Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2017
16.1.2017 | 22:54
Nokkur órói
Veðurspár eru mjög órólegar þessa dagana (órólegri heldur en veðrið sjálft?). Sterkir háloftavindar blása nú yfir landinu - ekki er langt í kalt loft norðurundan, en jafnframt leitar sunnanátt lags fyrir sunnan land. - Reiknimiðstöðvar hafa verið óvissar í meðferð stöðunnar - en svo virðist samt að við ætlum að sleppa furðuvel (eða þannig).
Fyrsta kort dagsins sýnir stöðuna í 300 hPa-fletinum í fyrramálið (17. janúar kl.6) - að mati evrópureiknimiðstöðvarinnar. Jafnhæðarlínur eru heildregnar - við erum hér í um 9 km hæð. Vindhraða og vindátt má sjá af hefðbundnum vindörvum - en litir sýna hvar vindhraðinn er mestur. Það er einmitt yfir Íslandi. Á þessum árstíma er algengast að heimskautaröstin sé suður í hafi - en sveigjur hennar eru miklar þessa dagana - röstin kemur langt að norðan vestast á kortinu - fer langt suður í höf - en sveigir síðan aftur langt til norðurs - og svo enn aftur suður til Miðjarðarhafs austast á kortinu.
Þetta er ávísun á mikil hitavik - bæði jákvæð og neikvæð - auk þess sem lítið má út af bera með vind - lægðir geta orðið mjög krappar.
Hér má sjá sjávarmálsþrýsting (heildregnar línur) á sama tíma - kl. 6 á þriðjudagsmorgni 17. janúar. Hes vestanstrengsins nær alveg niður að sjávarmáli yfir landinu og svæðinu norðurundan - en með því að horfa á þykktarmynstrið (daufar strikalínur) má sjá að kalda loftið norðurundan dregur þó mjög úr vindi - er þó ekki nærri því nógu kalt til að snúa honum til norðaustanáttar.
Litirnir sýna 3 klukkustunda þrýstibreytingar. Rauðu litirnir tákna þrýstifall, en þeir bláu ris. Lægðakerfið tvöfalda fyrir sunnan land hreyfist hratt til norðausturs. - Í gær og fyrradag var helst gert ráð fyrir því að þessar tvær lægðir næðu saman og færu þá yfir Ísland með nokkrum látum - en nú eru reiknimiðstöðvar frekar á því að þær sameinist ekki.
Eystri lægðin er sú hættulegri - en sú vestari virðist ætla að sjá til þess að hún fái ekki kalda loftið í bakið fyrr en komið er framhjá Íslandi - mikilli dýpkun og kreppu verði því slegið á frest í tæpan sólarhring - Norður-Noregur fær þá að finna til tevatnsins síðdegis á miðvikudag.
Við höfum tilhneigingu til að trúa reiknimiðstöðvum varðandi 1 til 2 daga spár - en rétt er samt að gefa þessari lægð auga meðan hún fer hjá - og þeirri vestari svosem líka - þótt hún eigi að veslast upp.
Norðurhafabloggarar - hafísnördin - spjalla nú um stöðuna við norðurskautið. Kortið gildir á sama tíma og kortin að ofan - kl.6 þriðjudag 17. janúar. Við sjáum hér gríðarmikið lægðasvæði norður af Svalbarða. Að sögn er hafísinn óvenju hreyfanlegur um þessar mundir - enda með þynnsta móti. Venjulega gerir ein lægð sem þessi ekki mikið af sér á þessum árstíma - en vegna þynnkunnar og hreyfanleikans er talað um að hún gæti sturtað óvenju miklu af ís út úr íshafinu - þá í átt til okkar.
Varla hefur ritstjóri hungurdiska mikið vit á - en kannski rétt að gefa þessu máli gaum líka.
14.1.2017 | 18:19
Fárviðrið 11. febrúar 1967
Í haust var á hungurdiskum fjallað um fárviðri í Reykjavík í allmörgum pistlum. Því var lokið og sömuleiðis búið að líta á eitt Akureyrarfárviðri, 5. mars 1969. Verður nú haldið áfram þar sem frá var horfið og haldið áfram með Akureyrarveðrin. - Þau eru hins vegar ekki mörg á bókum, aðeins þrjú.
Það sem við lítum á í dag gekk yfir snemma að morgni laugardags 11. febrúar 1967 og gerði ekki teljandi skaða. Ritstjóri hungurdiska var reyndar á staðnum og man mjög vont veður - og sömuleiðis sá hann á göngu um bæinn síðdegis að ýmislegt (mjög) laust hafði fokið, ruslatunnur (og fleira þess háttar) voru ekki allar á réttum stöðum - fáeinar rúður brotnað - en furðulítið tjón samt miðað við veðurhæðina.
Aðdragandi veðursins er í sígilda flokknum - þrjár lægðir fóru til norðausturs nærri landinu, þær tvær fyrstu fyrir vestan það - en sú síðasta (okkar lægð) yfir landið - og var fljót að því.
Hér má sjá stöðuna sólarhring áður. Djúp lægð við suðausturströnd Grænlands veitir gríðarköldu lofti til austurs á móts við hlýja lægðarbylgju úr suðri. Nýja lægðin er rétt svo að verða til á þessu korti. Hluti hennar er alveg við suðurmörk þess - en sameinaðist svo bylgju á úrkomubakkanum mikla sem liggur þar austan við. - Fór svo í óðadýpkun á leið sinni til landsins.
Sólarhring síðar er lægðin yfir Húnavatnssýslu. Austan hennar er mikill sunnanstrengur - vestanátt sunnan við. Það er eiginlega ekki fyrr en yfir landinu sem lægðin fór að snúa upp á sig og búa til stungu. Fárviðrið náði því ekki verulegri útbreiðslu hér á landi - hittir ekki alveg í.
Þetta var á tíma hinna ómissandi Morgunblaðsveðurkorta. Hér má sjá kort á sama tíma og greiningin að ofan sýndi. Lægðin á sama stað. Ritstjórinn telur kortið vera eftir Knút Knudsen veðurfræðing (en er ekki alveg viss). Í textanum má lesa að lægðin hafi farið um 2000 kílómetra leið á 24 tímum og dýpkað um 40 hPa (sem er varlega áætlað).
Þarna má líka sjá að vindur í Grímsey hafi farið í 14 vindstig. Þegar athugunarbókin skilaði sér reyndust það vera 85 hnútar (43,8 m/s) - en ekki 89 eins og stendur í textanum. Þetta er mesti vindhraði sem vitað er um í eyjunni - merkilegt veður hvað það varðar og sýnir e.t.v. hvað litlu munaði að lægðin hitti stærri hluta landsins þegar hún var illvígust.
Japanska endurgreiningin nær þessu veðri nokkuð vel - þrýstingur í lægðarmiðju er 969 hPa á kortinu að ofan (hefur verið lítillega lægri í raun) - en á næsta korti á eftir (kl. 12) er hann kominn niður í 958 hPa.
Hér er svo háloftastaðan sem lagði veðrið upp. Kortið gildir kl. 6 að morgni þess. 10. (samtíma fyrsta kortinu hér að ofan). Kuldapollurinn Stóri-Boli er með illilegasta móti og hlýtt loft syðst á kortinu að gæla við jaðar hans. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, en þykktin sýnd með litum. Mikill vindstrengur langt suðvestan úr hafi liggur beint til Íslands. - Afarsígilt illviðraábendi.
Þrýstiritinn frá Akureyri sýnir lægðakerfi þessarar febrúarviku vel. Fyrsta lægðin fór hjá nokkuð fyrir vestan land þann 8. Síðan leið rúmur sólarhringur í þá næstu, hún var talsvert dýpri - en var langt vestan Akureyrar og loks sú þriðja - tveir sólarhringar liðu á milli lægstu þrýstigilda þessara tveggja lægða. - Á Akureyri varð veðrið verst eftir að loftvog fór að stíga snemma að morgni þess 11.
Vindritið frá Akureyri sýnir 10-mínútna meðalvindhraða - hér frá því um kl.22 kvöldið áður og fram undir kl. 9 að morgni. Vindur var lengst af mjög hægur um nóttina, fór að hvessa um kl. hálf sex - og síðan mjög snögglega rétt uppúr kl.6. Snöggu hámarki var síðan náð rétt fyrir sjö. Flestir bæjarbúar annað hvort sofandi eða rétt við fótaferð. - Vindur fór síðan fljótlega að ganga niður.
Íslandskortið er frá því kl. 9. Þá var veður orðið skaplegt á Akureyri - en hafði ekki náð hámarki í Grímsey - það gerðist milli kl. 9 og 10. Af kortinu má ráða að lægðin var komin niður fyrir 960 hPa.
Síðasta myndin sýnir lægsta þrýsting á landinu á þriggja klukkustunda fresti dagana 7. til 12. febrúar 1967 (rauður ferill) og mesta þrýstimun milli stöðva (mismunur hæsta og lægsta þrýstings á sama tíma). Þrýstiferillinn er í aðalatriðum samhljóða akureyrarferlinum - lægð númer 2 tekur þó greinilega meira í heldur en sá ferill sýnir.
Strengurinn samfara lægðinni okkar var mjög snarpur - en skammvinnur.
Þess má svo geta í framhjáhlaupi að rétt nokkrum dögum áður hófust veðurfréttir í sjónvarpi Ríkisútvarpsins.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 18:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.1.2017 | 20:42
Sveiflutíð
Kalt var á landinu í dag (fimmtudag 12. janúar) - en samt ekki óvenjulega. Líklega verður líka kalt á morgun - en svo hlýnar og á sunnudag er spáð hláku um mestallt land. Sú hláka á hins vegar ekki að standa lengi.
Við skulum líta á stöðuna á norðurhveli okkur til hugarhægðar.
Spáin gildir síðdegis á laugardag (14. janúar). Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar en þykktin er sýnd með litum. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs - því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Það sem helst vekur athygli á þessu korti er að háloftavindur er mun meiri Ameríkumegin þennan daginn og norðurslóðakuldinn er þar mestur. Ekki er eins kalt Asíumegin - þar eru vindar heldur óreglulegir - en útbreiðsla kulda nokkuð mikil (eins og vera ber í janúar).
Hæðarhryggur er yfir Íslandi - kominn úr suðvestri og ber með sér mjög hlýtt loft - en það víkur hratt undan vestankuldanum. - Bylgjuhreyfingunni hefur tekist að hreinsa kuldapollinn sem verið hefur yfir Balkanlöndum til austurs, en ný gusa af köldu lofti streymir suður um Evrópu og á að setjast þar að - kannski að vestanvert Miðjarðarhaf og Frakkland muni nú finna fyrir klóm vetrarins. - Verði svo munu fréttir ábyggilega komast á kreik um vandræði af þeirra völdum.
Reiknimiðstöðvar eru bæði ósammála innbyrðis og útbyrðis um framhaldið - þær spár sem berast um veður meira en 4 til 5 daga fram í tímann eru meira og minna út og suður og breytast frá einni spárunu til annarrar.
9.1.2017 | 20:45
Talsvert kólnar (að minnsta kosti í fáeina daga)
Svo virðist sem nú muni talsvert kólna - í nokkra daga að minnsta kosti. Við sjáum hugmynd evrópureiknimiðstöðvarinnar um stöðuna um hádegi á fimmtudag hér að neðan.
Jafnþykktarlínur eru heildregnar. Þykktin yfir miðju landi á að vera 5040 metrar - 280 metrum lægri en hún var á hádegi í dag (mánudag 9. janúar). Þetta segir okkur að hiti í neðri hluta veðrahvolfs á að falla um 14 stig frá því sem var í dag. Tveggja stafa frost blasir við víða um land. - Við getum rifjað upp í framhjáhlaupi að það hefur ekki gerst síðan 6. desember 2013 að hámarkshiti sólarhringsins hafi hvergi náð upp fyrir frostmark á landinu öllu.
En þessi kuldi (komi hann) á ekki að standa lengi - sé að marka spár (sem ekki er víst). Þykktarkort sunnudags 15. janúar lítur allt öðru vísi út.
Hér er þykktin komin upp í 5420 metra - hefur aukist um 38 metra - eða um 19 stig.
Þetta kuldakast mun færa hitann í mánuðinum nokkuð niður - þó hann hafi verið nokkuð hár þessa fyrstu viku ársins rúma hefur hann ekki verið í alveg hæstu hæðum eins og lengst af fyrir áramót.
8.1.2017 | 01:17
Þvælt um veðurfarsbreytingar (hringakstur)
Hér þvælir ritstjóri hungurdiska eitthvað um veðurfarsbreytingar (aðallega endurtekið). Þann 17. júlí 2016 birtist pistill á hungurdiskum með fyrirsögninni Hringrás í júlí - (og veðurfarsbreytingar). Við skulum nú líta á svipað - frá janúarsjónarhóli. Mjög minnisgóðir lesendur ættu að kannast við eldri pistil (næstum því eins - og þeir sem eru enn minnisbetri geta rifjað upp enn eldri pistil).
Spár um breytingar á veðurfari af völdum vaxandi gróðurhúsaáhrifa eru á margan hátt varasamar viðfangs - margt í þeim sem getur farið úrskeiðis. Þess vegna hafa menn fremur kosið að tala um framtíðarsviðsmyndir - bæði þá um losun gróðurhúsalofttegunda og annarra efna sem kunna að hafa áhrif á geislunareiginleika lofthjúpsins - sem og veðurfarslegar afleiðingar hverrar losunarsviðsmyndar. Við erum því - oft í einum graut - að tala um, losunarsviðsmyndir (losunarróf) og líklegt veðurlagsróf hverrar sviðsmyndar.
Fjölmargar losunarsviðsmyndir hafa komið við sögu - miklu fleiri en svo að veðurfarsróf verði reiknuð að viti fyrir þær allar. Í reynd hefur verið valið úr og má lesa um það val í skýrslum milliríkjanefndar sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC). Til eru enn öfgafyllri sviðsmyndir en þar er minnst á.
Í þessum sviðsmyndasjó og afleiðingarófi er í sjálfu sér enginn jaðar hugsanlegra framtíðarbreytinga - en þar er þó að finna umræður um 6 stiga hlýnun - bæði 6 stiga almenna hlýnun um mestallan heim, sem og 6 stiga hlýnun á norðurslóðum - en um tvö stig annars staðar. Hvort tveggja telst ekki ólíklegt - haldi losun áfram svipað og verið hefur.
Við skulum hér líta á almennt ástand í neðri hluta veðrahvolfs í janúarmánuði. Til að ræða það þurfum við að líta náið á myndina hér að neðan. Hún sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins og 500/1000 hPa þykkt yfir norðurhveli í mánuðinum á árunum 1981 til 2010.
Grunngerð myndarinnar er sú sama og lesendur hungurdiska hafa oft séð - nema hvað jafnhæðarlínur eru dregnar á hverja 3 dekametra í stað 6 sem venjulegast er, eru sum sé tvöfalt þéttari. Þykktin er sýnd í hefðbundnum litum (skipt um lit á 6 dam bili) en auk þess eru jafnþykktarlínur dregnar - líka á 3 hPa bili (strikalínur). - Myndin skýrist nokkuð sé hún stækkuð. Þetta er reyndar endurnýtt mynd úr eldri pistli (ja, hérna - er ekkert nýtt hér að finna?).
Mörkin á milli bláu og grænu litanna er að vanda við 528 dekametra, meðalþykkt í janúar hér á landi er um 524 dam. Við megum taka eftir því að þykkt við Ísland er meiri en víðast hvar er á sama breiddarstigi - ólíkt því sem er í júlímánuði.
Í fyrstu nálgun ræður risastórt kalt háloftalægðasvæði veðri á öllu norðurhveli. Þegar nánar er að gáð er það þó ekki hringlaga - aflögun er tölurverð og kemur hún fram þannig að sums staðar ná jafnhæðarlínur norður fyrir meðalstöðu (hæðarhryggir) en annars staðar liggja þær sunnan við (lægðardrög). Sama má segja um þykktina (hitann). Við megum taka eftir því að hlýindi fylgja hryggjunum (gróflega), en kuldi drögunum. Sé nánar að gáð má sjá að víða mynda jafnhæðar- og jafnþykktarlínur horn á milli sín. Þar er vindur (sem liggur samsíða jafnhæðarlínum) að bera fram kalt eða hlýtt loft.
Hægt er að telja hversu margar bylgjur eru í hringnum. Útkoman verður þó mismunandi eftir því hvaða breiddarstig við veljum til að telja á. Lengd hverrar bylgju er venjulega ekki talin í kílómetrum heldur er notast við hugtakið bylgjutala. Bylgjutalan segir til um hversu margar bylgjur af ákveðinni stærð komast fyrir á hringnum.
Hefð er fyrir því að byrja á núlli - við bylgjutölu núll er hringurinn hreinn með miðju á norðurskauti. Hallist hann til suðurs á einhvern veg verður til bylgjutala einn. Það sem kallað er AO (Arctic Oscillation) er í hreinustu mynd sveifla í styrk þessara tveggja bylgjutalna.
Á meðalkortinu hér að ofan sjáum við að meira er af köldu lofti (og flöturinn stendur almennt neðar) á austurhveli jarðar - einkum Norður- og Austurasíu, en annar öflugur kaldur poki teygir sig líka til Norður-Ameríku - og að dekkstu bláu litafletirnir eru langt í frá hringlaga. - Þessi teyging til beggja meginlanda er á bylgjutölunni 2 (um það bil) - en samt ...
En meginlöndin og höfin sjálf - á hvaða bylgjutölum eru þau? Við sjáum að hvorki Norðurameríka né Atlantshaf ráða við bylgjutölu 2 - þau eru allt of mjóslegin til þess. Asía aftur á móti og Kyrrahaf eru nær því að gera það. Ef við hugsum meðfram 50. breiddarstigi er Amaríka rúm 60 lengdarstig að breidd - bylgjutala 6, Atlantshafið er á sama breiddarstigi um 50 lengdarstig eða bylgjutala 7, Evrasía öll, frá Vesturevrópu austurstrandar Asíu er um 160 breiddarstig - bylgjutala 2 til 3.
Andardráttur sá sem samspil sólarhæðar og afstöðu meginlanda og hafa ræður miklu um það hvernig bylgjurnar leggjast og hversu öflugar þær verða. Árstíðasveifla sólarhæðarinnar einnar býr til sveiflu á bylgjutölu núll. Yfir hásumarið er kaldast yfir Norðuríshafi og lægðarmiðjan þar - þegar kólnar á haustin teygist á hringnum eftir því sem kuldi meginlandanna verður meiri - og í janúar eru lægðarmiðjurnar orðnar tvær og hringurinn umtalsvert aflagaður. Aflögunin er jafnvel enn meiri í febrúar en þá er veturinn í hámarki á norðurslóðum. Síðan fer að hlýna á meginlöndunum og aflögunin minnkar aftur.
Hér á landi er eindregin vestsuðvestan- og suðvestanátt í miðju veðrahvolfi og þar ofan við í janúar, í febrúar er áttin aðeins suðlægari, en um jafndægur fer að hlýna í Ameríku og áttin snýst meira í vestur. Í kringum sumardaginn fyrsta dettur mikið afl úr hringrásinni - en við verðum þá gjarnan fyrir (grunnri) útrás kulda úr norðurhöfum.
Á myndinni má sjá fjórar rauðar strikalínur - tvær þeirra marka tvo bylgjutoppa - þann vestari við Klettafjöll, hinn er við norðvesturströnd Evrópu, afmarka eina bylgju. Hún er um 100 lengdargráður við 50. breiddarstig, bylgjutala 3 til 4. Hinar strikalínurnar sýna lægðardrögin sem fylgja. Klettafjallahryggurinn, Baffindragið, Golfstraumshryggurinn, Austurevrópurdragið. Ylur Atlantshafsins stuðlar að afli Golfstraumshryggjarins, og Kyrrahafsylur og Klettafjöllin móta Klettafjallahrygginn. Vetrarkuldi Norðurameríku býr Baffinsdragið til - en skjólið af Klettafjöllunum styrkir það líka. Klettafjöllin og vetrarkuldi sjá til þess að vindur er mun sunnanstæðari hér á vetrum en ella væri og hækka hita - kannski alveg jafnmikið og hlýir straumar Atlantshafs gera.
En hvað gerir hnattræn hlýnun við svona mynstur? Eitthvað er verið að tala um tvö stig. Hver litur á myndinni er um 3 stig. Tveggja stiga hlýnun sem dreifist jafnt yfir allt hnikar öllum litum (og jafnhæðarlínum) til um nærri eitt bil. Dekksta bláa svæðið myndi dragast mjög saman og einn dökkbrúnn litur til viðbótar myndi birtast í hornum kortsins. Það þyrfti vön augu til að sjá nokkurn hringrásarmun.
En svo einfalt er málið væntanlega ekki. Verði hlýnunin ójöfn geta ýmsir hlutir farið að gerast. Meginlöndin, Klettafjöllin - (og aðrir fjallgarðar) verða að vísu á sínum stað, en líklegt er að meira hlýni yfir Norðuríshafi en annars staðar - bæði á haustin og yfir háveturinn. Þá gætu lægðirnar tvær - sú yfir Austur-Síberíu og Norður-Kanada slitnað enn betur í sundur - bylgjutölurnar tveir og þrír orðið eindregnari - en þá er hætt við að bylgjutölur fjögur til sjö - sem eru ógreinilegri á kortinu - en eru mjög ráðandi engu að síður - raskist líka. Þá breytist úrkomumynstur líka - og þar með snjóalög. Verður Baffindragið þá öflugra og sunnanáttir algengari hér á landi að vetrarlagi en áður - eða slaknar á því þannig að heimskautaloft verði meira ríkjandi en áður - jú, hlýrra sem slíkt en áður fyrr - en algengara. Styrkist Golfstraumshryggurinn til norðurs? Flest hann þá út í suðri - hvað verður þá um Austurevrópurdragið. Hrekkur
vestanáttin yfir Suðurasíu til norðurs? Truflar háslétta Tíbet hana þá meira en nú er? Hvað gerist þá í Austurasíu?
Mikið er um þessi mál ritað um þessar mundir - fréttir af bylgjutölum hafa jafnvel ratað í almennar fréttir netmiðla - spurt er hvað gera bylgjutölur 4 til 7?
7.1.2017 | 00:07
Kuldi í Balkanlöndum (og víðar)
Við höfum heyrt í fréttum af kuldum í Balkanlöndum, á Ítalíu og víðar um Evrópu. Við skulum líta á hann á háloftakorti.
Kortið er úr smiðju bandarísku veðurstofunnar og sýnir hæð 500 hPa-flatarins (heildregnar línur) og þykktina (litir) að morgni laugardags 7.janúar. Vel sést hvernig kuldinn liggur allt frá Síberíu eins og mjór fingur í átt til Miðjarðarhafs - ryðst þar með offorsi um fjallaskörð Króatíu, út á Adríahaf og þaðan yfir til Ítalíu og jafnvel lengra.
Mörkin á milli grænu og bláu litanna eru við 5280 metra - reynslan sýnir að við þá tölu fer að slá að í Suður-Evrópu - en hér nær 5100 metra þykktin alveg til Ítalíu - æsir upp vellandi éljagarða yfir hlýjum sjónum og getur dengt niður óheyrilegu magni af snjó. - Svipað er uppi á teningnum á austurjaðri kuldans - við Svartahaf - þar er norðaustanátt við jörð - en sunnanátt í hæð - ill blanda og erfið.
Þessi kuldapollur á að lokast af og leika lausum hala í nokkra daga - nóg verður að sýsla fyrir veðurfræðinga og viðbragðsaðila á þessum slóðum.
3.1.2017 | 21:09
Næst sólu
Samkvæmt almanaki háskólans er jörð næst sólu á morgun, 4. janúar. Vegna þess að jarðbrautin er sporbaugur en ekki hringur er mislangt í sólina eftir árstíma. Almanök hafa lengi verið aðgengileg hér á landi. Magnús Ketilsson sýslumaður í Búðardal á Skarðsströnd hefur haft slíkt undir höndum þegar hann ritar í veðurdagbók sína 31. desember árið 1791: Hægð, þykkur, dró úr. Perihelium.
Perihelium er sólnánd - fyrir tvö hundruð árum bar hana upp á gamlársdag - hefur seinkað um fjóra daga síðan. - Okkur nægja að vísu ekki tvær dagsetningar til að segja að seinkunin sé fjórir dagar - því dagatal okkar er stillt eftir sólstöðum - það er fastákveðið að sólstöðurnar skuli haldast á sama tíma árs. Þessi leiðrétting á sér þó ekki stað alveg jafnt og þétt heldur í rykkjum - bætt er inn einum degi á fjögurra ára fresti (hlaupársdegi) en ekki 6 klukkustundum á ári. - Svo þarf að auki að sleppa þremur hlaupársdögum á hverjum fjögur hundruð árum til að sólstöðurnar haldist á sínum stað í almanakinu til lengdar.
En þessir rykkir þýða að bæði sólstöður og sólnánd færast lítillega til milli daga frá ári til árs, sólnánd er þannig 3. janúar í sumum árum - eftir því hvernig stendur á hlaupársrykknum.
En ekki er hægt að halda bæði sólstöðum og sólnánd kyrrum í dagatalinu. - Sólnánd rekur smám saman burt frá vetrarsólstöðum til vorjafndægra - og þaðan áfram til sumarsólstaða - og auðvitað áfram hringinn.
Af dagsetningunum tveimur 4. janúar 2016 og 31. desember 1791 getum við séð að í fyrstu nálgun er rekið um tveir dagar á öld, 183 aldir tæki þá að fara hringinn, 18 þúsund og þrjú hundruð ár. Við gætum farið í almanök nokkurra ára, flett upp nákvæmari tímum og fundið út að hringurinn tekur í raun um 21 þúsund og sex hundruð ár.
Eftir tíu þúsund ár - eða svo verður jörð næst sólu í júní - og sólnánd og sumarsólstöður falla saman - en nú er sólnánd tæpum hálfum mánuði á eftir vetrarsólstöðum. Þangað til vinnur sólnándin sig fyrst í gegnum janúar, síðan febrúar og koll af kolli.
Við sjáum svo lítið til sólar í skammdeginu að litlu skiptir hvort hún er nærri eða fjarri á þeim tíma. - En á sumrin skiptir það miklu máli. Þess vegna var hlýtt á norðurslóðum þegar sólnánd og sumarsólstöður féllu síðast saman - fyrir meir en tíu þúsund árum - svo hlýtt að það tókst að losa um ísöldina og gera betur.
En þó sólnánd stefni nú til sumars (hægum skrefum) kemur annað á móti - ekki alveg jafnhagstætt. Möndulhalli jarðar er breytilegur - hann ræður því hversu hátt sól er á lofti að sumarlagi. Nú er hann minnkandi - heimskautsbaugur er á leið norður og fer norður fyrir Grímsey síðar á þessari öld. Bæði heimskautasvæði (svæðin norðan og sunnan heimskautsbauga) og hitabelti (svæðið milli hvarfbauga) rýrna. Sól lækkar á lofti við sumarsólstöður. Möndulhallasveiflan tekur um 41 þúsund ár.
Þriðja meginsveiflan er sú að hringvikið - aflögun brautar jarðar um sól frá hringlögun - breytist. Sé hringvikið lítið er munur á fjarlægð sólar við sólnánd og sólfirrð (þá er jörð lengst frá sólu) lítill - sé það stórt verður munurinn meiri. Hringvik er nú minnkandi - áhrif sólnándar verða því minni þegar sólnánd og sumarsólstöður falla næst saman heldur en síðast var.
Um áhrif jarðbrautarþátta á veðurfar var gróflega fjallað í gömlum hungurdiskapistli -
Gamall pistill um jarðbrautarþætti
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 21:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.1.2017 | 17:55
Glitskýjadagur
Í dag (2. janúar) sást mikið af glitskýjum yfir landinu norðan- og austanverðu - enda skilyrði bæði til myndunar þeirra og skoðunar góð. Glitský myndast í 12 til 30 km hæð og þarf frost að vera meira en -70 stig og helst nokkru meira eigi þau að verða áberandi. Áberandi verða þau sömuleiðis ekki nema að flotbylgjuhreyfing sé á loftinu - vindur hvass og vindátt helst svipuð frá jörðu og upp í þá hæð sem þau myndast í. Í raun eru skýin afskaplega efnislítil og sjást því ekki nema eftir sólarlag á jörðu niðri - sól skín þá enn á og undir þau.
Kortið sýnir hæð 30 hPa-flatarins í dag, auk vinds og hita í honum. Hiti er sýndur í lit (kvarðinn skýrist sé kortið stækkað). Vindur er sýndur með hefðbundnum vindörvum. Það er 23 km jafnhæðarlínan sem liggur yfir þvert landið. Við getum séð nokkurn óróa í hitanum - og þeir sem rýna í tölur munu sjá -85 stig í fjólubláum bletti yfir Austurlandi - þar er greinilega mikið uppstreymi - hlýrri blettir sýna niðurstreymi. Við sjáum líka að bylgjur eru í jafnhæðarlínunum. - Vestanáttin við jörð sér svo um að halda neðri skýjalögum í skefjum.
Nú vitum við ekki hvort skýin í dag voru í þessari hæð - eða kannski fleiri.
Hér erum við komin niður í 100 hPa (tæplega 16 km hæð. Frostið er um -70 stig þar sem mest er - en við sjáum líka bylgjur - bæði í jafnhæðarlínum og litum. Trúlega eru skýin ofar en þetta - hér er varla nægilega kalt - en munum þó að líkanið ræður ekki við einstakar háreistar bylgjur þar sem kaldara gæti verið í toppum.
Hryggur af hlýju lofti í veðrahvolfinu á okkar slóðum lyftir öllu heiðhvolfinu og þar kólnar og ýtir það undir bæði bylgjugang og skýjamyndun. Glitský eru algengust hér á landi við þessi skilyrði. Þau sjást mun oftar á Norður- og Austurlandi heldur en sunnanlands vegna þess að hlýir hryggir af þessu tagi ryðjast oftast úr suðri hingað norður. Þá er oftast lágskýjað sunnanlands. Stöku sinnum ber þó svo við að aðrar vindáttir komi við sögu og þá von á glitskýjum syðra líka.
Fyrir kemur (ekki þó oft) að glitskýja verður vart án mikilla vinda - en það er önnur saga (sem ritstjóri hungurdiska hefur reyndar sagt einhvern tíma áður).
Næstu daga er áfram spáð bylgjugangi og miklu frosti í heiðhvolfinu og góð von til þess að meira sjáist af skýjum þessum - miðvikudagur og fimmtudagur þó líklegri en morgundagurinn.
Vísindi og fræði | Breytt 7.1.2017 kl. 00:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.1.2017 | 18:42
Af desember 2016
Nýliðinn desember varð á meðal þeirra hlýjustu - röðunaruppgjör Veðurstofunnar ætti að sýna sig síðar í vikunni. Hér lítum við á mánuðinn á fáeinum kortum evrópureiknimiðstöðvarinnar (í gerð Bolla Pálmasonar).
Hér má sjá vik frá meðalhita sjávaryfirborðs 1981-2010. Kaldi bletturinn suðvesturundan er orðinn heldur veikburða, aðeins lítið svæði þar sem vikið er meira en -1,0 stig. Annars er sjávarhiti ofan meðallags við allt Norður-Atlantshaf og sérstaklega fyrir norðan land og norður til Svalbarða. Við vitum hins vegar ekki hversu djúpstæð þessi vik eru, hlý eða köld.
Litir sýna hitavik í 850 hPa-fletinum, í um 1500 metra hæð yfir sjávarmáli. Mjög hlýtt hefur verið í sunnanáttinni á austanverðu svæðinu - en kalt í norðanáttinni vesturundan.
Síðasta mynd dagsins sýnir sunnanvikin vel. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, en hæðarvik eru sýnd í lit. Ráða má styrk aukasunnanáttarinnar á svæðinu af stærð vikanna. Reynist þetta vera með mestu sunnanáttardesembermánuðum sem við vitum um - þó ekki sá mesti.
Með samanburði getum við giskað á að hár hiti hér á landi hafi í þessu tilviki ráðist af óvenjueindregnum sunnanáttum - en þegar komið er norður til Svalbarða skipti sjávarhiti jafnvel meira máli.
1.1.2017 | 02:13
Ársmeðalhiti 2016 (án heilbrigðisvottorða)
Árið 2016 er liðið - það varð óvænt í baráttunni meðal hlýjustu ára frá upphafi mælinga. Eins og þegar er fram komið varð það þó ekki í efsta sæti á landinu í heild.
Meðalhitinn í Reykjavík varð 6,0 stig (6,00 fyrir þá sem vilja tvo aukastafi) og er þar með í 2. til 3. hlýjasta sætinu frá upphafi ásamt 2014 (5,99). Árið 2003 er situr enn að fyrsta sætinu, 6,1 stig (6,06).
Á Akureyri endaði árið í 4,9 stigum (4,91) eða 4. til 5. hlýjasta sæti ásamt 1939, ofar eru 1933, 2014 og 2003.
Í Stykkishólmi - en þar hafa mælingar verið gerðar lengst samfellt að kalla - náði árið 2016 hins vegar fyrsta sætinu, 5,5 stigum, 0,1 stigi ofan við 2003. Þessi tala (og hinar áðurnefndu líka) er án heilbrigðisvottorðs - en tíðindi engu að síður.
Ritstjóri hungurdiska óskar lesendum og öðrum velunnurum árs og friðar og þakkar jákvæð samskipti á liðnum árum. Hungurdiskar hafa nú lifað sex áramót - færslurnar orðnar 1819 - og enn skal hjakkað eitthvað áfram þó sjálfsagt fari risið lækkandi - pistlum fækkandi og meira og meira beri á endurteknu efni.
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (16.4.): 51
- Sl. sólarhring: 81
- Sl. viku: 1079
- Frá upphafi: 2460857
Annað
- Innlit í dag: 47
- Innlit sl. viku: 950
- Gestir í dag: 46
- IP-tölur í dag: 45
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Apríl 2025
- Mars 2025
- Febrúar 2025
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010