlandi. - Hér liggja 50 spár að baki - bornar saman við veður á sama árstíma 20 ár aftur í tímann. Meirihluti þeirra spáir óvenjumikilli úrkomu - útgildavísirinn er yfir 0,8 - líklega þó varla met - en halavísirinn er alveg sérlega hár - það bendir til þess að fáeinar spár af 50 séu með afspyrnuhá gildi.

Svo kreistir háupplausnarspáin (51. spáin) út tífalda meðalúrkomu á Suðausturlandi næstu tíu daga (hámark á því svæði) - meðalúrkoma á Höfn í Hornafirði er um 50 mm á tíu dögum í febrúar - það er verið að spá fimm- til tífaldri þeirri úrkomu þar - eða um 250 til 500 mm á tíu dögum. - Það væri eftirtektarvert ef rétt reynist.

Annars er fyrst og fremst hugað að úrkomumagni í spám 1 til 2 daga fram í tímann.

Trausti Jónsson, 4.2.2017 kl. 20:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

 • Slide10
 • Slide9
 • Slide11
 • w-1945v
 • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

 • Í dag (21.5.): 336
 • Sl. sólarhring: 345
 • Sl. viku: 1882
 • Frá upphafi: 2355729

Annað

 • Innlit í dag: 313
 • Innlit sl. viku: 1737
 • Gestir í dag: 294
 • IP-tölur í dag: 293

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband