Ójafnvægi

Við fylgjum enn lægðaganginum og lítum í dag á stöðuna á norðurhveli. Á venjulegum degi er kaldasta loftið yfirleitt ekki fjarri þeim stað þar sem veðrahvörfin eru lægst. Það er ekki þannig á kortinu hér að neðan. Það gildir um hádegi laugardaginn 14. desember.

w-blogg131213a 

Kortið batnar við stækkun. Heildregnar línur sýna hæð 500 hPa flatarins - þær eru mjög góðir fulltrúar fyrir hæð veðrahvarfanna. Litafletir sýna þykktina en hún segir til um hita í neðri hluta veðrahvolfs. Við sjáum að við norðurskautið má allt heita með felldu, þar liggur mjög lág þykkt undir lágum veðrahvörfum. En lægðin sem er með miðju við Suður-Grænland er langt frá köldustu svæðunum yfir Kanada (fjólubláir blettir).

Allt kalda loftið virðist streyma til austurs út á Atlantshafið - fyrir sunnan meginlægðina. Þar er tekist á um hæð veðrahvarfanna - hafið hitar loftið og belgir veðrahvolfið út - en ískalt loft berst sífellt úr vestri og dregur þau niður. Í suðurjaðri kalda loftsins er gríðarlegur vindstrengur. Þar myndast smábylgjur og sé rýnt í kortið má sjá að jafnhæðar- og jafnþykktarlínur falla ekki saman.

Á kortið hafa verið settar inn þrjár örvar sem sýna misgengi af þessu tagi. Bylgja í þykktarmynstrinu gengur inn til móts við lægri hæð þrýstiflatarins. Þar undir eru lægðir við sjávarmál. Áður en tölvuspár komu til sögunnar sáust þessar bylgjur oft vel - en mjög erfitt var að spá fyrir um þróun þeirra. Það er á mörkunum að það takist með fullkomnustu reiknilíkönum okkar daga.

Evrópureiknimiðstöðin sendir bylgjurnar tvær á Atlantshafi til norðausturs fyrir suðaustan land - sem fárviðrislægðir - sú fyrri fer hjá á laugardagskvöld - en sú síðari sólarhring síðar. Rétt er að fylgjast vel með þessum lægðum. Þriðja bylgjan er á kortinu vestur við Mississippi og rennur til austurs. Hún á eftir að mæta kalda loftinu, Atlandshafinu og hlýju lofti að sunnan á leið sinni til okkar. Lægð hennar er ekki orðin til þegar þetta er skrifað - skyldi reiknimiðstöðin hitta á rétt svar? Hún stingur nú upp á þriðjudagskvöldi sem komutíma lægðarinnar til Íslands.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

1. Yfir 2000 kuldamet féllu í USA í vikunni.

2. Fyrsta snjókoma í Kaíró í Egyptalandi í 112 ár!

3. Mesta snjókoma í Jerúsalem í 60 ár!

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 14.12.2013 kl. 08:26

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Takk fyrir að halda okkur upplýstum Trausti - og Hilmar líka.
Svo má bæta við að samkvæmt nýútgefnum tölum frá NASA-GISS var síðastliðinn nóvember sá hlýjasti á jörðinni frá upphafi mælinga. Munar þar mestu um víðfeðm vetrarhlýindi í gjörvallri Síberíu.

http://data.giss.nasa.gov/gistemp/tabledata_v3/GLB.Ts+dSST.txt

Emil Hannes Valgeirsson, 14.12.2013 kl. 11:33

3 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Já Emil - það er alltaf gott að skoða heiminn allan þegar hnattrænn hiti er skoðaður og nóvember hefur verið mjög hlýr samkvæmt NASA-GISS, hvað sem líður kuldametum í BNA og snjókomu við Miðjarðarhafið. Reyndar má hugsa sér að þessir öfgar í veðri í BNA og við Miðjarðarhaf geti verið afsprengi breytinga í loftslagi (það er allavega ekki hægt að útiloka það).

Sveinn Atli Gunnarsson, 14.12.2013 kl. 16:10

4 identicon

Það snjóar greinilega ekkert hjá Nössurunum og Gissurunum Emil og Svatla þessa stundina :)

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 14.12.2013 kl. 16:14

5 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Jú, eitthvað snjóar. Nenni þó ekki í snjókast.

Emil Hannes Valgeirsson, 14.12.2013 kl. 16:51

6 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Tja, hér snjóaði í dag - en merkilegra er þó að þeir sem ekki hafa rökin á takteinum telja að það sé nóg kalla fólk nöfnum til að leggja fram sína hlið mála - jæja, svo sem ekki í fyrsta skipti sem slíkt sést frá ákveðnum aðila.

Sveinn Atli Gunnarsson, 14.12.2013 kl. 19:30

7 identicon

Félagi Svatli alltaf í jólaskapi :) Er erfitt að höndla stöðuga snjókomu fram að jólum í höfuðborginni? Það er svo alltaf jafn kómískt þegar leigupenni soravefsins skepticalscience.com telur sig umkominn að brígsla öðrum um rökleysu:

> http://dailycaller.com/2013/12/05/report-scientists-predict-a-century-of-global-cooling/

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 14.12.2013 kl. 20:33

8 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

Ekki dettur mér í hug að detta í ykkar kviksyndi og pappakassahernað, elsku vinir. Mig langar aftur á móti að hrósa Trausta enn og aftur fyrir að reyna að kenna mér meira í veðurfræði en það sem stendur í "veðurfræðiskruddunni" hans. Það er greinilega alltaf hægt að rífast um veðrið, það er örugglega ekki eins frá mínum hóli og einhverjum öðrum. Ég hef mínar skoðanir á því sem menn rífast um í dag, ber þær á torg þegar það á við, en helst ekki á blogginu hans Trausta. Held að þar sé best að lesa og læra...

Gleðileg jól Trausti og þakka fyrir góða upprifjun á veðurfræðinni, það hefði nú verið gaman að hafa þessar upplýsingar allar saman, fyrir 20 árum eða svo, þegar maður var að kynna sér þessi fræði.

kv.

Sindri Karl Sigurðsson, 15.12.2013 kl. 00:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 5
  • Sl. sólarhring: 400
  • Sl. viku: 1579
  • Frá upphafi: 2350206

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 1453
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband