Bloggfærslur mánaðarins, júní 2016
3.6.2016 | 02:00
Óvenjulegur háþrýstingur
Loftþrýstingur var nærri hæstu hæðum júnímánaðar í dag, fimmtudaginn 2. júní, mældist 1036,9 hPa í Önundarhorni og á Reykjavíkuflugvelli - reyndar er loftvogin á síðarnefnda staðnum líklega örlítið of há.
Þrýstingur hefur aðeins þrisvar mælst jafnhár eða hærri í júní hér á landi. Hæst er vitað um 1040,4 hPa í Stykkishólmi 21. júní 1939 - þá varð þrýstingur reyndar hærri en nú á fleiri stöðvum. Síðan er vitað um 1038,2 hPa í Stykkishólmi þann 9. júní árið 1903 - og 6. júní 1897 mældist þrýstingur á Akureyri 1036,9 hPa, jafnmikill og hæst nú. Reyndar er nákvæmni þessara mælinga ekki upp á aukastaf - svo vel var vart hægt að mæla hæð loftvoganna sjálfra yfir sjávarmáli á þeim tíma. - Munum að 0,1 hPa er aðeins 80 cm hæðarmunur. - Við eigum líka 1038,0 hPa úr Nesi við Seltjörn 19. júní árið 1823 - kannski er hægt að trúa því að þrýstingur þá hafi í raun og veru verið aðeins hærri en nú - en hæð loftvogarinnar er ekki vel þekkt.
Kortið sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar og gildir nú á miðnætti (2. júní kl.24).
Enn er smámöguleiki á 1037,0 hPa - en varla nema í nótt - síðan fer hæðin að síga saman.
1.6.2016 | 00:31
Af hlýskeiðum - ísaldar (söguslef - nýr flokkur)
Hér er lauslega sagt frá nýlegri grein í tímaritinu Review of Geophysics (tilvitnun í pistilslok). Greinin heitir Interglacials of the last 800.000 years, og skrifar vinnuhópur kallaður er Past Interglacials Working Group of PAGES sig fyrir henni. Í hópnum eru heimsþekktir vísindamenn á þessu sviði. Eins og nafnið bendir til er fjallað um hlýskeið ísaldar. Óhætt er að mæla með þessari grein, hún er auðfundin með aðstoð leitarvéla.
Þegar litið er á síðustu 50 milljón ár jarðsögunnar má segja að hægfara kólnum hafi átt sér stað - um hana hafa hungurdiskar fjallað áður í pistlaflokki sem valið var nafnið söguslef - og áhugasamir geta rifjað upp. Stöðugar skemmri sveiflur hafa verið í gangi allan þennan tíma - og mismiklar. Þáttaskil urðu í kólnuninni fyrir um 2,6 milljónum ára þegar stórar jökulbreiður fóru að myndast á meginlöndum norðurhvels - en þær hurfu alltaf skjótt aftur á hlýskeiðum þess á milli.
Svo virðist sem lengi vel hafi meðaltími á milli hlýskeiða verið um 40 þúsund ár, en fyrir á að giska 800 þúsund árum skipti nokkuð um. Sveiflurnar urðu stærri en áður, jökulskeiðin urðu lengri - og tíminn á milli hlýskeiða varð um 100 þúsund ár. - Jafnframt urðu hlýskeiðin hlýrri - þótt lengra væri milli þeirra. Ekki er þó hægt að negla niður nákvæmlega hvenær eða hvernig þessi gírskipti, 40 þúsund yfir í 100 þúsund ár urðu - þó 800 þúsund ár séu nefnd.
Margt er óljóst um ástæður þessarar hegðanar veðrakerfisins, sumar eru þó að vísu all vel þekktar. Þar á meðal þykir fullvíst að sveiflur í afstöðu jarðar og sólar gefi takt - ef svo má segja - svonefndar Milankovic-sveiflur.
Hlýskeiðagreinin fjallar nokkuð um þann vanda að skilgreina hugtakið hlýskeið. Á erlendum málum er talað um interstadial - eitthvað sem gerðist á milli þess að stórjöklar Evrópu og Norður-Ameríku voru í framrás. Jarðsögurannsóknir sýndu snemma að jökulskeiðin voru fleiri en eitt - og að stórjöklarnir hörfuðu hátt til fjalla á milli.
Lengi vel var hugmynd um að á að giska fjögur jökulskeið hefðu gengið yfir Evrópu - tímasetningar voru óljósar. Ekki eru mjög margir áratugir síðan menn fóru að átta sig á því að þau hlytu að hafa verið að minnsta kosti tíu - þegar ritstjóri hungurdiska var í námi fyrir 40 til 50 árum var alla vega stutt síðan að jökulskeiðum fór að fjölga að ráði. Einkennilegt hvað allt hefur breyst á þessum tíma - sem ritstjóranum finnst undrastuttur.
Þegar farið var að greina langa borkjarna af sjávarbotni komu í ljós sveiflur í súrefnissamsætuhlutfalli leifa örsmárra sjávarlífvera - sveiflur sem vart var hægt að skýra til fullnustu nema með því að samsætuhlutföll heimshafanna allra hefðu breyst vegna söfnunar jökulíss á landi. Vatn sem inniheldur léttar samsætur súrefnis og vetnis gufar auðveldar upp en það þyngra og smám saman vex hlutur þungu samsætanna á kostnað hinna. - Lífverur nota svo vatnið til kalkmyndunar og samsætuhlutfallið á hverjum tíma skilar sér í leifar þeirra.
Hugmyndin er þá sú að gróflega sé samband á milli samsætuhlutfallsins og heildarmagns jökulíss á hverjum tíma. Þegar farið er í smáatriði kemur þó allskonar flækja í ljós - sem við látum alveg eiga sig hér.
En lítum á mynd sem sýnir hlutfallsbreytingar þungu súrefnissamsætunnar 18-O - þetta er að grunni til úrklippa úr mynd 2 úr greininni áðurnefndu.
Lárétti ásinn sýnir tíma. Við erum stödd lengst til vinstri á myndinni - við núllið - en kvarðinn gengur svo aftur í tímann og endar fyrir 800 þúsund árum - lengst til hægri. Lóðrétti ásinn (einingar til hægri) sýnir djúpsjávarhlutfallsvik (benthic) þungu súrefnissamsætunnar 18-O. Kvarðinn er öfugur - ástæðan er sú að við viljum að ferill myndarinnar sé neðarlega á henni þegar vikið er hátt - mikið af vatni er bundið í ís.
Vikið fer upp í um 5 prómill þegar jöklar eru mestir - en nálgast 3 prómill þegar þeir eru rýrastir - það er á hlýskeiðunum. Þetta línurit hefur verið borið saman við óháð gögn um sjávarstöðu á hverjum tíma (það er ekki auðvelt) - og gott samræmi fundist. - Sveiflurnar eru raunverulegar - og samsætuvikið er góður vísir á þær.
Fyrst þegar jökul- og hlýskeið fóru að finnast í jarðlögum var farið að gefa þeim nöfn - gjarnan staðbundin (og eru þau enn notuð þar sem það á við) - en satt best að segja er þetta óskaplega erfiður nafnagrautur. Þar sem sjávarsamsætubreytingarnar ná um (mestöll) heimshöfin á svipuðum tíma þótti hentugt að velja helstu vendipunktum ferilsins númer - nefnda tölu - [svo notuð sé skilgreining úr kennslubók Elíasar Bjarnasonar] sjávarsamsætuskeið [marine isotope stage eða MIS].
Hlýskeið taka oddatölur - en jökulskeiðin sléttar - eða það var hugmyndin. - En þegar farið er að skoða ferilinn í smáatriðum kom í ljós að skilgreining á því hvað er hlýskeið er alls ekki svo auðveld. Hér er ekki rúm til þess að rekja sögu númeragjafarinnar - nema hvað sjávarsamsætuskeið 3 (við skulum bara segja MIS-3) reyndist ekki vera það sem við tölum nú um sem síðasta hlýskeið - það eina sem við skulum nefna með nafni hér - Eem - kallast það í Evrópu.
Eem reyndist við nánari athugun (Grænlandsborkjarnar komu þar við sögu) vera MIS-5 - og ekki allur vandi þar leystur - því sá tími sem merktur hafði verið sem 5 reyndist ná vel inn í síðasta jökulskeið á Grænlandi. Því var gripið til bókstafa - til að merkja undirskeið, a, c og e eru hlýrri en b og d. Þegar upp var staðið var Eem bara MIS-5e.
Þegar haldið er lengra aftur í tímann kemur upp svipaður vandi - og eru þá skeið greind í undirbókstafi. Sá siður er um það bil að verða alveg ofan á (þó verða menn aðeins að vara sig) að e sé alltaf eldra en a, MIS-19c er því eldra en MIS-19a. - Já skeiðin eru orðin mörg - tölurnar í notkun aftur til 2,6 milljóna ára (upphafs pleistocene-skeiðs) eru nú orðnar eitthvað um 100 - jökulskeið þá helmingurinn af því.
Um myndina þvera eru dregnar tvær láréttar strikalínur, þær marka harða og vægari skilgreiningu á hlýskeiði. Ef sú krafa er sett að til að teljast með verði hlýskeið að vera jafníslítið eða ísminna en það núverandi eru þau ekki nema 4 á myndinni. - Þau með tölurnar 1, 5e, 9e og 11c - það er mikil kröfuharka. - En dálítið umhugsunarvert samt í ljósi þeirrar gömlu skoðunar að jökulskeiðin hafi verið fjögur.
Við efri strikalínuna fara fleiri hlýskeið að koma inn - og til að þau fái að taka einhvern tíma er óhætt að fara með skilgreiningu niður að neðri línunni - en sé farið mikið niður fyrir það fjölgar hlýskeiðum umtalsvert - 5a og 5c bætast t.d. við - við sjáum á næstu mynd hvers vegna varla er hægt að ganga svo langt. - En á bilinu milli strikalínanna breytist fjöldi hlýskeiða í hópnum lítið - það telja höfundar benda til þess að talning þeirra haldi vatni.
En í greininni eru reyndar reifaðar sjö mismunandi skilgreiningar á hlýskeiði (og fleiri séu afbrigði þeirra talin með). Þetta er sum sé ekki auðvelt mál - en til nánari skoðunar velja greinarhöfundar þó þau sjávarsamsætuskeið úr sem merkt eru á myndinni.
Hlýskeið síðustu 800 þúsund ára eru þá kannski 11: 1, 5e, 7a-c, 7e, 9e, 11c, 13a, 15a, 15e, 17c og 19c. Nú æ-a sjálfsagt sumir, er ástæða til að telja MIS-7 í bútum? Það er nú það - sitt sýnist hverjum, MIS-7 er ósköp aumingjalegt hlýskeið yfirleitt - eða hvað?
En til nánari skýringa skulum við líta á aðra mynd - ekki úr greininni. Hér er tímakvarðinn aðeins síðasta jökulskeið - aftur til Eem.
Hér er okkar tími lengs til hægri - en Eem-skeiðið (MIS-5e) lengst til vinstri. Rauði ferillinn sýnir sjávarstöðuna - vik frá núverandi stöðu (í metrum) eru sýnd á lóðréttum kvarða til hægri. Hann er í grófu samræmi við ferilinn á fyrri mynd - afgerandi lágmark er fyrir um 20 þúsund árum - mun lægri sjávarstaða heldur en t.d. fyrir 70 þúsund árum.
Grái kvarðinn sýnir samsætuvik í grip-kjarnanum frá Grænlandsjökli - þau eru talin sveiflast með hita. Hér má sérstaklega taka eftir því að lágmarkið fyrir 20 þúsund árum - sem vissulega er það lægsta á tímabilinu er samt ekki mikið lægra en það fyrir 60-70 þúsund árum - þegar sjávarstaða var töluvert hærri en síðar varð.
Þetta segir okkur almennt að ekki er beint samband á milli heildarmagns jökulíss (eða sjávarstöðu) á hverjum tíma og hita um sama leyti - þótt það samband verð að teljast mjög gott á lengri tímakvarða. - Hitasveiflur geta verið mun sneggri heldur en ísmagnssveiflur.
Þó er sýnt fram á það í greininni að meginlandsjökulhvelin eru furðufljót að bráðna hlýni að ráði - og sé afstaða jarðar og sólar heppileg. Langan tíma tekur hins vegar að safna upp jökulís.
Við látum hér staðar numið að sinni - en við munum ef til vil síðar fjalla lítillega um hlýskeiðin hvert fyrir sig, t.d. lengd þeirra og styrk (með augum greinarinnar) - þau eru býsnamismunandi.
Svo er að varpa þessum niðurstöðum yfir á Ísland, íslenskt veðurfar og íslenska jökla. Íslandsjökull er aðeins brot af stærð stóru meginlandshvelanna og væntanlega miklu fljótari til viðbragða, bæði aukningar og bráðnunar. Mikið rými er hér fyrir gríðarlegar rúmmáls- og flatarmálssveiflur í takti við hita- og úrkomufar. Áttu slíkar sveiflur sér stað?
Tilvitnun:
Past Interglacials Working Group of PAGES (2016), Interglacials of the last 800,000 years, Rev. Geophys., 54,162219,
doi:10.1002/2015RG000482.
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (16.4.): 22
- Sl. sólarhring: 61
- Sl. viku: 1050
- Frá upphafi: 2460828
Annað
- Innlit í dag: 20
- Innlit sl. viku: 923
- Gestir í dag: 20
- IP-tölur í dag: 20
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Apríl 2025
- Mars 2025
- Febrúar 2025
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010