Enn bráðnar sýndarsnjórinn

Við höfum áður fjallað um sýndarsnjóinn sem harmonie-veðurlíkanið býr til og bræðir. Hann er fyrir nokkru horfinn úr Esjunni og á um helgina að hverfa úr Helgrindum á Snæfellsnesi. Enn eru talsverðar fyrningar á háfjöllum á Vestfjörðum og Norður- og Austurlandi. Þær láta undan síga. Uppi á hájöklum bráðnar sýndarsnjórinn varla í sumar.

En sýndarsnjór fellur líka á skriðjökla landsins og þar bráðnar hann allur. Líkanið veit ekkert af ísnum sem jöklarnir sjálfir bera fram á lægra land. Þetta er ekki jöklalíkan.

En við getum samt fylgst með bráðnun snævarins af jöklunum - eins og líkanið leggur hana. Kortið sýnir afrennsli úr möskvum líkansins frá því klukkan 18 á föstudag (19. júlí) til kl. 18 á sunnudag (21. júlí). Þetta er auðvitað sýndarafrennsli og má ekki rugla saman við það raunverulega sem fellur fram úr ám og grunnvatnskerfum landsins. Þetta er ekki rennslislíkan og kemur ekki í stað slíkra.

w-blogg200713a

Ljósbláa slikjan yfir láglendi og snjólausum fjöllum sýnir úrkomu. Hún er langmest yfir Snæfellsnesi, en athuga ber að vestustu tvær tölurnar eru yfir Snæfellsjökli þar sem enn er nægur snjór til að bræða og svo talan við Helgrindur þar sem snjórinn er um það bil að hverfa. Drjúgmikil úrkoma er í Bláfjöllum. Afrennsli tveggja sólarhringa rúmlega 20 mm - þar er snjórinn löngu horfinn (úr líkaninu) og leggur ekkert til.

Mikil bráðnun er á stóru jöklunum, sérstaklega á þeim vestan- og norðanverðum þar sem hlýr vindur blæs niður hlíðarnar. Á þessu korti bráðnar mest á Brúarjökli, 111 mm á tveimur dögum - engin er úrkoman þar í spánni. Hér ætti líka að taka eftir því að útlínur jökulsins eru merktar á myndina með daufri grárri strikalínu. Ekkert virðist bráðna af sporðinum - en það er vegna þess að líkanið veit ekkert um ísinn þar - sýndarsnjór vetrarins er horfinn.

Hvort öll þessi bráðnun skilar sér í Hálslón vitum við ekkert um. Í fyrsta lagi er hún e.t.v. rangt reiknuð og í öðru lagi gufar eitthvað af snjónum upp. Uppgufun í líkaninu telst með afrennslinu. Mörg fleiri atriði vantar upp á að raunverulegu rennsli séu gerð nákvæm skil. En það er gaman að fylgjast með þessu - og líka fróðlegt.

Í framhjáhlaupi má geta þess að eitt dægurhámarkshitamet virðist hafa fallið á dögunum, þegar hiti fór í 26,1 stig á Egilsstaðaflugvelli þann 10. júlí. Eldra met var sett á Hallormsstað 1977. Hittist hér vel á dag, því gamla metið var eitt af fimm dægurmetum í júlí lægra en 26 stig.

[Smáleiðrétting gerð 21. júlí.]


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 342
  • Sl. sólarhring: 355
  • Sl. viku: 1916
  • Frá upphafi: 2350543

Annað

  • Innlit í dag: 259
  • Innlit sl. viku: 1708
  • Gestir í dag: 245
  • IP-tölur í dag: 244

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband