Bloggfærslur mánaðarins, maí 2013
30.5.2013 | 01:12
Opin? staða
Í óformlegu veðurhjali á enskri tungu er hugtakið pattern eða weather pattern mjög vinsælt. Hrá þýðing er einfaldlega mynstur en við tölum oftar um stöðu veðurkerfa. Fyrirstöður hindra framrás lægða til austurs og sunnan- og norðanáttir eru þá miklu algengari heldur en venjulegt er auk þess sem hlýtt loft liggur norðan við kalt öfugt við það sem venjulegt er.
Meginhluti Evrópu liggur nú í svæsinni fyrirstöðu - fyrirstöðuhæð eða hryggur liggur sem fastast yfir Skandinavíu austanverðri en kuldapollur (afskorin lægð) yfir álfunni sunnanverðri. Þessi staða hefur auðvitað áhrif á Íslandi - en þó ekki meira en svo að lægðir geta gengið yfir landið hver á fætur annarri. Staðan getur því kallast opin hér um slóðir.
Kortið sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar og gildir hún um hádegi á föstudag (31. maí).
Jafnþrýstilínur eru heildregnar en hiti í 850 hPa er sýndur með strikalínum. Úrkoma er í grænu og bláu. Ótrúlega hlýtt er í Noregi norðanverðum dag eftir dag, þar er 850 hPa hitinn meiri en 10 stig. Við sjáum lítið af svo hlýju lofti hér á landi. Mið-Evrópa liggur í mikilli úrkomusúpu - miskaldri frá degi til dags en talsverðan snjó hefur sett niður í efstu Alpabyggðum.
Hér á landi gengur nú hver lægðin á fætur annarri yfir. Þeim fylgja mjóir geirar af hlýju lofti en svalara loft - ættað úr vestri er samt yfirgnæfandi þessa dagana. Þetta er ekki sem verst - svona í bili að minnsta kosti.
29.5.2013 | 01:36
Kalt vor = kalt sumar ???
Veður í vor (apríl og maí) hefur verið í svalasta lagi miðað við síðustu 20 ár. Áberandi kaldara var 1989. Þeirri spurningu var varpað fram í athugasemdum fyrir nokkrum dögum hvort köldu vori fylgdi ekki alltaf kalt sumar. Ritstjórinn hefur ekki litið á það mál árum saman (enda langoftast hlýtt) en gerir það hér með.
Við berum saman vor- og sumarhita í Reykjavík frá 1874 til 2012, reiknum aðfallslínu og teiknum mynd.
Vorhitinn er á lárétta ásnum en sumarhitinn á þeim lóðrétta. Sumarið er hér talið ná yfir júní, júlí og ágúst. Ártöl eru sett við punktana. Inni í dreifinni eru þau ólesanleg - en með góðum vilja (og stækkun) má sjá flestöll árin á jöðrum hennar.
Kaldasta vorið á tímabilinu var 1949, meðalhiti 1,9 stig. Meðalhiti sumarsins það ár var þó 10,3 stig. Hlýjast varð vorið 1974, 7,1 stig, það skilaði hins vegar ekki nema 10,1 stigi. Sumar á eftir kaldasta vori = sumar á eftir hlýjasta vori. Ekki mjög sannfærandi.
Fylgnin milli vor- og sumarhita er reyndar marktæk, fylgnistuðull = 0,46. Það segir einhverjum að vorhitinn skýri 20 prósent af breytileika sumarhitans. Hér hefur ekki verið leiðrétt fyrir leitni tímabilsins alls (hnattrænni hlýnun) - en strangt tekið á að gera það í reikningum sem þessum.
Vorhitinn í ár, 2013 stefnir í 3,8 stig eða þar um bil. Ef trúa má línuritinu ætti það að gefa sumarhita undir 10 stigum. Það hefur ekki gerst í Reykjavík síðan 1995. Við sjáum hins vegar að síðustu ár hafa mörg hver sest að við efri jaðar dreifinnar. Sumarið 2010 var 1,8 stigum hlýrra heldur en vorspáin hráa sagði til um og sumarið í fyrra 2012 var um 1,5 stigum hlýrra en spáin. Ef við endurbætum spána með þessum upplýsingum ætti sumarið 2013 að fara í um 11,4 stig. Það væri hlýrra en 2011 og svipað og 2009 - ekki sem verst.
Lesendur eru varaðir við því að taka þetta raus alvarlega. Hér er eingöngu um skemmtiefni að ræða. Við vitum ekkert um það nú hver sumarhitinn í Reykjavík verður. Kannski má giska aftur eftir nokkrar vikur.
28.5.2013 | 00:33
Sýndarsnjór í Esju og víðar suðvestan- og vestanlands
Að undanförnu hefur oft snjóað langt niður eftir fjöllum suðvestanlands (og auðvitað til sjávarmáls víða fyrir norðan). Spurningin er hins vegar hvernig samkeppni ákomu og bráðnunar hefur verið að undanförnu. Engar mælingar eru gerðar á snjódýpt á fjöllum. Hugsanlegt er þó að þeir sem stunda ákveðin fjöll reglulega viti eitthvað þar um.
Esjan blasir við úr norðurgluggum ritstjórnarskrifstofa hungurdiska. Að sjá er sáralítill sem enginn snjór neðan 500 metra í fjallinu og engan snjó er að sjá í suðurhlíðum Akrafjalls - frá sama sjónarhóli. Ofar í fjallinu virðist hins vegar vera meiri snjór og hefur lítið gefið sig undanfarnar vikur.
Áður hefur verið minnst á sýndarsnjóhulu harmonie-veðurspárlíkansins á þessum vettvangi. Í líkaninu er bókhald um snjómagn eins og líkanið reiknar á klukkustundarfresti. Næsta öruggt er að ekki er alveg rétt reiknað en samt er gaman að fylgjast með tölunum.
Við lítum fyrst á kort sem sýnir reiknað snjómagn á landinu suðvestanverðu á morgun, þriðjudaginn 28. maí.
Tölurnar sýna snjómagn í kílóum vatns á fermetra, samsvarar millimetrum í úrkomu. Til að reikna snjódýptina sjálfa þarf auk þessa að vita hver eðlismassi snævarins er - hann þekkjum við ekki og er óþarfi að giska. Grá og hvít svæði sýna hvar snjór liggur - á hvítu svæðunum er hann meiri en 200 kg á fermetra.
Við sjáum að hæsta talan á Esjunni er 563 kg/fermetra, í Bláfjöllum 373 og 250 í Hengli. Rétt er að taka fram að þessi fjöll eru í líkaninu öll aðeins lægri heldur en þau raunverulegu. Við Skjaldbreið (eða á Skriðunni) er öllu meiri snjór og mun meiri á Þórisjökli.
En við skulum líka líta á sýndarsnjó í líkaninu 9. apríl, fyrir um það bil 6 vikum.
Við sjáum fljótlega að gráu og hvítu svæðin eru umfangsmeiri heldur en á efri myndinni. Snjó hefur almennt leyst. En þarna er talan á Esjunni 494 kg/fermetra - tæpum 70 kg/fermetra minni heldur en er á korti morgundagsins. Séu allar tölurnar á kortunum tveimur bornar saman kemur í ljós að snjór hefur aukist á háum fjöllum - en annars minnkað. Í Bláfjöllum hefur hann minnkað um nærri 100 kg/fermetra og enn meira í Hengli (sennilega er líkanhengillinn talsvert lægri en sá raunverulegi).
Svo sýnist sem Snæfellsjökull hafi bætt mestu á sig af öllum fjöllum kortsins, rúmlega 400 kg/fermetra (nærri 20%).
Nú er hið venjulega ástand það að há fjöll halda áfram að safna snjó langt fram eftir vori - mun lengur heldur en sú lægri. Trúlega er Snæfellsjökulfjall líkansins að bæta á sig langt fram í maí í venjulegu árferði (hinn raunverulegi jökull vonandi lengur). Það er hins vegar misjafnt í hvaða hæð jafnvægið er á þessu ákveðna sex vikna tímabili vorsins. Kannski er það nú ívið neðar en að meðaltali?
Þrátt fyrir sannfærandi reikninga skulum við ekki af þeim einum draga þá ályktun að snjór hafi í raun og veru aukist í Esju undanfarnar sex vikur. Ritstjórinn vill ekki að þessi pistill breytist í frétt um að bætt hafi í snjó ofan á Esju undanfarinn mánuð. Til að fullyrða um það þarf mælingar á staðnum og vitna verður í aðrar heimildir en fréttir úr sýndarheimum.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 01:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.5.2013 | 00:38
Láta bíða eftir sér (hlýindin)
Á síðustu árum hefur verið venjan að hiti komist í 20 stig einhvers staðar á landinu fyrir lok maímánaðar. Nú eru að vísu fimm dagar eftir af mánuðinum en enn bólar ekkert á svo háum hita í tölvuspám. Við getum samt vonað að þær bregðist. Það hefur ekki gerst síðan 1999 að hiti á landinu hafi ekki náð 19 stigum á þessum tíma. Þá var hæsti hiti fyrstu fimm mánaða ársins 18,1 stig. Jafn og nú. Fyrir þann tíma voru hitamælistöðvar mun færri heldur en nú er og líkur á háum tölum minni ár hvert.
Í maílok 1994 var hæsti hiti ársins til þessa tíma 17,2 stig. Við huggum okkur við það að í maílok 1979 hafði hitinn hvergi náð 15 stigum á landinu - við erum ekki að lenda í því að þessu sinni.
Þetta er þó ekki þannig að einhver skortur sé á hlýju lofti á norðurhveli - það er bara ekki hér.
Myndin sýnir megnið af norðurhveli jarðar norðan við 30. breiddarstig. Ísland er rétt neðan við miðja mynd. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar. Því þéttari sem þær eru því meiri er vindur, hann blæs samsíða línunum. Litafletir sýna þykktina, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið í neðri hluta veðrahvolfs. Kvarðinn (sýnir dekametra) batnar mjög sé kortið stækkað. Mörkin á milli grænu og gulu svæðanna er við 5460 metra. Líkur á 20 stiga einhvers staðar á landinu aukast mjög sé þeirri þykkt náð. Mörkin á milli bláu og grænu litanna er við 5280 metra. Minni þykkt en það eykur mjög líkur á næturfrostum.
Við erum sum sé í grænu litunum. Það er ekki slæmt - en gæti samt verið betra. En við sjáum að það er aðeins á tveimur svæðum þar sem gulir og brúnir litir ná norður fyrir 60. breiddarstig. Það er yfir Skandinavíu - þar halda hlýindin áfram og yfir Alaska - þar sem var svo hræðilega kalt fyrir viku. Það er á fréttum að skilja að hitinn i Fairbanks hafi komist í 25 stig í dag.
Ekki eiga að verða miklar breytingar á þessu. Okkar hitavonir felast einkum í tvennu. Annars vegar þeim möguleika að hlýindin yfir Skandinavíu hellist til vesturs. Það gerist oft í ámóta stöðu og var talið líklegt fyrir nokkrum dögum - en, nei, varla verður úr því. Hinn möguleikinn fellst í hæðarhryggnum hlýja suður í hafi. Fyrir tveimur dögum sögðu spár að hann myndi teygjast norður til Íslands með miklum og góðum hlýindum - en, nei, varla verður úr því.
Það er því útlit fyrir að við verðum áfram í græna litnum og þökkum í sjálfu sér fyrir það. Stöku sinnum getur austanáttin orðið furðuhlý hér suðvestanlands við til þess að gera lága þykkt. En fyrst þarf að hreinsa núverandi (sunnudagskvöld) norðaustanloft frá landinu.
Aðalkuldapollurinn er við norðurskautið, ansi krappur og kaldur en hreyfist mjög lítið næstu daga þannig að við getum verið áhyggjulítil gagnvart stórhretum að sinni. Á myndinni er kuldapollurinn yfir Evrópu að endurnýjast - græni liturinn er þar boðberi kulda og rigninga á þessum tíma árs.
26.5.2013 | 01:02
Furðumikil dýpkun (miðað við árstíma)
Nú er lægð á austurleið skammt suður af Grænlandi. Hún á að dýpka um 29 hPa á 24 klst (frá kl. 18 í dag, laugardag, til sama tíma á sunnudag). Ameríkumenn myndu kalla hana sprengilægð - það kalla þeir lægðir sem dýpka um meira en 24 hPa á sólarhring. Versta veðrið við lægðina verður vestan og sunnan við lægðarmiðjuna en hér á landi skerpir á austan- og norðaustanáttinni.
Fyrra kortið hér að neðan sýnir sjávarmálsþrýsting eins og hann var kl. 18 í dag, laugardag. Einnig má sjá helstu úrkomusvæði (græn) og hita í 850 hPa-fletinum (strikalínur).
Á kortinu er þrýstingur í lægðarmiðju 1003 hPa en á sólarhring síðar að vera kominn niður í 974 hPa. Þá verður lægðin beint suður af landinu. Hún á síðan að mjakast til suðausturs yfir Bretlandseyjar og bæta á leiðindin í Vestur-Evrópu eftir helgina.
Spár hafa nú í nokkra daga gert ráð fyrir þessari þróun en fyrst þegar á hana var minnst átti lægðin að ná í hlýtt loft í austri og beina því hingað. Svo fer ekki. Við sleppum samt tiltölulega vel, norðaustanáttin verður ekki sérlega köld nema rétt í upphafi. Síðan tekur við meinlausari austanátt.
Það er farið að verða nokkuð þreytandi að sjá alltaf í hlýtt loft eftir rúma viku - en aldrei neitt nær í tíma.
En við lítum líka á þrýstibrigðakort sem gildir á hádegi á morgun, sunnudaginn 26. maí.
Heildregnu línurnar sýna sjávarmálsþrýstinginn, þarna á lægðin enn eftir að dýpka um 6 til 7 hPa. Strikalínur (daufar) sýna þykktina og vel sést hversu öflugt aðstreymi af köldu lofti það er sem lægðin hefur í bakið. Litafletirnir sýna 3 klst þrýstibreytingu. Rauði liturinn sýnir fall, en sá blái ris. Hæsta falltalan er -10,5 hPa á 3 klst. Þetta er með mesta móti svona seint í maí.
25.5.2013 | 01:21
Nótt og dagur (af uppeldislegum ástæðum)
Já, við uppeldi verður stundum að horfa á erfiðu orðin, þau eru stundum erfiðari heldur en hugtökin sjálf sem þau lýsa. Þeir sem vilja líta undan gera það auðvitað - hér er engu ofbeldi beitt og því síður andlegum refsingum.
Orðið er skynvarmaflæði. Þetta orð hefur oft verið nefnt á hungurdiskum áður þannig að þeir sem hafa verið þaulsetnastir í ræktinni taka það léttilega. Skynvarmi er eins og nafnið bendir til sá varmi sem við finnst með skynfærunum. Enginn kvarði er á skynjuninni - hún getur blekkt en samt vitum við yfirleitt hvort það er heitt eða kalt sem við finnum. Skynvarmi kemst nálægt því að vera mælanlegur með hitamæli.
Skynvarmi flæðir sífellt milli lofts og yfirborðs - hvert sem það nú er, sjór, land eða húð. En er það yfirborðið sem hitar loftið eða loftið sem hitar yfirborðið?
Nútíma veðurspálíkön gera tilraun til að skera úr um hvort er. En þau fara ekki alltaf rétt með því þau vita of lítið um. Yfirborðshiti sjávar er e.t.v. nærri lagi vegna mælinga úr gervinhöttum og skipum, en hiti jarðaryfirborðs er erfiðari. Til dæmis skiptir höfuðmáli hvort snjór er á jörð eða ekki. Ef mælingar eða athuganir eru ekki fyrir hendi verður að giska á snjóhuluna.
Samevrópska harmonie-líkanið svonefnda býr sjálft til snjóhulu og heldur utan um búskap hennar. Ekki tekst alltaf jafnvel til - en í vetur hefur þó verið talsvert vit í sýndarsnjóhulu líkansins en það hefur þróast nokkuð í meðförum reiknimeistara Veðurstofunnar.
Við lítum á reikninga líkansins um skynvarmaflæði, annars vegar kl. 4 á aðfaranótt laugardags en hins vegar kl. 15 síðdegis á laugardag. Fyrra kortið er flæðið að nóttu. Mælieiningin er wött á fermetra. Kortin batna talsvert séu þau stækkuð.
Græni liturinn sýnir þau svæði þar sem flæðið er úr lofti til jarðar. Svæðin eru óregluleg - styrkur flæðisins ræðst mest af lofthita og vindhraða, því meiri sem vindurinn er því greiðara gengur að koma á snertingu milli loftsameinda og yfirborðs og að koma í veg fyrir að jafnvægi geti skapast. Hlýtt loft hefur líka meira að gefa heldur en kalt. Streymi frá lofti til yfirborðs er hér talið neikvætt. Hæsta talan á grænu svæðunum er 214 (mínus) í Vopnafirði. Þar hlýnar yfirborðið mest (loftið kólnar mest). Einnig má taka eftir því að norðurhluti jöklanna stóru er dekkri heldur en suðurhlutinn. Þarna er loftið tiltölulega hlýtt í niðurstreymi og kólnar þar af leiðandi mikið.
Yfir sjónum eru tölurnar víðast jákvæðar - sjórinn er enn að gefa eftir varma til loftsins. Langhæsta jákvæða talan er langt úti af Vestfjörðum 209 wött á fermetra. Þar er streymir kalt norðanloft til suðurs með nokkrum ákafa (sjá vindörvarnar). Greinilegt er að líkanið sér straumaskilin við sunnanverða Austfirði vel. Við Suðausturland er nokkurn veginn jafnvægi milli lofthita og sjávarhita. Sjórinn undan Austfjörðum er mun kaldari heldur en loftið sem yfir hann streymir og kælir það.
En lítum líka á síðdegisástandið. Það er mjög ólíkt yfir landi.
Munurinn á kortunum tveimur er minni yfir sjónum. Heldur hefur bætt í norðaustanáttina úti af Vestfjörðum auk þess sem loftið hefur kólnað (ekki sýnt). Loftið úti af Austfjörðum hefur líka kólnað og dökkgrænu svæðin því dregist saman.
Yfir landi er nú mikið af rauðum svæðum og blettum. Þar hefur sólin hitað yfirborð landsins svo um munar. Þó mismikið. Vestanlands og sunnan liggja borðalaga svæði frá suðvestri til norðausturs. Þar má sjá áhrif skýja eða úrkomu. Landsyfirborðið kólnar fljót þegar ský dregur fyrir sól. Blettirnir norðaustanlands sýna snjóhuluna í líkaninu. Þar sem er autt nær sólin að hita landið svo um munar, en snjórinn endurvarpar sólargeislunum og landið getur ekki hitað loftið. Snjórinn kælir það hins vegar dag og nótt. Ritstjórinn veit ekki hvort líkanið gerir greinarmun á gömlum og nýjum snjó, sennilega ekki. Sé snjórinn nýr er endurskin hans talsvert meira heldur en ef hann er margra vikna gamall. Hér væri möguleiki á endurbótum. Hæstu tölurnar yfir landi eru um 230 wött á fermetra.
Hér hefur ekkert verið minnst á bróður skynvarmans - dulvarmann - við sinnum honum síðar - ef gott færi gefst.
24.5.2013 | 00:35
Kalt og blautt í Vestur-Evrópu
Næstu daga situr kuldapollur fastur yfir Evrópu vestanverðri, Bretlandi síðan Frakklandi, Norður-Ítalíu, Alpalöndum og svo að lokum yfir Þýskalandi. Okkur finnast hitatölurnar ekki sérlega lágar - en þegar þessi kuldi gengur yfir hlýtt land verður loftið mjög óstöðugt, skúra og þrumuveðrasælt. Sömuleiðis er loftið nægilega kalt til þess að skila snjó til fjalla allt suður á Spán.
Síðdegis í dag var aðeins 5 stiga hiti við strendur Skotlands og 7 til 8 í Norður-Frakklandi og í Niðurlöndum. Hvöss norðanátt var yfir Norðursjó. Á sama tíma var 17 til 18 stiga hiti við strendur Finnmerkur í Norður-Noregi.
Kortið sýnir hæð 500 hPa-flatarins og þykktina eins og evrópureiknimiðstöðin reiknar um hádegi á morgun, föstudaginn 24. maí.
Jafnhæðarlínur eru heildregnar en litakvarðinn sýnir þykktina. Dekksti græni liturinn sýnir þykkt á bilinu 5280 til 5340 metra. Hún er um 5280 metrar í miðju kuldapollsins. Svona pollar lifa oft dögum saman og geta valdið miklu leiðindaveðri - sannkallaðir sumarleyfaspillar.
Í Austur-Evrópu eru á sama tíma mikil hlýindi, í Svartahafskverkinni sem örin bendir á er blettur með þykkt yfir 5760 metrum. En lægðardragið sem á kortinu er yfir Istambul er líklegt til leiðinda - með sinni lægðabeygju en hún auðveldar þrumuveðramyndun.
Meðan þessi kuldapollur og hugsanlegir sporgöngupollar grassera í Mið- og Vestur-Evrópu dæla þeir hlýju lofti norður á bóginn yfir Skandinavíu austanverða. Eitthvað af því gæti sloppið vestur á bóginn okkur til þæginda - en það er óþægilegt að hafa eitthvað nærri því innan seilingar en ná því samt ekki.
23.5.2013 | 00:36
Sunnanátt
Í kvöld (miðvikudag 22. maí) hefur blikubakki verið að fikra sig upp eftir vesturloftinu - einn af mörgum í þessum mánuði. Flestir hafa þeir þó látið undan síga og ýmist eyðst á staðnum eða farið til suðausturs fyrir sunnan land. Þrátt fyrir að blikurnar hafi verið margir hafa aukasólir eða baugar verið lítið áberandi - svo lítið raunar að líklega hafa þetta verið dropaský í flestum tilvikum en ekki ískristallar.
Og strangt tekið heita dropabakkar gráblikur. Munurinn á bliku og grábliku er einmitt sá að sú fyrrnefnda er úr ís en sú síðarnefnda úr dropum. Gráblika er eins og nafnið bendir til oftast grárri en blikan - einkennislitur hennar er hvítur. Til að rosabaugar og aukasólir sjáist þurfa ískristallar að vera til staðar. Dropar og ískristallar þrífast mjög illa í sambýli - kristallarnir aféta dropana.
Í blikunni í kvöld mátti sjá votta fyrir aukasólum - gílum, en sennilega lá þunn blikuslæða í sérstöku skýjalagi ofan við gráblikuna og þess vegna hafi gílarnir verið dauflegir að sjá. En þetta eru ágiskanir.
Hvað sem skýjavangaveltum líður eru spár sammála um að skýjabakkinn gangi alveg yfir landið og þegar þetta er skrifað (nærri miðnætti) er byrjað að rigna um 150 km vestur af Reykjanesi - sé að marka ratsjármynd. Rigningin á að ná til landsins með sunnanátt í fyrramálið. Þá hlýnar eftir kalda nótt.
Spár gera síðan ráð fyrir sunnanátt áfram. Þetta má sjá á 500 hPa spákorti sem gildir um hádegi á föstudag.
Jafnhæðarlínur eru heildregnar og merktar í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Því þéttari sem þær eru því hvassari er vindurinn. Jafnþykktarlínurnar á kortinu eru rauðar og strikaðar, sömuleiðis merktar í dekametrum. Því meiri sem þykktin er því hlýrra er loftið.
Það er 5400 metra jafnþykktarlínan sem liggur norður fyrir Ísland og sömuleiðis má sjá smáblett þar sem þykktin er 5460 metrar. Það gæti dugað í 17 til 19 stiga síðdegishita um Norður- og Austurland. Hæsti hiti ársins það sem af er er 18,1 stig - mældust á Sauðárkróksflugvelli á laugardaginn var. Hvort föstudagshitinn nú fer hærra verður að sýna sig. Syðra er spáð harla hryssingslegu veðri á föstudag - en ekki verður kalt.
Næsta kerfi er síðan fyrir vestan Grænland og hreyfist austur. Evrópureiknimiðstöðin lætur það grafa sig niður fyrir suðvestan og sunnan land. Sé sú spá rétt gæti landið suðvestanvert notið góðs af þegar lægðin fer að veiklast. Bandaríska veðurstofan er fljótari upp með norðaustanáttina.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 11:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.5.2013 | 01:13
Molar um þrumuveður (seigt)
Skýstrokkarnir í Bandaríkjunum hafa áfram verið í fréttum í dag (þriðjudaginn 21. maí). Í pistli í gær voru sýnd kort af grunnstöðunni. Til að stórt þrumuveðrakerfi myndist er nauðsynlegt að loft komi að úr að minnsta kosti tveimur áttum og auk þess sé lóðréttur vindsniði til staðar þar sem loftstraumarnir tveir mætast.
Vestra verða þrumukerfin hvað illskeyttust þegar loft sunnan af Mexíkóflóa mætir þurru lofti að vestan. Vestanloftið má gjarnan vera hlýtt. En við skulum hér líta á það hvernig lóðréttum stöðugleika er háttað þegar stefnumótið heppnast. Myndin er fengin úr kennslubók eftir Ronald Stull - þekktan og góðan fræðara.
Þetta er mikill stafli og sýnir lagskiptingu lofts frá jörð og upp í veðrahvörf. Í Bandaríkjunum eru þau gjarnan í 12 til 15 km hæð á þessum árstíma, jafnvel hærra uppi. Nú reynir nokkuð á athyglina.
Raka loftið neðst er komið sunnan frá Mexíkóflóa og er í rauninni mjög hlýtt - mælt á hitamæli. En það er samt ekki nógu hlýtt til þess að rísa upp af sjálfsdáðum og ryðjast upp í gegnum næsta lag fyrir ofan - það sem merkt er sem stöðugt. Þar stígur mættishiti ört með hæð, þetta loft er þurrt og hlýtt eins og Þriðja lagið. Það verður að vera minnsta kosti það hlýtt að það geti legið ofan á raka loftinu. Mættishiti þess er þar með hærri í því þurra heldur en því raka.
Efsta lagið er merkt sem kalt - það er það auðvitað á mæli en mættishiti þess er samt að minnsta kosti jafnhár og lagana tveggja fyrir neðan. Við köllum það þó kalt vegna þess að það er kaldara heldur en loft sem liggur jafnhátt til hliðar utan við myndina. Reyndar er eina krafan sem við gerum til efri laganna tveggja sú að mættishiti hækki lítið upp í gegnum það sem liggur ofan á stöðuga laginu - allt til veðrahvarfa.
Aðalatriðið er nú þetta: Raka loftið er þrungið dulvarma auk þess sem það er hlýtt (jafngildismættishiti þess er mjög hár). Um leið og dulvarminn losnar (t.d. vegna uppstreymis vegna sólarhitunar yfirborðsins) hækkar mættishiti í raka loftinu svo mikið að hann verður meiri heldur en nokkurs staðar á leiðinni upp til veðrahvarfa. Loftið missir hald og streymir óhindrað upp á við. Við það losnar meiri og meiri dulvarmi.
Sé vindur enginn er líklegt að aðeins myndist stórir þrumuklakkar á stangli en ekki stór kerfi. Vindurinn sér bæði um það að halda aftur af fyrstu stigum uppstreymisins (með blöndun) og að sjá til þess að aðfærsla bæði raka- og þurra loftsins haldi linnulítið áfram - afgreiði fóðrið.
Það er mikið atriði að boginn sé spenntur til hins ítrasta áður en allt veltur yfir sig. Því meira verður veðrið að lokum. Best tekst til þegar vindur er mjög misjafn í hinum ýmsu hæðum. Gríðarlegt upp- og niðurstreymið getur þá aflagað vindinn á ýmsa vegu, búið til lóðréttan snúning úr láréttum eða dregið niður hvassa vinda úr þurra- eða kalda loftinu á myndinni.
Þá geta skýstrokkar myndast - en líka svonefndir fallsveipir (microburst) og fallgarðar (derrecho). Allir þessir sveipir eru varasamir - skýstrokkarnir þó sýnu verstir.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 01:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
21.5.2013 | 01:07
Skýstrokkar í Bandaríkjunum
Grimmir skýstrokkar hafa síðustu daga herjað á Miðvesturfylki Bandaríkjanna. Eftir fréttum að dæma virðist tjón til þessa hafa orðið mest í Oklahómafylki. Meginátakasvæðið á að sögn að hreyfast austur á bóginn.
Hér má rifja upp hvers konar veðurstaða það er sem býr til skýstrokkana. Þeir verða til í gríðarlegum þrumuveðraklösum þar sem bæði eldingar og risahaglél valda líka tjóni. Kerfi sem þessi verða helst til þegar fara saman þrjú atriði sem við skulum líta á á tveimur veðurkortum sem gilda um hádegi á þriðjudag (21. maí). Þau eru fengin úr spásafni evrópureiknimiðstöðvarinnar.
Svæðið nær frá Mið-Ameríku í suðri og norður á mitt Kanada. Jafnþrýstilínur við sjávarmál eru heildregnar, en hiti í 850 hPa er sýndur með litabrigðum. Dekksti brúni liturinn sýnir hvar hitinn í fletinum er meiri en 25 stig. Lægð er yfir Miðvesturfylkjunum norðanverðum og þaðan liggur lægðardrag til suðurs og suðsuðvesturs. Austan lægðardragsins er sunnanátt sem ber hlýtt og rakt loft til norðurs frá Mexíkóflóa (rauð ör) (fyrsta atriði).
Gula örin sýnir hlýtt loft að vestan streyma til móts við hlýja og raka loftstrauminn (annað atriði). Þetta aðstreymi er meira áberandi í 3 til 5 km hæð heldur en í 850 hPa (1500 m). Vestanloftið er jafnvel hlýrra heldur en það sem kemur að sunnan - en það er miklu þurrara. Takist því að leggjast ofan á raka loftið byggist upp gríðarlegt veltimætti (CAPE = convective available potential energy = losanleg uppstreymismættisorka = veltimætti). Rakt loft er léttara heldur en jafnhlýtt þurrt. Fari uppstreymi í gang á annað borð verður það óstöðvandi og til verður gríðarlegt þrumuveður.
En þetta er ekki alveg nóg því til þess að þrumuveðrakerfi eða klasi geti myndast þarf ákveðinn takt til þess að koma sífellt nýju lofti úr suðri og vestri inn í kerfið og út úr því efst uppi. Snyrtilegast verður þetta ef háloftaröst gengur inn í kerfið ofanvert - sú sama og útvegar þurra loftið (þriðja atriði). Best er að mikill mismunur (vindsniði) sé á vindhraða og stefnu ofarlega og neðarlega í kerfinu þannig að í því mætist sífellt loft að sunnan og vestan.
Í stöðu dagsins má sjá röstina (þéttar jafnhæðarlínur) á 500 hPa-kortinu hér að neðan.
Vindröstin er einmitt þar sem loftstraumarnir tveir sem sýnir voru á fyrri myndinni mætast. Hvernig skýstrokkarnir verða til er flóknara mál og frásögn af því verður að bíða betri tíma. En fyrir alla muni flettið skýstrokkum (tornado) og tilurð þeirra upp á netinu.
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 33
- Sl. sólarhring: 287
- Sl. viku: 2412
- Frá upphafi: 2434854
Annað
- Innlit í dag: 29
- Innlit sl. viku: 2139
- Gestir í dag: 27
- IP-tölur í dag: 27
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010