Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2012

Nokkrar frostnætur í röð

Ísland er þrátt fyrir allt norðarlega á hnettinum þar sem sólarylur dagsins má sín oftast lítils fyrir útgeislun sem stendur linnulaust allan sólarhringinn. Geislunarbúskapurinn er þó með hvað mestum halla í heiðskíru veðri að næturlagi. Frostnætur geta komið einhvers staðar í byggðum landsins allt sumarið - á stangli þó í júlí og framan af ágúst.

Eftir 20. ágúst fer að horfa til verri vegar og frostnætur fara að koma í klösum. Sjaldan er þó frost á sömu veðurstöð marga daga í röð. Hversu langir geta slíkir klasar orðið í ágústmánuði - sé miðað við lægsta lágmarkshita á landinu öllu?

Ekki er mikið mjög mikið mál að leita frostaklasa og hitasyrpur uppi í athuganatöflu mannaðra stöðva á landinu, en hún nær eins og veðurnörd vita aftur til 1949. Strax kemur í ljós að þriggja til fimm daga klasar eru nokkrir fyrir 15. ágúst en aðeins einn sex daga klasi byrjar svo snemma. Hann hófst með 9. ágúst 1963 og stóð (auðvitað) til þess 14.

Árið 1973 kom 7 daga klasi sem hófst þann 16. og í ágúst 1964 kom 12 daga klasi sem byrjaði þann 18. Lengsti klasinn sem byrjaði í ágúst hófst þann 30. árið 1977 og stóð samfellt í tuttugu daga. Hversu lengi stendur syrpan sem nú er á fullu?

Í september tekur alvaran við.


Óvenjumikið frost

Mikið frost mældist víða á aðfaranótt sunnudags (26. ágúst). Mest fór það í -5,3 stig á Brúsastöðum í Vatnsdal. Mun þetta vera mesta frost sem mælst hefur á landinu í ágúst síðan 1982 en þá fór frostið í -5,6 stig á Staðarhóli í Aðaldal aðfaranótt þess 28.

Það er sárasjaldan sem meira frost hefur mælst í ágústmánuði hér á landi. Opinbert lágmark er -7,5 stig en þau mældust í Sandbúðum á Sprengisandsleið í ágúst 1975. Byggðarmetið er -6,1 stig sett á Barkarstöðum í Miðfirði aðfaranótt 27. ágúst 1956.

Ágústnóttin kalda 1956 var sérlega köld um mestallt land - miklu kaldari víðast hvar, t.d. í Reykjavík. Nú er spurning hvað gerist næstu daga. Kuldinn sem nú er fyrir norðan land er sá mesti á norðurhveli öllu. Þykktin er ekki nema 5230 metrar í miðju kuldapollsins. Hann verður til leiðinda næstu daga og segir evrópureiknimiðstöðin að hann slái halanum inn á landið á þriðjudag/miðvikudag og að þykktin yfir Norðausturlandi fari þá niður fyrir 5260 metra. Það er þó ekki met. En spurning er hvort næturfrostið verður þá enn meira en þegar hefur orðið. Það fer mjög eftir vindi og skýjahulu.

Þetta er athyglisvert eftir öll hlýindin að undanförnu.

Hungurdiskar munu enn halda sér til hlés á næstunni en hafa ekki verið lagðir af. Ástæða hléa og hiksta eru auðvitað veraldlegar annir ritstjórans. Hann þarf stundum að stíga út úr skýi sínu.


Tuttugustigasyrpunni lokið

Þar með lauk tuttugustigasyrpunni miklu. Hæsti hiti á landinu í dag (sunnudag) var 19,9 stig - á Brúsastöðum í Vatnsdal. Ekki munaði miklu - og vel er hugsanlegt að hiti merji 20 stigin á morgun og/eða á þriðjudag. En síðan minnka líkur á svo háum hita sé að marka spár. Syrpan varð 23 daga löng - glæsilegt met.

Fyrstu þrjár vikur þessa mánaðar eru býsna hlýjar - ekki langt í hlýjustu ágústmánuði allra tíma. En nú á að kólna. Að undanförnu hefur þykktin löngum verið um og yfir 5550 metrar - en fellur á næstu dögum niður fyrir 5400 og þá kólnar óhjákvæmilega.

Í dag var mikil hitabylgja á norðaustanverðu Grænlandi - þykktin yfir 5580 metrum - en hlýja oftið sópast burt til morguns og við tekur loft úr Norður-Íshafi.

Skammvinn hitabylgja er nú víða í Evrópu, frá Spáni til norðausturs um Þýskaland. Þar er þykktin yfir 5760 metrum - og telst það til fádæma á þeim slóðum. Veðurstofur á svæðinu hafa gefið út hitaaðvaranir. En norðan Miðjarðarhafs/Alpa stendur þetta ekki lengi.

Í dag - sunnudag eiga hungurdiskar tveggja ára afmæli, fyrsti pistill birtist þann 19. ágúst 2010. Í upphafi var ætlunin að reyna að halda úti því sem næst daglegum pistlaskrifum í tvö ár. Það hefur nú tekist - eða nærri því. Eiginleg pistlaskrif hófust þann 23. ágúst.

Þakka verður góðar undirtektir lesenda - sem vonandi hafa fengið eitthvað fyrir sinn snúð. Nú þornar um og uppskera getur orðið ójöfn eða dregist á langinn. En hver veit nema að frjósemistíð renni upp á ný og aftur verði reynt við því sem næst dagleg pistlaskrif. Birtist ný met af einhverju tagi - eða þá óvenjuathyglisverð veður má búast við umsögnum.


Fellibylur nærri Asóreyjum

Ekki er óalgengt að Asóreyjar verði fyrir leifum hitabeltisstorma og fellibylja en það er samt óvenjulegt að sjá þroskaðan fellibyl nálgast eyjarnar eins og nú. Sá nefnist Gordon og á sér einnig þá óvenjulegu sögu að hafa ekki breyst í fellibyl fyrr en komið var norður fyrir 30. breiddarstig - austan við miðju Atlantshafs á 42. gráðu vesturlengdar. Varla verður hann lengi á þessu þroskastigi - með auga og öllu sem fylgir heiðarlegum fellibyl.

Eins og spáin er í augnablikinu (laugardagskvöld 18. ágúst) á miðja kerfisins að fara til austnorðausturs skammt suður af Sao Miguel, stærstu eyju Asóreyjaklasans nálægt miðnætti á sunnudagskvöld. Portúgalska veðurstofan hefur dregið fram rauða litinn á meteoalarmsíðunnibæði fyrir vindhraða og sjávargang - og gulan fyrir þrumuveður á austureyjunum báðum, Sao Miguel og Santa Maria.

Gordon er nú furðuöflugur - bandaríska fellibyljamiðstöðin segir vindhraða 90 hnúta og að hviður séu um 110 hnútar. Þrýstingur í auganu er áætlaður 969 hPa.

Það er merkileg tilviljun að síðasti stafrófsstormur sem lenti á Asóreyjum með fellibylsstyrk hét líka Gordon. Það var árið 2006 - nöfnin endurtaka sig á 6 ára bili, nema að nöfn þeirra sem valda mestu tjóni eru ekki endurtekin.

Gervihnattarmyndin er frá kanadísku veðurstofunni (Environment Canada) og sýnir Gordon vel.

w-blogg190812a

Kaldur sjór er á milli Gordons og vesturstrandar Portúgal. Auk þess eru rastir vestanvindabeltisins skammt norður undan. Tölvuspár reikna með því að þessi merkilegi fellibylur gufi upp strax á þriðjudag - hálfa leið á milli Asóreyja og Portúgals. Samkvæmt sömu spám á hann ekki að breyta neinu í þeim bylgjugangi sem okkur varðar.

Um Asóreyjar má lesa á Wikipediu og þar er einnig skrá yfir hitabeltisstorma sem gengið hafa yfir eyjarnar síðustu 40 ár eða svo - en ekkert um þá sagt. Fleiri ámóta vísanir má finna á netinu.


Öfugsnúin lægð

Stöku sinnum fara lægðir hjá sem virðast alveg eðlilegar á gervihnattamyndum - en þegar til á að taka liggur engin þrýstilína utan um lægðarmiðju við sjávarmál. Undanfarinn sólarhring hefur lægð af þessu tagi farið til suðvesturs um Grænlandssund og síðan Grænlandshaf. Rétt er að vara við textanum hér að neðan - en gervihnattarmyndin er falleg.

Lítum fyrst á veðurkort evrópureiknimiðstöðvarinnar frá því kl. 15 í dag - föstudag.

w-blogg180812b

Við giskum nánast í blindni á að lægðarmiðjan sé þar sem L-ið á myndinni er, úrkomubakkinn vestur af Breiðafirði eru þar sem ætti að búast við kuldaskilum lægðarinnar - og hitafar í kringum bakkann er eins og búast má við í eðlilegum kuldaskilum, kalda loftið er lægðarmiðjumegin bakkans en það hlýja austan við.

En engin þrýstilína liggur í kringum lægðarmiðjuna - og reyndar minna en það því norðaustanátt ríkir á öllu svæðinu kringum hana. Þetta virðist hálf ótrúlegt - en verður enn ótrúlegra þegar horft er á gervihnattamynd sem tekin er 7 klst síðar en kortið gildir.

w-blogg180812

Hér sést lægðarmiðjan vel - hún hefur hreyfst til suðvesturs frá miðjum degi - en var þá í raun vestar heldur en giskað var á hér að ofan. Við að líta á myndina virðist sem þetta sé lægð á hefðbundinni norðausturleið  og úrkomubakkinn í þann mund að komast til landsins. Í raun og veru er hann á leið í þveröfuga átt - afturábak miðað við hefðbundna hreyfistefnu.

Hér væri freistandi að merkja hefðbundið kerfi með kulda-, hita- og samskilum inn á kortið - það gætu flest veðurnörd auðveldlega gert - en eru þá hitaskilin í venjubundinni stöðu kuldaskila? - Eru einhver kuldaskil?

Sé farið nánar í stöðuna kemur í ljós að raunveruleg lægð birtist ofan við 2 km hæð í kerfinu og magnast eftir því sem ofar dregur allt að veðrahvörfum - en það bjargar ekki skilaklúðrinu - ekki nema að við viðurkennum að kuldaskil geti hreyfst aftur á bak með hlýtt loft í framrás - en í því fellst ákveðin mótsögn - eða hvað?

Við ljúkum þessu með lausn núverandi heimsmeistara í skiladrætti - greiningu bresku veðurstofunnar kl. 18 sama dag.

w-blogg180812c

Tvenn samskil ýmist á hreyfingu norður eða suður á móti hvorum öðrum - sundur eða saman?


Syrpan hefur nú staðið í þrjár vikur

Tuttugustigasyrpan á landinu hefur nú (fimmtudaginn 16. ágúst) staðið í 21 dag - og er trúlega ekki lokið. Vafalaust er hér um met að ræða. Ef miðað er við mannaðar stöðvar eingöngu hefur syrpan reyndar slitnað tvisvar sinnum - en mönnuðum stöðvum hefur fækkað mjög á síðustu 8 árum og þekja þær ekki lengur landið allt.

Hiti hefur náð 20 stigum einhvers staðar á landinu 54 daga ársins 2012. Fjóra daga vantar enn til að jafna fjöldann á árinu 2010. Sé miðað við mannaðar stöðvar eingöngu vantar talsvert upp á að við náum metárunum 1991 og 1984 - en vegna fækkunar stöðva er samanburðurinn ósanngjarn. Almennar líkur á tuttugustigadegi hrapa mjög ört eftir miðjan ágúst og hafa þeir flestir orðið 11 talsins eftir 16. ágúst. Hvað verður í ár?

Í dag (16. ágúst) fór hiti í Reykjavík í fyrsta skipti yfir 20 stig á árinu. Eins og venjulega er hér átt við mönnuðu stöðina á Veðurstofutúni í þeim samanburði. Hún ber enn nafn Reykjavíkur þótt borgin nái auðvitað yfir miklu stærra svæði.

Það eru alltaf nokkur tíðindi þegar Reykjavíkurhitinn nær 20 stigum. Staðurinn er þannig í sveit settur - sjávarloft er oftast ríkjandi að deginum. Fyrir nokkrum dögum birtist á hungurdiskum mynd sem sýndi tíðni hámarkshita ársins á landinu. Við skulum líta á samsvarandi mynd fyrir Reykjavík, gögnin sem liggja til grundvallar ná aftur til 1920. Fyrir þann tíma var hámarkshiti lengst af ekki mældur í borginni - þótt gagn megi hafa af hitamælingum kl. 15. Þær eru oftast ekki fjarri hámarkinu.

w-blogg170812

Lóðrétti ásinn sýnir tíðni í prósentum en sá lárétti sýnir hitabil, þannig að talan 20 stendur fyrir 20,0°C til 20,9°C o.s.frv.

Algengast er að árshámarkshitinn sé 18,0 til 18,9°C og litlu sjaldnar einu stigi hærri. Bilið frá 17 og til og með 20 á hvorki meira né minna en 72 prósent áranna. Mjög sjaldgæft er að hiti nái ekki 16 stigum (um 3%). Tuttugu stiga hita er náð í um 30 prósent tilvika, en við 21 stig sýnist vera hálfgerður „múr“ því hitinn hefur farið svo hátt aðeins sjöunda hvert ár frá 1920 að telja.

Nú hefur árshámarkið náð 20 stigum sex ár í röð. Það hefur ekki gerst áður, en lengsti tíminn án 20 stiga er hið fræga bil, 1961 til 1975 - sextán ár liðu þá á milli júlí 1960 og sama mánaðar 1976 - án tuttugu stiga. Reyndar munaði einu sinni 0,1 stigi þegar hitinn fór í 19,9 stig 1969.

Á tímabilinu 1931 til 1960 var árshámarkshitinn í Reykjavík 13 sinnum 20 stig eða meira, á árunum 1961 til 1990 gerðist það hins vegar aðeins í þremur árum að hæsta hámark náði markinu. Aumastur var árshámarkshitinn 1921, aðeins 14,6 stig.

Í Reykjavík hefur hiti aðeins þrisvar mælst 20 stig eða meiri eftir 16. ágúst sé miðað við tímabilið frá 1920 að telja. Það var 18. ágúst 1941, 31. ágúst 1939 og 3. september 1939. Hvenær fáum við aftur 20 stig í Reykjavík í september?

Meðalhiti fyrstu 16 daga ágústmánaðar er auðvitað mjög hár - þurrkur telst sömuleiðis óvenjulegur víða um land. Engin úrkoma hefur t.d. mælst á Akureyri það sem af er mánuðinum.

Lesendum er sérstaklega bent á pistil nimbusar um Reykjavíkurhitann í dag.


Merki þess að sumri hallar

Erfitt er að negla niður hvaða dag sumri fer að halla. Svartsýnismenn segja það auðvitað vera strax eftir sumarsólstöður - og er nokkuð til í því. Hiti nær þó ekki hámarki fyrr en síðar. Hámarki meðalhitans er náð ekki löngu eftir sólstöður þar sem land er þurrt og langt frá sjó en yfirleitt er hlýjast á landinu á tímabilinu frá því um 20. júlí til 10. ágúst. Sjórinn í kringum landið hlýnar yfirleitt fram í ágúst.

Loftþrýstingur nær hámarki í maí og lækkar síðan allt sumarið - en tekur dálitla dýfu í lok ágúst - um höfuðdaginn. Um svipað leyti færast illviðri í aukana og frostnætur fara að gera vart við sig inn til landsins.

Silfurskýin sem sjást hér á landi frá 25. júlí og fram í miðjan ágúst hverfa þá snögglega - eða hafa gert það hingað til.

En athyglisverð breyting verður á hitafari í kringum landið. Hitinn fyrir sunnan land hörfar lítið síðari hluta ágústmánaðar en norðurundan fer hann að lækka - að meðaltali nokkuð snögglega. Þetta sést vel á mynd sem hefur reyndar birst í einhverju formi á hungurdiskum áður - en við rifjum hana upp hér að neðan.

w-blogg160812

Myndin tekur yfir eitt ár og eru mánaðanöfnin sett við 15. hvers mánaðar. Á lóðrétta kvarðanum eru tölur sem vísa til þykktarmunar á milli 70°N og 60°N. Fastir lesendur vita að þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Því meiri sem munur er á henni því meiri er hitabrattinn á milli mælipunkta. Við skulum ekki velta vöngum yfir einingunum en hitamunur á milli breiddarbauganna tveggja reiknast minnstur 13. ágúst. Miðað er við tímabilið 1971 til 2000. Trúlega hliðrast lágmarkið eitthvað til á milli tímabila.

Við sjáum að þykktarbrattinn er þrisvar sinnum meiri á vetrum heldur en á sumri. Sérstaka athygli vekur á myndinni hversu snögglega hann vex síðari hluta ágústmánaðar og tvöfaldast hann þá á einum mánuði. Sumarástandi vestanvindabeltisins er þar með lokið og haustið fer að sækja að.

Það er auðvitað misjafnt hvernig þetta gerist frá ári til árs, framsókn kuldans úr norðri er langt í frá samfelld - hvorki í tíma né rúmi.

En við sitjum alla vega í hlýindum í nokkra daga í viðbót og rétt að njóta þeirra meðan þau gefast.


Um háan næturhita

Þótt enn sé safnað í 20-stiga sarpinn er mesti broddurinn úr hitabylgjunni sem náði hámarki með 28 stiga hita á Eskifirði á dögunum. Erlendir veðuráhugamenn fylgjast greinilega með gangi mála því þeir tóku eftir bæði hámörkum dagsins og næturhitanum. Í leitinni miklu að auknum gróðurhúsaáhrifum hafa menn sýnt næturhitum vaxandi áhuga og í pípunum er listi um hæsta lágmarkshita hvers lands í heiminum.

Mikill eljumaður, Maximmilliano Herrera, vinnur að þessu ásamt fleiri veðurnördum. Herrera heldur úti (heldur subbulegri) heimasíðu með hitaútgildum allra heimsins landa. Hann fullyrðir þar að síðan sú sé öruggasta heimild um hitamet í heiminum- og er engin sérstök ástæða til að efa það. Hann er í góðum tengslum við annað þekkt veðurnörd, Christopher Burt, sem skrifar reglulega um veðurmet á bloggi sínuá wunderground.com og birtir oft fréttir af nýjasta herfangi Herrera.

En þetta með næturhitann. Ísland er norðarlega á hnettinum. Dægursveifla hita er þó mikil hér á landi og yfirgnæfir oftast hitasveiflur sem eiga sér aðrar ástæður. En - samspil vinds, fjalla og ákafs aðstreymis af hlýju lofti getur stöku sinnum valtað yfir dægursveifluna.

Eftir því sem næst verður komist er hæsti hiti sem lesinn hefur verið af lágmarksmæli hér á landi kl. 9 að morgni 20,4 stig. Þetta var á Seyðisfirði 22. júlí árið 2000. Næsta mæling á undan var kl. 21 daginn áður. Þetta er hæsta næturlágmark landsins.

En lágmarkshiti beggja daganna 21. og 22. júlí var lægri en þetta - hitabylgjan stóð ekki nægilega lengi og hitti ekki nægilega vel í daginn til þess að gera þetta að hæsta lágmarkshita sólarhrings á landinu. Hvað á eiginlega að gera í svona máli?

Hæsta sólarhringslágmarkið sem enn hefur fundist mældist á Vatnsskarðshólum í hitabylgjunni frægu 11. ágúst 2004, 19,5 stig. Á sjálfvirku stöðinni á sama stað var lágmarkshitinn 19,8 stig. Hvor talan á að teljast Íslandsmetið (með greini)?

Hungurdiskar hafa oft minnst á hæsta lágmarkshita Reykjavíkur, 18,2 stig sem mældust 31. júlí 1980. Hlýjasta nóttin á dögunum bar með sér ný met á nokkrum veðurstöðvum - rétt eins og hámarkshitinn - en við skulum bíða með að gera grein fyrir því þar til hitakaflinn nú er alveg liðinn hjá.  

En höfum þó í huga að ekki hefur verið farið í saumana á öllum lágmarks- og hámarksmælingum einstakra daga á árunum fyrir 1949. Það er vonandi að íslensk veðurnörd reyni að standa sig í því seinlega verki.


Beðið tíðinda af syrpunni

Fyrir nokkrum dögum var á það minnst í fréttum að 20-stiga syrpan væri orðin lengri en vitað er um áður. Landshámarkshitinn hefur nú náð 20 stigum á hverjum degi í 18 daga í röð. Þetta er lengsta syrpan í að minnsta kosti 60 ár.

Ekki hefur verið farið nákvæmlega í saumana á eldri gögnum nema hvað vitað er að hámarkshiti á Grímstöðum á Fjöllum mældist yfir 20 stig í 20 daga í röð í júlí 1927. Líklegt er að hámarkshitamælirinn hafi verið ívið of hár - þannig að vafamál er að gefa út fullnægjandi heilbrigðisvottorð fyrir syrpuna þá. En - við viljum samt helst að dagarnir nú verði að minnsta kosti 21 - þannig að greinilega sé keyrt fram úr. Nútíminn á þó auðveldara með slíkan framúrakstur heldur en fyrri tíð - því stöðvasafnið er miklu stærra. En þetta er athyglisvert engu að síður - og við viljum að minnsta kosti þrjá daga í viðbót, þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag.

En meðan við bíðum eftir því getum við litið á dreifingu hámarkshita ársins frá 1901 til ársins í ár.

w-blogg140812

Hér liggja 112 ár til grundvallar. Lóðrétti ásinn sýnir tíðni í prósentum en sá lárétti sýnir hitabil, þannig að talan 20 stendur fyrir 20,0°C til 20,9°C o.s.frv.

Langalgengast er að hámarkshiti ársins sé á bilinu 25,0°C til 26,9°C, samtals 40,1 prósent. Tíðnin fellur til beggja átta, bil 24 og 27 eru ámóta algeng, 13 ár af 112 (11,6 prósent) falla á hvort þeirra. Talsverður munur er aftur á móti á bilunum þar utan við, 23 (með 11 ár) og 28 (með aðeins 7). Dreifingin er ekki alveg samhverf - halinn til vinstri er lengri en sá til hægri.

Í efsta flokki eru árin 1939 - sem á íslandsmetið 30,5 stig á Teigarhorni - og 1946 en þá fór hitinn í 30,0 stig á Hallormsstað. En við ættum að hafa í huga að oftast var á fyrri tíð ekki lesið með meiri nákvæmni af hámarksmælum en á hálfrar gráðu bilum.

Í neðsta flokknum, tuttugu stiga bilinu, eru síðan 1961, en þá komst hiti á Íslandi hæst í 20,6 stig þrátt fyrir að athugað hafi verið á yfir 60 stöðvum og 1902 með 20,9 stig. Síðarnefnda sumarið höfum við nú upplýsingar um hæsta hita á 11 stöðvum - en ekki voru hámarksmælar á þeim öllum. Telja má fullöruggt að hefðu hámarksmælar verið til staðar væri ársgildið eitthvað hærra og 1961 væri þá einmana í neðsta flokki.


Austanátt í nokkra daga?

Eftir sunnanátt undanfarinna daga snýst vindur í háloftunum tímabundið til austurs eins og sjá má á norðurhvelskortinu hér að neðan (það skýrist mjög við smellastækkun).

w-blogg-130812a

Kortið sýnir megnið af norðurhveli jarðar norðan við 30. breiddarstig. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru svartar og heildregnar en þykktin er táknuð með litum. Vindátt og vindhraði fylgir jafnhæðarlínum, því þéttari sem línurnar eru því meiri er vindurinn. Stefna er rangsælis kringum lægðarmiðjur - rétt eins og á venjulegum veðurkortum. Því meiri sem þykktin er því hlýrra er loftið í neðri hluta veðrahvolfs. Kortið gildir kl. 18 á þriðjudag (14. ágúst).

Ísland er sem stendur vel inni í gulu og brúnu litunum (hásumar), en mörkin milli þeirra og grænu litanna er við 5460 metra. Við sjáum að austanátt er ríkjandi í kringum mikla háloftalægð suðvestur af Bretlandseyjum. Svipað ástand á að standa í nokkra daga. Fari svo verður hlýtt hér á landi. Meðan skýjað er verður einnig hlýtt að nóttu, en þegar fer að létta til kólnar smám saman. Þegar þetta er skrifað (laust eftir miðnætti aðfaranótt mánudags 13. ágúst) er 18 stiga hiti á Skrauthólum á Kjalarnesi - og er það harla óvenjulegt.

Við sjáum mjög kröftugan kuldapoll yfir eyjunum miklu norðan Kanada. Í kuldapollinum er hiti svipaður og er í íslenskum nóvember. Þykktin í miðju pollsins er um 5150 metrar.


Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 10
  • Sl. sólarhring: 272
  • Sl. viku: 2389
  • Frá upphafi: 2434831

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 2118
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband