Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2017

Hiti í desember 2016 til febrúar 2017 (alþjóðaveturinn)

Á máli alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar stendur veturinn í þrjá mánuði, desember, janúar og febrúar. Hér á landi verðum við auðvitað að bæta mars við en sá mánuður er oft kaldastur vetrarmánaðanna. 

Hungurdiskar hafa stundum reiknað meðalhita alþjóðavetrarins í Reykjavík og Akureyri og birt línurit. Við skulum líta á þau meðan við bíðum uppgjörs Veðurstofunnar á febrúarmánuði. 

Meðalhiti alþjóðavetrarins í Reykjavík

Meðalhiti nýliðinna þriggja mánaða í Reykjavík reiknast 2,6 stig, það sama og á sama tíma 2013 - og reyndar nánast það sama og 2006 og 2003. Það hefur aðeins einu sinni verið marktækt hlýrra í sömu almanaksmánuðum, 1963 til 1964. - Það má kannski rifja upp að árið 1964 gerði nokkurra daga kuldakast um mánaðamótin janúar og febrúar og snjóaði þá mjög mikið sums staðar um landið vestanvert - þar með á heimaslóð ritstjóra hungurdiska - minna í Reykjavík - en allur sá snjór hvarf á braut á fáeinum dögum í febrúarblíðunni sem hélt svo bara áfram og áfram linnulítið fram undir miðjan apríl. 

Meðalhiti alþjóðavetrarins á Akureyri 1882 til 2017

Svipað má segja um Akureyri. Þar reiknast meðalhiti mánaðanna desember til febrúar 1,0 stig nú, sá þriðjihæsti á öldinni og hefur ekki oft verið hærri. Alþjóðaveturinn var hlýjastur á Akureyri 2006 og 1934. 

Ritstjórn hungudiska hefur verið undirlögð kvefpesterbiti nú um hríð og lítið lát virðist á - hefur því fremur hægt um sig þó mánaðamót séu og gengur eins og aðrir fjölmiðlar í klipu aðallega á endurteknu efni - eða þegir alveg. Lessendur beðnir um að sýna skilning á stöðunni. 


Mánaðarsnjódýptarmet á Akureyri - og á landinu

Í gær birtist hér tafla um hámarkssnjódýpt einstakra mánaða í Reykjavík. Látum hér fylgja samskonar töflu fyrir Akureyri og landið allt. 

Hafa verður í huga að á Akureyri var ekki byrjað að mæla snjódýpt reglulega fyrr en 1964 - snjóhula var að vísu metin fyrir þennan tíma - að mestu samfellt frá 1924 - en lítið er til af magnmælingum þessi fyrstu 40 ár snjóathugana þar. Nokkuð slumpbragð er á sumum tölum - en trúlega eru þær samt nærri lagi. 

Mesta snjódýpt hvers almanaksmánaðar á Akureyri 1964 til 2016:

 mánmetárdagursnjódýpt
1janúar197515160
2febrúar201627111
3mars199021.22.24.25.120
4apríl19901. til 7.100
5maí1989130
6júní199783
     
9september20052510
10október198112. til 19.50
11nóvember197222.70
12desember19657. til 9. 100

Og síðan landið - svo á að heita að taflan nái aftur til upphafs mælinga 1921 - en þær voru mjög gisnar lengi vel. 

 mánmetárdagursnjódýpt  
1janúar19742218 Hornbjargsviti
2febrúar19685217 Hornbjargsviti
3mars199519279 Skeiðsfossvirkjun
4apríl199017260 Gjögur
5maí19901204 Gjögur
6júní1995196 Kálfsárkot
7júlí19951715 Snæfellsskáli
       
7júlí - í byggð1966110 Grímsstaðir 
8ágúst19652640 Hólar í Hjaltadal (og 28.) - talið vafasamt (sjá næstu gildi undir töflu)
9september19752255 Sandhaugar
10október19982685 Lerkihlíð; Kálfsárkot sama ár. þ. 29.
11nóvember197222155 Sandhaugar
12desember196631200 Hornbjargsviti

ágúst: næstmest Sandbúðir þann 26. 1974, 21 cm, næstmest í byggð Grímsstaðir 10 cm 1971 og 1974. 

Tölur bæði apríl, maí og júní eru fyrningartölur eftir mikla snjóa fyrri mánaða(r).  

En pistillinn um mestu snjódýpt á Íslandi á vef Veðurstofunnar ætti að vera holl lesning. 


Ný hámarkssnjódýptartafla fyrir Reykjavík

Rétt að benda á að nú hafa orðið breytingar á hámarkssnjódýptartöflu fyrir Reykjavík. Gömul tafla á vef Veðurstofunnar verður vonandi endurnýjuð næstu daga - en þar til er afrit af nýju gerðinni hér:

Mesta snjódýpt í einstökum mánuðum í Reykjavík 

  metármánaðardagurcm
1janúar19371855
2febrúar20172651
3mars1949135
4apríl1989132
5maí1987117
     
9september1969308
10október2013813
11nóvember19782438
12desember2015444

Rétt er að vekja athygli á því að gamla marsmetið fellur líka haldist snjórinn lítt skertur fram á miðvikudag (1. mars). - Þessi listi verður þá strax úreltur.


Tilbreyting (eða umskipti)

Reiknimiðstöðvar eru nú furðusammála um að ákveðin fyrirstöðuhæð muni myndast fyrir norðan land og/eða yfir Grænlandi næstu daga. Fari svo verður breyting á veðri frá því sem verið hefur að undanförnu - það styttir upp og birtir um landið sunnanvert. Fyrirstöður sem þessar geta verið þaulsetnar - ekki þó alltaf. 

Þegar þetta er ritað (síðdegis laugardaginn 25. febrúar) er helst útlit fyrir að talsvert muni snjóa víða um landið sunnanvert aðfaranótt sunnudags og rætist sú spá - og spáin um fyrirstöðuhæðina gæti sá snjór legið einhvern tíma. Hann eykur líka líkur á að veður kólni samfara breytingunni. 

w-blogg250217

Kortið sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um stöðuna á hádegi á miðvikudag 1. mars og á við um 500 hPa-hæðina og þykktina. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er - því hlýrra er loftið. 

Rætist þessi spá verður norðaustanátt ríkjandi hátt til lofts - og hæðarsveigja á jafnhæðarlínum - þurrklegt sunnanlands - en einhver úrkoma norðaustanlands í áhlaðandanum. 

Eins og sjá má er þetta hlý fyrirstaða. Ef ekki væri snjór og vindur fremur hægur væri nær frostlaust - en ætli við reiknum nú samt ekki með því að þykktin ofmeti hér hitann - kaldara loft úr norðri stingur sér undir í neðstu lögum (það er algengast í þessari stöðu) - og síðan er varmajöfnuður mjög neikvæður yfir alhvítri jörð í björtu veðri - .

Eitthvað mun því kólna. 

En reiknimiðstöðvar greinir svo nokkuð á um framhaldið - líka frá einni spárunu til annarrar. Stundum virðist eiga að kólna meira - en aðrar spár setja vindinn í austlægari stefnu með hægum hlákum. - Ritstjóri hungurdiska hefur auðvitað enga glóru um hvort verður - eða eitthvað allt annað. 


Af kuldaköstum (og kuldakastaþurrð)

Árið 2003 tók ritstjóri hungurdiska saman fróðleik um kuldaköst og kalda daga. Þar reyndi hann að slá á breytileika þeirra í áranna rás og tilraun var gerð til skilgreininga. 

Síðan eru liðin mörg ár, en satt best að segja hefur lítið bæst við síðan - hálfgerð kuldakastaþurrð hefur verið ríkjandi í 15 ár. Þeir sem vilja fá allan sannleik um mismunandi skilgreiningar ritstjórans á kuldaköstum geta lesið um þær í ritgerðinni sem vísað er í hér að ofan - en í grófum dráttum heimtar hann að sólarhringslágmarkshiti - eða lægsta lágmark mánaðar á veðurstöð fari niður í -12,0 stig eða neðar til að farið sé að telja. Síðan er reiknað hversu stór hluti allra veðurstöðva nær markinu hverju sinni.

Kuldaköst 1924 til 2016

Upplýsingar um daglegan lágmarkshita veðurstöðva er aðgengilegur í stafrænum grunni aftur til 1949 - gagnaröðin sem verður til úr þeim er að vísu aðeins bjöguð fyrir 1961 (kuldaköst voru þá aðeins fleiri en dagavísir sýnir á myndinni hér að ofan). 

Lárétti kvarðinn sýnir ártöl - allt aftur til 1924. Lóðréttu kvarðarnir aftur á móti kuldakastavísitölurnar tvær - talnagildin skipta litlu - hlutfallslegur samanburður ára og tímabila öllu. 

Gráu súlurnar sýna dagavísitölu einstakra ára (kvarðinn til hægri) - kuldakastaþurrð síðustu ára er áberandi. Græni ferillinn er 7-árakeðja. 

Kuldaköstin voru stríðust 1969 og 1968 og svo 1973, 1979 og 1981. Sérstaða hafísáranna er hrópandi. 

Rauði ferillinn er mánaðavísirinn sem við getum dregið aftur til 1924. Hann hefur líka dottið mjög niður - en var líka nokkuð lágur á hlýskeiðinu á fjórða áratugnum. 

Mannaða stöðvakerfið er mjög að gisna á síðustu árum þannig að ritstjóranum fannst vissara að bera saman þessar tölur og samsvarandi gögn úr sjálfvirku mælingunum. Efnislega er niðurstaðan sú sama - kuldaköstum hefur fækkað merkjanlega - meira að segja sé aðeins litið til síðustu tuttugu ára. 

Í ritgerðinni áðurnefndu leit ritstjórinn einnig til lengri tíma og notaði daglegar mælingar í Stykkishólmi. Smábreyting er gerð hér - nú er miðað við að meðalhiti sólarhringsins í Hólminum sé -9,0 stig eða lægri þegar farið er að telja. Útkoman er þessi mynd.

Kuldaköst 1846 til 2016

Hér er farið aftur til 1846 - en aðeins sýndar 7-árakeðjur. Rauði ferillinn er sá sami og á fyrri mynd. Kuldaköst á hafísárunum lyftast upp úr fjöldanum. Sama gerist í Stykkishólmi. Við sjáum líka að smáhóll er um og uppúr 1940 - ritstjórinn hefur stundum kallað þau ár „litlu hafísárin“ en meiri ís var þá norðurundan en árin á undan og eftir. Virðist hafa nægt til að lyfta kuldavísum lítillega - þótt hlýtt hafi annars verið þessi ár. 

En ástandið fyrir 1920 er einfaldlega allt annað - nema kannski allra fyrstu ár þessara mælinga - þá var líka hafísrýrt í fáein ár. 

Eru kuldaköst þá alveg horfin? Nei, væntanlega ekki. Það væri alla vega alveg með ólíkindum ef ástand undanfarinna 15 ára héldist til frambúðar hvað þetta snertir. Að vísu gerir ísinn sig ekki líklegan til stórræða í augnablikinu en veðurlag með miklum ís við Austur-Grænland er alveg hugsanlegt í framtíðinni - jafnvel fyrirvaralítið - hvað sem hinni miklu almennu hnattrænu hlýnun líður. Það er þó viðbúið að það verði með öðrum hætti en áður - árstíðasveifla útbreiðslunnar kannski stærri en tíðkaðist á ísatíð fyrrum. 

Fyrir nokkrum dögum lak listi fram úr fingrum ritstjórans yfir á fjasbókarsíðu hungurdiska - án þess að komast á bloggmiðilinn. Það var þetta: 

Vandræðatíðarfar þá og nú? Áður fyrr var þetta eins og hörkuskotleikur. Var hægt að sleppa í gegnum árið án þess að lenda í einhverju af þessu án stórtjóns eða bana? Hvað með nútímann?

1. Frosthörkur (á auða jörð)
2. Fannkomur
3. Áfreðar
4. Vorharðindi
5. Vor- og sumarþurrkar
6. Rigningasumur
7. Haustrigningar
8. Hafís
9. Illviðri

Eins og sjá má hér að ofan þekkjast frosthörkur lítt á síðari árum nema rétt staka daga og varla það (gætu þó vel komið). Myndu valda ýmsum vandræðum – lítt fyrirséðum þó. Margs konar atvinnustarfsemi hefur sprottið upp sem lítið sem ekkert hefur tekist á við þennan vanda og veit lítt hvað hún þolir. Veitufyrirtæki hafa þó gefið þeim gaum – og hafa ákveðnar áhyggjur. Fiskeldi gæti lent í miklum vanda.

Við þurfum á mönnuðum veðurathugunum að halda til að meta tíðni hríðarbylja - einu sinni tók ritstjórinn saman pistil um breytileika þeirra. Kannski er kominn tími til að endurnýja hann (ef það er þá hægt). 

 


Næsthlýjasti þorri í Reykjavík

Nú er þorri liðinn og góa tekin við. Hann reyndist sá næsthlýjasti sem við höfum upplýsingar um í Reykjavík. Topptaflan (og botninn) er svona (seinni aukastafur er aðeins hafður með í samkeppnisanda - en er lítt raunverulegur):

röðárþorri °C
119654,39
220173,57
319323,47
420063,32
519673,29
619423,20
720132,88
819262,74
919642,64
1020112,53
   
1391969-3,54
1401910-3,58
1411920-4,10
1421894-4,13
1431881-6,36

Listinn nær aftur til 1872 - en þó er rétt að geta þess að þrjá þorra (1904 til 1906) vantar vegna þess að daglegar hitamælingar þau ár eru ekki enn í stafrænum gagnagrunni. 

Við megum taka eftir því að á topptíu má sjá þrjá mánuði á núlíðandi áratug. Fyrir norðan er staðan svipuð - nema að dagleg gögn ná aðeins aftur til 1936. Á Akureyri var talsvert hlýrra á þorra 1965 heldur en nú - rétt eins og í Reykjavík. 

Við skulum líka líta á mynd.

Meðalhiti á þorra í Reykjavík 1871 til 2017

Hér sjáum við vel að kaldur þorri hefur ekki komið síðan 2002 (þótt ýmsum þætti kalt í fyrra), en þorrinn 2002 var merkilegur fyrir þær sakir að hann var almennt veðragóður þó kaldur væri - að slepptu einu mjög slæmu norðankasti. 

Það er líka dálítið óvenjulegt (miðað við ýmsar aðrar ámóta myndir) að hlýjasta „þorrasyrpan“ er í blálokin á hlýskeiðinu mikla á síðustu öld - að slepptum þorra 1966 eru þorramánuðir áranna 1963 til 1967 hlýir eða mjög hlýir. 

Úrkoma hefur oft verið meiri á þorra í Reykjavík heldur en nú, síðast 2012 og í hitteðfyrra (2015) var hún nærri því eins mikil og nú. 

Svo er spurning með framhaldið. Það er ekkert samband á milli hita á þorra og góu. Þessir tveir mánuðir ganga stundum saman en jafnoft verður þeim sundurorða. 

Þeir sem vilja rifja eitthvað upp um hlýja og kalda góumánuði geta litið á gamlan hungurdiskapistil frá því 2013. Og um þorraþrælinn er einnig gamall pistill á hungurdiskum. Sömuleiðis ritaði ritstjórinn pistil á vef Veðurstofunnar um þorraþrælinn 1866 ( og birtingu ljóðsins „Nú er frost á Fróni“). Skyldi Kristján fjallaskáld hafa ort kvæðið fræga á þorraþræl 1865 - en það er kaldasti þorraþræll allra tíma - og „átt það á lager“ til birtingar í Þjóðólfi 1866? - Þorraþrællinn 1866 var nefnilega hlýjasti dagur febrúarmánaðar það ár (þó kaldur væri). 


Af loftþrýstingi og hita

Það er ekkert beint samband á milli loftþrýstings og hita hér á landi. Við lítum á mynd þar sem sjá má ástandið í febrúarmánuði í Reykjavík. - Þessi pistill er nú býsnaþurr og varla fyrir nema fáa. 

w-blogg190217

Lárétti ásinn sýnir meðalþrýsting febrúarmánaðar, en sá lóðrétti hitann. Fylgnin er engin - en við drögum samt aumingjalega línu í gegnum ártalaskýið. Þeir sem vilja sjá ártölin betur líta á pdf-viðhengið. 

Við höfum samt á tilfinningunni að hitinn dreifist meira háþrýstimegin á myndinni heldur en í lágþrýstingnum - í febrúar sem á lægstan þrýstinginn (1990 - kross lengst til vinstri á myndinni) er hiti nærri meðallagi. Svo er það merkilegt að þeir febrúarmánuðir sem eru hlýjastir allra (1932 og 1965) eru jafnframt þeir þrýstihæstu. 

Febrúar í ár (2017) ætti að verða á þeim slóðum sem örin bendir. 

En förum nú upp í 500 hPa-flötinn - í rúmlega 5 km hæð.

w-blogg190217b

Við getum ekki teygt okkur eins langt aftur í tíma - förum samt aftur til 1921. Hér sýnir lárétti ásinn hæð 500 hPa-flatarins í dekametrum (1 dam = 10 m). Svo bregður við að greinilega er samband á milli hæðarinnar og hitans - fylgnistuðull er stærri en 0,5. 

Það má heita regla að hlýtt sé í háloftum sé 500 hPa-flöturinn hár. 

Samband á milli loftþrýstings og 500 hPa-hæðar er líka gott - en víkur þó út af. Hér má e.t.v. sjá að loftþrýstingur getur verið hár af tvennum ástæðum. Annað hvort er 500 hPa-flöturinn hár (og hlýtt í háloftum) - eða þá að köldu (og þungu) lofti hefur tekist að leggjast að í neðstu lögum (án „vitneskju“ háloftanna). 

Í febrúar 1932 og 1965 var mjög hlýtt í háloftunum yfir landinu - og þeirra hlýinda naut við jörð. Í febrúar 1947 var þrýstingur nærri því eins hár (sjá fyrri myndina) - en hæð 500 hPa-flatarins í rétt rúmu meðallagi (síðari mynd).

Líklegt er að í mestu hafísárum 19. aldar hafi 500 hPa-flöturinn stöku sinnum verið hár án þess að hlýindin næðu til jarðar - margir slíkir mánuðir myndu spilla sambandinu sem myndin sýnir. Ófullkomnar endurgreiningar (sem ná aftur fyrir 1880) benda helst á febrúar 1881 sem slíkan spillimánuð. 

En smámunasömum er bent á viðhengin - þar sjást ártöl mun betur. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Smávegis af langvinnum hlýindum

Hlýindin eru mönnum ofarlega í huga, nú, föstudaginn 17. febrúar. Þau ekki langt frá toppi á bæði febrúarhitalistum (í 3. sæti af 143 í Reykjavík) sem og þeim sem sýna hita frá áramótum (í 2. til 3. sæti af 69 í Reykjavík). - En best stendur þó allur tíminn frá 1. október sig miðað við fyrri ár.

Meðalhiti þessa tímabils í Reykjavík er nú 4,1 stig - og virðist allgóður möguleiki á að það slái út meðalhita allra október til febrúartímabila frá upphafi mælinga. - Meðalhiti í október 2002 til febrúar 2003 var 3,5 stig í Reykjavík og sömu tölu má finna sömu almanaksmánuði veturinn 1945 til 1946.

Staðan á Akureyri og í Stykkishólmi er enn vænlegri, 3,5 stig á Akureyri frá 1. október nú, en ekki „nema“ 2,2 í október 1941 til febrúar 1942. Í Stykkishólmi eru tölurnar 3,8 stig nú og 3,0 hæst áður, líka 1941 til 1942.

Þó heldur kaldara sé framundan - sé að marka spár - telur evrópureiknimiðstöðin samt að hiti verði um 2 stigum ofan meðallags áranna 1981 til 2010 næstu tíu daga. 

Úrkoman er líka mikil - sérstaklega í Reykjavík þar sem summan frá 1. október er nú 639 mm. Fjögur tímabil frá 1. október til febrúarloka eiga hærri tölur, 2007 til 2008 með 698 mm, 1920 til 1921 með 685 mm, og 1924 til 1925 með 668 mm. Svo eiga Vífilsstaðir 731 mm sömu mánuði 1912 til 1913 - við vitum ekki hversu samanburðarhæfar þær mælingar eru.

En enn eru tíu dagar til mánaðamóta og fráleitt verður úrkomulaust þann tíma - sýnist að evrópureiknimiðstöðin sé að spá um 50 mm til mánaðamóta. Þó þær spár verði að teljast verulega óvissar er enn greinilega allgóður möguleiki á úrkomumeti.

Mjög snjólétt er á láglendi um þessar mundir, hvergi alhvítt í byggð í dag (föstudag 17.febrúar). Slíkir dagar hefa komið á stangli í febrúar á þessari öld - flestir 4 í sama mánuði árið 2006, en síðan þarf að fara aftur til 1972 til að finna nokkurn aldauðan dag í febrúar - þá voru alauðu dagarnir líka fjórir. Í febrúar 1965 voru þeir sex. Aftar komumst við ekki - daglegar snjóhuluupplýsingar frá eldri tíð eru af skornum skammti í stafrænum gagnagrunnum.  

Vindur hefur nú verið sérlega hægur í marga daga - minni en 4 m/s á láglendi í fjóra daga í röð. Það er óvenjulegt og frá því sjálfvirka stöðvanetið komst á skrið er aðeins vitað um tvo hægari febrúardaga heldur en gærdaginn (fimmtudag 16. febrúar), þeir sýndu sig í febrúar 2005. 


Nýtt febrúarlandshitamet?

Í dag (sunnudaginn 12. febrúar) var óvenjuhlýtt loft yfir landinu miðað við árstíma. Á hádegi var frostmark í 3500 metra hæð yfir Egilsstöðum - samkvæmt mælingu háloftakanna og í 3330 metra hæð yfir Keflavíkurflugvelli. - Þetta eru ábyggilega febrúarmet. 

Hlýindanna varð víða vart á veðurstöðvum og voru febrúarstöðvamet sett allvíða - sjá helstu tíðindi aftast í pistlinum. Einkennilegt er þó (og þó ekki svo einkennilegt) að hæstu tölurnar tvær komu af fjöllum. Önnur úr stöð á Brúðardal (á raflínuleið milli Fljótsdals og Reyðarfjarðar). Stöðin er í 300 metra hæð. Þar mældist hiti hæstur 17,8 stig. - Náði ekki Íslandsmeti, en samt trúleg tala.

En hámarksmælir á Eyjabökkum - í 650 metra hæð yfir sjó fór í 19,1 stig - en aðeins í 2 mínútur - laust fyrir kl. 14.

Á að trúa þessu?

Hámarkshiti og vindhviður 12. febrúar 2017 Eyjabakkar

Myndin sýnir hámarkshitamælingar á 10-mínútna fresti á Eyjabökkum í dag (súlur). Mesta vindhviða á 10-mínútna fresti er einnig sýnd (rauð strikalína). 

Þetta gæti allt saman verið rétt - loft í háloftum var nægilega hlýtt - „bara“ að ná því niður í skyndi. 

En við getum samt ekki gefið þessu fullkomið heilbrigðisvottorð hér og nú - spurningarmerkið í titli pistilsins verður því að standa um sinn. 

Febrúarhitamet voru sett á 17 stöðvum sem hafa athugað frá því fyrir aldamót - þar af einni mannaðri (Skjaldþingsstöðum). Áberandi var hversu mörg met á heiða- og fjallastöðvum eystra féllu. Hiti fór m.a. í 10,1 stig á Gagnheiði (949 m hæð) - nærri því eins hátt og hæst hefur nokkru sinni mælst í febrúar í Reykjavík (10,2 stig). Gagnheiðarstöðin er efst á heiðinni - mjög fjandsamlegur staður fyrir metavænt niðurstreymi - andstætt Eyjabökkum. 

Þeir sem nenna geta rifjað upp sex ára gamlan pistil hungurdiska um háan hámarkshita í febrúarmánuði - töflurnar auðvitað orðnar nokkuð úreltar - við endurnýjum þær síðar. 


Óvenjuhlýtt loft yfir landinu

Nú (laugardag 11.febrúar) nálgast óvenjuhlýtt loft landið. Ritstjórinn man trauðla hlýrra í febrúar - en gengur þó hratt hjá eins og jafnan. 

Við lítum fyrst á spá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir kl.18 síðdegis á sunnudag.

w-blogg110217a

Jafnþykktarlínur eru heildregnar - þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Það er mjög óvenjulegt að þykktin verði meiri en 5500 metrar yfir landinu í febrúar. - Hefur þó að sögn rétt komið fyrir. Hæsta febrúarþykkt í námunda við landið í bandarísku endurgreiningunni er 5520 metrar - rétt suðaustan við land í illviðrinu mikla 16. febrúar 1954. 

Mesta febrúarþykkt sem við vitum um í háloftaathugun yfir Keflavík er 5510 metrar sem mældust í hlýindunum miklu 7. febrúar 1960 - og elstu veðurnörd kannast við. Á kortinu hér að ofan er þykktin yfir Keflavík tæplega 5500 metrar - en meiri en 5540 metrar á stóru svæði við landið austanvert. - Þetta er mjög óvenjulegt - en er bara spá ennþá.

Litirnir sýna hita í 850 hPa sem verður þegar kortið gildir í um 1500 metra hæð yfir landinu. - Hæsta talan á kortinu er um +14 stig - í niðurstreymi við norðurbrún Vatnajökuls. Landslagið í líkaninu er ekki alveg raunverulegt þannig að ekki má taka þessa tölu allt of bókstaflega. - en á kortinu er hiti í 850 hPa meiri en +10 stig á allstóru svæði yfir Austurlandi - gæti vel orðið reyndin. 

Hæsti hiti sem mælst hefur í 850 hPa yfir Keflavík í febrúar er 8.2 stig. Það var 15. febrúar 1955. Þannig stendur á núna að þetta met verður varla slegið - kannski fer hlýrra loft hjá stöðinni - en hittir varla í athugun (en þær eru aðeins tvær á sólarhring). 

Hæsti hiti sem mælst hefur í 700 hPa yfir Keflavík í febrúar er 0,0 stig. Það var í áðurnefndum hlýindum 7. febrúar 1960. Rétt aðeins er hugsanlegt að það verði slegið nú - því það á að verða hlýrra en þetta yfir Keflavík í allnokkrar klukkustundir - en hitting þarf. 

Við skulum líka horfa á 850 hPa mættishitaspá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir kl.15 á sunnudag. Mættishita reiknum við þannig að loft er tekið og dregið (þurrinnrænt) niður í 1000 hPa þrýsting. Við það hlýnar það um 1 stig á hverja 100 metra niðurdráttar. 

w-blogg110217b

Litirnir sýna mættishitann, en heildregnu línurnar sjávarmálsþrýsting. Í niðurstreyminu við norðurjaðar Vatnajökuls er mættishitinn +28,0 stig. Sá væri hitinn í 1000 hPa ef hægt væri að koma loftinu þangað niður óblönduðu. Sjávarmálsþrýstingur er um 1024 hPa yfir Austurlandi, sjávarmál er því um 190 metra undir 1000 hPa og komið alveg þangað niður væri loftið orðið tæplega 30 stiga heitt. 

Þó þessi ákveðni hitatoppur sé bundinn niðurstreymi sem e.t.v. er alls ekki til nema í líkaninu er mættishitinn samt yfir 20 stig á mjög stóru svæði yfir Norður- og Austurlandi og langt austur fyrir land. - Líkur á að einhvers staðar hitti í með háum hita verða því að teljast töluverðar. 

Landsdægurhitamet 12. febrúar er eitt þeirra lægstu í febrúar, 13,7 stig. Það er því augsýnilega í mikilli „hættu“. -  „Meðallandsdægurmet“ (dálítið skrýtið hugtak) febrúarmánaðar er 15,0 stig. Kannski það náist. 

Hæsti hiti sem mælst hefur í febrúar hér á landi er 18,1 stig, sett á Dalatanga 17. febrúar 1998 - þá var þykktin á þeim slóðum ekki „nema“ 5470 metrar (sem er óvenjumikið). - Ef jafnvel „hittir í“ nú og þá eru 20 stigin innan seilingar - í fyrsta sinn í febrúar. 

En við nokkuð ramman reip er að draga - þungt og kalt loft í neðri lögum og þó snjólaust sé í byggð fer orka lofts að ofan í að bræða snjó í fjöllum á leið þess niður á láglendi. 

Myndin hér að neðan er nokkuð erfið - og einkum fyrir þá sem eru sérlega áhugasamir - aðrir bæta engu við og geta snúið sér að öðru.

w-blogg110217c

Myndin sýnir vind- og mættishitaþversnið yfir landið frá vestri til austurs eftir 64,8°N. Venjulegar vindörvar sýna vindátt og vindstyrk og að auki er vindhraði sýndur í litum, - kvarðinn skýrist sé myndin stækkuð. Jafnmættishitalínur eru heildregnar og merktar í Kelvinstigum - draga þarf 273 frá til að fá út Selsíusstig. 

Lóðrétti kvarðinn sýnir hæð (sem þrýsting), en sá lárétti lengdarstig. Gráu fletirnir neðst á myndinni eru fjöll landsins, Hofsjökull hæstur í þessu sniði fer upp fyrir 850 hPa. Mikil háloftaröst er hér vestur af landinu. 

Mættishiti vex (nær) alltaf með hæð - en mishratt. Séu línur á svona þversniði þéttar er loftið mjög stöðugt, en hallast til ólstöðugleika eftir því sem þær eru gisnari.

Á einum stað í sniðinu fer 300K jafnmættishitalínan niður í 850 hPa - þar er mikið niðurstreymi norðan Vatnajökuls - örin bendir á pokann, 300K eru 27°C. 

Ef við rýnum betur í er margt að sjá. Við töluna 1 er sett ör þar sem jafnmættishitalínurnar eru sérlega þéttar - þar eru hitahvörf við Vesturland. - Hinumegin - austan við land - eru hitahvörfin miklu neðar (við töluna 2). Niðurstreymi austanlands hefur orðið nokkuð ágengt. 

Við sjávarmál á Vesturlandi er hiti um 279K - 6°C, við Austfirði er hann um 286K, um 13 stig. Tuttugu stig nást þar sem loft með mættishita 291K nær til sjávarmáls á Austurlandi, það loft er því 18°C í 1000 hPa (291-273), síðan bætast um 2 stig við niður að sjávarmáli vegna þess að sjávarmálsþrýstingur er um 1024 hPa. 

Sjá má að 291K jafnmættishitalínan er í um 925 hPa hæð yfir Austurlandi - eða í ríflega 800 metra hæð þegar spáin gildir. Til að ná 20 stigum þarf loft því að hreyfast „óskaddað“ (án íblöndunar) niður úr þeirri hæð til sjávarmáls - nokkuð mikið til ætlast en reynslan sýnir það það er alls ekki útilokað. 

Í snjólausu sólskinsveðri að sumarlagi getur sólarylur hitað landið, sem undir loftinu liggur, nægilega mikið til að vinna gegn áhrifum íblöndunar - líkur á að koma hlýindum niður eru þá meiri en að vetrarlagi - en - það er alltaf eitthvað en - vindur er yfirleitt minni að sumarlagi og frekar skortur á vindafli til að búa til þá bylgjuhreyfingu sem til þarf. 

Svo sjáum við hvað gerist. 


Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 178
  • Sl. sólarhring: 386
  • Sl. viku: 2557
  • Frá upphafi: 2434999

Annað

  • Innlit í dag: 158
  • Innlit sl. viku: 2268
  • Gestir í dag: 150
  • IP-tölur í dag: 145

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband