Óvenjuhlýr dagur á höfuðborgarsvæðinu (og víðar)

Víða var mjög hlýtt í dag (þriðjudag 25. ágúst), ekki síst á höfuðborgarsvæðinu, og komst hiti á mönnuðu stöðinni í Reykjavík í 20,7 stig. Allar tölur yfir 20 stigum teljast til tíðinda á þeim stað og gerðist það síðast fyrir 2 árum, 27. júlí 2013 að hitinn náði slíkum hæðum. Þá mældist hitinn 20,2 stig. Fyrir þremur árum, 16. ágúst 2012 komst hitinn í 21,3 stig. 

Hiti dagsins er auðvitað dægurmet, fyrra met þess 25. var 17,1 stig, sett 1945. Gamla metinu var sum sé „rústað“. Þótt 20 stigin séu sjaldséð í Reykjavík verða þau beinlínis að teljast sárasjaldgæf eftir 20. ágúst. Fyrir utan daginn í dag hefur hiti aðeins tvisvar mælst meiri en 20 stig í Reykjavík svo seint að sumri (við staðalaðstæður). Það var 31. ágúst og 3. september 1939. Við verðum eiginlega að telja það tilvik sem eitt - það tilheyrir sömu hitabylgjunni. Dagarnir 31. ágúst, 1., 2. og 3. september 1939 eiga allir dægurmet sinna almanaksbræðra - og reyndar 6., 7. og 9. september sama ár líka. 

Þess má geta að Rasmus Lievog stjörnuathugunarmeistari í Lambhúsum mældi 23,2 stiga hita þar 27. ágúst hið illræmda ár 1783 og 21,3 stig þann 24. sama mánaðar. Jón Þorsteinsson mældi 20 stiga hita við Nesstofu á Seltjarnarnesi 22. og 23. ágúst hitasumarið 1829. Þeir trúa sem vilja. 

Svo er spurning hvað gerist með sólarhringsmeðalhitann í dag - hann verður mjög hár - á metslóðum og e.t.v. verður lágmarkshiti komandi nætur líka á metslóðum. Í morgun sýndi lágmarksmælirinn í Reykjavík ekki nema 10,5 stig - það var frekar svalt í rigningunni í gærkveldi, en spurning er um komandi nótt, hversu lágt lágmarkið fer. 

Sjálfvirku stöðvarnar hitta hins vegar vel í þetta hitaskot. Það byrjaði nefnilega fyrir miðnætti og þegar þetta er skrifað (kl. 21 að kvöldi þriðjudags) stendur sólarhringslágmarkshitinn á stöðinni á veðurstofutúni í 15,0 stigum - rétt neðan stöðvarmetsins, sem er 15,3 stig, sett í hitabylgjunni miklu í ágúst 2004. Reyndar er hiti nú ört lækkandi. En gamalt hámarkslágmarksmet (já - svona) mönnuðu stöðvarinnar er ekki í hættu - aðfaranótt 31. júlí 1980 fór hitinn í Reykjavík lægst í 18,2 stig. 

Hungurdiskar fylgjast með hita á 11 sjálfvirkum stöðvum á höfuðborgarsvæðinu. Í dag fór hiti í 20 stig eða meira á 9 þeirra, öllum nema Hólmsheiði (19,9 stig) og Sandskeiði (18,6 stig). Á þessum stöðvum fór hitinn hæst í 21,9 stig í Straumsvík - en óvenjulegt er að sú stöð státi hæsta hita höfuðborgarsvæðisins að sumarlagi. Á Reykjavíkurflugvelli mældist hitinn hæstur 21,6 stig.

Hefðbundið uppgjör landshita birtist vonandi að venju á fjasbókarsíðu hungurdiska síðar í kvöld eða nótt. 

Þótt morgundagurinn (miðvikudagur 26.) skili vart jafnháum tölum og dagurinn í dag gæti hiti á höfuðborgarsvæðinu samt orðið tiltölulega hár. Hámarksdægurmet Reykjavíkur 26. ágúst er 17,6 stig - og ekki alveg vonlaust að það geti fallið. Það er frá 1899. 

Viðbót eftir miðnætti:

Lágmarkshiti sólarhringsins á sjálfvirku stöðinni á veðurstofutúni 25. ágúst reyndist 14,3 stig. Sólarhringslágmarkshiti hefur aðeins tvisvar verið hærri þar, 11. og 12. ágúst árið 2004, (15,3 og 14,4 stig). Einu sinni hefur sólarhringslágmarkið verið jafnhátt og nú, það var 14. ágúst 1997, en stöðin byrjaði samfelldar mælingar á því ári. Síðan eru 0,9 stig niður í töluna í 5. sæti, 13,4 stig sem mældust 13. september 2002. 

Sólarhringsmeðalhiti mönnuðu stöðvarinnar reiknaðist 17,0 stig og hefur ellefu sinnum reiknast hærri frá og með 1942 að telja. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

 • w-blogg160424b
 • w-blogg160424a
 • w-blogg120424c
 • w-blogg120424b
 • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

 • Í dag (17.4.): 434
 • Sl. sólarhring: 618
 • Sl. viku: 2527
 • Frá upphafi: 2348394

Annað

 • Innlit í dag: 387
 • Innlit sl. viku: 2220
 • Gestir í dag: 371
 • IP-tölur í dag: 355

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband