Skýstrokkar í Bandaríkjunum

Grimmir skýstrokkar hafa síðustu daga herjað á Miðvesturfylki Bandaríkjanna. Eftir fréttum að dæma virðist tjón til þessa hafa orðið mest í Oklahómafylki. Meginátakasvæðið á að sögn að hreyfast austur á bóginn.

Hér má rifja upp hvers konar veðurstaða það er sem býr til skýstrokkana. Þeir verða til í gríðarlegum þrumuveðraklösum þar sem bæði eldingar og risahaglél valda líka tjóni. Kerfi sem þessi verða helst til þegar fara saman þrjú atriði sem við skulum líta á á tveimur veðurkortum sem gilda um hádegi á þriðjudag (21. maí). Þau eru fengin úr spásafni evrópureiknimiðstöðvarinnar.

w-blogg210513a

Svæðið nær frá Mið-Ameríku í suðri og norður á mitt Kanada. Jafnþrýstilínur við sjávarmál eru heildregnar, en hiti í 850 hPa er sýndur með litabrigðum. Dekksti brúni liturinn sýnir hvar hitinn í fletinum er meiri en 25 stig. Lægð er yfir Miðvesturfylkjunum norðanverðum og þaðan liggur lægðardrag til suðurs og suðsuðvesturs. Austan lægðardragsins er sunnanátt sem ber hlýtt og rakt loft til norðurs frá Mexíkóflóa (rauð ör) (fyrsta atriði).

Gula örin sýnir hlýtt loft að vestan streyma til móts við hlýja og raka loftstrauminn (annað atriði). Þetta aðstreymi er meira áberandi í 3 til 5 km hæð heldur en í 850 hPa (1500 m). Vestanloftið er jafnvel hlýrra heldur en það sem kemur að sunnan - en það er miklu þurrara. Takist því að leggjast ofan á raka loftið byggist upp gríðarlegt veltimætti (CAPE = convective available potential energy = losanleg uppstreymismættisorka = veltimætti). Rakt loft er léttara heldur en jafnhlýtt þurrt. Fari uppstreymi í gang á annað borð verður það óstöðvandi og til verður gríðarlegt þrumuveður.

En þetta er ekki alveg nóg því til þess að þrumuveðrakerfi eða klasi geti myndast þarf ákveðinn takt til þess að koma sífellt nýju lofti úr suðri og vestri inn í kerfið og út úr því efst uppi. Snyrtilegast verður þetta ef háloftaröst gengur inn í kerfið ofanvert - sú sama og útvegar þurra loftið (þriðja atriði). Best er að mikill mismunur (vindsniði) sé á vindhraða og stefnu ofarlega og neðarlega í kerfinu þannig að í því mætist sífellt loft að sunnan og vestan.

Í stöðu dagsins má sjá röstina (þéttar jafnhæðarlínur) á 500 hPa-kortinu hér að neðan.

w-blogg210513b

Vindröstin er einmitt þar sem loftstraumarnir tveir sem sýnir voru á fyrri myndinni mætast. Hvernig skýstrokkarnir verða til er flóknara mál og frásögn af því verður að bíða betri tíma. En fyrir alla muni flettið skýstrokkum (tornado) og tilurð þeirra upp á netinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

 • Slide10
 • Slide8
 • Slide6
 • Slide5
 • Slide4

Heimsóknir

Flettingar

 • Í dag (22.4.): 72
 • Sl. sólarhring: 438
 • Sl. viku: 1836
 • Frá upphafi: 2349349

Annað

 • Innlit í dag: 59
 • Innlit sl. viku: 1651
 • Gestir í dag: 59
 • IP-tölur í dag: 58

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband