Bloggfærslur mánaðarins, desember 2013
19.12.2013 | 01:37
Óvenjuhlý norðanátt
Nú nálgast óvenjudjúp lægð landið úr suðaustri og á undan henni fer hvöss norðlæg átt. Lægðin sem fór rétt vestan við land síðastliðna nótt skilaði lægst 945,1 hPa á veðurstöð. Það var á Tálknafirði kl. 4. Það verður gaman að sjá hversu neðarlega nýju lægðinni tekst að koma loftvoginni.
Lægðin nýja hefur valdið talsverðu tjóni á Bretlandseyjum í dag, rafmagnsleysi, trjáfalli og umferðartruflunum. Gera verður ráð fyrir vondu veðri víða á landinu á morgun (fimmtudag) af hennar völdum. Hátt gæti orðið í sjó norðan- og norðaustanlands. Sömuleiðis verður talsverð eða mikil úrkoma. En þetta norðanskot er óvenju hlýtt.
Við lítum fyrst á hita í 500 hPa-fletinum og hæð hans á morgun kl. 15 (fimmtudaginn 19. desember).
Hér er lægðin fyrir austan land, hæð flatarins í henni miðri er rétt ofan við 4600 metra - og sjávarmálsþrýstingur í kringum 945 hPa. Lægðinni fylgir mjög hlýtt loft sem komið er sunnan úr höfum og hér er það komið norður fyrir lægðina. Það er ekki alveg venjulegt að það skuli vera nærri því 20 stigum kaldara fyrir sunnan land heldur en norðan við það.
Atlantshafið er mikill varmageymir og kalda loftið sem kemur frá Kanada hlýnar um síðir við margra daga dvöl yfir hlýjum sjó. En hlýjasta loftið flýtur auðvitað ofan á kaldara lofti í neðsta hluta veðrahvolfs við Ísland. Þó er þessu hlýja lofti að takast að hreinsa það kalda burt af hafsvæðinu norðan við land. Það má sjá af næsta korti. Þaö sýnir hæð 925 hPa-flatarins og hitann í honum á sama tíma og á kortinu að ofan - kl. 15 á fimmtudag.
Hér er 925 hPa flöturinn lægstur um 140 metra ofan sjávarmáls. Þar er loftið hlýjast, 5 stig. Við sjáum að kalda loftið að norðan verður að láta sér örmjóan streng til suðurs frá Norðaustur-Grænlandi. Grænland hindrar mesta kuldann á kortinu (fjólublái liturinn) í að komast til austurs.
Þetta þýðir að norðaustan- og norðanáttin við Norðurland verður með allra hlýjasta móti og einfaldalega spurning hvort úrkoma muni falla sem regn á láglendi. Við tökum ekki afstöðu hér - látum vakt Veðurstofunnar um að ráða fram úr því.
Í svona hlýju lofti er mættishiti í 850 hPa auðvitað hár - það er sá hiti sem loft í 850 hPa-fletinum fengi ef það væri rifið niður til sjávarmáls án blöndunar við það loft sem fyrir er.
Kortið hér að neðan sýnir mættishitann í litum en jafnþrýstilínur við sjávarmál eru heildregnar.
Mættishiti er yfir 10 stigum yfir Norðausturlandi og á stóru svæði fyrir norðan og norðaustan land. Hæstur er hann við Jan Mayen, 15,7 stig og nær einnig nærri 15 stigum yfir Suðausturlandi. Mættishiti hærri en 10 stig er ekki óalgengur hér við land í desember en óvenjulegt er að sjá hann í norðanátt yfir Norðausturlandi.
Þegar lesið er úr þessu korti verður að hafa í huga að mættishitinn miðar við 1000 hPa - en hér er þrýstingur við sjávarmál mun lægri. Ef við tökum línuna sem liggur yfir Langanes sem dæmi, 948 hPa við sjávarmál. Þar væri 1000 hPa-flötinn að finna 400 metra undir sjávarmáli. Miðað við sjávarmál er mættishitinn því ofmetinn um um það bil 4 stig. Munurinn er minni vestanlands - um 300 metrar eða 3 stig
Því miður á þetta hlýjasta loft að fara til vesturs um Norðurland og fyrir norðan land, en á ekki að ná til vestari hluta Suðurlands - sé að marka spár. Það væri út af fyrir sig mjög athyglisvert að fá 7 stiga hita á Suðurlandi í norðanátt, sem gæti hins vegar gerst í skjóli Vatnajökuls - hinn upprunanlegi hnjúkaþeyr.
En lægðir halda áfram að vera gríðardjúpar á Atlantshafi - en virðast fara hjá. Til þess að gera hlýtt loft fylgir þó föstudags/laugardagslægðinni. Svo tekst kannski um síðir að hreinsa hlýja loftið frá Norðaustur-Grænlandi. Evrópureiknimiðstöðin segir kalda loftið ná undirtökum að nýju á aðfangadag. Þótt þessi norðanátt sé hlý er samt varasamt að tala um hlýindi í venjulegri merkingu. - Aðeins óvenjuhlýja norðanátt.
[Athugasemd 21.12. Vegna mistaka í vinnslu datt ein málsgrein burt úr upphaflega textanum (átti að límast úr eldri texta ritstjórans). Prófarkalesari hungurdiska fékk að sjálfsögðu áfall - en ritstjórinn ákvað að reka hann ekki og vonar að langt verði í ámóta slys. Lesendur eru beðnir velvirðingar].
Vísindi og fræði | Breytt 21.12.2013 kl. 01:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.12.2013 | 02:32
Lægð í myndun
Nú, þegar mjög djúp lægð er við vesturströnd landsins - og ekki úr sögunni, er næsta kraftlægð að myndast suður í hafi. Hún veldur illviðri hér á landi á fimmtudaginn eftir að hafa hrellt íra, skota og færeyinga strax á morgun (miðvikudag). Við sjáum lægðina vera að myndast á hitamyndinni hér að neðan.
Lægðin við Ísland olli leiðindaslagviðri í dag (þriðjudag). Nýja lægðin er rétt að verða til úr nauðsynlegu púsli. Hún hefur heimskautaröstina sér við hlið (gulbrúna línan), hlýja færibandið er komið á stjá (rauð ör)- orðið til úr undanskoti að sunnan. Kalda loftið sækir að úr vestri (blá ör) og kalda færibandið er að verða til í neðri lögum á norðurjaðri lægðarinnar. Auk þess er þurra rifan mætt á staðinn (lítið gult þ sem sýnir skýlaust svæði). Í þurru rifunni er loft úr upphæðum - sem útvegar lægðinni snúning. Svo virðist sem annar hárastarhluti sé líka á ferðinni, aðeins sýnilegur á einum stað - eins og reykjarmökkur sem liggur frá lægðinni í átt til Írlands.
Lægðin á að dýpka um 19 hPa frá miðnætti til kl. 6 að morgni og á að vera komin niður fyrir 950 hPa um miðnætti, hefur þá dýpkað alls um 38 hPa á sólarhring.
Hér kemur lægðin á fimmtudag og að austan. Svo vill til að lítið er af köldu lofti við Austur-Grænland fyrir norðan Ísland. Veðrið verður því varla af allra verstu gerð þótt lægðir sem koma úr suðaustri inn yfir Austur- eða Norðausturland séu alltaf viðsjárverðar - sérstaklega að vetrarlagi. Þær dengja oft niður snjó á stuttum tíma og snjóflóðadraugurinn vaknar til lífs. En svo virðist sem norðanáttin í vesturjaðri lægðarinnar verði tiltölulega hlý. Sömuleiðis dregur fljótt úr vindi aftur - sé að marka spár.
Við vonum því það besta þótt lægðin sé afspyrnudjúp. Í fljótu bragði virðist lægsti þrýstingur sem mælst hefur á landinu það sem af er þessari öld vera um 942 hPa - tæplega verður það slegið en fróðlegt að fylgjast með.
Þarnæsta lægð virðist eiga að fara átakalítið (fyrir okkur) fyrir sunnan land. Evrópureiknimistöðin og bandaríska veðurstofan eru sammála um það - en þó er sá munur að ameríska spáin er hlýrri og gefur jafnvel í skyn að frostlaust eða frostlítið verði um helgina - en reiknimiðstöðin er kaldari.
17.12.2013 | 01:20
Spillibloti
Það er kallað spillibloti þegar rignir ofan í snjó en frystir aftur áður en snjórinn nær allur að bráðna. Var það eitthvert óvinsælasta veðurlag á Íslandi á fyrri tíð - og er svo enn. Blotar geta að vísu fest mjöll þannig að síður skefur. Nú á tímum hefur það þann kost að ekki þarf að skafa sama snjóinn hvað eftir annað af vegum. En þar með eru kostirnir upptaldir - hálkan ræður ríkjum í öllu sínu veldi. Í desember þarf bloti að vara lengur þannig að gagn verði að heldur en þegar komið er fram í mars þegar sólin er farin að hjálpa verulega til. Í skammdeginu er enga hjálp að hafa.
Nú stefnir í spilliblota. Lægð kemur sunnan úr hafi og fer yfir landið eða rétt vestan við það á þriðjudagskvöld og aðfaranótt miðvikudags. Hlýtt loft fylgir lægðinni. Mættishiti í 850 hPa fer upp í um 16 stig yfir Norðurlandi (sé að marka spár) og þykkt í um 5360 metra. Hvort tveggja lofar hláku - en bráðnandi snjór og hraðferð hlýja loftsins koma í veg fyrir að eitthvað gagn sé að. Nægir aðeins í spilliblota og eftirfylgjandi klakamyndun. Verði okkur að góðu.
Sjálfsagt verður hríð sums staðar á undan og eftir lægðinni - en rétt er að sækja visku um það til Veðurstofunnar. Sérstaklega þurfa ferðalangar sem ætla sér yfir heiðar eða milli landshluta á slíku að halda - en líka við dreifbýlismenn höfuðborgarsvæðisins.
Við kíkjum á sjávarmálsþrýstispá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir á miðnætti á þriðjudagskvöld.
Lægðin er hér 947 hPa í miðju sem er skammt vestur af landinu. Spurning hvað þrýstingurinn fer neðarlega á veðurstöðvum. Tala á bilinu 945 til 950 sést um það bil tvisvar á áratug í desember síðast í fyrra. En á tímabilinu frá 1874 til okkar daga hefur það gerst 13 sinnum að þrýstingur á veðurstöð hefur farið niður fyrir 945 hPa hér á landi í þeim mánuði. Hefði athuganatíðni og þéttni verið jafnmikil allan tímann og nú er myndi tilvikunum sennilega fjölga eitthvað. Undir 945 hPa í desember er því það sem búast má við einu sinni á áratug eða svo.
Undir 940 er beinlínis orðið mjög sjaldgæft - hefur aðeins gerst fjórum sinnum á umræddu tímabili. Metið er hins vegar talsvert neðar, 919,7 hPa.
Næstu lægð má líka sjá á kortinu. Hún verður langt suður í hafi annað kvöld og rétt að taka á sig mynd. Við giskum á 987 hPa í miðju þegar kortið gildir. Sólarhring síðar á hún að vera komin niður í 951 hPa, hefur dýpkað um 36 hPa á einum sólarhring. Reiknimiðstöðin vill reyndar gera enn betur því 12 tímum síðar á hún að vera komin niður í 941 hPa - þá plagandi okkur úr austri - búin að taka sveig til norðurs vestur af Skotlandi og Færeyjum.
Evrópureiknimiðstöðin hefur verið sérlega hlynnt ofurdjúpum lægðum í yfirstandandi (kanadíska) kuldakasti á Atlantshafi. Tvö skemmtileg dæmi má sjá í viðhenginu - bæði úr tölvuleik reiknimiðstöðvarinnar - og bæði fallin úr gildi - munið það.
16.12.2013 | 01:07
Næsta lægð er við Nýfundnaland
Lægðirnar kröppu sem gengu nærri Færeyjum í gær og dag (sunnudag 15. desember) voru litlar um sig þegar þær dýpkuðu hvað mest. Síðari lægðin þó aðeins stærri. Svo er að heyra að allmiklir skaðar hafi orðið í Færeyjum. Hvasst varð um tíma sums staðar austanlands í dag og sömuleiðis olli lægðin miklu hvassviðri og einhverju tjóni í Skotlandi.
Næsta lægð verður að sögn álíka djúp og þær fyrri en talsvert fyrirferðarmeiri. Það þýðir að vindur verður almennt minni - en nægur samt. Lægðin á að fara yfir Ísland á aðfaranótt miðvikudags. Klukkan 18 á morgun (mánudag) verður hún um 700 km austur af Nýfundnalandi.
Hún verður þá um 974 hPa í miðju en á að dýpka niður í um 950 hPa á leið hingað til lands. Það háir lægðinni aðeins - ef svo má segja - að hún skilur eftir sig lægðardrag til vesturs um Nýfundnaland og hefur farið á mis við kaldasta loftið norðurundan. Hún á því rétt svo að ná inn í skilgreininguna amerísku á sprengilægð, en til að komast í þann flokk verða lægðir að dýpka um 24 hPa á sólarhring. En við verðum samt að taka lægðina alvarlega og rétt að fylgjast vel með veðurspám Veðurstofunnar.
Þessi lægð á hins vegar að leggja upp fyrir þá næstu þar á eftir sem springur út suður í hafi strax á miðvikudag. Hún á að taka 38 hPa á 24 tímum - eða svipað og Færeyjalægðirnar. Að sögn evrópureiknimiðstöðvarinnar eru Færeyjar og Skotland enn í skotlínunni - en við sleppum vonandi að mestu - en trúlega ekki alveg.
Efnislega á svipuð staða að halda áfram svo lengi sem sést. Margar krappar óðalægðir á Atlantshafi.
15.12.2013 | 01:25
Ólíkindi?
Lægðir á Norður-Atlantshafi eru sumar hverjar mjög krappar þessa dagana - dýpka hratt og fara hratt yfir. Tölvuspám hefur ekki gengið vel að ráða við þær og sumar hafa orðið enn krappari og dýpri í spám heldur en í raunheimum. Hér að neðan er kort sem sýnir þrýstibrigði - í þessu tilviki hversu mikið þrýstingur við sjávarmál breytist á þremur klukkustundum. Af slíkum kortum kemur hreyfing þrýstikerfa mjög vel fram.
Það telst óvenjulegt ef þrýstingur stígur eða fellur um 15 til 20 hPa á þremur klukkustundum. Allt yfir 20 hPa telst til tíðinda. Svæði þar sem þrýstingur breytist þetta mikið eru oftast ekki stór um sig. Hins vegar er Atlantshafið mjög stórt þannig að ekki þarf að vera óvenjulegt þótt háar tölur sjáist einhvers staðar - og það gerist alloft á vetri hverjum. Líkurnar á að einhver ákveðinn staður upplifi mjög stórar þrýstibreytingar eru hins vegar ekki miklar. Þetta er svipað og á smáeyjum Vestur-India. Áratugir geta liðið á milli þess að einhver ákveðin þeirra verði fyrir kröftugum fellibyl þrátt fyrir að vera sífellt í skotlínunni. Kjarnar fellibylja eru litlir um sig - rétt eins og eyjarnar sjálfar.
Ísland er miklu stærra en samt er ekki vitað til þess að þrýstingur hafi hér fallið um meir en 30 hPa á þremur klukkustundum. Sennilega hefur það þó borið við - en ekki komið fram í athugunum - þær voru lengi vel gisnar. Íslandsmet í þrýstirisi er 33 hPa á 3 klst er kröpp lægð fór yfir Austurland í janúar 1949.
Í spá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir kl. 6 að morgni 15. desember má sjá gríðarkrappa lægð fyrir sunnan land.
Kortið sýnir sjávarmálsþrýsting (heildregnar línur) og 3 klukkustunda þrýstibreytingu. Við sjáum gríðarkrappa lægð (ekki mjög stóra) á leið til norðausturs fyrir sunnan land. Á undan henni hefur þrýstingur fallið um 35,3 hPa á næstliðnum þremur klukkustundum. Hinu megin við lægðina er 29,1 hPa þrýstiris. Lægðin er 942 hPa í miðju og hefur þegar hér er komið sögu dýpkað um 17 hPa á 6 klukkustundum. Lægðarmiðjan er ekki fjarri þeim stað sem veðurskipið Lima hélt til á í fornöld.
Boðað þrýstifall er með ólíkindum. En verður þetta svona - eða gerist það aðeins í líkanheimum, tölvuleiknum? Aðeins 12 klukkustundum síðar á lægðin að vera farin að grynnast. Skammvinn frægð - vonandi að Færeyingar sleppi þá með skrekkinn.
Ekki sluppu þeir alveg við skaða vegna lægðarinnar sem á kortinu er fyrir norðaustan land. Norðlýsið í Færeyjum segir:
Tað hevur leikað hart á síðani seint seinnapartin í gjár og vit hava fingið umleið 30 fráboðanir um vindskaðar, sosum húsatekjur eru foknar, rútar knústir og húsaklæðningar hava skrætt seg leysar.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 01:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
14.12.2013 | 01:58
Ójafnvægi
Við fylgjum enn lægðaganginum og lítum í dag á stöðuna á norðurhveli. Á venjulegum degi er kaldasta loftið yfirleitt ekki fjarri þeim stað þar sem veðrahvörfin eru lægst. Það er ekki þannig á kortinu hér að neðan. Það gildir um hádegi laugardaginn 14. desember.
Kortið batnar við stækkun. Heildregnar línur sýna hæð 500 hPa flatarins - þær eru mjög góðir fulltrúar fyrir hæð veðrahvarfanna. Litafletir sýna þykktina en hún segir til um hita í neðri hluta veðrahvolfs. Við sjáum að við norðurskautið má allt heita með felldu, þar liggur mjög lág þykkt undir lágum veðrahvörfum. En lægðin sem er með miðju við Suður-Grænland er langt frá köldustu svæðunum yfir Kanada (fjólubláir blettir).
Allt kalda loftið virðist streyma til austurs út á Atlantshafið - fyrir sunnan meginlægðina. Þar er tekist á um hæð veðrahvarfanna - hafið hitar loftið og belgir veðrahvolfið út - en ískalt loft berst sífellt úr vestri og dregur þau niður. Í suðurjaðri kalda loftsins er gríðarlegur vindstrengur. Þar myndast smábylgjur og sé rýnt í kortið má sjá að jafnhæðar- og jafnþykktarlínur falla ekki saman.
Á kortið hafa verið settar inn þrjár örvar sem sýna misgengi af þessu tagi. Bylgja í þykktarmynstrinu gengur inn til móts við lægri hæð þrýstiflatarins. Þar undir eru lægðir við sjávarmál. Áður en tölvuspár komu til sögunnar sáust þessar bylgjur oft vel - en mjög erfitt var að spá fyrir um þróun þeirra. Það er á mörkunum að það takist með fullkomnustu reiknilíkönum okkar daga.
Evrópureiknimiðstöðin sendir bylgjurnar tvær á Atlantshafi til norðausturs fyrir suðaustan land - sem fárviðrislægðir - sú fyrri fer hjá á laugardagskvöld - en sú síðari sólarhring síðar. Rétt er að fylgjast vel með þessum lægðum. Þriðja bylgjan er á kortinu vestur við Mississippi og rennur til austurs. Hún á eftir að mæta kalda loftinu, Atlandshafinu og hlýju lofti að sunnan á leið sinni til okkar. Lægð hennar er ekki orðin til þegar þetta er skrifað - skyldi reiknimiðstöðin hitta á rétt svar? Hún stingur nú upp á þriðjudagskvöldi sem komutíma lægðarinnar til Íslands.
13.12.2013 | 01:21
Smávegis af illviðrum
Í dag fór kröpp lægð yfir Noreg norður af Þrándheimi. Ekki höfum við fréttir af nákvæmum vindhraðatölum. Við sjáum vindstrenginn vel á kortinu hér að neðan, jafnþrýstilínur eru gríðarþéttar. Lægðin sjálf er þó ekki sérlega djúp.
Þarna má sjá smáatriði sem vert er að veita athygli. Næst lægðarmiðjunni (við Þrándheim) er lægðasveigur á þrýstilínunum, en þar skammt fyrir vestan er komin hæðarsveigur á línurnar (yfir Mæri). Þetta fyrirbrigði sést stundum hér við land þegar krappar lægðir ganga norður með vesturströndinni. Ekki gott mál. Evrópureiknimiðstöðin sagði þrýsting hækka um 24 hPa á þremur klukkustundum við Þrændalagaströnd nú í kvöld - það er með mesta móti. Þetta gæti meira að segja nægt í staðbundin met - en við fréttum víst varla af því.
Mikið illviðri gengur einnig yfir sveitir og þéttbýlisstaði á Grænlandi. Það er lægðin djúpa og víðáttumikla sem fjallað var um í gær sem veldur því.
Ekki er auðvelt að spá fyrir hvar vindi slær niður við Grænland suðvestanvert í svona veðri. En það gerðist í dag bæði í Narsaq, Qaqortoq og víðar. Þök tók þar af skemmum og íbúðarhúsum. Tíu mínútna vindhraði í Narsaq fór í 40,2 m/s og hviður í 49,4 m/s. Sömuleiðis fréttist af fárviðri við Kulusuk. Hér á landi var vindur nú um miðnæturbil 34,6 m/s á Stórhöfða.
Eins og fjallað var um í gær sendir lægðin mikla nú kalt loft langt austur eftir Atlantshafi næstu daga og býr til stöðu sem hentar óðadýpkunarlægðum vel. Það köllum við lægðir sem dýpka um meira en 24 hPa á sólarhring.
Á laugardaginn verða tvær slíkar á leið til norðausturs suður í hafi og fyrir suðaustan land. Kortið gildir kl. 18 og batnar við stækkun (hin síður).
Sú fyrri er þarna komin að Færeyjum, orðin 953 hPa djúp og dýpkar enn. Hefur dýpkað um 34 hPa á 24 klst - ef trúa má spánni. Næsta lægð er komin í 982 hPa suður í hafi og á að dýpka um 37 hPa fram til kl. 18 á sunnudag. Þessar lægðir eiga að fara nærri sömu leið, ekki langt frá Færeyjum. Vonandi er að ofsaveðrið í kring um þær hitti ekki illa á eyjarnar.
Síðan eru fleiri lægðir í ferðinni. Við virðumst ætla að sleppa við þessar tvær óðu lægðir - en sitjum í suðvestanéljagangi - svona lengst af, en fleiri óðar lægðir verða enn á ferðinni eftir helgi. Vakt Veðurstofunnar fylgist vel með stöðunni og þeir sem eitthvað eiga undir veðri ættu að fylgjast með - ekki gott að segja hvernig reiknimiðstöðvar ráða við hana.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 01:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.12.2013 | 00:57
Óþægileg staða á Norður-Atlantshafi
Nú kemur upp óþægileg staða veðurkerfa - ekki ódæmigerð fyrir hávetur á norðurslóðum. Lægð dýpkar mikið við Suður-Grænland, verður svo víðáttumikil að hún nær yfir allt norðanvert Atlantshaf frá Hudsonflóa í vestri austur til Bretlands og sturtar jökulköldu heimskautalofti til suðausturs og austurs. Þetta lítur svona út á spákorti evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir kl. 18 síðdegis á fimmtudag.
Lægðin er við Hvarf, 941 hPa í miðju. Það sem helst kemur okkur til góða í stöðunni er að lítil fyrirstaða er við Bretland og veldur því að lægðirnar kröppu sem koma í kjölfarið gætu flestar farið fyrir austan land.
Þetta er sum sé staða sem býður upp á krappar og djúpar fylgilægðir sem eiga uppruna sinn ekki fjarri þeim stað sem rauða örin liggur á myndinni. Hún táknar hlýtt loft í framrás - en á kortinu er eins og kalda loftið nái ekki alveg taki til að keyra upp hlýjan geira inn í afburðalága stöðu veðrahvarfanna í kringum og við stóru lægðina.
Undanfarna daga hafa reiknimiðstöðvar slegið úr og í varðandi fylgilægðirnar - þær hafa ýmist orðið ofurdjúpar eða varla komið fram. Sömuleiðis hafa þær átt fjölbreyttar brautir, bæði fyrir vestan og austan land - sem og yfir það. Engin leið virðist enn vera til að ráða í það skytterí. Sjáum hvað setur.
Auk þess að bjóða upp á krappar lægðir með ofsaveðri býður þessi staða líka upp á mikla snjókomu ef svo verkast vill. Þar eru í raun flestir möguleikar uppi, bæði norðanhríðar norðanlands eða vestanhríð syðra. Svæði með mikilli úrkomu taka yfir enn minna svæði heldur en hvassviðrin þannig að líka er von til að við sleppum við snjóinn - kannski rignir bara eða gerir sakleysisleg él.
En kortið að ofan sýnir vaxandi suðaustan- og austanátt. Við hlustum eða horfum á spár Veðurstofunnar varðandi úrkomu og vind samfara garðinum sem kemur inn á land á föstudagsmorgun. Fyrsta fylgilægðin fer svo yfir landið þá um kvöldið eða á aðfaranótt laugardags. Að sögn verður hún ekki kröpp.
8.12.2013 | 01:33
Kuldakastið liðið hjá
Versti kuldinn virðist nú liðinn hjá - og við taka umhleypingar sem reiknimiðstöðvar hafa ekki alveg náð taki á. Lægðir myndast í einni spá - en hverfa - eða fara allt annað en ætlað var í þeirri næstu. Við látum bíða að fjalla um það. En svona til að kvitta fyrir kuldakastið er í viðhenginu listi um dægurmet laugardagsins (á stöðvum sem athugað hafa í meir en þrjú ár).
Ný desembermet voru aðeins sett á tveimur stöðvum í dag (laugardag), á Rauðanúpi og á sjálfvirku stöðinni á Húsavík. Á Rauðanúpi hefur verið athugað síðan 1997 - en síðan 2002 á Húsavík. Þar var mönnuð stöð um langa hríð, frá 1925 til 1994. Lægsta tala desembermánaðar á Húsavík er -17,5 stig sem mældist á aðfangadag jóla 1988 ef trúa má skrám.
7.12.2013 | 01:15
Meira af kulda
Í kvöld (föstudag 6. desember) kl. 19 fór hitinn við Mývatn niður í -31,0 stig. Þetta er lægsti hiti á landinu síðan 8. mars 1998. Í þeirri kuldahrinu fór hitinn lægst í -34,7 stig. Lágmarkið í kvöld er það lægsta í desember á landinu síðan 27. desember 1995. Þá mældust -31,7 stig á mönnuðu stöðinni í Möðrudal. Mývatnslágmarkið er landsdægurmet fyrir 6. desember. Nóttinni er ekki lokið en um miðnætti fór að hlýna við Mývatn þannig að líkur á frekari afrekum fara minnkandi.
Það er mjög sjaldgæft að hitinn fari niður fyrir -30 stig hér á landi. Metið er raunar -38,0 stig sem mældust bæði í Möðrudal og á Grímsstöðum á Fjöllum 21. janúar 1918.
En dagurinn í dag skilaði auðvitað hrúgu dægurmeta. Hana má sjá í viðhenginu. Þar má einnig finna ný desembermet.
Annað viðhengi er að ósk lesanda - lágmarkshiti í Vestmannaeyjum eftir mánuðum.
Nú er spáð hlýnandi veðri - en mjög umhleypingasömu.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 01:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (6.11.): 69
- Sl. sólarhring: 86
- Sl. viku: 1494
- Frá upphafi: 2407617
Annað
- Innlit í dag: 62
- Innlit sl. viku: 1322
- Gestir í dag: 61
- IP-tölur í dag: 58
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010