Bloggfærslur mánaðarins, desember 2013
6.12.2013 | 01:19
Hrina lágmarkshitameta
Kuldakastið skilar af sér hrinu (mismerkilegra) lágmarkshitameta. Keppt er í ótal flokkum. Fyrst eru það dægurmetin. Þau koma oft við sögu í fréttum frá Bandaríkjunum - auðfengið fréttaefni í gúrkutíð.
Hér er spurt um lægsta hita sem mælst hefur á veðurstöð viðkomandi almanaksdag. 'Hver er lægsti hiti sem mælst hefur á veðurstöð 5. desember - mældist hann í dag? Líkur á slíku meti fara mest eftir því hversu lengi stöðin hefur starfað. Ef hún byrjaði á þessu ári (hefur aldrei mælt hita 5. desember fyrr en nú) er met auðvitað öruggt. Ef stöðin byrjaði í fyrra er líklegt að met falli 50% allra daga annars árs stöðvarinnar. Hafi stöðin athugað í tíu ár er líklegt að 30 til 40 dægurmet falli á hverju ári. Séu árin hins vegar 100 er líklegt að aðeins 3 til 4 dægurmet falli á ári að jafnaði.
Dægurmetin falla ekki jafnt og þétt heldur falla fleiri lágmarksmet á kuldaskeiðum heldur en á hlýskeiðum. Það þýðir þó alls ekki að engin lágmarkshitamet falli á hlýskeiðum - langt frá því.
En urmull dægurmeta féll í dag. Þeir sem vilja geta litið á listann í viðhenginu. Þar er þó sleppt stöðvum sem athugað hafa skemur en í þrjú ár.
Það er merkilegt að samkvæmt listanum féllu dægurmet á 16 mönnuðum veðurstöðvum - góðum meirihluta núverandi stöðva. En listinn nær reyndar ekki nema aftur til 1949, en aðeins þrjár stöðvanna hafa athugað lengur en það. Í Reykjavík er þetta reyndar alvörudægurlágmarksmet - sem er nokkuð merkilegt. Gamla metið var orðið 112 ára gamalt, sett 1891. Dægurmet Akureyrar fyrir 5. desember er einmitt sett sama dag 1891. Það hefur verið kaldur dagur á landinu.
Næsta grein keppninnar er mánaðarmetið. Er lágmark dagsins það lægsta sem mælst hefur á stöðinni í desember? Listi yfir ný desemberlágmörk er líka í viðhenginu. Hér er nýjum stöðvum ekki sleppt og eru flest metin frá þeim stöðvum.
En þarna eru samt ný desembermet á stöðvum sem hafa athugað í meir en tíu ár. Þau helstu eru:
byrjar | metár | mán | dagur | klst | lágmark | NAFN | |
1995 | 2013 | 12 | 5 | 16 | -13,7 | Hafnarfjall | |
1997 | 2013 | 12 | 5 | 17 | -12,9 | Reykjavík | |
1997 | 2013 | 12 | 5 | 13 | -17,7 | Bláfjöll | |
1997 | 2013 | 12 | 5 | 19 | -19,5 | Hvanneyri | |
1997 | 2013 | 12 | 5 | 13 | -15,9 | Þrengsli | |
1997 | 2013 | 12 | 5 | 21 | -13,6 | Ögur | |
1997 | 2013 | 12 | 5 | 6 | -9,6 | Steinar | |
1998 | 2013 | 12 | 5 | 15 | -13,7 | Hafnarmelar | |
1998 | 2013 | 12 | 5 | 18 | -13,7 | Hafnarmelar | |
1998 | 2013 | 12 | 5 | 19 | -21,2 | Húsafell | |
1998 | 2013 | 12 | 5 | 17 | -17,9 | Skálholt | |
1999 | 2013 | 12 | 5 | 16 | -16,1 | Hraunsmúli | |
2000 | 2013 | 12 | 5 | 15 | -12,8 | Reykjavíkurflugvöllur | |
2000 | 2013 | 12 | 5 | 16 | -20,3 | Litla-Skarð | |
2000 | 2013 | 12 | 5 | 11 | -14,9 | Sámsstaðir | |
2000 | 2013 | 12 | 5 | 17 | -12,8 | Reykjavík búveðurstöð | |
2000 | 2013 | 12 | 5 | 10 | -17,3 | Laxárdalsheiði |
Þetta eru allt stöðvar á sunnan- og vestanverðu landinu. Frá Ögri á Vestfjörðum suður um að Steinum undir Eyjafjöllum. Þar á meðal eru þrjár Reykjavíkurstöðvar, tvær á Veðurstofutúni og ein á Reykjavíkurflugvelli. - En ekki mannaða stöðin í Reykjavík, hún á miklu lengri sögu. Lægsta lágmark sem mælst hefur í Reykjavík í desember er -18,7 stig. Það var á annan dag jóla 1880. Vonandi stendur það met sem lengst. Ein mönnuð stöð náði nýju desembermeti í dag, Stafholtsey (-21,0 stig) þar hefur verið athugað frá 1988.
Nú má vera að slatti af desembermetum falli á morgun (föstudag 6. desember) - þessi listi lifir ekki lengi. Ætli Norðausturland taki ekki við sér þegar lægir þar og léttir til.
En við lítum á eina keppnisgrein í viðbót. Desember er aðeins einn vetrarmánaða. Þar með er líklegt að ársmet stöðvanna leynist í öðrum mánuðum. En tókst kuldanum í dag að hirða einhver ársmet?
Reyndar, en aðeins tvær stöðvar stöðvar sem byrjuðu athuganir á síðustu öld. Báðar í eigu Vegagerðarinnar. Þetta eru Hraunsmúli í Staðarsveit og Laxárdalsheiði.
metár | mán | dagur | klst | lágmark | NAFN | ||
1999 | 2013 | 12 | 5 | 16 | -16,1 | Hraunsmúli | |
2000 | 2013 | 12 | 5 | 10 | -17,3 | Laxárdalsheiði |
Hámarkshiti dagsins á landinu var aðeins -4,4 stig. Þetta er óvenjulágt. Það gerðist aðeins einu sinni í allan fyrravetur að hámarkshiti dagsins á landinu var undir frostmarki. Mest frost mældist á Kolku, -24,7 stig. Það er jafnlágt og lægst hefur áður mælst þennan dag á landinu. Meðalhiti í byggð var -10,7 stig - það er líka óvenjulágur meðalhiti - en ekki met. Við könnum þau mál betur síðar.
Meirihluti veðurstöðva átti lægsta hita ársins til þessa í dag.
Það er nokkuð vel af sér vikið hjá kuldakasti dagsins að ná þessum árangri.
Langoftast er hiti ofan frostmarks á hafinu rétt sunnan við land. Það er þess vegna fremur óvenjulegt að sjá hitakort eins og það hér að neðan.
Frost er á öllu þessu korti. Það er úr fórum harmonie-líkansins, sýnir hita í 2 metra hæð og gildir kl. 23 nú í kvöld (fimmtudag).
Kuldinn mun streitast á móti nýjum lægðum sem nálgast landið síðdegis á föstudag og um helgina. Fyrsta lægðin á að beygja af til austurs undan kuldanum en sú næsta á að verða ágengari. Baráttu hennar og kalda loftsins má greinilega sjá á þversniðinu hér að neðan. Það gildir kl. 7 að morgni laugardags og er ekki fyrir óvana.
Legu sniðsins má sjá á litla kortinu í efra hægra horni (myndin batnar við stækkun). Heildregnar línur sýna mættishita í Kelvinstigum. Kalt loft er yfir landinu. Litirnir sýna hér vindhraða í m/s. Við sjáum mikinn vindstreng lengst til vinstri (syðst í sniðinu). Undir honum má sjá að jafnmættishitalínur eru nokkuð lóðréttar. Kalt er til vinstri við þær en hlýrra til hægri. Við sjáum hér stíflu sem kalda loftið myndar gagnvart því hlýja (sem lengst er til vinstri). Hún magnar upp mikla austanátt. Vindurinn nær þó ekki langt upp á land. Sömuleiðis er mikill vindur uppi við veðrahvörfin (efst í hægra horni) en þau má kenna af þéttum jafnmættishitalínum. Áhugasamir eru hvattir til þess að rýna í myndina.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 01:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
4.12.2013 | 01:27
Kaldir dagar
Kalt loft úr norðri kemur nú suður yfir landið og virðist einna kaldast eiga að vera á fimmtudag og föstudag. Hér verður ekki reynt að ráða í það hversu kalt mun verða - en við lítum á þykktarspá sem gildir um hádegi á fimmtudag.
Heildregnar línur sýna þykktina og eru merktar í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Litafletir sýna hita í 850 hPa (ansi kuldalegt).
Það er 4940 metra jafnþykktarlínan sem snertir norðausturhornið. Stöðvar á útnesjum og eyjum verjast kuldanum best - en samt er þar nokkuð gott samband á milli hita og þykktar. Sjávarylurinn tryggir góða blöndun og fréttir berast greiðlega á milli stöðvar og loftsins ofan við. Við fylgjumst því með hitanum á Stórhöfða, í Surtsey, Grímsey og Papey í þessu kuldakasti. Skyldu falla dægur- eða mánaðarmet á þessum stöðum? Ef það gerist ekki nær þetta kuldakast varla máli.
Sama má segja um stöðvarnar fáu á fjallstindum, Skálafell, Þverfjall og Gagnheiði. Falla met þar? Gerist það ekki nær þetta kuldakast ekki heldur máli.
Stöðvar á sléttlendi norðanlands og sunnan sem og á hálendinu missa hins vegar oft tengslin við það sem ofar er. Mun verra samband er þar á milli þykktar og hita heldur en á áðurnefndu stöðvunum. Auðvitað eru kuldar samt líklegri inn til landsins við litla þykkt en mikla. En - þar getur líka orðið mjög kalt þótt þykktin sé ekki svo lítil - séu geislunaraðstæður þannig. Í björtu veðri tapast tengsl á milli hita á láglendi og í háloftum mjög fljótt. Met á innsveitastöðvum eru því ekki eins marktæk um hvort eitthvað óvenjulegt er á seyði í háloftunum eða ekki.
Dægurmet eru stöðugt að falla - við fáum því hrinu nýrra lágmarkshitameta - en vafasamara er með mánaðarmetin - hvað þá ársmet.
En munum að hungurdiskar gera ekki spár.
Nú er mjög illskeytt lægð að myndast við Suður-Grænland - hún á að æða til austurs á morgun (miðvikudag) og á fimmtudag. Við sleppum líklega alveg - hugsanlega sjáum við til blikubakkans í norðurjaðri lægðarinnar. En kortið sýnir stöðuna kl. 18 á miðvikudag (ekki sami tími og á kortinu að ofan).
Lægðin er hér suður af landinu og fer ört dýpkandi. Hún á að fara rétt norðan Skotlands og síðan til austsuðausturs við suðurodda Noregs. Skotar, Danir og Þjóðverjar (og e.t.v. fleiri) búa sig undir það versta. Þó er enn mikil óvissa um hvernig fer - kannski fer spáin í vaskinn?
2.12.2013 | 00:54
Miklar hitasveiflur
Með góðum hlýindaspretti í lokin tókst nýliðnum nóvember að sleikja sig upp að meðallagi síðustu tíu nóvembermánaða og hiti mánaðarins var sæmilega yfir meðallaginu 1961 til 1990. En býsna kalt var um tíma.
Ekkert lát er á stórum hitasveiflum. Í dag (sunnudaginn 1. desember) komst hiti í tveggja stafa tölur á Norðaustur- og Austurlandi þótt ekki hafi orðið alveg jafnhlýtt og varð mest í liðinni viku. En nú kólnar. Þótt tölvuspár hafi tilhneigingu til að gera of mikið úr skammvinnum kuldaköstum er samt trúlegt að mjög kalt verði hér á landi um og eftir miðja viku.
Ástæður þess að 5 til 10 daga spár gera gjarnan ráð fyrir meiri kulda heldur en verður liggja ekki alveg á lausu en trúlega hefur það með samskipti lofts og sjávar að gera. Undanfarna daga hafa reiknimiðstöðvar boðið upp á lægri þykkt en 4920 metra yfir landinu norðaustanverðu á fimmtudag/föstudag. Hvort svo verður kemur í ljós. Í dag var þykktin yfir landinu austanverðu vel yfir 5400 metrum. Sé að marka spána á neðri hluti veðrahvolfs yfir landinu að kólna um meir en 25 stig.
Hér er spákort sem gildir kl. 18 næstkomandi fimmtudag (5. desember).
Jafnþykktarlínur eru heildregnar. Þykktin yfir Norðausturlandi er minni en 4940 metrar og um 5000 metrar yfir Faxaflóa. Litafletirnir sýna hita í 850 hPa fletinum, í um 1300 metra hæð yfir sjávarmáli. Ef vel er að gáð má sjá töluna -23 stig yfir Vatnajökli norðanverðum - þar sem norðanáttin er að lyfta sér yfir jökulinn. Hver hitinn verður við jörð skal ósagt látið - það fer eftir vindhraða og útgeislunaraðstæðum. Svo auðvitað því hvort þessi veðrahvolfsspá rætist.
Það versta við svo lága þykkt er ekki endilega kuldinn sem slíkur heldur sú ólga sem verður í samskiptum lofts og sjávar í nágrenni landsins og gerir allar spár ótryggari en venjulega. - En taka skal fram að enn eru reiknimiðstöðvar á því að þetta gangi rólega fyrir sig.
Svo eru það lok kastsins. Evrópureiknimiðstöðin skellir á það strax á laugardag og á sunnudagskvöld á kortið að líta út eins og sjá má hér að neðan.
Ótrúleg breyting það - hér er þykktin yfir Norðausturlandi komin upp í 5520 metra - hækkun um nærri 600 metra á þremur dögum og hæsti 850 hPa hitinn yfir landinu á að hafa hækkað um 31 stig. Fyrst 25 stiga kólnun á fjórum dögum og síðan 30 stiga hlýnun á þremur. Ætli eitthvað bregðist ekki í þessu?
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (19.4.): 2
- Sl. sólarhring: 110
- Sl. viku: 888
- Frá upphafi: 2461206
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 772
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Apríl 2025
- Mars 2025
- Febrúar 2025
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010