Bloggfærslur mánaðarins, október 2015
26.10.2015 | 01:42
Ekki eins kalt og spáð var - verður eins hlýtt og spáð er?
Þótt kuldinn um helgina (sunnudagur 25. október) hafi verið heldur leiðinlegur - og ritstjórinn lent í sínum fyrsta snjómokstri á haustinu - telst hann samt ekki til neinna tíðinda. Spáð hafði verið að þykktin yfir miðju landi færi niður í 5120 metra - eða neðar - en svo lág tala telst óvenjuleg í október. Niðurstaðan varð um 60 metrum meiri - um 5180 metrar - en það er næstum algengt.
Hvað það var nákvæmlega sem spárnar misreiknuðu sig á er ekki gott að segja. Kannski var hlýja loftið suðausturundan ágengara, kannski var upphitun sjávar vanmetin?
En þykktarkort evrópureiknimiðstöðvarinnar leit svona út síðdegis (sunnudag 25. október).
Heildregnu línurnar sýna þykktina, en litir hita í 850 hPa-fletinum. - Jú, það er ekkert langt í mun kaldara loft - en það munar um hvern metratuginn. Hlýja loftið fyrir suðaustan land er í augnablikinu á leið til norðausturs - en nýr skammtur sækir síðan að síðdegis á mánudag - beint úr suðri.
Ef trúa má reikningum (sem við vitum að er ekki alltaf hægt) hlýnar verulega. Um hádegi á miðvikudag (28. október) verður ástandið - að mati reiknimiðstöðvarinnar - eins og sjá má á kortinu hér að neðan.
Hér hefur hlýnað um 300 metra (15 stig) frá sunnudegi - og hitinn í 850 hPa hækkað ámóta. Austanstrekkingur á að fylgja með í kaupbæti og eykur hann mjög líkur á að við hér niðri í mannheimum njótum - en háloftaylur er aldrei gefin veiði. - Sé þessi spá rétt fellur fjöldi dægurhámarka á veðurstöðvum landsins. Austanáttin er ekki mjög gæf á landsdægurhámörk - ólíklegt er að við náum slíku - jafnvel þótt þessi spá ræstist. Í Reykjavík er allt yfir 11 stigum óvenjulegt síðast í október - og yfir 12 stigum mjög óvenjulegt. Mánaðarhámörk einstakra stöðva eru varla í hættu því þau falla yfirleitt aldrei svo seint í haustmánuði.
En - kannski ofmetur reiknimiðstöðin hlýindin - rétt eins kuldakastið. Bandaríska veðurstofan var nokkuð sammála þeirri evrópsku um kuldann - og er líka sammála um hlýindin - skyldu þær fara aftur saman út af sporinu?
23.10.2015 | 01:34
Hiti íslenska sumarsins 2015
Nú mun óhætt að líta á meðalhita sumarsins 2015, frá fyrsta sumardegi að telja og bera hann saman við fyrri hita fyrri sumra.
Skemmst er frá því að segja að í heild var sumarið heldur kalt miðað við það sem verið hefur að undanförnu - og meðaltalið er lítillega lægra heldur en meðaltal alls tímabilsins sem sýnt er á myndunum hér að neðan.
Fyrri myndin sýnir meðalhita í Reykjavík 1949 til 2015.
Talan er 8,2 stig í Reykjavík, 0,2 stigum undir meðallagi allra sumranna sem myndin sýnir. Þetta hefði þó þótt góður hiti á árunum fyrir aldamót. Sumarið 2013 var lítillega kaldara en nú - en annars þarf að fara aftur til 1995 til að finna ámóta. Ástæðu svalans í ár er að leita í hinni stöðugu norðanátt sem ríkti langt fram eftir, en síðan hefur hiti verið þokkalega hár - með þó vaxandi bleytu.
Á Akureyri er hitinn líka undir meðallagi tímabilsins alls - þrátt fyrir hlýindi síðari hlutann. En samt er nærri því eins kalt og var í kringum 1980 - og flest hafísárin. Sveiflurnar eru áberandi grófgerðari á Akureyri heldur en í Reykjavík - en lóðrétti kvarðinn á myndunum er sá sami.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 01:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.10.2015 | 02:12
Kalt loft norðurundan
Kalt loft er nú í biðstöðu við Norður-Grænland. Það er reyndar ekkert sérstakur asi á því - það bíður í rólegheitum eftir því að tvær lægðir fari hjá - en síðan á það að breiða úr sér til suðurs - og yfir landið.
En asi er á lægðunum. - Kortið hér að neðan gildir síðdegis á miðvikudag (21. október)
Lægðin sem fór yfir landið í dag (þriðjudag 20. október) er þarna komin til Noregs. Lægðin fyrir sunnan land hreyfist hratt til austurs - án þess að gera mikið hér - og verður komin austur til Svíþjóðar síðdegis á fimmtudag - eins og rauða örin á að sýna. Lægðin fyrir sunnan Grænland verður á fimmtudaginn hins vegar komin langleiðina til okkar - og á að fara yfir landið á föstudaginn. Það er svo í kjölfar hennar sem kalda loftið fær loksins tækifæri til að gera sig gildandi.
Kuldinn sést vel á þessu korti, við sjáum -15 stiga jafnhitalínu 850 hPa-flatarins við Norðaustur-Grænland. Hún á að komast langleiðina til Íslands á laugardaginn.
Seinna kort þessa pistils sýnir ástandið í 500 hPa-fletinum á sunnudagsmorgun - eins og evrópureiknimiðstöðin metur það.
Jafnhæðarlínur eru heildregnar - það er norðvestlæg átt uppi í 5 km hæð. Litir sýna þykktina, en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Loftið yfir landinu er á þykktarbilinu 5100 til 5160 metrar. Það táknar að frost mun mælast á öllum veðurstöðvum landsins - sé þykktarspáin rétt - og að víða muni verða frost allan sólarhringinn.
Það snjóar sjálfsagt fyrir norðan - eins og venjulega í norðanátt - en óljósara er með úrkomu um landið sunnanvert - og allt of snemmt að segja nokkuð um það á þessum vettvangi - hlustið frekar á Veðurstofuna.
En það er rétt að fylgjast með kuldanum - ritstjóri hungurdiska gefur þykktinni yfir miðju landinu sérstaklega gaum og veit því að gildi undir 5120 metrum eru ekki algeng í október. Sé miðað við hádegi hefur þykkt í þeim mánuði ekki farið svo neðarlega síðan 1996 - og aðeins þrisvar að auki á þeim tíma sem áreiðanlegar mælingar ná til (frá 1949). Sé tekið mark á bandarísku endurgreiningunni gerðist það hins vegar sjö sinnum á tímabilinu 1926 til 1948 - en það var sem kunnugt er sérstakt hlýindaskeið hér á landi.
En þessi lága tala, 5120 metrar, er enn bara spá - .
19.10.2015 | 02:42
Bland (kannski leynist þar eitthvað af vetri)
Nú virðist kólna nokkuð og vetur gæti meira að segja sýnt sig. Háþrýstisvæðið sem fært hefur okkur hlýindin undanfarna daga er á undanhaldi og lægðir verða nærgöngular í vikunni.
Kortið hér að neðan sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um stöðuna síðdegis á þriðjudag (20. október).
Þá á myndarleg lægð að vera skammt fyrir suðvestan land á hraðri leið til austnorðausturs. Í kjölfar hennar fylgir skammvinn norðanátt og kannski eitthvað hvítt nyrðra. En suðvestur í hafi er önnur lægð. Sú hreyfist hratt til norðausturs og er því í framhaldinu spáð að hún fari fyrir sunnan land. - Slíkt myndi hnykkja aðeins á norðanáttinni. Yfir Labrador er síðan enn ein lægð og á hún - að sögn - að vera komin að landinu á föstudag.
Þótt engin hlýindi fylgi lægðunum þremur - kemst veturinn þó varla heiðarlega að fyrr en þær eru allar komnar hjá - og þá er kominn laugardagur - sem er einmitt fyrsti vetrardagur íslenska tímatalsins gamla - gormánuður hefst.
En þetta er allt í framtíðinni - spár taka mjög misdjúpt í árinni með fyrstu lægðirnar tvær. Þær gætu orðið meinlitlar - en rétt er samt að gefa þeim gaum og þeir sem hyggja á ferðalög milli landshluta - á hálendinu eða sinna sjó ættu að hafa spár Veðurstofunnar við höndina.
Þriðja lægðin er mun óljósari í spánum - en þó er nú sem stendur furðugott samkomulag um kaldan laugardag.
En lítum líka á norðurhvelskort reiknimiðstöðvarinnar á sama tíma (þriðjudag kl.18).
Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, því þéttari sem þær eru því meiri er vindurinn í fletinum. Litir sýna þykktina, en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Mikill þykktarbratti er við Ísland, stutt á milli bláu og gulu litanna.
Lægðin sem verður suðvestur í hafi á þriðjudaginn sést hér sem skarpt lægðardrag nokkuð austur af Nýfundnalandi - með mjög hlýtt loft innanborðs - en það hlýjasta á að fara alveg fyrir sunnan land. Þriðja lægðin - sú yfir Labrador er allt öðru vísu - breið og mikil - og hægfara - og á hér eftir að ná í hlýtt loft sér til styrktar - aðalspurning síðari hluta vikurnar er sú hvort hún nær í eitthvað yfirleitt. Í kjölfar hennar kemur e.t.v. lægðardrag sem á kortinu er við Norðvestur-Grænland. Þar er blái liturinn orðinn ansi dökkur - þykktin komin niður fyrir 4980 metra - það er alvöruvetur.
Það er þetta lægðardrag sem reikniniðstöðvar draga suður á Grænlandshaf á laugardaginn - en ef af slíku yrði hefur það hlýnað um 150 til 200 metra á leiðinni - en verður samt það kalt að getur talist til vetrarins.
Það er auðvitað óttalegt hringl í spánum svona marga daga fram í tímann þannig að kuldinn getur varla talist fullvís.
En vikan verður blönduð - snjór sést í fjöllum og á stöku stað á láglendi um skamma hríð í vikunni - tíðni næturfrosta vex. - Æ.
17.10.2015 | 02:02
Lítið (?) frost til þessa
Lesandi með augun úti (eða hjá sér(?)) tók eftir því að lægsti hiti haustsins til þessa á Bretlandseyjum er -3,8 stig - og að breska veðurstofan nefndi möguleika á -6 stigum í Skotlandi í nótt (aðfaranótt 17. október). Í framhaldi spurði sá sami um lægsta hita haustsins til þessa hér á landi. Auðvelt er að svara því: -6,6 stig sem mældust við Sátu að morgni þess 12. október - og í byggð er lægsta talan -5,2 stig sem mældust á Fáskrúðsfirði að morgni þess 3. október.
En er frostið hér á landi ekki búið að mælast meira - svona yfirleitt - þegar komið er fram yfir miðjan október?
Jú, þetta fer að verða óvenjulegt. Lítum á málið: Ef við byrjum á sjálfvirkum stöðvum í byggð þurfum við að fara aftur til ársins 2006 til að finna jafnlítið frost á sama tíma hausts - þá var lægsta talan sú sama og nú, -5,2 stig. Nánast sama var haustið 2002, -5,3 stig.
Sé hálendið tekið með er það talan -6,6 stig sem við miðum við. Haustið 2002 hafði mesta frost landsins á sama tíma mælst -6,3 stig.
Mannaða stöðvakerfið er gisnara (ósamanburðarhæft í svona keppni eftir 2012) - en samanburður á tímabilinu 1961 til 2012 er sæmilega öruggur - ef við miðum við stöðvar í byggð eingöngu. Haustið 2006 var mesta frost sem mælst hafði til 16. október -5,1 stig en aðeins -3,4 stig haustið 2002. Árið áður var mesta frostið á sama tíma -5,1 stig. Svo þarf að fara allt aftur til haustsins 1961 til að finna hærri tölu, en þá hafði mesta frost á landinu til og með 16. október mælst -4,3 stig.
En þetta er staðan nú - aðeins þarf eina kalda nótt til að breyta óvenjulegu í venjulegt -
Það gerðist síðast 2013 að byggðir landsins sluppu við tíu stiga frost til loka október - en þar áður 1977. Það er mjög á móti líkum að þetta haust sleppi við -10 stig í byggð alveg út mánuðinn - að mati ritstjórans ( - en raunveruleikatengsl hans eru stundum í lagi).
16.10.2015 | 02:27
Hlýtt loft yfir landinu föstudag og laugardag
Mjög hlýtt loft verður yfir landinu á föstudag (16. október) og líka lengst af á laugardag. Þetta má sjá á spákorti evrópureiknimiðstöðvarinnar hér að neðan.
Kortið gildir kl. 18 á föstudag. Jafnþykktarlínur eru heildregnar, þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs - því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Hámarksþykktin er yfir 5540 metrum við Austfirði. Það er alltaf spurning hversu mjög þessa hita gæti niður í mannheimum. Það fer eftir vindi og stöðugleika. Litirnir á myndinni sýna hita í 850 hPa-fletinum - sem verður um þessar mundir í um 1400 metra hæð. Hann er nærri 10 stig þar sem hann er mestur við Austfirði. Mættishitinn í 850 hPa - en við notum hann oft sem einskonar þak á mögulegan hita verður vel yfir 20 stigum.
Landsdægurmet 16. október er 18,2 stig - og orðið býsna gamalt, frá Teigarhorni 1934. Daginn eftir, þann 17. er ríkjandi dægurmet ekki nema 17,0 stig, sett á Hólum í Hornafirði 1978. Með heppni gætu þessi met fallið - en er auðvitað ekki víst - og við verðum svosem ekki fyrir neinum sérstökum vonbrigðum þó það gerist ekki.
Seint á laugardag fer veður kólnandi - fer alla vega langt úr seilingu við landsdægurhitamet. Svo eru sumar spár að gera ráð fyrir meiri kólnun fyrir miðja næstu viku - en jafnframt er því spáð að landið verði í lægðabraut.
13.10.2015 | 02:06
Hlýindi framundan (norðaustanlands)?
Hiti á landinu hefur verið ofan meðallags áranna 1961 til 1990 um land allt það sem af er mánuði og ofan meðallags síðustu tíu ára um mikinn hluta þess (þó ekki suðvestanlands). Fremur svalt loft (ekki kalt) verður yfir landinu á miðvikudag, 14. október, en síðan á að hlýna að mun og gera spár fyrir að hiti verði vel yfir meðallagi flesta daga vel fram yfir helgi.
Hlýindin (sem eru enn aðeins sýnd en ekki gefin) sjást vel á kortinu hér að neðan.
Jafnþrýstilínur eru heildregnar og sýna að suðvestanátt á að ríkja yfir landinu næstu tíu daga - að meðaltali. Mikið háþrýstisvæði verður við Bretland en lægðir vestan Grænlands. Á milli þessara veðurkerfa berst hlýtt og rakt loft til landsins. Við sem búum á Suðvesturlandi sitjum þá lengst af í þungbúnu veðri með rigningu með köflum - en íbúar Norður- og Austurlands gætu fengið marga úrvalshaustdaga. Sumar spár (en ekki allar) gera ráð fyrir viðvarandi strekkingsvindi um landið norðvestanvert - jú, og trúlega blæs eitthvað annars staðar stöku daga eða hluta þeirra.
Litirnir sýna hitavik í 850 hPa-fletinum og er meðalvikið yfir Austurlandi meira en 4 stig - það er býsna mikið í 10 daga meðaltali. Eins og sjá má er viðlíka neikvæðu viki spáð yfir Frakklandi.
Þá er spurning hvort einhver landsdægurhitamet falli í þessari syrpu? Það er sennilega fullmikil bjartsýni að búast við því - en í hitabylgjunni fyrir rúmum mánuði féll eitt slíkt.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 02:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.10.2015 | 02:08
Snjóafkoma frá 1. september
Í september voru gerðar ýmsar betrumbætur og uppfærslur á harmonie-spálíkani Veðurstofunnar - vonandi skila þær sér í enn betri spám í vetur. Í eldri gerð líkansins hættu jöklar landsins að bráðna þegar (sýndar-)snjór vetrarins var uppurinn. Eftir uppfærsluna fá jöklarnir nú að bráðna gefi líkanið tilefni til. Hungurdiskar óska líkanteyminu til hamingju með uppfærsluna.
Bolli Pálmason kortagerðarmeistari hefur nú útbúið kort sem sýnir snjóafkomu í líkaninu frá 1. september. Þar má sjá allmikla jöklabráðnun frá þeim tíma - sem við höfum líka frétt af í raunheimum - sem bættri vatnsstöðu virkjanalóna.
Kortið nær til fimmtudags 8. október kl. 18. Á gráu hefur snjór safnast fyrir - (aðallega síðustu daga), á Esjunni er t.d. talan 27 kg á fermetra og 10 í Bláfjöllum (kortið batnar sé það stækkað í vafranum).
Gulir og brúnir litir sýna svæði þar sem snjór hefur bráðnað frá 1.september. Mikið hefur bráðnað á skriðjöklum Vatnajökuls og Mýrdalsjökuls - en efra á jöklunum safnast snjór saman.
Þetta er allt í sýndarheimum - en engu að síður verður gaman að fylgjast með í vetur.
8.10.2015 | 02:36
Vægir umhleypingar?
Lægðin víðáttummikla sem ráðið hefur veðri undanfarna daga grynnist nú ört og ekki að sjá að neitt stórt komi í stað hennar. - En nokkrar smærri lægðir fara þó hjá og vindátt verður sjálfsagt mjög breytileg. - Þótt næturfrost séu ætíð uppi á borðinu um leið og léttir til á þessum árstíma virðist hiti samt í aðalatriðum eiga að haldast nærri meðallagi næstu daga.
Sú er alla vega niðurstaða evrópureiknimiðstöðvarinnar - og sjá má hér að neðan.
Heildregnu línurnar sýna meðalloftþrýsting næstu tíu daga - aðallægðasvæðið vestan Grænlands en lægðardrag yfir Íslandi - landið í lægðabraut. Litir sýna vik hita í 850 hPa-fletinum frá meðallagi áranna 1981 til 2010.
Mikil hlýindi eru í norðurhöfum - eins og oftast að undanförnu. September var sá þriðjihlýjasti á Jan Mayen frá upphafi mælinga þar 1921. Spáin gerir hins vegar ráð fyrir kulda í Evrópu - mjög kalt hefur verið í Rússlandi undanfarna daga og á sá kuldi að leita vestur á bóginn sunnan við mikla hæð yfir Skandinavíu. Sömuleiðis er kalt í norðanátt vestast á þessu korti.
Kortið hér að ofan sýnir niðurstöður háupplausnarspár reiknimiðstöðvarinnar - en hún reiknar líka 50 spár í heldur lægri upplausn tvisvar sinnum á dag, 15 daga inn (?) í framtíðina. Skoðanakönnun meðal þeirra sýnir nú meira fylgi við hlýja flokka en kalda þessa daga.
En hlutirnir eru svosem fljótir að breytast - og veðurspár enn hraðar en veðrið sjálft.
5.10.2015 | 01:42
Víðáttumikil lægð
Næstu daga mun víðáttumikil lægð ráða veðri. Kortið sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar síðdegis á þriðjudag, 6. október.
Áttin er hér suðlæg og hver úrkomubakkinn á fætur öðrum berst upp að landinu - ýmist úr suðaustri (með mikilli bleytu suðaustanlands og á Austfjörðum) - eða úr suðri eða suðvestri (með hráslagaskúrum - eða slydduéljum á Suður- og Vesturlandi).
Þótt þetta sé til þess að gera meinlitið veðurlag finnst ritstjóranum það heldur hráslagalegt og leiðinlegt - en það kann að vera smekksatriði. Loftið sem streymir út á Atlantshaf sunnan Grænlands er mjög kalt, -10 stiga jafnhitalína 850 hPa-flatarins er þar að laumast, og -5 stiga línan teygir sig langt til austurs.
Í þessu veðurlagi gránar stundum að næturlagi - festir þó varla á láglendi nema rétt í morgunsárið - en hálkan er aldrei langt undan.
Örin lengst til vinstri á kortinu bendir á leifar fellibylsins Joaquin sem olli stórtjóni á Bahamaeyjum nú á dögunum og hrelldi mjög ameríska kollega ritstjórans. Reiknimiðstöðvar eru ekki sammála um hvað úr verður síðar í vikunni - kannski ekki neitt - alla vega er það sú skoðun sem er á borðinu einmitt þegar þetta er skrifað (seint á sunnudagskvöldi). En þær góðu miðstöðvar hafa ekki verið í sérlega góðu formi upp á síðkastið.
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.12.): 123
- Sl. sólarhring: 146
- Sl. viku: 958
- Frá upphafi: 2420773
Annað
- Innlit í dag: 114
- Innlit sl. viku: 846
- Gestir í dag: 109
- IP-tölur í dag: 108
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010