Raskaður hringur

Veturinn virðist nú hafa náð hámarki í heiðhvolfinu - þar fer honum að halla til vors. Sama má trúlega segja um syðstu svæði tempraða beltisins - en hér á norðurslóðum getur brugðið til beggja vona um langa hríð enn - munum að það hefur komið fyrir að apríl er kaldastur mánaða ársins. 

Hin síðari ár hefur komist í tísku að halda því fram að breytingar á norðurhvelshringnum séu líklegar í þann mund sem heiðhvolfshringurinn slær af - ekki síst geri hann það snögglega. Ritstjóri hungurdiska er satt best að segja ekki alveg viss um hvað um tísku þessa skal segja. Vill gjarnan trúa því að eitthvað sé til í þessu - byggir þá á þeirri reynslu að breytingar verða mjög oft þegar heiðhvolfsveturinn gefur loks upp öndina í kringum sumardaginn fyrsta. -

Tvenns konar vandi (sjálfsagt enn margslungnari) blasir þó við þegar ráðið er í heiðhvolfsslökun í janúar eða febrúar. Í fyrsta lagi má spyrja hversu mikil eða skyndileg þarf heiðhvolfsslökun að verða til þess að hennar gæti í veðrahvolfi - og þar með í mannheimum? Og í öðru lagi - hvar verður breytinga helst vart (séu þær einhverjar)? 

Sé fylgst með skrifum erlendra bloggara og tístara kemur berlega í ljós að þeim hættir mjög mörgum til að fara offari - eru alltaf að boða miklar breytingar - sem svo ekkert verður úr. Mjög erfitt er að meta hverjir eru að segja eitthvað af reynslu og viti - og hverjir eru aðeins að jarma eitthvað út í loftið. 

En lítum nú á hefðbundið norðurhvelsveðrahvolfskort (reynið fara með að þennan tunguþvæli nokkrum sinnum í heyranda hljóði) evrópureiknimiðstöðvarinnar - það gildir síðdegis á laugardag 4. febrúar. 

w-blogg030217a

Jafnhæðarlínur eru heildregnar - því þéttari sem þær eru því stríðari er vindurinn sem blæs nokkurn veginn samsíða línunum. Þykkt er sýnd með litum (kvarðinn skýrist sé myndin stækkuð). Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs - því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. 

Tveir gríðarhlýir göndlar - fyrirstöðuhæðir - stinga sér langt til norðurs. Annar yfir Alaska - en hinn er við Norður-Noreg. Í aðalatriðum hagstæð staða fyrir okkur - nokkuð ákveðin suðaustanátt yfir Íslandi ber hingað fremur hlýtt loft. Stundum er suðaustanátt af þessum styrk varasöm - mæti hún mikilli mótstöðu kulda að norðan í neðri lögum. Nú er sá kuldi víðsfjarri.

Saman ýta þessar miklu hæðir við kuldapollunum vestra og eystra - og er órói mikill í þeim - sérstaklega Síberíu-Blesa. - Ekki gott að segja hvað út úr því kemur. 

En atlantslægðum er spáð dýpri eftir helgi - minnst á þrýsting undir 940 hPa - og/eða Skandinavíuhæð öflugri - jafnvel upp í 1050 hPa - hvort tveggja gerist þó vart í senn. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 197
  • Sl. sólarhring: 348
  • Sl. viku: 2022
  • Frá upphafi: 2350758

Annað

  • Innlit í dag: 180
  • Innlit sl. viku: 1808
  • Gestir í dag: 176
  • IP-tölur í dag: 176

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband