Ólíkindi?

Lægðir á Norður-Atlantshafi eru sumar hverjar mjög krappar þessa dagana - dýpka hratt og fara hratt yfir. Tölvuspám hefur ekki gengið vel að ráða við þær og sumar hafa orðið enn krappari og dýpri í spám heldur en í raunheimum. Hér að neðan er kort sem sýnir þrýstibrigði - í þessu tilviki hversu mikið þrýstingur við sjávarmál breytist á þremur klukkustundum. Af slíkum kortum kemur hreyfing þrýstikerfa mjög vel fram.

Það telst óvenjulegt ef þrýstingur stígur eða fellur um 15 til 20 hPa á þremur klukkustundum. Allt yfir 20 hPa telst til tíðinda. Svæði þar sem þrýstingur breytist þetta mikið eru oftast ekki stór um sig. Hins vegar er Atlantshafið mjög stórt þannig að ekki þarf að vera óvenjulegt þótt háar tölur sjáist einhvers staðar - og það gerist alloft á vetri hverjum. Líkurnar á að einhver ákveðinn staður upplifi mjög stórar þrýstibreytingar eru hins vegar ekki miklar. Þetta er svipað og á smáeyjum Vestur-India. Áratugir geta liðið á milli þess að einhver ákveðin þeirra verði fyrir kröftugum fellibyl þrátt fyrir að vera sífellt í skotlínunni. Kjarnar fellibylja eru litlir um sig - rétt eins og eyjarnar sjálfar.

Ísland er miklu stærra en samt er ekki vitað til þess að þrýstingur hafi hér fallið um meir en 30 hPa á þremur klukkustundum. Sennilega hefur það þó borið við - en ekki komið fram í athugunum - þær voru lengi vel gisnar. Íslandsmet í þrýstirisi er 33 hPa á 3 klst er kröpp lægð fór yfir Austurland í janúar 1949.

Í spá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir kl. 6 að morgni 15. desember má sjá gríðarkrappa lægð fyrir sunnan land.

w-blogg151213a 

Kortið sýnir sjávarmálsþrýsting (heildregnar línur) og 3 klukkustunda þrýstibreytingu. Við sjáum gríðarkrappa lægð (ekki mjög stóra) á leið til norðausturs fyrir sunnan land. Á undan henni hefur þrýstingur fallið um 35,3 hPa á næstliðnum þremur klukkustundum. Hinu megin við lægðina er 29,1 hPa þrýstiris. Lægðin er 942 hPa í miðju og hefur þegar hér er komið sögu dýpkað um 17 hPa á 6 klukkustundum. Lægðarmiðjan er ekki fjarri þeim stað sem veðurskipið Lima hélt til á í fornöld.

Boðað þrýstifall er með ólíkindum. En verður þetta svona - eða gerist það aðeins í líkanheimum, tölvuleiknum? Aðeins 12 klukkustundum síðar á lægðin að vera farin að grynnast. Skammvinn frægð - vonandi að Færeyingar sleppi þá með skrekkinn.

Ekki sluppu þeir alveg við skaða vegna lægðarinnar sem á kortinu er fyrir norðaustan land. Norðlýsið í Færeyjum segir:

Tað hevur leikað hart á síðani seint seinnapartin í gjár og vit hava fingið umleið 30 fráboðanir um vindskaðar, sosum húsatekjur eru foknar, rútar knústir og húsaklæðningar hava skrætt seg leysar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll og takk fyrir frábært blog. Ein spurning, var Lima ekki vestur af Portúgal?

Vilhjalmur (IP-tala skráð) 15.12.2013 kl. 21:49

2 identicon

Það sjást hinar furðulegustu spár þessa dagana. Ég sé t.d. að skv. spá ECMWF fyrir jóladag á risastór lægð með tæplega 915 (!!) hPa í miðju að vera við suðausturströnd Íslands. En það er langt í jólin þegar veðrið er annarsvegar.

Björn Jónsson (IP-tala skráð) 16.12.2013 kl. 01:14

3 Smámynd: Trausti Jónsson

Veðurskip Lima (57 N, 20 V) var sett á laggirnar í sparnaðarskyni og kom í stað skipanna Indía (59 N, 19 V) og Juliett (52 N, 20 V). Þar fyrir sunnan var svo stöðin Kilo (45 N, 16 V). Á sama tíma og Lima byrjaði kom Rómeó í stað Juliett og Kilo. Veður á Indía, Alfa og Bravó voru lengi lesin með veðurfréttum hér á landi og eru því góðir og gamlir kunningjar. Síðar var einnig farið að lesa upp Metró sem var í Noregshafi og norðmenn kölluðu alltaf Polarfront og Líma var einnig lesin eftir að Indía féll út. Metró entist lengst þessara skipa. Bravó (suðvestur af Grænlandi) og Alfa duttu út um og upp úr 1970, en skip C (sem ýmist var kallað Charlie eða Cola) var einnig nokkuð lífseigt enda tóku sovétmenn það í fóstur 1975. En um stöðvarnar og sögu þeirra er ágæt grein á Wikipediu (Weather Ship).

Trausti Jónsson, 16.12.2013 kl. 01:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a
  • w-blogg110424b
  • w-blogg110424b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.4.): 257
  • Sl. sólarhring: 282
  • Sl. viku: 2036
  • Frá upphafi: 2347770

Annað

  • Innlit í dag: 225
  • Innlit sl. viku: 1757
  • Gestir í dag: 215
  • IP-tölur í dag: 208

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband