Bloggfærslur mánaðarins, júní 2016

Óvenjuhlýr júnímánuður á landsvísu

Júnímánuður 2016 varð mjög hlýr á landsvísu, ekki alveg jafn hlýr og bróðir hans 2014 en ekki munar miklu. Landsmeðalhiti í byggð reiknaðist 10,2 stig, sem dugar í 4. til 7. hlýjasta sæti frá upphafi mælinga. Aðeins hlýrra var í júní 2014 og einnig 1933, sjónarmun hlýrra 1871 (ef við getum tekið mark á svo gamalli tölu), en jafnhlýtt 1909, 1846 og 1953 - og ómarktækt kaldara var í júní 1941. 

Myndin sýnir tímaröðina - ásamt 10-ára keðju.

w-blogg010716a

Tíu ára keðjan stendur nú í 9,1 stigi, fór fyrst yfir 9 stig á árabilinu 2001 til 2010 og hefur verið þar rétt við síðan. Hún fór einu sinni ómarktækt ofar á árum áður, var 9,2 stig 1932 til 1941, en 9 stiga tíminn hafði þá miklu minna „úthald“ heldur en nú er orðið. Þrjátíu ára keðja er nú í 8,54 stigum, komst áður hæst í 8,53 á árunum 1925 til 1954. 

Enn má telja einkennilegt hvernig hlýindi þessarar aldar virðast hafa frekar valið suma mánuði úr til hlýinda frekar en aðra. Sjálfsagt ræður tilviljun því - en ekki endilega þó. 

Júnímánuður einn og sér getur litlu ráðið um ársmeðalhitann - bæði er hann aðeins einn af tólf - og þar að auki er breytileiki hitans minni í júní en er í vetrarmánuðunum - sem þannig fá meiri þunga í meðaltölum. 

En samt er dágott samband á milli júníhita og ármeðalhitans. Það stafar væntanlega af því að meiri líkur eru á hlýjum júní þegar almennt er hlýtt. Við skulum til gamans líta á mynd.

w-blogg010716b

Lárétti ásinn sýnir júníhitann (landsmeðaltal í byggð) - en sá lóðrétti ársmeðaltalið. Greinilegt er að hlýjum júnímánuðum „fylgja“ hlý ár - eða kannski frekar öfugt - júní er helst hlýr í hlýjum árum. 

Við sjáum þó að talsvert getur þó brugðið út af. Þrír rauðir hringir hafa verið settir utan um „afbrigðilega“ punkta. Lengst til vinstri má sjá að júní 1851 hefur reiknast mjög kaldur - en ársmeðalhitinn samt orðið ofan meðaltals tímabilsins alls. 

Hinumegin á myndinni eru þeir mjög hlýju júnímánuðir 1871 (3. sæti) og 1909 (4. til 7. sæti - eins og nú). Eitthvað hafa vindáttir og veðurstaða hitt vel í júní þessi árin miðað við ástandið almennt. Toppjúnímánuðirnir 1933 og 2014 eru hins vegar einfaldlega hluti af afspyrnuhlýjum árum. 

Þriðji hringurinn er settur í kringum nokkra punkta á efra jaðri skýsins - kaldir júnímánuðir - en hlý ár. Þar má m.a. sjá (myndin skýrist sé hún stækkuð) 1946 og 2011, ár þegar júnímánuður var kaldur - en árið hlýtt. 

Hvar skyldi árið lenda nú? Það hefur auðvitað hingað til verið hlýtt á langtímavísu - eins og öll ár á þessari öld - er í efsta þriðjungi síðustu 70 ára - en afskaplega ólíklegt er að það lendi í einhverri toppbaráttu. -  

Við gætum velt vöngum yfir því síðar. 


Smávegis af júní 2016

Þó þurrt hafi verið víðast hvar á landinu langt fram eftir júnímánuði endar úrkoman samt í meðallagi áranna 1961-1990 - og vel yfir meðallagi síðustu tíu ára um nær allt land. Á einstöku stað norðaustan- og austanlands er þurrkurinn þó ekki búinn. -

Mánuðurinn er auk þess einn af hlýjustu júnímánuðum mælitímans - ekki alveg á toppnum að vísu - en nálægt - nema við suðurströndina. Þetta stendur nokkuð glöggt - uppi í Hreppum virðist hann ætla að lenda í 6. sæti (frá 1880), en á Eyrarbakka í kringum 20. sæti (frá sama tíma) - og á Stórhöfða í Vestmannaeyjum ekki nema í kringum 50. sæti (mjög litlu munar þó á sætum). - Í Reykjavík lendir hann nærri 7. sæti og á Akureyri í því 4. eða 5. Stykkishólmur á enn möguleika á 3. sætinu - en gæti hrapað niður í 5. verði síðasti dagur mánaðarins kaldur.

En yfirlit Veðurstofunnar greinir frá endanlegum tölum - vonandi sem fyrst.


Langvinnur lágþrýstingur framundan?

Langvinnum lágþrýstingi að sumarlagi fylgir yfirleitt dauf tíð. Útlitið að þessu sinni getur þó ekki talist illkynjað að neinu leyti. Þótt engin verði hlýindin er ekki beinlínis verið að spá kuldakasti heldur - og teljandi hvassviðrum er heldur ekki verið að spá. - Kannski er bara engin ástæða til að kvarta?

En við vildum kannski samt fá að sjá meiri hlýindi og sólskin. 

w-blogg260616a

Hér er spá um ástandið í 500 hPa síðdegis á mánudag, 27. júní. Jafnhæðarlínur eru heildregnar - heldur gisnar að sjá - en mikil háloftalægð ríkir hér um kring - á mjög stóru svæði - og kuldapollur er vestan við Grænland. Hluti af honum á að fara til austurs fyrir sunnan land og viðhelda ástandinu. 

Þykktin er sýnd í lit. Við viljum helst vera í gula litnum - en sá daufgræni er mjög algengur hér á þessum tíma árs - telst ekki beinlínis kaldur - en engin hlýindi fylgja honum - og þegar hann liggur í lægðasveigju eins og hér eru skúrir og bleyta fylgifiskar. 

Litlar breytingar er að sjá á þessu næstu vikuna - og þær spá sem lengra ná sjá engar breytingar heldur í þeirri framtíð. Síðara kort dagsins sýnir úrkomuspá evrópureiknimiðstöðvarinnar fyrir næstu tíu daga.

w-blogg260616b

Heildregnu línurnar sýna meðalloftþrýsting, lægð situr yfir landinu, Litirnir sýna úrkomu sem hlutfall af meðallagi áranna 1981 til 2010. Þeir bláu gefa til kynna úrkomu yfir meðallagi - landið er þakið slíkum litum. Blettir eru með mun hærri tölum - allt upp í fjórfalda meðalúrkomu. - Það eru væntanlega merki um einhver öflug úrkomusvæði sem líkanið finnur á tímabilinu - ekki víst að þau komi fram - og enn síður áreiðanlegt það það verði nákvæmlega þar sem kortið greinir. Þurrara svæði er fyrir suðvestan land. 

Þó þetta sé dauf spá getum við vonað að hún feli samt í sér marga góða daga. -


Óvenjuhlýr júní - það sem af er

Nú eru liðnar þrjár vikur af júnímánuði og eru þær meðal þeirra hlýjustu sem vitað er um hér á landi. Meðalhitinn í Reykjavík er 11,2 stig, sami tími 2002 skilaði 11,4 stigum, og 2014 11,2 eins og nú. Ekki er langt í 2003 með 11,1 og 2010 með 11,0 stig. Svo er dálítið bil niður í sama tíma 1941, en þá var meðalhiti 10,7 stig sömu daga. - Ekki er spáð sérstökum hlýindum í Reykjavík næstu daga - en ekki kulda heldur - fyrr en þá e.t.v. um eða upp úr helginni. - En líklegt er þó að hitinn sigi heldur niður á við.

Í Stykkishólmi er enn óvenjulegra ástand, þar hefur sami tími júnímánaðar aldrei verið hlýrri en nú, meðaltalið 10,8 stig, næsthlýjast var 2014, 10,5 stig og svo 10,4 2007 og 2010, 1871 og 1941 eru svo með 10,0 stig. - Sama er á Akureyri, þar hafa fyrstu 3 vikurnar aldrei verið hlýrri en nú, 12,0 stig - en samanburð á dagsgrunvelli eigum við ekki á lager fyrir Akureyri nema aftur til 1936 - sami tími í júní 1933 gæti hafa verið hlýrri.

Hitavikin eru enn mest á hálendinu, +4,0 stig í Sandbúðum miðað við síðustu tíu ár, en svalast að tiltölu hefur verið á Stórhöfða í Vestmannaeyjum, þar er hiti aðeins +0,1 stigi ofan meðallags síðustu tíu ára. Meðalhiti er hæstur á Torfum í Eyjafirði, 12,5 stig og 12,0 í Hjarðarlandi, á Þyrli í Hvalfirði og Kolási í Borgarfirði. Lægstur hefur meðalhitinn verið á Brúarjökli, 2,8 stig - en á láglendi er hann lægstur í Seley, 6,2 stig.

Ársmeðalhitinn hefur mjakast upp á samanburðarlistum, er nú í 18. sæti í Reykjavík (3,7 stig) og því 25. á Akureyri (2,3 stig). Í upphafi mánaðarins var árið í 22. sæti í Reykjavík, en í því 36. á Akureyri.

Úrkoma hefur heldur náð sér á strik hér syðra - og sömuleiðis víða eystra, en enn er mjög þurrt á landinu norðanverðu, Akureyri í 15 prósentum meðalúrkomu, í Reykjavík er hlutfallið nú 66 prósent og 88 á Dalatanga. - Meðalloftþrýstingur er enn í hærra lagi - en þrýstingur hefur verið óvenjulágur síðustu daga - fór niður í 982,6 hPa í Surtsey - það lægsta á landinu í júní síðan 2002 - lágþrýstingur á að ríkja út mánuðinn.

Sólskinsstundafjöldi í Reykjavík er lítillega undir meðallagi áranna 1961 til 1990, en 26 stundum undir meðallagi síðustu tíu ára - enda hafa sólríkir júnímánuðir verið algengari en oftast áður.


Milt - jafnvel hlýtt (en engin hitabylgja)

Menn leggja nokkuð misjafna merkingu í orðið „mildur“ - þegar það er notað um veður. Hjá sumum liggur í því hitamerking - en hjá öðrum vísar það ekki síður til almenns góðviðris - jafnvel þótt kalt sé. Ekki er hollt að deila um slíkt - enda er merking orðsins „mildur“ líka á reiki þegar ekki er fjallað um veður. Nóg um það.

En næstu daga er hita spáð ofan meðallags og að slepptri rigningu víða um land og vindbelgings um tíma er samt frekar útlit fyrir að „hann fari vel með“ - og hlýtt loft verði ráðandi vel fram eftir vikunni. 

Það sést vel á kortinu hér að neðan sem gildir um hádegi á mánudag. Það sýnir hæð 500 hPa-flatarins og þykktina - eins og evrópureiknimiðstöðin leggur til. 

w-blogg180616a

Jafnhæðarlínur eru heildregnar en þykktin sýnd í lit. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs og yfir Íslandi er hún vel yfir meðallagi árstímans. Brúni bletturinn yfir Vesturlandi sýnir meiri þykkt en 5520 metra - efni í 20 stiga hita þar sem best tekst til. En kannski er frekar ólíklegt að svo hár hiti náist - því líklega verður skýjað. Aldrei að vita samt - kannski vestur á fjörðum. - En eystra er þetta rigningarlegt útlit í hafáttinni. Ekki veitir af regni á þeim slóðum og sömuleiðis syðst á landinu þar sem tíðin að undanförnu hefur verið með allraþurrasta móti. 

Óvenjuleg hlýindi eru vestur í Bandaríkjunum suðvestanverðum og virðist sá hiti breiðast heldur til austurs næstu daga. Menn eru svosem ýmsu vanir þar um slóðir - en sumir kollegar ritstjórans taka djúpt í árinni varðandi spárnar - við sjáum til hvað setur - en lítum á kort sem gildir á mánudagskvöld, þykkt og hæð 500 hPa-flatarins sem fyrr.

w-blogg180616b

Hér er þykktin við 5990 metra - fer aðeins stöku sinnum hærra og 500 hPa-flöturinn strýkst við 6 km hæð - það er líka fremur óvenjulegt. Öflug lægðarbylgja er yfir Hudsonflóa og sópar mjög hlýju lofti norður og austur um Nýfundnaland, þar er þykktinni spáð yfir 5700 metrum sem er líka óvenjulegt. Margir vestra fylgjast spenntir með - en við látum þá ekki æsa okkur um of. 


Nokkur umskipti

Fyrir hálfum mánuði þurfti ritstjóri hungurdiska að leggjast í flettingar vegna óvenjulegs háþrýstings. Nú ber svo við að rétt er að gefa lágþrýstingi gaum - því lægðir eru í vexti. 

Kortið sýnir sjávarmálsstöðuna síðdegis á laugardag (18. júní) - að mati evrópureiknimiðtsöðvarinnar. 

w-blogg170616a

Úrkoman er græn- og blálituð, en litaðar strikalínur sýna hita í 850 hPa-fletinum. Hér er farið að rigna á Suðvesturlandi - hressilega víða - í landsynningsstrekkingi. Reyndar verður hægt að tala um illviðri á fjöllum - gangi spáin eftir. 

En suður í hafi er mjög efnileg lægð - hún er af suðrænum uppruna - raka- og hlýindabólgin - og fær kulda í bakið úr norðvestri - einmitt dæmigerð staða til mikillar dýpkunar. - En þó vill svo til að meginkuldinn og lægðarbylgjan eru ekki alveg í fasa - hitta ekki alveg saman - svo lægðin verður ekki alveg eins djúp og hefði getað orðið við innileg faðmlög - og þar að auki er komið sumar og almennt minni illindi í kerfinu en er á öðrum árstímum. 

En lægðinni er samt spáð niður í um 980 hPa og spurning vaknar bæði um það hversu algengt það er hér á landi að þrýstingur farið neðar í júní - og hversu langt sé síðan. 

Ritstjóraflettingar sýna að þetta gerist að jafnaði á um 7 ára fresti - en hefur ekki átt sér stað síðan í illviðrinu mikla 18. júní 2002. Þá fór þrýstingur niður í 976,1 hPa í Akurnesi. Svo lágum þrýstingi er ekki spáð nú - og júnílágþrýstimetið frá 1983 er víðsfjarri (959,6 hPa). 

Hæsti þrýstingur á landinu á dögunum var 1036,9 hPa. Fari hann nú niður í til dæmis 981 hPa verður þrýstimunur innan mánaðarins meiri en 55 hPa. Slíkt gerist ekki í júní nema á 20 ára fresti að jafnaði.

Í reikningum bandarísku veðurstofunnar er lægðin ámóta djúp, en miðjan nær ekki til landsins. Sé sú spá rétt fer þrýstingur hér á landi ekki nema niður í um 985 hPa - það er nokkru algengara en 980 hPa - gerist á 3 til 4 ára fresti í júní. 

En alla vega ætti að rigna hressilega suðaustanlands - ekki veitir af - aldrei þessu vant. - Þurrkur fer líka að verða óvenjulegur víða norðaustanlands - þar ætti að rigna líka í þessum lægðakerfum - en spár um það eru hins vegar ekki mjög eindregnar. 


Kólnar á Vestur-Grænlandi (og dálítið hérna líka)

Eins og fram hefur komið í fréttum var nýtt júníhitamet sett á Grænlandi á dögunum. Hiti mældist 24,8 stig á Nuukflugvelli og sló eldra met, 23,2 stig, sem sett var í Syðri-Straumfirði 2014. Grænlandsmetagrunnur dönsku veðurstofunnar nær að vísu aðeins aftur til 1958 - fyrir þann tíma voru stöðvar fáar - og mjög fáar á metavænum stöðum landsins. 

Gamalt met, 30,1 stig, frá Ivigtut 23. júní 1915, þykir mjög vafasamt - og er það - en aldrei að vita. 

En nú er snarpur kuldapollur á leið úr norðri til suðurs við Vestur-Grænland - hann sést vel á spákorti evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir kl.12 á miðvikudag (15. júní).

w-blogg140616a

Jafnhæðarlínur eru heildregnar en þykktin sýnd með litum. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Mörkin á milli gulu og grænu litanna er við 5460 metra - þykktin yfir Íslandi er lítillega minni, alveg við meðaltal júnímánaðar, en hefur verið yfir meðaltali í mánuðinum fram að þessu. 

Mjög kalt er í pollinum við Vestur-Grænland, þar rétt sést í 5160 metra litinn - ekki alveg óþekktur hér við land í júní - en mjög, mjög óvinsæll og óæskilegur. Minnsta þykkt sem mælst hefur yfir Keflavíkurflugvelli í júní er 5180 metrar. 

Annar kuldapollur, minni, er fyrir norðaustan land, hann á að færast heldur nær á fimmtudaginn - en síðan að hörfa aftur - og þá fyrir tilverknað sunnanáttar sem fylgir austurjaðri Grænlandspollsins. 

Sumar spár gera svo ráð fyrir því að kuldinn vestan Grænlands „verpi eggi“ sem þá myndi fara til suðurs austur af Labrador og búa til fóður í mikla lægð suðvestur í hafi. Það yrði athyglisverð þróun - sem gæti haft veruleg áhrif hér á landi - en allt of snemmt er að ræða í smáatriðum. 


Óvenjuskýr ísmynd

Í dag sást vel til íssins í Grænlandssundi á myndum utan úr geimnum. Aðeins fáeinar háskýjaslæður voru þar á sveimi - en annars var skyggni sérlega gott. Myndin hér að neðan er klippt úr stærri og betri mynd á vef Veðurstofunnar - en skýrist nokkuð hér sé hún stækkuð (MODIS sunnudag 12. júní 2016, kl. 13:59).

modis_truecol_P_20160612_1225-klipp

Heldur er ísbreiðan gisin - en sérstaka athygli vekja ísrastir sem slitnað hafa langt austur úr henni og eru nú djúpt undan Húnaflóa - hafa greinilega lent út úr meginstraumnum sem liggur til suðvesturs um Grænlandssund og inn í straum sem liggur í öfuga átt. 

Þetta er reyndar furðulíkt því sem spáð var fyrir viku síðan að yrði í dag (sunnudag 12. júní) - en ritstjórinn hefur ekki séð nýrri spár. Sjávarhiti á þessum slóðum er almennt 6 til 8 stig, en ísinn ver sig (með því að fórna hluta af sér í bráðnun) og kælir í kring - en slík vörn er grunn og brestur um leið og vindur getur blandað kalda laginu saman við það sem undir er. - Að sögn eru rastirnar nú á hægri leið aftur til suðurs eða suðvesturs. 

Það er vonandi að þarna séu ekki líka sársvangir ísbirnir á ferð eins og um árið þegar svipuð staða kom upp. - En algengt er þetta.  


Yfir Íshafinu

Ísmagn mun nú vera með allra minnsta móti í norðurhöfum - en skiptar skoðanir eru uppi um hvort nýtt allsherjarlágmarksmet verður sett í haust. Til þess að slíkt geti orðið þarf veðrið yfir Norðuríshafi að þræða ákveðna leið - nokkuð vandrataða. 

Það er að vísu rétt hugsanlegt að ástandið í sjónum sé orðið ísnum svo fjandsamlegt að veðrið skipti litlu sem engu máli - en við skulum ekki fara að gera ráð fyrir slíku fyrirfram - enda ólíklegt. 

Til að sem mest bráðni þarf heiðríkju í júní og júlí og helst háþrýsting líka (þetta tvennt fer reyndar oft saman). Velstaðsett hæðarhringrás sér til þess að halda ísnum saman - meðan mest af þynnsta ísnum yfir landgrunni Síberíu á jaðri meginísbreiðunnar hverfur. 

Síðan þarf lágþrýsting í ágúst og helst sem mestan vind á sama tíma til að dreifa úr meginísnum yfir á þau svæði sem þá þegar eru orðin auð - og yfirborð sjávar hefur náð því að hitna. Skýjað og vindasamt veður í september getur síðan hjálpað til. Á þennan hátt er bráðnun hámörkuð. 

Nokkurn veginn svona var atburðarásin metsumarið 2012 - en ísmagnið virðist nú vera ekki ósvipað því sem þá var á sama tíma í júníbyrjun. 

En þessa dagana eru skilyrði ekkert sérlega góð til metbráðnunar. - Lægðasvæði yfir Íshafinu - sem veldur skýjuðu veðri - og enn er tilgangslítið að dreifa ísnum, slíkt gengur illa fyrr en mun meira hafsvæði er orðið autt. 

Enn allt er þetta samt fremur spennandi. Lítum á háloftastöðuna á norðurslóðum um helgina. Kortið er úr smiðju bandarísku veðurstofunnar og gildir síðdegis á sunnudag, 12. júní. 

w-blogg110616a

Ísland er neðst á kortinu, í hagstæðum, hlýjum hæðarhrygg (sem gefur sig smám saman), en eins og venjulega eru kuldapollar á sveimi í norðri. Það er töluverður órói í þeim - það mikill að við gætum hæglega lent í skotlínunni. Reiknimiðstöðvar eru þó ekki sammála - og satt best að segja er varla hægt að reikna þetta kúluspil lengra fram í tímann en 4 til 5 daga með einhverri vissu. - 


Halda hlýindi áfram?

Reiknimiðstöðvar eru ekki alveg sammála um svarið. Í augnablikinu (á þriðjudegi) sleppir bandaríska veðurstofan nokkrum kulda suður um landið í kringum helgina - en hjá evrópureiknimiðstöðinni halda hlýindin betur. Útgáfu hennar má sjá hér að neðan.

w-blogg070616a

Jafnhæðarlinur eru heildregnar og sýna að að hæðarhryggur á að vera viðloðandi landið. Honum fylgir hlýtt loft - reyndar mjög hlýtt. Þykktarvik eru sýnd í lit en þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Sá hiti skilar sér reyndar sjaldnast til jarðar nema í stríðum vindi - en vikin eru þó góð vísbending. 

Við landið er þykktarvikið um 60 metrar - það þýðir að þess er vænst að hiti í neðri hluta veðrahvolfs sé um 3 stig ofan meðallags - það er býsna mikið á þessum tíma árs í þriðjung úr mánuði. - Slíkt heldur vart til mikillar lengdar. 

Annað er uppi á teningnum þessa dagana í norðan- og austanverðri Skandinavíu þar sem mikið kuldakast er um það bil að hefjast. Þar mun næstu daga snjóa á fjallvegum - og jafnvel niður í sveitir. En heimamenn þar um slóðir eru reyndar öllu vanir. 

Það hefur aðeins þrisvar gerst að landsmeðalhiti júnímánaðar hefur verið meir en 2 stig ofan meðallags áranna 1931-2010. Það var 2014, 1933 og 1871. Meðaltalið frá 1871 er þó í talsverðri óvissu - en hlýtt var þó í veðri. Blaðið Norðanfari á Akureyri segir t.d. 22. júní 1871: „Síðan eptir miðjann f. m. hefir veðuráttan verið hjer hverjum deginum betri og hagstæðari, með hitum og nokkrum sinnum úrkomu, svo horfur á grasvexti eru þegar orðnar hinar beztu . 8 þ. m. [júní] var hitinn 37 stig á R móti sól, 20 forsælunni og 14 um háttatíma.“ - Við tökum mælingar móti sól ekki alvarlega - en kannski 20 stigin í forsælunni [25°C} og 14 stigin [17,5°C} líka. 


Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg020125a
  • w-blogg020125a
  • w-blogg010125i
  • w-blogg010125
  • w-blogg271224a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.1.): 68
  • Sl. sólarhring: 1074
  • Sl. viku: 2739
  • Frá upphafi: 2426596

Annað

  • Innlit í dag: 65
  • Innlit sl. viku: 2442
  • Gestir í dag: 63
  • IP-tölur í dag: 63

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband