Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2013
31.7.2013 | 00:52
Fimm stig í viðbót
Um helgina kólnaði loftið yfir landinu um fimm stig - í kvöld (þriðjudag) og nótt er það að kólna um fimm til viðbótar. Snjóa mun á háfjöllum um landið norðaustanvert aðra nótt. Kortið að neðan gildir kl. 6 að morgni fimmtudags 1. ágúst.
Jafnþykktarlínur eru heildregnar og svartar. Hiti í 850 hPa er sýndur með litum. Kvarðinn sést betur sé myndin stækkuð. Innsta jafnþykktarlínan í kuldapollinum er 5360 metrar. Það er óþægilega lágt, 240 metrum lægra heldur en þykktin var í síðustu viku. Loftið í neðri hluta veðrahvolfs yfir landinu er 12 stigum kaldara en þá var. Auðvitað hlýnar vel í sólinni sunnan undir vegg á daginn en heldur kalt verður að næturlagi. Þar sem er skýjað er dægursveiflan mun minni - en þakka má fyrir 10 stiga hámarkshita fyrir norðan.
En eftir fimmtudaginn mun hitinn eiga að þokast upp á við aftur - en ekki er að sjá hlýindi á næstunni sé að marka spár reiknimiðstöðva.
Þrátt fyrir kólnandi veður tókst nokkrum veðurstöðvum að ná hæsta hita ársins í dag. Skrauthólar og Geldinganes voru þar á meðal ásamt Vestmannaeyjastöðvunum og Þykkvabæ, Stórhöfði komst í 15 stig. Lista má finna í viðhenginu.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 00:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.7.2013 | 01:29
Kólnandi
Eftir hlýindin í síðustu viku hefur kaldara loft nú tekið völdin. Fyrsta kólnunin kom úr suðaustri á aðfaranótt sunnudags og átti þátt í stóru þrumuveðrunum sem gerði báða helgardagana. Nú nálgast aftur á móti talsvert kaldara loft úr hefðbundnari átt - það er að segja norðri og fer að gæta aðfaranótt miðvikudags. Þótt kuldinn ýti undir síðdegisskúrir er það samt mun ólíklegra til þrumuveðragerðar (reynið að segja þetta orð) heldur en loftið sem kom við sögu um helgina og er enn yfir landinu (á mánudagskvöld). Suðaustanloftið var nefnilega þrungið raka og þar með dulvarma.
En þótt dagurinn í dag (mánudagur) hafi verið kaldari að mun heldur en helgin voru samt skoruð nokkur stig í samkeppninni um hlýjasta dag ársins á veðurstöðvunum. Þar á meðal náði Stórhöfði að koma sér úr neðsta sætinu, upp fyrir Brúarjökul og bæði Eyrarbakki og Þykkvibær gerðu betur en áður á árinu - enda með hálfgerðum ólíkindum að Eyrarbakki skuli ekki enn ná 20 stigunum. En þeir sem hafa áhuga á keppninni ættu að líta í viðhengið.
Hér að neðan er hins vegar litið á flóknari mál og koma mættishitaþversnið við sögu. Þar með skilur leiðir og aðeins þeir áhugasömustu sitja áfram við lestur þessa pistils. Þversniðið sýnir ástandið um kl. 19 síðastliðinn föstudag - þegar hitinn var alls ráðandi inni í sveitum landsins. Reglulegir lesendur hungurdiska kunna að muna að mættishiti er mál sem segir til um hversu hlýtt loft yrði eftir að vera fært úr sinni upprunalegu hæð - niður til sjávarmáls (strangt tekið 1000 hPa þrýstings).
Legu þversniðsins má sjá á litla Íslandskortinu efst í hægra horni. Það gengur þvert til austurs um landið sunnanvert eftir 64,24 gráðum norðurbreiddar, frá 25 gráðum til 13. gráðu vesturlengdar eins og markað er á lárétta ás myndarinnar. Vatnajökulsfjallgarðurinn sést sem grátt svæði neðst á myndinni. Lóðrétti ásinn sýnir þrýsting og nær þessi mynd upp í 250 hPa hæð - sem eru um 10 kílómetrar. Litafletir sýna vindhraða. Heildregnar, gráar línur sem liggja um það bil þvert yfir myndina sýna mættishita í Kelvinstigum.
Mættishitinn vex upp á við, sjá má 296K (+23°C) línuna snerta hæsta tind fjallanna. Til samanburðar við næstu mynd hefur gulbrún lína verið sett inn rétt ofan við 310K jafnmættishitalínuna á miðri mynd. Línan er í um 590 hPa hæð. Til þess að koma lofti frá 296K upp í 310 þarf að hita það um 14 stig. Sólarylur einn og sér getur þetta engan veginn og yfir sjónum er málið enn vonlausara - þar liggja línurnar þétt. Sú neðsta fyrir vestan land (til vinstri á myndinni) sýnir 284k eða bara 11°C, 26 stig eru þaðan upp í 310K.
Næsta mynd sýnir ástandið síðdegis á sunnudag. Hún virðist í fljótu bragði vera alveg eins - það er ekki létt að ráða í svona myndir - en er það ekki.
Fyrir það fyrsta hefur 310K merkið (brúna strikið) hækkað úr 590 hPa upp í 470 hPa, um 120 hPa - á annan kílómetra. Þar sem lægri línan er er mættishitinn nú 305K, það hefur kólnað um 5 stig. Ámóta kalt er hins vegar við sjávarmál á myndunum tveimur. Þetta þýðir að línurnar hafa gisnað. Því gisnari sem mættishitalínur eru því óstöðugra er loftið. - En sniðið er samt langt í frá óstöðugt í heild sinni. Upphitun sólbakaðs lands dugir ekkert frekar en áður.
Þá kemur rakinn inn. Við sjáum hann ekki á þessum myndum - en aftur á móti á kortinu að neðan. Það sýnir jafngildismættishita í 850 hPa-fletinum kl. 18 á sunnudagskvöld. Jafngildismættishiti er mál fyrir hversu hlýtt loftið yrði ef dulvarma þess væri öllum breytt í skynvarma auk þess sem það er flutt niður til sjávarmáls.
Neðri rauða stjarnan í myndinni að ofan er sett nærri 850 hPa-fletinum. Þar má sjá að mættishiti er um 293 stig (+20°C).
Litakvarðinn batnar við stækkun. Brúna litaslæðan yfir Norður- og Vesturlandi sýnir jafngildismættishita á bilinu 312K til 315K, um 29 til 32°C. Lítum nú á stöðu efri rauðu stjörnunnar á myndinni. Mættishitinn þar um kring er við 315K. Þeir (fáu) sem hafa komist í gegnum þennan texta ættu nú auðveldlega að sjá að sé allur dulvarmi við neðri stjörnuna losaður hækkar mættishiti þar úr 293K upp í 315K. Leiðin upp er nú greið, nýhlýja loftið er heitara en allt í kring og hækkar þar til það finnur jafnháan mættishita fyrir.
Á sunnudaginn hafa aðstæður að öðru leyti verið hagstæðar þannig að allt veðrahvolfið umturnast um skamma hríð. Þá verða þrumuveðrin til. Takið eftir því að þetta getur gerst hvort sem er yfir sjó eða landi. Neðstu lögin geta legið óhreyfð. Morgunþrumuveðrið á sunnudaginn (yfir Borgarfirði og nærsveitum) hefur sennilega orðið til án þátttöku lofts niður undir jörð - enda var dagurinn varla byrjaður. Síðdegisþrumuveðrin hafa hins vegar sennilega verið ræst af sólaryl að neðan - uppstreymi að neðan kitlar raka loftið þannig að dulvarmalosun hefst og þá er eins og stífla bresti - öll í einu.
29.7.2013 | 01:18
Þrumuveðrin
Í dag (sunnudag) og í gær gerði mikil þrumuveður á landinu. Bæði snemma og síðan síðdegis. Óvenjumargar eldingar komu fram á mælitækjum. Á vef Veðurstofunnar eru þessar mælingar settar fram á myndrænu formi. Við lítum á tvær myndir.
Sú fyrri sýnir eldingatalningu breska ADT-netsins en það mælir eldingar og staðsetur þær. Ein mælistöð er á Keflavíkurflugvelli. Lesa má um kerfið á vef Veðurstofunnar.
Rauðu súlurnar sýna fjölda eldinga við Ísland á klukkustundarfresti undanfarna viku. Við sjáum að eldinga varð vart á mánudag, þriðjudag og miðvikudag, en síðan ekki fyrr en síðdegis á laugardag. Fyrri þrjá dagana var langmest um að vera á Kili síðdegis á þriðjudag þegar um 40 eldingar mældust á einni klukkustund.
Laugardagsþrumuveðrið var mun efnismeira, meir en 100 eldingar mældust á klukkustund þegar mest var. Eftir mælingum að dæma var það öflugast á svæðinu suðvestur af Hofsjökli. Snemma á sunnudagsmorgni gerði talsvert þrumuveður í Borgarfirði og vestur um Mýrar en meginþrumuveður dagsins urðu þó síðdegis. Um kl. 17 mældist fjöldinn um 250 á klukkustund. Eftir mælingum að dæma voru klasarnir þrír og má sjá þá á myndinni hér að neðan. Hún er fengin af vef Veðurstofunnar.
Grænu litirnir sýna morgunþrumuveðrið en þeir gulbrúnu veðrin síðdegis. En hver er svo ástæðan?
Í grunninn er hún ekki svo flókin. Rakt loft kom úr suðaustri, varð svo óstöðugt yfir landinu að það snerti veðrahvörfin og hellti þar með úr sér uppstreymisskolpinu í stríðum straumum. Þessi eina setning svarar ekki miklu, en ritstjórinn veigrar sér við að fara út í nánari útlistun og biðst velvirðingar á því. Ástæðan er fyrst og fremst sú staðreynd að klukkan er orðin margt og það er vinna í fyrramálið.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 01:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.7.2013 | 00:57
Kaldara loft sækir að (úr óvenjulegri átt)
Mjög hlýtt hefur verið víða um land undanfarna daga. Hitinn hefur verið hvað samfelldastur á hálendinu, en lágsveitir hafa á víxl setið í svölu sjávarlofti eða mun hlýrri anda af landi. Hámarkshiti landsins hefur nú náð 20 stiga hita eða meira í 9 daga í röð. Um það bil fjórðungur veðurstöðva fór yfir 20 stiga mörkin á mánudag, miðvikudag og í dag (föstudag 26. júlí), en voru heldur færri aðra daga. Í stóru hitabylgjunum 2004 og 2008 var þetta hlutfall mun hærra, 66% hlýjasta daginn í syrpunni 2008 og 69% stöðva 2004.
Líkur eru töluverðar á að einhverjar stöðvar nái 20 stigum á morgun (laugardag) en mun minni á sunnudaginn. Þessu veldur aðsókn heldur kaldara lofts, ekki er það miklu kaldara - en samt munar um 5 stigum á þykktinni 5590 metrum sem voru yfir landinu í dag þeim 5490 metrum sem spáð er á sunnudagskvöld. Þetta er auðvitað ekki sérlega kalt loft - en samt.
Þegar það gengur inn yfir velupphitað landið myndast líklega skúraklakkar eða jafnvel samfelldir dembugarðar - og þar með bleyta. Einhverjir landshlutar gætu sloppið.
En þetta kaldara loft sækir að úr suðaustri - það er frekar óvenjulegt, smáskot úr norðri eftir helgi sér til þess að þykktin nær sér ekki á strik alveg strax aftur. En lítum á spákort sunnudagsins (frá evrópureiknimiðstöðinni).
Jafnþykktarlínur eru heildregnar og svartar. Þykktin er vísir um meðalhita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Litafletir sýna hita í 850 hPa-fletinum en hann er um það bil 1500 metra yfir sjávarmáli. Þar kólnar úr 11 stigum niður í 7 yfir miðju landi. Myndin verður skýrari við stækkun. Efri hvíta örin sýnir hreyfistefnu kjarna hlýja loftsins frá því í dag (föstudag) þar til á sunnudaginn þegar kortið gildir. Neðri hvíta örin sýnir stefnu þessa ómerkilega kuldapolls - sem þó mun kippa mesta hitanum úr sambandi.
Nokkra umstöflun þarf á stóru svæði til að leggja upp leiðir fyrir meira af hlýju lofti hingað til lands. Töluverður gangur er hins vegar á stóru veðurkerfunum og óljóst hvað úr verður.
Dagurinn í dag varð sá hlýjasti á árinu á allmörgum stöðvum. Listi er í viðhenginu. Hann nær aðeins til kl.17 en einhver hreyfing var á honum síðar - það kemur í ljós. Neðan við lista dagsins má finna annan sem sýnir hæsta hita ársins á öllum sjálfvirkum veðurstöðvum.
Viðbót að kvöldi laugardags (27.júlí): Reykjavík náði loks 20-stiga markinu í dag.
Vísindi og fræði | Breytt 28.7.2013 kl. 00:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.7.2013 | 01:11
Af ágengu sjávarlofti
Dagurinn í dag (fimmtudagur 25. júlí) skilaði ekki eins mörgum nýjum hámörkum fyrir árið 2013 og undanfarnir dagar - hitinn er búinn að toppa víðast hvar. Þó skiluðu 16 stöðvar hærri tölum en þær hafa gert hingað til (sjá viðhengið). Þar á meðal Möðrudalur (með 24,5 stig) og stöðvar á hálendinu, þar á meðal Hveravellir (22,7 stig). Það er jafnhátt og mældist allan tímann sem mannaða stöðin var starfrækt, en lægra en sjálfvirka stöðin mældi í risahitabylgjunum í ágúst 2004 og júlí 2008.
Vestmannaeyjastöðvarnar þrjár skiluðu aðeins hærri gildum en áður á árinu. Stórhöfði komst úr 12,3 upp í 12,7 stig - hann hlýtur að eiga meira inni. Sömuleiðis áttu nokkrar heiðastöðvar Vegagerðarinnar sinn besta dag (sjá viðhengið). Þverfjall (18,2) virðist hafa toppað fyrra júlímet (17,7) en er langt frá ofurmetinu í ágúst 2004 (23,3).
Hafgolan og þar með þokuloftið voru ágengari í dag heldur en undanfarna daga þar á meðal í Reykjavík. Sjávarloftið liggur neðan hitahvarfa sem eru í aðeins nokkur hundruð metra hæð. Að deginum nær sólarylur landsins að hita loftið upp í mættishita þess lofts sem liggur ofan á hitahvörfunum og þar með útrýma þeim.
Þetta má sjá á þversniði mættishita og vinds eins og harmonie-líkanið spáir kl. 15 á morgun föstudag. Hér er rétt að vara við myndinni - hún er býsna snúin og aðeins fyrir þolinmóða lesendur að komast fram úr textanum. En við reynum samt að rýna í myndina. Hún þolir töluverða stækkun (tvisvar).
Fyrst ber að veita athygli örsmáu Íslandskorti í efra hægra horni myndarinnar. Þar má sjá línu sem liggur frá stað undan Suðausturlandi til norðurs þvert yfir landið austanvert til staðar norður af Melrakkasléttu (16,6° Vestur). Gráu svæðin á myndinni sýna landslagið undir línunni. Vatnajökull langhæstur, síðan hálendi Austurlands og loks láglendi og sjór. Breiddarstigin eru á lárétta ás myndarinnar, 65°N nærri miðjum ásnum.
Lóðrétti ásinn sýnir loftþrýsting. Hann er nærri 1000 hPa við sjávarmál en lækkar síðan upp á við og efst er komið niður í 250 hPa - það er ekki fjarri 10 km hæð. Litirnir sýna vindhraða, skilin milli grænu og bláu litanna eru við 10 m/s. Hvergi er hvasst í sniðinu - hvassast þó allra efst. Vindörvar sýna vindstefnu og styrk, mikilvægt er að átta sig á því að stefna örvanna hefur ekkert með sniðið að gera, heldur er kemur austanátt frá hægri, vestanátt frá vinstri og norðanátt að ofan. Við skulum ekki láta þetta rugla okkur. Áttin er úr norðri í bláa litnum efst á myndinni, en úr vestri í bláa fletinum neðarlega til hægri.
Svörtu, heildregnu línurnar sem liggja þvert yfir myndina sýna mættishitann. Hann er hér tilfærður í Kelvinstigum, 300K = 27°C. Jafnhitalínurnar eru dregnar með tveggja stiga bili.
Örvarnar benda á nokkur atriði sem vert er að skoða nánar. Sú sem merkt er með tölustafnum 1 bendir á svæði þar sem þrjár mættishitalínur liggja mjög þétt, mættishitinn hækkar ört með hæð. Svona líta hitahvörf út á þversniði. Það er 292K línan sem er efst línanna þriggja, ef þetta loft væri fært niður til sjávarmáls myndi hitinn þar verða 19°C (292-273=19). Neðst línanna þriggja er 288K, ef það loft væri tekið til sjávarmáls væri hitinn ekki nema 15 stig (288-273). Síðan kemur tiltölulega langt bil í næstu línu (286K) þar sem hiti er 13 stig. Það er sæmilega blandað sjávarloft sem er undir hitahvörfunum, sjávarhitinn er trúlega nærri 13 stigum.
Norður af landinu, við töluna 2 eru jafnmættishitalínurnar einnig þéttar og margar - en munurinn er sá að þéttleikinn helst nærri því til sjávarmáls. Hér er sjávarloftið lítið blandað. Ef við teljum okkur niður að neðstu línu reynist hún sýna 278K (lítill línubútur alveg neðst við hornið). Þetta eru ekki nema 5 stig. Ætli það sé ekki sjávarhitinn á svæðinu. Hvass vindur myndi róta í loftinu og blanda því. Þá yrðu til hitahvörf ofan á blönduðu lagi - svipað og við Suðausturland.
Við töluna 3 liggja mættishitalínur hins vegar beint upp og niður. Þar á mikil blöndun sér stað - engin hitahvörf. Hér sést hvernig hlýtt yfirborð landsins nær að hita loftið og blanda því alveg upp í 850 hPa (um 1500 metra hæð). En ef við förum til hægri frá örinni sést vel að blöndunin nær styttra og styttra upp eftir því sem norðar dregur. Þar er svo mikið af köldu lofti að sólarylurinn megnar ekki meir - á einum degi. Nóttin býr strax til hitahvörf - næturkólnunin byrjar við lægri og lægri hita eftir því sem norðar dregur.
Við töluna 4 er allt opið upp fyrir 850 hPa. Hér er loft vel blandað, mættishitinn er á stóru svæði á bilinu 296 til 298 stig eða 23 til 25°C - sem hitinn við sjávarmál væri - en hálendið er í um 500 metra hæð, við getum því dregið frá um 5 stig til að reikna út hálendishitann og fáum 18 til 20 stig. Það er bara gott.
Kastið nú mæðinni og lítið á viðhengið.
25.7.2013 | 00:16
Hitamet á hálendinu
Í gær (þriðjudag) komst hiti í Veiðivatnahrauni upp í 25,3 stig og var það mesti hiti sem mælst hafði á hálendinu í júlímánuði. Fáeina tíunduhluta vantaði upp á að hálendishitamet ársins alls væri slegið. Það gerðist hins vegar í dag því hitinn í Veiðivatnahrauni komst í 25,9 stig, 0,1 stigi meira en mældist við Upptyppinga 13. ágúst 2004. Við skulum trúa þessu - alla vega næstu daga þar til búið verður að líta betur á metið. Aðskiljanlegar villur eru hugsanlegar.
Stöðin er í 647 metra hæð yfir sjávarmáli (svipað og Hveravellir). Stöðin í Upptyppingum sem átti gamla hálendismetið stendur lægra, í 563 metrum. Í pistli hungurdiska í gær var hálendi látið byrja við 450 metra.
Þegar farið er í saumana á veðrinu í Veiðivatnahrauni í dag (miðvikudag 24. júlí) kemur m.a. í ljós að gríðarlega þurrt var á staðnum. Rakastigið fór niður í 13%. Það er ekki met á staðnum en er samt óvenjulegt. Þetta eykur trúverðugleika metsins, jarðvegsyfirborð er væntanlega nánast alveg þurrt og ekkert af sólarorkunni fer í að vinna við uppgufun - en uppgufun er mjög varmakrefjandi og heldur hita þar með í skefjum.
Harmonie-veðurlíkanið sem nú eru gerðar tilraunir með á Veðurstofunni sýndi mjög lágt rakastig á þessu svæði í dag. Líkanið hefur hins vegar verið það stutt í notkun að ekki er vel vitað hversu nákvæmlega það greinir frá rakastigi (og fjölmörgu öðru). En kortið hér að neðan sýnir rakastig líkansins á landinu (í veðurmælingahæð, 2 m) kl. 15 í dag - en um það leyti var hitametið sett.
Rakastigið er sýnt með litum. Kvarði og kort batna sé myndin stækkuð og má þá sjá að mikið lágmark er við vesturjaðar Vatnajökuls, talan er 16%. Þetta er mjög svipað og mældist á stöðinni sjálfri.
Á dökkbláu svæðunum er rakastigið yfir 90% og þar er víðast lágskýjað og jafnvel þoka. Útbreiðsla dökkbláa litarins er ekki fjarri því að sýna þokuskýin sem sáust svo vel á MODIS-gervihnattamynd sem birt var á fsíðu Veðurstofunnar og vina hennar í dag. En hana má líka sjá í sérstöku viðhengi hér að neðan. Fróðlegt er að bera saman kort og mynd.
Sé sömu spárunu harmonie flett áfram fram undir morgun á föstudaginn birtist skemmtilegt smáatriði (hvort spáin rætist er allt annað mál). Myndin er klippt út úr spákortinu og þolir þess vegna ekki mikla stækkun.
Þarna má sjá Snæfellsnes og Mýrar. Rakastig er 100% á Faxaflóa og Breiðafirði - skyldi verða þoka? Snæfellsjökull (og lægri fjöll á Snæfellsnesi) standa upp úr. Rakastig á tindi Snæfellsjökuls er aðeins 38% - engin þoka eða ský þar.
Í viðhengi gærdagsins mátti sjá lista um hæsta hita á hálendis- og fjallastöðvum landsins (ofan 450 metra) eftir mánuðum. Hér eru listarnir aftur (vegna metsins í dag) - fyrst sjálfvirku stöðvarnar.
stöð | ár | mán | dagur | klst | hámark | nafn | |
4019 | 2010 | 1 | 25 | 17 | 12,5 | Upptyppingar | |
4019 | 2006 | 2 | 21 | 18 | 11,1 | Upptyppingar | |
4019 | 2000 | 3 | 28 | 13 | 13,2 | Upptyppingar | |
4019 | 2007 | 4 | 30 | 17 | 18,0 | Upptyppingar | |
4019 | 2007 | 4 | 30 | 18 | 18,0 | Upptyppingar | |
4019 | 2000 | 5 | 11 | 13 | 19,0 | Upptyppingar | |
4019 | 2000 | 6 | 30 | 14 | 24,1 | Upptyppingar | |
6657 | 2013 | 7 | 24 | 15 | 25,9 | Veiðivatnahraun | |
4019 | 2004 | 8 | 13 | 18 | 25,8 | Upptyppingar | |
5970 | 2009 | 9 | 13 | 9 | 19,8 | Hallsteinsdalsvarp | |
5970 | 2009 | 9 | 13 | 11 | 19,8 | Hallsteinsdalsvarp | |
5943 | 2003 | 10 | 26 | 13 | 17,4 | Eyjabakkar | |
5943 | 1999 | 11 | 19 | 10 | 16,8 | Eyjabakkar | |
5943 | 2010 | 12 | 15 | 1 | 12,5 | Eyjabakkar |
Hallsteinsdalsvarp er í um 640 metra hæð í dölunum á milli Héraðs og Reyðarfjarðar. Hæstu mannaðar mælingar:
stöð | ár | mán | dagur | hámark | nafn | ||
892 | 1967 | 1 | 9 | 8,6 | Hveravellir | ||
892 | 2003 | 2 | 28 | 7,8 | Hveravellir | ||
892 | 1996 | 3 | 1 | 7,7 | Hveravellir | ||
892 | 2003 | 4 | 22 | 10,0 | Hveravellir | ||
892 | 2003 | 4 | 23 | 10,0 | Hveravellir | ||
892 | 1977 | 5 | 27 | 15,7 | Hveravellir | ||
892 | 2000 | 6 | 30 | 21,6 | Hveravellir | ||
888 | 1994 | 7 | 7 | 23,7 | Versalir | ||
888 | 1999 | 8 | 6 | 23,6 | Versalir | ||
892 | 1968 | 9 | 13 | 16,8 | Hveravellir | ||
886 | 1975 | 10 | 11 | 12,9 | Sigalda | ||
886 | 1975 | 11 | 8 | 10,0 | Sigalda | ||
892 | 1978 | 12 | 12 | 9,1 | Hveravellir |
Mjög fáar mannaðar stöðvar hafa verið á hálendinu. Hveravellir langlengst og því líklegust til meta. Versalir eru stöð sem starfrækt var um skamma hríð að sumarlagi - ekki svo fjarri Veiðivatnahrauni. Athugað var í Sigöldu um skamma hríð um það leyti sem virkjanaframkvæmdir stóðu þar yfir.
Miðvikudagurinn 24. júlí var ekki alveg jafn hámarkagæfur og undanfarnir dagar, þó náðu nokkrar stöðvar á Vestfjörðum og norðanverðu Snæfellsnesi að endurnýja harla lágar tölur. Uppbótarlisti dagsins er í viðhengi - fyrir nördin.
24.7.2013 | 01:00
Suður- og Vesturland ná sér á strik [auk tíðinda af hálendinu]
Dagurinn í dag (þriðjudagur 23. júlí) var besti dagur sumarsins um nær allt suðvestan- og vestanvert landið og var þar víðast hvar hlýjasti dagur sumarsins fram að þessu. Þar á meðal á höfuðborgarsvæðinu. Þó voru hlýindin í Reykjavík blönduð af sjávarlofti sem ekki tókst alveg að losna við. Hiti náði ekki 20 stigum við Veðurstofuna, en marði það við Korpu (20,4 stig) og á Hólmsheiði (20,8 stig).
Mesti hiti á landinu í dag mældist þó í Veiðivatnahrauni 25,3 stig, en mest í byggð á Þingvöllum 25,1 stig. Talan í Veiðivatnahrauni telst til tíðinda því þar hefur aldrei mælst mælst hærri hiti, byrjað var að mæla 1993. Við nánari athugun kemur í ljós að þetta er hæsti hiti sem nokkru sinni hefur mælst á hálendi landsins í júlímánuði - ofan við 450 metra hæð yfir sjó. Í ofurhitabylgjunni í ágúst 2004 varð enn hlýrra en nú á fáeinum hálendisstöðvum.
Í þessu tilefni voru teknir saman nokkrir listar um hæsta hita á fjalla- og hálendisstöðvum ofan við 450 metra í öllum mánuðum ársins auk sérlista sem gilda yfir 650 og 800 metrum. Þessir listar hafa hvergi birst áður - tími til kominn.
Allt þetta góðgæti er í viðhengi dagsins: Listi yfir stöðvar hvar árshámark til þessa var í dag, listi yfir árshámörk allra stöðva til þessa 2013, listi yfir ný stöðvamet fyrir árið allt auk áðurgreindra hálendismetalista. Geta nörd nú klippt og límt í töflureikna, smjattað og raðað að vild.
Við nánari skoðun kemur ýmislegt í ljós, t.d. má hvetja áhugasama til að fara í saumana á því hvenær dagsins hiti varð hæstur í dag. Það gerist t.d. strax kl. 9 í Grindavík - og í Vík í Mýrdal, við Veðurstofuna kl. 12 en á flestum stöðvum kl. 14, 15 eða 16, hámörkin á Snæfellsnesi og við Breiðafjörð eru seinna - þegar loftið sem hlýnaði í sólinni yfir landinu barst þangað.
Hlýtt loft verður yfir landinu næstu daga. Hitavísunum þykkt og mættishita í 850 hPa er báðum spáð ívið hærri á morgun (miðvikudag) heldur en var í dag. Mættishiti á samkvæmt spá evrópureiknimiðstöðvarinnar að komast í 27 stig og þykktin samkvæmt sömu spá á að ná rétt yfir 5600 metra. Niður við sjávarmál er hins vegar óvíst hvar þessa afskaplega góða hita gætir - sjávarloftið leitar inn og undir þar sem það mögulega getur. Eftir morgundaginn lækka vísitölur síðan hægt, lítið þó þar til á laugardag að öllu kaldara loft sækir að.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 01:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.7.2013 | 00:25
Hæsti hiti ársins (til þessa)
Mjög hlýtt var norðaustanlands i dag (sunnudaginn 21. júlí) og var hiti á mörgum stöðvum sá hæsti á árinu til þessa - en Vestur- og Suðurland situr enn eftir og gengur illa að rjúfa 20 stiga múrinn. Hæsti hitinn í dag mældist í Ásbyrgi, 26,4 stig.
Í viðhenginu er listi yfir hæsta hita ársins til þessa á sjálfvirkum veðurstöðvum og geta nördin gert sér hann að góðu og leitað að sínum uppáhaldsstöðvum. Í viðhenginu er einnig listi yfir hæsta hita hvers dags það sem af er ári.
Nú er spurning hvort hlýindin nái líka til Suður- og Vesturlands í vikunni. Mánudagurinn er mögulegur en þriðjudagur og miðvikudagur eru þó taldir líklegastir. Hafgolan er þó ágeng við sjávarsíðuna og býsna tilviljanakennt hvar hún heldur hámarkshitanum í skefjum.
Svo sýnist sem meðalhitinn í Reykjavík það sem af er mánuði sé kominn í rétt rúm 10 stig en með því fylgist nimbus í sínu góða skjali.
Viðbót 22. júlí (mánudag):
Hlýindin halda áfram. Í dag (mánudag) náðu 39 sjálfvirkar veðurstöðvar hæsta hita ársins til þessa. Þar á meðal var slæðingur af stöðvum á Suðurlandi sem ættu að geta gert enn betur næstu daga enda er varla boðlegt að kominn sé 22. júlí og hiti í uppsveitum á þeim slóðum ekki búinn að ná 20. stigum. En listi dagsins er í nýju viðhengi.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 23:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
21.7.2013 | 00:56
Kemst enn hlýrra loft til landsins?
Nú er hlýrra loft yfir landinu heldur en hefur verið lengst af í sumar. Hiti hefur verið 17 til 20 stig víða um land. Eiginlega er bara spurning um að losna við skýin. En það er frekar vandasamt svo öllum líki. Vindur þarf helst að standa af landi til að þau hverfi - en þá stendur vindur upp á land á einhverjum öðrum stað sem situr í svölu sjávarloftinu.
Norður- og Austurland hafa notið góðs af hlýja loftinu undanfarna daga - en í dag (laugardaginn 20. júlí) komst hiti yfir 20 stig í Húsafelli sem þar með átti hæsta hita landsins ásamt Upptyppingum - langt inni á öræfum norðaustanlands. Ámóta hlýtt varð líka í Þórsmörk. Listi sem birtist á vef Veðurstofunnar sýndi reyndar enn hærri tölu í Sandbúðum á Sprengisandsleið - en við nánari skoðun reyndist hún vera hluta af langvinnum veikindum stöðvarinnar að undanförnu.
En þykktin yfir landinu í dag var meiri en 5520 metrar. Þykktin er mælikvarði á fyrirferð og þar með hita neðri hluta veðrahvolfs - risastór hitamælir, því bólgnari sem loftið er því hlýrra er það. Við eigum að vera ánægð með allt yfir 5500 (nema auðvitað þeir fáu sem vilja kulda). En spár hallast nú heldur að því að enn hlýni eftir helgina. Ekki er það þó alveg fast í hendi - reikningar eru ekki alltaf réttir. Þetta sést að nokkru á kortinu hér að neðan en það er úr safni evrópureiknimiðstöðvarinnar og sýnir hæð 500 hPa-flatarins (heildregngar línur) og þykktina (rauðar strikalínur) kl. 18 á mánudag 22. júlí.
Rauðar örvar sýna framsókn 5580 metra jafnhæðarlínunnar. Í þessari spásyrpu reiknimiðstöðvarinnar er gert ráð fyrir að hún komist hingað til lands á þriðjudag eða miðvikudag. Við vonum það besta - ekki veitir af að bæta upp lágu tölurnar sem ríkt hafa suðvestanlands að undanförnu.
Vísindi og fræði | Breytt 22.7.2013 kl. 23:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.7.2013 | 01:22
Enn bráðnar sýndarsnjórinn
Við höfum áður fjallað um sýndarsnjóinn sem harmonie-veðurlíkanið býr til og bræðir. Hann er fyrir nokkru horfinn úr Esjunni og á um helgina að hverfa úr Helgrindum á Snæfellsnesi. Enn eru talsverðar fyrningar á háfjöllum á Vestfjörðum og Norður- og Austurlandi. Þær láta undan síga. Uppi á hájöklum bráðnar sýndarsnjórinn varla í sumar.
En sýndarsnjór fellur líka á skriðjökla landsins og þar bráðnar hann allur. Líkanið veit ekkert af ísnum sem jöklarnir sjálfir bera fram á lægra land. Þetta er ekki jöklalíkan.
En við getum samt fylgst með bráðnun snævarins af jöklunum - eins og líkanið leggur hana. Kortið sýnir afrennsli úr möskvum líkansins frá því klukkan 18 á föstudag (19. júlí) til kl. 18 á sunnudag (21. júlí). Þetta er auðvitað sýndarafrennsli og má ekki rugla saman við það raunverulega sem fellur fram úr ám og grunnvatnskerfum landsins. Þetta er ekki rennslislíkan og kemur ekki í stað slíkra.
Ljósbláa slikjan yfir láglendi og snjólausum fjöllum sýnir úrkomu. Hún er langmest yfir Snæfellsnesi, en athuga ber að vestustu tvær tölurnar eru yfir Snæfellsjökli þar sem enn er nægur snjór til að bræða og svo talan við Helgrindur þar sem snjórinn er um það bil að hverfa. Drjúgmikil úrkoma er í Bláfjöllum. Afrennsli tveggja sólarhringa rúmlega 20 mm - þar er snjórinn löngu horfinn (úr líkaninu) og leggur ekkert til.
Mikil bráðnun er á stóru jöklunum, sérstaklega á þeim vestan- og norðanverðum þar sem hlýr vindur blæs niður hlíðarnar. Á þessu korti bráðnar mest á Brúarjökli, 111 mm á tveimur dögum - engin er úrkoman þar í spánni. Hér ætti líka að taka eftir því að útlínur jökulsins eru merktar á myndina með daufri grárri strikalínu. Ekkert virðist bráðna af sporðinum - en það er vegna þess að líkanið veit ekkert um ísinn þar - sýndarsnjór vetrarins er horfinn.
Hvort öll þessi bráðnun skilar sér í Hálslón vitum við ekkert um. Í fyrsta lagi er hún e.t.v. rangt reiknuð og í öðru lagi gufar eitthvað af snjónum upp. Uppgufun í líkaninu telst með afrennslinu. Mörg fleiri atriði vantar upp á að raunverulegu rennsli séu gerð nákvæm skil. En það er gaman að fylgjast með þessu - og líka fróðlegt.
Í framhjáhlaupi má geta þess að eitt dægurhámarkshitamet virðist hafa fallið á dögunum, þegar hiti fór í 26,1 stig á Egilsstaðaflugvelli þann 10. júlí. Eldra met var sett á Hallormsstað 1977. Hittist hér vel á dag, því gamla metið var eitt af fimm dægurmetum í júlí lægra en 26 stig.
[Smáleiðrétting gerð 21. júlí.]
Vísindi og fræði | Breytt 21.7.2013 kl. 22:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 132
- Sl. sólarhring: 365
- Sl. viku: 2511
- Frá upphafi: 2434953
Annað
- Innlit í dag: 120
- Innlit sl. viku: 2230
- Gestir í dag: 117
- IP-tölur í dag: 115
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010