Lægðir eru grynnstar í júlí

Á Íslandi er stormatíðni minnst í júlímánuði. Mjög djúpar lægðir eru sjaldséðar og mikill þrýstibratti frekar fátíður - alla vega fátíðari heldur en í öðrum mánuðum. Meðalloftþrýstingur er hins vegar hærri í maí heldur en júlí. Það bendir til þess að hár þrýstingur sé líka frekar fátíður á þessum árstíma.

Við skoðun á tölvuspám er mjög hagkvæmt að hafa tilfinningu fyrir því hvað er óvenjulegt - er djúp lægð sem kemur fram í margra daga spám trúverðug - er hún óvenjuleg? Er rétt að gefa henni sérstakt auga? Við þurfum einhvern kvarða til að miða við og ljóst er að hann er allt annar í júlí heldur en í janúar. Við reynum því að svara því hvenær júlílægð telst óvenjudjúp og hvenær er háþrýstisvæði orðið óvenjuöflugt á þeim tíma árs.

Til að gera það horfum við á línurit sem sýnir lægsta og hæsta þrýsting sem mælst hefur hér á landi í júlí frá 1872 til 2011. Taka verður fram að listinn að baki línuritinu hefur nýlega verið tekinn saman og hefur ekki enn verið farið í sauma á hugsanlegum villum í fyrri hluta hans (fyrir 1925) - þær eru örugglega einhverjar.

w-blogg150712

Lóðrétti kvarðinn sýnir þrýsting í hPa en sá lárétti vísar á árin. Bláu súlurnar ná til háþrýstings en þær gráu sýna lágþrýstinginn. Við sjáum enga leitni sem hönd er á festandi en þó að lágþrýstingurinn virðist stökkva meira til frá ári til árs á fyrri hluta tímabilsins. Þrjú lægstu tilvikin eru, 1901, 1912 og 1923. Þann 18. júlí 1901 mældist lægsti þrýstingur sem vitað er um á Íslandi, 974,1 hPa (í Stykkishólmi) í hinum tilvikunum tveimur var hann ómarktækt hærri.

Á fyrri hluta tímabilsins er slæðingur af tilvikum þar sem lægsti þrýstingurinn fer ekki niður fyrir 1000 hPa allan mánuðinn. Það gerðist líka í fyrra (2011) og þá í fyrsta skipti síðan 1965.

Við sjáum greinilega að áratugur eða meir getur einnig liðið á milli þess sem þrýstingur fer niður fyrir 980 hPa í júlí, en það gerist þó það oft að það telst varla afbrigðilegt. Ganga má út frá því sem vísu að ólíklegt sé að Ísland veiði allar dýpstu lægðirnar. Júlílægð á Atlantshafi sem er um 980 hPa djúp telst því ekki mjög óvenjuleg.

Aftur á móti er mjög sjaldgæft hér á landi að þrýstingurinn fari niður fyrir 975 hPa - svo djúp lægð er óvenjuleg á Atlantshafi í júlí og þá auðvitað allt þar fyrir neðan. Enn dýpri júlílægðir eru þó hugsanlegar - og koma í framtíðinni. Vonandi kunna menn að meta þær eftir lestur þessa pistils.

Af háþrýstihluta myndarinnar (þeim bláa) má sjá að hæsti þrýstingur júlímánaðar er oftast á bilinu 1020 til 1025 hPa en sjaldgæft er að hann nái 1030 - hefur ekki orðið svo hár hér á landi síðan 1996. Komst reyndar mjög nærri því fyrir viku því þá var 1031 hPa hæð rétt fyrir suðvestan land.  

Allt ofan við 1032 hPa er mjög óvenjulegt. Hæsta gildið á myndinni (1037 hPa í júlí 1912) er nær örugglega rangt því talsverðu munar á því og næsthæsta gildi mánaðarins. Við trúum því þess vegna ekki. Háþrýstimet júlímánaðar telst því vera 1034,3 hPa og var það sett í Stykkishólmi 3. júlí 1917. Grunur leikur reyndar á að loftvogin í Stykkishólmi hafi sýnt lítillega of hátt á þessum tíma - en varla munar þó nema einhverjum brotum úr hPa. Stykkishólmur á líka næsthæsta gildið, það er frá 4. júlí 1978.

Nú höfum við sett stiku á loftþrýsting í júlímánuði. Útspönn þrýstingsins reynist vera 60,2 hPa - sú minnsta í nokkrum mánuði ársins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 106
  • Sl. sólarhring: 111
  • Sl. viku: 1855
  • Frá upphafi: 2348733

Annað

  • Innlit í dag: 96
  • Innlit sl. viku: 1626
  • Gestir í dag: 87
  • IP-tölur í dag: 87

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband