Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2015

Mikil umskipti (alla vega í bili)

Nú skiptir um veðurlag frá því sem verið hefur að undanförnu - sé að marka spár reiknimiðstöðva. - Alla vega í nokkra daga. Þetta kemur einna best fram sé 500 hPa meðalhæð síðustu tíu daga borin saman við spá um hæðina þá næstu tíu.

Fyrsta kortið hér að neðan sýnir liðið ástand - samkvæmt greiningu evrópureiknimiðstövðarinnar.

w-blogg300815a

Heildregnu línurnar sýna 500 hPa hæð síðustu tíu daga, en litirnir vik hennar frá meðallagi áranna 1981 til 2010. Mikil og þrálát lægð hefur haldist sunnan við land og hefur hún með köflum beint til okkar mjög röku lofti úr suðri og austri - en í neðri lögum hefur áttin verið af austri og norðaustri. Eindregin lægðarsveigja er á jafnhæðarlínunum - almennt bendir slíkt til þess að loftið sé upphaflega upprunnið á norðurslóðum, en það hefur í þessu tilviki farið langa leið austur um Atlantshaf, hlýnað á leiðinni og dregið í sig raka - sem síðan hefur að nokkru fallið sem úrkoma um landið norðan- og austanvert. 

Blái liturinn sýnir neikvæð vik - vestur af Írlandi hafur hæðin verið um 180 metrum ofan meðallags. 

En nú eiga að verða mikil umskipti á hringrásinni - einmitt á höfuðdaginn, 29. ágúst. Sá dagur hefur um aldir verið tengdur veðurbreytingum. - Ritstjóri hungurdiska er frekar trúaður á að eitthvað sé til í því - þótt vart tengist nákvæmri dagsetningu. 

w-blogg300815b

Kortið gildir næstu tíu daga, fram til 8. september. Hér hafa orðið mikil umskipti frá fyrra korti. Vestanátt komin stað austanáttarinnar, hæðarsveigja í stað lægðarsveigju og gríðarmikil jákvæð vik í stað neikvæðra - jákvæðu vikin (meir en 250 metrar) eru þó nær landinu heldur en þau neikvæðu voru á hinu kortinu.

Verði þetta raunin verður veður næstu viku allt öðru vísi en veður þeirrar sem liðin er - og ólíkt veðri lengst af í sumar. Loftið er af suðlægum uppruna - væntanlega stöðugt og mjög hlýtt verður í háloftunum. Talsverð von er til þess að norður- og austurhluti landsins njóti þeirra hlýinda - en auðvitað ekki alveg gefið frekar en venjulega. Hafáttin vestanlands er hins vegar sjaldan hlý, jafnvel þótt hlýtt sé efra.

Þar sem loftið er stöðugt eru úrkomulíkur almennt mun minni heldur en verið hefur - á því eru þó tvær undantekningar. Annars vegar er algengt að stöðu sem þessari fylgi þrálát og jafnvel mikil úrkoma um sunnanverða Vestfirði - þar sem hlýtt og rakt loft úr suðvestri er þvingað í uppstreymi yfir fjöll. Hins vegar er það sjaldan að suðvestanátt sem þessi sé alveg hrein og laus við lægðarbylgjur. Renni slíkar hjá fylgja þeim oftast álitleg úrkomusvæði. 

Sem stendur eru einna mestar líkur á slíku á fimmtudaginn. Kortið að neðan sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar á hádegi þann dag.

w-blogg300815c

Jafnhæðarlínur eru nokkuð þéttar samfara lægðardragi sem er að fara hjá landinu - og hlýindi fyrir austan. 

En það verður gaman að fylgjast með því hvort þessi umskiptaspá rætist. 


Óvenjumikil úrkoma

Undanfarna daga hefur verið sérlega mikil úrkoma víða á landinu norðan- og austanverðu. Ritstjóri hungurdiska hefur verið í nokkrum önnum og ekki gefist tími til að fara í vel í saumana á metamálum, en ljóst er þó að sólarhringsúrkomumet ársins voru slegin bæði í Litlu-Ávík (82,7 mm - gamla metið var 71,8 mm, sett í septmeber 2011) og á Sauðanesvita (114,7 mm - gamla metið var 95,0 mm, sett í júlí 2012). 

Sólarhringsúrkomumet ágústmánaðar voru auk þess slegin í Miðfjarðarnesi, á Auðnum í Öxnadal og í Lerkihlíð í Fnjóskadal. 

Nú má líka telja víst að ágústúrkomumet (heildarmagn mánðaðarins) verða slegin á nokkrum stöðvum, úrkoman í Litlu-Ávík og á Sauðanesvita er nú langt ofan við það sem mest hefur mælst áður sömu ágústdaga - og reyndar er hún meiri en mælst hefur í nokkrum mánuði öðrum. Líklega verður einnig sett ágústmet á Ásbjarnarstöðum á Vatnsnesi, á Hánefsstöðum í Seyðisfirði, á Skjaldþingsstöðum og í Miðfjarðarnesi. Fáeinar stöðvar til viðbótar eru nærri meti - en ekki enn alveg útséð um hvort af slíku verður.

Þegar þetta er skrifað (seint á föstudagskvöldi 28. ágúst) eru ekki allar mælingar komnar í hús - víða er aðeins mælt einu sinni á sólarhring, kl. 9 að morgni. Ritstjórinn þarf líka að líta betur á sjálfvirkar úrkomumælingar til að geta skorið úr um hvort þar sé um met að ræða. Vonandi gefst tími til þess þegar hrinunni linnir. 


Óvenjuhlýr dagur á höfuðborgarsvæðinu (og víðar)

Víða var mjög hlýtt í dag (þriðjudag 25. ágúst), ekki síst á höfuðborgarsvæðinu, og komst hiti á mönnuðu stöðinni í Reykjavík í 20,7 stig. Allar tölur yfir 20 stigum teljast til tíðinda á þeim stað og gerðist það síðast fyrir 2 árum, 27. júlí 2013 að hitinn náði slíkum hæðum. Þá mældist hitinn 20,2 stig. Fyrir þremur árum, 16. ágúst 2012 komst hitinn í 21,3 stig. 

Hiti dagsins er auðvitað dægurmet, fyrra met þess 25. var 17,1 stig, sett 1945. Gamla metinu var sum sé „rústað“. Þótt 20 stigin séu sjaldséð í Reykjavík verða þau beinlínis að teljast sárasjaldgæf eftir 20. ágúst. Fyrir utan daginn í dag hefur hiti aðeins tvisvar mælst meiri en 20 stig í Reykjavík svo seint að sumri (við staðalaðstæður). Það var 31. ágúst og 3. september 1939. Við verðum eiginlega að telja það tilvik sem eitt - það tilheyrir sömu hitabylgjunni. Dagarnir 31. ágúst, 1., 2. og 3. september 1939 eiga allir dægurmet sinna almanaksbræðra - og reyndar 6., 7. og 9. september sama ár líka. 

Þess má geta að Rasmus Lievog stjörnuathugunarmeistari í Lambhúsum mældi 23,2 stiga hita þar 27. ágúst hið illræmda ár 1783 og 21,3 stig þann 24. sama mánaðar. Jón Þorsteinsson mældi 20 stiga hita við Nesstofu á Seltjarnarnesi 22. og 23. ágúst hitasumarið 1829. Þeir trúa sem vilja. 

Svo er spurning hvað gerist með sólarhringsmeðalhitann í dag - hann verður mjög hár - á metslóðum og e.t.v. verður lágmarkshiti komandi nætur líka á metslóðum. Í morgun sýndi lágmarksmælirinn í Reykjavík ekki nema 10,5 stig - það var frekar svalt í rigningunni í gærkveldi, en spurning er um komandi nótt, hversu lágt lágmarkið fer. 

Sjálfvirku stöðvarnar hitta hins vegar vel í þetta hitaskot. Það byrjaði nefnilega fyrir miðnætti og þegar þetta er skrifað (kl. 21 að kvöldi þriðjudags) stendur sólarhringslágmarkshitinn á stöðinni á veðurstofutúni í 15,0 stigum - rétt neðan stöðvarmetsins, sem er 15,3 stig, sett í hitabylgjunni miklu í ágúst 2004. Reyndar er hiti nú ört lækkandi. En gamalt hámarkslágmarksmet (já - svona) mönnuðu stöðvarinnar er ekki í hættu - aðfaranótt 31. júlí 1980 fór hitinn í Reykjavík lægst í 18,2 stig. 

Hungurdiskar fylgjast með hita á 11 sjálfvirkum stöðvum á höfuðborgarsvæðinu. Í dag fór hiti í 20 stig eða meira á 9 þeirra, öllum nema Hólmsheiði (19,9 stig) og Sandskeiði (18,6 stig). Á þessum stöðvum fór hitinn hæst í 21,9 stig í Straumsvík - en óvenjulegt er að sú stöð státi hæsta hita höfuðborgarsvæðisins að sumarlagi. Á Reykjavíkurflugvelli mældist hitinn hæstur 21,6 stig.

Hefðbundið uppgjör landshita birtist vonandi að venju á fjasbókarsíðu hungurdiska síðar í kvöld eða nótt. 

Þótt morgundagurinn (miðvikudagur 26.) skili vart jafnháum tölum og dagurinn í dag gæti hiti á höfuðborgarsvæðinu samt orðið tiltölulega hár. Hámarksdægurmet Reykjavíkur 26. ágúst er 17,6 stig - og ekki alveg vonlaust að það geti fallið. Það er frá 1899. 

Viðbót eftir miðnætti:

Lágmarkshiti sólarhringsins á sjálfvirku stöðinni á veðurstofutúni 25. ágúst reyndist 14,3 stig. Sólarhringslágmarkshiti hefur aðeins tvisvar verið hærri þar, 11. og 12. ágúst árið 2004, (15,3 og 14,4 stig). Einu sinni hefur sólarhringslágmarkið verið jafnhátt og nú, það var 14. ágúst 1997, en stöðin byrjaði samfelldar mælingar á því ári. Síðan eru 0,9 stig niður í töluna í 5. sæti, 13,4 stig sem mældust 13. september 2002. 

Sólarhringsmeðalhiti mönnuðu stöðvarinnar reiknaðist 17,0 stig og hefur ellefu sinnum reiknast hærri frá og með 1942 að telja. 


Austan- og síðan norðaustanátt

Hlýtt loft er nú (seint á mánudagskvöldi 24. ágúst) er nú yfir landinu. Ekki er þó um nein afbrigðileg hlýindi að ræða - en samt með því hlýjasta í sumar. Í dag fór hiti á sjálfvirku stöðinni á Mánárbakka í 22,3 stig - og er það hæsti hiti sem mælst hefur á landinu öllu í sumar. 

Þetta hlýja loft kemur úr austri - angi af miklum hlýjum hól eða hæð sem setið hefur um hríð yfir Skandinavíu. Þessi hóll er nú heldur að trosna í sundur - og heldur verður ánægjan skammvinn hér á landi - en er á meðan er.

Kortið sýnir stöðuna í 500 hPa-fletinum á morgun, þriðjudaginn 25. ágúst - í boði evrópureiknimiðstöðvarinnar. Jafnhæðarlínur eru heildregnar - af þeim ráðum við vindátt og vindstefnu, en þykktin er sýnd í lit. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Litakvarðinn skýrist sé myndin stækkuð.

w-blogg250815a

Mikið lægðasvæði er sunnan við land og austanáttin norðan við það ber til okkar hlýja loftið. Þykktin yfir landinu er meiri en 5500 metrar - og á þessum árstíma er slíkt almenn ávísun á að hiti komist einhvers staðar á landinu yfir 20 stig - en til þess þarf vindur að blása af landi, og helst þarf líka að vera sólskin. 

Við sjáum að lægðardrag teygir sig til norðausturs frá meginlægðinni - um Skotland. Þetta lægðardrag er á leið til norðvesturs og því fylgir mjög rakt loft sem mun um síðir ná til okkar - og jafnframt mun lægðardragið snúa áttinni meira til norðausturs. 

Staðan á miðvikudaginn sést á kortinu hér fyrir neðan - þetta er hefðbundið sjávarmálskort með jafnþrýstilínum og úrkomusvæðum. Einnig má sjá hita í 850 hPa-fletinum markaðan með strikalínum.

w-blogg250815b

Hér er úrkomusvæði komið upp að Norðausturlandi - sýnist vera býsna bústið. Vindur virðist vera stríður norðan og vestan lægðasvæðisins. Hér er kalda loftsins norður undan ekki farið að gæta - það kemur þegar vindur snýst meira til norðausturs - á fimmtudag og föstudag. 

Á kortinu má sjá mikinn hæðarhrygg teygja sig yfir mestallt kortið vestanvert - alveg frá Baffinsflóa og suður til Nýfundnalands. Þessi hæðarhryggur er á leið til austurs og honum fylgir líka nokkuð hlýtt loft - sem gæti komist hingað um helgina - eða upp úr henni. Kuldakastið - ef yfirleitt úr því verður - stendur því stutt. Satt best að segja yrði nokkur tilbreyting að fá sæmilega hlýtt loft úr vestri - kannski að veðurbreyting verði á höfuðdaginn í ár?

Kortið hér að neðan er spá um veður þann dag (laugardag 29. ágúst).

w-blogg250815c

Kalda loftið (ekki svo mjög kalt þó) er yfir landinu - en hlýrra loft úr vestri mjakast í átt til landsins. 


Skammgóður vermir?

Nú virðist hlýrra loft stefna til okkar úr austri - þess gætir strax á morgun (sunnudag 23. ágúst) hátt í lofti, við veðrahvörfin - kannski sjást einhver háský - en ætti að hafa náð niður í flestar sveitir á mánudaginn. Að vísu getur verið að það fljóti alveg ofan á sjávarlofti norðan, austan og sunnan við land. - Svo er nokkur úrkoma á undan - og hún kælir. 

Kortið hér að neðan sýnir stöðuna um hádegi á mánudag. Það er úr ranni evrópureiknimiðstöðvarinnar, heildregnar línur sýna þykktina, en litir hita í 850 hPa-fletinum - en hann er á mánudag í um 1400 metra hæð.

w-blogg230815a

Það er 5540 metra jafnþykktarlínan sem liggur yfir miðju landi - frá suðri til norðurs. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs og hefur varla orðið öllu meiri í sumar. Talsvert hlýrra loft er austur við Noreg - en það kemst ekki hingað. 

Útlit er nú fyrir að allstór hluti landsins muni njóta hlýinda á þriðjudag og miðvikudag. Bjartsýnar spár gera ráð fyrir því að hiti muni sums staðar komast yfir 20 stig - slíkt væri vel þegið. En við skulum samt bíða með að fagna árangri áður en honum hefur verið náð - það kann aldrei góðri lukku að stýra.

Svo er hitt að kalda loftið í norðurhöfum gæti gripið til mótaðgerða - reiknimiðstöðvar telja slíkt líklegt. Næsta kort sýnir spá um vind í 100 metra hæð um hádegi á fimmtudag, 27. ágúst. 

w-blogg230815c

Örvar sýna vindstefnu, en litir vindhraða. Hér eru komin upp mikil átök á Grænlandssundi - þar er kalt loft að þrengja sér suður um - mikilli úrkomu er spáð norðanlands í þessu átakaveðri - en enn er langt í það og gott rými fyrir vitleysur.

Hljóðið er þannig í dag að síðan nái kuldinn aftur undirtökunum og ryðjist suður yfir landið - hér að neðan má sjá sunnudagsspána.

w-blogg230815b

Á fyrra hitakortinu var 8 stiga hiti í 850 hPa yfir landinu, hér má sjá -8 stiga frost. - Mikil umskipti ef rétt reynast. Við förum þó ekkert að reikna með því að sinni að þessi spá rætist. 

Svo er höfuðdagurinn á laugardag - um það leyti verða oft breytingar á veðurlagi á norðurhveli - lægðin í heiðhvolfinu fer að láta á sér kræla eftir sumarhvíldina og kuldapollar heimskautaauðnanna fara að taka höndum saman. Töluverðum óróa er spáð um mestallar norðurslóðir næstu vikuna - 


Margt þarf að ganga upp

Nú er meira hlýindahljóð í reiknimiðstöðvum heldur en verið hefur lengst af í sumar. Ekki eru þær samt á einu máli - og margt þarf að ganga upp til af hlýrra veðri verði. 

Við lítum fyrst á stöðuna síðdegis á laugardag - um aðalatriði hennar er samkomulag (aldrei eru allir sammála um smáatriði).

w-blogg210815a

Kortið sýnir sjávarmálsþrýsting, úrkomu og hita í 850 hPa-fletinum. Víðáttumikil lægð er að grynnast skammt fyrir suðvestan land og yfir landinu. Henni fylgir skúraveður eða nokkuð samfelld rigning víða - eins og títt er í svölu lofti. Svalloftið teygir sig talsvert suður í haf (blá ör) - til móts við nokkuð krappa lægð sem er á leið til austurs í átt til Bretlands (fjólublá ör). Yfir Norðursjó er hins vegar mjög hlýtt loft (rauð ör bendir á það). Það er þetta hlýja loft sem kemst að minnsta kosti áleiðis til landsins eftir helgi.

Til þess að það komist alla leið þarf kuldinn að hörfa hóflega til suðurs og lægðin nýja að hitta í að þrýsta á framsókn hlýja loftsins - ef hún grípur það ekki fara hlýindin til norðurs og síðan norðaustur um Norður-Noreg. Ef hún er hins vegar of ágeng grípur hún kalda loftið vestan við sig líka - og snýr því í kringum sig - og þá um síðir til okkar - þannig að hlýja loftið færi rétt hjá Austurlandi - en kæmist ekki hingað heldur. 

Spár eru nú (á fimmtudagskvöldi 20. ágúst) sæmilega sammála um að möguleikar á einum eða tveimur sæmilega hlýjum dögum séu nokkuð góðir. - En svo er allt í ósamkomulagi. Veðurreyndin hefur verið þannig í sumar að líkur á áframhaldandi hlýindum verða að teljast litlar - kuldinn hefur alltaf haft vinninginn. 

En við skulum samt líta á spárnar fyrir fimmtudag í næstu viku (27. ágúst) - en höfum í huga að sjö daga spár eru sjaldan réttar - og oftast ekki einu sinni nálægt því.

Fyrst er háupplausnarútgáfa evrópureiknimiðstöðvarinnar kl. 18 þennan dag. Það er 500 hPa-flöturinn (heildregnar línur) og þykktin (litafletir).

w-blogg210815b

Þetta lítur nokkuð vel út - að vísu rignir austanlands - en góð hlýindi eru annars staðar. Hlýtt er við Ísland - en heimskautakuldapollur við Norður-Grænland.

Bandaríska veðurstofan er á öðru máli:

w-blogg210815c

Hér er kalda loftið mun ágengara. Mjög mikill þykktarbratti er fyrir norðan land, undir mjög hægum vindi í 500 hPa-fletinum. Þeir sem hafa næmt auga geta séð að hér er verið að spá mjög slæmu og versnandi norðaustanhvassviðri - leiðindastaða sem við vonum að rætist alls ekki. 

Að lokum lítum við á kort sem ekki hefur sést á hungurdiskum áður - en sýnir engu að síður 500 hPa hæð og þykkt á sama tíma og kortin hér að ofan. Þetta er úr klasaspá evrópureiknimiðstöðvarinnar. Reiknaðar eru 50 veðurspár byggðar á nánast sömu greiningu - en í lítillega lægri upplausn heldur en meginspáin er. Spárnar 50 mynda klasa. Fyrstu einn til tvo daga spátímabilsins eru einstakar spár mjög líkar - en síðan fer þær að greina meir og meir að - mismikið þó hverju sinni. Eftir rúma viku eru þær nánast út og suður - en meirihlutinn fylgir kannski óljósri línu sem hægt er að byggja á. 

w-blogg210815d

Heildregnu línurnar sýna hér klasameðaltal 500 hPa-hæðarinnar, en litir meðalþykkt klasans. Háloftalægðin er hér á svipuðum slóðum og á hinum kortunum - en meðalþykktin yfir landinu er minni en á háupplausnarspá reiknimiðstöðvarinnar - hlýindahugmynd hennar tapar í lýðræðislegu kjöri - kortið er (því miður) nær hugmynd bandarísku veðurstofunnar - en hugmyndin um alvarlegt norðaustanillviðri þynnist líka út - en er samt trúlega uppi á borðinu í hluta klasans. 

Á kortinu eru einnig daufar strikalínur. Þær sýna breytileika hæðarspárinnar innan klasans. Til hægðarauka hafa nokkur B verið sett inn á kortið þar sem breytileikinn er mestur. Kannski er veikleiki spárinnar mestur á þeim slóðum. Sýnd eru fjögur breytileikahámörk. Það mesta er við Svalbarða - og sýnir að óvissa er mjög mikil á þeim slóðum - þarna er kalda heimskautaloftið á ferð - einhver kuldapollur sem reikningar eru greinilega mjög ósammála um hvað gerir. 

Annað „óvissuhámark“ er yfir Suður-Grænlandi. Þar var mjög ákveðinn hæðarhryggur í háupplausnarspá reiknimiðstöðvarinnar - líka í bandarísku spánni - en þar er hann töluvert öðru vísi í laginu - einhver óvissa þar á ferð. Þriðja hámarkið er austan Skotlands - og það fjórða langt suður í hafi. Þau eru bæði tengd óvissu í staðsetningu og þróun einstakra lægða sem koma inn í háloftalægðina stóru. 

Báðar reiknimiðstöðvar reikna klasaspár rúmar tvær vikur fram í tímann oftar en einu sinni á dag - tvisvar í viku heldur evrópureiknimiðstöðin áfram í fjórar vikur og mánaðarlega er reiknað sex mánuði fram í tímann - og enn lengra - en allir þeir langreikningar eru gerðir í talsvert minni upplausn heldur en sú klasaspá sem hér hefur verið fjallað um. 


Austanblær (?)

Lágþrýstisvæði er að grafa um sig fyrir sunnan land - og mun ráða veðri hér á landi næstu viku - í ýmsum myndum - kannski kemst það líka um tíma inn á land. - En því fylgir heldur hlýrra loft en verið hefur ríkjandi lengst af í sumar. Alvöruhlýindi eru þó varla á teikniborðinu í bili - en þykir okkur ekki flest yfir 15 stigum bara harla gott í sumar?

Allmargir landshlutar gætu fengið meir en 15 stig á morgun (miðvikudag 19. ágúst) - ekki alveg vonlaust með 20 stigin - alla vega segir evrópureiknimiðstöðin mættishitann í 850 hPa fara yfir 20 stig á miðvikudagskvöld - en svo kemur kaldara loft úr suðri og flæmir það hlýjasta á brott.

En lítum á spá reiknimiðstöðvarinnar um ástandið í 925 hPa-fletinum kl. 21 á miðvikudagskvöld.

w-blogg190815a

Heildregnu línurnar sýna hæð flatarins í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Það er 680 metra línan sem liggur um Reykjavík. Hefðbundnar vindörvar sýna vindátt og vindhraða - það er nokkuð ákveðin austanátt. Litafletir sýna hita - kvarðinn batnar sé kortið stækkað - og sé það gert má (með góðum vilja) sjá töluna 12,8 stig nærri Reykjavík - hátt í Esjuhlíðum. - Ef við svífum þaðan til sjávarmáls - yrði loftið - óblandað - tæpum 7 stigum hlýrra, þ.e. rétt tæp 20 stig. - En hér er klukkan orðin 21 - og, og, og ... 

Úrkomusvæði eru ekki langt undan - en eiga ekki að ná til landsins fyrr en um nóttina - nema hvað úrkomu er auðvitað spáð áveðurs - á Suðausturlandi í þessu tilviki.

Kortið að neðan gildir á sama tíma.

w-blogg190815b

Úrkomusvæðið bústna fyrir sunnan land er á hreyfingu norður og á að fara yfir landið aðfaranótt fimmtudags og á fimmtudaginn - hann er því ekki eins hlýindalegur - auk þess sem við sáum á hinu kortinu að heldur kaldara loft er þar sunnanvið. 

Ámóta úrkomusvæði og lægðir bíða síðan í röðum - snúast í kringum háloftalægðina miklu sem fastir lesendur sáu á korti í pistli gærdagsins - kannski við fáum einhverja hlýindamola? 


Heldur hlýrra - en blautara(?)

Nú er útlit fyrir ívið hlýrri tíð en verið hefur - en samt er ekki hægt að tala um eindregna hlýindaspá. Kortið hér að neðan sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins og vik hennar frá meðallagi næstu tíu daga - að mati evrópureiknimiðstöðvarinnar. 

w-blogg180815a

Spáin gerir ráð fyrir eindreginni suðaustanátt í háloftum yfir landinu. Sú átt er að jafnaði hlý, en að þessu sinni er allt í eindreginni lægðasveigju. - Háloftalægðin er í grunninn af norðlægum uppruna - suðaustanloftið áður komið úr vestri og norðvestri sunnan Grænlands. - En ekki er þó langt í mun hlýrra loft - sem Skandinavíubúar hafa baðað sig í undanfarna daga - og gera víst áfram - sé að marka þessa spá.

En þetta er meðalkort sem gildir í tíu daga og e.t.v. er rými fyrir einhver hlýindaskot úr austri einhvern daginn? Þeirra nyti þá helst suðvestanlands - og kannski inn til landsins á Norðurlandi líka?

En satt best að segja er þetta mjög bleytuleg spá - sérstaklega um landið austanvert. Sýndarúrkoma líkansins reiknast á þessum tíu dögum fimmfalt meðaltal á Austur- og Suðausturlandi - og meira að segja á hún að vera vel ofan meðallags á landinu vestanverðu líka - en spár um úrkomumagn eru enn lausari í rásinni heldur en spár um vinda og hita. 


Meinlítill svali

Lægðin grynnist - og er full af svölu lofti. Kortið að neðan sýnir það vel.

w-blogg150815a

Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar - af þeim má ráða vindátt og vindstyrk. Nokkur sunnanstrengur er austan við land og færir (sumum) norðmönnum 20 til 27 stiga hita næstu daga. Litirnir sýna þykktina en hún mælir sem kunnugt er hita í neðri hluta veðrahvolfs. Við landið er hún hér á bilinu 5340 til 5400 metrar. Það er í kaldara lagi - en þó hættulítið nema hvað næturfrost liggur í leyni í björtu og lygnu veðri inni í sveitum.

Loft í kuldapollum er gjarnan óstöðugt - skúraský ríkja á daginn - en flöt flákaský í mörgum lögum mishátt á lofti - afkomendur skúranna - einkenna nóttina. 

Lægðin er á leið norður - og verður úr sögunni hér á landi á þriðjudag. Næsta lægðarbylgja er á kortinu yfir Labrador og liggur leið hennar hingað - kannski hún skafi upp eitthvað hlýrra loft og beini því í átt til okkar um miðja vikuna? Bjartsýni hlýtur það að teljast - en ekki alveg óraunhæf þó.

Kuldapollur - er við Baffinsland - ógnar okkur ekki á næstunni - en við verðum samt að gefa honum gaum - útundan - með öðru auga. 


Lægð að grynnast við landið

Lægðin (óvenju)djúpa er nú farin að grynnast - hún þokast jafnframt til norður, verður yfir landinu eða rétt við það á föstudag (14. ágúst) og laugardag - en reiknimiðstöðvar gera ráð fyrir henni fyrir norðan land á sunnudag. Rætist sú spá gæti orðið heldur kaldranalegt vestanlands um tíma þann dag.

Kortið hér að neðan sýnir uppástungu evrópureiknimiðstöðvarinnar um laugardagssíðdegi.

w-blogg140815a

Lægðarmiðjan er sett við Reykjanes - og einhver úrkoma um mikinn hluta landsins - einna síst þó norðaustanlands sýnist manni. 

Loftið yfir landinu og í nágrenni þess er frekar svalt - hiti í 850 hPa (strikalínurnar sýna hann) er um frostmark og er það um 2 stigum undir meðallagi mánaðarins. - Gríðarlega hlýtt er aftur á móti austur við Noreg - þar er hiti í 850 hPa meiri en 10 stig og hiti gæti þar farið vel yfir 25 stig í sveitum þar sem vindur stendur af landi. En einnig má sjá mikið (þrumu)skúrakerfi yfir Vestur-og Suður-Noregi - þannig að ýmislegt er þarna um að vera.  

En veðrið hér á landi eftir helgi er hulið móðu - en ekki er sérstök ástæða til svartsýni. 


Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 161
  • Sl. sólarhring: 385
  • Sl. viku: 2540
  • Frá upphafi: 2434982

Annað

  • Innlit í dag: 141
  • Innlit sl. viku: 2251
  • Gestir í dag: 135
  • IP-tölur í dag: 133

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband