Hesvindur og snúðvindur? [Án ábyrgðar]

Hér er rétt að vera örlátur á spurningarmerkin (?). Hugtökin í titli pistilsins eru eiginlega ekki til - þá sem þekkja þau má sennilega telja á einum fingri annarrar handar - en samt gaman að grípa til þeirra fyrst tækifæri gefst til. 

Hesvind köllum við þær aðstæður þegar vindur er meiri í efri hluta veðrahvolfs en þeim neðri - háloftavindröst með lafandi hes í átt til jarðar. Stundum lafir hesið lóðrétt niður - en oftast hallast það lítillega. Vindátt verður að vera svipuð í röstinni og hesinu - allt þar til svo neðarlega er komið að núnings við jörð fari að gæta. 

Snúðvindur er meiri í neðri hluta veðrahvolfs heldur en þeim efri - þar er alltaf kröpp beygja nærri (eins og nafnið bendir til) - alltaf orðin til vegna niðurstreymis við veðrahvörf. Vindáttarbreytingar eru hóflegar með hæð.  

En við lifum sem kunnugt er ekki í hreinum heimi - sjaldan sér til hinna kristaltæru (platónsku) hes- og snúðvinda - og ekki heldur nú. 

w-blogg080217a

Hér má sjá vindaspá harmonie-líkans Veðurstofunnar sem gildir kl.13 miðvikudaginn 7. febrúar. Litir sýna 10-mínútna meðalvindhraða, örvar vindátt og litlar tölur í gulum kössum líklegar hámarksvindhviður. Ef við tökum spána bókstaflega verður hesið hér komið framhjá höfuðborgarsvæðinu - sem gæti með heppni sloppið nokkuð vel (en við látum Veðurstofuna alveg um spárnar). 

Röstin yfir landinu er hesvindur - hann hangir neðan úr háloftaröstinni. Landið hjálpar þó til - við að streyma upp og niður fjallgarða myndast bylgjur - eitthvað af þeim brotnar og hjálpar vindorkunni að berast neðar en ella væri - hesið er því í þessu tilviki öflugra yfir landi heldur en hafi - auk þess leitar loftið staðbundið í kringum fyrirstöður - og aukavindstrengir myndast. - Hinum hreina hesvindi er spillt. 

Í vesturjaðri kortsins er fárviðri á bletti (brúnn litur) - í snarpri beygju á hafi úti. Þetta er ekki hreinn hesvindur - gæti hins vegar verið snúður. Það sem truflar er að háloftaröstin fyrir ofan er að bera allt kerfið á svo miklum hraða til norðnorðvesturs að snúðvindurinn sést ekki einn og sér. Skítugur á hausnum. 

Hungurdiskar spá engu - vísa bara á Veðurstofuna. Góður gangur er hins vegar í spurningarmerkjaframleiðslunni - og er þá til nokkurs unnið. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

 • Slide10
 • Slide9
 • Slide11
 • w-1945v
 • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

 • Í dag (24.5.): 32
 • Sl. sólarhring: 83
 • Sl. viku: 1500
 • Frá upphafi: 2356105

Annað

 • Innlit í dag: 32
 • Innlit sl. viku: 1405
 • Gestir í dag: 32
 • IP-tölur í dag: 32

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband